Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Friðrik Jesson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GUÐJÓN ÁRMANN EYJÓLFSSON:


FRIÐRIK JESSON


SAFNVÖRÐUR OG ÍÞRÓTTAKENNARI
F. 14. MAÍ 1906 - D. 3. SEPTEMBER 1992


Þegar ég fer í sundlaugarnar í Reykjavík finnst mér eftirtektarvert að ég hitti þar oft Vestmanneyinga og þá kemur Friðrik heitinn Jesson mér oft í hug. Hann hefur átt meiri þátt í sundmennt og öflugu íþróttalífi í Vestmannaeyjum á þessari öld en nokkur annar. Ég minnist hans sem hvetjandi kennara í Barnaskóla Vestmannaeyja og iðulega fór hann með okkur strákunum í fótbolta á malarvellinum norðan við Barnaskólann. Í leikfimi kenndi hann okkur auk almennra fimleika hlaup og rétt göngulag, betri framkomu og reglusemi. Hann kenndi okkur einnig margt sem kom sér vel í tildri og fjallaferðum eins og að lesa sig upp kaðal á tábragði.

Í stuttu máli sagt. Friðrik Jesson eða Figgi á Hól eins og við kölluðum hann var kennari sem við virtum og héldum upp á. Eftirminnilegustu tímar í leikfimi á þessum árum voru síðustu tímarnir fyrir jól og hlökkuðum við mikið til þeirra allt haustið. Þá voru öll áhöld í leikfimisalnum tekin fram og þeim raðað um allan salinn. klifur-tó og kaðlar, sem annars voru dregin upp. voru látin vera niðri. Síðan máttum við leika okkur að vild, en leikurinn gekk út á að einn elti hina til skiptis og var þetta kallaður Fjallamannaleikur. Við vorum allan tímann á hlaupum og fleygiferð um salinn. Auk þess að leika fjallamenn og æfa spröngu lékum við auðvitað skógarguðinn Tarzan sem var þá ein vinsælasta söguhetjan í unglingabókum þeirra tíma.

Skipuleg sundkennsla hófst í Vestmannaeyjum árið 1891 og var föðurbróðir Friðriks og nafni, Friðrik Gíslason ljósmyndari, fyrsti sundkennarinn. Friðrik heitinn skrifaði árið 1976 skemmtilega grein í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja um sundkennslu í Eyjum og fyrstu sundkennsluna í Miðhúsalauginni og keppnisför Sundfélags Vestmannaeyja til Akureyrar sumarið 1937. Í sundinu hélt Figgi okkur strákunum vel við efnið langt fram á haust og þegar fór að kólna var aðeins haft vatn í djúpu lauginni. Á þessum árum, 1945-1950, var notað kælivatn frá vélum rafstöðvarinnar við Heimatorg til þess að fá heitt vatn í laugina þar eð ketillinn, sem hitaði upp laugina, hafði sprungið. Nokkur ár virtist taka að kippa því í lag og einnig mun hafa átt að spara eldsneyti.

Eitt sinn þegar við fórum í laugina held ég að vatnið hafi ekki verið heitara en 10 til 12 gráður, en venjulega var laugarvatnið 18-22 gráður. Við vorum nú ekki lengi ofan í lauginni það skiptið en ég man enn hvað við skulfum á leiðinni heim. En þetta herti mann og Figgi lagði sig vissulega fram um að skapa heilbrigða sál í hraustum líkama. Ég held líka að honum hafi tekist það. Hann skapaði þann áhuga fyrir hollum íþróttum hjá æskufólki í Vestmannaeyjum að það hefur dugað þeim mörgum ævina á enda.

Sundkennsla í köldum sjó var auðvitað ekkert öðruvísi þá en Friðrik heitinn Jesson og allir Vestmanneyingar höfðu alist upp við frá því sundkennsla hófst í Eyjum árið 1891. Öll sundkennsla fór fram í köldum sjó annaðhvort við Básaskerið eða undir Litlu-Löngu þar sem Ungmennafélagið, sem var stofnað árið 1907, reisti Sundskálann árið 1913, en hann stóð við bólverkið, vestan við Löngunefið, skammt frá þeim stað þar sem Skipalyftan er núna.

Friðrik Jesson hafði alltaf sérstakan áhuga á því að allir sjómenn í Vestmannaeyjum væru vel syndir og kenndi á fjölmörgum stýrimanna- og vélstjóranámskeiðum Fiskifélags Íslands og Stýrimannaskólans í Reykjavík áður en Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum var stofnaður 1964. Sundlaugin í Miðhúsatúni, Sundlaug Vestmannaeyja eða Miðhúsalaug, sem fór undir hraun í eldgosinu 1973, var tekin í notkun með námskeiði fyrir sjómenn í nóvember árið 1934 og kenndi Friðrik sundið. Árið áður hafði hann kennt sjómönnum í laug í Gúanóinu og var sú laug aðeins sex metrar á lengd, þannig að ekki var svigrúmið mikið en nóg til þess að menn lærðu sundtökin.

Friðrik Jesson var fæddur í Norður-Hvammi í Mýrdal 14. maí árið 1906, en faðir hans, sr. Jes A. Gíslason, sem var borinn og barnfæddur Vestmanneyingur, var þá sóknarprestur í Mýrdalsþingum. Móðir Friðriks var Ágústa Eymundsdóttir, bróðurdóttir Sigfúsar Eymundssonar bóksala og ljósmyndara. Árið 1907 fluttist fjölskyldan til Vestmannaeyja og sr. Jes gerðist verslunarstjóri hjá mági sínum Gísla J. Johnsen. Sr. Jes var af þekktri ætt í Vestmannaeyjum, sonur Gísla Stefánssonar kaupmanns í Eyjum og konu hans Soffíu Andersdóttur. Gísli var einn fyrsti íslenski kaupmaðurinn í Vestmannaeyjum sem braust undan dönsku einokunarversluninni sem var rótgróin í Eyjum. Með þessu fólki hefur alltaf búið listfengi og mikil náttúruskoðun og margir þeirra ættmenna hafa verið fimir og mjög góðir fjalla- og veiðimenn. Hér má nefna bræður sr. Jes, þá Gísla í Höfðanum, sem einnig var kenndur við Ás, og Ágúst í Valhöll sem lögðu ásamt Hjalta Jónssyni (Eldeyjar-Hjalta), „keðjuveg“ upp á Eldey og fóru þangað fyrstir manna vorið 1894.

Friðrik Jesson varð strax á unga aldri mikill íþróttamaður. Hann sótti íþróttanámskeið ÍR í Reykjavík árið 1922 ásamt fimm öðrum Vestmanneyingum, en í kjölfar þess námskeiðs hófst iðkun frjálsíþrótta í Vestmannaeyjum. Næsta ár, árið 1923, áttu þeir Friðrik Jesson og Jónas Sigurðsson í Skuld besta árangur í stangarstökki, 2,82 metra á bambusstöng eins og þá voru notaðar. Síðan setti Friðrik Íslandsmet í stangarstökki á þjóðhátíðinni 1924 og stökk 2,94 metra, fyrsta Íslandsmetið í stangarstökki sem var staðfest. Hann margbætti síðan þetta met, var fyrstur Íslendinga til að stökkva yfir 3 metra og átti Íslandsmetið í stangarstökki allt fram til 1937. Upp frá þessu varð stangarstökkið eins konar þjóðaríþrótt Vestmannaeyinga og næstu fimm methafar í þessari íþróttagrein voru allir Vestmannaeyingar og nemendur Friðriks Jessonar. Af þeim varð einn, Torfi Bryngeirsson frá Búastöðum, í fremstu röð stangarstökkvara í Evrópu og Evrópumeistari í langstökki árið 1950. Fagnaði Figgi alltaf innilega sigrum Vestmannaeyinga því að hann var alla tíð mikill Eyjamaður. Árið 1959 var gerð skrá yfir bestu íþróttamenn í hverri grein frjálsra íþrótta um nærri 40 ára skeið, frá 1920 til 1959. Af 75 bestu stangarstökkvurum Íslendinga áttu Vestmannaeyingar 23 eða nærri því þriðjung afreksmanna í stangarstökki.

Friðrik Jesson átti einnig Íslandsmet í spjótkasti, var í röð fremstu sundamanna og knattspyrnumaður var hann ágætur, fimleika- og glímumaður frábær.

Á unga aldri dvaldist Friðrik um tíma í Kaupmannahöfn og gekk þá í flokk unglinga sem íþróttakennaraefni. Þegar heim kom gerðist hann íþróttakennari og var við íþrótta- og fimleikakennslu um tugi ára. Hann var leikfimikennari við Barnaskólann í Vestmannaeyjum frá 1929 til 1963 nema í þrjú ár sem hann var að yfirstíga berkla, er hann fékk í ársbyrjun 1932, og dvaldist af þeim sökum um tíma á Vífilsstaðahæli. Hann náði sér þó alveg af þessum skæða sjúkdómi sem herjaði sérstaklega á æskufólk landsins á þessum árum.

Friðrik var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs árið 1921, var lengi í stjórn félagsins og síðustu árin heiðursfélagi.

Í sex sumur, frá 1921-1934, hafði Friðrik á hendi sundkennslu við Sundskálann undir Litlu-Löngu og síðan að sumrinu við Miðhúsalaug frá því hún var opnuð í nóvember 1934 og til ársins 1963.

Í merkri minningargrein um Friðrik Jesson, sem hér hefur verið stuðst við, skrifar mágur hans, Þorsteinn Einarsson fyrrverandi íþróttafulltrúi, um hvernig staða frjálsíþrótta var í Vestmannaeyjum í tíð Friðriks Jessonar: „Dæmi má telja fram um hve frjálsíþróttir skipuðu háan sess í Eyjum. Á meistaramóti Íslands 1931 áttu Vestmanneyingar einum meistara færri en Reykvíkingar. Tveir af þremur keppendum í frjálsum íþróttum frá Íslandi á ólympíuleikunum 1936 voru Vestmanneyingar. í bæjarkeppni 1937 í frjálsíþróttum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja vann höfuðborgin naumt. Í sundíþrótt áttu Eyjarnar fljótt eftir að sundlaug fékkst 1934 frábært sundfólk. Sigraði t.d. Akureyri í bæjarkeppni 1938. Friðrik var forystumaður og kennari. Handknattleik hófu stúlkur að æfa í Eyjum að áeggjan Friðriks 1927. Náðu þær fljótt í báðum félögum góðum tökum á íþróttinni. Ég var dómari í leik stúlknanna 1931 á fullstórum knattspyrnuvelli, ellefu í liði — og mig undraði færni þeirra. Slíkt var þá ekki til í Reykjavík eða Hafnarfirði.“

Auk framlags síns til íþróttamála og leikfimikennslu átti Friðrik Jesson mörg og frjó áhugamál. Hann var t.d. ágætur veiðimaður og skytta og mikill náttúruskoðari. Ég man eftir honum á kajak og hafði hann þá stundum hundinn Prins með sér, brúnan og knáan veiðihund. Þá stoppaði hann upp fugla og fórum við stundum með lunda og sæsvölu til hans. Figgi tók frábærar ljósmyndir og kvikmyndir og kynntist ég vel listrænum smekk hans, færni og næmi fyrir náttúrunni þegar Vestmannaeyingafélagið Heimaklettur lét fullgera heildstæða Vestmannaeyjakvikmynd, „Úr Eyjum“, sem var frumsýnd á hátíð er var haldin í tilefni 50 ára afmælis Vestmannaeyjabæjar hinn 14. júní 1969. Aðaluppistaða þessarar Vestmannaeyjakvikmyndar, sem sýnd var víða þetta ár, m.a. í Sjónvarpinu, voru kvikmyndir sem þeir Friðrik heitinn og Sveinn Ársælsson frá Fögrubrekku höfðu tekið að tilhlutan Vestmanneyingafélagsins; einnig voru þar myndir eftir Kjartan Guðmundsson og Vilhjálm Knudsen kvikmyndagerðarmann sem sá um lokagerð og samsetningu myndarinnar.

Árið 1963 hætti Friðrik íþróttakennslu og kynnti hugmyndir sínar um sædýra- og náttúrugripasafn fyrir Guðlaugi Gíslasyni, þáverandi bæjarstjóra og þingmanni. Guðlaugur og meirihluti bæjarstjórnar sýndu málinu áhuga og eftir kynnisferð til Noregs og Danmerkur hófst Friðrik handa við að koma upp Náttúrugripasafni Vestmannaeyja. Segja má að Friðrik Jesson hafi verið sjálfkjörinn til þessa verkefnis og starfs safnvarðar, en hann hafði þá á einstaklega smekklegan hátt og um árabil fengist við uppstoppun fugla og dýra.

Friðrik og Guðlaugi tókst að komast yfir alla byrjunarerfiðleika og hrakspár úrtölumanna. Friðrik gerði safnið þannig úr garði að það er nú besta og fullkomnasta náttúrugripasafn landsins og hið eina sem sýnir lifandi fiska. Náttúrugripasafn Vestmannaeyja vekur nú aðdáun allra, jafnt innlendra sem erlendra gesta og ferðamanna. Við uppbyggingu safnsins naut Friðrik vináttu og vinsælda hjá sjómönnum, en margir þeirra voru fyrrverandi nemendur hans og færðu honum sjaldséða fiska, síld og loðnu til þess að fóðra fisk og seli ásamt öllu öðru forvitnilegu sem kom úr hafdjúpunum í veiðarfærin.

Friðrik Jesson var kvæntur Magneu Sjöberg sem lifir mann sinn. Þau bjuggu í ástríku hjónabandi í yfir 62 ár, gefin saman árið 1930. Þau eignuðust fjögur börn. Magnea með sína léttu lund og öll fjölskyldan studdi Friðrik í hvívetna í störfum hans og þegar Friðrik lét af störfum við Náttúrugripasafnið tók Kristján Egilsson, tengdasonur hans, við forstöðu safnsins.

Friðrik Jesson andaðist 3. september 1992 og var jarðsunginn frá Landakirkju að viðstöddu fjölmenni hinn 12. september. Það eru sannmæli sem Þorsteinn Einarsson ritaði um Friðrik Jesson: „Afrek hans sem íþróttamanns geymast, minningar nemenda um góðan íþróttakennara í sal, á velli og við laug gleymast seint, ávallt mun nafn hans tengjast Sædýra- og náttúrugripasafni Vestmannaeyja.“

Sjómenn í Vestmannaeyjum og víðar um landið, allir Vestmanneyingar og þeir sem honum kynntust taka undir þetta og þakka Friðriki Jessyni samfylgdina.

Guðjón Ármann Eyjólfsson