Bátsferð með Ása í Bæ
Nú ætla ég að taka ykkur með mér í bátsferð kringum Eyjar. Við leggjum upp að áliðnum degi, auðvitað í trillubát og það skal vera stillt við hleina og sól í heiði. Við brunum út höfnina meðfram Heimakletti og inn á Klettsvíkina. Ef að líkum lætur situr lundinn á sjónum í hundraða ef ekki þúsunda tali og flögrar um set undan með bátnum, en á syllum situr rita, fýll og svartfugl eins og víðast hvar í björgunum. Ferska sjávarloftið fyllir vitin blandað eimi af þara og driti. Við eyrum berast margraddaður kliður af fuglahjali, vængjaburði og lágværum nið bárunnar. Það blikar á þarabrúska, rauð lundanefin í sólbráðinu og bergið er brúnt og hvítt og svart og ofar því dimmgrænt grasið. Við lónum inn víkina, meðfram hreinni blágrýtisfjörunni, hjá þangprúðum skerjum, fyrir svolítinn klettsrana og von bráðar erum við í fyrsta sjávarhellinum, Klettshelli. Op hans snýr móti suðvestri, 40-50 metra hátt og álíka breitt, hvelfingin öll sorfin og slípuð af sjávargangi árþúsunda og smálækkar eftir því sem innra dregur, neðan við sjávarmálið blikar á ígulker og annan sjávargróður og þegar við erum innst í hellinum hefur opið lokast og er nú rökkur. Við setjum á fullt út úr þessari miklu baðstofu, fast upp við bergið á bakborða, her við hellismunnann áttu trillukarlar löngum liggjandi síldarnet á sumrin og brást sjaldan að þeir fengju nóg í beitu á krókinn sinn. Móbergið er afar myndauðugt með skorum og kórum og alls staðar þéttsetið svartfugli.
Við förum fyrir Stóra-Klettsnef og við augum blasa austureyjarnar Elliðaey og Bjarnarey og þarna er Seljalandsmúlinn, jökullinn og Eyjafjöllin í sumarskrúða. Og þá eru hérna í berginu ekki síður skringilegir bollar og stallar, tilvaldar varpstöðvar svartfuglsins. Og ef nú er andvari af austri, þá eigum við von á því að loftið sé svart af fugli sem þreytir sitt hringflug í hverjum slakka. Hér heitir Föstuhlíð, Heyhæll, Lögmannssæti, Drengjabót, Faxabót og svo erum við komin fyrir Faxanef og nú sjáum við vestur með Heimaey að norðan. Á bakborða eru nú brekkur, skriður og skorningar og margs konar bergmyndir og víða mikil fýlabyggð, en svartfuglinn sést hér varla. Þegar við komum fyrir Kambinn beygjum við inn að Halldórssandi, hér eru sums staðar stuðlabergsbelti með furðulegu útflúri innan um móbergið, en upp af sandinum rís þverhnípt bergið um 200 metra hátt. Við ýtum okkur innanskerja með sandinum og nú blasir við í fjallinu grænn slakki næstum frá sjó upp undir brúnir Heimakletts, þetta er Dufþekja, en efst í henni er Dufþaksskor, en sagan segir að þar hafi Írinn steypt sér niður fremur en lenda í klónum á Ingólfi víkingi. Hér í hvannstóði slakkans er ein mesta fýlabyggð í Eyjum og þangað sóttu menn egg og ungfýl. En viðsjált er bjargið á þessum stað og hér eru sagðir fleiri hrapaðir til dauðs en í nokkru öðru bjargi Eyjanna. Sú er og þjóðsaga, að í berginu byggi ferleg vættur, sem hafði það að leik sínum að hremma fyglinga, en vinkona hennar hafðist við í námunda við Jökulsá á Sólheimasandi, sem talin var meðal mannskæðustu vatna sunnanlands. Með óvættum þessum var metingur um það hvor væri skæðari í manndrápum og kölluðust á ef á aðra hvora hallaði: "Nú stendur upp á þig heillin."
Framan af árum vélbátaútgerðarinnar meðan fleyturnar voru smærri og vanbúnari, þótti sjómönnum hins vegar sem þeir væru úr öllum háska þegar þeir í aftakaveðrum náðu hingað í skjól fjallsins og lágu oft af sér veður þar til fært þótti að halda í höfn. Og áfram siglum við hjá litlum dröngum sem kenndir eru við Eiðið, en þar voru Írarnir að matargerð þegar Ingólfur kom vaðandi að þeim. Við lónum innan við Stóra-Örn, á vinstri hönd er Klifið þar til komið er að Vatnshellum, hér beygjum við upp að berginu og þig kann að furða hvort nú skuli haldið beint inn í fjallið, en brátt er komið að lágu opi og gegnum það förum við og erum þá komin í mikla klettahöll, hátt í hvirfli hennar er dulítill gluggi, en til austurs geysivíðar dyr sem liggja út á Æðasand, og ef við viljum getum við lent hér inni í mjúkum sandi hellisins og gengið gegnum dyrnar út á Æðasand. Ég giska á að þessi hamrahöll sé stærst allra hella í Eyjum. Héðan höldum við sem leið liggur hjá Eysteinsvík um Gat, en svo heitir hér, því eitt sinn var hér steinbogi milli klettanna, en hrundi í jarðskjálfta skömmu fyrir aldamótin (1800-1900). Hér er Ufsaberg með sínum Skötukjafti, síðan kemur Stafsnesið og við okkur blasa smáeyjar: Grasleysa, Hrauney, Hani og Hæna. Við stefnum á Hænu, þar er Kafhellir, en mörgum finnst hann sérkennilegast hellirinn í Eyjum. Þegar við komum í hann verðum við að staldra um stund til að venjast birtunni; loftið líkist einna helst gömlu bronsi og skiptir þó mjög litlum eftir því hvernig birtan fellur og báturinn hreyfist. Um sjávarmál er oft litskrúðugt belti, gult, rauðgult og grænt, sjávargróður sem vex hér í skugganum, einkum ef sumar er sjávarstillt.
Ef bjart er af vestursól lýsir inn um litla rifu í norðurhorninu og sé ekki of flóðhátt kemur líka birta undan berginu vestanmegin, því það nær ekki nema skammt niður fyrir sjávarmál, og róti maður með ári í sjónum þarna upp við bergið er líkast því sem maður sé að hræra í bráðnuðu silfri. En fyrir utan þá margvíslegu liti sem hér er að sjá finnst manni undarlegt að vera hér og hafa allt fjallið fyrir sér. Þegar aftur kemur út í birtuna stefnum við á Stórhöfða, en takið eftir drangnum sem rís úr sjónum þarna skammt vestan við Hænu, hann heitir Jötunn, örmjór og hallar lítið eitt til suðurs. Efst á honum er mannsmynd sem horfir upp og suður og í hæfilegri fjarlægð er þessi mynd sem væri hún höggvin af meistarahöndum og minnir helst á styttur af einhverjum postulanna. Það er góður spölur í Höfðann. Við getum til gamans sveigt upp að vesturströnd Heimaeyjar sem í daglegu tali nefnist Hamar þó raunar heiti svo aðeins þar sem hæst er. Hér gerðist það eitt kvöld í febrúar 1928 að sjómenn brutu bát sinn í urðinni, en tókst að klöngrast upp á bergstall og höfðust þar við um nóttina, uppganga þaðan virtist ógerleg og engin von til að nokkur maður yrði þeirra var. Snjó hafði kyngt niður um nóttina. Um morguninn þegar birta tók varð að ráði að einn þeirra, ungur fullhugi, Jón Vigfússon, skyldi freista þess að leggja í þann lífsháska og klífa bjargið, en það er talið illfarið að sumarlagi hvað þá þegar það er þakið snjó og krapa. Er skemmst frá því að segja að Jóni tókst uppgangan og þeim félögum var borgið. Er þessi atburður talinn til mestu björgunarafreka við Eyjar. Þegar við kæmum að Stórhöfða þyrfti sólin helst að vera komin sem nyrst, svo hún nái að skína inn í Fjósin, en svo heiti hellirinn sem við komum nú í og mér finnst síst tilkomuminni en Kafhellir. Hann er ekki mjög hár, en opið vítt og ef kvöldsólin nær inn verður hér mikil litadýrð, einkum í rauðu og grænu með óendanlegum tilbrigðum og hvað tekur liti af öðru, sjór og berg. Hér eru fuglar á syllum, álka, rita, svartfugl og teista, og spakir, því menn gera að skyldu sinni að styggja þá ekki. Og höldum við inn í botn, þá komum við þar í dimman afhelli þröngan, svo báturinn kemst naumlega inn, en þegar við höfum kælt augun í skugganum nokkra stund verða litirnir í aðalhellinum enn magnaðri. Héðan höldum við svo suður með höfðanum og eru hér víða sjávarskútar með undralitum sem fáum hefur auðnast að sjá og ég hef hvergi séð annars staðar, en ofar í berginu grænar snasir, vatnsrásir og hvannabekkir og alls staðar er bjargfuglinn nálægur ýmist í lofti, á legi eða í bergi. Þegar komið er þar sem Höfðinn skagar lengst vestur stefnum við beint á hamravegginn og ókunnugur kann að halda að nú sé leiðsögumaður búinn að tapa sér, hann stefnir beint á hamraveggin, en bergið opnast og við siglum gegnum göng 60-70 metra löng og svo lág, að maður þorir ekki annað en beygja sig til að reka ekki kollinn í grjótið. Þegar út kemur úr göngunum sunnanmegin verður fyrir okkur bogmyndaður garður og sé ekki nógu flóðhátt ellegar súgur leggjum við ekki í að fara gegnum hliðið, en snúum við og keyrum fulla ferð gegnum göngin, og þykir mörgum gaman að þessu. Ef við hefðum nægan tíma gætum við skroppið yfir sundið út að Suðurey, þar er geysimikið fuglalíf og austan eynni er djúpur og skemmtilegur hellir. Annars höldum við sem leið liggur austur með Stórhöfða, hér sem víðar er gott að greina jarðmyndunina, neðst er mógrýtishella sem Ægir gamli hefur sorfið í margbreytilegan skúlptúr, en ofan á hana hafa hraunlögin hlaðist hvert ofan á annað. Við siglum fyrir Hellutá, hér er Súlukrókur, Álkustallur, síðan kemur Garðsendi, Brimurð, Ræningjatangi, Litlihöfði, framan í honum er hellir sem að vísu býður ekki upp á sérstaka litadýrð, en lögun hans er sérkennileg, líkast sé að hann sé hlaðinn úr ferköntuðum hnullungum sem allir eru áþekkir að stærð. Við lónum inn með Landsstakksurð, í henni er mikill hellir, en við nennum ekki að klifra í hann, enda er sólin máski sest og farið að kólna í veðri, en látum bátinn þess í stað bera okkur inn í Kópavík, meðfram tanga, fyrir Flúð og Rönku og nú er spotti á Víkina og þá höfum við farið hringinn.
Að fara þessa ferð á blíðu og björtu sumarkvöldi hefur orðið flestum ógleymanlegt sem ég hef með ánægju leitt um þessar slóðir og þeir eru orðnir allmargir, sumir frægir ferðalangar sem séð höfðu rómaða staði veraldar. En eins og gefur að skilja er ekki hægt að lýsa þessu í fáum orðum, jafnvel ekki mörgum orðum, og kemur margt til; litir sjávar og kletta, lykt, andvarinn, kvöldsólin, fuglalífið, hljóð frá skútum og fuglum, báturinn, sviðir farþeganna og allt og eitthvað sem ekki verður skilgreint á slíku kvöldi. En ég ráðlegg hverjum þeim sem til Eyja kemur að sumri að fara þessa ferð, hafi hann nokkur tök á.
Heimildir
- Ási í Bæ: Vestmannaeyjar, Vestmannaeyjum, 1973.