Blik 1969/Fjallamenn í verzlunarferð til Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Fjallamenn í verzlunarferð til Vestmannaeyja


Þegar leið fram á vorið 1867, hugðu bændur undir Eyjafjöllum til verzlunarferðar til Vestmannaeyja. Tíð var óþurrkasöm; það seinkaði því, að ullin næði að þorna og verða gild verzlunarvara.
Þegar langt var liðið fram í júnímánuð og sumir bændur höfðu loks lokið við að þurrka meginið af ullinni, ókyrrði sjó og tók af leiði, svo að dögum skipti.
Loks með óttugeislum miðsumarsólarinnar aðfaranótt 1. júlí ýttu Fjallamenn úr vör og héldu vestur með ströndinni í átt til Eyja.
Verzlunarferð þessi hafði verið undirbúin vel og lengi. Bændur höfðu flutt afurðir sínar að skipi, svo að þær væru tiltækar til útskipunar, þegar gæfi, nema þá þeir, sem ekki höfðu meira að selja eða verzla fyrir í Eyjum en sem svaraði klyfjum á einn eða tvo hesta.
Daginn áður, 30. júní, var boð látið ganga um byggð Út- og Austurfjalla og Vestmannaeyjaferðin tilkynnt, því að afráðið hafði verið samskipsflot bænda úr báðum byggðum eða hreppum að þessu sinni.
Hér dömluðu undir seglum í austanblænum þekktir bændur og kunnir búaliðar a.m.k. í allri Vestur-Skaftafellssýslu. Sumum þarna innan borðs hafði einnig verið falið að reka erindi búandmanna austur í Mýrdal, er til Eyja kæmi, svo sem unglingnum frá Steinum, Guðmundi Þórarinssyni.
Ekki er úr vegi að nafngreina nokkra þeirra, sem þarna sigldu til Eyja til þess að reka þar vöruskiptaverzlun eins og svo mörg umliðin ár. Einnig kýs ég að geta um nokkra afkomendur þessara Fjallabænda eða þessa Fjallafólks, - þeirra, er með aldri og þroska settust að í Vestmannaeyjum, verstöðinni og verzlunarstaðnum, og urðu síðan gildir þættir í hinum traustu ættarböndum og vinskapartengslum, sem jafnan hafa haldizt milli Eyjafólks og Fjallafólks um langan aldur, líklega frá upphafi fastrar búsetu í Eyjum.

ctr



1. Þar skal fyrstan á Fjallaskipinu nefna Kjartan Guðmundsson, sjálfseignarbónda í Drangshlíð. (Síðar löngu kallaði hann bæ sinn Drangshlíðardal). Kjartan bóndi var afi Marinós heitins Guðmundssonar kaupmanns að Brimhólabraut 1 hér í bæ; Kjartans smiðs JónssonarFaxastíg 8 og frú Sigríðar JónsdótturVesturvegi 17B.
2. Símon Símonarson, þá sagður vinnumaður í Hlíð undir Eyjafjöllum, síðar kunnur bóndi að Steinum um árabil. Símon bóndi var faðir Ólafs heitins Símonarsonar, sem hér lifði og starfaði á sínum tíma, verkamaður til heimilis að Strandvegi 37. Sonur hans er samborgari okkar Guðni Ólafsson, póstmaður að Faxastíg 31 hér í bæ.
3. Jón Einarsson, þá talinn bóndi á Yzta-Skála, en var í rauninni ráðsmaður föður síns, Einars bónda og Dannebrogsmanns Sighvatssonar, er enn bjó ekkjumaður, enda þótt hann væri hálf áttræður, þegar hér er komið tíð og tíma. „Fyrir framan“ hjá hinum aldraða bónda var Arnlaug dóttir hans. Hún var þá ekkja 29 ára og átti tvö börn. Hún hafði verið gift Jóni Arnbjörnssyni bónda á Núpi, er lézt 1861, aðeins 34 ára gamall. Hinn merki bóndi að Yzta-Skála, Einar Sighvatsson, lézt 1878, þá 86 ára að aldri.
4. Ólafur bóndi Guðmundsson í Hrútafellskoti, afi Eymundar GuðmundssonarHásteinsvegi 35 hér í bæ og frú Ólafar húsfreyju að Sléttubóli í Landeyjum og þannig langafi frú Valgerðar konu Guðna B. Guðnasonar, kaupfélagsstjóra hér.
5. Halldór Jón Stefánsson, bóndi á Rauðafelli, síðar bóndi í Steinum, faðir Lárusar heitins Halldórssonar (skírður var hann Larits), sem kenndur var við Völl hér í bæ, - hús, sem stóð á lóð þeirri, er Útvegsbankinn byggði á stórhýsi sitt, á horni Vestmannabrautar og Kirkjuvegar. Síðustu æviár sín hér átti Lárus Halldórsson heima í húsinu Gunnarshólma við Vestmannabraut, þar sem Sigmundur Andrésson, bakarameistari, hefur nú byggt brauðgerðar- og íbúðarhús sitt.
Börn Lárusar Halldórssonar voru búsett hér um eitt skeið. Halldór Jón Stefánsson, bóndi, var afi Halldórs Jóns Einarssonar, sem um árabil bjó að Skólavegi 23 hér og var kvæntur frú Elínu Sigurðardóttur.
6. Sveinn bóndi Einarsson í Nýjabæ, afi Sighvats útgerðarmanns og forstjóra að Ási hér Bjarnasonar, með því að frú Arnlaug Sveinsdóttir, móðir forstjórans, var dóttir Sveins Einarssonar bónda í Nýjabæ.
7. Sveinn Sigurðsson bóndi í Skarðshlíð. Sonur hans var Einar Sveinsson, bóndi í Þorlaugargerði hér í byggð og umsjónarmaður barnaskólans, er við hjónin fluttum hingað fyrir 42 árum. Sonur hans er hinn góðkunni Eyjabúi Hjörtur Einarsson á Geithálsi.
Sveinn bóndi í Skarðshlíð var afi Elínar heitinnar Sigurðardóttur, konu Halldórs Jóns Einarssonar, fyrrv. útgerðarmanns og svo verkstjóra hér í Eyjum, sem fyrr er getið. Heimili þeirra hjóna var að Skólavegi 23.
Elín sál. var systir Björns verkamanns SigurðssonarBrekastíg 16 og Árna verkamanns Sigurðssonar að Vesturvegi 17B. Mörg voru þessi systkin og fleiri búsett hér í Eyjum, t.d. Líney heitin móðir Trausta Eyjólfssonar, fyrr bónda að Volaseli í Lóni, nú hótelstjóra hér í kaupstaðnum.
Mig langar til að fara hér nokkrum orðum um Einar Sveinsson bónda í Þórlaugargerði. Hann er mér sérstaklega minnisstæður. Þessi orð mín verða eilítið innskot hér í frásögn mína. Gætu þau eins staðið neðanmáls.
Fyrstu árin mín hér í Eyjum starfrækti ég Unglingaskóla Vestmannaeyja, sem breytt var í gagnfræðaskóla með sérstökum lögum 1930, í barnaskólahúsinu. Þá reyndi töluvert á samvinnu okkar Einars Sveinssonar, umsjónarmanns skólans og kyndara. Ég veitti því ekki athygli þá strax eins og síðar, að aldrei kom til sundurlyndis milli hans og fyrirferðamikilla stráka í skólanum, sem þó létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna og skeyttu lítið um það, þó að þeir brytu lög og reglur, gerðu af sér óknytti o.s.frv.
Hvernig gat á því staðið, að þeir virtust aldrei gera þessum bóndamanni hið minnsta til miska, og var hann þó ekki mikill fyrir sér eða mikill fyrir manni að sjá. Ég komst að dálítilli sérkennilegri niðurstöðu.
Góðmennskan og hógværðin skein svo af þessum aldraða bónda, að það var sem enginn vildi eða treysti sér til að ganga í berhögg við hann eða gera honum til miska í einu eða neinu. Jafnvel hinir ófyrirleitnustu strákar sátu þá á strák sínum.
Svo kom þar maður í manns stað. Þá breyttist allt í þessum efnum. Hvern dag næstum að segja stóð ég í stríði vegna hrekkja og stríðni ófyrirleitnustu strákanna við hinn nýja umsjónarmann. Þetta reyndi mest á mig, því að ég hafði oft einn míns liðs kennslustörf í skólahúsinu síðari hluta dagsins og að kvöldinu, þegar barnaskólinn var hættur hinum daglegu störfum. Fyrr komumst við ekki til starfa þar.
Sonur Sveins bónda Sigurðssonar í Skarðshííð var m. a. Valtýr, faðir Jóns heitins Valtýssonar á Kirkjubæ og frú Auðbjargar heitinnar á Garðstöðum í Eyjum.
8. Sigurður Björnsson, vinnumaður séra Kjartans Jónssonar að Ytri-Skógum. Vinnumaðurinn annaðist vöruskiptaverzlunina þennan dag fyrir húsbónda sinn, hinn kunna sóknarprest Austur-Eyjafjallamanna.
9. Sveinn Pálmason, bóndi í Björnskoti, afi Árna heitins JónssonarVestmannabraut 63a, fyrrum starfsmanns Tangaverzlunar hér í bæ um tugi ára.
Sveinn bóndi í Björnskoti var einnig afi frú Gunnhildar Guðmundsdóttur, konu Björgvins Pálssonar verkstjóra að Hvoli við Heimagötu (nr. 12) hér í bæ. Frú Gunnhildur er dótturdóttir Sveins bónda Pálmasonar.

Fleiri voru Fjallabændur á skipinu, sem sigldi vestur til Vestmannaeyja milli óttu og dagmála 1. júlí 1867, svo sem Sigurður bóndi Eyjólfsson á Núpi, Sveinn Arnoddsson bóndi á Hrútafelli, Sigurður bóndi Runólfsson í Yztabæliskoti o. fl. Vanþekking mín veldur því, að ekki er grein gerð fyrir afkomendum þeirra að einhverju leyti. Vel má vera, að einhverjir afkomendur þeirra séu eða hafi verið búsettir í Eyjum, þótt mér sé ekki um það kunnugt.

10. Sízt vil ég láta undir höfuð leggjast að geta nokkurs einu konunnar, sem sigldi á Fjallaskipinu til Vestmannaeyja að þessu sinni. Það var ekkjan Margrét Jónsdóttir í Steinum, fyrrverandi ljósmóðir þar. Hún var langamma Ársæls Sveinssonar útgerðarmanns á Fögrubrekku. Það mun verða þannig rakið: Jón bóndi á Leirum var sonur Margrétar ljósmóður. Sonur hans var „Sveinn í Völundi“, er áður bjó að Sveinsstöðum í Eyjum, þá kvæntur Guðrúnu Runólfsdóttur. Ársæll Sveinsson er sonur þeirra hjóna. Ísleifur Jónsson í Nýjahúsi hér var annar sonur Jóns bónda á Leirum. Afkomendur hans eru líka búsettir í Eyjum, svo sem frú Rósa, kona Einars Illugasonar smiðs.
Margrét ljósmóðir Jónsdóttir var 69 ára, er hún fór þessa verzlunarferð til Eyja. Hún var ekkja Helga bónda Guðmundssonar að Steinum undir Eyjafjöllum. Þau hófu búskap á einni Steinajörðinni um 1830 og þóttu ávallt merk bóndahjón og mikilhæf á þess tíma mælikvarða. Eftir að Margrét ljósmóðir missti mann sinn (líklega 1862) bjó hún áfram að Steinum og þá með syni sínum Guðmundi, sem kvæntist Margréti Eiríksdóttur. Þau bjuggu í búi Margrétar ljósmóður meðan Guðmundi Helgasyni entist aldur. Eftir það dvaldist Margrét ljósmóðir hjá tengdadóttur sinni til ársins 1888, er hún fluttist að Leirum til Jóns Helgasonar, sonar síns. Þar lézt hún 29. des. 1890, 92 ára gömul.

Og þannig var á Fjallaskipinu að þessu sinni í verzlunarferð til Eyja bændafólk að austan og vestan, úr Út- og Austur-Eyjafjallahreppi og fleira en hér er nafngreint.

ctr


Austurbúðarhúsið, sem byggt var 1880. Fjallamennirnir, sem um getur í greininni, voru hér á ferð 1. júlí 1867. Stóðu verzlunarhúsin þá innan varnarveggja virkisins á Skansinum. Sjá líkan af Skansinum 1844 í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Klapparhalinn, „Austurbúðarbryggjan“, sést hér næst á myndinni.
Teikninguna gerði Engilbert Gíslason.

Þegar til Eyja kom nokkru fyrir hádegið, var lent þar við Austurbúðarbryggjuna, klapparhalann niður og vestur af Austurbúðarbyggingunni, verzlun einokunarkaupmannsins N. N. Bryde, - við „bryggjuna“ nytsamlegu, sem skagaði þarna norður úr hraunjaðrinum og drottinn sjálfur hafði smíðað einhverntíma í fyrndinni, þegar hraunið rann úr Helgafelli. Engin önnur bryggja eða bryggjumynd var þar við hafnarvoginn í Vestmannaeyjum þá.

Annars vegar við klapparhalann lá skip Landeyjabænda, sem komið hafði til Eyja nokkru fyrr um morguninn.
Bændurnir skipuðu afurðum sínum, kaupeyri sínum, þarna upp á bryggjumyndina og höfðu við það hröð handtök, því að nú var byrjað að fjara og á fjörunni flaut skipið ekki við bryggjuna. Þegar uppskipun var lokið, réru þeir skipi sínu inn í Lækinn, uppsátrið vestan við Nausthamarinn, og brýndu því þar, meðan þeir stóðu við í verstöðinni eða á verzlunarstaðnum.
Þarna hittust vinir og frændur, Eyjamenn og bændafólk Suðurlandssveita. Þar urðu fagnaðarfundir. Sumir aðkomumennirnir höfðu að vísu legið við í Eyjum til fiskjar á síðustu vertíð, svo að ekki var langt liðið frá dvöl þeirra þar, en flestir aðrir höfðu ekki sézt þar síðan haustið áður eða á fyrra sumri, og enn aðrir aldrei til Eyja komið fyrr. Þeim var verzlunarferðin ævintýri.
Þarna ríkti meðal fólksins, Eyjabúa og aðkomumanna, gagnkvæmur hugur til hjálpar og fyrirgreiðslu. Og margt heimilið í Eyjum stóð nú opið komnum aufúsugestum, matur á borði, og svo kaffi og kandís með. Sumir þágu „tár“ í tilbót.
Og síðan hófst verzlunin. Þá var byrjað á því að hafa tal af verzlunarstjóranum, umráðamanni einokunarkaupmannsins, gefa honum upp, hvaða afurðir þeir kæmu með að þessu sinni til skipta fyrir búðarvarninginn, og svo hvort ekki fengist nokkurt vörulán, reikningslán, þar til með haustinu, að bændurnir kæmu aftur í verzlunarstaðinn og þá með kjöt og aðrar sláturafurðir, t.d. tólg og gærur.
Hér var verzlunarstjóranum vandi á höndum. Hverjum var óhætt að lána og hverjum ekki? Auðvitað gat presturinn fengið lán eftir þörfum og svo góðbóndinn Kjartan í Drangshlíð, þó að hann hefði aðeins lítið eitt af afurðum með sér að þessu sinni: 6 pund af hvítri ull, 3 pund af tólg, 11 pund af löngu, vel verkaðri og svo nokkur pund af saltfiski og harðfiski. Verzlunarstjórinn, Jóhann P. Bjarnasen, þekkti Kjartan bónda að hagsýni og myndarskap í búrekstri, þó að bú hans gæti ekki talizt stórt. Honum var óhætt að lána. Úttekt hans varð því mikil að þessu sinni og skuldin æðistór, þegar lokið var. Meðal annars, sem Kjartan bóndi fékk skrifað, voru 10 pund (5 kg) af kaffi, 5 pund af kandís, 5 pund af rjóli eða óskornu neftóbaki, 2 pund af indigolit og 20 potta (20 lítrar) af brennivíni.
Presturinn sjálfur, séra Kjartan í Ytri-Skógum, fékk líka úttekt eftir þörfum: Hálfa tunnu af baunum, eina tunnu af kolum, 10 pund af kaffi, eitt pund af rullu (munntóbaki), eitt pund af hellulit og 40 potta af brennivíni. - Þá tók prestur út í reikning kirkju sinnar 200 „kirkjubrauð“ og marga potta af messuvíni, sem þá var kallað kirkjuvín. Ekki tók prestur allar þessar vörur út í skuld, því að nokkrar afurðir hafði vinnumaður hans meðferðis, svo sem nokkuð af saltfiski, 256 pund af hvítri ull, 144 pund af tólg og slatta á kút af sjálfbráðnu þorskalýsi.
Ólafur bóndi í Hrútafellskoti hafði lítið meðferðis af afurðum bús síns. En hann hafði stundað sjó í Eyjum síðustu vertíð (1867) og selt Bryde allan aflahlutinn sinn. Átti hann því nokkra innstæðu, er hann hóf úttekt sína. Hann tók út hálfa tunnu af kolum, eina tunnu af rúgi, hálfa tunnu af bankabyggi, 4 pund af kaffi, eitt pund af kandíssykri, kvartpund af molasykri og 2 potta af brennivíni. Meðferðis hafði bóndi lítið eitt af tólg og ull.
Sigurður bóndi í Yztabæliskoti hafði með sér æðimiklar sjávarafurðir í þetta sinn sem oftar til innleggs hjá einokunarkaupmanninum, svo sem saltfisk, harðfisk, löngur og nýjan fisk, sem bóndinn hafði aflað daginn áður en hann lagði upp í verzlunarferðina. Úttekt hans að þessu sinni var eins og hér segir: Hálf tunna af byggi, hálf tunna af rúgi, 2 pund kaffi, hálft pund kandís, hálft pund melis (molasykur), hálft pund af munntóbaki og svo eilítið af „cichorie“ eða kaffibæti.
Og þessu lík var úttekt annarra Fjallabænda þennan fagra sumardag í Eyjum.
Sumir keyptu þó nokkur pund af járni og stáli, þeir sem smíðuðu ljái, skeifur og torfljái fyrir nágrannana. Ljáirnir voru einjárnungar lagðir stáli til eggjar, þegar það var hægt. Skaflaskeifurnar voru settar stálbroddum. Þessir járnsmiðir keyptu einnig kol í stærri stíl en venjulegir bændur til þess að hita við járnið. T.d. keypti Sveinn bóndi Arnoddsson 19 1/2 pund af járni, 2 1/4 pund af stáli og 6 1/2 kút af kolum.
Og svo voru það hinir, sem ekkert lánstraust höfðu.
Þegar búðarmaður einokunarverzlunarinnar leit á „bevísana“ frá verzlunarstjóranum, stóð á einum þeirra: „Meget lidt“. Það vissi hann að þýddi: Aðeins lítið lán, örlítið lán.
Á öðrum miða stóð: „Skal afbetala gjælden med Fisk i Verttiden“. Það hafði bóndi skuldbundið sig til, ætti hann að fá lítilsháttar lán.
Á þriðja miðanum stóð: „Intet Laan“. - Hvað átti svo þessi Fjallabóndi að taka til bragðs, hann, sem ekkert lánstraust hafði? Heim gat hann naumast komið allslaus, og heimilið bjargarvana undan vetri og vori. Bóndinn hafði engar afurðir með sér. Ullin ekki orðin þurr. Þó gat hann ekki frestað kaupstaðarferðinni sökum vöntunar á flestum neyzluvörum heima.
Og svo var það eina konan, sem flaut með Fjallabændum í kaupstaðinn að þessu sinni, Margrét Jónsdóttir, ljósmóðir, ekkja í Steinum, kunn sómakona hin mesta, en fátæk og umkomulítil. Hafði hún lánstraust? Nei, enda átti hún lítið bú, fátæk ö1druð kona.
Á miðanum hennar stóð: „Lidt Laan“. Að öllum líkindum hefur „Faktorinn“ ekki viljað klippa alveg fyrir öll lán til hennar, af því að hún hafði með sér eitt skippund (160 kg) af saltfiski og örfá pund af hvítri ull. Hann gat misst af þeim afurðum með algjörri neitun. Ennfremur gat mannúðarkennd hafa ráðið þar nokkru um hjá „Faktornum“.
Nú voru góð ráð dýr fyrir bændurna, sem ekkert lánstraust höfðu, ekkert fengu að skulda, þó ekki væri nema til haustsins eða næstu vertíðar.
Eina úrræðið var að leita hjálpar hjá Eyjabændum. Margir Landeyjabændur þekktu Árna bónda Diðriksson í Stakkagerði, því að hann var ættaður og runninn úr Landeyjunum. Þar átti hann marga frændur og vini. Þangað áttu Landeyingar auðsótta hjálp og fyrirgreiðslu. Ýmsir Fjallabændur áttu þar einnig vísa velvild og hjálpsemi. Það notfærðu þeir sér vissulega í nauðum sínum. En hjálp Árna bónda kostaði vitaskuld greiðslur, kjöt og kindur á fæti fyrir vörur úr búð einokunarkaupmannsins skrifaðar á reikning hans.
Hjá bóndanum og útgerðarmanninum, formanninum og hreppstjóranum í Stakkagerði var öllu vel til haga haldið. Allar vöruúttektir Landbænda skrifaði hann kyrfilega niður í vasabók sína og svo voru þar skráðar kindurnar, sem hann fékk frá þeim í staðinn. Litinn á kindunum skráði hann þar og eyrnamarkið. Síðan kom hann þeim til beitar í úteyjarnar. Þar átti bóndinn í Stakkagerði jafnan margt sauða og áa. Megin hluta þess fjár hafði hann eignazt í skiptum fyrir búðarvarning og eignaðist árlega um árabil. Dæmi um einkenni skráð í minnisbók: „Hvíthnýflóttur sauður þriggja vetra, - mark: „stíft hægra og gagnbitað og hamarskorið vinstra, og svo með eigin brennimarki, komið til beitar í Ellirey (Elliðaey). Svartbíldótt ær með hvítum hrút; hún brennimerkt en lambið hornmarkað. Eyrnamark: „tvístíft framan hægra og tveir bitar vinstra, annar framan en annar aftan, eða þá fjaðrir. Í Álsey“.
Allt var þetta fé skráð í vasabækur bónda, þar sem skuldareikningar bændanna voru skráðir fyrir og þar var svo reikningsstaðan sýnd hverju sinni. Allar kindurnar reiknaðar til innleggs á gangverði. Ekki gat hjá því farið, að Árni bóndi tapaði nokkru fé í þessum skulda- og vöruskiptum. Þegar hann fór að eldast og ergjast, fóru töpin meir á sálarlífið en fyrr á árum. Bar þá minnisbók hreppstjórans þessi einkunnarorð: „Gerðu illum gott og þakkaðu guði hann drepur þig ekki.“
Nokkrir bændur undan Eyjafjöllunum leituðu ásjár eða hjálpar hjá Þorsteini Jónssyni bónda í Nýjabæ og þeim hjónum. Þorsteinn bóndi var ættaður úr Dyrhólahreppi og fannst honum því renna blóðið til skyldunnar að hlaupa undir bagga með skaftfellsku bændunum, þegar „Factorinn“ þorði ekki að lána nauðþurftirnar og þeir höfðu í fátækt sinni engan kaupeyri, engar búvörur eða sjávarafurðir, til þess að láta af hendi fyrir búðarvarninginn.
En hvert gat svo ekkjan í Steinum, Margrét Jónsdóttir, flúið til þess að leita sér hjálpar? Ekki þekkti hún Árna bónda og útgerðarmann í Stakkagerði. Nei, það gerði hún vissulega ekki. Samt voru henni ekki allir vegir lokaðir. Ein var sú kona í Eyjum, sem ættuð var og upprunnin úr Skaftafellssýslu og átti gott bú, sat í góðum efnum. Hún var líka kunn að hjálpsemi við nauðleitarfólk, bjó yfir hjartahlýju og fórnarlund. Þessi kona var húsfreyjan í Austurbænum á Vilborgarstöðum, Guðfinna Jónsdóttir Austmann, kona Árna hreppstjóra Einarssonar. Á hennar náðir flúði nú ekkjan í Steinum og fékk deildan verð í ríkum mæli. Bæði fékk hún búvarning úr heimili þeirra Vilborgarstaðahjóna og svo úttekt. Þessi hjálp var ekki svo mikið sem skráð í neina vasabók, og lítið um það fengizt, hvort varan greiddist eða ekki, þegar fátæk ekkja átti í hlut.
Og svo víkur sögu minni til unglingsins, sem farþegi var á Fjallaskipinu til Eyja í þetta skiptið, Guðmundar Þórarinssonar, ráðins vinnumanns að Kirkjubæ.

Þ.Þ.V.
                        —————————————————————


Stórskipin í Hrófunum vestan við Nausthamarinn, sem trónir hæst vinstra megin við miðja myndina. Áttæringurinn Gideon er lengst til vinstri á myndinni. Miðbúðin lét byggja bryggju fram í Lækinn, en svo var athafnasvæðið nefnt milli Nausthamars og Stokkhellu. Bryggja sést á myndinni. Þar var vörum skipað upp á flóðum.