Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. desember 2015 kl. 15:20 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. desember 2015 kl. 15:20 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA


Að venju er í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja minnzt hér þeirra manna, sem hafa horfið af sjónarsviðinu frá síðasta sjómannadegi og settu svip sinn á sjósókn héðan og framleiðslustörf.
Aðalhófundur þessara greina er gamall sjómaður, Eyjólfur Gíslason fyrrum skipstjóri, sem stundaði sjó héðan um 50 ár og gjörþekkir starf þessara manna, enda nokkrir þeirra samstarfsmenn hans og félagar á sjó og í fjöllum.
Hér er aðeins vikið að starfi þessara manna sem sjómanna eða framlagi þeirra og störfum við sjávarsíðuna. Allir áttu þeir kæra ástvini eða fjölskyldu, en þess mikilvæga þáttar í lífi þeirra er ekki getið hér.
Með greinum þessum á að geymast mynd og minning þessara manna frá atvinnulífinu við sjóinn.
Allt of margir sjómenn og aðrir, sem hafa átt ómetanlegan þátt í framvindu þessa byggðarlags, liggja óbættir hjá garði og hefur aldrei verið að neinu getið.
Við vonum, að þessar myndir, sem hér er brugðið upp, varpi betra Ijósi á atvinnusögu okkar og líf og störf sjómanna í Vestmannaeyjum.
Ritstj.

Guðmundur Ólafsson
Hrafnagili
f. 21. feb. 1883 — d. 20. sept. 1965

Guðmundur Ólafsson var fæddur að Hallgeirsey í Landeyjum 21. febrúar 1883. Ungur fluttist hann með foreldrum sínum að Lágafelli í Landeyjum, og þar ólst hann upp.
Guðmundur mun hafa byrjað að róa frá Landeyjarsandi um fermingaraldur, eins og þá var venja með allflesta drengi, sem ólust upp við sjávarströnd, þar sem útræði var stundað.
Um tvítugsaldur byrjaði hann að róa héðan frá Eyjum, og 1906 réri hann hjá Magnúsi Þórðarsyni í Sjólyst á Fálkanum, sem var teinæringur með færeysku lagi. Er það áreiðanlegt, að Guðmundur hefði ekki fengið skiprúm hjá Magnúsi í Sjólyst, ef ekki hefði farið orð af honum sem góðum og dugandi sjómanni. En Magnús var þá einn af mestu fiskimönnum Eyjanna og valinn maður í hverju rúmi á Fálkanum.
Rétt fyrir síðustu aldamót og á tveimur fyrstu tugum þessarar aldar, fóru margir Eyjamenn til sjóróðra á Austfjörðum, og var Guðmundur Ólafsson einn í þeirra hópi vorið 1904. Fór hann það sumar til Seyðisfjarðar og réðst þar vélamaður á lítinn mótorbát, sem hét Bjólfur. Vélin var 6 hestafla Dan-mótor. Það má því telja fullvíst, að Guðmundur Ólafsson hafi verið fyrsti sunnlenzki vélstjórinn, og varð vélgæzlan ævistarf hans. Var Guðmundur vélamaður á eftirtöldum Eyjabátum: Bjögvin, Marz, Skuld, Ísleifi og Þegar hann hætti á sjónum um 1940, gerðist hann vélstjóri hjá Fiski og ís og síðar [[Vinnslustöðin Hf||Vinnslustöðinni og starfaði þar til dauðadags.
Guðmundur var farsæll og góður vélstjóri, og fór orð af, hve umhirða hans var til fyrirmyndar, enda var hann hinn mesti hreinIætis- og snyrtimaður.
Hingað til Eyja fluttist hann alkominn árið 1909, og tveimur árum síðar byggði hann íbúðarhús hitt, Hrafnagil, þar sem hann bjó alla ævi síðan, og var hann alltaf kenndur við það hús.
Hann andaðist 20. september 1965.

Þorbjörn Arnbjörnsson
Reynifelli
f. 8. okt. 1886 — d. 10. nóv. 1965

Þorbjörn Arinbjörnsson var fæddur í Vestmannaeyjum 8. október 1886. Kornungur var Þorbjörn tekinn í fóstur að Landakoti til föðurbróður síns Ögmundar Ögmundssonar og konu hans Vigdísar Árnadóttur, er bjuggu þar allan sinn búskap. Ólst hann upp hjá þeim hjónum og dvaldist hjá þeim, þar til hann stofnaði sitt eigið heimili. Þorbjörn var bráðþroska unglingur og kappgjarn. Fór hann því ungur að vinna og róa á vetrarvertíð, þegar sílferðin (loðnan) kom, en henni fylgdi ætíð mikill fiskur.
Vertíðina 1901 tóku fjórir drengir sig saman, fengu lánaðan vorróðrabát og ýttu úr vör. Þessir drengir voru Árni Sigfússon Löndum 14 ára, Árni Oddsson Oddsstöðum 13 ára (síðar á Burstafelli), Sigfús V. Scheving Vilborgarstöðum 14 ára og Þorbjörn í Landakoti 14 ára.
Árni Sigfússon var formaðurinn. Ekki líkaði eldri sjómönnum né nánustu ættingjum drengjanna uppátæki þeirra, þó að þeir fiskuðu vel. En sennilega hafa eldri sjómenn haft góðar gætur á þeim, því að það kom fyrir, að þeim var skipað að fara í land.
Þetta úthald var mikið umtalað og lengi í minnum haft.
Eftir þessa vertíð fékk Þorbjörn að róa á áttæringnum Gideon sem hálfdrættingur, þegar sílfiskurinn kom. Var hann þar í skjóli fóstra síns. Reyndist Þorbjörn fljótlega svo netfiskinn, að hann fékk heilan hlut, á meðan róið var með handfærin.
Þorbjörn var einn af þeim Vestmannaeyingum, sem réðust til handfæraveiða sumarúthald á kútter Ríper. Var það eina handfæra-skútan, sem Vestmannaeyingar keyptu á Skútuöldinni um og eftir aldamótin. Var Ríper gerður héðan út í stuttan tíma.
Þorbjörn eignaðist tíunda hlut í einum af fyrstu mótorbátunum. Var það Vestmannaey, sem Sigurður Ingimundarsson var formaður á, og reri Þorbjörn með honum. Þorbjörn stundaði hér sjóinn fram til 1919 og var síðustu vertíðirnir á m/b Ingólfi VE 108 með Guðjóni á Sandfelli. Var hann með Guðjóni vertíðina 1916, þegar m/b Haffari fórst, þar áður var hann með Þórði á Bergi á eldri Enok.
Þorbjörn vann hér við byggingu beggja hafnargarðanna, frá því verkið hófst og þar til því var lokið.
Þegar Hörgeyrargarðurinn var byggður, vann hann lengst af við handborun og sprengingar sunnan í Hettu á háum vinnupöllum uppi í miðju bergi, en grjótið í norðurgarðinn var aðallega úr Hettu.
Þegar Þorbjörn hætti á sjónum, gerðist hann netamaður og hafði þá stundum veiðarfæri af tveimur bátum sömu vertíðina til umhirðu og viðhalds, sem venjulega var þó tveggja manna verk.
Síðustu æviárin átti Þorbjörn við vanheilsu að stríða, en samt vann hann fram á það síðasta við netabætingar og hnýtingu hanka og línuábótar á heimili sínu. Hann andaðist 10. nóvember 1965.
Þorbjörn var einn af þessum yfirlætislausu mönnum, sem vann öll sín verk af kappi og trúmennsku. Þá mætu menn er gott að kveðja, og þeir eiga allra þökk.

Sigurður Jónatansson vitavörður
f. 3. des. 1897 — d. 4. maí 1966<br

Sigurður Jónatansson vitavörður í Stórhöfða var fæddur í Garðakoti í Mýrdal 3. desember 1897. Fluttist hann með foreldrum sínum til Vestmannaeyja árið 1910, er faðir hans varð vitavörður í Stórhöfða, og dvaldist hér upp frá því.
Sigurður tók við vitavarðarstarfinu að föður sínum látnum árið 1935 og gegndi því af einstakri trúmennsku til dauðadags, 4. maí 1966.
Starf vitavarðanna er svo nátengt sjómannsstarfinu, að sannarlega má sjómannastéttin minnast þeirra með virðingu og þökk.
Fáir munu hafa þráð frekar Ijósið eða glaðzt meira yfir að sjá það heldur en sjómaðurinn, þegar hann á dimmum nóttum og í illviðrum sá Ijósið á vitanum, sem stefna skipsins hafði verið sett á, og það vísaði honum leið til hafnar eða í landvar. En áður en miðunarstöðvar og ratsjár komu til sögunnar, til öryggis og leiðbeiningar sjófarendum, var ekki á annað að treysta við landtöku en ljósvitann.
Vitavarðarstaðan var og er því ábyrgðarmikið starf, sem athugula og samvizkusama menn þarf til að gegna. Má nærri geta, hve erfitt og hættulegt það getur verið að næturIagi í ofsaveðrum að halda glerjunum hreinum fyrir krapi og snjó.
Auk vitavarðarstarfsins hafði Sigurður einnig á hendi veðurathuganir allan tíma sólarhringsins. Var Sigurður sérstaklega skyldurækinn og trúr við þær athuganir, og hefur ætíð mátt telja til viðburða, ef veðurlýsingu vantaði frá Stórhöfða.
Allir sjómenn, sem hafa notið Ijósgjafans frá Stórhöfða, blessa minningu Sigurðar og þakka honum vel unnin störf.

Bjarni Sveinsson
Hvanneyri
f. 14. nóv. 1877 — d. 28. júní 1966

Bjarni Sveinsson var fæddur 14. nóvember 1877 í Meðallandi í Austur-Skaftafellssýslu, og ólst hann þar upp. Hingað til Vestmannaeyja kom hann fyrst árið 1905 og reri þá vertíð á áttæringnum Elliða. Var hann til húsa hjá Guðlaugi Vigfússyni á Vilborgarstöðum.
Upp frá því mun Bjarni hafa róið hér á hverri vertíð fram yfir 1930, lengst af með Magnúsi Magnússyni á Felli á m/b Kristbjörgu, sem var 8 1/2 tonn að stærð. Var Bjarni á þeim báti til 1920 og vélamaður frá 1911, en um það leyti fluttist hann alkominn hingað til Eyja.
Bjarni var hér formaður í 10 ár með m/b Ásu, sem var rúm 6 tonn að stærð. Lét hann smíða Ásu og átti hana að hálfu á móti Ágústi Guðmundssyni í Ásnesi. Fórst Bjarna vel formennskan eins og annað, er hann lagði hug og hendur að.
Bjarni á Hvanneyri var traustur maður, vandaður til orðs og verka, hvort heldur var á sjó eða landi, og hafði því hylli samstarfsmanna sinna.
Stuttu eftir 1930 gerðist Bjarni starfsmaður í Vélsmiðjunni Magna, og vann hann þar fram á elliár, lengst af við rennismíði.
Hann andaðist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 28. júní 1966.

Guðjón Jónsson
Hlíðardal
f. 15. des. 1899 — d. 8. júlí 1966

Guðjón Jónsson í Hlíðardal var fæddur að Steinum undir Eyjafjöllum 15. desember 1899, og þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum við þröng kjör. Missti faðir hans heilsuna, þegar Guðjón var á barnsaldri.
Guðjón varð því fljótt að byrja að vinna og afla heimilinu lífsviðurværis, ásamt systkinum sínum og góðri og dugmikilli móður. Kom hann 16 ára gamall í atvinnuleit til Vestmannaeyja og var þá vertíð beitudrengur á m/b Austra með Ólafi Ólafssyni í Bifröst, er síðar fórst sem stýrimaður á Rigmor haustið 1918.
Um 1920 fluttist Guðjón ásamt systkinum og móður, sem þá var orðin ekkja, til Vestmannaeyja.
Fljótlega kom í ljós mikill áhugi og dugnaður hjá Guðjóni við sjómannsstarfið. Keppti hann snemma að því að verða sjálfstæður maður á þeim vettvangi, og 23ja ára gamall gerðist hann eigandi að 1/4 í mótorbát.
Formennsku sína byrjaði Guðjón árið 1930 með m/b Siggu litlu, sem var 5,3 tonn að stærð. Var hann síðan með eftirtalda báta sem hann var sjálfur eigandi að: Elliða (ex Hebron), Gullfoss og Skuld. Var Skuldin stærst þessara báta, rúm 16 tonn að stærð. Aðallega stundaði Guðjón dragnóta- og handfæraveiðar, en síðustu árin fékkst hann við Iúðuveiðar með línu, þegar leið á sumarið.
Hann var einn mesti fiskimaður Eyjanna með dragnót, enda miðaglöggur og kunnugur með það veiðarfæri, svo að af bar. Var hann hér farsæll formaður í 32 ár.
Guðjón var kjarkmaður, enda lipur og góður fjallamaður. Hann var einn af þeim síðustu, sem aðsóttu Heimaklett við fýlatekju.
Guðjón í Hlíðardal var skýr og skemmtilegur maður, sem naut fyllsta trausts samstarfsmanna sinna og átti marga góða kunningja í þeirra hópi. Hann lézt að heimili sínu 8. júlí 1966.

Guðlaugur Einarsson
f. 2. des. 1919 — d. 22. sept. 1966

Guðlaugur Einarsson var fæddur á Fáskrúðsfirði 2. desember 1919. Aðeins 15 ára gamall fór hann að stunda sjóinn með föður sínum Einar Björnssyni, sem var formaður þar eystra.
Guðlaugur fluttist til Eyja árið 1939 með foreldrum sínum og systkinum. Upp frá því var hann sjómaður á bátum héðan til dánardægurs. Var Guðlaugur úrvalssjómaður, mjög fjölhæfur til allra verka og áhugasamur í starfi.
Hann var góður félagi, og unglingar, sem byrjuðu að vinna með honum á sjónum, báru til hans hlýjan hug, því að hann var þeim nærgætinn og góður og sagði þeim vel til verka. Lýsir þetta honum bezt sem góðum dreng.

Andrés Einarsson
f. 22 janúar 1892 — d. 27. nóv. 1966

Hann var fæddur að Þórisholti í Mýrdal 22. janúar 1892 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum.
Til Vestmannaeyja fluttist hann 16 ára gamall og fór þá vinnumaður að Kirkjubæ til hjónanna Sigurlaugar Guðmundsdóttur og Ísleifs Guðnasonar. Var hann á því heimili mörg ár.
Fyrstu vertíðirnar var Andrés beitumaður á m/b Sigríði VE 113 sem var rúm 7 tonn, með 8 hestafla DAN-vél. Var Vigfús í Holti formaður á þeim báti. Á Sigríði byrjaði Andrés að róa, og kom þá fljótlega í ljós, að hann var góður sjómaður. Byrjaði Andrés formennsku árið 1922 á m/b Braga VE 165, sem var 9 tonn að stærð. Andrés var sína fyrstu vertíð sem formaður bæði harðsækinn og fiskheppinn, svo að honum buðust þegar stærri bátar. Var hann næstu vertíð með m/b Friðþjóf VE 98, þar næst m/b Heimaey VE 7 eina vertíð. Með Ísleif VE 63 var Andrés 8 vertíðir, og að síðustu var hann lengi með Maí VE 275.
Eftir 25 ára skipstjórn hætti Andrés á sjónum vegna lasleika og gerðist þá vélgæzlumaður á dýpkunarskipinu Vestmannaey, en hann var góður vélamaður og vélstjóri á bátum hér og á Austfjörðum, áður en hann byrjaði formennsku.
Síðustu árin var hann sjóveitustjóri.
Andrés var mjög ábyggilegur í öllum sínum störfum og mætur maður.

Guðjón Einarsson
Breiðholti
f. 18. okt. 1886 — d. 11. des. 1966

Guðjón Einarsson var fæddur að Hallgeirsey í Landeyjum 18. október 1886. Ólst hann upp í foreldrahúsum í Hallgeirsey við þröngan kost, því að systkinin voru mörg og þá mjög þröngbýlt í Hallgeirsey og bústofninn lítill, sem víða annars staðar á þeim árum. Guðjón byrjaði því mjög ungur að vinna fyrir sér, og um fermingaraldur fór hann til sjóróðra á hinu happasæla skipi Landeyinga, Trú, sem var róið frá Landeyjasandi tugi vertíða, allt fram yfir 1920.
Guðjón fluttist hingað til Eyja árið 1912 og stundaði sjómennsku fyrstu árin, en áður hafði hann róið hér á vetrarvertíðum. Hann vann lengst af við fiskaðgerð og fiskmat, og síðustu æviárin hafði hann yfirumsjón með söltun og verkun hrogna. Var hann yfirmatsmaður við þá verkun og naut mikils og verðugs trausts allra.
Guðjón í Breiðholti var vel látinn maður, góður og traustur vinnufélagi, sem samstarfsmönnum þótti vænt um.
Hann unni Eyjunum, og hér vann hann sitt ævistarf til heilla og uppbyggingar þessum bæ. Guðjón andaðist í Reykjavík 11. desember 1966 og var að eigin ósk jarðsettur hér í garði Landakirkju.

Ottó Hannesson
Hvoli
f. 5. ágúst 1915 — d. 26. des. 1966

Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 5. ágúst 1915, sonur hinna kunnu dugnaðarhjóna Magnúsínu Friðriksdóttur frá Gröf og Hannesar frá Landakoti.
Ottó var því sjómennskan í blóð borin, og varð hún hans ævistarf. Gerðist hann ungur sjómaður og fljótlega vélamaður, en frá bernsku hneigðist hugur hans að vélum.
Ottó Hannesson var vélstjóri á mörgum bátum um tugi ára og reyndist traustur maður í því starfi. Hann var fáskiptinn og dulur í skapi, en góður félagi og æðrulaus, þegar mest á reyndi.
Ottó lézt að heimili sínu á Hvoli 26. desember 1966.

Jón Guðjónsson
Þorlaugargerði
f. 2. ágúst 1903 — d. 12. feb. 1967

Jón Guðjónsson í Þorlaugargerði var fæddur að Oddsstöðum 2. ágúst 1903, sonur Guðjóns Jónssonar bónda þar og fyrri konu hans Guðlaugar Pétursdóttur. Var Jón einn hinna mörgu og góðkunnu Oddsstaðasystkina. Tveggja ára gamall var hann tekinn til fósturs að Eystra-Þorlaugargerði til móðurbróður síns Jóns Péturssonar og konu hans Rósu Eyjólfsdóttur frá Kirkjubæ. Ólst hann upp hjá þeim hjónum við gamla og góða heimilissiði og skyldurækni í störfum og var sem þeirra sonur.
Um fermingaraldur fór Nonni að róa með Jóni fósturföður sínum á litlum árabáti, sem Jón Pétursson átti allan sinn búskap. Reru þeir með handfæri úr Klaufinni, sumar og haust, eins og aðrir Ofanbyggjarabændur á þeim árum.
Ungur byrjaði Jón að beita á m/b Nansen hjá föðurbróður sínum Jóhanni á Brekku. Um tvítugt réðst hann sjómaður til Valdimars Bjarnasonar á m/b Lagarfoss og m/b Heimaey og var með Valdimari þar til hann fluttist frá Vestmannaeyjum. Nokkrar vertíðir var Jón með Guðjóni Tómassyni á m/b Ingólfi Arnarsyni og Fylki. Eftir það réðst Jón á m/b Lunda til Þorgeirs Jóelssonar, og var hann síðan með Þorgeiri á Lundanum um 20 vertíðir.
Alls mun Jón hafa stundað sjómennsku hér nær hálfan fjórða tug ára. Jón Guðjónsson var mjög lipur og góður sjómaður og ábyggilegur til allra verka, enda var hann óvenju fjölhæfur verkmaður og svo vandvirkur og trúr í störfum sínum, að orð fór af.
Um 30 ára skeið vann hann að skipaviðgerðum og nýsmíði hjá skipasmíðastöð Gunnars M. Jónssonar. Í fyrstu smíðaði hann þar á milli vertíða, einkum haustmánuðina, en síðustu árin, eftir að hann hætti á sjónum, allt árið. Var hann þar sem annars staðar mikils metinn fyrir störf sín og framkomu.
Jón var aðgætinn og góður fjallamaður og stundaði mikið fjallaferðir, bæði fuglaveiðar og eggjatekju, meðan það var nytjað til búsældar.
Jón unni mjög Vestmannaeyjum og æskustöðvum sínum og var einn af beztu sonum þessarar Eyju. Hann var trygglyndur og drengur góður. Sýndi hann það í verki, hve vel hann reyndist Rósu fósturmóður sinni og æskuheimili, er hún varð ekkja. Að henni Iátinni fluttist Jón að Þorlaugargerði og bjó þar til æviloka.