Æviágrip Árna Árnasonar
(Grein um Árna, sem birtist í bókinni Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012).
sem vildi þeirra hag sem mestan á öllum sviðum.
Árni Árnason, oftast nefndur Árni símritari eða Addi á Grund, var fæddur á vestri Búastöðum í Vestmannaeyjum 19. mars 1901. Foreldrar hans voru Árni Árnason frá Vilborgarstöðum og kona hans, Jóhanna Lárusdóttir á Búastöðum. Börn þeirra hjóna, sem upp komust, voru fjögur, Lárus, Bergþóra, Árni og Guðfinna.
Þau Árni Árnason og Jóhanna Lárusdóttir, foreldrar Adda á Grund, höfðu flust búferlum til Vesturheims árið 1892, til mormónabyggða í Utah, en þangað hafði móðir Árna, Vigdís Jónsdóttir, flutt nokkrum árum áður, ásamt dætrum sínum, systrum Árna. Þegar þau héldu vestur höfðu þau Árni og Jóhanna eignast sitt fyrsta barn, stúlku sem hlaut nafnið Ástrós. Þau gengu í hjónaband í Utah árið 1893 en ári síðar misstu þau litlu dóttur sína, Ástrós lést í Spanish Fork í Utah árið 1894, rúmlega þriggja ára gömul.
Ungu hjónin, Árni og Jóhanna, bjuggu í nágrenni við móður Árna og systur hans. Fast var að þeim sorfið af mormónunum að taka mormónatrú og láta skírast en hvorugt þeirra lét af því verða.
Svo gerðist það uppi á Íslandi, þann 9. febrúar 1895, að sexæringnum Hannibal frá Vestmannaeyjum hlekktist á í hafnarmynninu, eða Leiðinni. Tveir menn drukknuðu af bátnum og var annar þeirra Lárus Jónsson, hreppstjóri á Búastöðum, faðir Jóhönnu.
Þegar þau Árni og Jóhanna fréttu af þessu slysi, sótti að þeim óstöðvandi heimþrá. Áhyggjur af móður og tengdamóður, Kristínu Gísladóttur á Búastöðum, leitaði mjög á ungu hjónin og varð til þess að þau ákváðu að hverfa aftur heim til Eyja.
Heim komu þau árið 1898 og settust þá að á Búastöðum hjá Kristínu og börnum þeirra, þar sem þau bjuggu næstu þrjú árin.
Árið 1901 byggðu þau Árni og Jóhanna sér lítið einbýlishús, ekki langt frá Stakkagerði, þar sem Gísli Lárusson, gullsmiður og bróðir Jóhönnu, bjó. Húsið nefndu þau Grund og stóð það á horni Kirkjuvegar og Sólhlíðar þar sem síðar var reist stórt og veglegt þriggja íbúða hús.
Þangað fluttu þau svo um haustið 1901 og var þá sonur þeirra, Árni, aðeins misseris gamall. Á Grund ólst hann síðan upp hjá foreldrum sínum og systkinum. Faðir hans, Árni eldri, stundaði sjó sem aðalatvinnu en yfir sumartímann bjargveiðar og var um árabil talinn einhver mesti og besti bjargveiðimaður í Vestmannaeyjum. Árni eldri, á Grund, lést árið 1924.
Árni yngri á Grund, sem snemma var nefndur Addi á Grund, til aðgreiningar frá föður sínum, Árna eldri, tók snemma þátt í lífsbaráttunni eins og önnur börn í Vestmannaeyjum á þessum tíma. Þau lífsþægindi sem síðar komu til sögunnar þekktust þá ekki. Börn og unglingar voru látin hjálpa til við hin ýmsu störf eins fljótt og aldur og orka leyfðu. Þau störf voru margvísleg, á sumrin við að reyta fugl, þurrka saltfisk og vinna í kálgörðum, ásamt því að létta undir við línubeitningu; á veturna áfram við beitningu, fiskaðgerð sem og því að færa mönnum mat og kaffi á vinnustað.
Skólaganga Árna var ekki löng, frekar en hjá flestum öðrum á þessum árum. Í Vestmannaeyjum munu hafa verið um 60 börn á skólaskyldualdri, 10 til 14 ára, þegar hann var að alast upp, og var þeim hópi skipt í þrjá bekki. Fullnaðarprófi barnafræðslunnar lauk hann hjá Birni Jónssyni, skólastjóra, í febrúarlok 1915, með aðaleinkunnina 7,19 en þá var hæst gefið 8 í einkunn, eftir svonefndum Örstedsskala. Þá tóku börn próf í átta námsgreinum og hlaut Árni einkunnina 8 í fimm þeirra.
Þó svo að ljóst væri að Árni hefði góða námshæfileika, leyfði ekki efnahagur heimilisins lengra skólanám, enda var litið á framhaldsnám sem eins konar munað á þeim árum. En það sem Árni fór á mis við í áframhaldandi skólagöngu jafnaði hann upp með sjálfsnámi, enda sló hann ekki slöku við í því, aflaði sér þekkingar með lestri bóka og leitaði tilsagnar eftir því sem kostur var. Hann varð sér t.d. úti um tímakennslu til að læra erlend mál og var vel fær í ensku og Norðurlandamálunum ásamt þýsku. Það nám átti eftir að nýtast honum vel í starfi sínu sem símritari.
Nítján ára að aldri réðist hann sem starfsmaður hjá Landssímastöðinni í Vestmannaeyjum. Þar var þá stöðvarstjóri A.H. Petersen sem reyndist Árna mjög vel. Næstu tvö árin stundaði hann nám í símritun, hvað mest hjá símstöðvarstjóranum í Eyjum en lauk náminu í Reykjavík þar sem hann m.a. var á Loftskeytastöðinni í Reykjavík til þjálfunar.
Árið 1921 var hann ráðinn símritari á stöðinni í Vestmannaeyjum og gegndi því starfi samfleytt í 40 ár, eða til ársins 1961 en þá var heilsu hans mjög tekið að hraka.
Það var álit margra sem til þekktu að Árni hefði verið einn allra færasti loftskeytamaður landsins. Í starfi sínu innti hann af hendi mikið og markvert björgunarstarf, oft með þrotlausri vinnu langt umfram skylduvinnu sína á símstöðinni. Hann þótti fádæma skyldurækinn í starfi og ávann sér traust og virðingu sjómanna bæði í Eyjum sem og annarra sem hann átti skipti við.
Um margra ára skeið var engin loftskeytastöð í Eyjum. Ef bát vantaði var þrautaleiðin að fara inn á Eiði eða vestur á Hamar með lukt og senda morsmerki til togara sem lágu þar undir, gefa þeim með því til kynna að báts væri saknað og fá þá til að fara til leitar. Þarna reyndi á kunnáttu Árna og allmörg dæmi þess að bátar fundust eftir slíkar hjálparbeiðnir.
Árni var hæfileikamaður á mörgum sviðum. Fimmtán ára gamall gekk hann í Íþróttafélagið Þór og var þar virkur félagi um margra ára skeið. Hann lagði stund á ýmsar íþróttagreinar en hans uppáhald var spjótkast og knattspyrna. Hann keppti í íþróttum á mörgum þjóðhátíðum og þá þótti hann traustur liðsmaður knattspyrnuliðs Þórs á heimavelli sem og Knattspyrnufélags Vestmannaeyja þegar félögin Týr og Þór fóru sameinuð til keppni upp á fastalandið.
Tónlistaráhugi var eitt af því sem einkenndi Árna. Hann lærði ungur að árum að spila á harmoniku og fiðlu og spilaði oft á hinum ýmsu skemmtunum, ýmist einn eða með öðrum. Þá var hann um tíma í Lúðrasveit Vestmannaeyja þar sem hann lék á horn.
Og leiklistin fór ekki á mis við starfskrafta hans. Um alllangt skeið tók hann virkan þátt í starfi Leikfélags Vestmannaeyja og var með í mörgum verkum sem félagið setti upp. Þar sem hann var mikill áhugamaður um sögulegan fróðleik, greip hann áhugi fyrir því að skrá sögu Leikfélagsins frá upphafi. Því urðu það honum nokkur vonbrigði er hann komst að því að forvígismenn leiklistarinnar í Eyjum höfðu verið duglegri við að koma leikverkum á svið en að skrá hjá sér fundargerðir og annað sem því tengdist. En Árni lagði ekki árar í bát, þótt heimildir í eigu félagsins væru fáar. Hann tók sig til og leitaði heimilda annars staðar. Afrakstur þeirrar vinnu birtist svo í Bliki 1962, ársriti Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, fyrsti hlutinn árið 1962, annar hlutinn Bliki 1965 og síðasti hlutinn Bliki 1967 undir nafninu „Leiklistarsaga Vestmannaeyja“ og spannaði nær eina öld af sögu leiklistar í Vestmannaeyjum, frá 1852 til 1950. Í raun er þessi samantekt Árna stórvirki, einkum sé tillit til þess tekið að heimildir lágu ekki beint á lausu.
Árni símritari var félagslyndur með afbrigðum. Hann var félagi bæði í Oddfellow og Akóges í Vestmannaeyjum. Þá var hann einn af stofnendum Vestmannaeyingafélagsins Heimakletts og ritari þess félags alla tíð. Þetta átthagafélag Vestmannaeyinga, sem stofnað var um miðja síðustu öld, kom mörgum góðum málum til leiðar meðan það starfaði. Meðal annars stóð það fyrir gerð kvikmyndar um lífshætti í Eyjum og hefur eintak af þeirri mynd varðveist. Þá var varðveisla gamalla gilda honum alla tíð ofarlega í sinni. Ásamt tveimur félögum sínum í Heimakletti, þeim Eyjólfi Gíslasyni frá Bessatöðum og Filippusi Árnasyni, mági sínum, í Ásgarði, tók hann viðtöl upp á segulbandstæki sem félagið átti; viðtöl við aldraða Eyjamenn þar sem þeir lýstu æsku sinni og uppvexti, ásamt lífsháttum í Vestmannaeyjum, bæði á fyrri hluta aldarinnar sem leið, sem og seinni hluta nítjándu aldar. Því miður hefur eitthvað af þeim upptökum glatast en nokkrar spólur munu vera til í eigu Byggðasafnsins og bíða þess að efni þeirra verði birt.
Það kom því ekki á óvart, þegar Byggðasafnsnefnd Vestmannaeyja varð til, árið 1952, að Árni Árnason skyldi vera annar af tveimur fulltrúum Vestmannaeyingafélagsins Heimakletts, sem sæti tóku í þeirri nefnd. Þorsteini Þ. Víglundssyni, forvígismanni Byggðasafnsins og einum nánasta samstarfsmanni Árna, farast svo orð um störf Árna í Byggðasafnsnefnd:
„Með sanni má segja að þar var réttur maður á réttum stað. Árni starfaði þar af miklum áhuga, fórnfýsi og getu, meðan heilsan leyfði, glöggur á söguleg gildi og menn, þegar t.d. unnið var að ljósmyndaskýringum. Byggðarsafn Vestmannaeyja var Árna metnaðarmál, samtvinnað hlýhug hans eða ást á menningu og sóma byggðarlagsins og góðvild og virðingu fyrir því fólki, er hér býr. Ekkert særði meir tilfinningalíf Árna en það, ef hann varð var við hirðuleysi eða tómlæti ráðandi manna hér um þessi menningarmál öll.“
En hafi eitthvert eitt atriði, sem tengdist Eyjum, átt stærri þátt í lífi Árna en annað, þá var það lífið í úteyjum. Innan við tíu ára aldur fór hann fyrst með föður sínum til lundaveiða í Álsey. Eftir þá för varð ekki aftur snúið. Svo heillaður varð hann af úteyjalífinu, lundaveiðinni og félagsskapnum að upp frá því fór hann á hverju sumri út í eyju, í Suðurey, Bjarnarey eða Álsey, þó oftast í Álsey en þar var hann á hverju sumri öll sín síðustu æviár meðan heilsan leyfði.
Strax um fermingaraldur fór hann að veiða með háf og þótti bæði lipur og snarpur veiðimaður enda átti hann ekki langt að sækja það; faðir hans þótti afburða veiðimaður sem og sigamaður.
Eitt af því sem Árni tók sér fyrir hendur í starfi sínu fyrir Félag bjargveiðimanna, var að skrá upplýsingar um alla bjargveiðimenn í Vestmannaeyjum og semja lýsingu á þeim sem veiðimönnum. Að sjálfsögðu undanskildi hann ekki sjálfan sig og er bæði forvitnilegt og skemmtilegt að sjá hvernig skrásetjarinn Árni Árnason lýsir lundaveiðimanninum Árna Árnasyni:
„Árni Árnason yngri er meðalmaður að hæð, ljóshærður og bláeygur, holdgrannur og smáger, léttur á velli og í lund, rjóður í andliti og ljós yfirlitum, snar í snúningum, lipur og líkamsléttur. Hann hefir verið við veiðar síðan 1908, að mestu eða miklu leyti óslitið og þykir góður veiðimaður þó kraftamaður sé hann engi. Hann þykir og afbragðs matreiðslumaður og afhaldinn af Álseyingum á því sviði. Músíkant sjálflærður og hefur spilað mikið á fiðlu og harmoníku. Hann hefur verið að veiðum í Suðurey, Álsey, Brandi, Bjarnarey og Heimakletti, velkunnugur að veiðum á Heimalandi og hvarvetna skilað sínum hlut. Hann var aðalhvatamaður að stofnun bjargveiðimannafélagsins og hefir verið formaður þess frá stofnun, ávallt endurkjörinn.“
Eins og þarna kemur fram var Árni aðalhvatamaður þess að stofna Félag bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum. Á stofnfundi þess félags, 19. júní 1952, var hann kosinn formaður félagsins og gegndi hann því embætti til dauðadags.
Eitt hið fyrsta sem hann tók sér fyrir hendur í því félagi var að skrá æviágrip og lýsingu á félögum í bjargveiðimannafélaginu, sem og þeirra sem á undan voru gengnir. Þá hóf hann einnig að skrá sögu fuglaveiða og bjargnytja í Vestmannaeyjum. Birtust margar greinar hans í blöðum og tímaritum, bæði hér í Eyjum sem og annars staðar á landinu, til að mynda í tímaritinu Heima er best.
Árið 1956 kenndi Árni þess sjúkdóms sem að lokum dró hann til dauða. Síðustu æviárin einbeitti hann sér að því sem stóð hjarta hans hvað næst af áhugamálunum, að ljúka við samantekt sína um sögu fuglaveiða í Vestmannaeyjum. Þorsteinn Þ. Víglundsson segir svo frá þessum þætti í lífi Árna í lok minningargreinar í Bliki 1963:
„Hann, sem einskis æskti fremur en að halda hvarvetna velli, standa hvarvetna á sporði öðrum í daglegum skyldustörfum og hafa þar að auki eitthvað til brunns að bera öðrum til fræðslu og menningar, varð nú þess meðvitandi, að hann fékk ekki uppfylltar óskir sínar í þessum efnum sökum heilsubrests, var dæmdur úr leik, útskúfaður, ýtt til hliðar og staðsettur fjærst í fylkingunni, fannst honum.
En allt þetta lagaðist um skeið. Heilsan styrktist um stund, og vinir Árna beittu sér fyrir því, að hann fékk mörgu áorkað og komið í verk um skrásetningu eins og annars, er hann hafði hug á að skrifa. Þessar gjörðir styrktu sálarlífið og efldu líkamsstyrkinn. Síðustu árin sem Árni lifði, kom hann alveg ótrúlega miklu í verk um skrásetningu margs konar fróðleiks, er hann bjó yfir. Það er skylda okkar vina Árna, sem hvöttu hann mest og bezt til þessara dáða, að vinna að því af fremsta megni, að sem mest af því komizt á prent meðan okkur endist aldur. Það starf mun honum hugþekkast.“
Enn er ótalið af hæfileikum Árna símritara að hann var hið ágætasta skáld og tókst mætavel að orða hugrenningar sínar í bundnu máli. Ýmist voru ljóð hans hinar fegurstu náttúrulýsingar, óður til óspilltrar náttúru úteyjanna, eða léttur og skemmtilegur kveðskapur, ortur um vinnufélaga og veiðifélaga á góðum stundum. En stundum örlar á alvarlegri undirtón, eins og í þessari vísu sem hann orti þegar veikindin hrjáðu hann:
- Það er breyting orðin á
- ævigöngu minni,
- útskúfaður flestu frá,
- fjærst í þyrpingunni.
En tónninn er annar, þegar kemur að því að rifja upp ánægjustundir í úteyjum:
- Þá lagt skal upp til lunda
- í langa veiðiför
- til frjálsra fjallastunda,
- er fleyi ýtt úr vör.
- Oss útilífið lokkar,
- þá ljómar ey og sær,
- og innst í huga okkar
- er endurminning kær.
- Þar er oft kátt í kofa
- um kvöld við sólarlag,
- þá lífsins sorgir sofa
- og sveinar taka lag.
- Þá streymir hlýja um hjarta
- við hægan öldunið,
- er haf og himinn skarta
- í hljóðrar næturfrið.
Og stundum er ort um spaugileg og skemmtileg atvik, á græskulausan og gamansaman hátt, eins og í Elliðaeyjarljóði:
Þessi gamanbragur er reyndar talsvert lengri og er enn sunginn á góðum stundum, bæði af úteyjamönnum og öðrum. Að vísu hefur textinn tekið breytingum í meðförum nútímamanna en inntakið og efnið er hið sama.
Og samstarfsfólk Árna, á símstöðinni í Vestmannaeyjum, fékk einnig að njóta skáldgáfunnar. Þetta orti hann um símastúlkurnar hjá VM, en sú var skammstöfunin fyrir símakerfið í Vestmannaeyjum:
- VM hefur ávallt átt
- ástarþekka svanna;
- gamall margur dregur drátt
- úr djúpi minninganna.
- Nýjar koma helst um haust
- hinar baugar prýða;
- þessu veldur vafalaust
- viðmót þeirra og blíða.
Jónas Sigurðsson var samstarfsmaður Árna um langt skeið en Jónas var vökumaður hjá Vestmannaeyjaradíói í 18 ár. Hann fékk þessa vísu:
- Þú ert karla klókastur,
- klækjarefur magnaður,
- fiskimanna fræknastur,
- fullhugi og sigmaður.
Braghætti og form ljóðlistarinnar hafði Árni á hreinu og hortitti og ambögur er ekki að finna í kveðskap hans. Þar var vandvirknin í öndvegi, rétt eins og í öðrum gerðum hans. Þetta orti hann einnig til Jónasar í Skuld:
- Fáum öðrum ertu líkur
- í orði, hug og sjón,
- gleðihrókur gæfuríkur,
- gjörir engum tjón.
- Aldrei varstu meðalmaður,
- mæddur fáa stund;
- sigurviss og sigurglaður,
- sóknarhörð er lund;
- stæltur, ör og starfahraður,
- styrk er öðlings mund;
- flestum betri samstarfsmaður
- símans.......
- Addi á Grund
Í lok þessarar drápu er kveðju skáldsins í lokin komið inn í ljóðið sjálft á snilldarlegan hátt og verður vart gert betur en hér. Reyndar má finna svipað ljóð, sem Árni fékk frá móður sinni í heillaóskaskeyti á afmælisdaginn 19. mars 1945, og er að finna á öðrum stað í þessu riti, þar sem sömu tækni er beitt. E.t.v. hefur hann það ljóð sem fyrirmynd hér.
Ljóð Árna um úteyjarnar, svo sem Álseyjarljóð, Suðureyjarljóð og Bjarnareyjarljóð, er minnst á annars staðar í þessu riti, en þessi kvæði eru löngu orðin að eins konar „þjóðsöngvum“ þessara eyja.
Þann 17. september 1926 kvæntist Árni Katrínu Árnadóttur, Filippussonar frá Ásgarði en Katrín var fædd 12. október 1905. Þau eignuðust eina dóttur, Hildu, sem fæddist 19. október 1926, og var hún gift Herði Svanbergssyni, prentara á Akureyri, en þar var heimili þeirra.
En þau Árni og Katrín ólu einnig upp tvö börn eins og svo algengt var í Vestmannaeyjum á fyrrihluta síðustu aldar. Ef erfiðleikar steðjuðu að í frændgarðinum, var talið eðlilegt að hlaupa undir bagga á þann hátt og jafnvel þótt um vandalausa væri að ræða. Þessi tvö börn voru Þórarinn Guðmundsson, frændi Katrínar og svo dótturdóttir þeirra hjóna, Katrín Gunnarsdóttir.
Árni Árnason, símritari, lést 13. október 1962 eftir langvarandi veikindi. Lokaorð Eyjólfs Gíslasonar, í minningargrein í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, lýsa því vel hver missir byggðarlagsins var við fráfall hans og við hæfi að þau verði lokaorð þessarar samantektar um líf og starf Árna Árnasonar:
„Með Árna Árnasyni frá Grund hafa Eyjarnar okkar misst einn sinn bezta og mætasta son, sem vildi hag þeirra sem mestan á öllum sviðum.“
Heimildir
Í þessari samantekt hefur einkum verið stuðst við eftirfarandi heimildir:
- Þorsteinn Þ. Víglundsson, Minningarorð um Árna Árnason, Blik, 1963.
- Eyjólfur Gíslason, Minningargrein um Árna Árnason, Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, 1963.
- Árni Árnason, Handritasafn vistað í Skjalasafni Vestmannaeyja.