Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Haffaraslysið 9. apríl 1912

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓN SIGURÐSSON:


HAFFARASLYSIÐ


9. APRÍL 1912


Mótorbáturinn Haffari VE 116 var keyptur til Vestmannaeyja árið 1907. Hann var 7 1/2 tonn að stærð með 8 hestafla DAN-vél. Eigendur voru: Guðmundur Magnússon á Löndum, sem ráðinn var formaður á bátnum vertíðina 1908, Gunnlaugur Sigurðsson Gjábakka, Elías Friðriksson Gröf, Þorsteinn Ólafsson Háigarður, Helgi Jónsson Steinum og Bjarni Einarsson í Hlaðbæ. Þeir tveir síðastnefndu höfðu áður keypt bát, sem Ingólfur hét, og hafði Guðjón Jónsson á Sandfelli haft formennsku á honum og gengið vel, svo að þetta voru nokkurs konar félagsbátar.

Haffari VE 116 - 7,5 tonn.

Eftir vertíðina 1908 hætti Guðmundur Magnússon á Löndum formennsku á Haffara og seldi sinn hluta Guðjóni Þórðarsyni í Hlaðbæ (síðar í Heklu). Tók hann við formennsku á bátnum og hafði til vertíðarloka 1911 og farnaðist alltaf ágætlega.
Nú vilja þessir eigendur stækka báta sína og selja bæði Ingólf og Haffara. Guðjón á Sandfelli kaupir allan Ingólf, en Jón Einarsson á Gjábakka kaupir Haffara.
Hinir gömlu eigendur keyptu 2 nýja báta í staðinn, og voru það Happasæll og Sæfari. Hafði Guðjón Þórðarson formennsku á Happasæl, en Sveinn Jónsson á Landmótum var formaður á Sæfara. Þetta voru 11 tonna bátar. Jón Einarsson á Gjábakka réði Sigurfinn Einarsson frá Borgum í Norðfirði fyrir formann á Haffara, og var hann með bátinn veturinn 1912.

Sveinn Jónsson, Landmótum.
Guðjón Jónsson, Sandfelli.

Maður hét Jón Stefánsson, hann bjó í Gerðakoti undir Eyjafjöllum um þessar mundir. Hann hafði verið formaður um fjölda ára við Fjallasand. Einnig hélt hann skipi sínu út á vetrum í Vestmannaeyjum, og var hann talinn með allra beztu brimformönnum við Sandinn. Hann hafði einnig verið formaður með m/b Fálka frá Vestmannaeyjum vetrarvertíðina 1909.

Jón flutti með skyldulið sitt út til Vestmannaeyja vorið 1912, og ræðst hann jafnhliða formaður fyrir Haffara. Tekur hann við honum í ársbyrjun 1913 og hafði síðan formennsku á bátnum hverja vorvertíðina af annarri.
Nú byrjar vertíðin 1916. Þann 5. janúar verður mikið slys. Þá ferst m/b Íslendingur við leit að öðrum báti, sem var m/b Sæfari, er áður var minnzt á. Bjargaði m/b Happasæll skipshöfn Sæfara, en þeir voru 4 að tölu. Einn þeirra var Tómas Þórðarson frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Nú vantaði hann skiprúm. Hann hittir Jón Stefánsson, og talast það svo til, að Tómas ræður sig á Haffara, enda voru þeir sveitungar og gamalkunnugir, og hefur Jón víst talið sig heppinn að fá slíkan mann sem Tómas var.

Líður nú tíminn. Jón Stefánsson er með Haffara, og allt gengur sinn vana gang. Það er komið fram í apríl og almennt farið að liggja úti. Var þá róið með línuna síðari hluta dags og legið yfir nóttina, en byrjað að draga í birtingu.
Hinn 9. apríl kallar Jón Stefánsson hásetar hans keyra sínum bjóðum niður Bæjarbryggju. Bar þann dag upp á sunnudag. Margir formenn aðrir kölluðu, þar á meðal Kristinn Ingvarsson, sem þá var formaður á m/b Hlíf. Einnig kallaði Guðjón á Sandfell í sína menn.
Jón Stefánsson ekur bjóðum sínum niður Edinborgarbryggju, því að hann hafði beituskúr hjá Jakobshúsi, en Kristinn Ingvarsson og hásetar hans keyra sínum bjóðum niður Bæjarbryggju.

Guðjón Þórðarson, Heklu.
Kristinn Ingvarsson, Lundi.

Nú láta báðir bjóð sín í skjöktbátinn, og virtist þeim á Hlíf Jón hafa mikinn hug á því að komast á sjóinn. Jón og hásetar hans róa út á Botn, en Kristinn er aðeins seinni. Þegar Kristinn hafði látið bjóð sín í skjöktbátinn, segir hann við háseta sína: „Hinkrið þið aðeins við, ég ætla að ganga austur á Skans, mér lízt ekki á útlitið.“ Kristinn fer nú austur á Skansinn, en á meðan fer Stefán Ingvarsson bróðir Kristins og háseti hjá honum upp úr skjöktbátnum og gengur um bryggjuna. Stefáni verður litið austur á Edinborgarbryggju, og sér hann þá Jón Stefánsson og alla háseta hans halda á milli sín skjöktbámum á hvolfi niður bryggjuna. Horfir hann á þetta 2-3 mínútur. Nú kemur Kristinn austan af Skansi og segir við menn sína: „Keyrið þið bjóðunum upp aftur , ég ætla ekki að róa, mér lízt ekki á útlitið.“ Keyrðu þeir síðan bjóðunum upp aftur, og fór Stefán Ingvarsson heim að því verki loknu, en kom við hjá Valdimar Ottesen, sem þá verzlaði á Þingvöllum. Sagði þá Kristinn við Valdimar og fleiri, sem þar voru: „Það koma ekki allir að landi á morgun.“ „Þú spáir fallega,“ segir Valdimar. „Hvað um það,“ svarar Stefán, „þá verður það nú svo.“

Nú er að segja af Haffara, að hann lætur úr höfn um þrjúleytið, og er m/b Ingólfur, sem Guðjón á Sandfelli var formaður á, honum samskipa.
Báðir halda þeir fyrir sunnan Bjarnarey og keyra þar til þeir eru komnir austur á Holtshraun, því að þeir héldu sig þar iðulega Fjallamennirnir og fengu oft góðan afla.
Lögðu þeir nú línuna, en þegar kom fram á kvöldið, fór að hvessa af suðaustri og gerir fárviðri með blindbyl og ofsaroki. Er þá Jón Stefánsson búinn að draga nokkur bjóð. Hann gengur nú frá stýrinu og sker á línuna og segir, að það sé ekki seinna vænna að komast heim, og er nú haldið af stað. En svo er bylurinn svartur, að ekki sér út úr augum, og er rokið að sama skapi.
Allt gengur eðlilega í fyrstu, en eftir góða stund stoppar vélin, fer þó í gang aftur, en er alltaf að smástoppa, unz hún þagnar með öllu. Meðan á þessu gengur, ber bátinn suður með og hrekur síðan undan sjó og vindi.

Jón Stefánsson.
Guðlaugur Jónsson.

Loks rofar aðeins til, og sjá þeir þá ljósið á Stórhöfðavita. Eru þeir staddir suður af Flúðatanga. Skiptir það engum togum, að Haffari lendir upp í stórgrýtið í Flugum. Þegar Jón Stefánsson sá, hvað verða vildi, tók hann öllu með ró og stillingu og segir við Tómas: „Það þýðir ekki að æðrast, Tumi minn.“ Báturinn fór á stóru ólagi upp í stórgrýtisurðina, og í útsogi féll Tómas út úr bátnum ásamt öðrum manni, Þórarni Brynjólfssyni. Svömluðu þeir síðan upp klappirnar og upp á háan klett, og er þeir litu við, var Haffari klofinn í tvennt. Þarna urðu ævilok Jóns Stefánssonar, vélamanns hans og háseta.
Þeir Tómas og Þórarinn hugðust nú reyna að komast upp. Urðu þeir að fara alllangan veg, því að hvergi var uppganga fær á þessum slóðum. Þurftu þeir að fara alla leið norður á móts við Flúð, því að þar er eini staðurinn, þar sem hægt er að komast upp á brún úr urðinni. Tókst þeim það, þó að snjór og ófærð væri orðin mikil.
Þetta var um tíuleytið um kvöldið, en um klukkan 11 komu hinir skipreika menn heim að Hlaðbæ. Nú er það af Ingólfi að segja, að Guðjón skar einnig á sína línu og leitaði til lands um sama leyti og Jón Stefánsson. Var sami veðurofsinn hjá honum, og sáu þeir ekki út úr augum fyrir byl. Guðjón hafði alltaf menn frammi á bátnum, ef þeir kynnu að sjá land, en það ætlaði að ganga seint, þar til loks, að Þorsteinn Brynjólfsson, sem lengi bjó í Ásum hér í bæ, kallar, að hátt fjall sé framundan. Reyndist það vera Hábarð á Elliðaey. Guðjón keyrir nú vestur fyrir eyna og leggst þar og segir síðan við menn sína: „Eigum við ekki að reyna að hita okkur kaffi?“ Voru allir því samþykkir, og drekka þeir síðan kaffi. Segir þá Guðjón: „Það væri betur, að öllum liði eins vel og okkur; einn var að fara núna“. Að lokum segir Guðjón: „Eigum við ekki að reyna að komast heim?“ Síðan halda þeir á Ingólfi yfir Flóann og til hafnar, en svo var bylurinn mikill, að þeir vissu ekki, hvernig þeir fóru inn Leiðina.

Þeir sem fórust með Haffara voru:
Jón Stefánsson formaður. Hann var fæddur að Leirum undir EyjafjöIIum 18. júní árið 1870. Foreldrar hans voru Stefán Guðmundsson formaður og bóndi þar og kona hans Kristný Jónsdóttir.

Gunnar Gunnarsson.
Þórður Tómasson.

Jón fluttist með foreldrum sínum á unga aldri að Mið-Skála í Vestur-Eyjafjallahreppi, og ólst hann þar upp. Hann byrjaði ungur sjómennsku með föður sínum við Fjallasand og tók fljótt við formennsku á opnu skipi þar. Einnig hafði hann á vetrarvertíðum formennsku á skipinu Trausta, sem var gert út frá Vestmannaeyjum. Trausti var áttæringur með íslenzku lagi, og voru eigendur hans þeir sr. Kjartan Einarsson prófastur í Holti og Magnús Sigurðsson hreppstjóri í Hvammi. Mun Jón hafa verið formaður á opnu skipi allt þar til mótorbátarnir hófu göngu sína. Gerðist hann þá sjómaður á þeim og tók við formennsku á m/b Fálka vertíðina 1909.
Eins og áður segir bjó Jón að Gerðakoti, en vorið 1912 seldi hann bú sitt þar og fluttist með fjölskyldu sína til Vestmannaeyja. Byggði hann húsið Úthlíð við Vestmannabraut og réðst formaður fyrir Haffara.
Var Jón heppinn og góður aflamaður. Hann var með hærri mönnum á vöxt, frekar grannvaxinn, ljós yfirlitum, glaður í viðmóti, enda mannsæll.
Kona hans var Þuríður Ketilsdóttir frá Ásólfsskála. Börn þeirra eru: Björgvin formaður, sem lengi hefur haft skipstjórn á vélbátnum Jóni Stefánssyni VE 49 og átt þann bát; Ísleikur bifreiðarstjóri á Heiðarbrún; Ólafía, kona Guðjóns Schevings og Guðrún kona Þorgils Bjarnasonar í Fagurhól hér í bæ.
Gunnar Gunnarsson vélamaður. Hann var frá Sléttu Í Mjóafirði og var fæddur 1883. Var þetta önnur vertíð Gunnars á Haffara. Hann hafði ungur byrjað sjómennsku á Mjóafirði og var talinn góður sjómaður. Fyrst mun hann hafa komið til Vestmannaeyja árið 1913 og var þá vélamaður á Norrönu hjá Magnúsi Jónssyni, en Jón Einarsson á Gjábakka átti hlut í þeim bát. Var Gunnar til húsa á Gjábakka þær vertíðir, sem hann var hér í Eyjum, og þar til hann fórst.
Guðlaugur Jónsson háseti. Hann var fæddur að Blautalæk á Brunasandi í Vestur-Skaftafellssýslu árið 1890. Foreldrar hans voru Jón Guðlaugsson bóndi á Blautalæk og kona hans Ingibjörg Sæmundsdóttir frá Sólheimahjáleigu í Mýrdal. Guðlaugur kom ungur til frændfólks síns að Sólheimahjáleigu og ólst þar upp.
Þetta mun hafa verið þriðja vertíð hans á Haffara.

Þeir sem komust af voru:
Tómas Þórðarson háseti. Hann er fæddur að Rauðafelli undir Austur-Eyjafjöllum 17. janúar 1886. Foreldrar hans voru Þórður Tómasson formaður og bóndi þar og kona hans Guðrún Tómasdóttir. Tómas var þriggja vikna gamall tekinn til fósturs að Varmahlíð af móðurbróður sínum Sigurði Tómassyni og konu hans Þóru Torfadóttur. Var Tómas hjá þeim til 30 ára aldurs. Hann byrjaði ungur sjómennsku á opnu skipunum og var oftast á Fjallaskipum, sem voru gerð út héðan frá Vestmannaeyjum á vetrum, allt þar til vélbátarnir komu. Þá fór Tómas á Lunda I til Guðleifs Elíssonar á Brúnum; var Tómas síðan á ýmsum bátum, og formaður var hann með m/b Freyju árið 1913. Sem fyrr segir bjargaðist Tómas ásamt félögum sínum af m/b Sæfara, þegar hann fórst í vertíðarbyrjun 1916. Var hann vélamaður á Sæfara. Tómas varð því tvisvar skipreika þessa vertíð. Ekki lagði hann samt árar í bát og fór háseti á m/b Svan til Jóns Ingileifssonar og var með honum til loka vertíðina 1916. Stundaði Tómas sjómennsku á vertíðum hér í Eyjum allt fram til ársins 1935.
Tómas var kvæntur Kristínu Magnúsdóttur frá Yzta-Skála. Bjuggu þau allan sinn búskap í Vallnatúni í Vestur-Eyjafjallahreppi. Þau eignuðust 4 börn, og meðal þeirra er hinn kunni sagnaþulur og fræðimaður Þórður, safnvörður Byggðasafnsins að Skógum undir Eyjafjöllum.

Þórarinn Brynjólfsson.

Býr Tómas nú í Skógum og er glaður og reifur, þótt aldurinn sé orðinn nokkuð hár.
Þórarinn Brynjólfsson háseti. Hann var fæddur í Keflavík 14. nóvember 1895. Faðir hans var Brynjólfur Björnsson ættaður úr Mýrdal, en móðir hans var Helga Þórarinsdóttir, hálfsystir Guðmundar Þórarinssonar frá Vesturhúsum hér í Eyjum. Þórarinn missti báða foreldra sína barnungur. Fórst faðir hans á skútunni Kristjáni, þegar hann var 6 ára gamall. Var Þórarinn alinn upp hjá móðursystur sinni Guðrúnu Þórarinsdóttur og manni hennar Sigurði Gíslasyni járnsmið.
Þórarinn varð síðar vélstjóri og gegndi því starfi til æviloka, en hann andaðist 26. október 1946. Var hann alla tíð þróttmikill og dugandi sjómaður.
Þórarinn var meðalmaður á hæð, en þrekinn. Það héldu sumir, að hann vissi ekki afl sitt. Var hann fríður sýnum, glaður í lund og ljóðelskur, enda hagyrtur. Hann var kvæntur Þórunni Bjarnadóttur, sem lifir mann sinn.

Í Sjómannadagsblaðinu 1966 minntist ég, sem þetta rita, á draum Stefáns Ingvarssonar í sambandi við Framslysið. Í draumnum talaði Stefán við Vilborgu í Kotvogi, sem var þá látin fyrir mörgum árum. Segir hún Stefáni, að hún hafi ráðið til sín tvo formenn úr Vestmannaeyjum. Þegar Guðjón á Oddsstöðum, segir í draumnum, að Magnús í Dal sé farinn í sjóinn, segir Vilborg, að það sé verst, að hann Jón Stefánsson fari eins.
Með slysinu á Haffara var þessi merkilegi draumur, sem Stefán Ingvarsson dreymdi vorið 1914, kominn fram.
Magnús í Dal fórst á Fram 15. janúar 1915, og rúmu ári síðar ferst Jón Stefánsson á Haffara. Fórust þeir báðir á þann hátt, að bátar þeirra fóru upp í Urðirnar. Fórst Jón Stefánsson á Haffara tæpri sjómílu sunnar en Magnús í Dal.
Aftur fékk svo Stefán fyrirboða að slysinu, þegar hann sá sýnina á Edinborgarbryggjunni, er Jón lagði upp í sína síðustu sjóferð.
Guðjón á Sandfelli hafði svokallaða skyggnigáfu og sá oft fyrir óorðna hluti. Sagði hann oft löngu áður, hvað myndi koma fyrir og sagði það þá fleiri mönnum. Ég spurði Guðjón eitt sinn að því, hvernig þetta kæmi yfir hann, og sagði hann mér, að hann sæi atburðinn alveg eins og hann atvikaðist.
Venjulega sagðist hann sjá þessar sýnir í svefnherberginu sínu heima á Sandfelli.
Daginn, sem Haffari fórst, var þriðjungur Eyjabáta í landi, sökum þess hve veðurútlitið var ískyggilegt. Skrifar Þorsteinn í Laufási um veðurútlitið þennan dag í Formannasævi í Eyjum: „Sunnudaginn 9. apríl var veðurútlit svo ljótt, að ég hætti við að róa. Reyndi ég einnig að aftra öðrum frá því að fara, svo viss var ég um aðsteðjandi óveður. Um nóttina gerði stórviðri af austri og blindbyl.“ Nokkrir bátanna, sem fóru á sjó umræddan dag fengu útilegu um nóttina.

Togarinn Kelvin, sem strandaði í Flugum árið 1924. Það er svo til á sama tíma stað og Haffari fórst 1916.

Eigi er ein báran stök;
yfir Landeyjasand
Dynja brimgarða blök,
búa sjömönnum grand;
magnast ólaga afl, -
einn fer kuggur í land;
rís úr gráðinu gafl,
þegar gegnir sem verst,
níu, skafl eftir skafl,
skálma boðar í lest.
Eigi er ein báran stök
- ein er síðust og mest,
búka flytur og flök,
búka flytur og flök.

Grímur Thomsen.