„Þjóðhátíðin“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 117: | Lína 117: | ||
*'''2001''': [[Lífið er yndislegt]] | *'''2001''': [[Lífið er yndislegt]] | ||
*'''2002''': [[Vinátta]] | *'''2002''': [[Vinátta]] | ||
*'''2003''': [[ | *'''2003''': [[Draumur um þjóðhátíð]] | ||
*'''2004''': [[Í Herjólfsdal (2004)|Í Herjólfsdal]] | *'''2004''': [[Í Herjólfsdal (2004)|Í Herjólfsdal]] | ||
*'''2005''': [[Með þér]] | *'''2005''': [[Með þér]] |
Útgáfa síðunnar 20. júlí 2005 kl. 14:16
Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er haldin fyrstu helgi ágústmánaðar. Hátíðin er af gömlum grunni eða frá því 2. ágúst árið 1874 þegar að Íslendingar fjölmenntu á Þingvöllum í tilefni þúsund ára byggðar á Íslandi – sökum afkáralegs veðurs var ógjörningur fyrir Eyjamenn að sækja hátíðina, þannig að þeir sættu sig við að koma sér upp sinni eigin hátíð.
Í dag er þjóðhátíðin í Eyjum stór og mikil hátíð þar sem ÍBV íþróttafélag byggir upp ævintýralega smáborg í Herjólfsdal sem hverfur svo nánast sporlaust fjórum dögum síðar. Þar er boðið upp á tónlistarveislu þar sem vinsælustu hljómsveitir landsins hverju sinni stíga á stokk og gleðja hátíðargesti allan sólarhringinn. Flugeldasýning, brenna á fjósakletti og brekkusöngur er meðal þess sem boðið er upp á. Hin sérstæðu hvítu hústjöld setja líka sterkan svip sinn á dalinn þar sem heimamenn setja upp tjöldin sín á skipulagðan hátt þar sem að hver röð tjalda myndar götu og hvert tjald hefur númer eða nafn. Þar hafast menn við í gegnum allar tegundir veðurs og næra sig á lunda og kjötsúpu. Þar er oft á tíðum dvalið fram í dagrenningu við gítarspil og söng.
Saga
Fyrstu hátíðarhöldin í Herjólfsdal hafa verið á 19. öld, en Pétur Bryde, eigandi Brydebúð, bauð starfsfólki sínu þangað árlega. Samkvæmt ársreikningum verslunarinnar árið 1859 kostaði svona veisla um 46rd, en árslaun verslunarstjórans voru um 250rd. Árið 1859 kostaði Pétur Bryde endurnýjun vegsins niður í Herjólfsdal. Hann hafði þá í nokkur ár rekið garð að nafni Þórulund í dalnum, sem var nefnt eftir konu hans. Garðurinn stóð nálægt þeim stað þar sem að litla sviðið er á Þjóðhátíð nú. Garðurinn var rifinn árið 1932 þegar að hlaupabraut var gerð umhverfis tjörnina, en allar tilraunir Péturs til trjáræktar höfðu misheppnast.
Fyrsta Þjóðhátíðin
Fyrsta Þjóðhátíðin var haldin sunnudaginn 2. ágúst árið 1784 í Herjólfsdal. Þá mættu í dalinn um 400 manns um hádegisbilið, reistu tjöld við suðurhlið tjarnarinnar og hlóðu veisluborð úr torfi og grjóti vestan við tjaldbúðirnar. Það sjást enn leifar af því nálægt hringtorginu. Tjöldin og Herjólfsdys voru prýdd fánum og borðum.
Þorsteinn Jónsson flutti minni konungsins, og var eftir það hleypt af 9 fallbyssuskotum, sem bergmáluðu vel í fjöllunum í kring. Að því loknu flutti séra Brynjólfur Jónsson minni Íslands og Þorsteinn Jónsson flutti minni Jóns Sigurðssonar.
Borðað var vel og kaffi drukkið, og upp frá því hófst dansleikur undir berum himni með söngi og tralli, sem stóð fram undir miðnæti. Ölvun var að sögn viðstaddra lítil, og allt fór vel fram.
Fyrirmyndin
Eftir þessa Þjóðhátíð var hún haldin nokkrum sinnum í viðbót, en þá yfirleitt um miðjan Ágúst. Um 1901 hafði hátíðarhaldið þróast á þá leið að kappróður var orðinn einn dagskráarliða. Eftir kappróðurinn var gengin skrúðganga inn í dalinn og hann skreyttur. Flutt var minni konungs, Íslands og Vestmannaeyja, og hófust þá íþróttaviðburðir: glíma, kapphlaup, og fleira.
Síðar um kvöld voru kaffiveitingar og sódavatn á boðstólum í tjöldunum, en áfengi stóð ekki til boða. Frá þeirri Þjóðhátíð hefur hún verið haldin nánast óslitið.
Eftir gos
Eftir Heimaeyjargosið 1973 var mikill vikur og gjall í Herjólfsdal, sem gerði dalinn óvænlegan til hátíðarhalda. Sökum þess að hreinsunaraðgerðir bæjarins beindust fyrst og fremst að íbúðarsvæðum sat Herjólfsdalur á hakanum um þónokkra stund, en hann var ekki hreinsaður almennilega fyrr en 1976. Ákveðið var sökum þess að flytja hátíðarhöld Þjóðhátíðar suður á Breiðabakka í nokkur ár.
Þjóðhátíðin 1973 var eingöngu eitt kvöld. Á Breiðabakka var útbúið lítið svið og danspallur. Smávægilegur varðeldur var reistur og þeir sem voru í Vestmannaeyjum — nánast eingöngu fólk sem tók þátt í hreinsunarstörfunum.
Árið 1976 var Herjólfsdalur hreinsaður og tyrfður, sem var mjög mikið verk sökum þess hversu mikið svæði var um að ræða. Næsta ár, 1977, héldu Týrarar fyrstu Þjóðhátíðina í Herjólfsdal eftir gosið.
Sameining Þórs og Týs
Fram til ársins 1996 skiptust íþróttafélögin Þór og Týr á að halda Þjóðhátíðina. Við sameiningu félaganna varð til meiri samstaða um árangur, og það besta var tekið frá hefðum hvors félagsins um sig, til dæmis voru bæði félögin vön því að reisa brú yfir tjörnina. Brú Þórs var beinni, hærri og ögn breiðari, en brú Týs var lægri og hafði stóran pall á brúnni miðri þar sem að fólk mæti sér oft mót. Týsbrúin þótti að mörgu betri, og töluvert rómantískari fundarstaður, þannig að hún hefur verið notuð síðan að sameiningin varð.
Einnig margelfdist við þetta flugeldasýningin, tónleikahaldið og allir aðrir þættir hátíðarhaldanna, þar sem að um sameiginlegt átak var að ræða. Þó hafa heyrst neikvæðnisraddir á þá leið að sá samkeppnisandi sem ríkti á tíð Þórs og Týs hafi að engu orðið, og Þjóðhátíðin því að einhverju staðnað.
Veðurfar
Meðalhiti á Stórhöfða yfir daga Þjóðhátíðar á árunum 1974 til 1991 var 9.9°C (9.8°C á föstudeginum, 10.4°C á laugardeginum og 9.7°C á sunnudeginum). Meðalhiti í Herjólfsdal getur hæglega verið 3°C hærra en á Stórhöfða. Vindhraðinn í dalnum er líklega enn minni en á Stórhöfða, allt niður að 50% af vindstyrknum, en hann var 15,3 hnútar (7,87 m/s) þar. Meðalvindur var mestur árið 1976, um 25,4 hnútar (um 13 m/s) - þá var Þjóðhátíð haldin á Breiðabakka. Meðalskýjahula var 5,9 áttunduhlutar, en var hún 8/8 (nánast alskýjað allan tímann) árið 1989 og 1,4 áttundu árið 1977 (nánast heiðskírt allan tímann).
Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir að miklir vindar hafa gert nokkurn usla á tjöldum og rigningar kælt og bleytt margar þúsundir manna, sem láta það þó yfirleitt lítið á sig fá. Eitt árið, líklega 1969, var verið að nota kringlótt skátatjald sem veitingatjald, og það, ásamt nokkrum öðrum tjöldum, fauk upp hliðina á Molda og yfir Hánna. Það þurfti þá mikinn mannskap til þess að bjarga tjaldinu. Á þjóðhátíð 2002 varð veður svo vont að hátíðargestir leituðu skjóls í heimahúsum og íþróttamiðstöðinni á meðan að tjöld þeirra fuku í stórum stíl, ef að rigningarnar héldu þeim ekki niðri. Þó koma inn á milli sæluveður — árið 2003 var sérlega minnisstætt vegna góðviðris, og eins árið 1977.
Tölfræðin sýnir að það skiptist mjög á skin og skúrum á Þjóðhátíð í Eyjum, en það hefur sýnt sig að ef að engin rigning er á laugardagskvöldinu, þá verði engin úrkoma yfir sunnudaginn heldur.
ATH. að þessa efnisgrein þyrfti að uppfæra með veðurfarstölfræði síðasta áratugs
Siðir
Mest áberandi siðurinn, þegar að litið er yfir dalinn, er sá siður að raða upp hvítum hústjöldum í götur. Á fyrstu Þjóðhátíðunum var hústjöldunum ekki raðað upp eftir neinu sérstöku skipulagi, þó svo að tjaldformið virðist hafa haldið sér frá upphafi.
Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjósakletti, en varðeldar hafa tíðkast í smærri stíl nokkru fyrr.
Þegar árið 1903 eru nefndir flugeldar. Bjargsig er fyrst nefnt á 17. júníhátíðinni 1911 en um 1920 er talað um bjargsig í Dalsfjalli eins og fastan sið á þjóðhátíð og hefur verið svo síðan.
Göturnar
Hefð er fyrir því, eins og áður segir, að raða hústjöldunum upp í götur, og hefur hver gata hlotið nafn, sem hefur haldist með nánast engum breytingum í gegnum árin.
- Sjómannasund
- Formannabraut
- Ástarbraut
- Skvísusund
- Veltusund
- Þórsgata
- Týsgata
- ÍBV gata
Þjóðhátíðarlagið
Hægt er að nálgast mörg Þjóðhátíðarlögin á MP3 formi á Heimasíðu Þjóðhátíðar
Frá árinu 1933 hefur tíðkast að velja eitt Þjóðhátíðarlag hverju sinni. Þá skrifaði Árni úr Eyjum ljóðið Setjumst hér að sumbli og Oddgeir Kristjánsson bjó til lag því til undirspils. Oddgeir samdi þjóðhátíðarlögin eftir það óslitið þar til að hann féll frá árið 1966, en Árni úr Eyjum, Ási í Bæ og Loftur Guðmundsson skiptust á að semja textana. Frá dauða Oddgeirs fram til ársins 1969 voru gömul lög eftir hann notuð sem þjóðhátíðarlög, en síðan þá hafa nýjir menn skipst á að semja lögin. Árni Johnsen hefur gert fjölmarga texta, og einnig Guðjón Weihe. Ólafur M. Aðalsteinsson hefur gert nokkur lög, sem og Þorgeir Guðmundsson, Sigurður Óskarsson og Lýður Ægisson. Síðasta áratuginn hafa Hreimur Örn Heimisson, Sigurjón Haraldsson og fleiri komið að gerð lagana.
Lögin hafa vakið misjafnar undirtektir og sitið misjafnlega fast eftir í minningum manna, en sérlega minnisstæð þykja lögin Dagur og nótt í dalnum (1941), Út í Elliðaey (1980), Þú veist hvað ég meina (1997) og Lífið er yndislegt (2001), en þó eru mörg önnur sem sitja misjafnlega fast í hugum manna, og hefur þar aldur, smekkur og upplifun margt um það að segja.
- 1933: Setjumst hér að sumbli
- 1937: Undurfagra ævintýr
- 1938: Þjóðhátíðarsöngur
- 1939: Hátíðarnótt í Herjólfsdal
- 1940: Meira fjör
- 1941: Dagur og nótt í dalnum
- 1942: Takið eftir því
- 1945: Á útlagaslóð
- 1948: Þjóðhátíðarvísa
- 1949: Breytileg átt og hægviðri
- 1950: Hve dátt er hér í dalnum
- 1951: Heima
- 1954: Vísan um dægurlagið
- 1955: Gamla gatan
- 1961: Sólbrúnir vangar
- 1968: Svo björt og skær
- 1969: Draumblóm Þjóðhátíðarnætur
- 1970: Bros þitt
- 1971: Heimahöfn
- 1972: Eyjasyrpa
- 1973: Við höldum þjóðhátíð
- 1974: Eyjan mín bjarta
- 1975: Þjóðhátíðarlag
- 1976: Vornótt í Eyjum
- 1977: Þjóðhátíðarlag
- 1978: Á þjóðhátíð
- 1979: Peyjaminning
- 1980: Út í Elliðaey
- 1981: Í Herjólfsdal
- 1982: Þjóðhátíðarlag
- 1983: Gaman og alvara
- 1984: Ástin bjarta
- 1985: Í Herjólfsdal
- 1986: Dalbúinn
- 1987: Síðasti dans í dalnum
- 1988: Ég meyjar á kvöldin kyssi
- 1989: Í brekkunni
- 1990: Næturfjör
- 1991: Þjóðhátíð í Eyjum
- 1992: Dagar og nætur
- 1993: Þjóðhátíðarlag
- 1994: Út við sund og Eyjar
- 1995: Þúsund eldar
- 1996: Sumarnótt
- 1997: Þú veist hvað ég meina
- 1998: Á Þjóðhátíð
- 1999: Í dalnum
- 2000: Í Vestmannaeyjum
- 2001: Lífið er yndislegt
- 2002: Vinátta
- 2003: Draumur um þjóðhátíð
- 2004: Í Herjólfsdal
- 2005: Með þér
Heimildir
- Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja, ýmsir árgangar milli 1962-2002, þá sérstaklega:
- Þjóðhátíðin í Herjólfsdal frá fornu fari, Þjóðhátíðarblaðið 2002.
- Veður á Þjóðhátíð í Eyjum 1974-1991, e. Trausta Jónsson veðurfræðing, Þjóðhátíðarblaðið 1992.
- Þjóðhátíðarlögin ómissandi þáttur Eyjastemmningarinnar, e. Árna Johnsen, Þjóðhátíðarblaðið 1992.
- Þjóðólfur, 26. árgangur, bls. 196. [1]
- Dalurinn.is, Saga Þjóðhátíðar. [2]