J.P.T. Bryde
Johan Peter Thorkelin Bryde kaupmaður, fæddist 10. september 1831 í Garði (Danska Garði), öðru nafni Kornhóll, og lézt 13. apríl 1910 í Kaupmannahöfn.
Foreldrar hans voru Niels Nikolai Bryde kaupmaður og k.h. Johanne Birgitte Bryde.
Kona Bryde var Thora Auguste Bryde, fædd Brandt.
Þau fluttu heimili sitt hér að Nyrðra-Stóra-Gerði um 16. júní 1866, er þau fengu byggingu fyrir jörðinni. <br
Verzlunarrekstur
Bryde var etazráð að nafnbót, talinn með helztu kaupmönnum hér á landi á ferli sinum.
Tangaverzlun (Juliushaab) keypti hann af dánarbúi J.T.Bircks 1851 og hóf verzlunarrekstur, þá 21 árs að aldri. Var það talið vera að undirlagi og á kostnað föður hans til að ná tökum á markaðnum.
Bryde rak Garðsverzlun, þegar heilsu föður hans fór að hraka og varð eigandi hennar við andlát hans 1879. Hún var meginverzlun í Eyjum áratugum saman og þjónaði Eyjum, Rangæingum og Vestur-Skaftfellingum.
Þá var hann orðinn eigandi tveggja verzlana í Eyjum, en það var andstætt lögum. Hann tók því þann kostinn 1880 að leigja Gísla Engilbertssyni verzlunarstjóra á Tanganum Juliushaabverzlunina og rak Gísli hana um skeið á sínu nafni, þó að vitað væri, að Bryde ætti hana og hann færi þannig á svig við verzlunarlöggjöfina. Það mun hafa verið ástæða þess, að hann gaf Herluf Ingjaldi syni sínum Tangaverzlunina 31. maí 1889. Sú verzlun var svo lögð niður 1893 og stóð auð um hríð og féll verzlunarlóðin undir landsjóð.
Tangaverzlunarlóðin komst í innlendar hendur 1910, þegar Pétur Thorsteinsson á Bíldudal, Gunnar Ólafsson og Jóhann Þ. Jósefsson fengu yfirráð yfir henni undir hlutafélagsnafninu Gunnar Ólafsson & CO.
Bryde var umsvifamikill kaupmaður. Auk verzlananna í Eyjum setti hann á stofn verzlun í Vík í Mýrdal, Reykjavík, Hafnarfirði, og Borgarnesi.
Hann keypti svo Godthaabverzlunina af Nicolaj Thomsen 7. apríl 1894. Lét hann rífa verzlunarhúsin og flytja austur í Vík í Mýrdal, þar sem hann kom upp fastaverzlun.
Bryde var þá einn um nær alla verzlun í Eyjum, en Gísli Stefánsson kaupmaður í Hlíðarhúsum rak verzlun um alllangt skeið og Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri stóð að pöntunarstarfi í smáum stíl.
Í kjölfar einokunarinnar neitaði Bryde að selja mönnum salt, en vildi fá allan fisk upp úr sjó. Þá stofnuðu menn pöntunarfélag til saltkaupa. Árið 1907 var boðað til almenns fundar vegna óánægju með verð á útfluttum og innfluttum vörum og var nefnd, sem skipuð var þeim Sigurði hreppstjóra, Þorsteini í Laufási og Gísla Lárussyni í Stakkagerði, falið að afla upplýsinga um vöruverð og semja um kaup á erlendum vörum og um sölu á innlendum vörum. Var sett á stofn pöntunarfélag. Þeir stóðu svo síðar að stofnun Kaupfélagsins Herjólfs.
Bryde hafði umráð Godthaabverzlunarstaðarins þar til 1. janúar 1904, er Gísli J. Johnsen fékk byggingu fyrir lóðinni með því skilyrði, að hann keypti af Bryde hús og stakkstæði, sem hann ætti á lóðinni. Á árinu 1902 hafði móðir Gísla, Anna Sigríður Árnadóttir Johnsen, fengið byggingu fyrir hluta lóðarinnar fyrir hönd Gísla, sem ekki var orðinn myndugur. Þar hafði Gísli komið upp sölubúð, kola- og salthúsi og 2 fiskhúsum. Bryde hafði neitað að afhenda lóðina og viljað sameina hana Garðsverzlunarlóðinni 1899, en amtmaður leit svo á, að hann hefði nægar lóðir fyrir sinn rekstur og var lóðin af honum tekin.
Garðsverzlunina átti og rak Bryde frá dauða föður síns 9. ágúst 1879. Hún var sett inn í sameignarfélag 1905. Var þetta félag J. P.T Bryde og Herlufs Ingjalds sonar hans.
Verzlunarrekstur Bryde varð fyrir áföllum um aldamótin nítján hundruð. Það tók því að halla undan fæti fyrir honum eins og mörgum selstöðukaupmönnum á því skeiði. Við andlát hans var verzlunin að þrotum komin.
Eftir dauða J. P. T. Bryde 13. apríl 1910 fékk kona hans leyfi til að sitja í óskiptu búi og rak verzlunina áfram í félagi við son sinn Herluf Ingjald þar til fyrirtækið varð gjaldþrota. Verzlunin var seld H. P. Duus í Reykjavík 1917, en aðaleigandi þess fyrirtækis var þá Ólafur Ólafssen kaupmaður. Rak hann verzlunina skamma stund og seldi hana og allar eignir fyrirtækisins Kaupfélaginu Fram með afsali 18. september 1917.
Stofnendur Fram voru aðallega nokkrir útvegsbændur í Eyjum, en Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri var driffjöður stofnunar og rekstrar þess. Hann lézt 15. ágúst 1929. Fram starfaði til 31. desember 1940, er það seldi Einari Sigurðssyni kaupmanni allar eignir sínar og reksturinn. Varð hann þá eigandi Garðslóðarinnar, sem var eina landið í einkaeign í Eyjum.
Samfélagsmál
Merkustu afskipti Bryde af atvinnurekstri í Eyjum má eflaust telja fyrirgreiðslu hans við bátakaup manna í byrjun vélbátaútgerðarinnar í Eyjum. Bæði útvegaði hann mönnum báta frá Danmörku og lánaði til kaupanna og átti hlut í útgerðinni. Þannig var um báta þá, sem gengu fyrst á vertíð 1906, en útgerð þeirra heppnaðist mjög vel. Varð þetta undirstaða velgengni til frambúðar og jók sjálfstæði manna í atvinnurekstri á mörgum sviðum.
Bryde stóð að stofnun Lestrarfélags Vestmannaeyja 1862 og gaf til þess stórar gjafir.
Þegar Herfylkingin var stofnuð varð Bryde yfirliðsforingi í henni, en yfirfylkingarstjóri eftir lát Kohls kapteins. Þann titil bar hann a. m. k. til ársins 1862, en gegndi lítt eða ekki starfinu, þar sem hann bjó í Danmörku mestan hluta ársins. Pétur Bjarnasen verzlunarstjóri tók á sig þær skyldur í fjarveru hans.
Talið er, að hann hafi útvegað Árna Diðrikssyni í Stakkagerði fyrsta lundaháfinn frá Færeyjum vorið 1875 og var veiðiaðferðin tekin upp eftir Færeyingum.
Orgel gaf hann kirkjunni 1877.
Hann kom upp vísi að blóma og trjágarði í Herjólfsdal og nefndi eftir konu sinni, Þórulund. Sá lundur lifði skamma hríð vegna ágangs sauðfjár, en garðbrotin stóðu lengi eftir.
Heimildir
- Haraldur Guðnason: Saga Bókasafns Vestmannaeyja. Blik, 1962.
- Jóhann Gunnar Ólafsson: Verzlunarstaðir í Vestmannaeyjum. Gamalt og nýtt, 1949.
- Sigfús M. Johnsen. Saga Vestmannaeyja. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja H.F., 1946.
- Þorsteinn Þ. Víglundsson: Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri. Blik, 1960.