Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Sjóslys við Eyjar fyrir 80 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. febrúar 2016 kl. 14:54 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. febrúar 2016 kl. 14:54 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: <center><big><big>'''Guðjón Ármann Eyjólfsson:'''</big></big></center><br> <center><big><big>'''Sjóslys við Eyjar fyrir 80 árum'''</big></big></center><br> <center><big><...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson:


Sjóslys við Eyjar fyrir 80 árum


Slysið við Klettsnef vorið 1901


Á þessu vori eru 80 ár síðan mesta sjóslys, sem orðið hefur við Vestmannaeyjar gerðist, þegar áraskipið Björgólfur undan Eyjafjöllum fórst á uppstigningardag, 16. maí 1901, á Beinakeldu við Klettsnef með 27 manns. Aðeins einum manni var bjargað af kili.
Þetta hörmulega slys hér rétt við bæjardyrnar hefur lengi verið í minnum haft. Samtíma heimildir lýsa tíðarfari veturinn og vorið 1901 sem ómuna öndvegistíð.
Eins og svo oft heimti þó Ægir sínar fórnir og manngjöld og ekki var ein báran stök, því aðeins 4 dögum eftir slysið við Klettsnef fórust 6 menn 20. maí með árabátnum Sjólyst í Álnum suður af Bjarnarey. Allir utan einn voru þeir búsettir í Vestmannaeyjum.
Eftir því sem ég hef lesið meira og kannað fleiri atriði í sambandi víð sjóslysið mikla við Klettsnef verður enn ljósara hve átakanlegur harmleikur, hrikalegt og ógnvekjandi þetta slys var. Má nærri geta hvernig nánustu aðstandendum - heilli sveit, hefur liðið, þar sem dauðinn kvaddi dyra á svo til hverjum bæ í sveitinni.
Á sólbjörtum vordegi, þegar vindur kembdi ský af jökulbungu, sigldi lítið fley á sjálfan uppstigningardaginn á Drottins fund. Það sýður á hnýfli og keipum. Í skuti situr ungur fullhugi og úrtökusjómaður við stýrið.
Þrátt fyrir að svo fór sem fór er ekki annað hægt en að dáðst að stjórnsnilli og sjómennsku Björns formanns að hafa komið þessu litla skipi svo drekkhlöðnu, alla þessa leið og nærri því til Eyja í strekkingsvindi og báru.
Örskot frá landi verður svo harmleikurinn og enginn fær neitt að gert. Rétt við bæjardyrnar, fyrir allra augum, týna 27 manns lífi. Hið hörmulega slys grópaðist í huga Vestmannaeyinga. Oft heyrði ég systkinin frá Búastöðum, Eyjólf föður minn og Lovísu, tala um slysið. Eyjólfur, sem enn lifir, var þá rétt fjögurra ára (f. 22. maí 1897), en Lovísa nærri 6 ára (f. 18. júní 1895). Eyjólfur segist alltaf muna hvar hann stóð á steini við hlöðugaflinn á Búastöðum og horfði á skipið á hvolfi á Víkinni, en Lovísa minntist oft á angistarhljóð fólksins, sem heyrðust til lands.
Páll Oddgeirsson, kaupmaður og útgerðarmaður, sonur Sr. Oddgeirs Þ. Guðmundsen prests að Ofanleiti fyrir ofan Hraun minnist þessa dags í minningarriti því sem gefið var út í tilefni afhjúpunar „minnisvarða drukknaðra við Vestmannaeyjar - hrapaðra í björgum og þeirra, sem líf létu í flugferðum", 21. október 195l, en ásamt fleirum hafði Páll forgöngu um að minnismerkið var reist, þar sem það nú stendur vestan Landakirkju.
Þennan dag, 16. maí 1901, hafði Páll, sem þá var stálpaður drengur, nærri 13 ára gamall (f. 5. júní 1888), verið sendur niður í kaupstaðinn að Löndum til Sigfúsar Árnasonar organista Landakirkju. Hann var nú á leið heim og var kominn upp að Hvíld. Páll segir svo frá: „Mér verður litið til baka yfir bœinn yfir haf og hauður, sé ég þá litla depla út á hafinu við sjóndeildarhringinn nálœgt Eyjafjöllum. Hér voru skip undir seglum í hœgum austanblæ á leið til Eyja. Þegar heim var komið spyr faðir minn mig frétta úr bœnum eins og þá var venja. Ég gat ekkert sagt tíðinda annað en að ég hafði séð 3 skip vera að koma aflandi -eins ogþað var orðað- og gat þess að skipin vœru á leið frá Eyjafjöllun. Ekki leið lengri tími en að mig minnir 1 1/2 klst. að ég sá mann koma hlaupandi sem fœtur toga fram hjá Norðurgarði og tekur stystu leið að prestssetrinu Ofanleiti, var hann sendur af sýslumanni með þau boð, að stórslys hefði orðið við Klettsnef og presturinn beðinn að koma hið fljótasta niður í bœ. Faðir minn brá mjög skjótt við -og lagt var af stað og hlaupið við fót- ég fékk að fylgjast með föður mínum. Þegar að fyrrnefndri vörðu kom (Hvíld) -sáum við að stórskip frá Eyjum var komið á slysstaðinn, hafði vindur og sjór þá aukist nokkuð. Brátt vorum við komnir í bœinn niður að sjó, kom nú stórskipið með nokkur lík að landi- og voru þau flutt í svonefnda Brydestofu (dvalarstaður eigenda Brydeverslunar, er hann var á ferð). Það var hryggileg sjón að sjá líkin þarna, ég man svo vel að ungu stúlkurnar litu út í andliti eins og þær væru lifandi rjóðar í kinnum. Það hvarflaði að mér, kannski þœr vakni -en svo fór þó ekki." Sumt af fólkinu var fyrst lagt til í brekkuna vestan við Skansinn og þá þannig að fætur sneru undan brekkunni, þetta voru að sjálfsögðu hrapalleg mistök, en þá vissu menn ekki betur.
"Á þessum tíma -um og eftir aldamótin síðustu- voru bein samskipti fólks úr nærsveitum Vestmannaeyja geysilega mikil og lífleg við Eyjarnar, einkum þó meðal Landeyinga og Eyfellinga. Á vetrarvertíðum var haldið úti mörgum landskipum, sem kallað var, frá Vestmannaeyjum, en það voru skip mönnuð bændum og vinnumönnum úr þessum sveitum. Skipshafnir þeirra bjuggu í sérstökum sjóbúðum í Eyjum t.d. í Garðsfjósinu austan við Skansinn og höfðu þeir eigin bústýrur til matreiðslu og þjónustu.
Frá fornu fari voru Vestmannaeyjar verslunarmiðstöð þessara sveita og allt austur í Mýrdal. Um þessar verslunarferðir, sem oft urðu nokkrar svaðilfarir, þar sem djarft var siglt, má lesa í ritum Eyjólfs Guðmundssonar frá Hvoli (Afi og amma; og pabbi og mamma). Í hugum ungs fólks í jarðnæðislausum sveitum og fásinni voru Vestmannaeyjar ævintýralönd, sem svifu út við hafsbrún í blámóðu fjarlægðar og drauma.
Þegar vélvæðing bátaflotans hófst upp úr 1906 streymdi ungt og þróttmikið fólk úr þessum héruðum til Vestmannaeyja, þar sem það tókst á við óþrjótandi verkefni nýrra tíma, sem boðuðu miklar breytingar, vakningu og frelsisþrá meðal landsmanna.

>★<


Áraskipið Björgólfur var 12 manna far. smíðað í Vestur-Landeyjum á síðari hluta 19. aldar af Sigurði Halldórssyni í Álfhólum, sem þá bjó þar ásamt konu sinni Ingileifi Björnsdóttur. Lengi var skipið búið skautsiglingu (þ.e. þversegli) eins og hafði verið frá fornu fari. Sigurður og Ingileif fluttu árið 1885 frá Álfhólum að Skarðshlíð undir Eyjafjöllum. Sigurður endurbyggði þá Björgólf.
Vetrarvertíðina 1901 var Björn sonur hans með skipið. Björn var þá 24 ára gamall og mikill efnismaður, þjóðhagi og hvers manns hugljúfi. Afli vetrarvertíðina 1901 hafði verið allsæmilegur og tíðarfar óvenjugott.
Á þessu fagra og veðursæla vori 1901 hugðu margir Eyfellingar til Eyjaferðar og ætluðu margir að leita sér bjargar og atvinnu í Eyjum. Björn Sigurðsson í Skarðshlíð ætlaði þetta vor austur á firði, þar sem hann hafði róið nokkur sumur sem sjómaður. Hann hafði fest kaup á bát þar eystra og ætlaði að vera formaður með bátinn. Björn hafði skipshöfn sína með sér undan Eyjafjöllum og ætluðu þeir austur með „Hólum". Allt var þetta fólk á besta aldri.
Aðdraganda Eyjaferðarinnar er svo lýst í þjóðsagnakveri Einars Guðmundssonar, III. bindi, sem hér er mikið stuðst við: „Að kvöldi hins 15. maí voru líkurfyrirleiði. Vildi Björn þá fara út daginn eftir, ef auðið yrði. Uppstigningardagur hinn 16. maí, rann upp með heiðríkju og blíðu. Vestmannaeyjar stóðu í vatni. Úr landi að sjá er það gleggsta dœmi þess, að sandadautt sé. Sjór var sléttur eins og heiðatjörn, en þó seglkaldi á austan. Á betra leiði varð ekki kosið."
Uppstigningardaginn, 16. maí, fóru fjögur skip undan Vestur-Eyjafjöllum til Vestmannaeyja, þrjú skip lögðu úr Holtsvörum, sem eru á mótum Austur- og Vestur-Eyjafjalla. Skipin voru teinæringurinn Happasæll og áttæringarnir Trausti og Lítillátur. Formaður á Happasæl var Sigurður Ólafsson bóndi á Núpi, en formaður á Trausta var Friðrik Benónýsson á Núpi, síðar í Gröf í Vestmannaeyjum, faðir Binna í Gröf og þeirra systkina. Formaður fyrir Lítillát var Jón Eyjólfsson á Moldnúpi, þekktur sjósóknari þeirra Eyfellinga. Fjórða skipið var julið Blíða, sem Bergsteinn Einarsson á Fitjamýri stýrði og fór það úr Þorgeirsvörum.
Um fór Austurfjallsskipsins Björgólfs segir í þjóðsögum Einars Guðmundssonar: "Um hádegi á uppstigningardag hlóð Björn í Skarðshlíð skip sitt við vör eina utan Stóra-Borgarhóls undir Austur-Eyjafjöllum. Þaðan var stundarreið að Holtsvörum. Austur-Eyfellingum var kunnugt, að Lítillátur færi úr Holtsvörum um svipað leyti og Björgólfur utan Borgarhóls. En farþegum undan Austur-Eyjafjöllum þótti of löng leið til Holtsvara og hnöppuðust þess vegna í skip Bjarnar. Þegar hann neitaði mönnum um far vegna hœttu á ofhleðslu, báðu menn hásetana að sjá aumur á sér. Stappaði nærri að hásetarnir beittu formann sinn ofbeldi. Sögðu þeir, að leiði væri einsýnt, og höfðu í hótunum að róa ekki hjá honum um vorið, ef vinum sínum, frændum eða nágrönnum yrði synjað fars".
Það hefi ég eftir systursyni Björns, Þórði Loftssyni frá Bakka í Landeyjum, að þarna í flæðarmálinu hafi Birni verið brigslað um hræðslu, þegar hann neitaði fólki um far og flutning. Reiddist Björn, en þó ekki nóg, sagði þessi frændi hans.
Þegar Björn bannaði að sett yrði meira á skipið eggjuðu gamlir formenn mest.
Þegar allt var tilbúið til að ýta úr vör, var torfbagga kastað á skipið. Bagginn kom á ári Magnúsar bróður Björns formanns og braut bagginn árina. Var til þess tekið hvað þessi tvítugi piltur hefði þeytt torfbagganum hraustlega frá skipinu og í sjóinn.
Marga fýsti til Eyja þennan fagra vordag. Sr. Jes A. Gíslason síðar á Hól við Miðstræti. var þá sóknarprestur í Eyvindarhólum. Sr. Jes var fæddur og uppalinn í Eyjum og fluttist þangað aftur alkominn 1907. Í afmælisviðtali við hann sjötugan 1942 sagði hann svo frá þessum degi: ,,Ég hafði sem mín var venja, ætlað mér til Eyja vor þetta, og var búinn að fá far með Birni, því með honum vildi ég vera sökum ágæts kunningsskapar. En tveim dögum áður en förin til Eyja skyldi farin, minntist ég þess, að ég hafði ávallt verið vanur að ferma á hinum lögboðna vorfermingardegi, þ.e. sunnudaginn næstan fyrir Úrbanusmessu, sem ávallt ber upp á 25. maí. Eftir litla umhugsun ákvað ég að breyta nú ekki útaf þessari reglu og ákvað að hætta við ferðina, en fara heldur til Eyja að fermingu lokinni.
Tilkynnti ég Birni þessa ákvörðun mína og við það sat. Minnist ég þess enn, er ég þennan dag í góðu veðri gekk upp í húsagarðinn í Eyvindarhólum og virti fyrir mér Eyjarnar mínar, bláar af fjarlœgðinni, úti við sjóndeildarhringinn, og sá jafnframt skipið, sem ég hafði ákveðið að fara með, halda frá Sandi skammt fyrir vestan heimili mitt. Sá það sigla fullum seglum í austanblœ, yfir sléttan sœinn, út til Eyja. Grunaði mig þá sízt, að þetta yrði hin mesta feigðarfór, sem farin hefir verið frá þessum stöðvum í manna minnum og þótt lengra vœri leitað aftur í tímann."
Um hleðsluna á skipinu segir í sagnaþættum Einars: „Ein þeirra, sem neitað var um far, var 16 ára stúlka, Sveinbjörg í Hrútafelli. Í greiðaskyni við nágranna sinn kippti Guðmundur Ólafsson í Hrútafellskoti Sveinbjörgu upp í skipið, er ýtt var út. Þá fannst þeim farþegum, sem höfðu eigi farangur, þeir geta haft mann í fari sínu. Urðu þar alls 28, átta konur og tveir tugir karlmanna. Varð skipið nú mjög hlaðið. Á því voru yfir tuttugu kindur, er hafðar skyldu til þess að borga viðskipti í Eyjum. Torfbaggar voru einnig í skipinu. Ofanbyggjar í Vestmannaeyjum fluttu þá allt á klökkum, torfrista er engin í Eyjum, reiðingur var allur fenginn að. Landtorf var eftirsótt meðal annars til eldsneytis og til að tyrfa kýrbása. Hálfanker með sýru varfært í skipið, auk þess léttari varningur ýmiss konar, margir bögglar, troðnir pokar og kassar. Formaður festi tvo planka í taug við skutinn. Voru plankarnir jafnstórir, 9 álnir að lengd (5,65 metrar), en 10 þumlungar að breidd hvor þeirra." Ætlaði Björn að smíða árar úr plönkunum.

>★<


Skemmst er frá að segja, að stuttu eftir að Björgúlfur lagði frá landi hefur tekið að vinda og ber heimildum saman um það. En alkunna er, að stafalogn getur verið undir Eyjafjöllum og á Holshrauni, ef vindur er lannyrtur og er þá strekkingur til hafsins, en öldu leggur inn til landsins.
,,Hafði sjóveður ekki verið sem best þennan dag, svo að Landeyingar, er þá ætluðu út í Eyjar urðu þrisvar frá að hverfa", segir í frásögn Þjóðólfs af slysinu hinn 24. maí 1901, en í fréttablaðinu Fjallkonunni segir 23. maí: „Stormur nokkur mun hafa verið og úfinn sjór".
Þórður Loftsson, sem fyrr er nefndur sagði, að nokkrum dögum áður hefði Guðlaugur í Hallgeirsey komið úr Eyjaferð og hefði hann lent skipi sínu, áttæringnum Trú, nokkuð fyrir austan Tangann. Að morgni uppstigningardags kom skip úr Eyjum og lenti það þarna skammt frá. Sjór var þá vatnsdauður. Nokkru síðar, þegar menn voru að setja skipið hærra upp á kambinn, ætlaði Sigfús, sonur Guðlaugs á Trú út til Eyja, en Sigfús var sem faðir hans mikill sjómaður og er lýst sem listaformanni. Nú brá svo við, að happaskipinu Trú sló upp, og bað þá Sigfús hina skipshöfnina að koma mönnum sínum til hjálpar. Reyndu þeir tvisvar að setja Trú fram, en straumur var svo sterkur á grunnsævi við Tangann, að sagan endurtók sig. Sagði þá Sigfús í Hallgeirsey: „Það er eitthvað illt í vœndum, úr því hún Trú vill ekki fara", og var þá hætt við Eyjaferðina, en stuttu seinna hvessti og sjór varð alófær. Þórður hafði þetta eftir Jónasi Jónassyni í Hólmahjáleigu, sem var í sandi og var einn skipverja á skipinu, sem kom úr Eyjum.

>★<


Halla húsfreyja á Kirkjubæ hafði verið úti við, en inni í bæ sátu þeir mágarnir, Guðjón Eyjólfsson maður Höllu, bróðir hennar Magnús Guðmundsson formaður á Vesturhúsum og Jóel Eyjólfsson, bróðir Guðjóns, síðar á Sælundi. Þeir höfðu hist að gömlum sið til að drekka skipskaffið, sem kallað var. Halla kom hlaupandi inn í bæ og kallaði: ,,Guð hjálpi mér. Ég held að það sé að sökkva skip í Flóanum. Þeir ausa með tveimur trogum." Klukkan var þá um hálffjögur, svo að drjúgur skriður hefur verið á drekkhlöðnu skipinu austan undan Eyjafjöllum.
Karlmennirnir þustu út og var skipið þá að fara í kaf og seig niður á endann. Skipið kom brátt aftur úr kafi og þá á hvolfi. Maður við mann virtist vera á kili og við skipið, en austankyljan skall á skipinu og bylti því til.
Þeir Magnús, Guðjón og Jóel voru allir léttleikamenn og hlupu sem fætur toguðu niður í sand eins og þá var sagt. Þegar þangað kom var Hannes lóðs að fara út frá Austurbúðarbryggjunni til björgunar á Fjallaskipinu Lítillát, sem þá var nýlent. Slysið hafði sést af Skansinum og víðar af austureyjunni og barst fréttin eins og eldur í sinu um Eyjarnar. Magnús á Vesturhúsum kallaði til manna og spurði hverjir vildu koma með honum til björgunar og gáfu sig fleiri fram en þurfti til þeirrar farar.
Magnús tók nú við stjórn á Fjallaskipinu Trausta, sem var nýlent og lá við Miðbúðarbryggju. Var róinn lífróður út Leiðina og sagði Magnús síðar svo frá, að hann hefði aldrei öðru sinni séð fastar sóttan róður eða hraustlegar fallið á árar, en Magnús var mikill sjósóknari og aflasæll formaður á áraskipinu Ingólfi.
Skipin komu að Björgúlfi um svipað leyti, nærri hálfri stundu eftir slysið, og var þá aðeins einn maður, Páll Bárðarson frá Raufarfelli, síðar í Ytri-Skógum á kili. Hann var sá eini, sem komst lífs af. Aðkoman var hörmuleg, karlar og konur flutu liðin á farviðum og farangri skipsins, en aðrir vegna flots í klæðum sínum. Náðust 8 lík upp í skipin, 5 konur og 3 karlmenn, auk Páls. Ekki var tafið við farangur heldur haldið strax í land. Vegna sjógangs var þá orðið of hvasst til að lenda við Austurbúðarbryggjuna, sem var þar sem loðnuþrær FES eru núna, og var því lent við Stokkhellu, þar sem Bæjarbryggjan var síðar byggð.
Slysið var reiðarslag fyrir Eyjafjallasveit. Margt af fólkinu var náskylt og tengt, en 24 börn urðu föðurlaus. Af þeim sem fórust voru þrenn systkin og unnusta eins þeirra.

Þeir sem fórust með Björgólfi voru:
1.Anna Salómonsdóttir vinnukona Eyvindarhólum, 60 ára. Tengdarmóðir Jóns Ólafs nr. 14.
2.Árni Björnsson bóndi Minni-Borg, 64 ára.
3.Árni Runólfsson bóndi Yztabœliskoti, 40 ára lét eftir sig 2 ung börn.
4.Árni Sigurðsson bónda Sveinssonar á Rauðafelli, 20 ára ókvœntur.
5.Bjarni Inginumdarson vinnumaður á Raufarfelli, 27 ára.
6.Bjarni Sveinsson vinnurnaður frá Ytri-Skógum, 31 árs.
7.Björn Sigurðsson bónda Halldórssonar í Skarðshlíð, 25 ára, formaður á Björgólfi. Björn og Magnús bróðir hans nr. 16 voru bræður Halldórs úrsmiðs, en systir Halldórs eru hið þekkta tónskáld og málari Sigfús (Stjáni blái; Litla flugan o. fl.) og Guðjón aðstoðarforstjóri Fiskveiðisjóðs.
8.Einar Einarsson bóndi Raufarfelli, 48 ára. lét eftir sig ekkju og 5 börn, hið elsta 15 ára.
9.Finnur Sigurfinnsson bóndi Stóru-Borg, 45 ára, lét eftir sig ekkju og 6 börn, hið elsta 9 ára. Faðir Friðfinns á Oddgeirshólum og þeirra systkina.
10. Guðmundur Jónsson vinnumaður ti Leirum, lét eftir sig konu og 1 barn.
11. Guðmundur Úlafsson bóndi á Syðri-Hrútufellskoti, 45 ára, lét eftir sig ekkju og 4 börn og 1 fósturbarn.
12. Guðný Bjarnadóttir, vinnukona Löndun Vestmannaeyjum, systir Sigurjóns nr. 20. Var í suttri heimsókn undir Eyjafjöllum.
13. Halldór Jón Stefánsson bóndi á Rauðafelli, 69 ára, lét eftir sig ekkju og uppkomin börn.
14. Jón Ólafur Eymundsson vinnumaður Eyvindarhólum, mágur Sr. Jes A. Gíslasonar og Halldórs úrsmiðs; bróðir Ágústu á Hól og Guðrúnar móður Sigfúsar tónskálds; sjá nr. 7.
15. Kort Hjörleifsson bóndi Berjaneskoti, 68 ára, lét eftir sig ekkju.
16. Magnús Sigurðsson frá Skarðshlíð, 20 ára, bróðir Björns nr. 7.
17. Oddur Oddsson Ytri-Skógum, 26 ára; bjó þar með móðir sinni sem var ekkja.
18. Rannveig Gísladóttir frá Eystri-Skógum, 19 ára, unnusta Sigurjóns Bjarnasonar nr. 20.
19. Sigfús Jónsson Jónssonar bónda frá Lambafelli, 22ja ára.
20. Sigurjón Bjarnason skósmiður í Eystri-Skógum, 28 ára. Hann var unnusti Rannveigar nr. 18 og bróðir Guðnýjar nr. 12, en þau voru börn Bjarna Þorsteinssonar og Sigríðar, sem voru gift vinnufólk hjá Jóni í Gvendarhúsi og Sesselju konu hans.
21. Stefán tómasson bóndi á Rauðafelli, 35 ára, lét eftir sig konu og 5 börn. Það elsta var 9 ára. Faðir Þórðar Stefánssonar formanns í Vestmannaeyjum, sem síðast bjó í Haga við Heimagötu. 22. Steinn Guðmundsson, vinnumaður í Drangshlíð, 20 ára.
23. Sveinbjörg S. Sigurðardóttir frá Rauðafelli, systir Árna nr. 4.
24. Sveinbjörg J. Þorsteinsdóttir bónda á Hrútafelli, 16 ára.
25. Vilborg Brynjólfsdóttir Tómassonar bónda á Sitjanda, 16 ára.
26. Þórunn A. J. Sigurðardóttir Sveinssonar frá Nýborg í Vestmannaeyjum, 16 ára. Hún hafði vetrardvöl á landi.
27. Þuríður Bergsdóttir, vinnukona Skarðshlíð, 17 ára.

Á bæjunum Eystri-Skógum, Rauðafelli og Skarðshlíð, sem þrennt eða fernt drukknaði frá var ýmist tví- eða margbýli. Ytri-Skógar er nú venjulega nefnt Skógar og er þar Skógaskóli, Byggðasafn o.fl.
Sá eini, sem bjargaðist var sem fyrr segir 'Páll Bárðarson frá Raufarfelli, 26 ára, síðar bóndi í Ytri-Skógum. Páll var hraustmenni og sterkur maður. Hann var orðinn nærri meðvitundarlaus, er hjálpin barst, en hélt sér svo fast í kjölinn, að erfitt var að losa hendur hans.
Ekki hefur tekist að ná í myndir, nema af þeim sem hér birtast myndir af.