Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Jómsborgarfeðgar, formenn í fjóra ættliði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
HELGI BERNÓDUSSON


Jómsborgarfeðgar

´

— formenn í fjóra ættliði —


Helgi Bernódusson

Íslendingafundur í Lapplandi.
„Hún er komin, danska konan sem við sögðum þér frá, — manstu ekki, frá Vestmannaeyjum?“ „Ha? Hver?“

Ég sat niðursokkinn í verkefni, með sumarsólina á glugganum í skrifstofu minni í virðulegu og gömlu húsi við Kirkjustræti í miðbæ höfuðborgarinnar. Þetta var sumarið 2001, fyrir tveimur árum. — „Ég kem niður í anddyri.“

Jómsborg við Heimatorg, reist af Jóni Sighvatssyni árið 1912 á lóð þar sem áður var tómt húsið Jómsborg, á lóðamörkum Garðs og Godthåbs. Myndin gœti veriðfrá því um 1920.Ekki er gott að segja hvernig bœjarnafnið Jómsborg varð til né hver festi það fyrstur við hús á þessum stað. Tómthúss með því nafni er ekki getið í Manntalinu 1845. Svo mikið er þó víst að „Jórnsborg“ er frœg í sögum. Talið er að hún hafi staðið á eynni Jómi (Wollin) í Pommern (Vindlandi), við mynni Oderárinnar sem fellur í Eystrasalt og skiptir nú Þýskalandi og Póllandi. „Jóm“ er talið merkja haugur, hrúga, hœð. Borgin er sögð reist á 10. öld af Haraldi konungi blátönn og þar bjuggu einvörðungu vígfœrir karlmenn, „Jómsvíkingar“. Herför þeirra undir forustu Pálna-Tóka er frægust en þeir töpuðu orrustunni í Hjörungavogi fyrir Hákoni Jarli Sigurðarsyni og voru höggnir, einn af öðrum, og sýndu mikið œðruleysi eins og segir frá í Jómsvíkingasögu. Ekki er ólíklegt að einhverjum, sem unni fornri sagnaveröld Íslendinga, hafi þótt þetta viðeigandi nafn á bœ sínum!
Greta Þorsteinsdóttir Johnson, Thisted að giftingarnafni

Þrjár samverkakonur mínar höfðu haustið áður farið á merka ráðstefnu í Rovaniemi í Finnlandi, eða raunar í Lapplandi, sem liggur á norðurheimskautsbaugnum, til að fræðast um lagamál, þýðingar og skjalaútgáfu. Lex et lingua (lög og tunga) var yfirskriftin. Þetta var fjölmennt mót sérfræðinga úr mörgum heimshornum, norrænir menn og fólk úr höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel og Lúxemborg. Þær stöllur héðan héldu hópinn, svo sem von er um Íslendinga, en brátt fór að sækja í félagsskap þeirra kona ein frá Lúxemborg, nett og treffileg, hún hét Eva, var Dudzinska að giftingarnafni, pólskt. Eva sagði að sér liði vel innan um Íslendinga því að sjálf væri hún hálfur Íslendingur. „Ha?“ Alltaf jafn spennandi að hitta Íslendinga í útlöndum, jafnvel þó að þeir séu hálfir (í einhverjum skilningi). — Jú, móðir hennar var íslensk, fædd á Íslandi, átti íslenskan föður og danska móður. Fædd í Vestmannaeyjum! „Ja, hvað er að heyra, þetta þurfum við að segja honum Helga þegar við komum heim!“ Þær vinkonur mínar, Finnlandsfarar, létu ekki undir höfuð leggjast að greina frá þessu vestmanneyska kyni sem þær höfðu fundið í Lapplandi, en ekki festist það þó mjög í minni. Þær héldu sambandi við Evu, vinkonu sína í Lúxemborg, sem puðaði þar við þýðingar á flóknum reglum ESB úr mörgum málum á mörg mál, og samkvæmt jólakorti frá henni var ekki útilokað að hún kæmi í heimsókn á næsta sumri, kannski með hana mömmu gömlu, hana langar svo að sjá Ísland, og sérstaklega Vestmannaeyjar, einu sinni enn, hálfníræða konuna. Og svo varð. Þær stóðu þarna í anddyrinu, Eva frá Lúxemborg með börn sín tvö og tvö systurbörn, og svo móðir hennar. Hún bar aldurinn vel, var snotur kona og svipmikil. Ég heilsaði henni, hún hafði krepptan fingur á hægri hendi, og það brá fyrir einhverjum svip sem ég kannaðist við. Hún talaði bara dönsku, fáein orð kunni hún þó í íslensku. Greta Thisted hét hún. „Og þú ert úr Vestmannaeyjum?“ spyr ég gömlu konuna.
„Já, ég er fædd þar, það var 1916, en ég fór þaðan fjögurra ára gömul árið 1920 til Kaupmannahafnar, hef verið þar síðan, í 80 ár. En ég man enn ýmislegt frá Vestmannaeyjum.“
Hún spurði mig hvort ég væri úr þessum eyjum. „Já, það er svo!“
„En gaman, ég hef komið tvívegis til Vestmannaeyja síðan við fórum þaðan mæðgur 1920, í fyrra sinnið 1946, eftir stríðið, og svo 1996, á áttræðisafmæli mínu. Í fyrri ferðinni hitti ég föður minn. Hann hét Þorsteinn Johnson.“
„Nei. hvað segirðu, bóksali? Ég man hann vel, virðulegan mann við Garðhús, á dökkum fötum með vesti, þar sem hann vappaði í kringum bókabúðina sína.“
„Hvað, ungi maður, manst þú föður minn?“
„Já, heldur betur, hann var oft í Garðhúsum hjá systur sinni, Kristínu, sem var gift Jóni Waagfjörð bakara, „Vogsa“ sem við kölluðum svo (ættarnafnið dregið af Vogsósum). Stáki, sonur þeirra (Jón samkvæmt kirkjubókum), átti þar heima á efri hæðinni og Kristinn sonur hans er æskuvinur minn. Ég þekkti í því stóra húsi hverja vistarveru og var þar uppi um öll rjáfur; þvældist um niðri í bakaríi sem var í kjallaranum; stundum vorum við Kristinn settir á tvíbökuvélina til að létta undir, við sátum þá andspænis hvor öðrum og stigum sitt sagarhjólið hvor og mötuðum vélina með brauðbollum en sögin, sem við drógum, skar í sundur bollurnar sem voru svo bakaðar á ný, sannkallaðar tvíbökur!“
Hún sagðist muna Kristínu, föðursystur sína, vel og Jón, mann hennar, duglegan mann, sem fékk sér stundum í staupinu eins og margir fleiri góðir menn; þau komu nokkrum sinnum í heimsókn til Danmerkur þar sem Jón Waagfjörð var lengi við nám og störf (málari) á yngri árum.
„Sæmundur, föðurbróðir minn, bjó þarna skammt frá“ sagði Greta. „Já, já, ég hef heyrt um hann en ég man hann ekki, en Guðbjörgu konu hans man ég. Þau bjuggu á Gimli; þar var mjólkurbúð á jarðhæðinni.“ Og svo bætti ég við: „Systir mín, Elínborg, býr þar núna!“
„Ja, hérna! Manstu kannski eftir honum Óskari, bróður mínum?“
„Honum Óskari í Bókabúðinni! Ég er nú hræddur um það, hafði hann fyrir augunum á hverjum degi alla mína bernsku. Við krakkarnir vorum eins og gráir kettir í búðinni hjá honum eða lágum á búðargluggunum, og stundum stóð hann, einkum í góðviðri, í búðardyrunum í kringum hádegið og fylgdist með mannaferðum, fólki, sérstaklega ungum skvísum, á leið úr eða í vinnu. Við bjuggum rétt hinum megin við götuna. Kristinn, sonur hans („Diddi í Bókabúðinni“), var einkavinur Birgis, bróður míns heitins.“
„Ja, hvur röndóttur“ sagði konan upp á dönsku. Og dóttir hennar, Eva, og barnabörn voru orðin nokkuð langleit meðan stóð á þessum fundi ömmu við fortíðina og blauta bernsku hennar í Vestmannaeyjum fyrir 80 árum, svona óralangt í burtu í tímanum. En þau fundu samt að hún hafði hitt á réttan mann! Það fannst þeim gott.

Hver er þessi danska kona?

En hver var þessi kona? Greta Thisted heitir hún og er fædd í Vestmannaeyjum árið 1916, 17. júlí, dagstætt ári yngri en Óskar bróðir hennar. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Johnson, sem kallaði sig svo, hann var Jónsson eins og síðar verður að vikið, og Anna Margrethe Madsen, kona hans. Sennilega hafa þau kynnst í Danmörku þar sem Þorsteinn var við nám og störf. Þau fluttust til Íslands árið sem fyrri heimsstyrjöldin hófst, 1914, giftu sig og eignuðust þrjú börn. Elstur var Óskar Emanúel Þorsteinn, fæddur 1915, síðan Greta, fædd 1916, og loks Þorsteinn, fæddur síðla árs 1917. Þau hafa sjálfsagt verið ólík, hjónin, hún sjö árum yngri en hann, og erfitt fyrir unga konu úr Kaupmannahöfn, rétt rúmlega tvítuga, að setjast að í Vestmannaeyjum á árum fyrri heimsstyrjaldar og eftir hana og búa með tengdaforeldrum sínum með þrjú ung börn. Vestmannaeyjar hafa varla náð hátt á umgengnis- og þrifnaðarskölum Kaupmannahafnar. Margrét bjó við ágæt efni í Höfn, faðir hennar, Emanuel Madsen, var umsvifamikill matreiðslumaður, lést 1920, en móðir hennar lifði til 1936. Hún hafði sjálf lært „nútíma-matargerð“ en aldrei komið nálægt börnum. Það er því líklegt að þrjú börn á skömmum tíma , sambúð með tengdaforeldrum, tungumálaerfiðleikar, söknuður eftir ættingjum og vinum, hafi reynst skapmikilli konu ofraun. Greta segir að sér sé í barnsminni, innan við tveggja ára aldur, þegar hún lá í hálsbólgu og lék sér með vasaklúta(!) — ekki var leikföngum fyrir að fara — að hafa séð móður sína hálfærast yfir því að geta ekki kveikt eld á prímusnum sem þau notuðu til að hita vatn. En Greta segir að hún hafi sótt sér skilning og traust hjá Dönum sem bjuggu í bænum. Þorsteinn í Jómsborg og Halldór Gunnlaugsson læknir voru góðir vinir, voru oft á fiskiríi saman. Margrét átti trúnaðarvini í frú Önnu Gunnlaugsson og Ellu Therp, systur hennar, sem dvaldist í Eyjum um tíma. Greta segist muna vel þegar þær mæðgur voru að koma frá frú Gunnlaugsson, stundum seint um kvöld og í myrkri, hún var svo hrædd við skuggaverur, sauðfé, hunda og ketti! Ella Halldórsdóttir (Gunnlaugssonar), sem lifir í hárri elli í Reykjavík, segist muna Margréti vel, sérstaklega hvað hún var mikill spíritisti! „Indælis manneskja, en lifði mjög spart.“ Vinskapurinn við frú Önnu Gunnlaugsson hélst lengi.

Jón Þorsteinn Þorsteinsson Johnson
Margrét Madsen með tengdaforeldrum sínum í Vestmannaeyjum, Jóni Sighvatssyni og Karólínu Oddsdóttur. Þorsteinn Johnson tók myndina 1914, - meðan allt lék í lyndi og börnin voru ófœdd. Stafur Jóns er varðveittur í safninu í Skógum; Eyfellingar gáfu Sighvati, föður hans, stafinn í skilnaðarsamsœti 1901

Betri samgöngur voru milli Eyja og Kaupmannahafnar á þessum tíma en síðar, flest millilandaskip sem sigldu til Íslands frá meginlandinu, skip Eimskipafélagsins og Sameinaða gufuskipafélagsins, komu við í Eyjum. Og e.t.v. hafa þau hjón, Margrét og Þorsteinn, brugðið sér utan þessi árin. Þannig segir Greta að móðir sín hafi farið utan snemma árs 1918 með yngsta barn sitt, Þorstein, dvalist þar um tíma, látið skíra barnið, en komið svo aftur „heim“. Greta var hjá föður sínum og afa og ömmu í Jómsborg á meðan og man það vel. Nema hvað, tveimur árum síðar, 1920, fer Margrét enn til Kaupmannahafnar með börn sín. Hjónabandinu var slitið. Óskar er þá 5 ára. Sú saga lifir með afkomendum hans að hann hafi ekki tekið í mál að fara utan, hann fór í felur og fannst ekki meðan millilandaskipið lá fyrir utan Eiðið. Og fór aldrei. Greta man „eins og það hefði gerst í gær“ þegar hún prílaði eftir kaðalstiganum upp í þetta stóra skip úti á „reginhafi.“ Hún man þegar þau sigldu fram hjá Krónborgarhöll á Norður Sjálandi og hún benti á trén og spurði á íslensku: „Hvað er þetta?“ Hún tapaði svo íslenskunni, gekk í fyrstu illa að læra dönsku og man nú lítið frá næstu tíu árum ævinnar. — Ætli þetta komi svo mjög á óvart? „Þetta var gífurlegt sjokk; skilnaður foreldra og nýtt og framandi umhverfi“ segir hún.

Margrét Madsen, tvítug stúlka frá Kaupmannahöfn, nýkomin til Vestmannaeyja. Myndin er tekin á svölunum á Jómsborg 5. sept. 1914

Margrét, móðir hennar, bjó í Kaupmannahöfn upp frá því, dó 1976, hálfníræð. Hún giftist aldrei aftur — „þrátt fyrir mörg bónorð“ segir Greta! Hún talaði aldrei um Íslandsárin við börn sín, en virtist enn hafa sterkar taugar til Þorsteins, eiginmanns síns fyrrverandi, bar árum saman þungan harm í brjósti, „grét oft“ segir Greta. Ættmenni hans, systkini og vinir, heimsóttu hana æ síðan í Kaupmannahöfn, ef við varð komið, og hún tók því fólki öllu vel. Hún var ströng, segir Eva, barnabarn hennar, en létt og skemmtileg, „aldrei leiðinlegt í kringum hana“. Rúmri hálfri öld eftir að hún fór frá Eyjum, haustið 1973, eftir eldgosið á Heimaey, tók hún sig upp og heimsótti son sinn, Óskar, og ættingja á Íslandi. Það hafa verið stórir dagar hjá henni, þótt ýmsir erfiðleikar í fjölskyldunni hér á landi skyggðu á.
Greta og maður hennar áttu sumarhús og þangað var farið nærri um hverja helgi, og oftast var gamla konan með. Dag einn um miðjan júní 1959 voru þau sem endranær á ferðinni í sumarbústaðinn. Sú gamla sat í aftursætinu, djúpt hugsi. Svo sagði hún um síðir við dóttur sína að sig hefði dreymt undarlegan draum nóttina áður. Hún var með giftingarhring sinn og hann hafði brotnað á tveim stöðum. „Það eru tvö síðari hjónabönd föður þíns. Nú er hann látinn, og hugsar til mín.“ Þegar fjölskyldan kemur á ný í bæinn eftir stutta dvöl er hringt dyrabjöllu heima hjá Gretu kl. 11 um kvöld. Úti stóð sendill með símskeyti frá Íslandi: „Faðir okkar er látinn. Kveðja, Óskar.“
Greta ólst upp með móður sinni í Kaupmannahöfn ásamt Þorsteini bróður sínum. Jon Thorsteinn Johnson er fæddur 3. des. 1917. Hann kom líka til Íslands, fyrst sem unglingur 1934 þegar hann var hér sumartíma, bjó hjá Sæmundi föðurbróður sínum á Gimli og var látinn vinna á stakkstæði. Hann fékk enn fremur að vera í Reykjavík, á Laugavegi 32 hjá Sigríði afasystur sinni og Tómasi kjötkaupmanni Jónssyni. Hann hefur komið nokkrum sinnum til Íslands síðar. Hann nam sem ungur maður búfræði og starfaði við það í Danmörku, lengst við matvælaeftirlitið. Tim Thorsteinn Johnson, einkasonur hans, er sjónvarpsstjóri á Jótlandi; hann á eitt barn. Þorsteins er getið í ritinu „íslenskir búfræðikandídatar“ frá 1974.
Greta Johnson giftist og varð Thisted, maður hennar, Borge, var lögmaður, málafærslumaður við landsréttinn, og þau voru í ágætum efnum. Hann lést fyrir nokkrum árum, 1989. Þau eignuðust þrjár dætur. Auk Evu (sem er fædd 1949) eru það Jette, fædd 11. apríl 1940, tveim dögum eftir innrás Þjóðverja í Danmörku, og Anne-Dot, fædd 1943. Eldri dætur hennar tvær létust á ungum aldri, önnur tveggja barna móðir, hin þriggja, og tengdasynir Gretu létust tveir fyrir aldur fram, maður Evu á síðasta ári, en maður Jettu þegar árið 1970. Börn Jettu, sem hingað komu tvö í hittiðfyrra með ömmu sinni, höfðu misst báða foreldra sína á barnsaldri. Barnabörn Gretu eru sjö og barnabarnabörn fimm. Ég spurði Evu á dögunum í tölvuskeyti hvað væri af móður hennar að frétta því að sú gamla svaraði ekki síma. Hún hefur verið úti að spila bridge, en annars er „min mor stadig ... frisk som en havörn“ — og á þrjú ár fátt í nírætt!
Óskar hafði samband við móður sína í Danmörku eins og tök voru á á þessum tíma, með bréfaskiptum, en hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu í Jómsborg. Kært hefur verið með þeim mæðginum og svo mikið er víst að dóttir Óskars hlaut nafn ömmu sinnar og heitir Margrét („Búbba“, búsett í Bandaríkjunum). Og á fullorðinsárum heimsótti gamla konan Óskar, son sinn, hingað til lands, eins og áður segir. Það var í fyrsta og eina sinn sem Kristinn Óskarsson, sem sagði mér frá, sá ömmu sína.

Gamlar minningar úr Eyjum.

Greta kom, eins og áður sagði, að loknu seinna stríði til Íslands og gisti hjá Óskari og Siggu á Hilmisgötunni. Það var henni mikið mál að kynnast á ný föður sínum og bróður. Þorsteinn sótti dóttur sína til Reykjavíkur og þau komu með Stokkseyrarbát út í Eyjar. Þau gengu mikið um eyna þetta sumar og upp á fjöll. Greta minnist notalegra stunda með föður sínum, t.d. þegar þau sátu í makindum í gígskálinni í Helgafelli og drukku ananassafa úr dós! Hún ferðaðist líka um Ísland og kynntist frændfólki sínu.

Heimatorg (áður „Krossgötur“'). Myndin er tekin 17. júní 1924. Á henni sést stakkstœðið norðan og vestan við Jómsborgar (húsið tengst til hœgri)
Feðginin. Greta og Þorsteinn Johnson. Myndin er tekin sumarið 1946, sennilega á gígbarminum í Helgafelli. „Mér var ungri sagt að ég líktist föður mínum í mörgu “ segir Greta
Tunga, byggð 1912 af Jóhanni Sörensen Reyndal. Hann og fjölskylda hans bjuggu í húsinu til 1920. Jóhann stofnaði þar bakarí. Hann var einnig útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.Tunga og bakaríið komust fáum árum eftir að Reyndal fiuttist frá Eyjum í eigu tengdasonar hans, Magnúsar Bergssonar, árið 1923, og enn síðar, 1957, í eigu tengdasonar Magnúsar, Sigmundar Andréssonar. Árið 1964 flutti Sigmundur bakaríið og heimili sitt á Vestmannabraut, þar sem húsið Gunnarshólmi var áður, og seldi Tungu ári síðar Sigurbjörgu lngimundardóttur. Sonur hennar, Sigurður Karlsson, breytti húsinu mikið. Þar var rekið veitingahús (Hótel Hamar og Hótel Berg) þar til það hvarf undir hraun i eldgosinu 1973.Þegar Magnús Bergsson keypti Tungu var hann ekki fjársterkur. Fjölskyldan bjó þá á efri hœðinni en Íslandsbanki (hinn fyrri) leigði miðhæðina og hafði afgreiðslu þar fram að 1930 þegar hann fluttist að Heimagötu I (í „Gamla bankann“). Þá fœrðu Magnús ug fjölskylda hans sig niður en efri hœðin varð hótel (Hótel Berg) sem Jóna Jónsdóttir stóð fyrir, hið eina i bœnum um langan tíma. Í Víði 1930 er auglýst að Magnús Bergsson haft opnað „kaffihús“ í Tungu! Myndin er tekin á þriðja áratugnum; síðar var byggt við húsið til vesturs

En það eru þó þessar undarlega skýru minningar Gretu um fjögur fyrstu ár ævinnar, 1916-1920, sem athygli vekja. Hún man vel afa sinn og ömmu í Jómsborg, en fátt af samkiptum við þau. Hún man þjóðhátíð í Herjólfsdal þar sem legið var í tjöldum, „við máttum ekki fara frá tjaldinu og vorum hrædd við fullu karlana“! Ekki síst eru minningabrotin frá leikvelli bernskunnar athyglisverð, frá Jómsborg og umhverfinu þar (hét þá Heimatorg, áður Krossgötur). Það er nú allt horfið undir hraun og gjall og lifir aðeins í myndum og minningum.
„Ég man“ skrifar hún „að það var mikið af fiski breitt til þerris fyrir framan hjá okkur.“ Og það stendur heldur betur heima því að á flötinni sunnan við Edinborg, norðan og vestan Jómsborgar, voru stakkstæði og þar var saltfiskur sólþurrkaður í stórum flekkjum eins og sjá má af myndum. Svo var árum saman, og Rafveituhúsið var ekki reist þarna á stakkstæðinu fyrr en eftir seinna stríð. „Ég var tveggja ára. Ég gekk niður tröppurnar í Jómsborg og faðir minn leiddi mig. Ég hélt í hægri hönd hans“ segir hún. Þetta er 1918 og hún heldur áfram: „Við gengum beint út. Til vinstri við okkur voru breiður af fiski sem var verið að þurrka. Ég man að hann skildi mig eftir augnablik því að hann þurfti að kasta af sér vatni. Svo sneri hann við og kom aftur til mín. Svo hitti hann einhvern vin sinn og talaði við hann. Ég man ekki hvert við vorum að fara, fórum til vinstri og því sennilega til Emmu sem ég lék mér við hvern einasta dag.“ „Emmu?“
„Já, Emma var vinkona mín. Hún átti heima í Tungu, bakaríinu. Þegar maður kom inn frá götunni lá stiginn upp á 2. hæð beint við. Okkur þótti svo gaman uppi því að þarna við stigaopið var baðherbergi með baðkeri! Og dag einn fylltum við baðkerið svo að út úr flóði og vatnið rann niður stigann. Þá heyrðist heldur betur í fullorðna fólkinu og við fengum skammir! Og við urðum hræddar og skömmuðumst okkar.“
Og enn kemur Emma við sögu. Þær leiksystur frá Eyjum hittast á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn 1922. „Faðir Emmu var í Struer á Jótlandi en með henni var kona sem passaði hana. Sú var alltaf að prjóna!“ Þetta hafa verið gleðilegir endurfundir leiksystra.
En hver var þessi Emma? Hver var faðir hennar í Tungu? Hvaða kona var að „passa“ hana?

Útúrdúr: Reyndal bakar og gerir út.

Árið 1912 fluttist til Eyja frá Bolungarvík danskur maður, Jóhann Pétur Sörensen, kallaði sig síðar Reyndal og var bakari. Hann fór á hausinn fyrir vestan en var ekki á því að gefast upp. Honum var ekki fisjað saman, fæddur í Árósum 1878, munaðarlaus varð hann barn að aldri en lærði bakaraiðn og fór til Íslands um aldamót, tvítugur að aldri.

Tengslin
Fjölskyldan í Tungu, dætur og tengdasynir
Reyndals-fjólskyldan. Myndin er tekin 1912-1914. Jóhann Sörensen Reyndal stendur milli systranna Halldóru, konu sinnar (til hægri), og Sigríðar (til vinstri) Kristjánsdœtra. Önnur litla stúlkan fyrir framan þau (t.v.) er Halldóra Valdimarsdóttir (Dóra á Berg), hin er óþekkt

Skömmu eftir að hann kemur til Eyja lætur hann, með aðstoð mágkonu sinnar, byggja steinhús, eitt hið stærsta og myndarlegasta í bænum, og kallaði það Tungu, en við þekkjum það betur sem Berg (Hótel Berg) eða Magnúsarbakarí, stóð við Heimagötu 4. Þar lét Reyndal setja upp bakarí með nýjustu tækjum. Hann var duglegur og reksturinn gekk vel. Reyndal tók þátt í útgerðarævintýrinu í Eyjum á þessum tíma, lét Jens Andersen (bróður Danska-Péturs) smíða fyrir sig vélbátinn Goðafoss árið 1916 (gekk fyrst vertíðina 1917) og tveimur árum síðar lét hann smíða Emmu á Ísafirði (kom um páskana 1919). Með Goðafoss var Árni Þórarinsson frá Oddsstöðum, ungur formaður og einn þeirra fyrstur sem réri með net. Hann var aflakóngur vertíðirnar 1918 og 1920. Emma var sú sem síðar komst í eigu Eiríks Ásbjörnssonar (og hann var löngum kenndur við). Halldór Magnússon, sem hefur skrifað um Reyndal „afa sinn,“ segir að um tíma hafi hann gert út þrjá báta.

Endurfundir á Ráðhústorginu á Kaupmannahöfn í mars 1922. Börnin eru (t.f.v.) Emma Reyndal, Þorsteinn og Greta Johnson. Margrét Madsen Johnson stendur fyrir aftan þau (til hœgri) og við hlið hennar er „Tanta“ (Sigríður Kristjánsdóttir)
Emma Reyndal, á þrítugsaldri

Jóhann og kona hans, Halldóra Kristjánsdóttir, gátu ekki eignast barn. Fyrst tóku þau og ættleiddu Dóru (Halldóru Valdimarsdóttur), meðan þau bjuggu í Bolungarvík, en móðir hennar hvarf þar sporlaust er hún var þriggja ára gömul. Dóra varð síðar kona Magnúsar Bergssonar bakara, dó 1942. En eftir að þau hjón fluttust til Eyja tóku þau annað barn, Emmu, sem var dóttir Höllu Guðmundsdóttur og Guðjóns Eyjólfssonar, útvegsbónda á Kirkjubæ, 12. barn þeirra af 14 (fimm dóu í æsku). Þau Guðjón og Halla bjuggu í Norðurbænum þar sem Magnús Pétursson bjó síðast. Svo brátt var þeim hjónum, Jóhanni og Halldóru, að fá Emmu að þegar eftir fæðingu hennar fór Jóhann ríðandi upp að Kirkjubæ og sótti barnið. Jóhann var elskur að þessu nafni, Emma, bæði barn hans og bátur báru það. Emma var fædd 25. jan. 1917 og því hálfu ári yngri en Greta.
Þetta er baksvið Emmu, vinkonu Gretu, þegar þær voru að gera prakkarastrik í Vestmannaeyjum fram á árið 1920. Þær Greta og Emma héldu vinskap í nokkur ár. Það er ekki erfitt að sjá hvernig þær tengjast, þessar litlu stúlkur. Stutt var á milli Jómsborgar og Tungu og hin unga danska húsfreyja í Jómsborg hlýtur að hafa komist í kunningsskap við samlanda sinn eins og aðra Dani sem henni var huggun í að hitta, svo langt frá heimaslóð þeirra, og vísast hafa þeir Þorsteinn í Jómsborg og Reyndal bakari haft um margt að tala.
Árið 1920 selur Jóhann Reyndal eigur sínar í Eyjum, húsið, bakaríið og báta, og flyst með fjölskyldu sína, þar á meðal Emmu, til Danmerkur, fyrst til Hafnar, síðan setur hann upp bakarí í Hjorring, nyrst á Jótlandi, og enn síðar fer hann til Struer við Limafjörð og kaupir þar herragarð, Strandbjerggárd. Þangað heimsótti Greta Emmu, vinkonu sína og leiksystur frá Vestmannaeyjum. Það var árið 1923 og Greta illa haldin af hettusótt! Með þeim hjónum, Jóhanni Reyndal og Halldóru Kristjánsdóttur, er alltaf í för Sigríður Kristjánsdóttir, systir Dóru og mágkona Jóhanns. Þegar Dóra, móðir Emmu, deyr frá henni fimm ára gamalli, árið 1922, gengur Sigríður móðursystir hennar — alltaf kölluð „Tanta“ — henni í móðurstað. Þær skildu ekki fyrr en Tanta dó 1955. Emma bjó lengst á Akranesi, lést 15. okt. 2001. Hún giftist þar Guðna Eyjólfssyni skipstjóra; þau eignuðust þrjú börn. Emma rækti vel samband við venslafólk sitt í Eyjum, Þórarin Guðjónsson á Kirkjubæ (Tóta), Jórunni, konu Guðmundar Guðjónssonar frá Oddsstöðum (Jóku í Presthúsum), Þórdísi í Svanhól, konu Sigurðar Bjarnasonar (oft kenndur við Hlaðbæ), Edvin Jóelsson („Góa“), sem ólst upp hjá Höllu og Guðjóni, og þau systkini öll, svo og að sjálfsögðu fjölskyldu Magnúsar Bergssonar bakara.
Ekki er vitað hvers vegna Jóhann Reyndal selur eignir sínar í Eyjum og flyst til Danmerkur 1920; eitthvað mun útgerð Emmu hafa gengið brösótt og vélin var alltaf í ólagi. Kannski var hann orðinn nógu efnaður til að láta drauma sína rætast, að verða herragarðseigandi í Danmörku. Það virðist mikil ólga í blóði hans og hann stendur ekki lengi við á hverjum stað. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, sem var í sumardvöl hjá Reyndalsfjölskyldunni í Eyjum 1914, gefur skemmtilega lýsingu á Reyndal bakara í ævisögu sinni. Sem verkfræðistúdent í Danmörku heimsótti Sigurður fjölskylduna á ný á herragarðinn í Struer 1922, skömmu eftir andlát Dóru. Hann lýsir búskapnum, sem var umsvifamikill, og lýsir Reyndal svo: „Reyndal var í meðallagi á hæð, hnellinn og samanrekinn. Skapgóður og gamansamur. Hálfsköllóttur var hann, ljóseygur og augun útstæð. Dugnaðarforkur var hann til vinnu, því kynntist ég vel í Vestmannaeyjum. Hann virtist hafa kvenhylli, þótt ekki væri hann fríður maður að mínu mati.“
Ekki varð búgarðsævintýri Reyndals langt því að hann fluttist á ný til Íslands 1926 og með honum Emma og Tanta. Hann settist að á Akranesi og tók til við iðn sína, setti upp og rak bakarí þar um tíma, fluttist svo til Reykjavíkur. Hann giftist á ný árið 1934, meðan hann var á Akranesi, Guðrúnu Benediktsdóttur. Hún var systir Guðmundar Benediktssonar, borgargjaldkera í Reykjavík, sem var giftur Þórdísi Vigfúsdóttur, einni systurinni frá Holti. Þórdís Vigfúsdóttir og Emma Reyndal voru systradætur. — Jóhann Reyndal bjó hér á landi eftir þetta, rak bakarí, síðast í Reykjavík þar sem hann dó haustið 1971.

Óskar: Aflaskipstjóri í Bókabúðinni.
En víkjum á ný að Jómsborgarfólki.

Enginn veit hvað fyrir Óskari Johnson hefði legið ef hann hefði fundist og farið með móður sinni til Kaupmannahafnar fimm ára gamall árið 1920. Hann ólst upp hjá föður sínum, afa og ömmu í Jómsborg í Vestmannaeyjum. Og þá var meira en líklegt að hann fyndi kröftum sínum stað í bjargræðisvegi Eyjamanna, fiskveiðum. Hann fór ungur á sjó, er skráður á Kára 1931, 15 ára gamall, er síðan á Herjólfi og fleiri bátum. Hann tók minna vélstjórapróf 1934 og sama ár minna skipstjórapróf, hvort tveggja í Eyjum. Hann var mótoristi nokkrar vertíðir á Gulltoppi með Binna í Gröf, sennilega 1935-1938. Óskar verður svo „formaður“, fyrst á Gullveigu 1939-1941, bát sem Sæmundur föðurbróðir hans gerði út. Óskari gekk vel svo að Einar Sigurðsson lætur smíða undir hann nýjan bát, Tý, besta skip flotans á þeim tíma, og var hann með þann bát í þrjár vertíðir. Óskar fór í Stýrimannaskólann, líklega eftir síldarúthaldið á Gullveigu 1941, og lauk fiskimannaprófi hinu meira árið 1942. Meðan hann var í skólanum bjó hann hjá Tómasi Jónssyni kjötkaupmanni („Kjötbúð Tómasar“) og konu hans, Sigríði Sighvatsdóttur, sem var frænka Óskars (afasystir). Óskar sigldi á Bretland í stríðinu, eftir að hann hafði lokið „skólanum“, var stýrimaður á Sæfinni NK 76 frá Norðfirði, rúmlega 100 tonna bát. Honum gekk líka vel á síldveiðum.

Formenn í fjóra ættliði
Óskar Þ. Johnson, skipstjóri og síðar bóksali

Þannig blasti við að Óskar yrði í fremstu röð formanna í Eyjum, kannski stórútgerðarmaður með sama framhaldi, en aðeins fáum árum eftir að hann lauk skólanum, sennilega 1946, söðlar hann um, þessi farsæli og duglegi skipstjóri, hættir sjómennsku um þrítugt og gerist verslunarmaður hjá föður sínum í Bókaverslun Þorsteins Johnsonar. Sjálfsagt hefur faðir hans viljað búa hann undir að taka við forretningunni sem var næsta blómleg, eina bóka- og ritfangaverslunin í þessum stóra bæ, og stóð af sér allar samkeppnistilraunir, auk góðra heildsöluumboða (kaffi, smjörlíki, sælgæti o.fl.). Þannig hafði gamli maðurinn sjálfur haft það, horfið af sjónum á góðum aldri og tekið við verslunarrekstri af föður sínum. Og svo fór auðvitað að þetta varð annað lífsstarf Óskars, hann rak bókaverslunina og heildsöluna, fyrst með föður sínum og svo einn fram að gosi, með miklum myndarbrag. Í búðinni fengust bækur, ritföng og skór (m.a. klofstígvél), dönsku blöðin (og ensku) og sjókort. Óskar var aðsjáll, stundum dálítið hvumpinn við okkur krakkaskrílinn sem hékk í búðinni eða á gluggunum, en hann var traustur og greiðvikinn við sína viðskiptavini. Sagt er að hann hafi jafnan verið fyrstur bóksala á landinu til að gera upp við forlögin eftir jólavertíðina, strax um áramót! Bára Sigurðardóttir frá Bólstað vann í bókabúðinni upp úr stríði og sagði að þar hefði verið gott að vinna, góður andi og vel gert við starfsfólk. Annars var Óskar glaðlegur í framkomu, en dulur um eigin hagi. Hann var alla tíð kvikur á fæti, göngumaður mikill og vel á sig kominn. Hann varð fyrsti stakkasundsmeistari Vestmannaeyja 1936.

Óskar giftist 1935 Sigríði Jónsdóttur frá Steig í Mýrdal. Hún vann lengi í bókaversluninni. Þau slitu hjúskap sínum eftir nær 40 ára samvistir. Þau bjuggu fyrst í Jómsborg, en fluttust síðar á Hilmisgötu. Guðbjörg Bergmundsdóttir, móðursystir mín, var í vist í Jómsborg hjá þeim hjónum þegar elsta barn þeirra fæddist og líkaði vel. Hún veitti því eftirtekt hve vel birg þau voru af alls kyns dönskum varningi sem ekki fékkst á venjulegum heimilum í bænum á þeim tíma. Um miðjan sjöunda áratuginn keyptu þau verslunar- og íbúðarhúsið Heiðarveg 9, þar sem bókaverslunin er núna, bjuggu uppi en höfðu verslun niðri; og var svo fram að gosi. Um tíma var líka „útibú“ frá bókaversluninni á jarðhæðinni á Strandbergi við Strandveg. Í gosinu bjuggu Óskar og Sigga fyrst hjá dóttur sinni og tengdasyni í Garðabæ en reistu sér svo þar hús og bjuggu þar þangað til leiðir skildi. Þau héldu áfram bóksölu í Reykjavík eftir gosið, Bókahúsið hét búðin, en Óskar hvarf frá því við skilnaðinn. Sambýliskona Óskars síðustu árin var Jóhanna Þ. Matthíasdóttir frá Fossi á Síðu. Hann vann síðustu starfsár sín hjá Heildversluninni O. Johnson og Kaaber sem hann hafði haft umboð fyrir lengi í Eyjum. Hann lést í Reykjavík árið 1999. 84 ára að aldri.

Skipshöfnin á Gulltoppi VE 321 1936. Sitjandi (frá vinstri): Hákon Maríusson frá Húsavík, Benoný Friðriksson frá Gröf, formaður, Óskar Þ. Johnson, vélstjóri, og Valgeir Ólafsson. Standandi (frá vinstri): Þórður Ólafsson (bróðir Valgeirs), Hjörtur Gunnlaugsson, Steinn Einarsson, óþekktur og Alfreð Benediktsson. A flöskurn er Bitter-brennivín!

Óskar var lipur veiðimaður, veiddi lunda og seldi bæjarbúuum, en Sigríður, kona hans, reytti fuglinn. — Hann var mikill safnari og átti gott bókasafn, einkum um þjóðleg fræði; á endanum keypti Guðmundur Axelsson í Klausturhólum safnið.
Eins og að líkum lætur var Óskar bóksali með hugann við aflabrögð og sjómennsku þegar dró fram á vertíð. Hann brá sér þá oft í gönguferð á bryggjurnar til að fylgjast með. Einhverju sinni, stuttu eftir að hann hætti á sjónum, var hann staddur í Verkamannaskýlinu á Básaskersbryggju að fá fréttir. Þar var þá líka staddur Markús í Fagurhól Sæmundsson. Hann var frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð, bróðir Sigurðar á Hallormsstað og Nínu myndhöggvara. Friðrik á Löndum, sem þá var unglingur, segist hafa heyrt Markús kalla til Óskars að það væri undrunarefni að svo aflasæll maður, fyrirmyndarformaður, hætti sjómennsku á besta aldri. Óskar svaraði engu, brosti og fór sína leið.

Þorsteinn Johnson:
Fyrsti vélstjóri Eyjaflotans.
Þorsteinn Johnson, faðir Óskars, var fæddur undir Vestur-Eyjafjöllum 10. ágúst 1884. Hann flyst með föður sínum til Eyja 1897 og byrjar þar sjómennsku um leið og hann hefur krafta til. Hann varð fljótt samverkamaður Þorsteins í Laufási, fór með honum til sjóróðra austur á land (Seyðisfjörð t.d.) á fyrstu árum aldarinnar og er á sexæringnum Ísak þegar sú mikla ákvörðun er tekin um páskana 1905 að festa kaup á vélbát sem síðar hlaut nafnið Unnur. Þeir áttu bátinn saman nafnarnir, Þorsteinn í Laufási og Þorsteinn í Jómsborg, Geir Guðmundsson, síðar á Geirlandi, Friðrik Svipmundsson, síðar á Löndum, og Þórarinn Gíslason á Lundi, mágur Þorsteins í Laufási. Unnur fór í fyrsta róður 3. febr. 1906, daginn eftir kyndilmessu, og kom með um 300 fiska að landi þann dag. Unnur var 33 feta bátur, mældur 7,23 tonn, og var með 8 ha. Danvél. Þorsteinn í Jómsborg var ráðinn vélstjóri, sá fyrsti í Eyjaflotanum. Þorsteinn í Laufási segir í bók sinni „Aldahvörf í Eyjum“ að þeir hafi verið svo heppnir að Halldór Guðmundsson raffræðingur úr Mýrdal, nýkominn frá námi erlendis, hafði brugðið sér til Eyja til að gifta sig, en hann var annálaður vélamaður. Tók hann þá félaga á vikunámskeið í að hirða um vélar með þeim árangri að vélin bilaði aldrei alla vertíðina, og máttu það heita mikil undur. Enda gat nú enginn, sem fékkst við útgerð í Eyjum, efast um hver framtíðin í þeim atvinnuvegi yrði. Næstu vertíð, 1907, voru gerðir út 22 vélbátar, 1908 um 40 og 1909 um 50 vélbátar.

Oftast er Unnur talin fyrsti vélbáturinn sem kom til Eyja. Það mun hins vegar ekki vera alls kostar rétt. Mótorbáturinn Eros („Rosi“) kom til Eyja 1904 en hann var ekki notaður til fiskveiða. Fyrsti vélknúni fiskibáturinn mun svo vera Knörr VE 78 sem kom til heimahafnar 5. sept. 1905. Það var Sigurður Sigurfinnsson, faðir Einars ríka, sem keypti bátinn í Noregi, 14 tonn að stærð. Hann fór á honum með seglum einum saman til Fredrikshavn í Danmörku þar sem vélin var sett í hann. Hún var aðeins 8 ha. (Dan-vél). Sigurður sigldi Knerri til Eyja og varð þannig fyrstur til að sigla vélbát yfir úthafið. Unnur kom fjórum dögum seinna til Eyja, 9. sept. 1905, með eimskipinu Laura. Útgerð Knarrar gekk ekki vel, vélin reyndist of lítil fyrir bátinn. Þorsteinn í Laufási hlýtur því að teljast „brautryðjandi“ vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum eins og nafni hans í Jómsborg kemst að orði í blaðinu Víkingi 1955.
Áraskipin, hin aldagamla hefð róðrarskipa við Eyjar, hurfu úr sögunni á nokkrum árum. Stærri skipin, tíæringar og áttæringar, hverfa fyrst, segir Gísli á Bessastöðum, en sexæringar halda lengur velli. Ólafur Ástgeirsson í Litla-Bæ smíðar sexæringa 1913 og 1914 og þeir bræður, Ólafur og Kristinn, róa þessum skipum fram yfir 1920 og eru taldir síðustu áraskipaformenn á vetrarvertíð í Eyjum. Vertíðina 1916 er talið að 12 áraskip séu enn gerð út. Vorbátarnir gengu lengur, fram undir 1930.

Konur og börn Þorsteins í Jómsborg

Þorsteinn í Jómsborg hefur kynnst sjómennsku fyrst við Eyjafjallasand þegar faðir hans stjórnaði þar skipi við sandinn. En sjómennsku byrjar hann sjálfur að ráði eftir að hann kemur til Eyja um fermingu. Samt virðist sem hugur Þorsteins hafi stefnt annað því að eftir tvær vertíðir á vélbátnum Unni hverfur hann úr Eyjum 1907 og fer til náms erlendis í verslunarfræðum, bæði í Danmörku og Englandi. Þar er hann nokkur ár uns hann flyst á ný til Eyja, sennilega 1914, og setur þá á fót skóverslun en sameinar hana síðar bókaverslun föður síns. Í blaðinu Skeggja 8. des., 1917 auglýsir „Skóverslun Þorsteinn Johnson“ nýja sokka! Þetta skýrir hvers vegna var hægt að fá skó, t.a.m. gúmmískó og strigaskó, í bókaversluninni alveg fram að gosi!

Jóhann Gunnar Ólafsson segir í eftirmælum að Þorsteinn hafi líka fengist við bókaútgáfu um skeið; hann gaf að sönnu út „Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum“ eftir Jóhann Gunnar og enn fremur nokkrar fleiri bækur.

Mótorbáturinn Unnur (teikning) sem þeir áttu saman, Þorsteinn í Laufási, skipstjóri, og Þorsteinn í Jórnsborg, vélstjóri, ásarnt fleirum. Báturinn gekk fyrstur vélbáta við Eyjar vertíðina 1906 ásamt Knerri

Þorsteinn í Jómsborg hóf fyrstur manna í Eyjum að reka kvikmyndahús, árið 1917. Hann sýndi fyrst myndir í „Templaranum“(þar sem Samkomuhúsið reis síðar) en byggði svo Nýjabíó sem stóð, og stendur eiginlega enn, við Vestmannabraut þar sem Hótel Þórshamar er núna. Þetta var mikið hús og sýndi áræði manna eins og Þorsteins á þessum tíma. Miðasölu annaðist Steindór í „gatinu“! Síðar var kvikmyndareksturinn sameinaður starfseminni í Samkomuhúsinu þegar það kom til sögunnar. Óskar, sonur Þorsteins var sýningarmaður þar fram á miðjan sjötta áratuginn.
Þorsteinn stundaði lítt sjómennsku í venjulegum skilningi eftir að hann kom heim frá námi og hóf verslunarrekstur. Hann hafði engu síður mikla ánægju af sjóferðum og veiðiskap. Jóhann Gunnar segir í áðurnefndri grein um Þorstein að þeir hafi farið margar ferðir á „smáferju“ (sem við mundum kalla trillu núna) til veiða á grunnmiðum við Eyjar, hann var duglegur og fiskinn. Ein síðasta bátskæna hans hét „Soffía“. — Það er tæpt að kalla Þorstein „formann“ í venjulegum skilningi þess orðs en hann hefur sannarlega stýrt fleyi um Eyjamið. Í þekktri vísu úr kvæðinu „Smámynd“ eftir Gest Auðunsson frá Sólheimum segir líka:

„Steini í Jómsborg þar stendur á skaki,
stýrir burt þegar hvergi fæst bein ...“
Gömul mynd af verslunarhúsi Þorsteins Johnsonar, síðar Bókabúðinni við Kirkjuveg. Sennilega er húsið að stofni til viðbygging við Jómsborg en flutt á Kirkjuveg árið 1926 (andspœnis Grafarholti) og byggt við það þar. Í blaðinu Skeggja 9. okt. 1926 birtist svohljóðandi auglýsing: „Skóbúð verður opnuð eftir helgina í húsi minu er stendur milli Garðhúsa og Rafnseyrar. Þorsteinn Jónsson“. Húsið („Skóbúðin“) og Gróuhús voru flutt „nokkurn spöl“ til vesturs (nœr Garðhúsuin) árið 1934 þegar neðri hluta Kirkjuvegarins var breytt eftir að byggt var við gömlu rafstöðina i austur og út í Kirkjuveginn gamla (að Steinholti og Borgarhól). Nýi vegurinn var sveigður til vesturs (vestan við rafstöðina). — Síðar var byggt lagerhús bak við verslunina til að geyma umboðsvörurnar, Kaaberkaffi, smjörlíki, Freyju-vörur (staura og karamelliir) og fleira. Á efri hœð í því húsi var ibúð, kannski œtluð Þorsteini. Hún var aldrei notuð sem slik, en var geymsla.Til hœgri á rnyndinni sést í Rafnseyri, en það hús var flutt 1934, fyrst á Vestmannabraut, milli Miðgarðs og Vallar, og siðar á Fa.xastíg 24 þegar Útvegsbankabyggingin reis um miðjan sjötta áratuginn

Hvort sem Þorsteinn hefur verið „formaður“ eða ekki þá er alveg ljóst að bræður hans, Þorvaldur og Oddur, voru það, svo að formennska hefur haldist í fjóra ættliði hvað sem öðru líður!
Þorsteinn hefur notið þess að eiga stöndugan föður, Jón Sighvatsson. Þeir feðgar, og Sæmundur bróðir Þorsteins, voru saman í útgerð. Í bók Þorsteins í Laufási kemur fram að þeir gera út Faxa frá 1920; hann var smíðaður í Eyjum árið 1919, tæp 12 tonn (30 ha. Alfavél). Formaður fyrsta árið var Guðmundur Jónsson á Háeyri. Faxi var seldur 1927, varð síðar Skógafoss VE 77 (stundum kallaður „Púllafoss“), gerður út í Eyjum á stríðsárunum af Páli Jónssyni („Púlla“), frægum manni, sem bjó á Hótel Berg öll stríðsárin meðan hann gerði út í Vestmannaeyjum og borðaði hjá Jónu. Þeir bræður, Þorsteinn og Sæmundur, ásamt mági Sæmundar, Kristjáni Gíslasyni frá Hlíðarhúsum, áttu Litlu-Unni, rúml. 6 tonna bát með 11 ha. Alfavél sem var gerður út frá 1917 til 1925; formaður fyrstu árin Helgi Bachmann en hann átti einnig í bátnum. Þeir gera einnig út Sæbjörgu VE 244 vertíðirnar 1924-1926. Sæbjörg varð síðar fyrsta fiskiskip í eigu Einars ríka — en ekki það síðasta!
Þorsteinn fékkst líka við fiskkaup og útflutning en varð fyrir miklu tjóni þegar kreppan skall á, svo að hann komst í þrot. Það var svo heiðarlegum manni eins og Þorsteini erfitt að geta ekki staðið í skilum við lánardrottna sína, en það mun honum þó hafa tekist um síðir. Hann rétti úr kútnum og varð á ný með árunum vel stæður maður.
Þorsteinn Johnson var röskur maður, kvikur í hreyfingum, heiðarlegur í viðskiptum. Jóhann Gunnar Ólafsson, fyrrv. bæjarstjóri, segir í fróðlegri minningargrein í Morgunblaðinu um Þorstein að hann hafi verið svo „svefnléttur“ að hann hafi venjulega verið búinn að fá sér morgungöngu suður fyrir Helgafell um það leyti sem aðrir voru að koma á fætur „þó þeir væru árrisulir“! Jóhann segir að hann hafi verið bjargmaður og m.a. farið margar ferðir um Heljarstíg milli Miðkletts og Ystakletts, en það er eins og menn vita ekki á færi meðalmenna. Hann var mikill göngu- og ferðagarpur, stofnaði Ferðafélag Vestmannaeyja og var virkur þar meðan það félag lifði. Þorsteinn var hins vegar hlédrægur maður og var ekki riðinn við opinber mál að neinu ráði, sat þó í hafnarnefnd og var á framboðslista til bæjarstjómar á þriðja áratug aldarinnar.

Ekki er ljóst hvenær Þorsteinn tekur upp ættarnafnið „Johnson“ en sennilega hefur það verið meðan hann var erlendis. Það var ekki gert af neinni fordild, segir Haraldur Guðnason, heldur til þess að forðast nafnarugling við marga alnafna hans, bæði hér heima og erlendis.

Afgreiðslufólk í Bókaverslun Þorsteins Johnsonar um 1945. Talið frá vinstri: Þorsteinn kaupmaður, Bára Sigurðardóttir frá Bólstað, Guðný Jesdóttir frá Hól (stendur fyrir aftan) og Elín Vilhjálmsdóttir frá Sœbergi

Þorsteinn í Jómsborg giftist tvívegis eftir að Margrét Madsen fór frá honum. Hálfu öðru ári eftir það, 25. apríl 1922, giftist hann Sigurlaugu Björnsdóttur frá Skagaströnd, 26 ára gamalli, en hann tólf árum eldri. Sigurlaug var systir Þórarins Björnssonar, skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Þau Þorsteinn eignast barn í nóvember um haustið en svo sorglega fer að Sigurlaug deyr fáum vikum eftir barnsburðinn og dóttir þeirra fær nafn móður sinnar, Sigurlaug Þórey Þorsteinsdóttir. Hún lést í árslok 2001. Sigurlaug var lengi röntgenhjúkrunarkona á Landspítalanum, var í framhaldsnámi erlendis nokkur ár, m.a. í Danmörku. og hafði þá gott samband við Gretu, systur sína. Sigurlaug Þorsteinsdóttir var á ýmsum stöðum í æsku, mest hjá föður sínum og ráðskonu hans þá, Svövu Jakobsdóttur, en fór svo í Hjúkrunarkvennaskólann. Sigurlaug giftist 1948 sr. Hermanni Gunnarssyni og varð prestsfrú á Skútustöðum í Mývatnssveit. En lánið varð henni hverfult sem fyrr og maður hennar lést af slysförum eftir þriggja ára sambúð, 10. okt. 1951. Þau áttu eina dóttur, Ragnheiði; hún er gift Magnúsi Jóhannessyni í umhverfisráðuneytinu, áður siglingamálastjóra. Hún var alin upp hjá föðursystur sinni, Bergþóru Gunnarsdóttur, og manni hennar, Kjartani Sveinssyni rafmagnstæknifræðingi frá Ásum í Skaftártungu. Hálfbróðir hennar er Baldur Hermannsson kvikmyndagerðarmaður. Sigurlaug Þorsteinsdóttir þótti hlédræg stúlka þegar á unga aldri og það fylgdi henni alla tíð.
Eftir að Þorsteinn varð ekkjumaður bjó hann einn æðilengi, hafði herbergi í Ásgarði en giftist um síðir, 1953, hátt á sjötugsaldri, Guðrúnu Árnadóttur (Filippussonar) sem þar bjó. Hún var kjólameistari að mennt og saumaði fyrir fólk. Guðrún þótti um margt sérstök kona. Þorsteinn og Guðrún nutu góðra daga þau fáu ár sem þau voru í hjónabandi. Þau áttu sumarbústað á móts við Dali, þar sem norður-suður-flugbrautin liggur nú, og voru þar mikið á sumrin. Katrín Gunnarsdóttir, sem átti Guðrúnu að ömmusystur og er alin upp í Ásgarði, segist eiga sérstaklega góðar minningar með þeim hjónum þar í bústaðnum. — Á efri hæðinni í Ásgarði bjuggu Katrín Árnadóttir, systir Guðrúnar, og maður hennar, Árni Árnason, símritari og fræðagrúskari mikill.
Þorsteinn lést 16. júní 1959, Guðrún lifði hann í 40 ár, dó í okt. 1999. Eftir andlát Þorsteins vann Guðrún í bókabúðinni um tíma og margir muna hana þar innanbúðar.

Jón Sighvatsson: Sandaformaður og síðar bókavörður.

Sigurlaug Þorsteinsdóttir heldur á dóttur sinni undir skírn. Eiginmaður hennar, sr. Hermann Gunnarsson, blessar barn sitt
Þorsteinn Johnson og þriðja kona hans, Guðrún Árnadóttir frá Ásgarði

Þorsteinn í Bókabúðinni var ekki ættlaus maður, fjarri fer því. Faðir hans var áberandi maður í bæjarlífinu, kaupmaður og útgerðarmaður, en auk þess bókavörður bæjarsafnsins um mörg ár. Jón var fæddur á Ysta-Skála undir Eyjafjöllum 4. júlí 1856. Guðný Brynjólfsdóttir móðir hans var vinnukona í Eyvindarholti hjá Sighvati Árnasyni þegar barnið kom undir. Hún var fædd 1825 og því rétt um þrítugt er hún fæddi Jón. Guðný var frá Miðskála en forfeður hennar höfðu lengi búið í Skipagerði í Landeyjum og þóttu merkisfólk. Guðný giftist síðar Magnúsi Magnússyni sem var járnsmiður og þau bjuggu í Kirkjulækjarkoti. Sonur þeirra, og hálfbróðir Jóns Sighvatssonar, var Markús bóndi sem var annálaður smiður, „ekta maður“ segir Oddgeir Guðjónsson í Tungu, nágranni þeirra. Sonur hans og Margrétar Árnadóttur, sem var mikil trúkona, var Guðni Markússon en hann varð hvítasunnumaður, eins og margir þekkja, gaf guði föðurleifð sína, Kirkjulækjarkot í Fljótshlíð, og mikinn strákahóp sem allir eru „í flokknum“. Guðni þótti afbragðsmaður, snillingssmiður, rokkasmiður góður, mikill vinur Einars í Betel.

Jón Sighvatsson lærði söðlasmíði sem ungur maður og líka bókband. Hugur hans hefur snemma hneigst að bókum og fræðagrúski. Í Skógasafni eru varðveitt nokkur handrit frá honum, m.a. nokkrar þjóðsögur sem hann skrifaði. En Jón gat ekki lifað á því. Hann stundaði sjómennsku við Eyjafjallasand árum saman og var formaður, „sandaformaður“ eins og kallað var. „Þótti heppinn“ segir Haraldur Guðnason um hann. Jón giftist 1883, 27 ára, Karólínu Kristínu Oddsdóttur sem var jafngömul honum. Í safninu í Skógum er varðveitt handskrifað brúðkaupskvæði handa þeim sem Þorsteinn Erlingsson orti. Börn þeirra eru fædd í Efri-Holtum undir Eyjafjöllum þar sem þau Jón og Karólína bjuggu. Karólína var ættuð af Snæfellsnesi, úr Eyrarsveit og Helgafellssveit, en ekki er ljóst hvar leiðir þeirra lágu fyrst saman. Að henni stóð venjulegt bænda- og verkafólk í þeim sveitum. Oddur Jónsson faðir hennar var bóndi á Hellnafelli í Eyrarsveit, áður í Fjarðarkoti í Helgafellssveit og fleiri stöðum. Kristín Magnúsdóttir, móðir hennar, fluttist til dóttur sinnar í Eyjum eftir andlát Odds 1897, hún dó þar 1917.

Fjölskyldan í Jónsborg

Jón flyst til Eyja með fjölskyldu sína fyrir aldamót, árið 1897, þau eru skráð „innkomin í sóknina“ það ár; hjónin eru rétt rúmlega fertug og börnin sex: Þorvaldur, Þorsteinn, Oddur, Sæmundur, Kristín og Jónína. Þau búa lengi í tómthúsinu Jómsborg sem var á lóðamörkum Garðs og Godthábs, segir Jóhann Gunnar. Þar eru þau a.m.k. skráð 1906.
Það er athyglisvert að Jón Sighvatsson kemur til Eyja nokkru áður en atvinnubyltingin, vélbátaútgerðin, hefst 1906 og fólk fer að flykkjast út í Eyjar svo að íbúafjöldinn sexfaldast á skömmum tíma. Við vitum ekki hvers vegna Jón fer frá Efri-Holtum, en hann verður pakkhússmaður hjá Bryde kaupmanni og síðar Gísla Johnsen, allnokkur ár, þangað til hann stofnar eigin bókaverslun í Jómsborg, en rak samhliða útgerð með sonum sínum og öðrum.
Börn Jóns og Karólínu í Jómsborg voru myndarleg á velli og hávaxin. Elstur var Þorvaldur; hann var fæddur 1882 en drukknaði 1903, líklega 22. maí, við Klettsnefið. Hann var að koma úr róðri á áraskipi, uppgripaafli, en þegar þeir ætluðu að vinda upp segl hvolfdi bátnum. Þrír menn komust af — þar á meðal Högni Sigurðsson, sem síðar bjó í Baldurshaga, faðir Ísleifs alþingismanns og þeirra systkina — en þrír drukknuðu. Einn þeirra var Þorvaldur, formaður á bátnum, 21 árs gamall. Ekki er á prenti tilgreint hvað báturinn hét, en Gísli Eyjólfsson á Bessastöðum getur sér þess til að það hafi verið „Önd VE 23“, vorbátur í eigu Jóns Sighvatssonar, föður hans, 1,83 lesta bátur úr eik og furu, smíðaður í Eyjum, sexróinn (ekki „sexæringur“). Vorbátarnir voru léttari en vertíðarskipin, léttari við setningu og gengu betur undir árum, enda mun minni. Þegar vetrarvertíð lauk, 11. maí, voru landmenn lausir og þá var skipt yfir á vorbátana og vorvertíð hófst, segir Gísli; hann nefnir sem dæmi að á sexæringi hafi verið 14 manna áhöfn, á áttæringi 18-19 manna áhöfn. Þetta voru þung og mikil skip.

Þorsteinn var næstelstur, fæddur 1884 eins og áður er frá greint.

Jómsborg, eftir nokkrar breytingar á húsinu. Talið er að viðbyggingin til hægri hafi verið flutt á Kirkjuveg um miðjan þriðja áratuginn. Vörubílastöðin var í Jómsborg í nokkur ár, fram til 1940
Brœðurnir Oddur (t.h.) og Þorsteinn Jónssynir frá Jómsborg. Myndin er tekin á Seyðisfirði um aldamót. Þar hafa þeir verið við sjóróðra

Oddur var fæddur 1885 (dánarvottorð segir raunar 1887). Hann varð formaður á mótorbátnum Blíðu, sem faðir hans átti í, vertíðirnar 1908-1910 en vendir þá kvæði sínu í kross og flyst til Vesturheims. Hann fékkst við ýmis störf, trésmíðar, reyndi m.a. fyrir sér í gullævintýrinu sem þá stóð sem hæst í Alaska, vann í námum, en uppskeran varð ekki mikil! Árið 1915 var hann í Vancouver sem vélamaður, en 19. sept. 1917 var hann kvaddur í bandaríska herinn og tekur þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann sigldi til Liverpool, fer á vígstöðvarnar í Frakklandi, en samkvæmt heimildum fer hersveit hans síðan til Archangels í Rússlandi til að verja það svæði fyrir herjum kommúnista. Eftir stríðið kom Oddur á ný til Íslands til þess að fastna sér þá konu sem hann vildi eiga, Helgu Jónsdóttur, fædda á bænum Litla-Hrauni við Stokkseyri 23. okt. 1900. Hún er skráð í Smiðshúsi á Eyrarbakka 1910, enda ólst hún þar upp með föðurfólki sínu. Hún átti hálfsystur í Vestmannaeyjum, Viktoríu Jónsdóttur, konu Halldórs Eyjólfssonar, vélstjóra í Ísfélaginu; þau bjuggu í Sunnuhlíð við Vesturveg. Þau Oddur og Helga giftu sig hér heima 29. mars 1924 og héldu svo vestur um haf í maí sama ár með skipinu S.S. Leviathan. Þau settust að og byggðu sér hús við bæinn Wayne, um 10 mílur frá Detroit í Michigan. Þar stundaði Oddur smíðar og nokkra garðyrkju. Þau fluttust svo frá Michigan til Los Angeles í Kaliforníu árið 1938 því að Oddi þótti betra að stunda smíðar allan ársins hring í blíðviðrinu í Kaliforníu en í hinum rigningasömu norðvesturríkjum þar sem vetur gátu verið snjóasamir. Hann fékkst þó mest við innanhússsmíðar („finish-carpenter“) á vesturströndinni, rak eigið fyrirtæki og efnaðist vel. Á árunum 1942-1943 vann Oddur hjá hinum fræga milljarðamæringi og furðufugli Howard Hughes við að smíða nýjan risaflugbát úr tré, „Grenigæsina“ (Sprouce Goose), átta hreyfla ferlíki sem átti að annast birgðaflutninga til bandamanna í Evrópu í stað skipa, en hann komst aðeins einu sinni á loft og flaug ekki langt í það sinnið! Þau Oddur og Helga bjuggu fyrst rétt við Hollywood og Oddur vann mikið að smíðum hjá kvikmyndafyrirtækinu Fox; hafði vinnuflokk þar. Röskum áratug síðar, árið 1951, fluttust þau til Glendale, aðeins norðar á Los Angeles-svæðinu, þar sem fjölskyldan býr enn. Þau Oddur og Helga eignuðust einn son, Tom, sem er á lífi, málhress og kvikur, „sjaldan kyrr á sama stað og líkist Óskari frænda sínum“ segir Kristinn Waagfjörð sem hitti hann fyrir nokkrum árum. Hann heitir Tómas Þorvaldur fullu nafni (en er skrifað upp á ensku), kona hans er Gwen (Gwendola). Þau eignuðust þrjú börn, afkomendur úr Jómsborg þar vestra orðnir níu! Oddur dó 26. sept. 1962, en Helga 3. júní 1973. — Ekki er vitað hvers vegna Oddur fluttist burt frá Vestmannaeyjum, ungur formaður. Tom, sonur hans, telur að eftir þrjár vertíðir sem formaður hafi metnaði hans í Eyjum verið fullnægt, hann hafi viljað reyna eitthvað nýtt, vitja nýrra ævintýra, kannski líkt og Þorsteinn bróðir hans sem fór utan 1907. Engin orð Odds síðar gátu bent til ósamkomulags við fjölskylduna, t.d. út af útgerðinni.

Oddur Jónsson og kona hans, Helga Jónsdóttir ásamt syni þeirra, Tom (Tómasi Þorvaldi). Myndin er sennilega tekin í Los Angeles 1938
Hús Odds Jónssonar sem hann byggði fyrir sig og fjölskyldu sína í Wayne Michigan eftir að þau Helga settust að fyrir vestan

Sæmundur bjó á Gimli. Hann var fæddur 1888, giftist 1919 Guðbjörgu Gísladóttur frá Hlíðarhúsum. Hún var systir sr. Jes á Hól og þeirra mörgu systkina, barna Gísla Stefánssonar í Hlíðarhúsum og Soffíu Lísbetar Andersdóttur, en Gísli varð fyrsti íslenski kaupmaðurinn í Vestmannaeyjum 1881. Guðbjörg var fráskilin, var áður gift Aage Lauritz Petersen símstjóra; þau áttu fjögur börn, nafnkennd eru Gísli Friðrik læknir og prófessor og Ágúst F. listmálari. Sæmundur og Guðbjörg áttu einn son, Jón ljósmyndara, en einnig ólst upp hjá þeim dóttursonur Guðbjargar, Ólafur, síðar lyfjafræðingur á Húsavík. Hann var sonur Ólafs ritstjóra Magnússonar frá Sólvangi sem lést ungur, dó úr berklum 1930. —
Sæmundur var á ungum aldri við verslun J.P.T. Brydes og síðar hjá föður sínum. Þegar fyrsta áfengisverslun á vegum ríkisins var sett á fót í Vestmannaeyjum 1922 varð Sæmundur útsölustjóri; verslunin var þá í Jómsborg. Hann var svo í útgerð með föður sínum, bræðrum og mágum. Hann gerði lengst út Gulltopp, frá 1935 til 1952, og Gullveigu (sem síðar grotnaði niður vestast í slippnum og margir muna enn) frá 1938 til 1947. Veiðarfæra- og fiskverkunarhús hans stóð fyrir neðan Sjávargötu, ofan við Björgvin. Árið 1956 hætti Sæmundur atvinnurekstri og fluttist til Reykjavíkur, bjó þar í Tjarnargötu 10C, lést 1968 og Guðbjörg rúmu ári síðar. Sæmundur þótti traustur og heiðarlegur í viðskiptum, hlédrægur eins og þau systkini. Hann var einn þeirra útgerðarmanna í Eyjum sem ekki höfðu aðra fasta vinnu og því fór ekki mikið fyrir honum í bæjarlífinu. Hann var virkur í Oddfellowreglunni. Sæmundur var hagmæltur vel og tónlistarunnandi, spilaði á orgel og fiðlu og fékkst við að semja lög. Eftir að þau Sæmundur og Guðbjörg fluttust í burtu bjó Björn Júlíusson læknir á Gimli um tíma en um 1960 keypti Ágúst Matthíasson í Fiskiðjunni húsið handa dóttur sinni, Sigríði (Sillu) og tengdasyni, Kurt Haugland, og breytti því mikið. Þar var rekin vinsæl sjoppa, Búr, á jarðhæð.

Sœmundur Jónsson, útgerðarmaður á Gimli, og kona hans, Guðbjörg Gísladóttir frá Hlíðarhúsum.

Kristín í Garðhúsum var fædd 1890, lést 1968. Hún giftist í Kaupmannahöfn 1918 Jóni Waagfjörð málara, og síðar bakara, en hann var þá við nám og störf þar í borginni, frá 1907 til 1919 eða 1920. Kristín og Jón höfðu þekkst alllengi, skrifuðust á og hittust þegar Jón kom til Íslands á þeim árum sem hann bjó úti.
Hún fór utan á styrjaldarárunum fyrri með Eldeyjar-Hjalta, fór í matreiðsluskóla, og að hitta Jón. Þau bjuggu í Höfn tvö fyrstu búskaparár sín og elstu börnin voru fædd þar, en svo fluttust þau til Eyja. Kristín og Jón Waagfjörð keyptu þá tvo þriðju hluta í Garðhúsum, sameignarmaður hans var Ólafur Jónsson, en Ólafur og Einar, bróðir hans. byggðu Garðhús 1906, sem enn standa. Eignarskiptingin var dálítið sérkennileg, fór ekki eftir hæðum hússins heldur var skipt frá mæni ofan í kjallara! Einar byggði síðar Einarshöfn, hinum megin við götuna, en Ólafur bjó í Garðhúsum til æviloka. Í Garðhúsum ráku þau Jón og Kristín svo annað aðalbakarí bæjarins, Félagsbakaríið („Vogsabakarí“), um áratugaskeið og höfðu lika sölubúðir annars staðar í bænum. Synir þeirra tóku við rekstri bakarísins er á leið, fyrst Símon og síðar Stáki sem rak það alveg fram að gosi. Kristín og Jón Waagfjörð eignuðust tólf börn, átta dætur og fjóra syni, á árunum 1916 til 1934. Fjórar dætur misstu þau, en átta börn komust til fullorðinsára: Jón (Stáki), Karólína, Símon, Jónína Lilja (Stella), Óskar og Auður (tvíburar), Vigfús og Anna (látin). Heimili þeirra Kristínar og Jóns var virðulegt og rúmgott á þeirra tíma mælikvarða. Kristín var staðföst kona, geðgóð svo að við var brugðið, og hlý og notaleg var hún a.m.k. við okkur börnin í nágrenninu.

Gimti eins og höfundur man það frá miðjum sjötta áratugnum. Húsið var byggt 1922, Sœmundur og Guðbjörg bjuggu uppi en á jarðhœð var seld mjólk frá Dalabúinu (frá árinu 1944) og síðar Mjólkursamsölunni. Þarna var jafnan líf og fjör enda mjólkurskortur í bœnum. Pillarnir þrír þekkjast ekki

Jónína var fædd 1892, lést í Hafnarfirði 1976. Hún giftist Birni Jónsyni frá Akurey í Landeyjum, útgerðarmanni, en hann lést ungur, 38 ára gamall, árið 1924, úr lungnabólgu. Þá gekk Jónína með þriðja barn þeirra, Björneyju Jónu, hjúkrunarkonu á Ísafirði. Þau Jónína og Björn bjuggu á Raufarfelli við Vestmannabraut, bakhúsi við Hvanneyri og Úthlíð. Eftir lát Björns baslaði Jónína ein með börn sín. Þótt hún ætti góða að bjargaði hún sér sjálf, sendi þá elsta barn sitt, Karólínu Kristínu, frá sér í sveit um tíma og var í fiskvinnu og ýmsum verslunarstörfum. Enn fremur leigði hún hluta af húsi sínu, svo sem títt var þá við slíkar aðstæður. Ragnar Eyjólfsson í Laugardal man hana innanbúðar í útsölubúð Félagsbakarísins („Vogsabakarís“) í austurenda Skuldar, sunnan megin, og hefur hún þar væntanlega notið systur sinnar, Kristínar, konu Waagfjörðs. Þau fluttu sig svo í Jómsborg, voru þar um tíma og loks á Gimli hjá Sæmundi þar til þau fluttust til Hafnarfjarðar 1946. Þar bjó Jónína það sem eftir var. Það var henni mikið áfall þegar hún missti einkason sinn, Odd, úr botnlangabólgu, árið 1950, tæplega þrítugan. Jónína var sögð skapmikil kona og hvatvís, en hafði þó gott taumhald á sér. Hún var trúuð og draumspök.

Hjónin Jónína Jónsdóttir frá Jómsborg (á fullorðinsárum) og Björn Jónsson, útgerðarmaður frá Akurey í Landeyjum. Jónína bjó síðari hluta œvi sinnar i Hafnarfirði

Vera má að börn Jóns og Karólínu hafi verið fleiri, en ekki komist á legg; t.a.m. eru heimildir um dótturina Sigurborgu, fædda 1883.

Jón Sighvatsson efnaðist ágætlega í Eyjum eins og sjá má á því að hann endurbyggir Jómsborg árið 1912. Svo glæsilegt íbúðarhús á þeirra tíma mælikvarða, timburhöll með turni, reisir ekki blankur maður. Það er líka margt sem bendir til þess að Jón og synir hans hafi gert það gott þessi fyrstu ár vélbátaútgerðar, fram að styrjaldarárunum fyrri.

Kristín Jónsdóttir í Garðhúsum og maður hennar, Jón Waagfjörð

Jón varð bæjarbókavörður 1905 og er þá þegar kallaður „bóksali“. Safnið var til húsa í þinghúsinu, Borg við Heimagötu, sem er nú horfið undir hraun. Jón tekur að sér bókavarðarstarfið þegar safnið kemst á fastan fót og verður sýslubókasafn með föstum tekjum. Hann var bókavörður í 19 ár, fram til 1924 þegar safnið var komið í Barnaskólahúsið eftir ýmsa hrakninga. M.a. varð Jón að taka safnið heim til sín í Jómsborg um tíma, 1914. Það gekk á ýmsu með Bókasafn Vestmannaeyja sem var stofnað 1862. „Jón lét sér annt um safnið og vildi hafa allt í röð og reglu. en starfsskilyrði [voru] með öllu óviðunandi“ segir Haraldur Guðnason í sögu safnsins um forvera sinn í starfi.

Jón Sighvatsson stundaði útgerð og verslunarrekstur fram á efri ár. Sjálfsagt hefur hagur hans staðið vel á 2. og 3. áratug aldarinnar enda var það blómaskeið í mörgu tilliti í Eyjum, aflabrögð yfirleitt góð og verð á mörkuðum hagstætt. Hann er með frá byrjun vélbátaútgerðar, á sjötta part í Austra VE 99 sem kemur til Eyja 1907 og er gerður út til 1921; formaður fyrstu sjö vertíðir var Helgi Guðmundsson í Dalbæ. Jón á líka sjötta part í Blíðu VE 119 (sömu eigendur og að Austra), en sá bátur kemur 1908 og er gerður út til 1919; formaður fyrstu þrjár vertíðir er Oddur, sonur Jóns.

Neðsti hluti Kirkjuvegar. Bókaverslun Þorsteins Johnsonar er fremst vinstra megin. Myndin er tekin frá Gimli, sennilega um 1940. Húsið fyrir miðri mynd, við enda götunnar, mun vera vélsmiðja sem Einar Magnússon í Stóra-Hvammi átti.

Haraldur Guðnason segist muna Jón skömmu eftir að hann kom til Eyja, 1930, sem „virðulegan karl“ og minnist þess að hafa verið við uppboð á bókum í verslun hans (e.t.v. við uppgjör á dánarbúi Jóns) undir stjórn Sveins Schevings. Scheving lyfti upp nokkrum árgöngum af Óðni: „Gerir nokkur boð í þetta?“ „5 kr.“ sagði Haraldur af rælni. „Fyrsta, annað og þriðja, bomm! Gerðu svo vel, ungi maður!“
Í Jómsborg búa þau hjón fram á dánardægur, en Jón lést 5. des. 1932 og Karólína tæpum tveimur árum síðar. Óskar og Sigríður eru í Jómsborg fram yfir 1940 er þau flytjast á Hilmisgötu þar sem þau bjuggu lengi. Jónína og börn hennar eru líka í Jómsborg allnokkur ár. Binni í Gröf og fjölskylda hans búa líka í Jómsborg, a.m.k. 1934-1940. Um tíma bjó í kjallara Hjörtþór Hjörtþórsson — og það var þar sem prakkarastrákar tjörguðu gluggann hjá honum svo að hann hélt að væri nótt alveg þangað til hann varð að fara út með koppinn! Sæmundur keypti svo húsið, en selur það Ólafi Granz um 1940. Grensarar eru skráðir í Jómsborg 1941, og sú fjölskylda bjó þar fram að eldgosi, síðast Ólafur yngri, snikkari eins og faðir hans, og hafði verkstæði sitt á hæðinni í suðurálmu Jómsborgar þar sem áður var verslun Jóns Sighvatssonar.
Björney, dóttir Jónínu, segir mér að sér sé minnisstæður útfarardagur afa síns, Jóns, í desember 1932. Bein fundust í Höfðanum, óþekkt, og var ráðið að leggja þau í gröf með Jóni Sighvatssyni. Brjálað veður var þennan dag og töldu menn að þannig vildu æðstu völd sýna vanþóknun sína á þessari ráðstöfun!

Sighvatur: Sandaformaður og litríkur alþingismaður.

Sighvatur Árnason, alþingismaður í Eyvindarholti

En hvaðan var þessi Jón Sighvatsson, og hverra manna var hann? Jú, faðir hans var héraðshöfðingi Rangæinga á síðari hluta 19. aldar, alþingismaður sýslunnar í rúma þrjá áratugi og einn helsti og traustasti stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar forseta í sjálfstæðisbaráttunni, síðar staðfastur heimastjórnarmaður.

Karólína Kristín Oddsdóttir frá Hellnafelli í Eyrarsveit, húsfreyja í Jómsborg

Sighvatur var fæddur í Ysta-Skála undir Eyjafjöllum 29. nóv. 1823. Árni Sveinsson, faðir hans, var bókamaður mikill. Í ágætri bók Þórðar Tómassonar í Skógum, „Austan blakar laufið“ (1969) segir að Sighvatur hafi verið bráðger, orðið reikningsmaður góður, ágætur skrifari og hagur til handa; hann varð annálaður smiður. Hann fer 18 ára til smíða þessa stuttu leið úr Ysta-Skála vestur í Eyvindarholt þar sem þá bjó ekkja, Steinunn Ísleifsdóttir. Hún var 18 árum eldri en hann, 36 ára. Það kviknar ást og þau giftast tveimur árum síðar, enda Steinunn þá ófrísk að fyrsta barni þeirra, Jórunni. Þau Síghvatur og Steinunn eignuðust fjögur börn en Steinunn átti við nokkra vanheilsu að stríða efri ár sín. Hún dó 1883, þá orðin 78 ára gömul. Svo kraftmikill maður sem Sighvatur var gat illa búið við kvenmannsleysi og hann kom sér því upp hjákonu, Önnu Þorvarðsdóttur, átti barn með henni og gerði vel við hana, byggði yfir hana hús í Miðmörk og giftist henni síðar, þegar hann var orðinn ekkjumaður, eins og sönnum heiðursmanni sæmir. En þegar strjálaðist um hjúskaparfar Sighvats og Steinunnar gerði hann 1856, þá rösklega þrítugur, vinnukonu þar á bænum barn, Guðnýju Brynjólfsdóttur, og er þeirra sonur Jón Sighvatsson, áður nefndur. Enn sýndi Sighvatur heiðurslund sína og ól Jón upp hjá sér og gerði við hann eins og sín börn — sem þó var ekki svo almennt á þeirri tíð. Jón virtist handgenginn föður sínum og saman stunduðu þeir róðra frá Eyjafjallasandi á síðari hluta 19. aldar.

Síðari kona Sighvats, Anna Þorvarðsdóttir, var sögð „vel gefin kona, hreinskilin og einörð við hvern sem var að skipta“. Fyrsta barn þeirra Sighvats fæddist of brátt, þegar árið 1874, en þá átti Steinunn, fyrri kona hans, enn ólifuð níu ár ævi sinnar. En eftir lát Steinunnar komu fjögur börn, hið yngsta fætt 1893, en þá stóð Sighvatur á sjötugu. Sighvatur var sem sagt afreksmaður á mörgum sviðum og stendur á metlista í Handbók Alþingis fyrir að vera sá maður sem elstur hverfur af þingi. Hinn 25. ágúst 1902 sat hann sinn síðasta þingfund tæplega 79 ára gamall, hafði verið kosinn þingmaður Rangæinga fyrr um sumarið til þess að koma fram stjórnarskrárbreytingu eftir sigur heimastjórnarmanna í sjálfsstjórnarbaráttunni. Það hlýtur að hafa glatt gamla manninn. Hann var þó enn í hópi hinna róttækustu, t.d. tortrygginn á ríkisráðsákvæðið sem átti eftir að valda stórdeilum síðar.
Sighvatur var fyrst kosinn á þing 1864, liðlega fertugur, sat fyrst í fimm ár, til ársins 1869, var kosinn á ný 1874 og sat samfleytt til 1899; loks sat hann sumarþingið 1902 sem áður sagði. Hann var merkur þingmaður, t.d. flutti hann fyrsta frumvarpið um almenna barnafræðslu. Mest barðist hann þó í framfaramálum Sunnlendinga, svo sem fyrir brúargerð á Þjórsá og Ölfusá.
Á fyrri hluta ævi sinnar stundaði Sighvatur sjóróðra. Hann var lengi formaður við sandinn og „var talinn með bestu og lánsömustu formönnum er þá ýttu þar skipi á sjó“.
Það var sagt um Sighvat Árnason, alþingismann Rangæinga, að engin ráð væru ráðin í héraði nema hann væri til kvaddur, svo áhrifamikill var hann. Og hann var hreppstjóri sinnar sveitar í 34 ár.

Sæmundur Einarsson í Stóru-Mörk segir um Sighvat að hann hafi verið fríður, karlmannlegur og glaðsinna, ljúfmenni en þó fastur fyrir. Nágranni Sighvats, Sigurður Jónsson frá Syðstu-Mörk, velur honum sömu nöfn og Njáli, „heilráður og góðgjarn“.

Eyvindarholt um 1900. „Eitt merkasta sveitaheimili landsins“ segir Þórður Tómasson í Skógum

Sighvatur dó í Reykjavík 20. júlí 1911, á því merkisári Íslandssögunnar, en þá hafði hann brugðið búi tíu árum áður, 1901, og flust í höfuðstaðinn, hann varð aðstoðarmaður á Forngripasafninu og jafnframt bókavörður við „Alþýðubókasafnið“ (síðar Borgarbókasafnið). — Þeir sýsluðu mikið með bækur, þessir höfðingjar, Sighvatur, Jón, Þorsteinn og Óskar.
Þórður í Skógum segir um Eyvindarholt að þar hafi verið „eitt merkasta sveitaheimili landsins“ á dögum Sighvats Árnasonar.

Undir sléttu yfirborði hlutanna.
Það var gott handtak Gretu Thisted, þegar ég rakst á hana, svona af einskærri tilviljun, sumarið 2001. Svipsterk og fastleit var hún. Ég vissi ekki hver hún var, en fyrsta ljósglætan kom þarna þar sem við stóðum og gleymdum öllum í kringum okkur við að rifja upp gamla tíma í Vestmannaeyjum. En baksvið hennar og sannferðugleiki þess sem hún var að segja leitaði á mig eftir þennan fund okkar. Eitt atriðið kallaði svo á annað og á óvart kom að baksvið þessarar konu utan úr heimi, ætt hennar og uppruni og bernskuminningar í Eyjum, væri svo merkilegt og einnig svo nátengt manni eins og síðari eftirgrennslan sýndi.
Sérkennileg fjölskyldusaga kemur í ljós þegar flett er ofan af sléttu yfirborði hlutanna.
Samtöl okkar Gretu Thisted þessa stuttu stund á sumardegi vöktu strax forvitni, fyrst um Óskar bróður hennar, síðan um Þorstein, föður hennar, og konu hans danska, um Jón Sighvatsson bókavörð, föður hans og svo ættföðurinn, sjálfan alþingismann Rangæinga og héraðshöfðingja á síðari hluta 19. aldar. Einnig þessar minningar um Reyndalsfólkið sem reyndist líka eiga sér svona sérkennilega sögu þegar að var gáð.
Þegar hausta tók fóru bréf milli okkar Gretu, ítarleg og snyrtilega skrifuð bréf, þar sem hún rifjaði upp þessi ár sín í Eyjum og fleira því tengt. Minni hennar hefur reynst furðulega traust. Bernskuáföllin hafa greypt í huga hennar skýrar myndir. Þessar minningar eru henni kærar. svo og venslafólk hennar hér, sérstaklega íslenski bróðir hennar, Óskar. Ísland hefur æ síðan legið hjarta hennar nær, líka Íslendingasögurnar og kappar þeirra. — Það var gleðilegt að þessar upprifjanir okkar urðu til þess að þau systkinin, Greta og Þorsteinn, gátu sameiginlega gert sér betur grein fyrir uppruna sínum og ýmsu því sem hafði fylgt þeim á lífsleiðinni; hlutirnir skýrðust fyrir þeim.
Það er í sjálfu sér skemmtilegt að grafa ofan í fortíðina, bæði til að svala forvitni sinni og fá skýringar á hlutum sem ekki liggja í augum upp við fyrstu sýn. En best er þegar slíkar pælingar hafa víðari skírskotanir. Með því að draga upp baksvið þessarar dönsku konu, sem óvænt varð á vegi mínum, má fá innsýn í mannlífið í Eyjum og merka atvinnusögu þeirra á fyrri hluta 20. aldar.

(Við þessa samantekt hafa margir hjálpað. Nefni ég þar fyrsta Harald Guðnason og Kristin Óskarsson. Ég fékk ítarlegar og gagnlegar athugasemdir frá Gísla Eyjólfssyni frá Bessastöðum og Ragnari Eyjólfssyni frá Laugardal. Ýmsir hafa svo veitt upplýsingar og aðstoð, svo sem Berta og Stáki Waagfjörð, Auður Waagfjörð, Friðrik Ásmundsson frú Löndum, Sigmar Þór Sveinhjörnsson, Kristinn Sigurðsson frá Löndum, Björney Björnsdóttir og Jónina S. Lárusdóttir, Oddgeir Guðjónsson frá Tungu, Þórður Tómasson í Skógum, Jóna Björg Guðmundsdóttir á Skjalasafni Vestmannaeyja, Jóhann Jónsson, Auðunn Gestsson, Katrín Gunnarsdóttir og fleiri. Stuðningur var að riti Halldórs Magnússonar um Magnús Bergsson (Hundrað ára minning), ritgerð Sigmundar Andréssonar um sögu brauðgerðarinnar í Vestmannaeyjum í Eyjaskinnu, bókum Þorsteins í Laufási, Formannsœvi og Aldahvörfum, riti Jóhanns Gunnars Ólafssonar um sögu Bátaábyrgðarfélagsins og œviminningum Sigurðar Thoroddsens verkfrœðings. Þá ber sérstaklega að nefna Ellu Halldórsdóttur (Gunnlaugssonar lœknis) og þau hjón Tom og Gwen Johnson í Glendale i Kaliforniu. Síðast en ekki síst þakka ég þeim mœðgum Gretu Thisted og Evu Dudzinsku sem áttu upptökin að þessu öllu saman!)

Áhöfnin á Hlýra VE 172, einkavinurinn Skotti og Kristbergur Einarsson, Gæskurinn, skipstjóri og útgerðarmaður