Guðjón Scheving

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Guðjón
Aðalheiður, Jón og Sveinn

Guðjón Sveinsson Scheving fæddist 11. september 1898 í Dölum í Eyjum og lést 9. október 1974. Foreldrar hans voru Sveinn P. Scheving og Kristólína Bergsteinsdóttir. Guðjón var elstur í systkinahópnum en þau voru fjögur systkinin, Anna Sigríður, Páll og Sigurður.

Guðjón kvæntist Ólafíu Jónsdóttur þann 1. desember 1923. Börn þeirra voru Jón f. 1924, Aðalheiður Steina f. 1927 og Sveinn f. 1933. Þau bjuggu í Langholti.

Guðjón var málarameistari og lærði hann þá iðn hjá Tómasi Þorsteinssyni í Reykjavík skömmu eftir 1920. Hann fékk meistarabréf 1927. Hann starfaði við iðnina til dauðadags.

Guðjón var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs. Hann var hvatamaður að stofnun Verkalýðsfélags Vestmannaeyja og Iðnaðarmannafélags Vestmannaeyja. Hann var sæmdur heiðursmerki Landssambands iðnaðarmanna árið 1952 fyrir störf sín og félagsstörf.

Hann átti þátt í stofnun Byggðasafnsins.

Hann var virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum og sat hann stofnfund SUS á Þingvöllum árið 1930.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Guðjón var nokkur sumur í Elliðaey.
Guðjón er maður meðalhár, skolhærður, fremur breiðleitur, allþrekinn og frísklegur á velli, hátt enni og kinnbein. Hann er skapléttur og brosmildur, vel gefinn að gáfum, ræðumaður allsleipur og hefir gefið sig nokkuð að stjórnmálum með sjálfstæðismönnum.
Guðjón var nokkuð til fuglaveiða fyrr á árum, allgóður liðsmaður á þeim vettvangi.
Veiðimaður hefði hann eflaust getað orðið, en hætti fuglaferðum, áður en hann næði verulegri leikni. Guðjón fær gott orð yfirleitt, er málari að iðn, fær í sínu fagi.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Kristján Guðlaugsson. Íslenskir málarar. Reykjavík: Málarameistarafélag Reykjavíkur, 1982.