Guðrún Jónsdóttir (Þorlaugargerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðrún Jóhanna Jónsdóttir húsfreyja í Þorlaugargerði eystra fæddist 17. febrúar 1906 í Svaðkoti og lést 16. ágúst 1953.
Faðir hennar var Jón bóndi á Kirkjulandi og Hallgeirsey, en flutti til Eyja 1903 og bjó í Svaðkoti, síðar Suðurgarði, f. 2. september 1868 á Voðmúlastöðum þar, d. í Eyjum 23. maí 1946, Guðmundsson bónda, hreppstjóra og hreppsnefndarmanns á Voðmúlastöðum, f. 26. október 1833 á Vestri-Torfastöðum í Fljótshlíð, d. 1. nóvember 1898 í Hallgeirsey, Guðmundssonar bónda á Torfastöðum, f. 7. janúar 1801, drukknaði 4. janúar 1833, og konu Guðmundar á Torfastöðum, Vigdísar húsfreyju, f. 19. nóvember 1800 á Lambalæk, d. 31. janúar 1868, Jónsdóttur.
Móðir Jóns í Suðurgarði og kona Guðmundar hreppstjóra á Voðmúlastöðum var Margrét húsfreyja eldri, f. 7. febrúar 1834, d. 5. ágúst 1874, Jónsdóttir bónda og hreppstjóra á Önundarstöðum í A-Landeyjum, f. 1798 á Kirkjulandi, skírður 9. júní þ.á., d. 6. október 1861 á Önundarstöðum, Þorsteinssonar, og konu Jóns,(30. júní 1821), Guðrúnar húsfreyju, f. 12. mars 1795 á Efri-Úlfsstöðum í A-Landeyjum, d. 8. júlí 1876 í Rimakoti, Jónsdóttur.

Móðir Guðrúnar í Þorlaugargerði og kona Jóns var Ingibjörg húsfreyja, f. 20. janúar 1866 í Hallgeirsey, d. 20. mars 1953 í Eyjum, Jónsdóttir bónda og formanns, hreppsnefndarmanns og oddvita í Hallgeirsey, f. 9. október 1835 á Syðri-Úfsstöðum, drukknaði með 14 skipverjum sínum, er bátur þeirra Bæringur fórst við Eyjar 25. mars 1893, Brandssonar bónda lengst á Syðri-Úlfsstöðum í A-Landeyjum, f. 1798 á Gaddstöðum á Rangárvöllum, d. 7. janúar 1865 á Syðri-Úlfsstöðum, Eiríkssonar, og konu Brands Eiríkssonar, Guðrúnar húsfreyju, f. 10. nóvember 1794 á Rauðnefsstöðum á Rangárvöllum, d. 23. október 1870 á Syðri-Úlfsstöðum, Jónsdóttur.
Móðir Ingibjargar í Suðurgarði og kona Jóns Brandssonar var Guðrún húsfreyja, f. 30. nóvember 1832 í Drangshlíð undir Eyjafjöllum, d. 1913, jarðsett 9. mars, Bergsdóttir vinnumanns í Drangshlið, f. 13. febrúar 1811, Daníelssonar og barnsmóður Bergs, Steinvarar, síðar húsfreyju í Dölum og Hallgeirsey, konu Jóns bónda Gíslasonar, fædd 1800, skírð 9. mars þ.á. í Strandarhjáleigu í V-Landeyjum, d. 21. september 1882 í Hallgeirsey.

Systkini Guðrúnar voru:
1. Jón Jóhann Jónsson stýrimaður í Hafnarfirði, f. 3. júlí 1893, d. 20. febrúar 1976.
2. Margrét Marta Jónsdóttir Johnsen húsfreyja í Suðurgarði, kaupkona, f. 5. mars 1895, d. 15. maí 1948.
3. Sigurgeir Jónsson rafvirki í Suðurgarði, fjalla- og veiðimaður, f. 25. júní 1898, d. 30. maí 1935.
Fóstursystkini Guðrúnar voru:
4. Árný Sigurðardóttir vinnukona í Suðurgarði, f. 23. des. 1904, d. 15. okt. 1977. Hún var dóttir Gyðríðar Stefánsdóttur, (Gyðu í Mandal) og hálfsystir Stefáns Árnasonar lögregluþjóns.
5. Guðlaug Bergþórsdóttir, f. 18. nóv. 1908, d. 4. apríl 1985, síðar húsfreyja í Innri Njarðvík, systurdóttir Ingibjargar í Suðurgarði.
5. Svavar Þórarinsson rafvirki, f. 3. júní 1916, d. 14. apríl 1951. Hann var sonur Guðlaugar Oddgeirsdóttur Guðmundsen prests á Ofanleiti og Þórarins Böðvars (Þórarinsson) Guðmundssonar. verslunarmanns

Guðrún Jóhanna var sú eina af Suðurgarðssystkinunum, sem var fædd í Vestmannaeyjum.
Hún ólst upp við venjuleg sveitastörf í Svaðkoti og Suðurgarði, en var einnig í kaupavinnu undir Fjöllunum og í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð.
Hún giftist, árið 1933, nágranna sínum, Jóni Guðjónssyni frá Þorlaugargerði, fóstursyni Jóns Péturssonar bónda þar og konu hans Rósu Eyjólfsdóttur húsfreyju.
Þau hjón hófu sinn búskap í Suðurgarði en fluttu síðan í Hvamm við Kirkjuveg og þaðan að Eyjarhólum við Hásteinsveg.
Árið 1944 tóku þau við búsforráðum í Þorlaugargerði eystra, en Rósa Eyjólfsdóttir, fósturmóðir Jóns, lést það ár. Í Þorlaugargerði stunduðu þau hefðbundinn búskap með kýr og sauðfé auk þess sem Jón stundaði sjó á vetrarvertíðum og starfaði auk þess við iðn sína, skipasmíðar, í Austurslippnum hjá Gunnari Marel Jónssyni.
Þau Jón eignuðust 2 börn, Ingibjörgu og Sigurgeir og fóstruðu Önnu Jóhönnu Oddgeirs, dóttur Áróru Oddgeirsdóttur Guðmundsen prests á Ofanleiti, eftir veikindi hennar og andlát árið 1945.

Guðrún Jóhanna var verklagin kona og féll aldrei verk úr hendi. Sagt var að þegar þær mæðgur, hún og Ingibjörg í Suðurgarði, þurftu að fara niður í bæ hafi þær ávallt haft prjónana meðferðis og prjónað bæði á leiðinni niður eftir og til baka upp eftir. Þá var hún einnig orðlögð fjallageit á yngri árum, fótviss og fim í fjöllum eins og hún átti kyn til. Þau áttu það til systkinin, hún og Sigurgeir, sem var einhver færasti fjallamaður sem Eyjarnar hafa alið, að bregða sér í fjallgöngu að afloknum dansleik, ganga á Heimaklett eða Blátind og koma þaðan beint til fjósverkanna í Suðurgarði að morgni. Hún var einnig söngvinn kona, eins og systkin hennar í Suðurgarði, og spilaði bæði á gítar og orgel.
Guðrún Jóhanna lést árið 1953 og var banamein hennar krabbamein.

Maður Guðrúnar, (14. nóvember 1931), var Jón Guðjónsson frá Oddsstöðum, bóndi og skipasmiður í Þorlaugargerði.
Fósturforeldrar hans voru Jón Pétursson bóndi og smiður í Þorlaugargerði og kona hans Rósa Eyjólfsdóttir húsfreyja.
Börn þeirra Jóns og Guðrúnar:
1. Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja í Þorlaugargerði eystra, f. 14. mars 1934. Maður hennar er Garðar Arason verslunarmaður, f. 2. maí 1935.
2. Sigurgeir Jónsson kennari og blaðamaður, f. 26. júní 1942. Kona hans er Katrín Lovísa Magnúsdóttir kennari, f. 29. mars 1944.
Fósturbarn Guðrúnar og Jóns er
3. Anna Jóhanna Oddgeirs húsfreyja, sjúkraliði, f. 30. október 1932. Maður hennar var Friðrik Ágúst Hjörleifsson sjómaður, sendibílstjóri frá Skálholti, f. 16. nóvember 1930, d. 7. október 2014.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.