Blik 1974/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, I. hluti
Aðfararorð
(Íhugull lesandi hafi það í huga, að grein þessi er skrifuð, áður en gosið á Heimaey átti sér stað. Húsin, sem um er getið í greininni, eru nú mörg undir hrauni).
Um miðja 16. öld hafði danska konungsvaldinu tekizt að útrýma að mestu leyti verzlun Englendinga við Eyjafólk. Þá var stofnað til algjörrar einokunarverzlunar í Eyjum. Til þess að tryggja sér tögl og hagldir, því að stundum létu Englendingar á sér kræla þrátt fyrir bönn og fyrirskipanir, þá bauð konungsvaldið að gera skyldi virki í Vestmannaeyjum og koma þar fyrir öflugum „fallstykkjum.“ Það gerðist árið 1586.
Viðskipti Eyjafólks við enska á undanförnum áratugum og jafnvel öldum höfðu reynzt hin hagkvæmustu og til mikils hagræðis Eyjasjómönnum og stéttarbræðrum þeirra úr sveitum Suðurlandsins, sem lágu þá fjölmennir við í Eyjum á hverri vetrarvertíð, sérstaklega úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari.
Um 1600 hafði konungsvaldið fengið nokkra reynslu af rekstri einokunarverzlunar í Vestmannaeyjum. Var þá afráðið að leiða hana í lög um allt land.
Hún hafði reynzt konungsvaldinu og dönskum kaupmönnum hagstæð og gaf vonir um framhald á þeirri reynslu án þess að taka tillit til íslenzkra hagsmuna og íslenzka þjóðfélagsins í heild. Gróðavonin var þeim allt, þó að verzlunarhættir þessir reyndust niðurdrep íslenzku efnahags- og menningarlífi og tortíming mannlegra hvata til sjálfsbjargar.
Næstu þrjár aldirnar var einokunarverzlunin í Vestmannaeyjum rekin ýmist af sjálfum kónginum, leppum hans eða dönskum kaupsýslumönnum. Það átti sér stað, að íslenzkur kaupmaður eða gróðahyggjumaður fékk aðstöðu til að reka einokunarverzlunina í Vestmannaeyjum á þessum þrem öldum, t.d. Jens kaupmaður Benediktsson, og bar ekki á því, að þeir reyndust mun betri en hinir.
Sökum einangrunarinnar var verzlunarkúgunin ennþá tilfinnanlegri og grimmari í Vestmannaeyjum en víðast hvar annars staðar í landinu.
Svo sem kunnugt er var einokunarverzlunin sjálf alls ráðandi um söluverð innfluttrar vöru og svo um verð á framleiðsluvörum landsmanna til sjós og lands, þrátt fyrir einhver málamyndarákvæði, sem þar um fjölluðu, sem auðvelt var að fara kringum og virða að vettugi.
Þannig var íslenzku þjóðinni frá ári til árs og öld fram af öld skömmtuð hin efnalega afkoma og það í allra naumasta lagi.
Ekkert vörumat átti sér stað í landinu, hvorki um innfluttar vörur né útfluttar afurðir.
Öll samkeppni í verzlunarrekstri var hindruð með því, að einungis einn kaupmaður fékk leyfi til að reka verzlun á hverjum stað.
Þetta, sem hér er sagt um einokunarverzlunina dönsku, á ekki hvað sízt við um einokunarverzlunina í Vestmannaeyjum, -Monopolhandelen på Vestpansöe i Island, eins og hún hét á dönsku máli.
Og þó að það héti svo, að verzlunin væri gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs samkv. lögum, sem tóku gildi 1. jan. 1788, héldust nálega sömu verzlunarhættirnir a.m.k. í Vestmannaeyjum næstu 100 árin eða fram á síðustu ár 19. aldarinnar. En þá tók að rofa til.
Samkvæmt lögunum til handa öllum þegnum Danakonungs um frjálsan verzlunarrekstur á Íslandi, var stofnað til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum á fyrri hluta 19. aldar við hlið hinnar gömlu og grónu einokunarverzlunar. (Sjá greinina um Godthaabverzlunina hér í ritinu á bls. 167).
Undir miðja 19. öldina var svo stofnað til þriðju verzlunarinnar í
Vestmannaeyjum, Júlíushaabverzlunarinnar. (Sjá grein um hana í ritinu á bls. 172).
Brátt keypti gamla einokunarverzlunin hana þrátt fyrir ákvæði laganna um það, að sami maður mætti ekki eiga eða reka nema eina verzlun á sama staðnum. Einokunarkaupmaðurinn hafði jafnan ráð undir rifi hverju til að fara í kringum þau lagaákvæði. Hann keypti sér lepp, sem hann trúði vel og var honum dyggilega „undirgefinn.“ Látið var heita svo, að hann ætti fyrirtækið. Þannig gat aðalkaupmaðurinn verið einráður um vöruverð allt, þrátt fyrir lög og reglur.
Um þessar þrjár verzlanir í Vestmannaeyjum kemst Sigfús M. Johnsen svo að orði í Vestmannaeyjasögu sinni: „Þótt verzlununum að vísu fjölgaði og nokkur samkeppni hæfist, hafði það samt lítið að segja, því að kaupmenn hliðruðu til hver fyrir öðrum og höfðu samtök sín á milli.“
„Birtir yfir breiðum ...“
Svo sem kunnugt er, þá voru það Þingeyingar fyrstir Íslendinga, sem gerðu uppreisn svo að um munaði gegn heljarfjötrum einokunarverzlunarinnar, gegn undirokun og kúgun verzlunaraflanna þar í sýslu. Þeir efndu til eigin verzlunarsamtaka, stofnuðu samvinnufélag gegn einokunarverzluninni á Húsavík og í Þingeyjarsýslu árið 1882. Þá var, sem kunnugt er, Kaupfélag Þingeyinga stofnað.
Þegar fregnir um þennan manndóm, þessa dáð hinna þingeysku Íslendinga, spurðist út, „fór hitamagn um önd“ ýmissa landsmanna. Þetta var þá hægt að gera, þrátt fyrir alla eymdina, allan fjárskortinn. En til þess þurfti dáð, óvenjulegt hugrekki, dyggð og drengskap, og þó umfram allt fórnarlund, rétt hugarfar, réttan skilning á þörfum þjóðar í nauð, félagslyndi, þroska. Mannrækt hafði átt sér stað á þingeyskum heimilum um langan aldur. Þarna birtust ávextirnir alþjóð.
Þetta samvinnuframtak þingeysku bændanna og búaliða þeirra vakti fjölmarga landsmenn til íhugunar um verzlunarmálin í landinu. Sumsstaðar hugsuðu einstaklingar sér til hreyfings, vildu reyna að efna til einhverra verzlunarsamtaka til þess að höggva þó að ekki væri nema eilítið skarð í einokunarmúrinn. Og þannig hugsaði brautryðjandinn á þessu hagsmunasviði í Vestmannaeyjum.
Brautin rudd — Brotið blað
Árið 1885 eða þrem árum eftir stofnun Kaupfélags Þingeyinga, efndi íslenzkur einstaklingur til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum. Þessi maður var Gísli bóndi og útgerðarmaður Stefánsson í Hlíðarhúsi. Hann var sonur Stefáns bónda og stúdents Ólafssonar í Selkoti undir Eyjafjöllum, gullsmiðs Jónssonar í Selkoti.
Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi var greindur maður og athugull, atorkusamur og sækinn, enda hafði skóli lífsins verið honum býsna erfiður og stælt kjark hans og þor, en jafnframt verið honum gjöfull á ýmsa lund, eftir að hann missti föður sinn 12 ára gamall.
Gísli Stefánsson rak verzlun sína í Eyjum af gætni og hagsýni, enda var fjárhagsgetan lítil. Viðskiptatraust hafði hann mikið og fór vel með það. Það var honum hálfur höfuðstóll eins og fleirum fyrr og síðar. Stundum efndi hann til verzlunarsamtaka með bændum í Eyjum með því móti að gefa þeim kost á að panta vörur hjá sér, sérstaklega matvörur og greiða þær við kostnaðarverði. Þetta framtak hans var vel séð og sannaði Eyjafólki, hversu bæta mátti verzlunarhætti alla og kjör fólksins með samtökum og samvinnu. En kaupmaðurinn í Gísla Stefánssyni sá sér líka leik á borði. Með slíku hagsbótastarfi, pöntunarstarfinu, ávann hann sér traust og velvild fólksins og jók með því vörusölu sína og viðskipti á öðrum sviðum. Oft sigldi Gísli kaupmaður Stefánsson til útlanda, sérstaklega Bretlands, til þess að festa kaup á vörum til verzlunar sinnar eða gera hagstæð kaup á matvörum, sem pantaðar höfðu verið hjá honum sérstaklega.
Um 1890 efndu Vestmannaeyingar til pöntunarstarfsemi til hagsbóta sér og heimilum sínum. Þá var það, sem Sigfús Árnason frá Vilborgarstöðum, organisti og formaður, stofnaði til pöntunarfélags með Eyjabændum. Öðru hvoru á undanförnum árum hafði verið efnt til slíkrar pöntunarstarfsemi í Eyjakauptúni með hagstæðum árangri.
Einnig seldi pöntunarfélag þetta undir forustu Sigfúsar Árnasonar afurðir Eyjabænda og reyndist þá verðið mjög hagstætt framleiðendunum. Sigfús M. Johnsen getur þessara verzlunarsamtaka í Vestmannaeyjasögu sinni. Þar fullyrðir hann, að pöntunarfélagið, sem jafnframt seldi afurðir fyrir bændur í Eyjum, hafi getað greitt þeim 46 krónur fyrir hvert skippund (160 kg) af fullverkuðum fiski (þorski). Á sama tíma greiddi einokunarkaupmaðurinn Eyjabændum 36 krónur fyrir skippundið af sömu afurðavöru. Þá getur höfundur þess, að olíutunnan hafi verið kr. 7,50 ódýrari hjá pöntunarfélagi bændanna en hjá einokunarkaupmanninum. Og þriggja krónu munur var á verði rúgmjölstunnunnar.
Gísli kaupmaður Stefánsson annaðist þessa vörupöntunarstarfsemi Eyjamanna árið 1892. Í janúarmánuði þetta ár fengu þessi pöntunarsamtök Eyjamanna mikla vörusendingu frá Englandi. Vöruverðið var svo lágt samanborið við ríkjandi vöruverð hjá einokunarkaupmanninum, að Eyjamenn undruðust stórum.
Samanburður
Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson skráir vöruverð þetta í fréttabréf sitt frá Eyjum, sem hann birti almenningi í landinu í blaðinu Fjallkonunni árið 1893. Hér tek ég upp þann samanburð og fel Bliki mínu að geyma hann:
Útsöluverð pöntunarfélagsins og svo einokunarverzlunarinnar:
200 pd | Rúgmjöl | 16,10 | 19,00 |
200 — | Bankabygg | 18,00 | 23,11 |
200 — | Hafragrjón | 18,00 | 25,00 |
200 — | Ertur | 19,00 | 22,00 |
200 — | Flórmjöl | 24,00 | 36.00 |
1 — | Kaffi | 0,90 | 1,25 |
1 — | Kandís | 0,28 | 0,36 |
1 — | Export | 0,40 | 0,45 |
1 — | Rúsínur | 0,16 | 0,30 |
1 tunna | Steinolía | 26,50 | 34,00 |
1 pd | Tvíbökur | 0,36 | 0,45 |
60 fm. | Fjógurra pd lína | 3,00 | 4,50 |
1 pt | Fernisolía | 0,36 | 0,50 |
1 pd. | Munntóbak | 1,60 | 2,10 |
Verð á | 1. flokks þorski | 46,00 | 36,00 |
Þessar vörubirgðir entust Eyjamönnum fram á síðsumar þetta ár (1892). Þá var efnt til nýrrar vörupöntunar fyrir atbeina Gísla kaupmanns Stefánssonar.
En nú gerðust undarlegir hlutir! Þessari vörupöntun Eyjamanna var aldrei sinnt. Og aldrei fékkst skýring á því fyrirbrigði. Staðreyndin var aðeins sú, að vörupöntunin fékkst ekki afgreidd, hvernig sem á var sótt og eftir leitað.
Hver skyldi ástæðan hafa verið? Hver skyldi hafa komið ár sinni þarna fyrir borð, svo að þessari sjálfsbjargarviðleitni Eyjamanna var komið fyrir kattarnef að því sinni?
Gísli kaupmaður Stefánsson rak einkaverzlun sína til aldurtilastundar árið 1903. Mjög þótti hagstætt við hann að skipta og hann sjálfur góður viðskiptis. Hann mat menn ekki eftir klæðum eða efnahag.
Eftir að verzlun hans tók að eflast, neyddist einokunarkaupmaðurinn til að taka tillit til vöruverðs hjá honum. Ég hef átt þess kost að bera saman vöruverð hjá kaupmönnum þessum, þegar leið fram undir aldamótin og hin smáa verzlun Gísla kaupmanns var orðin býsna stór á ýmsum sviðum, t. d. um vöruverðið. Áhrifa hennar gætir mjög í daglegu vöruverði í kauptúninu. Hér berum við saman verð hjá verzlunum þessum á nokkrum neyzluvörum undir aldamótin.
1898 | G.St | J.P.T. Bryde | |
l pd | Kaffi | 0,55 | 0,65 |
1 | Kandís | 0,34 | 0,34 |
1 | Rúgmjöl | 0,07 1/2 | 0,09 |
1 | Bygg | 0,10 | 0,13 |
1 | Melis | 0,30 | 0,34 |
1 | Baunir | 0,10 1/2 | 0,12 |
1899. Á þessu ári var svo komið, að munur á útsöluverði hjá kaupmönnum þessum var sáralítill og stundum reyndist vöruverðið lægra hjá einokunarkaupmanninum gamla en Gísla kaupmanni.
Þannig varð þróunin einnig um afurðaverðið.
Árið 1901 var afurðaverðið orðið hið sama hjá báðum verzlununum
eða eins og hér segir:
Sundmagapundið | kr. 0,75 | |
1 skippund | Saltfiskur, 1. fl. | —52,00 |
1 —— | Langa | —46,00 |
1 —— | Smáfiskur | —38,00 |
1 —— | Ýsa | —32,00 |
Vissulega vekur það athygli mína, að J. P. Bjarnasen „factor“ eða verzlunarstjóri einokunarverzlunarinnar gömlu var efstur á lista yfir fasta viðskiptavini Gísla kaupmanns Stefánssonar um árabil, meðan mestu munaði um vöruverð hjá þessum verzlunum. Þar hefur „factorinn“ séð sér leik á borði. Ég undrast hugrekki hans í þessum efnum og dáist að honum.
Umboðsverzlun
Fyrir aldamótin tók frú Sigríður Árnadóttir í Frydendal, ekkja Jóhanns J. Johnsen, til að reka dálitla umboðsverzlun fyrir fyrirtæki í Reykjavík.
Þessa verzlun rak hún í stofu á neðri hæð íbúðarhúss síns, Frydendal, og seldi þar margskonar smávarning og álnavöru við hagstæðu verði. Elzti sonur hennar, Gísli Jóhannsson Johnsen, var móður sinni hægri hönd um verzlunarrekstur þennan. Þá þróaðist sú hugsun með honum, að hann skyldi efna sjálfur til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum svo fljótt sem hann fengi aldur til, en hann var þá tæplega tvítugur að aldri.
Árið 1902 tókst svo þeim mæðginum, frú Sigríði Árnadóttur Johnsen í Frydendal og syni hennar Gísla Jóhannssyni Johnsen, að ná tangarhaldi á lóð Godthaabsverzlunarinnar eða Miðbúðarinnar, sem svo var oft kölluð, fá byggingu fyrir henni. Þá hafði þar ekki verið rekin verzlun nokkur ár. Danski einokunarkaupmaðurinn hafði keypt verzlunarhúsin og flutt þau austur í Vík í Mýrdal, þar sem hann stofnaði til verzlunarreksturs á síðasta tugi 19. aldarinnar. Þá voru einnig nokkur ár liðin, síðan einokunarkaupmaðurinn hafði lagt niður Júlíushaabverzlun sína á Tanganum.
Fréttir tóku að berast
Orð bárust til Eyja og fréttir af verzlunarsamtökum bænda, samvinnusamtökum víða um landið. Sum samtökin börðust í bökkum vegna þroskaleysis fólksins sjálfs. Önnur döfnuðu vel og urðu með tímanum sverð og skjöldur félagsmanna sinna og margra fleiri í hinni daglegu lífsbaráttu. Pöntunarfélög og kaupfélög fólksins í sveit og við sjó juku samtakamátt þess, bættu hag þess og efldu trú þess á eigin mátt og félagsþroska.
Árið eftir að Gísli kaupmaður Stefánsson féll frá (1903) efndu nokkrir Eyjabændur til sameiginlegra vöruinnkaupa hjá kaupmönnunum tveim í kauptúninu, J. P. T. Bryde og Gísla J. Johnsen. Það voru bændurnir „fyrir ofan Hraun“, bændur í Ofanleitishverfinu. Þeir afhentu kaupmönnunum pöntunarlista sinn og æsktu þess, að þeir gerðu tilboð um verð vörunnar miðað við staðgreiðslu. Á þessum árum (1905 og 1906) beitti Sveinn Pálsson Scheving, bóndinn á Steinsstöðum þar í hverfinu, sér fyrir samtökum þessum. Bæði þessi ár naut Verzlun Gísla J. Johnsens þessara viðskipta, af því að hann bauð þeim vörurnar við lægsta verði. Og bændur töldu sig hafa mikinn hagnað af þessu framtaki sínu.
Segja má með sanni, að aldrei hafi peningar sést manna á milli í Eyjum einokunaraldirnar. Allt voru það reikningsviðskipti. Vörukaup skráð til skuldar. Vinnulaun færð þar inn til tekna. Þyrfti maður að greiða skuld sína, var upphæðin færð út af reikningi hans hjá kaupmanninum og inn á reikning hins, sem greiðsluna fékk. Millifærsla, millifærsla og enn millifærsla.
Hvernig fóru þá bændurnir að, þegar þeir þurftu að greiða pantaðar vörur út í hönd? Þeir höfðu nánast nurlað saman aurum og krónum fyrir fugl og fiður, sem þeir seldu einstaklingum, sem greitt gátu smávegis utan milliskriftar í verzlun einokunarkaupmannsins. Og svo kom Sparisjóður Vestmannaeyja mörgum að liði, þó að lítið fjármagn hefði til umráða, en Eyjamenn stofnuðu hann 1893, hinn eldri með því nafni.
Hér birti ég skrá yfir vörukaup hvers bónda um sig, skrá yfir það fjármagn, sem hann keypti fyrir.
Árið 1905 | Vörukaup hvers bónda | |
Sveinn P. Scheving | Steinsstöðum | 153,20 |
Sæmundur Ingimundars. | Draumbæ | 182,65 |
Sigurður Sveinbjörnss. | Brekkuhúsi | 234,98 |
Einar Jónsson | Norðurgarði | 187,45 |
Finnbogi Björnsson | Norðurgarði | 109,63 |
Jón Jónsson | Gvendarhúsi | 100,05 |
Jón Guðmundsson | Suðurgarði | 100,83 |
Einar Sveinsson | Þórlaugargerði v. | 105,98 |
Jón Pétursson | Þórlaugargerði e. | 155,48 |
Samtals kr. | 1375,25 |
Árið 1906 | Vörukaup hvers bónda | |
Sr.Oddgeir Gumundsen (þannig skrifað í handriti) | Ofanleiti | 148,90 |
Magnús Þórðarson | Dal | 400,67 |
Vigfús P. Scheving | Vilborgarst. | 406,70 |
Einar Jónsson | Norðurgarði | 417,55 |
Jón Pétursson | Þórlaugargerði e. | 331,80 |
Jón Jónsson | Gvendarhúsi | 740,80 |
Sæmundur Ingimundars. | Draumbæ | 220,20 |
Ögmundur Ögmundsson²) | Landakoti | 156,35 |
Sveinn P. Scheving | Steinsstöðum | 238,07 |
Einar Sveinsson | Þórlaugargerði v. | 254,20 |
Finnbogi Björnss. | Norðurgarði e | 311,75 |
Jón Guðmundsson | Suðurgarði | 64,80 |
Samtals kr. | 3691,87 |
Enn reitt til höggs
Liðið er fram á fyrsta tug tuttugustu aldarinnar. Samvinnuhreyfingin hefur fest rætur víða í landinu til ómetanlegs hagræðis almenningi. Spurnir berast af sigrum hennar og samtakamætti víðsvegar að. Þær góðu fréttir efldu trú landsmanna á eigin mátt og sjálfsbjörg. Þær spurnir berast einnig til Vestmannaeyja.
J.P.T. Bryde, kaupmaður, fæddist að Kornhól í Vestmannaeyjum 10. sept. 1831. Þá var faðir hans, Niels Nikolai, þar verzlunarstjóri (1831-1838). Áður var hann beykir í Höfðakaupstað á Skagaströnd. — J.P.T. Bryde gerðist einokunarkaupmaður í Vestmannaeyjum við fráfall föður síns 1879. Þegar hann lézt árið 1910, fékk frú Thore að sitja í óskiptu búi þar til verzlunin í Danska Garði var seld fyrirtækinu Duus í Reykjavík (sjá grein hér í ritinu um Kf. Fram). — Þessi dönsku hjón þóttu á ýmsa lund hinar mestu sæmdarmanneskjur, hjálpsöm og tillitssöm við fátæka, þegar dregin er fjöður yfir ýmsa atburði varðandi verzlunarreksturinn, verzlunarhætti og gróðafíkn.
Nokkrir Eyjabúa hugleiða hina breyttu tíma, hin breyttu viðhorf, og hinn hagfræðilega og hallkvæma árangur af pöntunarsamtökum bænda þar í byggð, sem Sigfús Árnason, organisti, og Gísli Stefánsson, kaupmaður, höfðu beitt sér fyrir. Var fólkið í Eyjum ekki enn vaxið því að feta í fótspor annarra landsmanna í framfara- og félagsmálum? Jú, vissulega. Hin miklu vélbátakaup Eyjamanna á árunum 1906-1908 voru óhrekjandi sannanir þess. Þau sýndu og sönnuðu, að samvinnuhneigð og samvinnuandi byggi með Eyjabúum. Ekki færri en 200 Eyjamenn áttu saman þessa 35 vélbáta, sem þá þegar voru gerðir út frá Vestmannaeyjum.
Víst var um það, að í Eyjum voru þá búsettir þeir félagshyggjumenn, sem leggja vildu mikið í sölurnar, fórna hugsun og starfsorku til eflingar hag alls almennings með því að beita sér fyrir samvinnusamtökum til ábata og hagræðis í hinu örtvaxandi viðskiptalífi með stóraukinni vélbátaútgerð frá ári til árs.
Vissulega þurfti að vinna að mun hagstæðari kaupum á öllum útgerðarvörum og daglegum vöruþörfum heimilanna, þar sem allur þorri aðkomufólksins, vertíðarfólksins, bjó hjá húsbændum sínum og atvinnurekendum. Þá þurftu öll heimili útvegsbændanna að sjálfsögðu mikils með.
Hins vegar var það svo afurðasalan, salan á þurrkuðum saltfiski, lýsi, sundmaga, hrognum o.fl., sem til féllst og hæft var til sölu.
Alveg sérstaklega voru það sameignarmenn eins vélbátsins, sem veltu því gaumgæfilega fyrir sér og íhuguðu vandlega, hvort ekki væri vert að stofna til varanlegra samvinnusamtaka í hinni örtvaxandi verstöð til þess að bæta verzlunarhættina og tryggja útvegsbændum meiri hagnað af útgerðinni. Þessir Eyjamenn voru Sigurður skipstjóri og útgerðarmaður Sigurfinnsson og sameignarmaður hans, Árni Filippusson, gjaldkeri Ísfélags Vestmannaeyja og fyrrv. barnakennari í byggðarlaginu. Skipstjórinn sigldi sjálfur fyrsta vélbátnum heim til Eyja frá Danmörku. Það var vélbáturinn Knörr.¹)
Á hinu leitinu var svo Þorsteinn Jónsson, formaður og útvegsbóndi í Laufási, sem fékk vélbát sinn til Eyja fjórum dögum síðar eða 9. sept.
1905. Hann var fluttur með skipi frá Frederikssund í Danmörku, þar sem hann var smíðaður. Það er sjálfsagt engin tilviljun, að sömu mennirnir, sem fyrstir sönnuðu meðfæddan manndóm sinn, hugrekki og dugnað með því að kaupa fyrstu vélbátana til Vestmannaeyja, beittu sér jafnframt fyrir samtökum útvegsbænda þar um hagstæðari verzlunarkjör með því að brjóta á bak aftur hið gamla einokunarvald með samvinnusamtökum fólksins.
En dok var á um stofnun þessara samvinnusamtaka. Þurfti einokunarvaldið ef til vill enn einu sinni að lyfta svipunni og reiða til höggs til þess að brýna skapið og hvessa samvinnuviljann til framtaks? Já, svo varð raunin á.
Báðir hinir ríkjandi kaupmenn í Vestmannaeyjum, Johan P.T. Bryde og Gísli J. Johnsen, fluttu til Eyja einvörðungu þær birgðir af salti, sem þeim að jafnaði voru sjálfum nauðsynlegar í fisk og svo þeim útvegsbændum og hlutamönnum, sem skiptu einvörðungu við þá. En árin 1907 og 1908 brá nokkuð til breytingar í þessum efnum hjá einokunarkaupmanninum gamla.
Verzlun J.P.T. Bryde flutti til Eyja mjög mikið salt haustið 1907 og svo á vertíð 1908. Í fyrstu varð ekki ljóslega séð, hvað fyrir vakti um þennan mikla saltinnflutning. Þurfti að óttast þurrð á salti erlendis?
Í júlímánuði 1907 fékk gamla einokunarverzlunin gufuskipið Ísafold hlaðið salti til Eyja. Meginið af þeim birgðum skyldi geymast til næstu vetrarvertíðar. Þegar svo leið fram á vertíð 1908 átti Brydeverzlun von á tveim saltförmum til Eyja. Þá virtist Edinborgarverzlunin hafa orðið takmarkaðar saltbirgðir. Þá var það, sem svipunni var brugðið á loft, svo að kviknaði í skapi hinna dokandi samvinnuleiðtoga eða væntanlegra leiðtoga.
Bryde kaupmaður hafði skrifað heim til Eyja frá bækistöð sinni í Kaupmannahöfn og boðið „faktor“ sínum að tilkynna í Vestmannaeyjum, að einungis þeir útvegsbændur og hlutasjómenn í verstöðinni, sem vildu skuldbinda sig til að selja verzlun hans allan fisk sinn, þegar hann væri fullverkaður, fengju keypt salt í aflann hjá honum, aðrir ekki.
Þetta boð einokunarkaupmannsins var gert Eyjamönnum ljóst með auglýsingu. Þær voru venjulega hengdar upp við kirkjudyr eða í anddyri Landakirkju, meðan ekkert blað var gefið út í kauptúninu.
Nokkru síðar, eða 10. 4. (1908), fékk Garðsverzlunin (Brydeverzlunin) einn saltfarminn enn. Og ellefu dögum síðar kom norska skipið Jæderen með 459 smálestir af salti til einokunarverzlunarinnar gömlu, Brydeverzlunarinnar. Enginn skyldi óttast þurrð á salti í Eyjum það árið, ef Eyjamenn vildu aðeins skuldbinda sig til þess að selja einokunarverzluninni fiskinn sinn, þegar hann væri orðinn vel þurr á stakkstæði, og þá auðvitað fyrir það verð, sem einokunarkaupmaðurinn sjálfur afréði.
¹) Báturinn náði til hafnar í Vestmannaeyjum síðari hluta dags 5. sept. 1905 í austan-suðaustan stormi eftir nokkra hrakninga á hafinu.
²) Leiðr. (Heimaslóð).
II. hluti