Blik 1957/Búastaðahjónin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1957



Búastaðahjónin
Lárus hreppstjóri Jónsson og kona hans, Kristín Gísladóttir, bóndahjón að Búastöðum, gift 1862.


Síðla vetrar 1870 dó Sigurður hreppstjóri TorfasonBúastöðum. Um sumarið fengu þau hjónin Lárus og Kristín byggingu fyrir jörð þeirri, sem Sigurður hafði búið á, þ.e. Syðri-Búastaðajörðinni.
Árni Árnason símritari, sem hefur aflað mikils fróðleiks um menn og ýmsar ættir eldri kynslóða hér í Eyjum, hefur sýnt Bliki þá velvild að gefa því ættarskrá þá, sem hér fer á eftir.
Með því að ætt þessi er mjög fjölmenn, mætti ætla, að fróðleikur þessi gæti orðið mörgum til ánægju.


BÚASTAÐAHJÓNIN

Lárus hreppstjóri var f. 30. jan. 1839 að Dyrhólum, drukknaði af skipinu „Hannibal“ 9. febr. 1895, sonur Jóns bónda að Dyrhólum f. 1808 Ólafssonar.
Móðir Lárusar var Ólöf, f. 1811 að Höfðabrekku, Eiríksdóttir bónda þar, f. 1766, Sighvatssonar. Móðir Jóns að Dyrhólum var Fríður, f. 1768, Jónsdóttir frá Sólheimahjáleigu. Kona Eiríks á Höfðabrekku og móðir Ólafar var Sigríður f. 1768 Þorsteinsdóttir. Ólöf lézt hér í Kornhól, hjá Lárusi syni sínum 1867. (Þar er nafn Ólafar á Kirkjubóli, en Fríðar Lárusdóttur komið af Fríði móður Jóns Ólafssonar).
Kona Lárusar á Búastöðum var Kristín, f. í Pétursey 13. jan. 1843; d. 30/12 1922 á Búastöðum, Gísladóttir bónda í Pétursey, f. 1811, Gíslasonar, f. 1776, Guðmundssonar. Gísli faðir Kristínar lézt 1856. Móðir Kristínar var Steinvör frá Bólstað, f. 1809, Markúsdóttir bónda þar, f. 1764, Árnasonar. Móðir Gísla Gíslasonar og kona Gísla Guðmundssonar var Jórunn Einarsdóttir, f. 1768.
Systkini Lárusar á Búastöðum voru:

l. Bjargey, giftist Einari í Steinum, Eyjafjöllum.
2. Bergþóra, giftist Sveini á Giljum í Mýrdal.
3. Jóhann, drukknaði við Landeyjasand.

Systir Kristínar að Búastöðum var Elín, kona Sigurðar „stutta“ í Pétursey. Þær voru aðeins tvær systurnar, Kristín og Elín.

Föðursystkini Kristínar voru:
l. Margrét, f. 1801. Móðuramma Gísla, Jóels, Guðjóns Eyjólfssona o.fl. Þ.e.a.s. dóttir Margrétar Gísladóttur, var Jórunn Skúladóttir. Þeirra börn: Jóel Eyjólfsson, Gísli Eyjólfsson, Guðjón Eyjólfsson, Margrét í Gerði, Rósa í Þórlaugargerði.
2. Einar, f. 1806, Gíslason.
3. Þórhildur, f. 1803, Gísladóttir.
4. Sigríður, f. 1808, Gísladóttir.

Móðursystkin Kristínar voru:
l. Skúli, f. 1797, Markússon. Hann var faðir Jórunnar, sem var móðir Jóels, Gísla, Guðjóns, Margrétar og Rósu og bróðir Steinvarar Markúsdóttur (hún var móðir Kristínar á Búastöðum).
2. Valgerður, f. 1793, Markúsdóttir.
3. Auðbjörg, f. 1794, Markúsdóttir.
4. Þórdís, f. 1799, Markúsdóttir.
5. Guðrún, f. 1806, og svo
6. Steinvör f. 1809. (Sbr. hér að ofan).
Kona Markúsar Árnasonar var Elín, f. 1766 að Litlu-Heiði, Skúladóttir.

Þrjú börn Búastaðahjónanna. Jóhanna, Fríður og Pétur.

Börn Lárusar og Kristínar á Búastöðum voru þessi:
l. Ólöf á Kirkjubóli, f. í Pétursey 19/12 1862, d. 16/11 1944, kona Guðjóns Björnssonar bónda Kirkjubóli hér, f. 2/11 1861, Einarssonar, d. 4. maí 1940.
2. Gísli, f. 16/2 1865 í Kornhól, d. 27/9 1935, kona Jóhanna Sigríður, f. 11/11 1861, d. 10/6 1932, Árnadóttir í Stakkagerði Diðrikssonar.
3. Jóhanna, f. í Kornhóli 23/9 1868, d. 8/12 1953, kona Árna, f. 14/7 1870, á Vilborgarstöðum, Árnasonar, d. á Grund hér 19. jan. 1924.
4. Steinvör, f. 12. júlí 1866 í Kornhóli, d. um 1940 í Blaine Washington. Var kona Einars Bjarnasonar frá Dölum. Þau fóru til U.S.A. Einar var móðurbróðir Tómasar í Höfn Guðjónssonar.
5. Auðbjörg, f. 28. sept 1871 og d. 6. des s.á.
6. Auðbjörg Jónína, f. 16. júlí 1873 og d. 27. sept. s.á.
7. Jóhann Pétur, f. 16. des. 1876 að Búastöðum; dó þar 18. okt. 1953. Kona hans Júlíana (f 19. júlí 1886) Sigurðardóttir frá Nýborg hér, Sveinssonar.
8. Lárus Kristján, f. 19. okt. 1874, d. 10. maí 1890. (Fyrsti maður, sem séra Oddgeir Guðmundsson jarðsöng hér í Eyjum 2. dag hvítasunnu l890).
9. Jórunn Fríður, f. 17. apríl 1880, gift Sturlu (f. 19. sept. 1877) frá Vattarnesi, Indriðasyni. Sturla dó 1. jan. 1945.
10. Ingunn Katrín, f. 27. nóv. 1885, d. 17 febr. 1888.
(Heimild Á.Á. og vasabók Lárusar hreppstjóra í Byggðarsafni Vestmannaeyja).

Föðursystkini Lárusar voru:
1. Einar, f. á Steig 1800, Ólafsson.
2. Anna, f. á Steig 1793, Ólafsdóttir.

Móðursystkini Lárusar voru:
1. Ólafur Eiríksson, f. 1795. Af honum er kominn Þorsteinn faðir Helgu húsfreyju á Kirkjubæ.
2. Ketill Eiríksson, f. 1798. Af honum er komin Þórunn sál., í Litlabæ, Ketilsdóttir og Heiða í Gerði.
3. Sesselja Eiríksdóttir, f. 1810. Af henni er kominn Gísli Geirmundsson, faðir Guðlaugs bæjarstjóra.

Lárus flutti til Eyja alfarinn 1863 og settist að í Kornhól. Þar lézt Ólöf móðir hans 1867, sem fyrr greinir. Þar fæddust börn hans Gísli, Jóhanna og Steinvör.
Búastöðum flutti svo Lárus 1869 í gamla bæinn, eitthvað lagfærðan til íbúðar. Bæinn byggði hann upp 1888. Aftur var bærinn byggður upp 1904. Þá bjó Pétur Lárusson þar með Kristínu móður sinni. Þess utan bjó þar Sturla Indriðason frá Vattarnesi, kvæntur Fríði Lárusóttur. Þau bjuggu í tvíbýli á Búastöðum frá giftingu, 1904, fyrst móti Kristínu og Pétri, en síðan með Pétri og Júlíönu til ársins 1923, er þau Fríður fluttu í sitt eigið hús „Hvassafell“ við Helgafellsbraut.
Búastaðir voru stór jörð á fyrri tíma mælikvarða. Lárus bætti hana mjög með sléttun og stækkun. Hann hafði 2 kýr, 12 ær og nokkuð af lömbum, 1 hross. Þess utan fé í fullum högum í Elliðaey, en þar á jörðin hagagöngur o.fl. nytjar. — Önnur hlunnindi jarðarinnar voru m.a. fýlatekja úr Stórhöfða, rekafjara í Brimurð, lundatekja o.fl. úr Elliðaey, súlutekja og fýla- úr Súlnaskeri og Hellisey o.fl. hlunnindi.

Lárus kom mjög við sögu Eyjanna. Hann var góður bóndi og vel stæður, smiður ágætur á skip og hús, formaður heppinn og fiskisæll, mikill umbótamaður á opinberum vettvangi, hafnsögumaður og hreppstjóri. Kunnastur sem formaður með skipin „Enok“ (t.d. í útilegunni miklu 1869) og mörg ár með „Frið“. Þá var og Lárus kunnur lundaveiðimaður, bæði í holu og með háf, og einn af þeim, er komu austan úr Mýrdal til fuglaveiða hér 1857—1860. Veiddi hann 17—32 kippur árlega frá byrjun lundaveiða til sláttarbyrjunar. Þótti það gott búsílag fyrir bændur þar eystra.
Lárus drukknaði á skipinu „Hannibal“ á innsiglingunni 9. febr. 1895, sem kunnugt er. Var þá kveðið m.a.:

Hreppstjóri Lárus nú sefur í sæ
þó sjáist ei grafreitar merkin,
en lítum við skipin og lítum hans bæ
þá lítum við handanna verkin.
Nú horfinn er snillingur, hnípin er sveit,
því Heimaey grætur þann öðling um aldir.
Árni Árnason.