Saga Vestmannaeyja II./ III. Atvinnuvegir, 3. hluti, framhald 1
Vetrarvertíð mun lengstum hafa byrjað í Vestmannaeyjum um mánaðamótin janúar—febrúar, eða um kyndilmessu. Samkvæmt fornri venju var hverjum háseta skylt að hlýða lögkalli formanns og vera við sinn keip frá kyndilmessu til loka. Af heimildum frá lokum 16. aldar⁴⁰) sést, að vetrarvertíð í Vestmannaeyjum byrjar þá á sama tíma og að ofan getur, oftast frá um 27. janúar til 3. febrúar, eða á sama tíma og tíðkast um aldamótin 1900. Vetrarvertíðin var fyrrum reiknuð nokkuð styttri en síðar gerðist, eða frá því um kyndilmessu og til 21. eða 24. apríl, en vorvertíð aftur talin frá 24. apríl til 27. júní.
Sumar- og haustvertíðin byrjaði í júlí og var stundum haldið úti fram í desember, svo að heita mátti, að sjósóknin næði allan ársins hring. Á dögum konungsverzlunarinnar á síðari hluta 16. aldar var vorfiski stundað á allt að 2/3 hluta af skipum veiðiflotans, en færri stunduðu haustfiski, en héldu stundum úti alveg fram undir vertíð.
Róðrardagar á vertíð á árunum undir lok 16. aldar voru venjulega 30—40, rúmir 40 hæst. Skipið Björninn, formaður Pétur List, róðrardagar á vertíð 1599—1600: Janúar: 25., útdráttardagur, Pálsmessa, 31. Febrúar: 1., 18., 19., 21., 27., 28., 29. Marz: 1., 3., 5., 6., 7., 8., 10., 11., 12., 14., 17., 19., 21., 22., 27., 28., 31. Apríl: 2., 5., 9., 12., 14., 15., 16. — Skipið Gabríel, teinæringur, róðrardagar: Janúar 1, febrúar 9, marz 17, apríl 8, samtals 35 dagar. — Skipið Jesúbátur, áttæringur: Janúar 1, febrúar 8, marz 16, apríl 8, samtals 33 dagar. — Síðasti róðrardagur á vertíðinni á öllum skipunum er 16. apríl.⁴¹) — Á vertíð 1726 var hér haldið úti 2 tólfæringum og 7 teinæringum, og voru róðrardagar bátanna frá 28 lægst til 34 hæst. Síðasti róðrardagur þá á vertíð var 1. maí. — Á vertíð 1761 voru róðrardagar 1 tólfærings, 8 teinæringa og 2 sexæringa frá 25—30. Síðasti róðrardagur þá einnig 1. maí, og eigi byrjað fyrr en síðast í febrúar. Á síðasta hluta 18. aldar er vertíð hér talin byrja 28. jan. og enda 12. maí.
Til samanburðar skal hér tekið róðrartal fyrir áttæringinn Fálka, tíróinn, formaður Magnús Þórðarson⁴²): Á vetrarvertíð 1902: 45 róðrardagar, — 1903: 52 róðrardagar, — 1904: 54 róðrardagar, — 1905: 42—44 róðrardagar, — 1906: 38 róðrardagar. — Róðrartal 1896—1906: 36 róðrard. á vertíð.⁴³)
Róðrar á vertíð fyrst eftir að vélbátaútgerðin byrjaði: V/b Skeið 1907: 38 róðrar, skipið seint tilbúið. V/b Kapítóla 1908: 35 róðrar, byrjað 14. febr. nefnt ár. Sama skip 1909: 43 róðrar, 1910: 30 róðrar.
Samkvæmt skýrslum um fiskahluti á síðari hluta 16. aldar sést, að hlutir hafa verið svipaðir þá og gerðist á seinni tímum, 2—4 hundraða hlutir í sæmilegum árum. 1726 voru hæstir hlutir 5 hndr., 1761 rúm 4 hndr., stór. Vorhlutir voru oft ríflegir af þorski og löngu, sem og ýsu. Dæmi voru til þess, að menn fengju 10 hndr. tólfræð af þorski í hlut á vertíð, lestarhlut, er kallaður var. Lestarhlutir fengust t.d. á vertíð hér 1666.⁴⁴) Lestarhlut fékk Loftur bóndi Jónsson í Þorlaugargerði á vertíð um miðja 19. öld.
Tvíhlaðið var stundum á góðum sjóveðursdögum, ef fiskur var nógur skammt undan, og það kom fyrir, að þríróið var. Algengt var og að afhausa á góðum veiðidögum. Í útróðri var einatt skilinn eftir einn maður af skipshöfninni til þess að annast skipti á fiskinum. Venja var að draga fiskinn á seilar, er komið var inn undir naustin, inn í Læk. Mátti af því marka, hversu margar seilar voru á bæði borð, hve vel skipin voru „fiskuð“. 3 fiskar í hlut voru af fullri seil. Við skipti var byrjað á frammámönnum og látið ganga aftur eftir skipinu, viss tala, kast, og skipt öllum mannshlutum og dauðum hlutum, skipshlutum. Þar sem eigi náði lengra í síðasta kasti var sagt, að stæði við og menn „ættu í sjó“. Þegar afli náði eigi einum fiski í hlut í róðri var sagt, að eigi kæmi til skipta.
Fiskveiðarnar á smáferjunum á sumrin drupu eyjamönnum oft drjúgum, enda voru þær og kappsamlega stundaðar, svo að jafnvel um sláttinn höfðu margir bændur það fyrir sið að fara á fætur upp úr miðnætti og slá fram undir morgun, róa síðan vestur eða suður með eyjum og „sitja“ allan daginn eða svo lengi, sem mátti vegna heimaanna. Fiskuðu þeir bæði þorsk og ýsu, lúðu, skötu og annað soðfiski. Bændur fyrir ofan Hraun höfðu bátauppsátur fyrir sumarveiðarnar í Klauf og Vík.
Fiskisælt hefir jafnan verið talið í eyjum og betra en víðast annars staðar. Fiskiár góð hafa verið hér um löng tímabil, eins og sjá má svo langt aftur í tímann, sem heimildir ná. Óslitin góð aflaár munu hafa verið lengstum á 15. og 16. öld, sama gegnir og um 17. öldina að miklu leyti fram yfir 1680. Afli var hér stundum svo mikill, að fleygja varð lifur vegna ílátaleysis, er þótti hið mesta mein. Eftir 1684 komu hér þrjú fiskileysisár í röð, og er talið, að töluvert hafi þá sorfið að eyjamönnum vegna matarskorts, er annars sjaldan getur. Fjöldi tómthúsa lögðust þá í eyði og byggðust eigi síðan.⁴⁵) Góðir fiskihlutir voru í eyjum 1703 og yfirleitt 1. áratug 18. aldarinnar, en nokkuð misjafnt fram eftir öldinni, en þó oft sæmilegt. Eftir 1773 var fiskileysi mikið um næstu 10 ára bil og einhver mesta ördeyða, sem hér hefir verið til sjávarins. Eftir 1784 fór aftur að fiskast. Hafði komið til orða hjá stjórnarvöldunum, er þóttust sjá fram á, að landsskuldir myndu eigi greiðast af eyjunum, að flytja þangað norska fiskimenn til þess að hleypa nýju fjöri í fiskveiðarnar. En er fiskur fór að glæðast aftur, var hætt við þetta.⁴⁶)
Fiskitregða var og oft framan af 19. öldinni og einnig milli 1855 og 1870. Þá komu Vestmannaeyingar sér upp tveimur þilskipum, sjá áður. Yfirleitt er og talið, að fiskitregt mjög hafi verið á síðari hluta 19. aldar, fram um 1890, og fer eiginlega ekki að batna fyrr en farið var að fiska með lóðum.
Þrátt fyrir fiskisæld eyjanna fyrr á tímum, safnaðist lítið fyrir af fjármunum hjá eyjamönnum. Allur þorri bænda og tómthúsmanna voru snauðir og stóðu uppi allslausir, ef nokkur aflaleysisár bar að í röð, og mæddu þá sveitarþyngsli mjög á hinum efnaðri bændum, en kaupmenn hér voru lausir að mestu við sveitarbyrðir. Allur arður af verzlun og ágóðinn af útvegi lenti um margar aldir hjá erlendum mönnum og borgurum erlendra bæja, svo sem Kaupmannahafnar, og hélzt svo fram undir lok 19. aldar. Voru einatt fyrrum kaupmennirnir í Vestmannaeyjum jafnvel borgarstjórar Kaupmannahafnar. Er það eigi lítið, sem höfuðborg Danmerkur hefir dropið frá Vestmannaeyjum fram um tímana. Gott þótti, ef eyjamenn gátu greitt árleg afgjöld sín af jörðum og lendum. Þessi gjöld hurfu og öll úr eyjunum, og nutu menn þeirra að engu, þótt allt vantaði heima fyrir, sæmileg húsakynni, báta, vegi og flest, er til framfara og framkvæmda heyrði. Þrátt fyrir fátækt almennings var þó af mörgum jafnan talið fullt eins björgulegt hér og víða annars staðar. Mannfellir hefir aldrei orðið í Vestmannaeyjum, svo að kunnugt sé. Neyðarástand hefir að vísu verið þar á síðasta hluta 18. aldar og fram um aldamótin. Deyðu þá margir þar af holdsveiki og skyrbjúg. Þá er og getið um horlopasótt.⁴⁷)
Handfærið var eina veiðarfærið, sem hér var notað. Færalínan var um 60 faðma löng, og ótítt, að hér væru notuð styttri færi, sem annars staðar tíðkuðust nokkuð fyrrum. Öngultaumurinn var ½-1 alin. Sakkan úr blýi eða járni eða tilhöggnir blágrýtissteinar, vaðsteinar. Hefir fundizt töluvert mikið hér í rústum og garðabrotum af vaðsteinum frá fyrri tímum. Finnskar færalínur voru notaðar hér fyrrum. Sigurnaglaönglar voru mest notaðir á vertíð. Gekk naglinn upp í sæti á uppendanum á önglinum, eða í gegnum pípu, sætisöngull eða pípuöngull. Í naglanum var forsenda og í hana bundinn öngultaumurinn.⁴⁸) Lóðir munu eflaust hafa verið notaðar í Vestmannaeyjum á 15. og 16. öld, meðan útgerð Englendinga stóð þar, en svo er að sjá, sem þessi veiðiaðferð hafi mjög fljótlega lagzt niður aftur, eða frá því seint á 16. öld. Stauravarpa, „Bundgarn“, hefir verið notuð hér lítils háttar á síðari hluta 16. aldar. Með stauravörpu voru reknar niður stengur, botnstengur. Þetta munu vera elztu botnvörpuveiðitæki, sem hér er getið um.
Lóðir var loks farið að nota nokkru fyrir aldamótin síðustu. Hafði sú skoðun ríkt hér lengi, að eigi myndi hægt að nota hér lóðir, sökum hrauns í botni og strauma. Á Austfjörðum kynntust Vestmannaeyingar fyrst veiðiaðferðum með lóðum. Voru lóðir notaðar í Vestmannaeyjum seint á vertíð 1897. Síðan varð lóðanotkun hér almenn. Meðal þeirra, sem fyrstir stóðu hér að notkun lóða, var Magnús Guðmundsson í Vesturhúsum. Lagði Magnús fyrst lóð 10. apríl 1897 á áttæringi. Þrír bátar lögðu lóðir þessa vertíð. Reynt hafði verið með lóð 1884.⁴⁹)
Framan af voru venjulega notuð 9—14 bjóð í róðri, og voru 6—7 strengir í hverju bjóði, en 60 önglar á streng. Áður en aðferðir voru bættar var erfitt að fara með lóð, verið um hálfan annan klukkutíma að leggja lóðina, sem var rakin upp úr bjóðinu með höndunum, og báturinn látinn fara hæga ferð. Var þetta slæmt verk í vondum sjóveðrum og frostum. Með notkun lóðanna taka sjómennskuhættir að breytast. Aflinn eykst mjög mikið og yfirleitt markast nýtt viðhorf að því er fiskveiðarnar snertir. Það hafði áður þótt sæmilega góður aflahlutur, er 300 fékkst til hlutar á vertíð af þorski og löngu, annar fiskur eigi talinn. Meðalhlutatal hjá þeim beztu hækkaði nú um meira en helming, og betur seinna, — nú fiskaðist og mjög mikið af ýsu.⁵⁰) Kostnaður við veiðarfæri varð miklu meiri, eftir að farið var að nota lóðir: strengir, önglar, belgir, bólfæri, niðurhald o.fl., og beitukostnaður meiri. Vinna var mikil fyrir sjómennina á sjónum og í landi.
Sjómenn önnuðust sjálfir beitningu lóðanna. Varð oft lítið um svefn hjá sjómönnum, þegar stóð í róðrum, og einkum ef tvíhlaðið var. Komu þeir þá af sjó í myrkri og voru við beitningu við ljós, og stundum varla lagztir fyrir, er þeir voru kallaðir til sjós á ný. Seinna komu sérstakir beitningarmenn. Á færafisk fór maðurinn ekki nema með færi sitt, með sökku og öngli, og bar það til skips á öxl sér. Kostaði færið með öllu um 7 krónur um aldamótin síðustu. Miklu voru menn bundnari á sjó eftir að lóðirnar voru teknar í notkun, og sjóslys gerðust tíðari. Áður þurfti ekki annað en að hafa uppi færin, en yfir lóðunum máttu menn oft þrauka lengi. Oft voru sjómenn „hart í högld reknir“ áður með að ná landi, er skyndilega skall á veður, en verr voru menn þó oft komnir eftir að farið var að sitja á lóðum. Bættar aðferðir um lagningu og upptöku línanna komu síðar til greina: „lagningskarl“ og „línuspil“. Sjómenn hættu alveg sjálfir að fást við beitningu, er sérstakir beitningamenn nú annast.
Eftir að farið var að nota lóðir var langa veidd mikið á vorin, einkum árin 1898—1905. Var vorfiski sótt af hinu mesta kappi á sexæringum og minni bátum og harðsókn svo mikil, að segja mátti, þegar gæftir voru góðar, að menn færu ekki í rúmið nema tvisvar í viku, á miðvikudögum og sváfu fram eftir nóttu og á laugardögum og sváfu þá fram til sunnudagskvölds. Á þessum árum var afli mikill og uppgangstími fyrir eyjarnar.⁵¹)
Skötu- og lúðulagnir, haukalóðir, voru stundaðar á sumrum og haustin, og aflaðist oft mjög vel. Ufsaveiði var og nokkur.⁵²)
Þorskanet voru fyrst reynd hér veturinn 1908 og síðar 1913. Hvorug þessara mikilsverðu tilrauna heppnaðist vel. Að þeim stóð Þorsteinn Jónsson útvegsbóndi. Veturinn 1916 reyndi norskur maður, Anders Förland, netjaveiði hér og fékk þorskanetin frá Noregi. Þessi tilraun heppnaðist ágætlega og hófst nú netjaveiðin, er átti eftir að gera stórkostlegar breytingar um fiskveiðarnar, og er hún stunduð síðan.
Dragnótaveiðar byrjaði hér fyrstur Gísli Magnússon útgerðarmaður um 1920. Fjölda margir bátar stunda dragnótaveiði bæði á vetrarvertíð og á sumrum hér og víða um sjó. Mest fiskast í dragnæturnar af flatfiski og var hér með hafinn mikill útflutningur á þessum dýra fiski. Töluvert og af rúmfiski.
Botnvörpuveiðar stunda og vélbátar héðan töluvert og hafa oft aflað mjög vel.
Netja- og nótagerðum hefir verið komið upp og starfa hér nú þrennar, og hefir margt fólk atvinnu við þennan starfa.
Geta má þess, að byrjað var á humarveiðum hér við eyjarnar fyrir skömmu, því að kunnugt var um að humar fengist hér á miðum. Var tilætlunin að sjóða niður humar til útflutnings og neyzlu í landinu. Var byrjað á þessu lítils háttar, en lagðist niður aftur, ef til vill í bili.
Viðhorfið við fiskveiðarnar breyttist mjög, er farið var að nota lóðir og þorskanet, og verður ekki hægt að lýsa því neitt til hlítar hér. Frá miklu tregfiski og oft ördeyðu fyrir aldamótin síðustu óx nú aflinn stöðugt og oft var hinn mesti uppgripaafli. Í hartnær 40 ár samfleytt brást varla afli.⁵³) Fiskaflinn hér sjöfaldaðist rúmlega frá 1899—1915 og tvöfaldaðist enn frá síðastnefndu ári til 1921. Enn tvöfaldaðist hann til 1930. Vélbátar þá að vísu flestir. 1938 voru hér gerðir út 69 vélbátar 12 br. smál. og þar yfir og 6 minni. Afli á stærri bátana var 6,964,000 kg., að verðmæti kr. 1,203,013.⁵⁴)
Breytingar gerðust með hverju ári, sem leið, saltfiskverkunin dróst meira og meira saman, unz hún nú má heita úr sögunni, og þess meira flutt út af nýjum fiski, ísuðum í kössum.⁵⁵) Á síðustu árum flytja fiskflutningaskip, einkum innlend og einnig færeysk, fiskinn jafnóðum og hann aflast ísvarinn til Bretlands. Vestmannaeyingar hafa sjálfir 3—5 eigin skip til ísfiskflutninga. H.f. Sæfell keypti 1941 gufuskipið Sæfell, um 400 smál., og er það stærsta flutningaskipið, sem eyjamenn hingað til hafa eignazt. Hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar mun vera ein hin stærsta á landinu. H.f. Fiskur og ís rekur hraðfrystistöð.
Síldveiðar hafa ekki verið stundaðar hér svo heitið geti. Síldargöngur koma þó oft, en stopult myndi þykja að rækja síldarútgerð. Tilraunir, er gerðar voru í þessa átt um 1897 og síðar, til þess að reyna að fullnægja beituþörfinni eftir að farið var að fiska með lóðum, reyndust allvel. Voru aðallega notuð reknet, en þó nokkuð lagnet.⁵⁶) Því af síldinni, er eigi var notað til beitu, var fleygt. Þessi tilraun með síldveiðar 1897 er talin að vera elzta tilraun í þá átt á Suðurlandi. Þessar síldveiðar, sem varla komust af tilraunastigi, lögðust seinna niður. Kemur þó fyrir ennþá endrum og sinnum, að síld er veidd hér.
Frystivélar, er settar voru í íshúsið, er Ísfélagið hér reisti, voru fyrstu frystivélarnar, er komu hingað til lands. Þær útvegaði Gísli J. Johnsen kaupmaður. Félagið hafði komið upp íshúsi þegar 1903, en reisti annað stærra 1908. Hafði það fengið 2000 ferf. lóð á Nýjabæjarhellu.
Fiskimatsmenn voru skipaðir fyrstir hér 1904 Guðmundur Þórarinsson í Vesturhúsum og Kristján Ingimundarson á Klöpp. Yfirfiskimatsmaður er Kjartan Ólafsson.
Lóðir voru beittar framan af með ljósabeitu: lúðu, steinbít, ýsu og lýsu, kverksiga, einnig karfa. Hrogn og gota mikið notuð. Hnísugarnir voru og notaðar, Meðan fiskað var með handfærum var eigi notuð beita að neinu ráði. Smokkfiskur var þá jafnan eftirsótt beita, en lítið var um það, að smokkfisk ræki hér eða síli. Grafið var eftir fjörumaðki og honum beitt fyrir þyrskling. Skelfiskur og töluvert notaður. Með fiskveiðasamþykktinni frá 1893 var bannað að nota skelfisk og maðk í beitu, einnig var bannað að flytja slor í land. Ákvæðið var fellt burtu með samþykktinni frá 1897.
Um aldamótin 1900 tóku Vestmannaeyingar að útvega sér báta frá Færeyjum. Þóttu bátar með færeysku lagi gangbetri og léttari en gömlu eyjabátarnir, og báru meira. Stærstu bátarnir með færeyska laginu voru hafðir tírónir, en á þá þurfti samt eigi nema 14—16 manna áhöfn. Mest var samt um áttæringa og smáferjur, er voru nú allar gerðar upp eftir hinu nýja lagi. Bátana með færeyska laginu, „Færeyingar“, er svo voru kallaðir venjulega, mátti smíða úr tómu greni. Þessi skip ruddu sér fljótt til rúms og gömlu vertíðarskipin, er verið höfðu flest afburða sjóskip, hurfu úr sögunni.⁵⁷) Skipasmiður var fenginn frá Færeyjum, og smíðaði hann fyrstu stórskipin hér með nýja laginu, en fljótt tóku eyjasmiðir við.⁵⁸)
Fyrsti vélbáturinn var fenginn til Vestmannaeyja 1904, og var hann smíðaður af Páli Þorkelssyni skipasmið í Reykjavík. Var hann 3—3½ tonn að stærð með lítilli Möllerupsvél. Eigendur voru Gísli J. Johnsen kaupmaður, Ágúst Gíslason og Sigurður Sigurðsson útvegsmenn. Þessi bátur, Eros, kallaður Rosi, gekk eigi á vetrarvertíð. Árið eftir fékk Þorsteinn Jónsson útvegsbóndi í Laufási vélbát í félagi með fjórum mönnum öðrum. Báturinn var 7 smálestir að stærð með 7 hesta vél. Sama ár sótti Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson vélbát, Knörrinn, 12— 14 smál., er var keyptur í Noregi, en vél fengin í Danmörku. Báðir þessir bátar gengu á vetrarvertíð 1906. Vélbátum fjölgaði fljótt. 1907 gengu 18 vélbátar úr eyjunum, 1908 yfir 30. Gömlu vertíðarskipin eru alveg úr sögunni eftir þennan tíma, en nokkrir róðrarbátar gengu þó enn á vertíð, smábátar, fram undir 1929. Trillubátarnir eru þá komnir. 16 trillubátar gengu hér 1930 og 95 vélbátar. Smálestatal bátaflotans eykst að stórum mun. Margir 20—50 smál. 1943 br. smál.tal 2573. Talstöðvar eru í mörgum bátum.
Frá fyrstu tímum hafa eyjamenn smíðað báta sína sjálfir. Getið er þess hér að framan, að konungur sendi út hingað norskan eða danskan skipasmið, áður en hinn mikli útgerðarrekstur konungsverzlunarinnar hófst á síðasta hluta 16. aldar. Smíði og viðgerðir á bátunum önnuðust bæði innlendir og erlendir smiðir lengi framan af. Með rentuk.br. 25. marz 1701 var boðið, að smíðar og viðgerðir á konungsskipunum skyldu eyjamenn annast. Skipasmiðir voru hér lengi kallaðir kóngssmiðir. Síðustu kóngssmiðir hér voru þeir Guðmundur Eyjólfsson bóndi í Þorlaugargerði, faðir séra Einars Guðmundssonar prests í Noregi, drukknaði 1784, sjá um hann hér annars staðar, og Magnús Sigurðsson bóndi á Vilborgarstöðum, afi Einars Sigurðssonar föður Árna bónda og alþingismanns á Vilborgarstöðum, Sigurðar, er lærði járnsmíði ytra, og Kristínar í Nýjabæ. Meðal helztu bátasmiðanna fyrir og eftir aldamótin síðustu má telja Árna Einarsson fyrrnefndan á Vilborgarstöðum, Ólaf Magnússon, Sigurð Sigurfinnsson og Jón Pétursson. Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ Ögmundssonar í Auraseli var afkastamesti bátasmiðurinn á seinni tímum, smíðaði hann fjölda af opnum bátum og vélbátum og með honum síðar Ólafur sonur hans. Skip voru fyrrum smíðuð úti undir svokölluðum Skiphellum.
H.f. Dráttarbraut Vestmannaeyja annast smíði og viðgerðir vélbáta. Yfirsmiður Gunnar M. Jónsson. 1939 var smíðaður í Vestm.eyjum stærsti bátur, er smíðaður hafði verið hér á landi, 114 br. smál. Eigandi Helgi kaupmaður Benediktsson. — Dráttarbraut Magnúsar Magnússonar, lóðarsamn. 15. sept. 1926. — Skipasmíðastöð Vestmannaeyja, eigandi Ársæll Sveinsson, var stofnuð 1941. Hafa þegar verið smíðaðir þar nokkrir stórir vélbátar, útbúnir öllum nýjustu tækjum. Yfirsmiður Runólfur Jóhannsson skipaskoðunarmaður. — Meðal hinna mörgu skipasmiða nefni ég ennfr. Jón Guðjónsson og Brynjólf Einarsson.
Gísli Johnsen stofnsetti vélaverkstæði hér 1907 fyrir vélbátaútveginn. Forstöðumaður var Matthías Finnbogason vélsmiður, síðar skipaskoðunarmaður. Jónatan Snorrason hefir stundað lengi járn- og vélsmíðar. 1912 var veitt lóð fyrir vélaverkstæði við Gjábakkaveg (samningur Gísla J. Johnsen). C. Thomsen vélsmíðameistari kom þar upp stórri járn- og vélsmiðju og rak lengi. Gunnari Ólafssyni f.h. Smiðjufélagsins h.f. var 1912 veitt lóð við Skildingafjöru og verkstæði komið þar upp. Var fyrir því Jóhann Hansson vélfræðingur. Einar Magnússon rak hér vélsmiðju lengi. H.f. Magni, forstjóri Ólafur St. Ólafsson, rekur járn- og vélsmiðju. Þorsteinn Steinsson rekur járn- og vélsmiðju.
Hákarlaveiðar voru stundaðar nokkuð fyrrum og töldust til atvinnuveganna, að minnsta kosti frá seinni hluta 18. aldar. Eftir útkomu opins bréfs 28. febr. 1758 mun hafa verið lögð meiri stund á hákarlaveiðar. Þær lögðust niður frá 1893—1894. 1872—1883 fékk hákarlaskip í 13 ferðum frá 4 og upp í 20 tn. í ferð. 1872—1878 var tn. af hákarlslýsi á kr. 24,00. Skipin höfðu 3—4 sóknir í hverri ferð og 3—5 skutla og hnífa.
Upp úr vertíðarlokum var farið í hákarlalegurnar. Einnig á haustin eftir veturnætur. Í skammdeginu var stundum farið og við og við fram undir vertíð, ef veður gáfust. Legið var úti eitt eða tvö dægur, þegar sjór og veður leyfði. Útilegurnar gátu samt orðið miklu lengri, stundum 5—6 dægur, þegar hákarl var tregur. Venjulega höfðu menn nesti til þriggja daga. Ekkert var skýlið á bátunum, og því helzta ráðið, er „legið var“, að berja sér til hita og til þess að halda sér vakandi. Setið var yfir hákarli á 50—60 faðma dýpi, og legið við akkeri, hákarladrek, er svo var kallað. Legufærið var yfir 100 faðmar á lengd, neðst á því járnkeðja, er akkerið var fest í, forhlaupari kallað. Gefið var eftir á akkerisfestinni allmikið, eftir að akkerið hafði náð botni, og það nefnt yfirvarp. Hákarlavaðurinn, færið, var um 120 faðmar á lengd, venjulegast voru þeir tveir, sín línan á hvort borð. Hákarlssakkan var um 8 pd. öngultaumar úr járnkeðju, fullir 3 faðmar á lengd, tveir fyrir neðan lóðið og einn fyrir ofan, sá hlutinn kallaður bálki. Hákarlalínan með tilfæringum var kölluð hákarlasókn. Þegar rennt var, og lóðið eða sakkan var komin í botn, var tekið grunnmál. Hákarlabeitan var aðallega hrossakjöt, saltað í tunnu og blóðinu hellt yfir; var það og kallað blóðkjöt. Einnig lögsaltað selspik með húð og hári á. Þegar hákarl kom á færi var hann dreginn upp og skutlaður djúpt á hol og síðan gefið eftir á færinu. Skutullinn var um 1/2 alin á lengd með hólkinum, og var kippt úr skaftinu, þegar búið var að skutla. Skutultaugin var um tveggja faðma löng. Þegar búið var að skutla hákarlinn var hann stunginn á hol með sveðju mikilli, tveggja álna löngum, tvíeggjuðum hníf, hákarlahníf. Ífæra eða knúbaggi var borinn í hákarlinn meðan hann var skorinn og tekin úr honum lifrin. Ífæran var stór járnkrókur á álnarlöngu skafti. Þegar búið var að taka lifrina úr hákarlinum var honum brugðið upp á keðju, eða seil, og var borað fyrir með blaðkúptum hníf, er var líkur kolunafar í laginu, gegnum kjaftvikið og hausinn og sett út í gegnum hnakkann. Var keðjunni síðan brugðið á skafti gegnum gatið eftir hnífinn í hönk, sem var á öðrum endanum. Hákarlinum var haldið á seilinni, trompa eða kjöltrompa, og eigi sökkt fyrr en
farið var heim. Helzt var farið í norðanáttum og hreinviðri, og sótt austur á Leddarforir, í Fjallasjó og út undir Jökulsá á Sólheimasandi. Á hákarlaskútunum sóttu menn langt austur eða vestur með landi. Venja var lengi, að skipseigendur létu skipverjum á hákarlaskipum í té til ferðarinnar 4-5 potta af brennivíni. Var vínið haft út í kaffi. Kaffi var hitað á eldavél, „Konfyr“, og drukkið fjórum sinnum á sólarhring: á morgnana (í dögunina), á hádegi, um dagsetur og síðast um miðnótt. Nestið, er menn höfðu með sér, var harðfiskur og kjöt, smjör og brauð.
Það hafði tíðkazt, að koma hrossskrokkum fyrir í rimlakössum og sökkva á miðum. Átti þetta að hæna hákarlinn að. Vel þótti og oft verða fiskvart kringum hrossskrokkana.
1872 gengu héðan 3 þilskip til hákarla. Þilskipaeignin lagðist af eftir að hákarlajaktin Jósefína fórst 1888.
Hákarlinn, er fluttur var heim og hafður til neyzlu, var kasaður í sandi. Hákarlsverkunin var með sama hætti og tíðkaðist annars staðar og óþarfi að fjölyrða um það hér.
Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
40) Regnskaber for Vespenöe.
41) Umboðsskilagrein frá 1586—1601.
42) Róðrartal J.J. í Hlíð 1902—1906.
43) Róðrartal Þorsteins Jónssonar.
44) Annálar 1400—1800, 444.
45) Annálar 1400—1800, 280.
46) Sjá konungsúrsk. 21. apríl 1777, birtan kaupmönnum í eyjunum
3. maí 1777; Isl. Copieb. L.S. Nr. 109—171; Lovs. IV, 393.
47) Kirkjubækur V.E.
48) Heimasmíðaðir önglar úr stáli með tinsíld kostuðu um aldamótin
síðustu 50 aura.
49) Sagt er, að fyrstu lóðirnar, er hér voru notaðar, hafi verið úr útlendu línuveiðaskipi, er hér strandaði.
50) Hlutatal áttæringsins Fálka vertíðirnar 1902—1906, 17¹/² hlutur (3¹/² skipshlutur og 14 mannshlutir): 630, 900, 1325, 1100, 640. — Á vélbátum komu ekki eiginleg hlutaskipti til. V/b Skeið fékk 1907: 6400 af þorski og löngu. V/b Kapítóla 1908: 14000 fiska, 1909: 11200, 1910: 9500.
51) Útflutningur af löngu nam 124,400 pd. héðan árið 1899 og jókst síðan.
52) Smáufsi, hér alltaf kallaður murtur, stórmurtur og smámurtur, var oft mikill inni á höfninni í Læknum og við sjávarvik. Unglingar stunduðu þá veiði og kolaveiði, en koli var stunginn með kolastingjum.
53) Hinni miklu uppgripaveiði, er varð eftir að þorskanetin voru tekin í notkun, má líkja við uppgripaveiðina af fugli eftir að byrjað var að veiða lunda í net.
54) Fiskiskýrslur og hlunninda.
55) Reglug. um útflutning á fiski til Bretlands, sbr. reglug. um útflutning á ísuðum, nýjum fiski, 28. nóv. 1935. Lög 12. des. 1935, um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o.fl., sbr. lög 31. des. 1937, nr. 75.
Lög um veiði, sölu og útflutning á kola 28. maí 1941. Sjá og reglug. nr. 13, 1941, reglur 9. jan. 1941 og síðari lög og reglug. viðvíkjandi útflutningi og útflutningsskipum.
56) Enskur skipstjóri, Th. Deadman, útvegaði netin og aðstoðaði í fyrstu við þessar tilraunir.
57) Voru þau flest seinna notuð sem uppskipunarbátar.
58) Ástgeir Guðmundsson smíðaði þannig 28 báta með færeysku lagi á
2—3 árum.