Saga Vestmannaeyja I./ XIV. Sitt af hverju

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




XIV. Sitt af hverju


ctr


Unglingar við sundnám í Vestmannaeyjum kringum 1890. Kennari er Friðrik Gíslason. (Myndina tók Friðrik Gíslason).


ctr


Fyrsti íþróttavöllur og skeiðvöllur í Vestmannaeyjum. (Myndina tók Gísli J. Johnsen).


Íþróttafélagið Þór og Knattspyrnufélagið Týr hafa oft sent menn á landsmót. Landsmet í íþróttum eiga: Sigurður Sigurðsson í þrístökki, Karl Sigurhansson í 10 km hlaupi, Guðjón Magnússon í stangarstökki.
Handboltafélög kvenna starfa í báðum félögunum. Er oft keppt innan héraðs og utan með ágætum árangri.
Þorsteinn Einarsson, síðar íþróttafulltrúi ríkisins, starfaði hér sem íþróttakennari. Einnig Loftur Guðmundsson, Friðrik Jesson, Karl Jónsson og fleiri.
Ungmennafélag var hér starfandi um eitt skeið.
Glímur voru mjög mikið iðkaðar hér fyrir og eftir aldamótin síðustu, og kunni næstum hver unglingur að glíma.
Sönglíf stendur hér með allmiklum blóma og mikill áhugi er fyrir framþróun þess. Samsöngvar, karlakór undir stjórn Sigfúsar Árnasonar, hófust fyrir aldamótin, og blandaður kór, „Principal“, undir stjórn A.J. Johnson, síðar bankagjaldkera í Reykjavík, söng hér fyrst opinberlega 1902. A.J. Johnson hélt uppi kór hér 1902—1905 eða í þrjú ár, unz hann fór til Ameríku. Fjórir kórar starfa hér. Brynjólfur Sigfússon stofnaði Vestmannakórinn 1925. Hann stjórnaði blönduðum kór, er söng hér fyrst 1911.


ctr


Lúðrasveitin spilar 17. júlí 1924. Heimaklettur í baksýn.


Hann var og stjórnandi gömlu Lúðrahljómsveitarinnar. Stóðu að henni margir ungir áhugamenn, mest meðal verzlunarmanna.
Fyrstu konurnar hér, er héldu einsöngs- og píanóhljómleika, voru frúrnar Jarþrúður Johnsen og Anna Pálsdóttir, veturinn 1916. Anna Pálsdóttir lyfsalafrú kenndi píanóspil og studdi að auknu hljómlistarlífi hér. Undirspil hafa annazt Anna Jesdóttir og nú Sigríður Gísladóttir. Anna Thomsen, síðar kona Friðriks ljósmyndara Gíslasonar Stefánssonar, lærði snemma fiðluspil.
Góðir söngmenn hafa verið hér og mikið sungið og kveðið við öll möguleg tækifæri. Oft var tekið lagið og sungið dátt á sjónum meðan skeiðin skreið fyrir þöndum seglum. Í sjómannaveizlunum, og er mannfagnaðir voru haldnir yfirleitt, var söngurinn aðalskemmtunin.
Ofanleitiskirkja átti hljóðfæri um 1600, og mun það nær einsdæmi um kirkju hér á landi á þeim tímum.
Auk málara þeirra og listamanna, sem áður eru nefndir, má geta Péturs Lárussonar, Bergs Guðjónssonar, Jóhanns Sigurðssonar og Axels Einarssonar sem hæfileikamanna í drátt- og málaralist. — Friðrik Gíslason tók hér ljósmyndir fyrst að nokkru ráði. Í seinni tíð Lárus Gíslason, Kjartan Guðmundsson og Gísli Friðrik Johnsen.
Margir ágætir smiðir voru hér á fyrri öldum. Bæði á 18. og 19. öld fóru iðnnemar eigi allfáir héðan til Danmerkur og fleiri landa til að fullnuma sig í iðn sinni, bæði járnsmíðanemar, gull- og silfursmiðir. Húsasmiðir, skipasmiðir og járnsmiðir hafa verið hér á öllum tímum. Um ágætan koparsmið er getið hér á öndverðri 18. öld og er til eftir hann mjög vandað og fallegt verk. Silfur- og koparsmiðir voru hér á öndverðri 19. öld og eru til eftir suma þeirra fallegir smíðisgripir. Gísli Lárusson í Stakkagerði lærði silfur- og gullsmíði. Vilhjálmur Brandsson hefir stundað hér alllengi silfursmíði og viðgerðir. Úrsmíðastofu hefir Ingólfur Guðmundsson.
Margir voru hagir um hendur. Hér voru smiðir um og eftir miðja 19. öldina, sem smíðuðu vönduð húsgögn úr eik og mahogni, þótt eigi væru lærðir smiðir í þeim greinum. Meistarar í húsgagnasmíði eru hér nú: Ólafur Björnsson, Ólafur Gränz (er báðir reka húsgagnasmíðastofur) og Þórarinn Ólason.
Kóngssmiðir voru þeir kallaðir áður, er smíðuðu konungsbátana svonefndu eða innstæðubátana. Síðustu kóngssmiðirnir lifðu hér fram undir 1800. Þeir voru í senn bæði skipasmiðir, húsasmiðir og kirkjusmiðir. Voru og oft kallaðir stórsmiðir. Svo var um Guðmund Eyjólfsson, hinn fræga smið, er var bóndi í Þórlaugargerði. Hann stóð að smíði Landakirkju og kirkna á landi, t.d. Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð. — Til er gamall kistill, útskorinn nokkuð og eirseymdur, smíðaður af einum af gömlu kóngssmiðunum. Kistil þennan hafði átt Einar Sigurðsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum, faðir Árna Einarssonar, og afi hans eða langafi smíðað.
Í líkingu við kóngssmiðina hefðu bændurnir í eyjum mátt kallazt kóngsbændur, sem raunar stundum var gert.
Þinghúsið, er reist var hér eftir miðja öldina sem leið, og þótti þá einhver hin mesta húsbygging hér sunnanlands utan Reykjavíkur, var smíðuð af eyjasmiðum og sýnir það, hve góðir smiðir voru hér þá. Hefði verið ástæða til að nánar hefði verið vikið að þessum málum í Iðnsögu Íslands, er út kom fyrir skömmu.
Eftir miðja 19. öld voru hér þrír beykirar, tveir íslenzkir og einn danskur. Einn snikkari, Matthías Markússon, er mun hafa verið aðalhúsasmiðurinn hér þá.
Járnsmiðir voru þeir Ólafur Guðmundsson í Kirkjubæ og Guðmundur Guðmundsson í Smiðjunni. Á síðasta hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin: Guðmundur Ögmundsson í Batavíu og alnafni hans á Borg, Magnús Eyjólfsson í Kirkjubæ og Guðmundur Ísleifsson í Háagarði.
Elztu íbúðarhúsin úr timbri, sem enn eru hér, eru: Godthaab (byggt 1831), Landlyst og Hlíðarhús (áður Jónshús) — hefir því samt verið mikið breytt og stækkað. Húsið Nýborg var reist 1876. Það áttu þeir fyrst saman Jóhann Johnsen og Sigurður Sveinsson, síðar Sigurður einn. Gamla húsið Nöjsomhed hefir nýlega verið rifið og Jómsborg endurnýjuð fyrir löngu. Húsið Frydendal er með elztu tvílyftu timburhúsum hér á landi með nýrra lagi.
Austurbúðin og Gamli skólinn eru merkilegar steinbyggingar úr tilhöggnum steini, frá um 1880, svo að leitun er á slíkum hér á landi frá þeim tíma. Landakirkja er ein af elztu byggingum landsins.
Steinhöggvarar góðir hafa verið hér, eins og sjá má af legsteinunum gömlu í Landakirkjugarði. Á þeim er prýðilega höggvið letur, sem vel hefir staðizt tímans tönn.
Mjög mikið hefir verið unnið hér að grjótnámi og leyst óhemjuverk af hendi með höndunum, járnkarli, vogarstöng og fleyg. Grjótið var nær eina nærtæka byggingarefnið og þess mikil þörf í alls konar hleðslur, umhverfis fiskigarða, í grjótbyrgi, fjárbyrgi, steinkrær, stéttir, túngarða og húsagarða (af húsagörðunum gömlu er aðeins einn samfelldur uppistandandi), einnig til húsabygginga, í stakkstæði og í brunnahleðslur. Gamlar og nýjar grjóthleðslur sjást hér. Allgamlar eru hleðslurnar í Skanzinum.
Víkingsatorku hafa menn sýnt við grjótnámið oft og tíðum, enda var hér verk, sem ekki var meðalmönnum hent. Margir hafa gengið þarna karlmannlega að verki, en ég hygg fáir betur eða lengur en Magnús Jónsson Valdasonar. Eftir hann liggur ótrúlega mikið verk.
Í nútímatækni og iðnmenningu og framförum yfirleitt, eins og þær hafa gerzt hér á landi, hafa Vestmannaeyingar eigi verið eftirbátar. Er oflangt mál að fara frekar út í þá sálma hér. Vélsmiðjur, dráttarbrautir, skipasmíðastöðvar, netjagerðir, lifrarbræðslustöð og hraðfrystihús tala sínu máli. Í allflestum viðurkenndum iðngreinum eru hér nú lærðir fagmenn og meistarar.
Brauðgerðarhús voru starfrækt hér um tíma seint á 19. öld, þar sem bökuð voru rúgbrauð fyrir skipshafnir á vertíðinni. Að þessu stóðu Sigurður Sveinsson í Nýborg, er hafði brauðgerðarhús skamma stund, og Godthaabsverzlun. Stefán Gíslason í Ási mun hafa verið fyrstur, er vann að eiginlegri bakaraiðn, kom upp köku- og brauðgerðarhúsi skömmu eftir aldamótin. 1912 reisti Johan Reyndal (Sörensen) bakarameistari stærðar nýtízku köku- og brauðgerðarhús í Tungu. Nú eign Magnúsar Bergssonar bakarameistara. Tvö önnur brauðgerðarhús eru og rekin hér: Jóns Waagfjörðs og Karls Ó. Björnssonar.
Skattstjóri er Jón Eiríksson. Yfirskattanefnd skipa: Bæjarfógeti Vestmannaeyja (formaður), Sigfús Scheving og Sveinn Guðmundsson.
Unnið er stöðugt að endurbótum við innsiglinguna á höfnina og auknum hafnarmannvirkjum. Markmiðið er fullkomin höfn, þar sem öll skip, er til eyja koma, geta lagzt upp að bryggju. Þegar þetta er komið í kring og flugvöllurinn fullger, má segja að langþráðu marki sé náð og því mörkuð alger tímamót. —
Hafnargjaldkeri í Vestmannaeyjum er Jakob Ó. Lárusson. Hafnarvörður Bergsteinn Jónasson.
Fyrsta bifreiðin var skrásett hér 1918, flutningabifreið, eigandi Oddgeir Þórarinsson. —
Skrásettar vörubifreiðar nú 55, fólksflutningabifreiðar 4 og bifhjól 8.
Vegagerðir hófust ekki að verulegu leyti fyrr en eftir aldamótin síðustu. Frá fyrri tímum var ruddur vegur upp fyrir Hraun og heim að Vilborgarstöðum. Voru þetta aðalvegirnir hér og náðu niður í kauptúnið. Gjábakkavegur austur að Gjábakkabæjum og Miðhúsum. Þar sem nú er Heimagata hét áður Vilborgarstaðavegur og náði nær niður undir sjó. Virðist sem sjálfsagt hefði verið að nafnið Vilborgarstaðavegur hefði fengið að haldast. Gert var að þessum vegum og þeir bættir smám saman, eftir að vegagjald komst á. Fóru vegagerðir fram undir umsjón hreppstjóra. Kirkjuvegurinn var lagður og í áframhaldi upphleyptur vegur upp fyrir Hraun, og sömu skil gerð Vilborgarstaðavegi. Vegabætur höfðu fyrir löngu verið gerðar í kauptúninu, þótt eigi væru fullkomnar, rutt til og borið ofan í vegina, sem í fyrstu voru öllu heldur víða húsasund, þar sem grjótgarðar, er voru hér alls staðar umhverfis hin strjálu hús og kálgarða, lágu með götunum. Strandveginum var snemma sómi sýndur. Þar var og mest umferðin, við naustin og fiskikrærnar. Hér voru gerðar vegabætur þegar á öndverðri 19. öld og einnig bættar hleðslurnar við sjóinn. Um miðja öldina voru aftur gerðar hér miklar vegabætur og í sjálfu kauptúninu. Þá var og ruddur vegur inn í Herjólfsdal.
Á seinni tímum, eftir að bærinn fór að stækka, voru framkvæmdar vegagerðir jafnframt, eins og tízkan og nýi tíminn krafðist. Til ofaníburðar var notuð hraunmöl. Snotrar brautir eða vegir eru sums staðar í bænum, og framfarir eigi alllitlar í þessum efnum síðustu árin, þótt mörgu sé ennþá stórábótavant og verkefnið mikið fram undan. Vegir hafa ekki verið malbikaðir hér. Steypt braut gerð á litlum kafla á Strandvegi. Umhverfis höfnina og við Básaskersbryggju hefir verið gert mikið til umbóta. Allgóðir vegir (ræktunarvegir) liggja um Heimaey.
Handbörur voru fyrrum almennasta flutningatækið manna á milli í kauptúninu, og þær voru nær eingöngu notaðar við fiskburð á stakkstæðin og af þeim; einnig við uppskipun, þó að mest muni hafa verið borið á bakinu við uppskipun og einnig oft við útskipun, unz vagnar komust í notkun, sem var ekki fyrr en upp úr aldamótunum. Þó er talið, að fyrsti fólksflutningavagninn, að minnsta kosti hér sunnanlands, hafi komið til Vestmannaeyja; var það um miðja öldina.
Flutningar að og frá býlunum uppi á Heimaey fóru fram fyrrum á hestum. Oftast fóru menn fótgangandi á milli og báru byrðar á bakinu. Burðarskrínan, er borin var í fatla yfir bakið, bæði af körlum og konum, og hlaðin bögglum og pinklum, kaupstaðarvöru eða fiskmeti, var næstum eins óaðskiljanleg frá sumu fólki og handtaskan með snyrtivörum er samgróin kvenþjóðinni nú.
Götuljós voru komin hér allmörgum árum fyrir aldamótin síðustu, og þannig fyrr en í öðrum kauptúnum hér. Sérstök ljósker voru við bryggjurnar. Raflýsing var hér eftir að rafmagnsstöðinni var komið upp. Nú er Vestmannaeyjabær að koma upp nýrri stórri rafmagnsstöð.
Lífsgleði, fjör og þróttur einkenndi marga og var yfir athöfnum manna, einkum hinum hættumestu, fjallasókn og sjósókn. Var því líkast sem menn biðu oft hættunum byrginn og kynnu ekki að hræðast. Formaður einn sá, að skip hans hlaut að molast upp við berghamar í brimróti, sagði ofur stillilega við skipverja sína: „Verið þið rólegir, piltar, það er úti um okkur.“ Þetta var það eina og síðasta, sem sá af skipverjum, er komst af, var kastað af briminu langt upp í klettaurð, heyrði hann segja. — Ýmsir hér hafa sýnt snarræði og afrek við björgun úr lífsháska, og yrði oflangt mál að rekja það nánar hér, þó að vel hefði verið þess vert.
Vestmannaeyingar hafa jafnan lagt sinn drjúga skerf til menningarmála, atvinnu- og fjárhagsmála þjóðarinnar, og þess fullkomlega vænzt að svo verði og í framtíðinni. Þó að eyjarnar séu afskekktar nokkuð, hafa þær lagt til fullkomlega á við aðra landshluta skólagengna menn, sbr. hér að framan, miðað við fólksfjölda. Fyrsti Íslendingur, er varði doktorsritgerð við háskóla, Einar Guðmundsson, prestur í Noregi, var héðan úr eyjum.
Málmar hafa eigi fundizt hér. Fyrir allmörgum árum greip hálfgert gullæði um sig, er menn þóttust hafa fundið hér gull í grjóti. Þessi firra gufaði þó fljótt upp.
Allmikið af tinnusteinum aðfluttum finnst inn í svokölluðum Botni. Hafa þeir verið notaðir sem kjölfesta í kaupförunum fyrrum.
Stórar hrannir af vikri hafa borizt hingað sjóleiðis frá Kötluhlaupum og Skeiðarárhlaupum. Má sjá vikurlögin langt niðri í sandi í Botninum.
Lútarsalt lítilsháttar er í Saltabergi á Dalfjalli og víðar. Sést það í þurrki og sólskini í móberginu.
Móbergið (sandsteinn) í Heimakletti er vel fallið til húsagerðar.
Stuðlaberg er í Blátindi og víðar.
Gleragat, sem er mjög sjaldgæfur, finnst í Vestmannaeyjum.
Jaspis hefir fundizt hér.
Eyjarnar eru mjög eldbrunnar og sjást víða gamlar gígmyndanir og brunaberg.
Trjárækt hefir gefizt hér illa og um kennt nepjustormum og sjávarseltu. Nokkrir áhugamenn hafa komið upp trjám við hús sín, lítilsháttar, aðeins þar sem skjól er albezt. Fagrir blómgarðar eru hér við nokkur hús. Eitt af framtíðarverkefnunum er að koma upp skógi á hentugum stöðum á Heimaey, og þyrfti að hefjast handa sem fyrst í því efni.
Í blómaríki eyjanna getur mest suðrænustu jurta landsins. Stúfan litar brekkurnar bláar, þegar komið er fram í ágúst, og fuglaertur lita móana á suðurhluta Heimaeyjar gula. Selgresið vex í brekkum mót suðri. Allt eru þetta sjaldgæfar jurtir hér á landi, en mjög algengar á Norðurlöndum. Þá má telja lungnajurt eða blásóley, sem ásamt strandbúa þekur fjörusandana. Blákolla, umfeðmingsgras, lifrarblóm, blágresi og mjaðarjurt á Dalfjalli, og margt fleira mætti telja. Ekki má þó gleyma hvönninni, sem fyllir allar hillur, gil og tær í fjöllunum, né burnirótinni, sem vex utan í standbjörgunum, né heldur baldursbránni, sem litar sumar úteyjarnar alhvítar á hásumri.



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit