Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Alþýðukveðskapur í Vestmannaeyjum II.
Það mun vera leit á því héraði á Íslandi, þar sem ekki eru hagyrðingar, sem kasta fram lausavísum við allskonar tækifæri, eða senda náunganum tóninn í ljóðum. Misjafnlega mikið kveður að þessu, og eins er hitt, að sjaldgæfir eru þeir menn, er skara fram úr að hagmælsku og hnyttni í hugsun og orðfæri. Í Vestmannaeyjum hefir einnig nokkuð kveðið að þessu, og hafa þar verið menn, sem ágætlega hafa verið hagmæltir og hafa látið fjúka í kveðlingum, en flest af þeim kveðskap er nú gleymt og grafið, því enginn hefir þar verið til þess að halda því til haga.
Höfuðskáld Vestmannaeyinga um langt skeið var séra Páll Jónsson á Kirkjubæ, sem að jafnaði var kallaður Páll skáldi manna í milli. Í þessu kveri er nokkuð frá honum sagt í þætti eftir Runólf Jónsson bónda í Vík í Mýrdal.
Af börnum Páls ílentust í Vestmannaeyjum Eva Hólmfríður, (d. 28. maí 1866, 53 ára gömul) og Gunna skálda (Gunna Pála). Eva var gift Jóni Samúelssyni frá Miðjanesi á Reykjanesi vestra og bjuggu þau í Steinhúsi (Evu-hjalli). Var Jón forsöngvari í Landakirkju, eins og kemur fram í vísu Páls, sem sagt er að hann hafi sent séra Jóni Austmann:
- Kvásir biður og Eva yður
- aflausn sér að tjá,
- Ólafur smiður og Gunna gliður
- girnast sama fá,
- deladögum á.
- Kvásir biður og Eva yður
Þau Jón og Eva áttu einn son, sem Magnús hét, og dó hann um tvítugt um sama leyti og foreldrar hans. Varð svo skammt milli þeirra, að þau voru öll jörðuð í einu. Þær systur voru báðar hagmæltar, en ekkert er nú kunnugt af vísum Evu.
Guðrún yngri var fædd árið 1818, en andaðist árið 1890. Ung giftist hún Ólafi Guðmundssyni bónda og smið á Kirkjubæ, en skildi við hann samvistir árið 1854. Ólafur var þjóðhagasmiður og gáfaður vel. Um hann segir sóknarprestur í sálnaregistri 1852, að hann sé ekki allur, þar sem hann sé séður. Eftir skilnaðinn var Guðrún víða um Suðurland og mun um tíma hafa átt heima á Býjaskerjum. Um 1876 kom hún aftur til Vestmannaeyja, og var þá á sveitarframfæri, enda var hún þá orðin blind. Að mestu mun hún þó hafa lifað á gjöfum góðra manna, því styrkur til hennar frá sveitinni nam aðeins 72 krónum árlega, og hefir það hrokkið skammt, því hún var alldrykkfelld. Síðan dvaldi hún í Vestmannaeyjum til dauðadags og bjó í Kuðung, tómthúsi efst í Skipasandi, en á sumrum mun hún jafnan hafa leitað til lands, og farið víða um sveitir. Henni er svo lýst að ytra útliti, að hún hafi verið há og grannvaxin, vel á sig komin, þunnleit í andliti og föl yfirlitum, með svart hár. Hún var talin vel skynsöm, en ekki aldæla í skapi. Óvinum sínum var hún þung í skauti og ekki heiglum hent að eiga orðastað við hana. Hún var vel hagmælt og mjög hraðkvæð og vandaði ekki kveðjurnar, ef svo bar undir. Var hún talin ákvæðaskáld, eins og faðir hennar, og stóð mörgum stuggur af henni. Fátt er nú í minnum af kveðskap Guðrúnar, en það, sem hægt hefir verið að hafa upp á, fer hér á eftir.
Búðarstöður tíðkuðust mikið í Vestmannaeyjum áður fyrri. Einhverju sinni var margt manna saman komið inni í Austurbúð (Garðinum), og var Guðmundur í Mandal einn þeirra. Varð honum reikað út fyrir, og sér þá hvar Guðrún kemur. Kallar hann þá inn í búðina: „Gunna Pála (en svo var hún jafnan nefnd) er að koma!“ Guðrún heyrði til hans og segir um leið og hún gekk inn í búðina:
- Þessu máli má þá Pála gegna,
- í þér báli eitthvert sinn
- eitraður sálar-djöfullinn.
- Þessu máli má þá Pála gegna,
Þegar Frederik Sörensen var verzlunarstjóri í Garðinum kom Guðrún þar einhverju sinni, og bað hann að gefa sér brennivín, en hún var við 81. Neitaði hann því, og kastaði hún þá fram þessari vísu, þar sem hún dregur dár að bögumælum verzlunarstjórans, sem var danskur:
- Útskit allra Dana
- er hann „Sörgur“ víst
- með heimskum hunda vana,
- er hæfir tignum sízt.
- „Divilinn“ sjálfur dansi í „hann“,
- „sikken einen svinebest“,
- segir einn Islandsmann.
- Útskit allra Dana
Á fyrstu árum séra Stefáns Thordersen á Ofanleiti, varð deila milli hans og Lárusar Jónssonar hreppstjóra út af súlnatekju í Hellisey. Höfðu Ofanleitisprestar um langt skeið haft hlutdeild í súlnatekjunni þar, en Lárus taldi það ekki réttmætt. Eitt sinn lét hann ekki kalla á Ofanleiti til súlnafarar í Hellisey. Tók prestur þetta stinnt upp og urðu málaferli út af þessu, sem enduðu með sáttum. Einhverju sinni mætti Guðrún séra Stefáni í Norðurgarðshliðinu, og kastaði þá fram þessari vísu:
- Sálnahirðir og súlnaspyrðir
- sættust tveir,
- ólíkir mjög eru þeir
- í ágirndinni hann signor deyr,
- þeir gizka á hann heiti gálu Freyr,
- gálu Freyr.
- Sálnahirðir og súlnaspyrðir
Lárus fékk Jón bónda í Gerði til að kalla til þessarar Helliseyjarfarar, en annars var það vani hreppstjóranna að kalla sjálfir í allar fuglaferðir. Í tilefni af því orti Guðrún:
- Ef þú verður erki flón
- og andskotinn þig kallar,
- gefðu þig undir hann Gerðis-Jón,
- með gjörðir þínar allar.
- Ef þú verður erki flón
Pétur, sonur Torfa Magnússonar verzlunarmanns í Jónshúsi, var um tíma, þegar hann var unglingur, hjá séra Brynjólfi á Ofanleiti. Þessa vísu orti Guðrún sér til gamans við hann undir alkunnu danslagi:
- Nú fann ég nýjan fund,
- nú fékk ég gleðistund,
- nú brá í brún.
- Pétur ég prúðan finn,
- pilturinn er það minn,
- ég eignast unglinginn
- egta gott ráð,
- læt ég hann lesa kver
- líkt og fullorðinn er,
- en skriftin skrykkjótt er,
- skjaldan mjög fín.
- Nú fann ég nýjan fund,
Einhverju sinni kom Guðrún að Búastöðum til Lárusar hreppstjóra og Kristínar konu hans. Var henni borinn matur og þakkaði hún fyrir sig með þessari vísu:
- Þú, sem gladdir mædda mig,
- matar berðu gnóttir,
- Kristur Jesús krýni þig
- Kristín Gísladóttir.
- Þú, sem gladdir mædda mig,
Meðan Sigmundur Finnsson í Uppsölum var hjá Engilbert Engilbertssyni í Jómsborg, var hann einhverju sinni sendur til Guðrúnar til þess að höggva í eldinn fyrir hana. Þá sagði hún við Sigmund:
- Ó, þér gengi allt í vil,
- sem efla má þinn hróður,
- og sóminn fengist síðan til,
- Sigmundur minn góður.
- Ó, þér gengi allt í vil,
Eftirfarandi vísu mun Guðrún hafa ort um það leyti, er deilan varð um súlnaveiðina í Hellisey, og sagt hefir verið frá hér að framan:
- En hvað þetta að ber fljótt,
- ef einhvern skrattinn flengir,
- hefir hann fengið súlusótt,
- hann signor Lárus, drengir?
- En hvað þetta að ber fljótt,
Halldór, sonur Brynjólfs Halldórssonar, bónda í Norðurgarði varð blindur á unga aldri. Þessar vísur orti Guðrún til hans:
- Halldór kæri, haltu þig að drottni,
- að orði hans og anda gá,
- aukast mun þér gæfa þá.
- Halldór kæri, haltu þig að drottni,
- Varast heimsins vansa, svik og pretti,
- treystu guði af allri önd,
- svo alvöld hans þig styðji hönd.
- Varast heimsins vansa, svik og pretti,
- Trúarvillu taktu ekki af neinum,
- mundu að Jesús meistarinn
- mildað hefir dóminn þinn.
- Trúarvillu taktu ekki af neinum,
- Hann er sá, sem hjálpa má í nauðum,
- annað er hér ærið valt,
- einum honum trúa skalt.
- Hann er sá, sem hjálpa má í nauðum,
Vísur þessar voru fleiri, en hinar munu nú vera glataðar. Guðrún var mikið fyrir kaffi. Þorsteinn Jónsson alþingismaður í Nýjabæ hafði verið með hækkun tolls á kaffi á einu af þeim þingum, sem hann átti sæti. Guðrún frétti þetta og orti þá:
- Eitt sinn fórstu til Alþingis
- ekki varð það til neins,
- fátt varð þér þar til fulltingis,
- flestum varztu til meins,
- þeir henda þér nú til horngrýtis,
- sem hirðir þig undir eins.
- Eitt sinn fórstu til Alþingis
- Skemmtun var nóg á skollaþingi,
- skufsi gamli var kátur þá,
- ég meinti að djöflar allir syngi,
- ósköp höfðu þar gengið á,
- að herja þolla til horngrýtis,
- sem heimta tolla án réttlætis.
- Skemmtun var nóg á skollaþingi,
Ef Guðrún var kaffilaus eða matarlaus, kom fyrir að hún sendi mönnum bónarbréf í ljóðum, að þeir bættu úr skortinum. Einhverju sinni varð hún kaffilaus. Sendi hún þá Árna Filippussyni í Ásgarði ljóðabréf um kaffileysið. Eftirfarandi vísur eru úr því:
- Eg fer til þín, Árni minn,
- ekki að dyggðum linur
- forláttu það frændi minn,
- hvað fátæktin upp stynur.
- Eg fer til þín, Árni minn,
- Illt er margt á ýmsa hlið,
- aumt er bæjarhreysið,
- bágast er að búa við
- bönnað kaffileysið.
- Illt er margt á ýmsa hlið,
- Of seint hygg ég úr mér fari andans hrollan,
- ef kaffið segir kvitt við bollann,
- ketilinn fæ ég aldrei hollan.
- Of seint hygg ég úr mér fari andans hrollan,
Á síðustu æviárum sínum lét Guðrún Högna Sigurðsson í Vatnsdal, sem þá var unglingur, skrifa upp nokkur kvæði sín og vísur, og á hann enn þetta litla kver. Fyrst er þar sálmur, 8 erindi alls. Þar eru þessi erindi:
- Einmana stend ég uppi sem kveikur,
- eða sá reyrinn í vindinum stár,
- minn gjörist kraftur sá mannlegi veikur,
- miskunn virzt senda mér drottinn minn klár.
- Styrk þú mig, herra, að standa til enda,
- styrk veit mér, drottinn, að kalla þig á,
- styrk virztu guð minn, mér staðfastan senda,
- styrkur þinn veri altíð mér hjá.
- Einmana stend ég uppi sem kveikur,
Þetta erindi er einnig í kveri þessu:
- Alföður guð er bezt að biðja
- blessaðan sig í nauðum styðja,
- hans er máttur og heilög dýrð.
- Hann vill oss lið í hörmung veita,
- hann kann sorgum í gleði að breyta,
- á almætti hans er engin rýrð.
- Alföður guð er bezt að biðja
Á þessum árum hefir Guðrún verið orðin mjög raunamædd, og fundið mjög sárt til einstæðingsskapar síns. Bera þessar vísur vitni þess:
- Hér ég vola tár á tár,
- titrar hjarta og stynur
- og má þola sár á sár,
- sviptur hver minn vinur.
- Hér ég vola tár á tár,
- Mínum dæmi er málum í,
- þá mæðu klingir harpa,
- áhyggju ég allri því
- upp á drottinn varpa.
- Mínum dæmi er málum í,
- Margt þó hlera megi ég hér,
- og megnar þrautir kanna,
- þyngst umbera meinast mér
- missi ástvinanna.
- Margt þó hlera megi ég hér,
- Er mín staðföst ást og traust
- á einum guði sönnum,
- flest mun annað lánið laust,
- að leita þess hjá mönnum.
- Er mín staðföst ást og traust
- Þar staðfastan veit ég vin,
- í vandræðum að leita,
- ástin sú er ekki lin,
- sem aldrei kann að neita.
- Þar staðfastan veit ég vin,
- Ó, að lífs míns kæmi kvöld
- og Krist minn sæi ég blíða,
- þó ég lifi á aðra öld,
- aldrei skal ég kvíða.
- Ó, að lífs míns kæmi kvöld
- Heyrðu bænarhrópið mitt
- himnesk sendu ráðin,
- birgðu ei lengur brosið þitt,
- blessuð dýrðarnáðin.
- Heyrðu bænarhrópið mitt
Að síðustu eru í kverinu erfiljóð eftir Stefán Sveinsson, bónda á Kalmanstjörn í Höfnum, sem drukknaði á þriðja páskadag (29. apríl) 1864. Erfiljóð þessi eru 13 erindi, og fara hér á eftir tvö þeirra:
- Utanlands bæði og innan lærði
- að stýra dýrum mastra jór,
- útlenzk fartau og íslenzk færði,
- auðna því honum fylgdi stór,
- lífsháska fyrri lenti í
- leysti drottinn hann vel frá því.
- Utanlands bæði og innan lærði
- ---
- Margt þó í heimi hér að oss ami,
- ekki er grand að kvíða því,
- altíð er guð vor sá hinn sami
- og sendir oss rósemd upp á ný,
- ástvinamissir er mjög sár,
- allt græðir það hans mildin klár.
Á síðari hluta 19. aldarinnar og fyrsta áratug eftir aldamótin kvað mest að Ólafi Magnússyni vinnumanni í Nýborg. Var hann að vísu mjög dulur á kveðskap sinn, og brenndi syrpu sína nokkru áður en hann dó, að því er sagt er. Fátt er því til af vísum hans, en flest er það lipurt og margt vel kveðið.
Ólafur var fæddur árið 1845 að Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Magnús Ólafsson (f. 1803) bóndi þar og kona hans Guðbjörg Daníelsdóttir (f. 1803), en ókunnugt er um ætterni þeirra og uppruna.
Sonur þeirra var einnig Bergur, sem hrapaði til bana úr Hákollagili í Heimakletti í fýlaferðum árið 1866, og var hann þá þrítugur að aldri.
Magnús mun hafa andazt meðan börnin voru ung að aldri. Bjó Guðbjörg áfram að Vilborgarstöðum eftir lát manns síns, og ólst Ólafur upp hjá henni við mikla fátækt. Guðbjörg hætti búskap, þegar hún var komin af fótum fram, og flutti þá að Steinsstöðum til Þuríðar Jónsdóttur, dóttur sinnar, konu Finns Árnasonar bónda þar, og þar mun hún hafa andazt um 1880. Ólafur fór snemma í vinnumennsku, og var hjá Gísla Bjarnasen verzlunarstjóra á Tanganum og í Garðinum. Ekki mun honum allskostar hafa líkað vistin þar, að því er ráða má af vísunni:
- Soðningin er síávallt
- sultarsmá að vana,
- þar um bætir kaffið kalt,
- sem kemur á eftir hana.
- Soðningin er síávallt
Þegar Gísli flutti árið 1883 til Kaupmannahafnar, varð Ólafur vinnumaður hjá Sigurði Sveinssyni trésmið í Nýborg, og hjá honum var hann til dauðadags, 4. október 1927.
Ungur byrjaði Ólafur sjómennsku, eins og tíðkaðist í Vestmannaeyjum, og stundaði síðan sjómennsku, meðan hann entist, vetur, sumar, vor og haust. Formaður fyrir vertíðarskipi varð hann rúmlega tvítugur, og var hann lengst af með stórt, sexróið jul, sem Blíða hét og Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsum átti. Var Ólafur annálaður snillingssjómaður og afburða aflamaður. En 28. marz 1891 varð hann fyrir því slysi, að missa af sér mann. Hlekktist honum á í útsiglingu í róður. Var snarpur norðanvindur, en segl munu hafa verið bundin. Hvolfdi vindhviða skipinu skammt frá Klettsnefinu, og drukknaði einn maður af skipshöfninni, en hinum varð bjargað af árum og kili. Varð Ólafi svo mikið um þetta áfall, að hann hætti formennsku með öllu, og réri eftir þetta sem háseti.
Ólafur kvæntist aldrei, en um tíma bjó hann með Málfríði dóttur Eiríks Hanssonar bónda á Gjábakka, ekkju Guðna Guðmundssonar trésmiðs í Fagurlyst. Drukknaði hann með Jón Jónsson, 26. febrúar 1869. Eignuðust þau Ólafur einn son, sem hét Árni og fór til Ameríku, og andaðist þar á undan föður sínum. Á yngri árum var Ólafur mjög drykkfelldur, og lét hverjum degi nægja sín þjáning, eins og hann segir í vísunni:
- Sumir dúða sig af því í
- sæld og skrúða baða,
- en ég er lúða lörfum í
- og læt með súðum vaða.
- Sumir dúða sig af því í
Alla æfi hafði hann ekkert milli handa, en glaðværðin og léttlyndið var ætíð hið sama, en einkum lét hann fjúka í kveðlingum, ef hann var við vín. Því sagði hann:
- Margur að því maður hlær
- meður geði linu,
- að stundum fyrir stöku fær,
- staup á Vertshúsinu.
- Margur að því maður hlær
Það, sem nú er kunnugt af kveðskap Ólafs, er að mestu leyti laust við allar kenningar. Minnist hann sjálfur á þetta í vísu, sem nú er ókunnugt um tilefnið til:
- Eg er dóli út af því
- einatt fól við mengið,
- hefir Óli aldrei í
- Eddu-skóla gengið.
- Eg er dóli út af því
Um það leyti, er Ólafur var hjá Sigurði í Nýborg, var þar um tíma vinnumaður, sem hét Matthías, og vinnukona, er Guðrún hét. Munu þau hafa verið málskrafsmanneskjur, að því er ráða má af þessari vísu:
- Eg þó hrasi öls við glas
- aðrir þrasið kunna,
- saman masa málafjas
- Matthías og Gunna.
- Eg þó hrasi öls við glas
Í sumardagsveizlum áður fyrri, voru þreyttar stórar drykkjur. Einhverju sinni var Ólafur í sumardagsveizlu, þar sem vínföng þrutu, er leið á nóttina. Var þá horfið að því ráði, að senda nokkra gestanna til Jóhanns Jörgen Johnsen veitingamanns í Frydendal til þess að reyna að fá bætt úr vínleysinu. Var Ólafur einn sendimannanna. Var Jóhann tregur til að selja vínið, því öll sala var bönnuð um nætur. Þó fóru svo leikar, að hann hleypti einum manni inn til þess að taka við víninu. Þá kvað Ólafur í orðastað veitingamannsins:
- Efnið rara eg það finn,
- eftir skemmtun trauða,
- ég hleypi bara einum inn
- upp á líf og dauða.
- Efnið rara eg það finn,
Þessar vísur, er sagt, að Ólafur hafi ort eftir sumardagsveizlu:
- Út ég gekk um vegu víða
- vafinn gleði og hjartaró,
- þá var himins blessuð blíða,
- bæði á lofti, jörð og sjó,
- engan hreppti ég angurs kvíða,
- allt á móti brosti og hló.
- Út ég gekk um vegu víða
- Allt er heimsins eftirlæti
- áþekkt bláum vatnastraum,
- svo og líður líf með kæti
- lifandi í heimsins glaum,
- gef oss drottinn guð almæti
- glöggt að sjá hve tíð er naum.
- Allt er heimsins eftirlæti
- Himinblámann leit ég líka
- leiftra meður stjarna fjöld
- og norðurljósa loga ríka
- líða um geiminn, þá var kvöld,
- hef ég því í huga líka
- herrans gæði þúsundföld.
- Himinblámann leit ég líka
Einhverju sinni sá Ólafur stúlku og pilt á stefnum. Þá varð honum þessi vísa á munni:
- Grænum móa gekk ég á,
- gleðin bjó þar staka,
- ungan spóa eg þar sá
- yfir lóu vaka.
- Grænum móa gekk ég á,
Ólafur heyrði stúlkur syngja að kvöldlagi:
- Hingað ég gekk í húmi nætur
- húsinu þessu stóra frá,
- þá virtist mér líkt og söngur sætur
- sunginn væri þar austur frá,
- undir mig fótum betri brá
- blessaðar snótir til að sjá.
- Hingað ég gekk í húmi nætur
Ólafur var við lundaveiði í Elliðaey. Kom Kristján Ingimundarson til hans, þar sem hann sat með háfinn, og þá sagði Ólafur:
- Veiðin mín er voða smá,
- varla er að því gaman,
- til helvítis ég henda má
- háf með öllu saman.
- Veiðin mín er voða smá,
Ólafur var á gangi um Elliðaey með Sigurði Sigurðssyni á Kirkjubæ. Voru þeir að fara upp úr moldarrofi, en gekk illa. Þá sagði Ólafur:
- Upp úr miðju moldarrofi
- maðurinn arkaði,
- sá mjög teygði úr sínu klofi,
- samt hann slarkaði.
- Upp úr miðju moldarrofi
Ólafur var samtíða Lárusi hreppstjóra í Elliðaey. Fór Ólafur einu sinni snemma úr bóli til þess að gá til veðurs. Um leið og hann kom inn sagði hann:
- Hér að skreppa hlýt ég inn,
- hörð að kreppir pína,
- farðu hreppaforinginn
- fljótt í leppa þína.
- Hér að skreppa hlýt ég inn,
Einhverju sinni var Ólafur við slátt í Elliðaey, ásamt fleira fólki. Bjó það í tjaldi. Pétur Pétursson í Vanangri var þá til fugla í Elliðaey með fleirum, og bjuggu þeir í bólinu. Nótt eina fauk skinnbrók, sem Pétur átti, á tjald sláttufólksins, og vaknaði það við vondan draum. Um þetta orti Ólafur:
- Ef hún skaða oftar gerir,
- og eyðir manna frið,
- Pétri ber að bæta fyrir
- bölvað skinnhaldið.
- Ef hún skaða oftar gerir,
- En ef hún skaða engan gerir
- og eflir manna frið,
- okkur ber að bæta fyrir
- blessað skinnhaldið.
- En ef hún skaða engan gerir
Vinnumaður einn í Garðinum fékk verk í auga og var læknir sóttur. Ráðlagði hann að leggja tólgarplástur við augað. Þá kvað Ólafur:
- Læknirinn þar lagði lið:
- Líða úr mun bólga,
- ef þú leggur augað við
- augnaplástur tólga.
- Læknirinn þar lagði lið:
Um leið og Ólafur kallaði til róðurs einn af hásetum sínum mælti hann:
- Allir vilja eitthvað fá,
- eins er líka fyrir mér,
- samt þér liggur ekkert á
- enginn segir: flýttu þér.
- Allir vilja eitthvað fá,
Það var gömul trú, að bregða myndi til óveðurs, þegar grásleppa sást synda í vatnsborðinu:
- Margoft hreppa menn á sjó
- mjög óheppið veður,
- eg vil kreppast inni í kró
- upp þá sleppan veður.
- Margoft hreppa menn á sjó
Einhverju sinni stóð Ólafur á förnum vegi, og komu þeir Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, sem var mikill sjómaður, og Þorsteinn Jónsson læknir sinn úr hvorri áttinni og mættust, þar sem Ólafur stóð. Varð Þorsteini þá að orði, að Ólafur ætti að yrkja eitthvað um þá. Hann sagði:
- Til glötunar er gatan breið,
- þó garpar hana labbi,
- mætast þar á miðri leið
- marflóin og krabbi.
- Til glötunar er gatan breið,
Ólafur kvað oft vísur, er hann var á sjó:
- Strengir hvína í stormi hátt
- strákar engu kvíða,
- koma mun nú byrinn brátt,
- þá bátinn látum skríða.
- Strengir hvína í stormi hátt
- Hjá bátnum fljóta boðaföll
- brims í róti er fleira.
- Höppin þjóta áfram öll
- ýmsir njóta þeirra.
- Hjá bátnum fljóta boðaföll
- Hákarlsgreyið heyrðu mér
- hérna niðri sértu,
- matinn teygi ég móti þér
- mikið feginn vertu.
- Hákarlsgreyið heyrðu mér
- Þó bylgjan skoli borðin kát
- brátt ég kolu næði,
- eg vil dvola einn á bát
- úti í Þolinmæði.
- Þó bylgjan skoli borðin kát
Ólafur var í hákarlalegu í Leddarforum, en hákarlinn var tregur:
- Sitt við trútt hann heldur hreysi
- hver sem að því spyr,
- í landfarssóttar leikuleysi
- liggur heima kyrr.
- Sitt við trútt hann heldur hreysi
Einhverju sinni kom Ólafur á skipi sínu að Leiðinni ófærri, og var kominn of innarlega til þess að geta snúið við, enda sá hann í opnar dyr Austurbúðarinnar gömlu. Voru þær dyr á miðri norðurhlið. Gömlu búðina var hætt að nota sem sölubúð um 1880. Við þetta tækifæri kastaði Ólafur fram þessari vísu:
- Við skulum ekki hafa hátt
- hér þótt aukist vandinn,
- opin stendur upp á gátt
- Austurbúðarfjandinn.
- Við skulum ekki hafa hátt
Ókunnugt er um tilefni til þessara vísna:
- Þessar hljóttu heillir ótt
- hafðu rótt um dag og nótt,
- gæða þróttinn fáðu fljótt
- frí við sótt og mæðu gnótt.
- Þessar hljóttu heillir ótt
- Viltu skrifa — viltu blað,
- viltu umgefa að reyna það,
- viltu stef að verði í stað,
- viltu efa þann, er kvað?
- Viltu skrifa — viltu blað,
- Mér er bezt í háttinn halda
- heim að fara strax,
- það mun engin freyjan falda
- fást til samfélags.
- Mér er bezt í háttinn halda
Ólafur sat við drykkju með nokkrum mönnum og urðu þeir vínlausir. Þá kvað hann:
- Nú er bezt að drýgja dáð,
- svo drengir hafi á glösum,
- ég mun hafa einhver ráð
- áður en lýkur nösum.
- Nú er bezt að drýgja dáð,
Einhverju sinni kom Ólafur að Miðhúsum til þess að hitta Hannes lóðs. Sagði hann þá við Hannes:
- Aldrei dvíni auðna þín,
- er sú fína bónin mín,
- herrans skíni hjálpin fín,
- hún sé þín í hverri pín.
- Aldrei dvíni auðna þín,
Guðmundur Einarsson í Sjólyst var einu sinni að velja sér öngla inni í Miðbúð. Ólafur kom þar að og segir:
- Ætlarðu að fiska þorsk á þetta?
- Þegiðu ekki nú.
- Ætlarðu að fiska þorsk á þetta?
Blessaður botnaðu sjálfur, sagði Guðmundur. Þá bætti Ólafur við:
- Víst er þörf á við að rétta,
- veika þína trú.
- Víst er þörf á við að rétta,
En það var alkunnugt, að Guðmundur var þá farinn að hneigjast að mormónsku. — Í elli sinni orti Ólafur sér til gamans nokkrar vísur um ýmsa unga menn í héraðinu, og lét þá eiga í mesta bardaga:
- Þar var Landa-Kristinn knái
- kappi gildur vígs um frón,
- Uppsalanna Finnur frái
- fannst þar með og Borgar-Jón.
- Þar var Landa-Kristinn knái
- Mandals-Gvend þar mátti líta
- mjög í skæðum hildarleik,
- Ása-Þórð hinn orku nýta,
- undan honum sérhver veik.
- Mandals-Gvend þar mátti líta
- Fagurlystar-frækinn Jói
- finnast mun að þrótt og dug,
- þó að valur víga flói
- varla bilar kempan hug.
- Fagurlystar-frækinn Jói
Þessi öfugmæli eru eignuð Ólafi:
Skellir er sker austan við Faxasker, á kafi um flóð. Hnaus er lágt sker vestan við Faxasker, sem sjór gengur yfir, ef nokkur alda er í sjó, en Latur er drangur vestan við Faxa, illkleifur. — Þessa vísu mun hann hafa kveðið við skál:
- Í kvöld vil ég mína kærustu hitta,
- í kvöld skal ég reyna að skemmta mér vel,
- í kvöld skal ég dansa og stundirnar stytta,
- staupinu klingja við brennivínspel.
- Í kvöld vil ég mína kærustu hitta,
Einhverju sinni var Ólafur síðbúinn á sjóinn, en eldastúlkan hafði ekki matinn til. Þá varð honum að orði:
- Sé nú ekki soðningin
- senn hvað reiðubúin,
- er ég burt sem ólukkinn
- á aðra vegu snúinn.
- Sé nú ekki soðningin
Kveðið í jólavikunni:
- Senn eru komin signuð jól,
- sólin fer að hækka,
- skín glatt ljós um skatna ból,
- skuggunum tekur að fækka.
- Senn eru komin signuð jól,
Samtíða Ólafi var einu sinni eldhússtúlka, sem langaði að ná í pilt nokkurn, og hélt hún sér mjög til og gaf honum rauða smokka, til þess að hæna hann að sér. Þá kvað Ólafur:
- Pían-kokka puntaða
- pilt vill lokka án trega.
- Honum smokka hárauða
- hún gaf þokkalega.
- Pían-kokka puntaða
Þessi vísa er eignuð Ólafi:
- Heyrðu, kæri korða-ver,
- komdu nær og sjáðu: hér
- eru tvær að tína ber,
- tækifærið hentugt er.
- Heyrðu, kæri korða-ver,
Einnig er talið, að hann hafi snúið þessari vísu úr hinum fræga sálmi séra Hallgríms Péturssonar:
- Hvenær sem kallið kemur
- kátur ég gegni því,
- ekkert mig fjörgar fremur,
- en fara skinnbrók í,
- að róa út á sjó,
- lúðu og löngu draga,
- lesin er þessi baga,
- ég hana einn til bjó.
- Hvenær sem kallið kemur
Þegar fiskur var í göngu á vertíðum, var oft fiskigengd mikil við Landeyjasand, undir Sandi, eins og það var kallað, en væri tregfiski, var víða leitað.
Sumir fóru undir Sand, en aðrir fóru austur á bóginn, austur í Holu, sem er fiskimið landsuður af Bjarnarey. Til þess lítur þessi vísa Ólafs:
- Stórum undan stöndunum
- í stífri norðangolu,
- sigla menn að söndunum,
- sumir austur í Holu.
- Stórum undan stöndunum
Heimaey er hömrum girt og með hrikalegum tindum, og við hana mun Ólafur eiga í fyrsta vísuorði. Þessar vísur munu vera frá yngri árum Ólafs:
- Þó ég drekki, því ég ekki neita,
- ef ég hrekki engan mann
- ei mig blekkir samvizkan.
- Þó ég drekki, því ég ekki neita,
- Það er svei á Sviðris mey,
- svaraði beygir skjalda,
- ég vil fleyi að Ellirey
- engan veginn halda.
- Það er svei á Sviðris mey,
Ólafur kom einhverju sinni inn í Tangabúð, lítilsháttar við öl. Sagði hann þá við Gísla Engilbertsson verzlunarstjóra:
- Menn á gangi margt þó sýsli
- misjafnt fanga kaup,
- minn á Tanga mætur Gísli,
- mig í langar staup.
- Menn á gangi margt þó sýsli
- Gísla á Tanga, góði mann,
- gæfan styðji halinn,
- ætíð skal ég elska hann,
- er það drengur valinn.
- Gísla á Tanga, góði mann,
Ólafur sagði svona frá sjóferð*:
- Einu sinni rerum
- einskipa á sjó
- fyrir austan Eyjar,
- sátum þar í ró.
- Við vorum að reyna að veiða, veiða,
- væna keilu úr sjó.
- Einu sinni rerum
*Síðasta vísan er viðbót í 2. útgáfu bókarinnar. (Heimaslóð).
Prentvillur og leiðréttingar höfundar við fyrra hefti fyrstu útgáfu, - getið á bls. 135 í fyrstu útgáfu, - hafa verið höndlaðar. (Heimaslóð).