Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja 120 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja 120 ára


Svona var umhorfs í Eyjum um miðja síðustu öld, er Skipaábyrgðarfélagið var stofnað. Málverk þetta er í Ráðhúsinu.
Úr stofnfundargerð félagsins, ritað af Bjarna E. Magnússyni. Allar fundargerðarbækur félagsins hafa varðveist, en ljósrit voru færð Bókasafninu að gjöf á 100 ára afmæli safnsins

Sjálfstæðisbaráttan á öldinni, sem leið markaði heillarík spor, sem þjóðin býr að og upp úr standa víða kennileiti og minnisvarðar, sem vert er að hafa í huga og eru áminning til okkar að heiðra og halda á lofti til hvatningar og eftirbreytni.
Frá því sögur hófust hafa Eyjarnar og íbúar þeirra verið samofnar hafinu, sem þær umlykur og eins og kveðið var: „Þangað lífsbjörg þjóðin sótti, þar mun verða stríðið háð", hefur lífsafkoma fyrst og fremst byggst á öflun Iífsviðurværis úr greipum hafsins.
Um aldaraðir var sjórinn sóttur á opnum skipum með þess tíma handfærabúnaði, einasta veiðarfærinu, er notað var allt fram undir síðustu aldamót. Þarf engum getum að því að leiða, hve sultur og allsleysi var jafnan nærri bæjardyrum manna og öll orkan beindist að því að bægja hungrinu frá, sem oft var erfitt þegar afla- og gæftaleysis ár komu og það jafnvel mörg í röð. Sem dæmi má þess geta, að í byrjun 19. aldar var íbúatala Eyjanna komin niður í 173, en var orðin 237 árið 1787.
Þegar kom fram á öldina fór heldur að rofa til, farið var að gæta tilslakanna á einokunarvaldinu, sem svo lengi hafði þjakað og harkalegar kvaðir voru nærri búnar að drepa allan dug úr þjóðinni.
Tilhugsun um athafnafrelsi leysti úr læðingi niðurbæld öfl og vonin um að eignast eigin skipastól eftir aldalanga nauðungarvinnu á skipum Danakonungs var nánast fjarstæðukenndur draumur.
Og eins og slysfarir og dauði fylgir öllu lífi höfðu Eyjabúar ekki farið varhluta af manntjóni og skipasköðum, og oft voru skörðin stór og sorgin þungbær. Þegar auk þessa fylgdi óbættur eignamissir þeirra, sem eftir stóðu og fyrirsjáanleg örbirgð, er ekki að undra þótt úrræða hafi verið leitað til að vega hér upp á móti.
Sú var gæfa Eyjanna, að um þetta leyti eða 1861 kom hingað ungur sýslumaður, Breiðfirðingurinn Bjarni E. Magnússon, en segja má að með komu hans hafi verið brotið blað í sögu okkar. Má í því sambandi nefna forgöngu hans um stofnun Skipaábyrgðarfélags, bókasafns, upphaf barnafræðslu, og ræktunar á Heimaey en Skipaábyrgðarfélagið á nú 120 ára afmæli, var formlega stofnað 26. janúar 1862. Er félagsstofnun þessi ein hin merkasta, sem um getur meðal þjóðarinnar á þeim tíma, er hún var gerð, og sú lang árangursríkasta miðað við að hafa staðið af sér öll áföll á sínum langa starfsferli og rís í dag hátt yfir allar sambærilegar tilraunir, er síðar voru gerðar annarsstaðar í svipuðu skyni.

Má fyrst og fremst þakka það braut ryðjendum og þeim ágætu mönnum, sem gegnum tíðina hafa haldið kyndlinum á lofti eða eins og segir í stofnskránni, „að efla og styrkja sjávarútveg Vestmannaeyja með því að tryggja þá, er í skipum eiga er ganga til fiskveiða í Vestmannaeyjum á hverri vertíð gegn skaða þeim, er skip þessi geta orðið fyrir á sjó og landi".

Höfnin og neðri hluti bœjarins á upphafsárum vélbátaútgerðarinnar.

Margir af kunnustu borgurum Eyjanna hafa verið í stjórn félagsins, og hafa eftirtaldir starfað 10 ár eða lengur: Bjarni E. Magnússon, sýslum., Þorsteinn Jónsson, alþingism.. Gísli Stefánsson, kaupm., Gísli Engilbertsson, verslunarstj., Þorsteinn Jónsson, læknir, Erlendur Árnason, trésmiður, Jón Ólafsson. útgerðarm., Guðmundur Einarsson, útgerðarm., Jóhann Sigfússon, forstjóri, Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumaður, Jónas Jónsson, forstjóri, Karl Guðmundsson, útgerðarm., Sighvatur Bjarnason, skipstjóri, Ársæll Sveinsson, útgerðarm., en hann var stjórnarformaður í 22 ár, Martin Tómasson, forstjóri, Haraldur Hannesson, útgerðarm. og Björn Guðmundsson, útgerðarm., núverandi stjórnarformaður.
Í upphafi var aðeins um tryggingar stórskipa að ræða, en svo voru tíæringar, áttæringar og sexæringar nefndir, voru skip þessi 11 talsins 1862 og hélst tala þeirra svipuð fram yfir aldamót, en fór þá vaxandi og árið 1906 komu vélbátarnir til sögunnar. Töluverðar umræður urðu, hvort taka ætti þá í tryggingu, fór svo að fyrsta ár þeirra, voru þeir tveir, Knörr í eigu Sigurðar hreppstjóra og Unnur, Þorsteins í Laufási ótryggðir. Svo fljótir voru Eyjamenn að sjá yfirburði vélbátanna, að árið eftir 1907 voru 19 vélbátar í tryggingu hjá félaginu. Um þetta leyti var nafni félagsins breytt.

M/b Ásdís í mannflutningum 1911. Hér mun um að ræða erlendan karlakór sem var með millilandaskipi, en fram undir seinni heimsstyrjöld voru Vestmannaeyjar fyrsta og síðasta höfn að og frá landinu. Ferðirnar um borð voru ekki alltaf svo auðveldar eins og þessi mynd gefur til kynna. Oft á tíðum var það erfiðasti hluti ferðarinnar að komast að eða frá borði
Stjórn og framkvœmdastjóri félagsins. Talið frá vinstri: Haraldur Hannesson skipstjóri, Jón I Sigurðsson hafnsögumaður, Björn Guðmundsson útvegsbóndi, Eyjólfur Martinsson framkvæmdastjóri, Ingólfur Matthíasson útvegsbóndi og Jóhann Friðfinnsson framkvæmdastjóri.

Árið 1901 voru íbúar 607 en 10 árum síðar, er vélbátaútgerð hafði staðið í 3 ár að ráði voru þeir orðnir 1492.
Eins og að líkum lætur hafa skipst á skin og skúrir í rekstri og afkomu félagsins, en alltaf hefur tekist að standa við allar skuldbindingar gagnvart viðskiptamönnum. Það var ástæðan fyrir því, að félagið fékk endanlega þá viðurkenningu löggjafans 1949, að fá að starfa sjálfstætt samkvæmt eigin lögum, en þau sem nú gilda voru staðfest af Tryggingareftirlitinu á sl. ári.
Þessi mikla viðurkenning til félagsins fékkst með samtakamætti og harðfylgi heimamanna og fulltrúa á alþingi sem þá var Jóhann Þ. Jósefsson.
Frá því Samábyrgð Íslands á Fiskiskipum var stofnuð 1909 hefur Bátaábyrgðarfélagið endurtryggt áhættuna hjá félaginu. Hafa samskipti við Samábyrgðina ávallt verið félaginu til mikilla hagsbóta Árið 1885 voru fæst skip í tryggingu 6 að tölu, 1922 voru bátarnir orðnir 53, 1942 81, 1959 104, 1972 68, og 1982 32, þar af 3 yfir 100 tonn.
Þessar tölur segja sínu sögu, en eftir 1960 fóru að koma stærri skip, sem félagið hafði ekki tök á að fá í viðskipti, enda lengi reglur þar um og ekki er í skyldutryggingu hjá félaginu skip yfir 100 tonn. Skipin sem stærri eru hafa dreifst á stóru tryggingarfélögin, sem með miklum lánafyrirgreiðslum hafa getað náð í viðskipti þeirra, þessa hefur félagið goldið og þannig misst mikil viðskipti margra ágætra fyrrverandi viðskiptamanna, sem endurnýjað hafa skip sín sl. 2 áratugi.

Kaupin á Þór um 1920 og Lóðsinum er kom 1961 ollu þáttaskilum við björgun og aðstoð við sjómenn

Til þess að bæta sér þetta upp hefur félagið reynt að auka reksturinn á annan veg. Ekki hefur þó ennþá tekist, að fá húsatryggingar í bænum, sem væri mjög æskilegt, að. tryggja þannig að þeir miklu fjármunir, sem er um að ræða í tryggingargjöldum væru ávöxtuð hér innanbæjar. Fyrir 5 árum tók félagið umboð fyrir alhliða tryggingar fyrir Tryggingarmiðstöðina, en félagið er með flest af bátum og skipum hér yfir 100 tonn og alla togarana í tryggingu. Hefur þessi umboðsstarfsemi gengið vel t.d. varð um 120% aukning frá 1980-1981. Öll innheimt iðgjöld eru ávöxtuð innanbæjar, og er það stefna félagsins að stuðla með því, að auknu veltufjármagni á staðnum.
Á 120 ára starfsferli Bátaábyrgðarfélagsins hefur það átt góðan þátt í ýmsum framfaramálum byggðarlagsins og lagt fé til margra góðra mála. Má nefna, kaupin á björgunarskipinu Þór, og hefur alltaf síðan árlega veitt Björgunarfélaginu fjárstuðning til rekstursins, lánað til hafnarframkvæmda, þá átti félagið þátt í kaupum á dýpkunarskipinu og byggingu sundlaugarinnar svo nokkuð sé nefnt. Þá hefur félagið í áratugi lagt fram nokkurt fé til Ekknasjóðsins og aldraðra og einstæðra, auk margra stórgjafa til ýmissa áhugamála bæjarbúa.
Á spjöldum sögunnar ber að líta, að oft hefur syrt í álinn hjá Eyjabúum og mikil áföll dunið yfir, sá hluti sem metinn hefur verið til fjár, hefur verið allverulegur fyrir Bátaábyrgðarfélagið. Á fyrstu 52 árum vélbátaútgerðar fórust 50 bátar í tryggingu hjá félaginu, 6 sinnum munu 3 bátar hafa farist á sama árinu. S.l. 3 ár hafa verið mikil slysaár, þar sem 9 sjómenn og 5 bátar hafa farist.
Þetta er áminning um að ekki má slaka á neinu, sem lýtur að árvekni og búnaði áhafna og báta þeirra og hefur stjórn félagsins m.a. ákveðið í tilefni þessara stórmerku tímamóta, elsta tryggingarfélags landsins að stuðla að kynningu á meðferð björgunartækja og búnaðar með björgunaræfingum og sýningum á afmælisárinu í samráði við þau öflugu félagssamtök er hér starfa að þessu göfuga málefni.
Stjórnarformaður Bátaábyrgðarfélagsins er Björn Guðmundsson og með honum í stjórn: Jón Í. Sigurðsson, Haraldur Hannesson, Eyjólfur Martinsson og Ingólfur Matthíasson.
Forstjóri Bátaábyrgðarfélags Ve. er Jóhann Friðfinnsson. 120 ára afmæli félagsins verður minnst síðar á árinu.

Á leið til heimahafnar