Ingibergur Gíslason (Sandfelli)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ingibergur

Ingibergur Gíslason, Sandfelli, fæddist á Eyrarbakka 16. janúar 1897 og lést 15. janúar 1987. Til Vestmannaeyja fór Ingibergur árið 1919 og gerðist háseti á Kristbjörgu hjá Þórarni Guðmundssyni. Eftir það er hann vélamaður á ýmsum bátum allt til 1927 að hann byrjar formennsku með Frans. Eftir það var Ingibergur meðal annars með Ásdísi, Helgu og Auði.

Kona Ingibergs var Árný Guðjónsdóttir. Guðjón Ingibergsson var sonur þeirra.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Ingiberg:

Sandfells Ingi Auði ver
ill þótt kveini dýna,
í dragnótina dregur sér
drætti stundum fína.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Ingiberg, bróður Inga,
ofið skal sanna lofið.
Valinn er heiðurs halur,
hrísla af rótum Gísla.
Verjinn um skurðinn skerja,
Skallagrím ennþá lallar.
Hugaður bylgjur bugar.
bjóðurinn miða fróður

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.

Frekari umfjöllun

Ingibergur Gíslason á Sandfelli við Vestmannabraut 36, sjómaður fæddist 16. janúar 1897 í Sjávargötu á Eyrarbakka og lést 15. janúar 1987.
Foreldrar hans voru Gísli Karelsson sjómaður, f. 25. nóvember 1868, drukknaði á Stokkseyrarsundi 2. apríl 1908, og kona hans Jónína Margrét Þórðardóttir húsfreyja, f. 21. maí 1870, d. 4. ágúst 1951.

Bróðir Þórðar var
1. Þórður Halldór Gíslason netagerðarmeistari, f. 20. júní 1898, d. 17. mars 1993.

Ingibergur ólst upp í Flóanum. Hann byrjaði sjómennsku við Faxaflóa, á bát frá Eyrarbakka, en fluttist til Vestmannaeyja 1919, var vélstjóri á ýmsum bátum til 1927, er hann varð formaður á mb. Frans og síðan með mb. Helgu og ýmsa aðra báta, síðast með mb. Auði.
Ingibergur stundaði snemma sjómennsku, við Faxaflóa, kom til Eyja 1919, var vélstjóri á ýmsum bátum til 1927, en þá varð hann skipstjóri á Frans og síðan á Helgu og ýmsum öðrum bátum og varð 1948 útgerðarmaður bátsins Auðar VE 3 í 2 ár, seldi hann, en keypti hann aftur 1957, varð þá Auður VE 133. Hann stjórnaði honum til loka starfsævi sinnar á sjó. Hann hætti formennsku 1971 og hafði þá verið formaður í 44 ár.
Þau Árný giftu sig 1926, eignuðust 6 börn, en misstu fyrsta barn sitt tæplega eins árs. Þau bjuggu á Sandfelli.
Árný lést 1943.
Þau Lovísa hófu sambúð, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu á Sandfelli til Goss. Síðar bjuggu þau hjá Guðrúnu dóttur sinni og Ágústi Þórarinssyni á Hólagötu 23.
Ingibergur lést 1987 og Lovísa á árinu 2000.

I. Kona Ingibergs, (4. desember 1926), var Árný Jónína Guðjónsdóttir frá Sandfelli, húsfreyja, f. 8. september 1905, d. 10. ágúst 1943.
Börn þeirra:
1. Þorvaldur Ingibergsson, f. 7. október 1926 á Sandfelli, d. 15. ágúst 1927.
2. Guðjón Ingibergsson sjómaður, f. 25. september 1928 á Þorvaldseyri, d. 16. nóvember 1989.
3. Jónína Margrét Ingibergsdóttir húsfreyja, verkakona, f. 5. júní 1931 á Grímsstöðum, d. 8. desember 2014.
4. Matthías Ingibergsson verkamaður, skipstjóri, útgerðarmaður, f. 22. janúar 1933 á Grímsstöðum, d. 31. október 2006.
5. Inga Hallgerður Ingibergsdóttir húsfreyja, f. 21. maí 1937 í Hvammi, fósturdóttir Karels föðurbróður síns í Reykjavík, síðast í Hrísey, d. 11. desember 1990.
6. Árný Ingibjörg Ingibergsdóttir, f. 20. júní 1943 á Sandfelli, d. 1. maí 1989.

II. Sambúðarkona Ingibergs var Lovísa Guðmundsdóttir frá Vallarhjáleigu í Flóa, húsfreyja, f. 30. september 1910, síðast í Hraunbúðum, d. 29. maí 2000.
Börn þeirra:
1. Guðrún Ingibergsdóttir húsfreyja, f. 20. desember 1944 á Sandfelli.
2. Guðmunda Ingibergsdóttir húsfreyja, f. 2. september 1948 á Sandfelli.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.


Myndir