Ritverk Árna Árnasonar/Þórarinn Guðjónsson (Kirkjubæ)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Þórarinn Guðjónsson.

Kynning.

Þórarinn Guðjónsson bifreiðastjóri frá Kirkjubæ fæddist 20. janúar 1912 og lést 7. maí 1992.
Foreldrar hans voru Guðjón Eyjólfsson útvegsbóndi, f. 9. mars 1872, d. 4. júlí 1936, og kona hans Halla Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 4. september 1876, d. 7. september 1939.

Börn Höllu og Guðjóns:
1. Guðmundur sjómaður, f. 28. apríl 1900, drukknaði 16. desember 1924.
2. Jóhann Eyjólfur sjómaður, f. 20. desember 1901, drukknaði 20. ágúst 1924.
3. Gunnar Guðjónsson, f. 12. október 1903, d. 21. nóvember 1903.
4. Kristinn Guðjónsson, f. 7. október 1904, d. 18. október 1904.
5. Gunnar skipstjóri, f. 6. desember 1905, drukknaði 6. febrúar 1938.
6. Sigrún vinnukona, f. 9. júlí 1907, d. 20. júní 1967.
7. Þórdís húsfreyja, f. 26. nóvember 1908, d. 2. júní 1995, kona Sigurðar Bjarnasonar.
8. Jórunn Ingunn húsfreyja, f. 14. febrúar 1910, d. 28. nóvember 1995, kona Guðmundar Guðjónssonar.
9. Þórarinn bifreiðastjóri, f. 20. janúar 1912, d. 7. maí 1992, ókvæntur.
10. Gísli vélstjóri, f. 20. janúar 1914, drukknaði 6. febrúar 1938.
11. Lilja, f. 16. október 1915, d. 10. mars 1921.
12. Emma Kristín Reyndal húsfreyja, verslunarkona á Akranesi, f. 25. janúar 1917, d. 25. október 2001. Hún varð kjörbarn Jóhanns Péturs Reyndals bakarameistara í Tungu og konu hans Halldóru Guðmundu Kristjánsdóttur Reyndal húsfreyju.
13. Andvana drengur, f. 4. mars 1918.
14. Kjartan, f. 22. apríl 1919, d. 3. maí 1919.


Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Þórarinn Guðjónsson er ókvæntur og barnlaus (janúar 1955), að því vitað er best. Hann er einn af frömuðum Elliðaeyjar, sonur Heimaeyjar, uppalinn í Elliðaey og sver sig ósvikið til eyjanna beggja.
Hann er tæplega meðalmaður að hæð, fremur holdgrannur, dökkur á brún og brá, kátur og fjörugur, skemmtinn vel í sínum hóp, en örgeðja, skapfastur,

frískur ætíð fær í margt,
falli þræta guggnar vart.

lætur ekki hlut sinn, hvorki í orðaleik né verki að óreyndu. Veiðimaður er Þórarinn með ágætum, eins og ætt hans stendur til, enda stundað veiðar frá æsku og gert sitt til að gera garð Elliðaeyjar frægan. Hann hefir og stundað bjarggöngur í öðrum eyjum við rómaða framgöngu í hvívetna.
Lífsstarf Þórarins er ýmiss konar landvinna, nú síðustu ár í Fiskiðjunni Hf..
Heimili hans er að Presthúsum. Drengskaparmaður, veitull og vinþekkur.

Úr fórum Árna Árnasonar
Þórarinn Guðjónsson
„heiðraður“ á lundaveiðimannahófi.
Eftir veiðihrotu.

Elliðaey er mikil lundaveiðieyja, enda stærst og hefir oft verið mannflest. Veiðimenn hafa verið þar með afbrigðum góðir fyrr og síðar. En kynslóðir fara og koma, nýir siðir og menn.
Er tímar liðu voru menn farnir að óttast úrkynjun veiðimanna og þótti óvænlega horfa í þessum efnum. Sérstaklega árið 1912.
En þá barst sú gleðifregn, að fæddur væri á Kirkjubæ strákur, sem auðsætt væri, að yrði sérstakur frömuður á sviði alls veiðiskapar, svo sem:

á fiski, eggjum, fugli og sprundum,
fýl og súlu, álku og lundum,
í sviptingum yrði sveinninn hraður
siga-, lunda- og kvennamaður.

Hafa spár þessar þóst rætast fyllilega á stráknum. Hann var skírður að kristnum sið og hlaut nafnið Þórarinn, en ávallt nefndur Tóti á Kirkjubæ og er víst, að ekki hefir hann undir nafni kafnað, því Þórarinn þýðir styrkur veiðimaður.
Ekki var Tóti gamall eða hár í loftinu, þegar hann fór að leita og líta í kringum sig eftir góðu viðleguplássi, annaðhvort var að duga eða drepast og vera ekki eftirbátur sveinstaula þeirra, er honum voru samtíma. Og honum varð vel ágengt. Hann var karskur og kræfur og dró hvergi af sér. Elliðaeyingar tóku honum líka tveim höndum, enda hefir hann aldrei brugðist trausti þeirra, nema þegar hann hefir misst af sókningsbátnum.
Tóti er óskiljanlega heppinn lundaveiðimaður. Hann er nú gamalvanur, þekkir manna best kenjar lundans, siði hans og venjur og getur öðrum betur sett sig inn í lifnaðarhætti hans. Það er líka svo margt líkt með sessunautum í áralangri daglegri samveru. Það er engu líkara en lundinn gani beint til Tóta, bara til þess að láta hann snúa sig úr hálsliðnum. Og Tóti er þá aldeilis ekki seinn í handbragðalistinni. Snýr úr svo ört að sumir lifna við aftur og eru þotnir út í veður og vind, þegar Tóti ætlar að fara að setja þá á beltið.
Hann er líka sagður afar handfljótur, t.d. manna fljótastur að tína ber og það við eldspýtur austur á Haugum, og sagt er, að þar sjáist víða glögg merki þess enn í dag, en það leika ekki allir eftir honum.
Þá er hann ekki seinn í snúningum, þegar skemmtiferðafólk ber að garði í Elliðaey. Þá er hann fyrst í essinu sínu og upp á honum tippið. Sjálfkjörinn fylgdarmaður ungu stúlknanna, sem allar vilja sjá Höskuldarhelli, þar sem útburðurinn var og er. En Tóti er ekkert hræddur, hvorki við myrkur, væl útburðarins né látalætin í dömunum.
Gestrisni Tóta er viðbrugðið. Á þjóðhátíðinni 1920 sat hann í bullandi slagveðri inni í tjaldgrindinni, sem allt var rifið af, og drakk portvín með ansvítans ári snaggaralegri hnjáku. Ég gekk þar hjá og kallaði Tóti þá: „Blessaður vertu ekki að standa þarna úti í rigningunni – komdu inn maður og fáðu þér einn lítinn, en láttu stelpuna í friði.“ „Þú hefir samt veitt eina heldur laglega,“ hvíslaði ég að honum. „Já, blessaður, hún sat þarna í brekkunni, svo ég bara sló fyrir hana og hún steinlá.“
Og Tóti yrkir stundum vísur, bara þegar hann er nýkominn út í ey – hann hefir líka lært af Óskari. Tóti er á móti skrínukosti og sagði einu sinni:

Skrínukostaruppeldið
í Elliðaey er frægt.
Ég heimta heitar kræsingar,
annað er ekki hægt –
Pétur minn, Gummi minn,
annað er ekki hægt,
fidron, sidron, annað er ekki hægt.

Þetta er annars skrambi sniðug vísa hjá Tóta. Honum er margt til lista lagt blessuðum. Hann heldur mikið upp á Elliðaey og alla sína félaga þar, enda er hann biskup alls fagnaðar þar í eynni. Og lundann blátt áfram dýrkar hann, enda heyrist hann oft syngja við raust í sínum baritón:

Elliðaey, Elliðaey,
út rekur sorg og víl,
jarðamenn, jarðamenn,
étið þið súlu og fýl.
Það eru veiðar, sem verðið að stunda,
en varast að drepa nokkurn lunda.

Tóti er einn af þeim mönnum, sem félaginu hefir þótt ástæða til að heiðra hér í kvöld með afhjúpun þessarar myndar, sem við vonum að veki almenna ánægju, gjörið svo vel - Lundakóngur úr Elliðaey.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.