Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Útgerð og sjósókn í Vestmannaeyjum 1900-1950

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. ágúst 2018 kl. 14:18 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. ágúst 2018 kl. 14:18 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Magnús Guðmundsson frá Sólheimatungu
Útgerð og sjósókn í Vestmannaeyjum 1900-1950

Magnús Guðmundsson er fæddur í Reykjavík, en kemur til Vestmannaeyja 1974 og hefur búið hér síðan. Kona hans er Sigrún Hjörleifsdóttir.
Meðfylgjandi frásögn er prófritgerð Magnúsar úr Stýrimannaskóla Vestmannaeyja, en hann útskrifaðist þaðan vorið 1986.

Formáli

Ef við heyrum minnst á nafnið Sigurður, hvað dettur okkur þá helst í hug? Okkur dettur margt í hug. T.d. fyrst að nefna, er Sigurður heitið á einu stærsta og afkastamesta loðnuskipi íslendinga. Sigurður er jú líka heitið á aflakóngi einum, sem starfar við skipstjórn á aflaskipinu Suðurey. Sigurður, eða Garðar Sigurður, heitir líka maður nokkur er hefur starfa við útgerðarstjórn. Og síðast en ekki síst Sigurður Einarsson, það nafn þekkja nú allir.
Loðnuskipið Sigurður, skipstjórinn Sigurður, útgerðarstjórinn Sigurður og framkvæmdastjórinn Sigurður, tilheyra fyrirtæki einu hér í bæ, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, segir þetta nafn okkur ekki töluvert. Jú, svo sannarlega. Það segir okkur m.a. frá frystihúsi sem oftast er kennt við skammstöfunina S.E.S., það segir okkur líka frá fiskimjölsverksmiðju einni sem þekkt er undir nafninu F.E.S. Ennfremur segir það okkur frá nýjasta fyrirtækinu, Netagerð Ingólfs, sem auðkenna mætti með N.E.S..
Sigurður, Guðmundur, Gígja, Heimaey, Suðurey, Álsey, Stefnir og Bjarnarey, allt eru þetta skip og bátar sem Hraðfrystistöðin á og gerir út. Allt eru þetta skip og bátar sem alltaf eru á toppnum hvað varðar aflamagn og gæði.
Hvað er verið að reyna að segja ykkur? Jú, það er verið að reyna að segja ykkur að Hraðfrystistöð Vestmannaeyja sé í dag stórveldi í fiskiðnaði. Það er verið að reyna að segja ykkur að Hraðfrystistöðin sé gott og vel rekið fyrirtæki. Það er verið að reyna að segja ykkur að Hraðfrystistöðin sé fyrirtæki sem skilar hagnaði í þjóðarbúið. Af hverju? Hvers vegna? er stóra spurningin. Er það kannski vegna þess að sjómennirnir á bátunum og skipunum séu toppmenn. Er það kannski vegna þess að starfsfólk í landi sé harðduglegt. Er það kannski vegna þess að stjórnunin í landi sé pottþétt eða er það kannski vegna þess að Sigurður Einarsson sé klár kall? Er þýðingin á nafninu Sigurður kannski skýringin á verlferðinni?
Eins og allir vita er lífið orrusta. T.d. orrusta við loðnuna, orrusta við þorskinn, orrustu við að koma flotanum á sjó, orrusta við að stjórna fyrirtæki rétt. En Sigurður þýðir: „Sá sem er verndaður í orrustu".
Jú, allt þetta þarf að vera til staðar svo fyrirtæki geti borið sig og skilað hagnaði. En það þarf meira til. Ég held að ef fiskvinnslufyrirtæki eigi að geta borið sig þurfi að vera löng reynsla að baki. Menn þurfa að hafa lært á mistökunum og lagað það sem miður hefur farið.
Saga Hraðfrystistöðvarinnar er löng, nær hún yfir meira en fimmtíu ára tímabili. Kannski finnastsvör við velgengni þessari í sögunni, hver veit? Hér á eftir ætla ég að fylgja útgerðarsögu Vestmannaeyja frá upphafi vélbátaútgerðar og eitthvað frameftir öldinni, því útgerðarsagan og saga Hraðfrystistöðvarinnar eiga margt sameiginlegt.

I.


Það var á fyrstu árum aldarinnar að fréttir fóru að berast til Eyja að farið væri að smíða úti í löndum vélar, sem gætu leyst menn frá því erfiði að knýja báta um sjóinn með árum.
Fyrst í stað skeyttu menn hér í Eyjum þessu lítið þrátt fyrir það, þó að þessar vélar væru þess megnugar að láta þann langþráða draum allra sjómanna rætast, sem þá hafði dreymt um öldum saman, að geta styrt farkosti sínum gegn vindi sem með honum. Eða með öðrum orðum, að vera ekki jafn háðir veðurfari og átt hafði sér stað frá því fyrst að sögur hófust.
Það kom flestum á óvart er bátur var fluttur hingað til Eyja með millilandaskipi síðari hluta maímánaðar 1904 og settur upp í Tangavirkið. Vakti hann mikla athygli, því að hann var all mjög frábrugðin þeim bátum sem héðan var róið. Hlutfallslega mjórri og dýpri en þeir. En það vakti mest umtal að ekki átti að róa honum, heldur láta vél knýja hann áfram með drjúgum hraða.
Setja átti í bátinn sex hestafla tveggja cylindra vél. Mun þetta hafa verið 4 tonna bátur sem hlotið hafði nafnið Eros. Talið var víst að Gísli J. Johnsen sem þá rak mikla verslun, stæði á bak við þetta.
Ekki gekk þess tilraun vel, því hávaðinn í vélinni var óþolandi, gangurinn slæmur og hraðinn á bátnum ekki nema fjórar sjómílur. Reynsla sú sem fékkst af þessum fyrsta vélbáti var því ekki uppörvandi. Tilraun þessi var þó engu að síður stórmerkileg.
Vertíðina 1905 sýndi og sannaði Þorsteinn Jónsson, frá Laufási, Eyjabúum fram á það að vélbátar væru það sem koma skyldi. Réri hann með helmingi færri menn og fékk helmingi meiri afla en aðrir. Og fór svo, að á árinu 1907 réru 22 vélbátar frá Eyjum og voru áraskipin þá nær alveg horfin.
Á þessum 22 vélbátum voru 119 eigendur. Þessari þátttöku í útgerðinni var það að þakka, að Vestmannaeyingar tóku forystuna í vélbátaútvegi íslendinga þegar í upphafi og hafa haldið henni síðan. Þessi straumhvörf ollu því einnig að nú var á enda runnin 900 ára gömul atvinnuaðferð, sem oftast hafði reynst þeim er í Eyjum höfðu átt heima, þung í skauti, en fitaði þá mest sem síst höfðu til unnið. Eyjabúar sjálfir höfðu frá upphafi verið hlunnfarnir svo hroðalega að annað eins hefur líklega hvergi átt sér stað hér á landi og er þá mikið sagt.
Um haustið, árið 1905, kom til Eyja vélbátur, Knörr að nafni. Eigandi ásamt fleirrum var maður að nafni Sigurður Sigurfinnsson og varð hann jafnframt formaður á Knerri. Var þetta 14 tonna seglbátur sem 8 hestafla Danvél hafði verið sett í. Sú útgerð heppnaðist því miður illa. Réði þar mestu um hve báturinn var vélarvana og að hann megnaði ekki að andæfa inn línuna ef eitthvað var að veðri.

II.


Fyrsti vísirinn að frystihúsi í Vestmannaeyjum telja menn víst að verið hafi þegar Ísfélagið var stofnað. Til að gefa sem gleggsta mynd af starfseminni í þá daga, skal hér hafa eftir fundargerð þáverandi stjórnar ísfélagsins:
„Árið 1903 þriðjudaginn 19. mai hélt stjórnarnefnd Ísfélagsins fund með sér, ásamt íshúsverði, til að rœða um störf félagsins og hvenær byrja skyldi á íshúsinu. Samþykkt var að taka til geymslu um óákveðinn tíma fyrst um sinn ýsu, smálúðu og síld, ef byðist, með þeim skilmálum að félagið eða húsið fengi helminginn af öllu þvísem geymt vœri eftir vigt. Þeirsem leggja nefndar fisktegundir í húsið til geymslu, flytji fiskinn og síldina sjálfir að húsinu hreina og vel þvegna og ýsuna flatta, þannig að sé sem fiskur œtlaður tiiverslunar og hjálpi sjálfir til þess að frysta. Bjóðist félaginu síld að mun til kaupa, svo það geti ekki haldið áfram að taka fisk eða síld til geymslu, ber stjórninni að neita um geymslu, jafnframt að kaupa það, sem í geymslu kann þá að verafrá einstökum mönnum eða félögum eftir því, sem um semst, efþeiróska þess. - Formanni falið að auglýsa þetta. Jafnframt var ályktað að taka til starfa í Íshúsinu næsta dag, sem róið verður, ef tækifæri býðst. Fundi slitið.
Sigurður Sigurfinnsson Árni Filippusson." Þáttur Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar í uppbyggingu sjávariðnaðarins virðist á þessum tíma hafa verið allverulegur eins og sjá má á því að hann var einn af stofnendum ísfélagsins og einn af upphafsmönnum vélbátaútgerðar. Kunnur var hann einnig fyrir dugnað sinn og hörku við að góma landhelgisbrjóta og færa þá til hafnar í Eyjum, en þeir voru margir hér við landið á þeim tíma. Enda var starf hreppstjóra í því fólgið, m.a. að sinna landhelgisgæslu.
Örn Arnar gefur góða lýsingu á Sigurði hreppstjóra í einu kvæða sinna, en þar er þetta erindi:

Flestir þeir, er Sigurð sáu
sitja skrift og reikning við,
heldur kusu að hafa séð hann
herklœddan að fornum sið
Hörð var lundin, þung var þykkjan,
þráði fremur tvisýnt stríð
en að sinna sveitarmálum
sjá um börn og þurfalýð.

III.


Á árunum rétt eftir aldamót varð stórkostleg breyting til batnaðar á verslunarháttum Eyjabúa. Bar þar langhæst framtakssemi Gísla J. Johnsen, sem á þessum árum stofnaði til verslunar- og útgerðarreksturs í svo stórum stíl að furðu sætti. Svo að jafnvel kastaði skugga á hina 60 ára gömlu og grónu Brydeverslun. Bryde og Gísli J. voru á þessum tíma með langstærstu verslunarumsvifin í Vestmannaeyjum og voru þeir afar drjúgir við að aðstoða Eyjabúa í uppbyggingu sjávarútvegsins. Einnig gerðust þeir líka meðeigendur í mörgum þeirra vélbáta sem voru að ryðja sér til rúms og fjölgaði þeim jafnt og þétt eftir því sem leið á öldina og voru orðnir árið 1910 um 50 talsins.
Árið 1913 tók til starfa fyrsta beinamjölsverksmiðjan í Eyjum og átti Gísli J. Johnsen mestan þátt í að koma henni á laggirnar. Hún var reist eftir að menn komust að því að þeir hentu miklum verðmætum þegar fiskúrganginum var sturtað í sjóinn. Vertíðina 1916 kom svo að því að byrjað var að veiða fisk í net við Eyjarnar. Nálægt 70 vélbátar réru þá flestir með línu. Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum, formaður á Hansínu VE 100 byrjaði þá um miðjan apríl með tvær 8 neta trossur 16-20 möskva djúpar. Gafst þessi tilraun vel og fylgdu fleiri bátar á eftir. Þannig varð að menn byrjuðu vertíðina með línu og skiptu svo yfir á net, þegar þorskurinn fór að hrygna. Stórfelldar eignabreytingar áttu sér stað í Eyjum árið 1917. J. P. T. Bryde hætti verslunarrekstri eftir 72. ára starfsferil. Um 55 ára skeið hafði aðstaða hans verið þannig að hann máttí heita nær allsráðandi um mestalla verslunarhætti, ekki eingöngu hér í Eyjum, heldur hafði hann teygt arma sína austur að Breiðamerkursandi og vestur að Rangá eystri. H. P. Duus í Reykjavík keypti með öllum gögnum og gæðum verslun Bryde í ársbyrjun 1917, en seldi síðar seint á sama ári kaupfélaginu Fram, sem þá nokkrum árum áður hafði verið stofnað.

IV.


Telja má víst að árið 1918 sé eitt það tíðindamesta sem komið hefur í sögu íslands. Á því ári létu náttúruöflin sérstaklega til sín taka, voru þar að verki andstæðurnar eldur og ís. Hinar miklu frosthörkur sem herjuðu á landið fyrstu mánuði ársins voru svo hroðalegar að gamlir menn mundu ekki annað eins.
Kötlugosið í október varð m.a. þess valdandi að sjórinn ókyrrðist svo milli lands og Eyja að til jafn komst því er hin mestu óveður geisuðu, þó að Vestmannaeyjar væru um 40 sjómílur frá þeim stað, sem jökulhlaupið úr Kötlu ruddist til sjávar. Svo mikil aska og sandur hlóðust á sjávarbotninn, að hraun fram af Austur-Eyjafjöllum og Mýrdal minnkuðu eða nær hurfu með öllu.
Þótt grimmd tíðarfarsins og ógnir Kötlu væru óvenju stórfelldar, lét mannskepnan þó ekki á sér standa að sýna eyðingamátt sinn. Heimsstyrjöldin fyrri hafði þá varað í 4 ár og milljónir fallið.
Í enda ársins rak svo spánska veikin svonefnda endahnútinn á hörmungarnar. Herjaði hún hér í nóvember og desember og varð mörgum að fjörtjóni.
„En öll él styttir upp um síðir", stendur einhversstaðar. Árið færði marghrjáðum þjóðum mikinn fögnuð því vopnahlé var samið og heimsstyrjöldinni fyrri lauk. Einnig gátu Íslendingar fagnað því að þjóðin öðlaðist fullveldi hinn 1. desember og með því gjörbreyttist aðstaðan á margan hátt og hugsuðu menn sér gott til glóðarinnar í sambandi við landhelgismál.
Mannskaði, skipstap, landhelgisbrot og veiðarfæratjón. Eyjabúar voru orðnir langþreyttir á þessu og riðu á vaðið fyrstir manna hér á landi með stofnun björgunarfélags. Upp úr því hófst svo fjársöfnun mikil. Peningana átti að nota til kaups á björgunar og gæsluskipi. Eftir mikið þref og þras og miklar athuganir var keypt 205 tonna kolakynnt Englandssmíðað skip sem kom til Eyja hinn 26. mars 1920 og var því gefið nafnið Þór.
Um svipað leyti og Þór kom til Eyja var fyrsti togari Eyjabúa að hefja sína fyrstu veiðiferð. Það var togarinn Draupnir, 290 tonna stór. Kom hann til Eyja, fullfermdur af saltfiski, um miðjan apríl. Kom þá í ljós að meira þurfti til en að eiga togara því ókleift reyndist að skipa fiskinum upp utan af Víkinni og öryggis vegna ófært að fara með skipið inn á höfnina, því þar myndi það stranda. Draupnir fór því með aflann til Reykjavíkur og lagði aldrei afla á land í Eyjum.

V.


Þegar fram liðu stundir fór vélbátum fjölgandi. Urðu þeir stærri og þar af leiðandi með aflmeiri vélar. Olía á vélarnar hafði verið flutt til Eyja í trétunnum og var vinna við þá flutninga erfið og rýrnun mikil á vörunni. Þegar Gísli J. lét reisa 2 olíugeyma á Nausthamri, þá fyrstu á landinu hættu tunnuflutningarnir að mestu leyti, Eyjabúum til mikils léttis því borið hafði við, að bátar gátu ekki róið vegna olíuskorts.
Tilraunir með dragnótaveiðar voru hafnar með góðum árangri og varð það til þess að fjölbreytni fisktegunda jókst.
Gísli J. stórkaupmaður, hefur líklega ekki óttast mikla samkeppni þegar hann frétti að verið væri að opna nýja verslun í gömlu brauðsölubúðinni í næsta nágrenni við hann. Enda ekki mikið að óttast því vöruvalið í þessari búðarkytru var ósköp fábreytilegt. Reyndin varð samt önnur því þessi litla hola átti eftir að draga marga krónuna frá nærstöddum verslunum, enda varð hún geysivinsæl.
Einar Sigurðsson, sonur Sigurðar Sigurfinnssonar, þá 18 ára gamall var uppfullur af nýjum hugmyndum þegar hann byrjaði sinn verslunarrekstur í gömlu brauðsölunni. Gaf hann búðinni nafnið Boston, eftir fyrstu húseign föður síns. Þetta var á árinu 1924, nánar tiltekið 20. nóvember.
Á þriðja áratugnum tók þess mjög að gæta að útgerð kæmist á færri hendur en áður. Voru þar umsvifamestir Gísli J. og Gunnar Ólafsson. Gunnar hafði verið pakkhússmaður hjá Gísla og kynntist þar manni að nafni Jóhann Jósefsson. Saman höfðu þeir stofnað fyrirtæki sem þeir kölluðu Gunnar Ólafsson & Co. Gunnar átti 3/5 hluta í firmanu og réði þar lögum og lofum. Fyrirtæki þeirra félaga þótti áreiðanlegt í viðskiptum, en heldur harðdrægt í innheimtu eins og sést á því þegar útgerðarmenn greiddu í peningum voru vörurnar 10% ódýrari en í reikningi.
Ef skuldirnar uxu yfir höfuð, gengu þeir slippir frá og urðu að láta versluninni eftir bát, kró og oft íbúðarhúsnæðið. Með þeim hætti er talið að Gunnar Ólafsson & Co hafi eignast flesta sína báta, ef ekki alla.
Árið 1924 réðst Gísli J. í að byggja stærra fiskverkunarhús en áður hafði sést í Eyjum og blöskraði mönnum svo stærð þess, að almenningur gaf því strax nafnið „Eilífðin". Má af því nokkuð marka stærð byggingarinnar. Talið var að hún yrði aldrei full nýtt. En allt fór þetta á annan veg því að þegar á næstu árum reyndist hún of lítil og fiskkasirnar fyrir framan hana voru lengi í minnum hafðar. Til að auka afköstin keypti Gíslu J. bæði flatnings og hausingavél frá Þýskalandi og voru afköst hvorrar vélar fyrir sig um 1000 fiskar á klukkustund. En vegna vankunnáttu í meðferð vélanna og ef til vil einhverra tæknigalla reyndust þær ekki eins og skyldi, vildu skemma fiskinn og bilanir voru alltof tíðar. Var hætt að nota þær eftir fyrstu vertíðina. Munu þetta hafa verið fyrstu vélar sinnar tegundar sem keyptar voru til landsins.

VI.


Árin 1925-1927 báru margt í skauti sínu. Tvær dráttarbrautir voru settar upp til hagræðis fyrir bátaflotann, sem þá var orðinn nálægt hundraðinu. Byrjað var að raflýsa bát og fyrsta talstöðin kom í íslenskan vélbát. Hún mun hafa verið sett í Heimaey, 29 lesta bát sem Gísli J. átti.
Sjómannafélag Vestmannaeyja var stofnað. Einnig var verkakvennafélagið Hvöt stofnað og þá hóf líka Fisksölusamlag Vestmannaeyja starfsemi sína.
Fyrsta og eina dagblaðið í Vestmannaeyjum byrjaði að koma út á árinu 1926. Var þar að verki Einar Sigurðsson, þá 20 ára gamall. Var verslun hans, Boston, þá í miklum blóma og hafði vaxið töluvert frá því að hún var opnuð og var að sprengja utan af sér húsnæðið. Til að sýna kraftinn og huginn í Einari á þessum tíma, skal haft eftir Einari, úr bók Þorbergs. Um Einar ríks: Fagur fiskur í sjó (bls. 119).
,,Árið 1926 fór ég þess á leit við Snorra Tómasson á Hlíðarenda í Vestmannaeyjum að hann seldi mér lóð undir verslunarhús. Snorri vildi láta lóðina fala fyrir 2500 krónur. Þetta var töluvert fé, miðað við kaupgjald þá, sem síðan hefur fimmtugfaldast. Bað ég Sigurð Pétursson, síðar byggingarfulltrúa og Þorleif Eyjólfsson, sem þá voru húsameistarar í Reykjavík, að teikna fyrir mig húsið. Þetta var hornlóð við Vestmannabraut og Skólaveg, og vildi ég nýta hana til fulls, og varð húsið tæpir 30 metrar á lengd meðfram götu.
Húsið var teiknað þrjár hæðir og ris, tvær álmur, og kjallari undir minni álmunni. Það varð þó aldrei hærra en tvær hæðir með flötu þaki og kjallara. Það varð númer 1 við Skólaveg. Seinnareisti ég stórt vörugeymsluhús úr timbri, járnvarið, rétt hjá.
Verslunarhúsið var reisulegt, í stuðlabergsstíl, gert úr steinsteypu. A því voru 12 stórir búðargluggar, tvær veggsvalir og fánastöng.
Í húsinu voru fjórar búðir eða deildir, þegar vegur verslunarinnar stóð sem hæst, matvörudeild, vefnaðarvörudeild, kjötvörudeild og byggingavörudeild. Á efri hæð voru skrifstofur og íbúðir. Timbur, sement og slíkur varningur var í vörugeymsluhúsinu.
Mönnum sýndist nú sitthvað um þetta tiltæki mitt, nýlega orðinn tvítugur og aðeins búinn að versla í búðarkytru í hálft þriðja ár. Ég átti ekkert undir mér í bankanum eins og þeir stóru, Gunnar Ólafsson og Gísli J. Johnsen eða kaupfélögin Bjarmi, Fram og Drífandi. Ég fékk ekki heldur neina fjárhagsaðstoð við bygginguna hjá Íslandsbanka. Í dagbókinni stendur:
Kristinn Ólafsson bæjarstjóri hefur það eftir Gunnari Ólafssyni, að ég sé sjálfsagt ekki mikill kaupmaður." Seinna sagði Gunnar, þegar ég keypti eignir aðalkeppinautar hans, Gísla J. Johnsens: „Nú er Einar orðinn vitlaus". „Ástþór Matthíasson telur mig núll sem kaupmann", hef ég fært inn í dagbókina. Ástþór var þá verslunarstjóri Gísla J. Johnsens og tengdasonur. Einhvern veginn fór það samt svo, að ég kom upp einni hæð af stærri álmunni um sumarið og haustið og gat farið að versla þar fyrir jól. Þannig stóð byggingin þar til næsta sumar. Þetta var á þriðja ári eftir að ég hafði byrjað í Boston með tvær hendur tómar, og vörur sem komust fyrir í einu kofforti.
Það tók ein fjögur eða fimm ár að koma húsinu upp að fullu. Þá hafði ég látið gera frystihús í kjallaranum, þar sem ég gat geymt kjöt fyrir kjötbúðina, sem ég kallaði Kjöt og fisk.
Fyrsta frystivélin, sem ég eignaðist, var ekki merkileg. Það var gömul Sabroevél, 25.000 hitaeiningar við -M0 gráður Celsíus. Hún hafði verið tekin úr frystihúsi, sem Gísli J. Johnsen átti, og var talin ónothæf. Ástþór Matthíasson seldi mér vélina fyrir 800 krónur, og ég kom henni fyrir í kjallaranum. Nú vantaði aflvél við frystivélina. Þá var nýbúið að skella á innflutningshöftum, og þurfti ég því innflutningsleyfi.
Nú gerðist það, að Eggert Jónsson frá Nautabúi kom að máli við mig og spurði hvort ég gæti geymt fyrir sig beitusíld. Hann var þá í Eyjum og keypti fisk á vegum Kveldúlfs í fiskhúsum Gísla J. Johnsens, sem bankinn var orðinn eigandi að.
Verslun með beitusíld var þá sterkur liður í viðskiptum við útveginn í Eyjum. Höfðu þrír aðilar selt beitusíld, ísfélag Vestmannaeyja h.f., Frystihús Óskars Halldórssonar og Útvegsbankinn. Hann hafði risið á rústum íslandsbanka og var nú orðinn eigandi að frystihúsi Gísla J. Johnsens.
Þá fundu hinir vísu menn, sem réðu yfir þessum þremur frystihúsum, upp snjallræði. Það var að hafa alla síldarsöluna á einni hendi, og átti ísfélag Vestmannaeyja að gegna því einokunarhlutverki. Allir þrír ætluðu sér nokkurn ágóðahlut af þessu fyrirkomulagi, þó að með misjöfnum hætti væri. Óskar Halldórsson átti frystihús á Siglufirði, og þar skyldi síldin fryst og hann hagnaðist á að selja hana til Ísfélagsins. Ísfélagið átti síðan að græða á að selja hana til beitu útvegsmönnum í Eyjum. Og bankinn ætlaði að næla á húsaleigunni. Nú átti þetta að vera pottþétt og engin smuga fyrir neinn annan að versla með beitusíld í Eyjum. Þetta gat verið snjallræði frá sjónarmiði gróðans. Mikil samkeppni hafði verið undanfarin ár um sölu beitusíldar í Eyjum, einkum af hálfu Óskars Halldórssonar. En einnig gat verið erfitt fyrir frystihúsin að hifta á hæfilega mikil kaup. Hvort tveggja vart vont, of og van.
Útgerðarmenn urðu óánægðir, ef þeir fengu ekki síld eftir þörfum, en það kom oft fyrir að skammta varð síldina, og svo hitt: Ef síldin var of mikil, þá var henni oft fleygt á vorin, því að hún geymdist illa yfir sumarið, og henni varð ekki komið út nema með harmkvælum, þegar hún var orðin ársgömul. Þetta var til stórtjóns fyrir frystihúsin.
Það mátti þá dauðlega svíkja, sem stóðu að þessari samsteypu, að þeir ættu sér nokkurs ills von neðan úr kjallaraómynd minni. En þá tók að kvisast, hvað ég hefði í bígerð. Nú reið lífið á að kæfa það í fæðingunni, því að annars voru öll stóru plönin unnin fyrir gíg. Og þetta voru karlar í krapinu, sem máttu sín mikils, þegar þeir lögðu saman í púkk. A þeim árum þótti það síður en svo ójöfnuður, þó að innflutningshöftunum væri beitt til þess að hossa einum og níðast á öðrum. Þannig var það um Patreksfjarðarbræður. Þeir áttu tvo togara og voru að koma sér upp frystihúsi. En þeir gátu ekki fengið innflutningsleyfi fyrir vélum í húsið og urðu að kaupa aflóga vél norðan úr landi, endavoru þeir ekki á hægra brjósti ríkisstjórnarinnar.
Ég var kominn upp erfiðasta hjallann með því að ná í frystivélina, þó að gömul væri. En þegar ég sótti um innflutningsleyfi fyrir mótornum til að knýja vélina, var mér neitað afdráttarlaust. Þá snéri ég mér til Gísla J. Johnsens, sem nú var orðinn heildsali í Reykjavík, og spurði hann að því, hvort hann gæti ekki útvegað mér þessa vél, nýja eða gamla. Hún þyrfti ekki að vera merkileg, aðeins 25 hestöfl. Ég sagði honum málavexti. Spurði hann þá, hvort ég ætlaði ekki líka að versla með kjöt og hvar ég hygðist kaupa það.
En þessi litli vísir minn að frystihúsi ógnaði engu síður kjötverslun ísfélags Vestmannaeyja en síldarsölunni, og þar var ísfélagið eitt um hituna. Ég sagðist hafa hugsað mér að kaupa kjöt af Kaupfélagi Héraðsbúa, því að þar myndi kjöt betra en víðast annars staðar. ísfélagið hefði alla tíð keypt kjöt af Sláturfélagi Suðurlands. Með þetta fór Gísli í framsóknarmennina í innflutningsnefnd. Skömmu síðar kom innflutningsleyfið, þríveldunum hafði láðst að taka með í púluna fjórða stórveldið og ekki það áhrifaminnsta, Samband íslenskra samvinnufélaga. Gísli minntist oft á það við mig síðar meir, þegar hann hafði verið að brýna þá framsóknarmennina: Hafið þið ráð á því að láta Sláturfélag Suðurlands sitja eitt að kjötsölunni í öðru eins gósenlandi og Vestmannaeyjum? En svo yrði það framvegis, ef Einar fengi ekki leyfi fyrir vélinni. Vélin kostaði aðeins 1500 krónur. Ég tók kjöt í frystihúsið austan af Héraði og síld af Eggerti Jónssyni, sem veiddist á Austfjörðum þá um áramótin í svokallaða landnót. Þetta var millisíld, svo ný og fersk sem hún gat verið, og hin mesta tálbeita. Slík síld hafði ekki verið á boðstólum í Eyjum áður, og fengu hana færri en vildu. Það var ekki fitjað upp á í annað sinn að einoka síldarsöluna í Vestmannaeyjum."

VII.


Árið 1930 má eflaust teljast með þeim sérstæðustu sem íslenska þjóðin hefur lifað. Vegna þess fjárhagslega öngþveitis sem því fylgdi og bitnaði með meiri eða minni þunga á flestum hér í Eyjum og öllum íbúum þessa lands. Á því ári gekk yfir heimskreppan mikla. Sem meðal annars hafði í för með sér svo mikið verðfall að verðið sem fékkst fyrir fiskinn borgaði naumast þann kostnað sem á hann lagðist eftir að hann var kominn á land. Þeir sem fyrst og jafnvel verst urðu úti, voru kaupmenn og ýmsir aðrir sem keyptu fisk upp úr sjó.
Það var Vestmannaeyjum mikill skaði þegar Gísli J. Johnsen var gerður gjaldþrota. Því frá 1917 hafði hann verið með langstærstu útgerðina, haft mikla verslun, verið með stærstu fiskverkunarhúsin og haft fjölda manna í vinnu.
Allt hans stóra veldi hrundi í rúst. Bátarnir sem einhver pardómur var í, voru seldir burtu úr Eyjum, vörurnar í búðinni fóru á uppboð og henni lokað og aldrei opnuð framar. Fiskverkunarhúsin stóðu að mestu auð og tóm í nærri einn tug ára.
Þannig liðaðist í sundur þetta myndarlega fyrirtæki, sem stárfað hafði í nær þrjá áratugi undir forystu Gísla.
Áður hefur komið fram að Gísli hafi verið byrjaður með heildverslun í Reykjavík. Mun hann hafa hafið þann atvinnuveg 1924, þegar hann flutti þangað. Gísli gerðist stórkaupmaður í Reykjavík, eftir að hann neyddist til að hætta atvinnurekstri sínum í Eyjum. Seldi hann einkum vélar í fiskibáta og komst þannig aftur í drjúgar álnir.
Gunnar Ólafsson & Co. var eina stóra fyrirtækið í Eyjum sem stóð af sér kreppuna, en lamaðist þó svo mikið að það beið þess aldrei bætur.
Næst á eftir fyrirtæki Gísla J. og Gunnars Ólafssonar að mikilleika, áður en kreppan reið yfir, voru þrjú stór kaupfélög. Það var kaupfélagið Fram, sem reist var á rústum kaupfélagsins Herjólfs og Brydeverslunar. Kaupfélagið Bjarmi og kaupfélagið Drífandi. Þessi þrjú kaupfélög áttu öll það sameiginlegt, að þau lömuðust í kreppunni og báru aldrei sitt barr eftir það. Fram og Bjarmi seldu eignir sínar fyrir áföllnum skuldum án þess að verða gjaldþrota, en Drífandi var gerður upp með nauðasamningum.

VIII.


Á árunum 1930-1940 varð allveruleg breyting á bátaflota Vestmannaeyinga, keyptir voru til Eyja 48 bátar á þessum árum, en aftur á móti hurfu þaðan af skrá alls 61 bátur og fækkaði þeim því úr 97 eins og þeir voru í ársbyrjun 1930 í 84 árið 1940. Heildarstærð bátaflotans hélst þó nokkuð í stað þar sem tonnatalan hans var árið 1940 samtals 1806 á móti 1905 tonnum árið 1930. Meðalstærð báta hafði hækkað í 21,6 tonn í lok áratugarins.
Fjórði áratugurinn er sennilega daufasta og athafnaminnsta tímabilið í sögu vélbátaflotans í Eyjum, fram að þeim tíma. Ástæðan fyrir því er vafalítið verðfallið sem varð á saltfisknum í kreppunni 1930. Eftir það útihald stóðu svo að segja allir útgerðarmenn í Eyjum uppi eignalausirog sumir meira en það, og margir þeirra svo skuldum hlaðnir að þeir gerðu sér vart vonir um að þeim entist aldur til að greiða þær upp. En úr öllu þessu átti eftir að rætast og útgerðin að rétta úr kútnum og það fyrr en varði eins og síðar kemur fram.
Einn af þeim kaupmönnum sem slapp að mestu leyti við kreppuna var Einar Sigurðsson. 1934 var svo komið að Einar, sem byrjað hafði í Boston með tvær hendur tómar tíu árum áður, átti myndarlegasta verslunarhúsið í bænum, Vöruhúsið, með fjórum búðum og íbúð yfir og auk þess tvö önnur verslunarhús sem hann hafði byggt. Kallaði hann annað verslunina Vísi, og hitt sjómannabúðina. Auk þess rak hann verslun í Boston og Viðey.
Í bók Þorbergs, Fagur fiskur úr sjó, er skemmtileg lýsing sem segir frá því þegar Einar byrjaði að höndla með fisk. Einar segir frá (bls. 215):
„Verslun í Eyjum nægði nú ekki lengur athafnaæði mínu. Ég fór því að snúa mér að öðrum viðfangsefnum með versluninni og búskapnum, en ég nytjaði túnin áfram, þó að ég væri hættur að hafa skepnur. Frystihúsið í Vöruhúsinu, sem ég byggði upphaflega til að geyma í kjöt, freistaði mín til að fara að framleiða ís. Pönnum var stungið inn á milli spírala, svokallaðra rekka, og pönnurnar síðan fylltar af vatni. Þetta var gert í frystinum. í honumvar meira frost en í öðrum klefum hússins,því að þar var fryst nýtt kjöt. Ísinn var síðan sleginn úr pönnunum, og var þetta ákaflega frumstæð aðferð.
Næst fór ég að kaupa nýjan fisk og ísa hann til útflutnings, aðallega ýsu á vertíðinni. ísframleiðslan í frystinum var allsendis ónóg, og sótti ég ís til viðbótar inn á Daltjörn og upp á Vilpu. Þetta var erfitt verk. Fyrst að höggva ísinn á tjörnunum, draga jakana upp úr vatninu, flytja þá heim á bílum og mala þá síðan í handknúnum kvörnum. Um ýsuna var búið í kössum, sem vógu rúm 100 kíló með öllu saman. Þeir voru ekki neitt barnameðfæri. Kassarnir voru úr tré, og smíðuðum við þá sjálfir. Fyrst keyptum við efnið í búðum í Eyjum. Síðan komumst við upp á lag með að fá kassana tilsniðna frá Noregi og Svíþjóð, og var það miklu ódýrara.
Fiskinnihaldið í þessum kössum var fyrst 10 stone, 63 kíló, en það var síðar minnkað niður í 8 stone eða 50,8 kíló. Þá urðu kassarnir viðráðanlegri. Kassarnir voru geymdir í kæli, eftir að fiskurinn var ísaður í þá, ef því varð við komið, en svo var ekki gert á fyrstu árum þessa útflutnings. Síðan kom dragnótaveiðin til sögunnar. Þá var farið að flytja út flatfisk á sama hátt og ýsuna og þó einkum að sumarlagi. Þetta var mikill útflutningur og stóð í nokkur ár. Stunduðu hann fjórir til fimm einstaklingar og fyrirtæki. Sumir keyptu fiskinn fyrir útlendinga, en aðrir fyrir eigin reikning og seldu hann síðan á frjálsum markaði erlendis. Einn þeirra var (Bls. 217): „Ég vann sjálfur að því að ganga frá fiskinum með öðrum, þvo hann vandlega upp, taka hjartað úr honum og leggja hann í raðir í kassana, setja lag af ís undir, á milli og yfir og negla síöan lokið vandlega á og merkja kassana."
..Þeir, sem seldu okkur ýsuna, skiluðu henni í krærnar til okkar. Það voru fleiri kaupmenn í Eyjum en ég, sem unnu í fiskinum. Þó voru þeir ekki margir. Ég man eftir Helga Benediktssyni við að leggja inn hjá mér ýsu. Það var út af smáatviki. Hann var þá ekki farinn að flytja út sjálfur. Ég man líka eftir honum við að skera af netum úti í Edinborgarstakkstæðinu, framan við Boston. Helgi kom til mín í Hebronskúrinn með fullan bíl af ýsu, og stóð hann uppi í bíltroginu. Hann rennur til á hálum bílpallinum og dettur ofan í ýsukösina. Mér varð þá að orði: ,.Þér lætur betur að vera á hausnum". Líklega hefur Helga hálfsárnað þetta. því aö hann minntist oft á þaö við mig síðar, þó í gamni. En Helgi átti í erfiðleikum, eins og allir útgerðarmenn á þessum tíma."
Helgi Benediktsson vará þessum tíma í félagi við nokkra aðra með verslunarrekstur og kölluðu þeir fyrirtæki sitt Verslunarfélag Vestmannaeyja.
En þannig fór að sá félagsskapur lagðist niður og hafði Helgi síðan allan atvinnurekstur sinn á eigin nafni. Hann rak um skeið margar sölubúðir víðs vegar um bæinn, átti um tíma marga vélbáta og Iét smíða suma þeirra í Vestmannaeyjum. Voru þar stærstu skip Eyjamanna þá. Einnig byggði hann stórt hótel. Hann ræktaði allstórt land og hafði um skeið þó nokkuð kúabú. Helgi hafði um tíma mikil umsvif og mun hann þá hafa verið efnaðasti maðurinn í Eyjum.

IX.


Togveiðar báta við Eyjar voru óþekktar fram að árinu 1938. En það sumar fengu eigendur að m/b Von, sem var 25 tonna bátur með 50 hestafla vél, styrk frá Fiskimálasjóði til þess að setja togveiðiútbúnað í bátinn. Var ætlunin að hann gerði tilraun til humarveiða með þessum útbúnaði. Skipstjóri með bátinn var Guðmundur Vigfússon frá Holti. Tilraun þessi heppnaðist ekki að því leyti að mestur hluti aflans varð annað en humar, og þá helst þorskur, ýsa og flatfiskur alls konar. En menn sáu fljótlega fram á að þarna var komið veiðarfæri sem skilaði betri árangri en dragnótin og gat verið mun afkastameira en hún, og hentaði vel á ýmsum svæðum þar sem dragnótinni varð ekki við komið.
Hraðfrystistöð Vestmannaeyja var formlega tilkynnt til firmaskrár Vestmannaeyja 16. febrúar 1938. Einar Sigurðsson var einkaeigandi og hafði nokkru áður byrjað fyrstur manna í Eyjum meö tilraunir viö að frysta fisk. Vorið 1939 byrjaði Einar svo að flaka og frysta fisk í frystihúsi Vöruhússins og var það í fyrsta sinn sem fiskur var flakaður og frystur í Vestmannaeyjum.
22. desember keypti Einar svo Godthábseignina, sem Gísli J. Johnsen hafði átt og Útvegsbankinn í Eyjum hafði hreppt við gjaldþrot Gísla 1930. Á henni voru allmörg fiskverkunar- og vörugeymsluhús, búð og skrifstofubygging sem kölluð var Godtháb. Nýjasta húsið var úr steinsteypu. Hitt voru gömul timburhús og eigninni fylgdi myndarleg steinbryggja. Hafði Einar áformað að koma þarna myndarlegu frystihúsi.
Í mars 1940 birtist grein eftir Ólaf Lárusson héraðslæknir í sjómannablaðinu Víkingi, sem sýnir glögglega kraftinn í Einari við að byggja upp Hraðfrystistöðina:
„Það er ánægjulegt að ganga niður að Edinborgarhúsunum og sjá þar atvinnulífið í fullum gangi. Við Hraðfrystistöðina munu nú vera 50 fastráðnir karlmenn og 50 stúlkur, en auk þeirra vinna þarna daglaunamenn af og til, eftir því sem þarf. Er augljóst, hversu mikil atvinnubót þetta er fyrir Eyjabúa.
Allir Eyjabúar geta glaðst yfir því, að kominn er atorku- og dugnaðarmaður í stað Gísla J. Johnsens;er það Einar Sigurðsson. Atorka hans og dugnaður sýnir sig vel í því, hversu rösklega hann hefur gengið fram í því að koma á fót Hraðfrystistöð sinni þarna í Edinborgarhúsunum, en miklu hefur þurft að breyta og byggja að nýju til þess að fá haganleg húsakynni. Frá 22. desember hefur Einar verið þarna sístarfandi frá því árla morguns til síðla kvölds, og hefur verkinu miðað svo hratt undir hans eftirliti, að hinn 10. febrúar s.l. voru vélar Hraðfrystistöðvarinnar settar í gang í fyrsta skipti, og hófst flökun og frysting á fiski fjórum dögum síðar, eða 14. febrúar. Afköst við frystingu eru um það bil 50 smálestir á sólarhring. Dieselvél knýr frystivélina og rafmagnsmótor. ÖU eru tæki þessi af nýjustu og bestu gerð og munu hvergi fullkomnari hér á landi, og jafnast á við það besta erlendis.
Eitt Edinborgarhúsanna vakti undrun manna, þegar það var byggt, vegna stærðar sinnar, og nefndu menn það „Eilífðina". og var þar aðgerð og söltun í Gísla tíð. Þakinu hefur nú verið svipt afhúsi þessu, steinloft steypt og stórum hækkað undir loft og hefur nú alveg ný „Eilífð" verið reist ofan á þá gömlu, mætti þetta vera fyrirboði þess, að verin standi vel og lengi, frá eilífð til eilífðar.
Vélasalurinn er stór og mikill og uppi yfir honum upphitaður kaffisalur fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Mun slíkt óþekkt hér áður á vinnustöðum. Salerni og þvottaskálar eru þarna einnig. Er gott til þess að vita, að menn auka þrifnað og hreinlæti við atvinnufyrirtæki.
Í vinnusalnum er fossandi sjór frá sjóveitunni til skolunar og hreinsunar, fer þar fram flökun. Við hana vinnur mest kvenfólk.
Verðið sem Hraðfrystistöðin greiðir fyrir fiskinn, er hærra heldur en á fiski, sem keyptur er til söltunar, eða 15 aurar fyrir hvert kíló af þorski (11,5 aurar í salt) og 20 aurar fyrir hvert kíló af ýsu. Hvílík lyftistöng útveginum hér að þessu, sést best á því, að ýsan má heita verðlaus, ef ekki er hægt að hraðfrysta hana, þegar engin skip eru hér til fiskkaupa, sem oft getur hent. Verð á flatfiski er enn ekki ákveðið. Mikil hagsbót og sérstaklega mikilvæg er sú, að allir fiskur, sem á bátinn veiðist, er nú hagnýttur, en áður voru margar tegundir ekki hirtar, svo sem karfi, uppáhaldsfiskmeti þjóðverja. nefndur gullfiskur, steinbítur, tindaskata, sandkoli o.fl.
Hér má heita, að um nýyrkju í stórum stíl sé að ræða á sviði fiskafurðavinnslu, öllum til ómetanlegs gagns á sjó og landi. Hraðfrystistöðin mun vera stórfelldasta atvinnufyrirtæki Eyjanna, sem kemur til björgunar útgerðinni á þrengingartímum. Saltfiskframleiðslan hefur til þessa verið aðalbjargræðisvegur Eyjabúa, en má nú heita í kalda koli."
Eftir að Hraðfrystistöðin komst í gagnið byrjuðu margir bátar að leggja þar upp afla sinn, sem von var, því þar losnuðu þeir við allan sinn afla og sem meira var vert, fengu hærra verð. Ekki dugði það samt, því afkastageta frystihússins varð fljótlega mikil.
Fyrsti báturinn sem Einar eignaðist var gamall 12 tonna bátur, sem Sæbjörg hét. Bátaeignin jókst svo smám saman og voru þeir orðnir 10 árið 1942. Þar á meðal ein nýsmíði, 37 tonna bátur Týr að nafni. Fimm af þessum bátum eignaðist Einar þegar hann keypti kaupfélagið Fram sem hafði aðsetur sitt á Garðseigninni.
Kaupfélagið Fram var þá skuldum vafið og alveg að leggja upp laupana. Það er athyglisvert að þegar hér var komið sögu hafði Einar eignast bæði Godthábseignina, sem Gísli J. Johnsen hafði byggt upp og gert að stórveldi og kaupfélagið Fram sem byggt var upp úr Brydesrústunum. Sem sagt, Einar hafði eignast fyrirtæki þeirra tveggja stærstu á árum áður.
A öðru ári Hraðfrystistöðvarinnar var svo komið að hún hafði viðskipti við 40 báta, hafði mörg hundruð manns í vinnu, var alltaf að byggja og kaupa lóðir, fjölga eigin bátum og færa út kvíarnar í allar áttir. Bygging nýju Hraðfrystistöðvarinnar var á þessum tíma í fullum gangi. Var það stórt hús, það stærsta álandinu. Pað átti að vera 40 metrar á breidd og 70 metrar á lengd, þar sem það var lengst. Það fór ekki á milli mála að Einar Sigurðsson var orðinn stærsti atvinnurekandinn í Eyjum og átti orðið flestar eignirnar.
Athyglisvert er hvað Einar kom vel fram við allt starfsfólk sitt, hvað varðar aðbúnað og hlunnindi og skulu hér nefnd nokkur dæmi: Hann setti upp kvöldskóla þar sem meðal annars íslenska, enska og stærðfræði var kennt. Hann kom á stofn bókasafni með 3000 titlum. Hann stofnaði söngflokk, kom á fót tómstundaheimili, þar sem músík og dans voru um helgar. Ennfremur gufuböð, sjóböð og leikfimi. Einnig skemmtiferðir út um eyju og ferðalög til lands, sem hann kostaði einnig að öllu leyti, einnig gaf hann fólkinu hálfsmánaðar sumarfrí með fullu kaupi. Allar slíkar umbætur voru áður óþekktar í Eyjum og áttu hvergi sinn líka hér á landi.
Á þessum fyrstu árum Hraðfrystistöðvarinnar var Einar mikið á meðal verkafólksins, kynntist fólkinu og leysti vandamál sem upp komu. Kannski er það því að þakka, ásamt öðru að fyrirtækið dafnaði svona gífurlega eins og raun varð á.
Einari hefur sennilega fundist kvótinn í Eyjum fullur og hægt að stofna fleiri fyrirtæki þar, þegarhann ákvað að byggja nýtt frystihús í höfuðborginni, Reykjavík. Átti það að verða útibú frá Hraðfrystistöðinni í Eyjum. Eina frystihúsið í Reykjavík þá var Sænska frystihúsið. Ekki nóg með það heldur ákvað hann líka að byggja útibú í Keflavík. Það varð úr, Einar hóf á aðeins tveim árum byggingu á Hraðfrystistöðinni í Eyjum, Hraðfrystistöðinni í Reykjavík og Hraðfrystistöðinni í Keflavík og var svo komið árið 1942 er Einar var 36 ára gamall að hann var orðinn stærsti frystihúsaeigandi landsins og farið var að kalla hann Einar ríka.
1942 var heimsstyrjöldin síðari í algleymingi. Varð hún til þess að mestur hluti aflans sem barst á land í Eyjum var fluttur út ísvarinn í heilum skipsförmum til Bretlands. Kom það sér vel fyrir suma og illa fyrir aðra. Það kom vel fyrir hina ýmsu útgerðarmenn sem farið höfðu illa út úr kreppunni og ekki náð sér upp eftir það, því fiskverðið rauk upp úr öllu valdi og þeir sem keyptu fiskinn af þeim á bryggju borguðu þeim nokkurnveginn jafnóðum. Það varð til þess að útgerðarmönnum léttist róðurinn fjárhagslega og náðu sér á strik. Útflutningur á ísvörðum fiski til Bretlands hélst öll styrjaldarárin.
Útflutningur á ísuðum ferskfiski kom sér illa fyrir frystihúsin því Bretar voru ófáanlegir til að greiða það hátt verð fyrir frosna fiskinn, að frystihúsin gætu keppt við flutningaskipin um nýja fiskinn af bátunum, því stöðvuðust flest húsin. Hraðfrystistöðin sem þá átti orðið 10 báta gat bjargað sér með því að vinna aflann sem fékkst af þessum 10 bátum, en stríðsárin voru erfið fyrir sum frystihúsin.
Síðari hluta áratugarins hljóp mikil gróska í bátasmíði í Vestmannaeyjum eftir að styrjöldinni lauk. Að vísu gengu margir eldri bátanna úr sér á þessu tímabili og voru teknir af skipaskrá og fækkaði bátum í Eyjum á þessum áratug úr 84 í 71. En í stað smærri bátanna, sem úr sér gengu, komu nýir og mun stærri bátar en áður og voru margir þeirra smíðaðir í Eyjum. Stækkaði skipastóll Vestmannaeyinga á þessum áratug úr 1806 tonnum árið 1940 í 4230 tonn árið 1950 eða um 2424 tonn og var það meir en helmingsstækkun.
Munaði þar mestu um tvo nýsköpunartogara Bæjarútgerðar Vestmannaeyja, togara og flutningaskip Sæfells h/f og tvö skip sem Helgi Benediktsson lét smíða í Eyjum til útflutnings með ísvarinn fisk. Má segja að um stökkbreytingu hafi verið að ræða í stærð skipastóls Vestmannaeyinga, það sem gerði útgerð nýsköpunartogaranna og hinna stærri skipa mögulega frá Eyjum var stórbætt aðstaða í höfninni.
Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk tóku nokkrir af stærri útgerðarmönnum í Eyjum sig saman um stofnun Vinnslustöðvarinnar h/f. 1950 stofnuðu svo nokkrir fyrrverandi starfsmenn Hraðfrystistöðvarinnar Fiskiðjuna.
Kringum 1950 var veldi Hraðfrystistöðvarinnar orðið mjög mikið. Einar Sigurðsson hafði þá lokið við að byggja Hraðfrystistöðina í Eyjum og Reykjavík, einnig var hann orðinn eigandi að Hraðfrystistöð í Keflavík. Síðan eignaðist hann líka hraðfrystihús á Flateyri og í Höfnum. A sjötta áratugnum byggði Einar fiskimjölsverksmiðju við hraðfrystihús sitt í Eyjum, var verksmiðjan fyrstu árin í mjög þröngum húsakosti uppi á lofti í einni af byggingum stöðvarinnar. En síðar meir var hún stækkuð verulega.
Lýkur hér þessari frásögn um sögu útgerðar og sjósóknar í Vestmannaeyjum.

Eftirmáli


Ég spurði tveggja spurninga í formálanum, ,,Af hverju? Hver vegna?", og er ekki gott að svara þeim. Ég er augljóslega orðinn mikið fróðari um útgerð og sjósókn í Vestmannaeyjum. Heimildabækurnar sem ég notaði til upplýsingaöflunar voru margar og skulu þær hér taldar upp: Einar ríki og Þorbergur I., II. og III. Formannsævi í Eyjum og Aldahvörf í Eyjum eftir Þorstein Jónsson frá Laufási.
Við Ægisdyr eftir Harald Guðnason. Vestmannaeyjar byggð og eldgos eftir Guðjón Ármann Eyjólfsson. Útgerð og aflamenn í Eyjum síðan 1906 eftir Guðlaug Gíslason. Um borð í Sigurði eftir Ásgeir Jakobsson. Einnig fékk ég lánuð 6 myndaalbúm hjá Hraðfrystistöðinni, en þar eru myndir og upplýsingar um alla báta og öll skip sem verið hafa í Eyjum. Hún Ósk á skrifstofunni hjá Hraðinu laumaði Iíka að mér nokkrum upplýsingum um Einar ríka.
Mér fannst sjálfum athyglisvert hvað verslun, fiskverkun og útgerð tengdust mikið saman í sögunni. Eiginlega er þessi ritgerð hálfgerð verslunar- og fiskverkunarsaga. Gísli J. Johnsen var tvímælalaust maðurinn á bak við kraftinn og dugnaðinn í Eyjabúum við uppbyggingu fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum. Hann var alltaf snöggur á lagið í sambandi við nýjungar. Það má eiginlega segja að hann hafi verið maður á undan sinni samtíð. Tökum t.d. þegar hann lét byggja Eilífðina. Allir sögðu að maðurinn væri orðinn vitlaus. „Þetta hús er alltof stórt" sögðu menn. En hvað skeði. Stuttu seinna var það orðið of lítið.
Einar ríki. Það var klár kall sem græddi þegar aðrir töpuðu. Það má segja að hann hafi líka verið maður sem var á undan sinni samtíð. Hann fór ekki illa út úr kreppunni eins og flestir aðrir, vegna þess að hann var ekkert byrjaður í fiskibransanum þegar kreppan skall á. Verslun hans stóð þá í blóma. Þegar tlest allir voru farnir á hausinn eftir kreppuna, notaði hann tækifærið og keypti margar eignir fyrir lítinn pening. En Eyjabúar eiga honum mikið að þakka því hann reif upp atvinnulífið af svo miklum krafti og svo miklum glæsileika að annað eins hefur ekki sést. Gísli J. og Einar ríki áttu margt sameiginlegt. Þeir voru báðir miklir athafnamenn og voru miklir vinir fólksins. Það má eiginlega segja að þeir séu feður fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum. Þeir sönnuðu líka báðir staðreyndina, sem er að ef menn ætla að stjórna fyrirtæki þá verða þeir að vera á staðnum. Gísli J. flutti um miðjan þriðja áratuginn til Reykjavíkur og setti aðra við stjórn. ,.Hvað skeði"? Jú hans stóra veldi í Eyjum byrjaði að leka niður og var staða fyrirtækis hans, þegar kreppan kom, orðin mjög slæm fjárhagslega. Kreppan gerði svo endanlega útaf við hann.
Hvað skeði með Einar? Jú hann flutti til Reykjavíkur stuttu eftir 1950 og setti aðra við stjórnvölinn. ,,Hvað skeði"? Það sama, allt hans stóra veldi byrjaði að liðast í sundur og var staðan orðin mjög slæm þegar Einar rankaði við sér, kom til Eyja og rak alla forstjórana, eins og hann sagðisjálfur. Það sem bjargaði Einari var að það kom engin kreppa.
Hvað geta menn svo lært á þessu?
Já, það er nú það.
Magnús Guðmundsson frá Sólheimatungu.