Guðjón Magnússon (netagerðarmaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Guðjón Magnússon)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Magnússon.
Guðjón Magnússon

Guðjón Magnússon fæddist 4. apríl 1921 í Vestmannaeyjum og lést 4. janúar 2001. Foreldrar hans voru Þuríður Guðjónsdóttir fædd að Steinum undir Eyjafjöllum og Magnús Kristleifur Magnússon netagerðarmeistari. Árið 1950 giftist Guðjón Önnu Sigríði Grímsdóttur. Börn Guðjóns og Önnu eru Magnús Birgir og Þuríður.

Guðjón, eða Gaui Manga eins og hann var oftast kallaður, stundaði barnaskólanám í Vestmannaeyjum og lærði einnig netaiðn hjá föður sínum. Hann stundaði sjómennsku um tíma en sneri sér fjótt að netagerðinni og vann við hana á meðan heilsa leyfði. Hann tók við rekstri Veiðarfæragerðar Vestmannaeyja af föður sínum og rak hana í félagi við frænda sinn Hallgrím Þórðarson í áratugi.

Guðjón var Íslandsmethafi í stangarstökki og Íslandsmeistari í tugþraut á sínum yngri árum og vann Guðjón mikið starf í þágu íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum. Hann var ein af driffjöðrum þrettándagleðinnar í áratugi og skapari flestra þeirra kynjavera sem þar mæta. Síðustu tuttugu árin skipaði þrettándinn sífellt stærri sess í huga Guðjóns og það má segja að allt árið hafi hann verið með hugann við hvernig mætti gera betur næst. Í áraraðir urðu kynjaverur þrettándans til í Veiðarfæragerð Vestmannaeyja þar sem Gaui rak fyrirtæki sitt.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Gauja:

Gaui Manga græðir stranga
gnoð um leiðir,
í trillu anga ekki langa
ýtinn veiðir.

Myndir


Heimildir

  • Morgunblaðið. Minningargreinar um Guðjón Magnússon 12. janúar 2001.
  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.