Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Helstu æviatriði Guðjóns á Skaftafelli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
HAFLIÐI GUÐJÓNSSON
Helstu æviatriði Guðjóns á Skaftafelli


Hafliði Guðjónsson

Helstu æviatriði:
Guðjón er hjá foreldrum sínum í Fjósum til 1895, það ár deyr faðir hans. Árið 1896-1897 er hann með móður sinni í Breiðuhlíð í Mýrdal, tökubarn í Skammadal 1897-1898. Þá er hann með móður sinni í Skagnesi 1899-1900. Árin 1900-1903 er hann léttadrengur í Miðeyjarhólmi, síðan léttadrengur og vinnumaður að Felli í Mýrdal 1903-1907.
Ungur byrjaði hann að stunda sjóróðra og var háseti á áraskipum frá Mýrdal og Suðurnesjum og 15 og 16 ára gamall fór hann fótgangandi frá Felli til Suðurnesja á vetrarvertíðir til Gísla Geirmundssonar, eiginmanns Jakobínu systur hans, sem gerði út þaðan.
Árið 1907, þá 18 ára gamall, fer hann til Reykjavíkur og hefur nám í skósmíði hjá Þorsteini bróður sínum.
Árið 1908 flytur Guðjón með Þorsteini til Vestmannaeyja og stundar skósmíðar á vetrum og sumarróðra frá Norðfirði og Seyðisfirði til ársins 1912. Guðjón var háseti á mb. Íslendingi VE.161 hjá Friðriki Jónssyni frá Látrum í Eyjum, vertíðina 1913-1914. Árið 1914 kaupir hann, ásamt öðrum, mb. Mýrdæling VE. 177 sem var 9,13 tonn með 12 ha. Dan-vél, súðbyrtur úr eik og furu, smíðaður í Frederikssundi í Danmörku.
Mýrdælingur VE 177 var síðasti fiskibáturinn, sem fluttur var með flutningaskipi til Vestmannaeyja (sjá „Aldahvörf í Eyjum“, bls. 196, eftir Þorstein Jónsson frá Laufási.)
Guðjón var formaður á honum samtals 14 vertíðir eða frá 1915til 1929. Eigendur að Mýrdælingi VE 177 voru: Guðjón Hafliðason Brekku 1/4, Friðrik Jónsson Látrum 1/4, Ólafur Jónsson á Landamótum 1/4 og Árni Jónsson Görðum 1/4.

Guðjón Hafliðason árið 1932

Árið 1929 er Mýrdælingur VE 177 seldur Eiði Jónssyni í Holti í Vestmannaeyjum (tengdasonur Vigfúsar Jónssonar) og fékk þá nafnið Frægur VE. 177. Hinn 13. apríl 1933 sekkur Frægur vestur af Eyjum í stórviðri af austri, eftir vélarbilum og var áhöfninni, sex mönnum, bjargað af enska togaranum Fortuna frá Grimsby.
Árið 1929 kaupir Guðjón ásamt fleirum mb. Mýrdæling VE. 283 sem var 16,50 tonn, með 48 ha. Tuxham vél, kantsettur og kútterbyggður, úr eik og furu smíðaður í Frederikssund í Danmörku. Kom til Eyja 25. september 1929. Pétur Andersen á Sólbakka sigldi bátnum heim til Íslands. Eigendur voru: Guðjón Hafliðason Skaftafelli 1/3 hluta, Ingvar Þórólfsson Birtingarholti, mágur Guðjóns, 1/3 og Erlendur Kristjánsson, Landamótum 1/3.
Guðjón er formaður á Mýrdælingi VE 283 frá 1930 til 1937. Árið 1939 var sett í bátinn 65 ha. June Munktel vél sem tekin var úr mb. Víði VE 326 sem strandaði fram af Vestur-Landeyjum árinu áður í suðaustan stórviðri.
Vetrarvertíðina 1938 er Guðjón með mb. Þóri RE 194 sem kallaður var „Torfbærinn“. Árið 1941 sækir hann tnb. Jón Þorláksson RE 60 (síðar mb. Sjöfn VE 37) til Reykjavíkur og er með hann eina vertíð.
Frá 1938 eru eftirtaldir formenn með Mýrdæling VE 283: Guðfinnur Guðmundsson frá Kirkjuhóli, Vestmannaeyjum, f. 25. júní 1912, frá 1938 til 1941. Jón Á. Jónsson, Vestmannaeyjum f. 30. september 1892, - sumarvertíðina 1939. Angantýr Elíasson, Vestmannaeyjum f. 29. apríl 1916, frá 1942 til 1943 og 1945. Guðjón Þorkelsson Sandprýði, Vestmannaeyjum f. 12. september 1907, - vetrarvertíðina 1944 og Bjarni Jónsson, Garðshorni,Vestmannaeyjum (frá Ísafirði), f. 28. september 1911, - vetrarvertíðina 1946. Hinn 14. september 1933 selur Erlendur sinn hlut til Kaupfélagsins Fram (síðar í eigu Einars Sigurðssonar).
Guðjón hætti útgerð 15. febrúar 1947 þegar Mýrdælingur VE 283 var seldur. Söluverð var kr. 45.000, þar af var hlutur Guðjóns kr. 15.000. Eftir það gerist hann verkstjóri hjá Felli hf.; síðan starfsmaður hjá Fiskiðjunni hf.
Guðjón verkaði alla tíð afla sinn sjálfur og hafði talsverðan búskap með. Kaupendur að Mýrdælingi voru bræðurnir Ívar Magnússon Kornhóli (Skansinum), Axel Magnússon Gjábakka og Sigurður Gissurarson Vestmannabraut 10, Vestmannaeyjum.
Hinn 18. september 1950 er Mýrdælingur VE 283 seldur Ingibergi Gíslasyni á Sandfelli í Vestmannaeyjum.
Árið 1953 kaupa Hjálmar Elíeserson og Þorsteinn Sigurjónsson Reykjavík bátinn, sem var þá nefndur Mýrdælingur RE 270. Hjálmar er skráður eigandi Mýrdælings 24. ágúst 1954.
Báturinn var seldur til Djúpavogs 29. desember 1960, kaupandi var Stefán Aðalsteinsson og hét þá Mýrdælingur SU 101. Árið 1963 var sett í bátinn 125 ha. Perkings dísel vél. Þann 1. júní 1967 var báturinn tekinn af skrá og var talinn ónýtur.

Mb Þórir RE 194 Sdbl. 2007
Mb. Jón Þorláksson RE 60, síðar Mb. Sjöfn VE 37

Saga af sjóferð
„Árið 1901 settu Eyjamenn ákvœði í fískveiði-samþykktina, að allir skyldu, að viðlögðum sektum, róa á sama tíma“ - („Formannsævi í Eyjum" -Þorsteinn Jónsson Laufási.)
Faðir minn sagði mér frá eftirfarandi atviki þegar hann var formaður á Mýrdælingi eldri VE 177 á árunum 1915 - 1929. Í þá daga söfnuðust bátarnir saman í höfninni við ákveðna línu þar til „blússið“ var gefið (ljósmerki gefið frá Skansinum), en þá fyrst máttu bátarnir halda á miðin. Einn til tveir bátar voru í því að aðgæta að engir bátar þjófstörtuðu. Þarna var mikill fjöldi báta og þrengsli mikil. Þegar blússið var gefið, settu bátarnir á fulla ferð og mikill reykjarmökkur steig upp frá þeim, því að vélarnar voru kaldar og þær þandar til hins ítrasta.
Skammt utan við hafnarmynnið í Vestmannaeyjum er Ystiklettur og Klettsnef nefnist syðsti hluti hans sem skagar út í sjó til suðurs. Þegar bátarnir héldu á miðin var siglt ótrúlega nærri Klettsnefi, bátur við bát.
Umrætt atvik átti sér stað við þessar aðstæður. Þegar blússið var gefið, lendir Mýrdælingur næst Klettsnefi og á móts við það kemur bátur þvert á siglingaleið bátanna og stefnir beint á Klettinn. Faðir minn sá aðeins fyrir sér tvo möguleika, að sigla beint á bakborðssíðu bátsins eða beygja á bakborða og fara eins nærri Klettinum og kostur var á. Með því að sigla á bakborðskinnung bátsins vonaði hann að það dygði til að snúa honum á rétta siglingaleið. Hann átti jafnframt á hættu að Mýrdælingur snerist enn meir á bakborða og lenti upp í Kletti. Guðjón tók síðari kostinn og var svo lánsamur að hann gat snúið hinum bátnum á stjórnborða og á rétta siglingaleið, án þess að hann færi sjálfur upp í Klettinn en engu mátti muna að svo færi, svo nærri Klettinum var hann kominn.
Faðir minn fékk skýringu á þessu atviki daginn eftir. Formaðurinn á þessum báti sagði honum að í allri þvögunni hafi stærri bátur nuddast utan í sinn bát og snúið honum. Þegar formaðurinn þakkaði föður mínum fyrir að hafa bjargað sér sagði faðir minn að hann hefði ekki átt nema þessa tvo kosti. Voru báðir glaðir yfir að svo vel tókst til.

Mýrdælingur VE 177, 9,13 tonn, smíðaður í Danmörku og kom til Vestmannaeyja árið 1914.

Í bók sinni „Öruggt var áralag“ segir Haraldur Guðnason svo frá: „Þriðja mikla útilegan var öskudagsútilegan 5. mars 1924. Þá lágu úti 9 bátar. Voru það einkum minni bátarnir, sem náðu ekki til hafnar um kvöldið.
Sigurður Ingimundarson var ekki meðal þeirra, er úti lágu þessa nótt, enda hafði hann, þá er hér var komið, eignast einn hinna stærri báta í Eyjum, Blikann, en frá honum segir síðar í þessum þáttum. En eigi að síður verður þó sagt í fáum dráttum frá þessari næstsíðustu stóru útilegu í Vestmannaeyjum. Veður var lygnt morguninn 5. mars. Flestir höfðu þá tekið netin, þótt óvenjulegt væri, svo snemma vertíðar.
Nokkrir bátar reru með línu, eða línu og handfæri, því loðnugangan var komin fyrir nokkru. Talsverð fiskigengd virtist vera á miðum.
Um klukkan níu um morguninn fór að bræla af landsuðri, en laust eftir hádegi var komið öskrandi rok. Undir kvöldið var brostið á eitt versta veður, sem hér hefur komið, með landnorðan byl. Þá er veðrið var fullharðnað og ófært með öllu fyrir Klettinn vantaði 9 báta.
Björgunarskipið Þór lá inni á höfninni, en fór út að gæta bátanna og þá vestur fyrir Eyjar. Sjö bátar sáust fyrir Eiðinu áður en fulldimmt var orðið. Tveir bátar sáust ekki, þeir Björg og Höfrungur.
Vélbáturinn Mýrdælingur hafði hitt Björgu með bilaða vél langt útsuður af Álsey. Reyndi Mýrdælingur að draga Björgu til hafnar, en markaði ekki á móti veðrinu. Þá slitnaði dráttar taugin og varð Mýrdælingur frá að hverfa við svo búið. Hittu þeir björgunarskipið Þór og sögðu til bátsins. Þór fann ekki Björgu og ekki heldur Höfrunginn.

Íslendingur VE 161 smíðaður úr eik og furu í Svíþjóð 1912, 11 brúttórúmlestir með 12 ha. Skandiavél. Íslendingur var með stærstu og traustustu bátum í Eyjum á þeim tíma. Guðjón Hafliðason var háseti á Íslendingi með Friðriki Jónssyni á Látrum vetrarvertíðirnar 1913 og 1914. Íslendingur VE 11 fórst með allri áhöfn, mönnum hinn 6. janúar 1916 þetta gerðist þannig að tveir bátar, Happasæll VE 162 sem Árni Finnbogason var formaður með og einnig var smíðaður í Svíþjóð og Íslendingur sem Guðleifur Elíasson frá Brúnum var með, fóru úr höfn til þess að bjarga Sæfara VE 157 sem var á reki með bilaða vél. Happasæll fann Sæfara og var með Sæfarann í eftirdragi, en þá hrakti frá Ejum, en afspyrnuveður var af austri. Um nóttinar urðu skipverjar á Happasæla að sleppa Sæfara eftir að þeir höfðu bjargað áhöfninni. Þeir á Sæfara áttu ina erfiðustu nótt en komust þó til Eyja daginn eftir segir Þorsteinn Jónsson í Aldahvörfum í Eyjum. Íslendingur VE 161 kom aftur á móti aldrei að landi og fórst með allri áhöfn. Þetta hörmulega slys varð til þess að háværar kröfur voru gerðar um að fá sérstakt björgunarskip ti Vestmannaeyja og rættist það loks, þegar björguar- og varðskipið Þór kom til Vestmannaeyja hinn 26. mars árið 1920 en Björgunarfélag Vestmannaeyja og Vestmannaeyingar gerðu Þór út fram til 1. júlí 1926 þegar Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð.


Í birtingu um morguninn sáust enn bátarnir sjö undir Eiðinu, en sá áttundi, Höfrungur, var þá aftan í togara fyrir vestan Smáeyjar. Björg sást hinsvegar hvergi og var talin af. Raunar fórst báturinn, en mönnunum bjargað í togara á síðustu stundu.
Þá er báturinn slitnaði aftan úr Mýrdælingi voru sett upp segl og siglt til útsuðurs. Sáu menn á bátnum tvo togara sem ekki sinntu neitt neyðarmerkjum Bjargarmanna, eða hafa ef til vill ekki séð bátinn. Þriðji togarinn bjargaði skipverjum á Björgu öllum fjórum þétt við Einidrang klukkan sex um kvöldið.
Var það með mestu herkjubrögðum að þeir komust upp í togarann. Togarinn reyndi að draga bátinn, en höld þau, sem dráttartaugin var fest í, brotnuðu strax, bæði stunnan og svo mastursstunnan. Hvarf báturinn þeim í sortann og hefur vafalaust sokkið þá þegar.
Togarinn skilaði af sér skipshöfninni heilli á húfi næsta dag (16. mars). Þótti þessi björgun hafa tekist giftusamlega.“

Að lokum vil ég geta þess að eitt sinn talaði ég við formann úr Eyjum sem sagði að faðir minn hefði verið farsæll formaður, harðduglegur og aldrei á allri hans formannsævi misst mann.
Í sjómannablaðinu Víkingi, jólablaði 1963, eru þessi ummæli höfð um föður minn, Guðjón Hafliðason frá Skaftafelli: „Guðjón var alla tíð traustur og ábyggilegur formaður og aflamaður ágætur“

Hafliði Guðjónsson frá Skaftafelli VE.