Grímur Bessason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Grímur Bessason var prestur að Ofanleiti frá árinu 1745 til 1748. Hann fæddist árið 1719. Grímur var sonur Bessa Árnasonar og Guðrúnar Þórðardóttur. Kona Gríms var Oddný Árnadóttir og áttu þau tvo syni, sem upp komust. Grímur andaðist árið 1785.

Nám og störf

Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla árið 1741 og varð síðar djákn að Skriðuklaustri og í þjónustu Þorsteins Sigurðssonar sýslumanns á Víðivöllum. Grímur vígðist að Ofanleiti árið 1745, en hélt því embætti í aðeins þrjú ár. Hann fékk Ás í Fellum árið 1748 og síðar Hjaltastaði í Útmannasveit, sem hann hélt til æviloka.

Hann var talinn gáfumaður og kennimaður góður þegar hann vildi við hafa og skáldmæltur vel.


Heimildir

  • Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.

Frekari umfjöllun

Grímur Bessason prestur að Ofanleiti fæddist 1719 og lést 21. nóv. 1785.
Foreldrar hans voru Bessi bóndi á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, S.-Múl, d. 1746, Árnason og k.h. Guðrún Þórðardóttir.
Grímur var tekinn í Skálholtsskóla 1738, varð stúdent þaðan 1741, síðan djákn að Skriðuklaustri og í þjónustu Þorsteins sýslumanns Sigurðssonar.
Hann vígðist 1745 að Ofanleiti, fékk Ás í Fellum 2. sept. 1748, Eiða 26. apríl 1762, Hjaltastaði í Útmannasveit 15. júlí 1774 og hélt til dd.
Hann var vel skáldmæltur, en þótti kíminn og klúr í kveðskapnum. Hann snéri vikubænum Jakobs Halvsöes á íslenzku.
Grímur var annar aðalhvatamaður ásamt Guðmundi Högnasyni presti að stofnun barnaskólans í Eyjum 1745.

I. Kona Gríms var Oddný húsfreyja, f. um 1721, d. 1. okt. 1811 á Rangá, Árna „ríka” lögréttumanns á Arnheiðarstöðum, f. 1689, d. 1771, Þórðar (Poka-Þórðar) bónda þar, Árnasonar bónda á Móbergi í Langadal í A-Hún., Þorleifssonar, Jónssonar lögmanns Sigurðssonar og konu Árna lögréttumanns, Kristínar húsmóður, Brynjólfs bónda á Melrakkanesi, Guðmundssonar og konu Brynjólfs, Katrínar húsfreyju, Hjörleifsdóttur bónda á Geithellum, Jónssonar.
Börn þeirra:
1. Katrín Grímsdóttir, f. 1759.
2. Brynjólfur Grímsson kvæðamaður í Jórvík og á Kóreksstöðum, f. 1760.
3. Benedikt Grímsson að Rangá í Hróarstungu, f. 1761.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.