Blik 1969/Vesturhúsafeðgarnir II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Vesturhúsafeðgarnir


II.
Magnús Guðmundsson

Saga hans er saga Eyjafólks um árabil


Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum óx úr grasi. Ekki var hann gamall, er hann tók að fleyta öðuskeljum á balanum hennar mömmu sinnar eða á pollum eftir regnskúrir. Augljóst var, að þar beygðist snemma krókurinn. Og skeljarnar hétu bátanöfnum, skipanöfnum þeim, sem hann heyrði oftast nefnd og rætt um á bernskuheimilinu. Þarna flaut Gideon hins unga formanns, Hannesar Jónssonar á Vesturhúsum.
Drengurinn var sæll í leikjum sínum. Þessar hneigðir hans áttu rætur innra með honum og bátarnir hans veittu hneigðunum útrás. Fréttir þær, sem bárust daglega inn á heimilið á vertíðinni, aflafréttir, sigling, þar sem teflt var á tæpasta vaðið, ágjöf, jafnvel lífshættan augljós, allar höfðu þessar fréttir, þessar orðræður um lífshættulega sjósókn og daglega sigra sjómannsins á bylgjum hafsins, markverð áhrif á hugsun drengsins og þroska, þær orkuðu á sálarlífið og skildu eftir dýpri og varanlegri áhrif en flest annað, sem hann heyrði rætt um á hinu friðsæla og mennilega bernsku- og æskuheimili sínu, Vesturhúsaheimilinu.
Þegar barnaskóli hreppsins hafði verið starfræktur í tvö ár, varð Magnús Guðmundsson „skólaskyldur“, það er að segja: Hann hafði þá aldur (1882) til að setjast þar á skólabekkinn, ef efni væru til að greiða skólagjaldið. Þar réðu hneigðir hans sjálfs til náms og svo efnahagur foreldranna. Í þessum barnaskóla í „Nöjsomhed“ námu aðeins þau börn, sem foreldrarnir höfðu efni á að greiða skólagjaldið fyrir. Skólaskylda var þá sem sé engin í landinu. Sökum hinnar almennu fátæktar urðu þá mörg börn í Eyjum að fara á mis við alla skólafræðslu, vera án allrar skólagöngu. Heima hjá sér lærðu þau flest lestur, og sum nutu kennslu í skrift og reikningi.
Hjónin á Vesturhúsum, Guðrún og Guðmundur, höfðu vissulega næg efni til þess að kosta Magnús son sinn í skólann, og það gjörðu þau líka. Hann hóf þar nám haustið 1882. Það var þriðja starfsár hins fasta barnaskóla í Vestmannaeyjum. Börnin voru alls 23 á aldrinum 9-17 ára og öll í einum og sama bekknum, sömu deildinni.
Sumir skólabræður Magnúsar Guðmundssonar frá þessum fyrsta vetri hans í barnaskóla og þrem næstu urðu nafnkunnir menn í sögu byggðarlagsins eins og hann. Má þar nefna Jes A. Gíslason í Hlíðarhúsi og Friðrik bróður hans; Guðjón Eyjólfsson síðar bónda á Kirkjubæ; Guðlaug Jóhann Jónsson, síðar bónda og útgerðarmann í Gerði; Jón Pétursson bónda og snillingssmið í Þórlaugargerði; Jón Jónsson, síðar kenndur við Brautarholt í Eyjum (Landagötu 3) ; Kristján Ingimundarson frá Gjábakka, síðar kenndur við Klöpp við Strandveg, formaður mikill á opnum skipum og sérlega farsæll maður í skipstjórnarstarfi sínu; Vigfús Jónsson frá Túni, síðar kenndur við Holt við Ásaveg, síðar farsæll útgerðarmaður í byggð sinni og sjómaður. Annað prestsefni en Jes A. Gíslason var þar einnig í bekk með Magnúsi Guðmundssyni, Jón Þorsteinsson héraðslæknis Jónssonar í Landlyst. Síðast en ekki sízt skal svo geta skólasystur Magnúsar, Jóhönnu Lárusdóttur frá Búastöðum, dóttur Lárusar hreppstjóra og bónda Jónssonar þar og konu hans, Kristínar Gísladóttur.
Barnaskóli Vestmannaeyja var þá starfandi aðeins 5 mánuði ársins eða fram að vertíðarönnunum mestu. Megin síðari hluta dagsins, eftir að vertíð hófst og barnaskólanum ekki slitið, og svo alla aðra daga vertíðarinnar, þegar gaf á sjó, var Magnús litli á Vesturhúsum snuðrandi niður í Sandi eða Læknum þar sem skipin voru sett á land, aflanum skipt og hann dreginn úr Sandi til aðgerðar. Það verk inntu af hendi eiginkonur tómthúsmanna, sem flestir voru hásetar, og vinnukonur bændanna, sem flestir voru jafnframt útgerðarmennirnir.
Á vetrarvertíð 1884, eftir að barnaskólanum lauk, gekk Magnús Guðmundsson með skipum, eins og það var kallað, hann sníkti sér skiprúm þann og þann róðurinn með færisstúfinn sinn. Þá var hann hálfdrættingur, fékk hálfan hlut. Þannig var því einnig varið með hann vertíðina 1885. Þá vertíð var hann hálfs fjórtánda árs. Kalsasamt hefur það verið óhörðnuðum unglingi á fermingaraldri að stunda sjóróðra um háveturinn á opnum skipum. En enginn neyddi Magnús Guðmundsson til þessa verks, hvorki foreldrar hans né efnaþröng, en atorkan og framtakshneigðin, sjálfsbjargarhugurinn og námfýsin til verka á sjó sem á landi bæði ýttu og drógu.

Fyrir Maríufiskinn sinn, fyrsta fiskinn, sem Magnús Guðmundsson dró á fyrstu vertíðinni, sem hann stundaði sjóinn (1884), fékk hann svo heitar fyrirbænir og innilegar heillaóskir, að minnin um þær festust í huga hans og urðu þar að fastri trú á heill og hamingju í sjómannsstarfinu. Hann gaf konunni, sem allir dáðu fyrir kærleiksverkið mikla, Evlalíu í Móhúsum, Maríufiskinn sinn eins og flestir eða allir ungir menn í Eyjum um tugi ára á fyrri öld. Fyrir hann hlutu þeir fyrirbænir og heillaóskir, sem aldrei gleymdust mörgum þeirra.
(Sjá greinarkorn um Evlalíu Nikulásdóttur á öðrum stað hér í ritinu).
Á bjargveiðitímanum á sumrin fór Magnús Guðmundsson að bera það við að veiða fugl eins og þeir fullorðnu, veiða lunda í háf og slá fýl á bæli.
Eftir að vetrarvertíð lauk vorið 1885 hjá hinum þrettán ára hálfdrættingi á Vesturhúsum, tók sumarúthaldið við. Þá var ekki um hálfdrætti að ræða lengur. Allt þetta sumar og allt haustið til næstu vertíðar (1886) réri drengurinn látlaust nema í desember (1885). Þegar þessum langa úthaldstíma lauk, var Magnús Guðmundsson tæpra 14 ára. Fátt sannar betur bráðþroska hans og þrótt en það, að hann skyldi halda út allan þennan tíma að stunda róðrana ekki eldri en hann var, samtals 11 mánuði.
Þegar Magnús Guðmundsson hóf vertíðarróðra 1886, þá fullgildur háseti, réðist hann til Jóns bónda Jónssonar formanns í Gerði, föðurbróður Stefáns heitins Guðlaugssonar skipstjóra og útvegsbónda í Gerði. Jón Jónsson var formaður á vertíðarskipinu Halkion.
Vorið 1886 réðist Magnús Guðmundsson háseti hjá Ólafi Magnússyni útvegsbónda í London í Eyjum. Sumarbátur Ólafs var Hannibal, sem Ólafur hafði smíðað sjálfur. Þarna steig unglingurinn á Vesturhúsum örlagaríkt spor, því að Ólafur Magnússon reyndist Magnúsi æ síðan drengskaparmaður, skilningsríkur á framsækinn hug hins dugmikla unga manns og atorkuríka.
Í rauninni átti Magnús Guðmundsson að fermast vorið 1886 eins og önnur skólasystkini hans úr barnaskóla og jafnaldrar aðrir. En satt að segja mátti hann ekki vera að því að láta ferma sig vorið 1886 sökum ofurkapps við sjósóknina. Þess vegna varð það að samkomulagi milli foreldra Magnúsar og sóknarprestsins séra Stefáns ThordersenOfanleiti, að hann fermdi Magnús um haustið. - En skuggi var á: Helzt vildi piltur ekki fermast einn síns liðs. Þá varð það einnig bundið fastmælum milli Guðmundar Þórarinssonar og Gísla kaupmanns Stefánssonar, að sonur þeirra Hlíðarhússhjóna, Jes A. Gíslason, skyldi bíða með ferminguna til haustsins og þeir verða fermingarbræður, Magnús Guðmundsson og Jes A. Gíslason. Þannig atvikaðist það, að þessir drengir tveir voru fermdir saman og einir 12. sept. 1886.
Næstu vertíð (1887) réri síðan Magnús með Ólafi Magnússyni vini sínum á vertíðarskipi hans, sex-æringnum Ingólfi.
Og drengur óx að orku og áræði og þekkingu á sjómannsstarfi og miðum Eyjamanna.
Smám saman óx með Ólafi formanni og útgerðarmanni í London álit og skilningur á því, að unglingurinn á Vesturhúsum yrði bezti maðurinn, sem hann ætti völ á til þess að taka við formennsku á útvegi hans, erfa hans eigið sjómannsstarf. En Ólafur Magnússon tók nú að eldast og þreytast og hugði til hvíldar frá formennsku og erli, sem því starfi er jafnan samfara.
Ólafur Magnússon hafði reynt unga manninn að glöggskyggni um flest, sem varðaði sjósókn og fiskveiðar, reynt hann að áræði en þó gætni, reynt hann að hyggjuviti og útsjón, reynt hann að drengskap og réttvísi, svo að ungir menn vildu gjarnan hlíta forustu Magnúsar Guðmundssonar og fyrirhyggju.
Þetta ber að hafa í huga sér til skilningsauka, þegar íhugað er, að Magnús á Vesturhúsum gjörðist formaður fyrir sex-æring, gerðist formaður á vetrarvertíð aðeins seytján og hálfs árs. Það var 1890.
Sumarið 1895 fór Magnús Guðmundsson að heiman fyrsta sinni til dvalar utan heimilis síns. Þá hleypti hann sem sé heimdraganum og fór austur í Mjóafjörð til sjóróðra þar. Með honum voru tveir ungir Vestmannaeyingar, skólabræður hans úr barnaskóla og leikfélagar öll uppvaxtarárin, Vigfús Jónsson frá Túni og Jón Jónsson hreppstjóra Jónssonar frá Dölum í Eyjum.
Þessir ungu þremenningar réðust austur til Vilhjálms hreppstjóra og útvegsbónda Hjálmarssonar á Brekku í Mjóafirði og stunduðu sjóinn til hausts á þriggja manna fari, þrírónum, færeyskum árabáti. Þeir stunduðu sjóinn af kappi miklu frá 6. júní til 19. september og öfluðu 22.526 fiska í 66 sjóferðum eða 341 fisk í róðri til uppjafnaðar.
Næsta sumar (1896) réru þeir einnig á sama útvegi og sama báti þar í firðinum. Þá hófu þeir róðra 29. maí og héldu út til 3. nóvember um haustið. Alls fóru þeir þá 101 sjóferð og öfluðu samtals 33.717 fiska eða 334 fiska til uppjafnaðar í hverjum róðri. Þetta er býsna mikill afli, þó að haft sé í huga, að fiskurinn er mun smærri þarna en hér tíðkast á vertíðum. - Svo liðu 4 ár.
Haustið 1900 skruppu þeir þremenningarnir í þriðja sinn austur til hreppstjórans í Mjóafirði og stunduðu sjóinn á útvegi hans frá 12. sept. til 19. okt. Á þessum 5 vikum réru þeir 20 róðra og fengu alls 4.755 fiska eða til jafnaðar 238 fiska i róðri.
Þessir haustróðrar þremenninganna austur í Mjóafirði svo langt fram eftir hausti er ein sönnun enn fyrir atorku og framtakshug þeirra félaga. Þegar bágt var útlit um bjargræði heima í Eyjum, skirrtust þeir ekki við að leita sér atvinnu eða bjargræðis í aðra landsfjórðunga á sama tíma og aðrir leituðu heim frá sumaratvinnu. Austfirðingar sjálfir höfðu þá jafnan ímugust á því eða illan bifur að stunda sjóinn á opnu fleytunum sínum og veigalitlu fram á haust, enda varð sú sjósókn ýmsum til aldurtila. Þess minnist ég, sem þetta skrifa, frá uppvaxtarárum mínum þar um slóðir. Hér sem ætíð í formannsstarfi sínu og skipstjórn treysti Magnús Guðmundsson á glöggskyggni sína um veður og sjólag. Og það gerðu þeir líka, sem með honum réðust til róðranna þar austur frá. Hann naut hins óbrigðu1a trausts háseta sinna bæði heima og heiman.
Uppeldi það, sem hinir ungu Eyjaverjar höfðu hlotið frá blárri bernsku, gerði þeim kleift og fært að stunda sjó á eigin ábyrgð í öðrum landsfjórðungum og á ókunnum fiskislóðum. Þeir báru því upplagi sínu og uppeldi gott vitni, þessir ódeigu sjósóknarar og aflaklær úr Eyjum.
Um fleira en það að læra að nota línu til fiskveiða, víðkaðist sjóndeildarhringur Magnúsar Guðmundssonar við dvölina þar austur í Mjóafirði. Mjófirðingar voru í ýmsu verklegu framtaki þá á undan sinni samtíð, sérstaklega um margt er laut að sjávarútvegi. Því olli ekki minnst dvöl Norðmanna þar um slóðir, síldveiðar þeirra þar og annað framtak.

Magnús Guðmundsson á þrítugsaldri.

Árið 1894 kom heim til Mjóafjarðar frá Ameríku Mjófirðingur nokkur, sem horfið hafði vestur um haf fyrir fáum árum. Þessi maður var Ísak Jónsson Hermannssonar bónda í Firði í Mjóafirði Jónssonar. Jón faðir Ísaks þessa var sem sé bróðir Hjálmars bónda á Brekku í Mjóafirði, föður Konráðs kaupmanns og útgerðarmanns Hjálmarssonar, Vilhjálms útgerðarmanns og bónda á Brekku, húsbónda Magnúsar Guðmundssonar og þeirra Vestmannaeyinga. Og fleiri voru þau börn Hjálmars bónda, þó að þeirra sé ekki getið hér.
Ísak Jónsson hafði kynnzt frosthúsum í Ameríku. Þar var kuldinn framleiddur með muldum ís og salti. Haft var holrúm milli ytra veggs og innveggs í frostklefa hverjum og ísinn blandaður salti settur í holrúm þetta. Ísak Jónsson kom nú heim í átthagana til þess að standa fyrir byggingu frosthúss hjá Konráði frænda sínum. Sumarið 1894 byggði hann fyrsta frosthús, sem byggt var á landinu, frosthús Konráðs kaupmanns Hjálmarssonar í Mjóafirði. Rekstri þess og gagnsemi kynntust Vestmannaeyingarnir sumarið eftir, er þeir stunduðu róðra þar á vegum Vilhjálms Hjálmarssonar bónda og hreppstjóra á Brekku. Frosthúsið tryggði Mjófirðingum næga og góða beitu árið um kring.
Í átthögum sínum, Vestmannaeyjum, greindu þeir Magnús Guðmundsson og félagar hans ýmsum áhrifamönnum í Eyjum frá byggingu og rekstri frosthússins í Mjóafirði, án þess að sú frétt hefði nein áhrif um slíkar framkvæmdir í Eyjum, enda höfðu Vestmannaeyingar þá ekki hafið fiskveiðar með línu.
Eftir þriðju dvöl Magnúsar Guðmundssonar við sjóróðrana í Mjóafirði (1900), fékk hann því til leiðar komið, að hann og tveir útgerðarmenn aðrir í Eyjum byggðu sér snjókofa á lóð sunnan og austan við húseignina nr. 21 við Kirkjuveginn (verzlunarhús Brynjólfs Sigfússonar, er síðar var þar byggt. Sjá Blik 1967). Í kofa þessum geymdu þeir ís og snjó árið um kring og héldu þar óskemmdri beitu þeim til ómetanlegs hagnaðar í útgerðarrekstrinum. Þá höfðu Vestmannaeyingar notað línu til fiskveiða að austfirzkum hætti í þrjú ár. Þarna ruddi Magnús Guðmundsson markverðar brautir í atvinnurekstri Eyjabúa, þótt okkur nú finnist það ef til vill smátt og lítilvægt, af því að við gerum okkur ekki fulla grein fyrir því, hversu öll tækni og verkmenning var á lágu stigi með íslenzku þjóðinni á þeim árum.
Oft hafði Magnús Guðmundsson og félagar hans við fiskveiðarnar í Mjóafirði minnzt á frosthús Konráðs Hjálmarssonar við útgerðar- og áhrifamenn í heimabyggð og hvatt þá til að hefjast handa um frosthúsbyggingu, þegar þeir loks í september 1901 létu til skarar skríða og stofnuðu Ísfélag Vestmannaeyja.
Dvöl þessara athafnasömu og dugmiklu Eyjasjómanna í Mjóafirði hafði með sanni heilladrjúg eftirköst á atvinnulífið í heimahögunum, Vestmannaeyjum, með því að þessir þremenningar lærðu fullkomlega að nota línu til fiskveiða, lærðu að búa hana og allt, sem henni fylgir, í hendur sér til úthaldsins, fiskveiðanna, og höfðu bæði vilja og getu til þess að láta Eyjasjómenn í heild njóta góðs af reynslu sinni og þekkingu á veiðarfæri þessu. Sú varð líka raunin á. Um þetta og margt annað, sem að sjósókn og veiðiskap Magnúsar lýtur, formennsku hans og brautryðjandastarfi um notkun nýrra veiðarfæra, beitugeymslu o. fl., vísa ég til greinar hans sjálfs hér í ritinu. Það sem ekki er sagt hér berum orðum, getur glöggur lesandi lesið á milli línanna, og gert sér fulla grein fyrir staðreyndunum, og svo hinum hagfræðilegu áhrifum athafnamannsins og brautryðjandans á efnahagslíf og framtak samborgaranna. Magnús Guðmundsson var formaður á útvegi Ólafs Magnússonar í London frá 1890-1903. Það ár, giftingarárið hans (1903), lét hann Ástgeir Guðmundsson, bátasmið í Litlabæ, byggja sér bát með færeysku lagi og kallaði Ingólf eftir „Stóra Ingólfi“, eins og áttæringurinn Ingólfur var kallaður jafnan, - sá, sem Ólafur Magnússon smíðaði upp úr sexæringnum Ingólfi, sem Magnús hóf formennsku sína á. Um þann bát ræðir hann í grein sinni hér í ritinu. „Stóri Ingólfur“ mun hafa verið stærsti átt-æringur í Vestmannaeyjum á sínum tíma.
Þennan bát með færeyska laginu notaði Magnús Guðmundsson þrjár vertíðir og síðast vertíðina 1906. Það ár urðu aldahvörf í atvinnulífi og útgerðarsögu Vestmannaeyja: Vélbátaútgerðin hófst.
Þorsteinn skipstjóri Jónsson, útgerðarmaður í Laufási, fullyrðir í bók sinni, Aldahvörfum í Eyjum, að Magnús Guðmundsson bóndi í Vesturhúsum hafi tvímælalaust verið mesti aflamaður í Vestmannaeyjum fyrir og um aldamótin.


Einn af fyrstu dönsku vélbátunum.



Útgerðin á v/b Unni þeirra Þorsteins Jónssonar og meðeigenda hans, þessum fyrsta vélbáti, sem smíðaður var í Danmörku fyrir útgerðarmenn í Eyjum, gaf svo góða raun, að útgerðarmenn hér tóku þegar að leggja drög að því á vertíð 1906 að fá vélbáta keypta fyrir næstu vertíð. Ekki færri en 22 vélbátar voru gerðir út frá Vestmannaeyjum á næstu vertíð (1907). Hér var hafin forusta, sem markaði varanlegt spor í útgerðarsögu íslenzku þjóðarinnar, fiskveiðisögu hennar og hagfræðilega afkomu.
Einn af þessum nýju vélbátum, sem útvegsbændur í Eyjum gerðu út á vertíð 1907, var v/b Hansína VE-100. Eigendur hans voru þessir:

Magnús Guðmundsson, bóndi á Vesturhúsum 2/6,
Guðmundur Þórarinsson, faðir Magnúsar 1/6,
Guðjón Eyjólfsson, mágur Magnúsar 1/6,
Hannes Jónsson, tengdaf. Magnúsar 1/12,
Jóhannes Hannesson, mágur Magnúsar, bróðir konu hans 1/12,
Sæmundur Ingimundarson, bóndi í Draumbæ 1/6.

Vélbátur þessi var 7,56 smálestir að stærð með 8 hestafla Danvél. Hann var smíðaður úr eik í Frederikssund í Danmörku.
Magnús Guðmundsson var formaður með v/b Hansínu VE 100 fyrstu 6 vertíðirnar, sem báturinn var gerður hér út og fiskaði oft með afbrigðum vel. T. d. var hann aflakóngur Eyja vertíðina 1908. Eftir vertíðina 1912 hugðist Magnús hætta sjómennsku. Þá réði hann sér formann, Eyvind Þórarinsson frá Oddstöðum í Eyjum. Hann var með vélbátinn vertíðina 1913. Næstu vertíð (1914) var Einar M. Einarsson, síðar skipherra, með bátinn, en aðeins þá einu vertíð. Á vertíðinni 1915 fór formennskan á v/b Hansínu í skötulíki. Þá varð Magnús Guðmundsson að taka sjálfur að sér formennskuna á miðri vertíð. Var hann síðan einnig formaður með bátinn vertíðina 1916. Eftir þá vertíð var báturinn seldur til Keflavíkur.
Síðustu vertíðina, sem Magnús Guðmundsson var með v/b Hansínu VE 100 (1916), lagði hann þorskanet í sjó 17. apríl. Það var þá í fyrsta sinni, er hann notaði þorskanet. Það gerðu tveir aðrir formenn í Eyjum um líkt leyti. Magnús einn hélt dagbók þá eins og ætíð eftir að hann hóf sjómennsku, og skráði þar þennan merka viðburð í útgerðarsögu byggðarlagsins. Hinir tveir formennirnir gerðu það ekki. Þess vegna eru nöfn þeirra gleymd. En allir voru þeir brautryðjendur um notkun þorskanetjanna, svo að varanleg notkun þeirra hélzt úr því og varð almenn í verstöðinni, enda þótt aðrir hafi borið notkun þeirra við á undan þeim, t. d. Norðmaðurinn Förland og Gísli útgerðarmaður Magnússon í Skálholti.


Vélbáturinn Hansína VE 200.


Árið 1916 hóf hinn kunni bátasmiður í Eyjum, Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ, að byggja nýjan vélbát fyrir Magnús Guðmundsson og félaga hans. Þessi bátur var 11,53 smálestir að stærð, og í hann var sett 22 hestafla Alfavél. Hér hafði þá þegar þróunin sagt til sín: tvö hestöfl á smálest 1916 í stað eins hestafls á smálest hverja 1907.

Þessi nýi bátur bar nafn fyrri bátsins og einkennisstafina VE 200, Hansína VE-200, súðbyrðingur úr eik. Eigendur voru þessir:

Magnús Guðmundsson í Vesturhúsum 2/5,
Guðjón Eyjólfsson 1/5,
Hannes Jónsson 1/10,
Jóhannes Hannesson (Miðhúsum) 1/10,
Sigurður Hróbjartsson á Litlalandi 1/5.

Á v/b Hansínu VE 200 var Magnús Guðmundsson formaður 5 vertíðir. Þá loks hætti hann sjómennsku og tók fyrir önnur störf, mjög óskyld útgerð og sjósókn. Hann gerðist skrifstofumaður hjá Hlutafélaginu Bjarma, sem hann hafði þá rekið við hlið framkvæmdastjórans, Gísla gullsmiðs Lárussonar í Stakkagerði, undanfarin 7 ár. Magnús Guðmundsson hafði frá æskuárum skýra og læsilega rithönd.

Þegar Magnús Guðmundsson hætti formennsku og um leið sjómennsku, hafði hann verið formaður í 30 vetrarvertíðir og stundað sjó nær 40 ár. Aldrei hafði neitt óhapp hent hann á sjómannsferlinum eða í skipstjórnarstarfinu, aldrei meiðzt hjá honum maður, aldrei lent í lífsháska, hvorki hann sjálfur né menn hans, eins og við leggjum venjulega merkingu í það orð. Vitaskuld eru allir sjómenn í lífsháska, meðan á sjósókn stendur, ef við íhugum orðið í víðtækari merkingu. Magnús Guðmundsson kvæntist Jórunni Hannesdóttur formannsMiðhúsum Jónssonar 23. maí 1903. Brúðurin var 8 árum yngri en brúðguminn, fædd 1880.
Jórunn Hannesdóttir var búforkur og bústjórnarkona hin mesta, ýtin og vinnuhörð nokkuð við hjú sín og þó vinnuhörðust við sjálfa sig. Þrátt fyrir vinnuhörkuna og aðsætnina á heimilinu að Vesturhúsum, hélzt þeim hjónum jafnan vel á hjúum. Ekki olli þar minnstu um artarsemi og drenglund húsfreyjunnar og umhyggja fyrir vellíðan hjúanna og loflegu mati á vel unnu starfi þeirra.

ctr

Vesturhús um 1940.
Miðhúsasystkinin, börn Hannesar Jónssonar og Margrétar Brynjólfsdóttur. - Standandi: Jóhannes, kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur, Jórunn, húsfreyja á Vesturhúsum. - Sitjandi: Hjörtrós, fyrri kona Tómasar M. Guðjónssonar í Höfn.


Þegar Magnús Guðmundsson kvæntist og stofnaði eigið heimili, fékk hann þegar afnot hálfrar jarðarinnar að Vesturhúsum hjá foreldrum sínum. Fjárafli ungu hjónanna og búrekstur stóð þá þegar á styrkum stoðum. Þau ráku útgerð mestan hluta ársins, þar sem húsbóndinn sjálfur stjórnaði fleyi og fangbrögðum við Ægi, fengsæll og farsæll í starfi því öllu. Hjónin öfluðu heyja handa bústofni sínum og færðu út tún með ræktun. Húsbóndinn lá við í Álsey á fuglveiðitíma sumar hvert og veiddi mikinn fugl handa heimili þeirra, en Vesturhúsajarðirnar hafa ínytjar í Álsey, svo sem kunnugt er flestu Eyjafólki. Þúsundir af lunda sendi hann heim á veiðitímanum. Húsfreyjan unga tók við veiðinni tveim höndum, lét reyta fuglinn eða gerði það sjálf að einhverju leyti, gerði hann til, krauf hann, og svo reykti hún hann eða saltaði, oftast hvorttveggja. Lundaspílurnar (lundabökin) voru lagðar út á vegg eða garð til þurrks og síðan notaðar undir pottinn til þess að drýgja eldiviðinn, sem alltaf var hörgull á í byggðarlaginu, meðan kol fluttust þangað ekki nema í mjög skornum skömmtum. Með spílunum var aðaleldiviðurinn þurrkuð kúamykja, skán og rekaviður. Þess vegna var hver spýta hirt á rekafjörum og réttar síns gætt þar af ítrustu árvekni.

ctr


Hjónin Magnús Guðmundsson og Jórunn Hannesdóttir. Myndin er tekin á silfurbrúðkaupsdegi þeirra, 23. maí 1928. Þau minntust gullbrúðkuupsdagsins síns 23. maí 1953. Um Jórunni húsfreyju skrifaði Árni heitinn símritari þessi orð: „Hún bar með sér ættarmót mikilhæfra foreldra, veitul og stórgjöful, þrekmikil og stórhuga í allri búsýslu og rómuð húsmóðir á sínu glæsta heimili, Hún var góð og ástrík móðir og eiginkona“. Magnús Guðmundsson var fæddur 27. júní 1872. Hann lézt 24. apríl 1955. Jórunn Hannesdóttir var fædd 30. september 1880. Hún lézt 24. janúur 1962.

Lundafiðrið var eftirsótt verzlunarvara hvort heldur var hjá kaupmönnum eða einstaklingum. Af því höfðu ungu hjónin á Vesturhúsum drjúgar tekjur.
Fýlungaveiðar voru þá líka almennt stundaðar á fýlaveiðitímanum og fýlakjötið saltað til vetrarins til að drýgja spaðkjötið og létta framfærsluna.
Þegar vertíð lauk hverju sinni, var tekið til að verka vertíðaraflann að fullu. Fiskþvotturinn hófst þá bráðlega og svo þurrkun fisksins á stakkstæðum, sem voru á ýmsum stöðum á Heimaey. Mörg ár áttu þau hjón, Magnús og Jórunn, stakkstæði, þar sem húseignin nr. 1 við Helgafellsbraut stendur nú, og þar suður af.
Einnig notuðu þau hjónin um árabil fjörur norður undan Kirkjubænum til fiskþurrkunar. Víðar höfðu þau þurrkrými.
Á fyrstu búskaparárum sínum eignuðust þau kerru, og svo áttu þau hest. Þau óku fiskinum þvegnum á reitina sína og aðra þurrkstaði. Þau hjón voru með þeim allra fyrstu í Eyjum til að efla þannig verktækni og létta störfin við framleiðsluna.
Þegar veðurútlit var þurrklegt, var oft snemma úr rekkju risið á Vesturhúsum, ef þurrka þurfti fisk á stakkstæðum. Þegar vinnufólkið rölti með stírurnar í augunum niður í eldhúsið eldsnemma morguns, var húsfreyja jafnan þar fyrir, búin að hita morgunkaffið og leggja á borðið. Á lundaveiðitímanum, þegar bóndinn lá við í útey svo vikum skipti við veiðar, var það hlutverk húsfreyjunnar að stjórna heimilisstörfunum úti við sem innan veggja. Segja má með sanni, að Jórunn húsfreyja Hannesdóttir hefði lag á því bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu að láta limina dansa eftir höfðinu.
Þurrkur hafði verið alla nóttina. Þegar fólkið á Vesturhúsum rétti loks úr bakinu um morguninn, eftir að hafa breitt úr stórum fiskstakki þarna austur í fjörunni norðan Kirkjubæja, heyrði það hvellan hlátur suður hjá bæjum. Þarna stóð þá einn af bændunum á Kirkjubæjunum á svellþykku prjónahaldinu og skyggndist til veðurs. Bóndi hló hvellt og hjartanlega, er hann sá og hugleiddi hversu snemma Vesturhúsafólkið, þetta vinafólk hans, hafði hafið dagsverkið undir stjórn húsfreyjunnar, því að húsbóndinn lá við fuglaveiðar úti í Álsey á þessum tíma sumarsins. Kirkjubæjarbóndinn, sem jafnan var árvakur sjálfur, hafði ekki klæðzt, þegar Vesturhúsafólkið hafði þegar lokið hluta úr dagsverki. Og marga þurrkdaga á sumrin sat húsbóndinn Magnús á Vesturhúsum með háfinn sinn á bjargbrún vestur í Álsey og snéri þar úr hálsliðnum fjölmarga lunda á hverjum klukkutíma, - já, tugi lunda, er hann „var vel við“, meðan húsfreyjan heima stjórnaði margþættum verkum utan húss sem innan, svo að hvergi skeikaði.
Þannig liðu árin á þessu merka heimili og tugir ára. Hjónin Magnús Guðmundsson og Jórunn Hannesdóttir bjuggu á Vesturhúsum eða höfðu afnot jarðarinnar hálfrar meira en hálfa öld og allrar til ábúðar eftir 1916, eftir fráfall Guðmundar bónda Þórarinssonar.
Ég, sem þetta skrifa, gæti með mörgum orðum lýst heimilislífi þeirra hjóna á Vesturhúsum, hjónalífi þeirra og daglegri sambúð. Allt var það til mikillar fyrirmyndar. Húsfreyja var alvörugefin sæmdarkona, þung á bárunni, en bóndi léttlyndur og spaugsamur og vó þannig upp á móti hinum einkennunum, svo að niðurstaðan var gleðiblandin ánægja og hamingja, með því að hjónin mátu hvort annað og unnust heitt.
Uppi á vegg í stofunni á Vesturhúsum hékk lengi mynd af prentuðu kvæði. Það var brúðkaupskvæði þeirra hjóna, þrjú erindi prentuð skýru letri og skrautskrifuð gullnu letri þessi orð ofan við kvæðið:
„Til brúðhjónanna Jórunnar Hannesdóttur og Magnúsar Guðmundssonar á brúðkaupsdaginn 23. maí 1903.“
Brúðkaupskvæðið hljóðar þannig:

„Lifið þið bæði lengi og vel,
ljómi farsældar heiðskírt hvel,
Mæði ei nokkur mótgangsslagur,
og mildur verði sérhver dagur,
og einnig berist auðlegð nóg
til ykkar jafnt af grund og sjó.
Það afl, er tengir sál við sál
og sigrar bezt, ef leið er hál,
sem húmi í daga bjarta breytir
og bót við meinum flestum veitir,
það létti ykkur lífsins þraut
og leiði sanna gæfu á braut.
Þar kærleikssólin helg og há
í hjörtun geisla senda má,
er hlýtt og indælt vor um vetur
hvar vonarblómið þroskast getur,
hún flytji blessun, frið og yl
með fögrum geislum ykkar til.

Ef segja mætti með sanni, að til væri óskastund, þá væri hægt að fullyrða, að höfundur ljóðsins hefði hitt á óskastundina gullvægu, er hann orti þetta ljóð. Svo mjög minnir hugsun og óskyrði kvæðisins á þá reynd, sem var raunveruleikinn einskær í hjóna- og heimilislífinu á Vesturhúsum alla þeirra hjúskapartíð.
Líkindi eru til þess, að Ólafur Magnússon í Nýborg hafi ort þetta brúðkaupskvæði. Þeir voru lengi tryggðarvinir, hann og Magnús Guðmundsson.
Magnús Guðmundsson var mikill og traustur félagshyggjumaður.
Rúmlega tvítugur að aldri gekk hann í Stúkuna Báru nr. 2, sem þá hafði starfað í 5 ár. Þarna reyndist hann traustur og trúr heiti sínu og vammlaus bindindismaður alla ævi síðan. Bindindisstarfið og bindindið sjálft var Magnúsi Guðmundssyni hugsjón. Í stúkustarfinu þroskaðist félagshyggja Magnúsar og skilningur á gildi samtaka, gildi afls og máttar, samhygðar og sameiginlegs átaks í lífsbaráttunni. Síðan áttu Eyjabúar eftir að njóta félagsanda hans og félagsþroska og óeigingjarns framtakshugar í atvinnulífi byggðarlagsins um langt árabil. Þar má með sanni fullyrða, að stúkustarfsemi legði grundvöllinn.
Það er vissulega ómaksins vert að kynnast eilítið þátttöku Magnúsar Guðmundssonar í hinum ýmsu hagsmunafélögum Eyjabúa, þar sem hann var virkur starfskraftur.
Ísfélag Vestmannaeyja var stofnað 1901, eins og mörgum er kunnugt. Brátt varð Magnús Guðmundsson þar áhrifaríkur og farsæll aðili. Honum var það ætið ljóst, að það markverða framtak útgerðarmanna í sveitarfélaginu að byggja íshús að amerískri fyrirmynd, eins og þeir áður höfðu gert í Mjóafirði eystra og víðar, markaði mikilvægt spor í útgerðar- og framleiðslusögu Vestmannaeyja. Um leið var fyrirtæki þetta markvert spor fram á leið til hagsældar öllum almenningi í byggðarlaginu.
Magnús Guðmundsson skildi manna bezt hugsjónir Gísla J. Johnsens kaupmanns og útgerðarmanns til framtaks og sannra framfara í Vestmannaeyjum, fæðingarsveit þeirra beggja. Í stjórn Ísfélagsins, þar sem Magnús naut mikils trausts félagsmanna, studdi hann því jafnan eftir mætti Gísla J. Johnsen gegn þröngsýnum og valdagírugum kaupmannahagsmunum og valdastreitumönnum öðrum, sem sáralítið höfðu til brunns að bera um allar mennilegar og verklegar framfarir.
Þó náðu þau óþurftaröfl Ísfélaginu á vald sitt um stundarsakir og þokuðu þannig Magnúsi og Gísla til hliðar. En sú valdasæld stóð ekki lengi, því að strax tók að halla undan fæti fyrir félagssamtökum þessum svo að til óheilla horfði. Félagsmenn áttuðu sig fljótlega og viðurkenndu brátt yfirsjónir sínar með því að fela Gísla J. Johnsen og Magnúsi Guðmundssyni og félögum þeirra stjórnarvöldin á ný. Þá tóku samtökin að dafna aftur. Eftir það var þeim borgið.
Árið 1914 beittu þeir Magnús Guðmundsson og Gísli gullsmiður Lárusson í Stakkagerði sér fyrir stofnun hlutafélags til styrktar útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum. Stofnendur voru milli 20 og 30 menn. Þetta var Hlutafélagið Bjarmi, sem breytt var í samvinnufélag árið 1926 eða eftir 12 ára starf.
Tilgangur Bjarma hf. var þessi: „... að útvega félagsmönnum sem beztar vörur með svo góðu verði sem unnt er, og koma innlendum afurðum í svo hátt verð sem auðið er.“
Hlutafélagið Bjarmi var stofnað 1. marz 1914, og fyrstu félagssamþykktir þess undirritaðar 15. apríl s.á.
Magnús Guðmundsson sat í stjórn Bjarma, þar til félag þetta var leyst upp árið 1940. Öll starfsár félagsins var Magnús Guðmundsson ritari stjórnarinnar, og skildi hann þar eftir tvær fundagerðabækur vel og skilmerkilega ritaðar, er félagið hætti störfum. Á ýmsu gekk í félagssamtökum þessum eins og oft gengur.
Um tíma átti félag þetta við mikla fjárhagsörðugleika að stríða; afurðir féllu í verði. Lánsverzlun reyndist félaginu fallvölt og sumir mestu trúnaðarmennirnir og valdamennirnir gallagripir, óreglusamir og óvandaðir. Sumir þeirra, sem nutu mests trausts félagsmanna fyrstu starfsárin, misstu það og ekki að ófyrirsynju; þeir höfðu vissulega unnið til vantraustsins. Öðrum, sem lítils trausts nutu þar lengi vel, var þá falin forustan með Magnúsi Guðmundssyni. Alltaf naut hann sama traustsins hjá félagsmönnum, eins síðasta starfsárið í stjórn félagsins eins og fyrsta árið, þar til félag þetta var leyst upp. Hann einn var öll árin, sem Hf. Bjarmi og svo K/F Bjarmi starfaði, í stjórn þess með fullu og óskoruðu trausti félagsmanna. Atkvæðagreiðslurnar á aðalfundum félagsins um trúnaðarmenn þess sanna okkur þetta. Félagsmenn þekktu Magnús Guðmundsson að óbilandi vilja og óbrigðulli sómatilfinningu, skapfestu og heiðarleik í hvívetna. Orðstír hans og nafn hélzt vammlaust til hinztu stundar.
Frá unglingsárum vandist Magnús Guðmundsson fuglaveiðum í úteyjum eða frá 12 ára aldri. Fram yfir aldamótin, eða meðan segja mátti, að hann dveldist í föðurtúni, veiddi hann fugl og seig í björg á vegum foreldra sinna. En eftir að hann fékk til ábúðar hálfa Vesturhúsajörðina við giftingu (1903), breyttist þetta að sjálfsögðu. Eftir það var hönd hans honum sjálfum hollust. Ekki er mér það kunnugt, að hann hafi veitt í annarri eyju en Álsey þau 65 ár, er hann stundaði fuglaveiðar, eða til 77 ára aldurs. Þar þótti hann jafnan hrókur alls fagnaðar, góður félagi, tillitssamur og skyldurækinn sem annars staðar. Gætinn og slyngur fjallamaður þótti hann, sem félagar hans virtu og mátu og tóku mikið tillit til.
Árni símritari Árnason dvaldist mörg sumur með Magnúsi Guðmundssyni og öðrum úteyjarfélögum í Álsey og minntist þeirra ánægjustunda í blaðagrein um Magnús Guðmundsson að honum látnum. Með grein þeirri birti Á.Á. þetta erindi, er hann orti um kynni sín og úteyjardvöl með bóndanum í Vesturhúsum:

Gekk sá, er óttaðist eigi
einvígið stranga að heyja.
Genginn er góður drengur
geðhreinn frá oss héðan.
Garðinn sinn frægan gerða,
gætti hann vel og bætti.
Skarð fyrir skildi er orðið;
skaðinn er ber í staðinn.

Magnús Guðmundsson var heiðursfélagi Félags bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum.
Er Eyjamenn afréðu að leika Skugga-Svein haustið 1898, tók Magnús Guðmundsson að sér að leika Jón sterka. Þótti hann leysa það hlutverk vel af hendi, og varð hann þannig hlutgengur í leiklistarlífi Vestmannaeyinga um eitt skeið.
Þegar Magnús Guðmundssnn hætti sjómennsku 1921 gerðist hann skrifstofumaður hjá Hlutafélaginu Bjarma og hélt því starfi í skrifstofu félagsins, meðan það var við lýði eða til haustsins 1940.
Haustið 1941 gerðist Magnús Guðmundsson gjaldkeri Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja. Þeirri stöðu hélt hann til ársins 1948. Þá var hann meira en hálfáttræður. Sagði hann þá lausu þessu starfi hjá Bátaábyrgðarfélaginu og bar því við, að hann gæti ekki lengur fullkomlega treyst minni sínu og öryggi sökum aldurs. Meðfædd samvizkusemi olli því, að hann sagði af sér gjaldkerastarfinu og settist þá loks í helgan stein.
Fyrr á árum eða 1910 hafði Magnús Guðmundsson verið í varastjórn Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja. Um líkt leyti var hann varasýslunefndarmaður. Sýslunefndarmaður var hann kosinn 1916. Þegar svo kosið var hér í bæjarstjórn fyrsta sinni í jan. 1919 var Magnús Guðmundsson kosinn bæjarfulltrúi, og átti hann síðan sæti í bæjarstjórninni næstu 6 árin eða til ársins 1925.
Vorið 1919 vöktu þeir stjórnarmennirnir í Hlutafélaginu Bjarma, Magnús Guðmundsson og Gísli Lárusson, máls á því, hvort ekki væri rétt að félagsmenn Bjarma beittu sér fyrir stofnun togaraútgerðarfélags. Ekki er mér kunnugt um, hvort þessi hugmynd var gefin þeim annars staðar frá. En víst er um það, að þessar umræður, er þá fóru fram á stjórnarfundi félagsins, urðu upphaf að stofnun togaraútgerðarfélagsins Draupnis, sem rak samnefndan togara frá Reykjavík um nokkurt skeið. Stjórnarmenn Bjarma og fleiri Vestmannaeyingar munu hafa keypt hlutabréf í þessu útgerðarfélagi, en aldrei létu þeir Bjarma leggja fé í fyrirtæki þetta, sem varð a.m.k. hluthöfum búsettum í Eyjum til lítillar gæfu.
Sökum lélegra hafnarskilyrða hér í Eyjum var togarinn Draupnir rekinn frá Reykjavík. Hlutafjáreigendur hér urðu þess vegna að sjá allt með annarra augum um rekstur þessa togara og treysta á drengskap og heiðarleik sameignarmanna sinna á útgerðarstað. Ekki er alveg grunlaust um, að ýmislegt grugg og groms hafi þar mengað vatn viðskiptanna og valdið hruninu að einhverju leyti. Víst er um það, að togarafélagið Draupnir varð gjaldþrota. — Lítið mun togari þessi hafa lagt upp af fiski í Vestmannaeyjum, þó að hugmynd og ætlan frumherjanna eða upphafsmanna félagsins væri sú í upphafi, að afli togarans yrði til atvinnuaukningar í byggðarlaginu. Þess vegna lögðu þeir fé hér í fyrirtæki þetta, en lifur mun togari þessi hafa lagt hér upp til bræðslu, er hann átti leið fram hjá Eyjum af austlægum miðum. Það eitt jók atvinnu nokkurra manna hér. Að öðru leyti varð hér engin atvinnuaukning af rekstri þessa togara Magnúsi Guðmundssyni og fleirum hluthöfum til sárra vonbrigða og fjárhagslegs taps.
Eftir tillögum Magnúsar Guðmundssonar og annarra samstjórnarmanna hans í Bjarma, lagði félagið kr. 20.000,00 í Hlutafélagið Eimskipafélag Suðurlands, er það var stofnað árið 1919. Markmið þeirra með því framlagi var að tryggja Eyjabúum greiðari samgöngur við Reykjavík, en fátt stóð byggðarlaginu og öllum atvinnurekstri þess meir fyrir þrifum og vexti en tregar og stopular samgöngur við fjármála- og verzlunarstöð landsins, Reykjavík.
Þegar útgerðarmenn í Vestmannaeyjum og yfirleitt almenningur þar beitti sér fyrir kaupum á fyrsta björgunar- og aðstoðarskipi þjóðarinnar, gamla Þór (1919), og ruddi þannig einhverjar markverðustu menningarbrautir á sínu sviði, lagði Hlutafélagið Bjarmi fram til þessa framtaks kr. 10.000,00 að tillögu stjórnar félagsins. Rangt væri að segja, að Magnús Guðmundsson einn ætti þar hlut að. Þetta var ávöxtur af góðri stjórn félagsins á þeim árum og velgengni, og þar átti Magnús Guðmundsson vissulega ekki lítinn hlut að máli.
Þegar „ræktunaröldin mikla“ hófst í Vestmannaeyjum, eftir að byggingarbréf bænda þar höfðu verið „endursamin“ og þeim breytt þannig samkv. nýjum samningum, að þeir fengu aðeins sinn „deilda verð“ af ræktanlegu landi á Heimaey (árið 1926), hlutu Vesturhúsin vestari „út-land“ í Flagtadal, slakkanum vestur af Flögtum, grasivöxnu öxlinni norðvestur af Helgafelli. Þarna ræktaði Magnús Guðmundsson stórt tún á árunum 1927—1934. Síðan byggðu þau hjón sér sumarbústað á hæð norðaustur af túni þessu og nefndu húsið Helgafell. Um skeið bjuggu þau í bústað þessum árið um kring á efri árum sínum og nutu þarna umhverfisins og hins fagra útsýnis norður og vestur um Eyju og Eyjar, norður yfir Álinn til sveita Suðurláglendisins og svo fjalla og jökla í fjarska.
Hjónunum Magnúsi Guðmundssyni og Jórunni Hannesdóttur varð auðið fjögurra barna:
1. Hansína Árný, gift Ársæli Grímssyni, fyrrum bónda í Dölum í Eyjum. Þau hjón eru nú búsett á Hvaleyri við Hafnarfjörð.
2. Magnús húsasmíðameistari, kvæntur Kristínu Ásmundsdóttur frá Seyðisfirði eystra. Heimili þeirra er að Ásvegi 27 hér í bæ.
3. Nanna, gift Helga búfræðingi Benónýssyni. Þau bjuggu um árabil á Vesturhúsum í skjóli ábúendanna löglegu, en eiga nú heima í Beykjavík.
4. Guðmundur, f. 20. sept. 1916. Dáinn 18. ágúst 1936 á Vífilsstaðahæli. Guðmundur Magnússon var nemandi í Gagnfræðaskólanum veturinn 1930—1931. Eftir þann vetur stundaði hann verzlunarstörf. Hann var hinn mesti efnispiltur, sem ég minnist af innileik og hlýhug. Hann reyndist öðrum eins og mér, trúr og traustur í hvívetna, prúðmenni hið mesta og hverjum manni hugljúfi. Guðmundur var áhugamaður mikill um allar íþróttir og önnur félagsmál og -störf ungmenna hér í bæ.

Líklega síðasta myndin, sem var tekin af þeim merku hjónum á Vesturhúsum. Við skulum kalla hana gullbrúðkaupsmyndina.

Í brúðkaupskvæði því er Ólafur í Nýborg orti til hjónanna á Vesturhúsum á brúðkaupsdaginn þeirra 23. maí 1903, biður hann þess, að ekki mæði þau nokkur „mótgangsslagur“. — Fáir njóta þeirrar hamingju í lífinu, lifi þeir langa ævi, að aldrei mæti þeir „mótgangi“, sorg eða andstreymi. Þarna urðu hjónin á Vesturhúsum vissulega ekki afskipt, er þau misstu Guðmund son sinn. En á þeim sannaðist í sorgarþrautunum, að „afl það, sem tengir sál við sál, sigrar bezt, ef leið er hál, og léttir lífsins þrautir.“

Magnús Guðmundsson hélt ávallt dagbók um sjósókn sína, aflabrögð og róðratal. Hér hef ég tekið saman heildarskýrslu eftir róðratali þessa sjómanns og reglumanns, sem settist jafnan við að skrá eða skrifa dagbók sína, þegar hann kom heim úr róðri hverjum, hversu þreyttur, sem hann var, og vinnulúinn. Til þess þarf sérlega sterkan vilja og þrautseigju, óbifandi skapgerð.
Róðratal Magnúsar Guðmundssonar nær frá upphafi sjóróðra hans (1884) til ársins 1917 a.m.k., er hann hóf sjósókn á v/b Hansínu VE 200. Hér er skráð aflamagn í hverjum skipshlut eftir vertíð hverja á skipi Magnúsar og svo hlutur hvers háseta eftir vor- og sumarúthald. Þá er einnig skráður úthaldstíminn og róðrarfjöldinn á þeim tíma, sem gert var út hverju sinni.
Róðrartal Magnúsar Guðmundssonar er lítil bók en markverð heimild, sem nú er geymd í heimilda- og blaðasafni Byggðarsafns Vestmannaeyja.
Athugull og glöggur lesandi hugleiði út frá skýrslunni, sem hér er birt á bls. 117 og 118, hvaða breytíngar verða helztar á veiðimagni sumra fisktegundanna, eftir að línan er tekin í notkun (10. apríl 1897). Það vekur t.d. athygli, hversu mjög ýsu- og lönguveiðin vex þá, og hversu þorskurinn er miklu smærri á sumrum en á vetrarvertíðum, meira af stútungi í veiðinni, fiski 16 þumlunga og styttri með haus.

Vertíðarróðrar
Ár Fjöldi Upphaf og lok róðra Þorskar Ýsur Löngur Skötur Tros
1884 17 86 18
1885 18 24. febr.-15. apríl 69
1886 34 2. marz-3. maí 249 19 56 48
1887 28 4. marz-11. maí 151 51 41 2 16
1888 32 2. marz-24. apríl 247 20 36 3 36
1889 24 8. marz-9. maí 170 7 51 9 35
1890 30 25. febr.-3. maí 232 11 60 4 47
1891 25 28. febr.-22. apríl 182 27 1 46
1892 32 16. febr.-16. apríl 378 5 9 5 54
1893 40 9. febr.-28. apríl 401 19 4 55
1894 23 13. febr.-4. maí 102 1 56 1 52
1895 36 9. febr.-30. apríl 320 16 8 5 42
1896 35 28. febr.-30. apríl 252 8 2 3 71
1897 31 4. marz-11. maí 219+234 11+59 3 23
1898 33 22. febr.-23. apríl 350 388 6 9 15
1899 44 15. febr.-4. maí 772 253 9 4
1900 30 10. febr.-21. apríl 165 149 21 2
1901 39 19. febr.-3. maí 496 145 22 2
1902 32 13. febr.-21. apríl 385 175 14 1
1903 44 12. febr.-11. maí 496 523 33 4
1904 41 15. febr.-8. maí 262 140 57 1
1905 44 6. febr.-3. maí 278 185 98 4
1906 43 5. febr.-11. maí 259 192 88 3
Sumarróðrar
Ár Fjöldi Upphaf og lok róðra Þorskar Stútungar Ýsur Löngur Keilur Steinbítar Lúður Ufsar Skötur
1884 24 23. apríl-24. júlí 15 7 7 74 3 10
1885 52 23. apríl-29. júlí 35 12 16 97 4 31 2 5
1886 46 28. apríl-18. febr. 137 97 17 45 4 39 5 5
1887 52 1. maí-29. febr. 142 134 35 65 5 61 24
1888 41 14. maí-25. okt. 89 77 105 74 3 68 10
1889 55 1. apríl-17. okt. 301 124 40 83 5 49 9
1890 29 5. maí- 31. okt. 9 30 40 21 5 42 1 6
1891 48 23. apríl-14. des. 21 20 53 35 14 52 6
1892 71 21. apríl-19. des. 371 174 70 175 5 41 1 9
1893 30 2. maí-14. des. 127 41 16 97 4 14 5
1894 27 7. maí-20. des. 70 56 5 55 83 1 61 2 5
1895 14 4. okt.-24. des. 62 44 1 7 52 3 5
1896 16 Maímánuður 9 20 1 6 1
1897 39 17. maí-26. des. 130 120 214 41 107 4 41 77
1898 41 4. maí-8. nóv. 29 35 164 292 28 1 42 44
1899 31 12. maí-22. nóv. 45 41 108 174 32 5 28 6 43
1900 35 25. apríl-26. ágúst 14 2 29 238 28 56 67
1901 32 11. maí-15. nóv. 67 39 137 246 20 34 33
1902 44 1. maí-3. nóv. 110 55 358 367 35 61 23
1903 23 17. maí-23. ágúst 63 32 121 216 52 22 15
1904 17 9. maí-15. des. 60 4 72 83 16 16 11
1905 22 13. maí-26. júní 8 6 318 37 0 8
1906 18 14. maí-21. júní 90 5 108 33 1 8


Til baka