Saga Vestmannaeyja I./ VII. Þingstaðir, sýslumannatal, bæjarstjórn og alþingismenn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




VII. Þingstaðir, sýslumannatal, bæjarstjórn og alþingismenn


Þingstaðir í Vestmannaeyjum.


Á Vilborgarstöðum var þingstaður eyjanna fyrrum, og sennilegt, að þar hafi verið elzti þingstaðurinn, þó verður eigi sagt um það með vissu, en annar eldri þingstaður hér þekkist ekki. Dómar eru til frá 16. öld dæmdir á réttum þingstað, Vilborgarstöðum. Um 1600 hefir þingstaðurinn verið fluttur og reist þinghús að Hvítingum. Á Hvítingum var þingstaður fram á 19. öld, lagður niður skömmu eftir aldamótin 1800, vegna þess að þinghúsið var orðið ófært til þinghalda. Var húsið síðar rifið. Sást móta fyrir þinghússtóttunum til skamms tíma. Hvítingar var sagt að bæru nafn af tveim hvítleitum klettum þar nálægt. Þar var seinna um tíma tómthús samnefnt. Hvítingar voru skammt suður af Stakkagerðistúni. Framan af 19. öldinni var oftast þingað hjá hreppstjórum, bæði á Miðhúsum, einkum í Nýjabæ, en þar var allvel hýst, hjá Jóni Einarssyni hreppstjóra, er þar bjó, og síðar Magnús Austmann stúdent og hreppstjóri. Í Nýjabæ þingaði Bonnesen sýslumaður 1825. Um miðja 19. öld má sjá af reikningum, að Magnúsi Austmann var greidd húsaleiga fyrir húslán til þinghalda. Stundum munu og þingin hafa verið haldin á heimili sýslumanns eða í Danska Garði.
Þingboð til manntalsþinga skyldu berast rétta boðleið bæ frá bæ og býli til býlis. Eftir gamalli venju hófst boðleiðin frá Kornhól og þaðan til allra jarðarbænda í réttri röð, síðan rétta boðleið milli tómthúsanna. Var byrjað við vestasta tómthúsið, Landakot, á síðari hluta 19. aldar. Sá, er síðast tók við þingboðinu, skyldi afhenda það sýslumanni eigi síðar en á hreppsskilaþingi. Þingboði mátti eigi halda lengur á hverjum stað en eina klukkustund frá dagmálum til náttmála, ella lágu við sektir. Til manntalsþings voru allir boðaðir, er skyldir voru þing að sækja eftir framfærslubálki Jónsbókar, til að greiða konungi skatta og tolla, og að heyra úrskurði og tilskipanir konungs upplesna. Einnig til að svara spurningum í sambandi við gildandi boð og bönn. Á þingum voru jarðir boðnar upp til leigu, lýst rekafundum o.fl. Í sambandi við hreppsskilaþingin voru fyrr á öldum haldnar almennar samkomuhátíðir fyrir eyjafólk, með öl- og vínveitingum. Þá fór fram gjafasöfnun til handa kirkjunni.
Tilkynningar fóru að jafnaði fram við kirkjuna. Þar voru og birtar auglýsingar um uppboð. Stór uppboð voru eigi haldin nema á landlegudögum. Þau voru og stundum birt á landi með löngum fyrirvara.
Um miðja 19. öld fóru eyjamenn fyrir alvöru að hugsa um að koma sér upp nýju þinghúsi, og var tilætlunin að húsið yrði kostað af inneign sveitarinnar í jarðabókarsjóði, og kostnaður áætlaður 230 rd., sbr. bréf séra Jóns AustmannsOfanleiti og hreppstjóra 24. apríl 1852 til A.C. Baumann, er þá gegndi hér sýslumannsstörfum. Nokkur bið varð samt á því að þinghúsið væri reist og eigi fyrr en 1856—57, er Andreas A. Kohl var orðinn hér sýslumaður. Var kostað til byggingarinnar 1000 rd. úr sveitarsjóði. Fangelsi var í öðrum enda þinghússins. Þinghúsið var endurbyggt seinna og stækkað, var og notað fyrir barnaskóla. Var seinna selt og sérstakt þinghús ekkert síðan. Sérstakt fangahús hefir verið reist.
Fyrsti lögregluþjónn hér var Sveinn P. Scheving hreppstjóri og áður bóndi á Steinsstöðum. Lögregluliðið hér er skipað fjórum dag- og næturvörðum: Stefán Árnason yfirlögregluþjónn, Jóhannes Albertsson, Óskar Friðbjörnsson og Pétur Stefánsson.

Marta Jónsdóttir, kona Högna Sigurðssonar í Baldurshaga.
Högni hreppstjóri í Baldurshaga,(d. 1923).

Hreppstjórar um miðbik 19. aldar og síðar:
Magnús Austmann í Nýjabæ, Eyjólfur Þorbjarnarson á Búastöðum, Sigurður Torfason á Búastöðum, Árni Einarsson, Lárus Jónsson á Búastöðum, Þorsteinn Jónsson í Nýjabæ, Ingimundur Jónsson á Gjábakka, Árni Diðriksson í Stakkagerði, Jón Jónsson í Dölum, Sigurður Sigurfinnsson á Vilborgarstöðum, síðar á Heiði, Högni Sigurðsson í Baldurshaga og Sveinn P. Scheving.


Sýslumannatal í Vestmannaeyjum.


Vestmannaeyjar heyrðu fram á síðari hluta 17. aldar um dómgæzlu undir sýslu á landi, Árnes- eða Rangárvallasýslu, undir þá síðarnefndu lengstum. Sýslumenn, sem kunnugt er um, að hafa haft sýsluvöld í eyjunum:
Árni Þórðarson hirðstjóri, hann var einn af þeim fjórum mönnum, sem fengu landið að léni 1337, og hafði sýsluvöld í Rangárvalla- og Vestmannaeyjasýslum.
Helgi Styrsson hirðstjóri er nefndur sýslumaður í Vestmannaeyjum, sbr. br. 11. apríl 1420, mun hann hafa haft sýsluvöld þar fram yfir 1430.¹)
Erlendur Erlendsson sýslumaður í Rangárvallasýslu 1469—95 mun hafa haldið Vestmannaeyjar.
Torfi Jónsson í Klofa hafði og Vestmannaeyjasýslu, sbr. sýslubréf hans 25. júní 1504.²)
Vigfús Erlendsson lögmaður og hirðstjóri á Hlíðarenda, er mun hafa tekið Rangárþing og þar með Vestmannaeyjar eftir Torfa Jónsson 1505.
Jón Hallsson sýslumaður 1521—1540.
Páll lögmaður Vigfússon 1540—1569.
Árni Gíslason sýslumaður á Hlíðarenda.
Nikulás Björnsson á Seljalandi.
Jón Marteinsson sýslumaður í Árnessýslu um tíma eftir 1573.
Gísli Árnason.
Hákon Árnason.
Gísli lögmaður Hákonarson frá því um 1612—1631.
Erlendur Ásmundsson á Stórólfshvoli.
Kláus Eyjólfsson á Hólmum.
Vigfús Gíslason.
Torfi Erlendsson og Jakob Bang fengu Árnessýslu og Vestmannaeyjasýslu eftir dauða Vigfúsar sýslum. Gíslasonar 1647.
Magnús Bjarnason 1651—1658.
Markús Snæbjörnsson um 1660—1696. Bjó lengst að Ási í Holtum. Lögsagnarar Markúsar sýslumanns: Magnús Guðmundsson, bjó í Skarfanesi á Landi, Oddur Magnússon, bjó á Sperðli og Haga í Holtum, og Einar Eyjólfsson í Traðarholti.
Ólafur Árnason 1696—1722. Fyrsti sýslumaðurinn hér búsettur. Bjó í Dölum í Vestmannaeyjum. Kona hans Emerentíana Pétursdóttir prests á Ofanleiti Gissurarsonar.
Sigurður Stefánsson 1723—1738. Bjó á Oddsstöðum. Kona Þórunn Jónsdóttir lögsagnara Ólafssonar sýslumanns Einarssonar sýslumanns Þorsteinssonar sýslumanns í Þykkvabæjarklaustri Magnússonar.
Hans Wíum 1738—1740. Kona hans Guðrún Árnadóttir.
Böðvar Jónsson 1740—1754. Fyrri kona hans Ragnhildur Jónsdóttir á Rauðamel, síðari kona Oddrún Pálsdóttir prests í Kálfholti Magnússonar.
Brynjólfur Brynjólfsson 1754—1758 (settur).
Lýður Guðmundsson 1755 (kom hér eigi til embættisverka).
Halldór Jakobsson 1757 (kom eigi til sýslunnar).
Sigurður Sigurðsson 1758—1760 og 1768—1786. Kona hans Ásta Sigurðardóttir prests í Holti í Önundarfirði Sigurðssonar prests sama staðar.
Þorlákur Guðmundsson 1760—1766 (settur) og 1767—1768 (settur).
Einar Jónsson, áður skólameistari í Skálholti. Kona hans Kristín Einarsdóttir lögréttum. á Suður-Reykjum Ísleifssonar.
Jón Eiríksson yngri 1786—1795. Kona h. Þórunn Ólafsdóttir.
Jón Guðmundsson 1798—1801. Kona hans Ragnhildur Guðmundsdóttir.
Jón Þorleifsson 1801—1812. Hafði og þjónað hér sem settur 1796—1798. Fyrri kona hans Þórunn Ólafsdóttir, síðari Bóel Jónsdóttir prests Brynjólfssonar á Eiðum.
Vigfús sýslumaður Þórarinsson á Hlíðarenda 1812—1819 hafði sýsluna með Rangárvallasýslu. Lögsagnarar hans í Vestmannaeyjum: Þórður Sigurðsson í Bjálmholti í Holtum, seinna í Norðurgarði í eyjum, Helgi Ólafsson Bergmann Guðmundssonar á Vindhæli, bjó á Gjábakka, og Magnús Ólafsson Bergmann, bjó á Kornhól og Gjábakka.
Þórarinn Öefjord 1819 (settur).
Grímur Pálsson prests Magnússonar á Ofanleiti (settur).
Johan Nikolai Abel 1821—1839 og 1840—1852. Kona hans Diderikke Abel.
Settir: Isak Jakob Bonnesen 1828 og Carl H.U. Balbroe læknir 1835.
Þórður Guðmundsson 1839—1840 (settur).
Adolph Christian Baumann 1851—1853 (settur).
Andreas August von Kohl 1853—1860.
Stefán Helgason Thordersen 1860—1861 (settur).
Bjarni E. Magnússon 1861—1872. Kona hans Hildur Bjarnadóttir skálds og amtmanns Thorarensens og Hildar Bogadóttur Benediktssen á Staðarfelli.
Þorsteinn Jónsson héraðslæknir 1872 (settur).
Michael Marius Ludvig Aagaard 1872—1891. Kona hans Agnes Grandjean.
Sigurður Briem 1891 (settur).
Jón Magnússon 1891—1896. Kona hans Þóra Jónsdóttir háyfirdómara Péturssonar.

Magnús Jónsson sýslumaður (1896-1909).
Karl Einarsson sýslumaður (1909-1924) og alþingismaður (1914-1923).
Kristján Linnet bæjarfógeti (1924-1940).

Magnús Jónsson 1896—1908. Fyrsta kona hans Kirsten Sylvia, dóttir L.E. Sveinbjörnson háyfirdómara. Önnur kona Jóhanna Andrea Oddgeirsdóttir prests á Ofanleiti Guðmundsen. Þriðja kona Guðrún Sigríður Oddgeirsdóttir, systir Jóhönnu miðkonu hans.
Björn Þórðarson 1909—1910 (settur).
Karl Júlíus Einarsson 1910—1924. Kona hans Elín, dóttir Jónasar Stephensens fyrrum póstafgreiðslumanns á Seyðisfirði Stefánssonar prests að Reynivöllum. Í forföllum Karls sýslumanns og bæjarfógeta gegndu embættinu: Gunnar Ólafsson konsúll, Sigurður Lýðsson cand. jur. og Sigfús M. Johnsen cand. jur. — Karl Einarsson gegndi störfum bæjarstjóra um þriggja ára bil.
Kristján Linnet 1924—1940. Kona hans Jóhanna Júlíusdóttir kaupmanns Ólafssonar.
Sigfús M. Johnsen frá 1940. Kona hans Jarþrúður Pétursdóttir prests Jónssonar á Kálfafellsstað Péturssonar háyfirdómara og Jóhönnu Bogadóttur Benediktssen frá Staðarfelli.
Sýslumannsembættinu var breytt í bæjarfógetaembætti með lögum 22. nóv. 1918.
Síðustu sýslunefndina skipuðu:
Karl Einarsson sýslumaður,
Oddgeir Guðmundsen sóknarprestur,
Gísli J. Johnsen kaupmaður og konsúll,
Magnús Guðmundsson kaupfélagsstjóri,
Jón Einarsson kaupmaður.


Bæjarstjórn Vestmannaeyja.


Í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja, er kosið var til samkv. 8. gr. 1. 22. nóv. 1918, um bæjarstjórn Vestmannaeyja, sbr. lög 26. okt. 1913, um kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum, voru þessir menn kosnir:
Gísli J. Johnsen konsúll og kaupmaður,
Páll Bjarnason skólastjóri,
Högni Sigurðsson oddviti,
Magnús Guðmundsson útvegsbóndi og kaupfélagsstjóri,
Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður,
Þórarinn Árnason bóndi á Oddsstöðum,
Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri,
Eiríkur Ögmundsson útvegsmaður.³)
Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn var haldinn í húsinu Borg, áður þinghús eyjanna, 14. febr. 1919.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja skipa:
Ástþór Matthíasson lögfræðingur og verksmiðjueigandi, forseti bæjarstjórnar,
Ársæll Sveinsson kaupmaður og útvegsmaður,
Einar Sigurðsson kaupmaður og hraðfrystihúseigandi,
Guðlaugur Hansson fyrrv. heilbrigðisfulltrúi,
Guðlaugur Gíslason forstjóri,
Ísleifur Högnason kaupfélagsstjóri og fyrrv. alþingismaður,
(síðar Árni Guðmundsson barnakennari),
Páll Þorbjörnsson skipstjóri og fyrrv. alþingismaður,
Sveinn Guðmundsson forstjóri,
Sighvatur Bjarnason útvegsmaður og skipstjóri.
Bæjarstjóri er Hinrik Jónsson. Bæjargjaldk. Ág. Bjarnason.

Bæjarstjórar hafa verið:
Kristinn Ólafsson lögfræðingur 1923—1929,
Gunnar Ólafsson lögfræðingur 1929—1938,
Hinrik Jónsson lögfræðingur frá 1938.

Alþingismenn fyrir Vestmannaeyjar.


Jónína Brynjólfsdóttir, (d. 1906), kona Sigfúsar Árnasonar á Löndum .
Sigfús Árnason alþingismaður á Löndum, (d. 1922).

Magnús Austmann stúdent, hrstj. og bóndi í Nýjabæ 1851
Brynjólfur Jónsson sóknarprestur 1859
Árni Einarsson hrstj. og bóndi að Vilborgarstöðum 1861
Brynjólfur Jónsson 1863
Stefán Thordersen, síðar sóknarprestur að Ofanleiti 1865-1867
Helgi Hálfdánarson lektor 1869-1873
Þorsteinn Jónsson hreppstjóri og bóndi í Nýjabæ 1875-1886
Þorsteinn Jónsson héraðslæknir í Vesmannaeyjum 1887-1889
Indriði Einarsson, síðar skrifst.stj. í fjármálaráðun. 1891
Sigfús Árnason póstafgreiðslum. og bóndi á Löndum 1893
Valtýr Guðmundsson prófessor 1894-1901
Jón Magnússon sýslumaður og síðar forsætisráðh. 1902-1913
Karl Einarsson sýslumaður og bæjarfógeti 1914-1923
Jóhann Þ. Jósefsson kaupmaður og konsúll frá 1924
Gunnar Ólafsson landskjörinn þingmaður 1926 (þingmaður V.-Skaftf. 1909—1911). Uppbótarþingmenn við landskjör: Páll Þorbjörnsson 1934, Ísleifur Högnason 1937 og Þórður Benediktsson.
Í Vestmannaeyjum fór engin kosning fram samkvæmt tilsk. 8. marz 1843. Voru í eyjum aðeins 1 eða 2 atkvæðisbærir menn. Eyjamenn höfðu farið fram á það við stjórnarvöldin að fá að senda séra Jón Austmann sem fulltrúa sinn á Alþingi 1847.⁴) Til þjóðfundarins var kosið eftir sérstökum lögum.⁵) Skyldi hvert kjördæmi kjósa 2 fulltrúa. Annar fulltrúinn, er eyjamenn kusu, Loftur Jónsson í Þorlaugargerði, kom eigi til fundarins. Var kosning hans afturkölluð. Kosningarrétturinn var síðar, 1857, rýmkaður nokkuð. 1859 eru 53 alþingiskjósendur, 1900: 57.⁶) Í október 1942 voru alþingiskjósendur hér 2049. —Yfirkjörstjórnina skipa nú: Sigfús M. Johnsen form., Ingibergur Jónsson og Jes A. Gíslason.
Framþróunina í stjórnmála- og félagsmálalífi eyjanna, samtök verkalýðsins m.m., er ekki rúm til að ræða hér. Óhætt er að segja, að í þessum málum hefir verið fylgzt vel með og forusta verið öflug, svo að eyjamenn standa þar ekki öðrum að baki.


Tilvísanir neðanmáls í þessum kafla:
1) Fornbr.s. IV, 275-76.
2) Fornbr.s. VII, 696-99.
3) 4 hinna fyrrtöldu voru kosnir af C-lista, 2 hinir næstu af A-lista og 2 síðasttöldu af E-lista. Á kjörskrá voru yfir 850. Greidd atkvæði 556. Ógildir seðlar 55.
4) Skjalasafn stiftamtmanns og sýsluskjöl Vestmannaeyja, Þjóðskj.s.
5) Lög 28. sept. 1849.
6) Atkvæðagreiðslubækur XXX, II, 1—2, Þjóðskj.s.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit