Menning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. maí 2007 kl. 01:36 eftir Margret (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. maí 2007 kl. 01:36 eftir Margret (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Vestmannaeyjar hafa verið mikilvægasta verstöð landsins til fjölda ára og byggist afkoma heimamanna að mestu leyti á fiskvinnslu og útgerð. Auk þess eru ört vaxandi atvinnuvegir eyjaskeggja í dag ferðaþjónusta, verslun, skipaviðgerðir og menntun. Vestmannaeyingar vonast til að ferðaþjónusta aukist, bæði til að bæta atvinnuástand og svo fleiri fái að upplifa það sem eyjarnar hafa að bjóða upp á. Eyjum hafa verið teknir upp nokkrir sjónvarpsþættir og kvikmyndir.

Skólamál

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er í stöðugri sókn, meðal annars er reynt að lokka námsmenn annars staðar af landinu til Eyja en tilraunir hafa staðið yfir með að bjóða námsmönnum af Suðurlandi til Eyja. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa komið sér upp útibúum á Heimaey og er öflugt starf unnið í fjarnámi, þar sem boðið er upp á kennaranám, viðskiptafræði og margt fleira. Grunnskólarnir í Vestmannaeyjum eru tveir, Barnaskólinn í Vestmannaeyjum og Hamarsskóli Vestmannaeyja. Grunnskólarnir voru nýlega sameinaðir undir einni yfirstjórn. Grunnskólinn mun bera nafnið Grunnskóli Vestmannaeyja og skólastjóri er Fanney Ásgeirsdóttir. Þrír leikskólar sinna yngstu kynslóðinni; Rauðagerði, Kirkjugerði og Sóli. Til þess að ná að bjóða öllum börnum undir grunnskólaaldri leikskólavist er verið að undirbúa byggingu á nýjum sex deilda leikskóla sem mun rísa á Sóla-lóðinni. Árið 2007 voru Rauðagerði og Sóli sameinaðir undir nafni Sóla í hinu nýja glæsilega húsnæði. Gamli Sóli hefur verið rifinn.

Söfn

Mörg söfn eru í Vestmannaeyjum, en Safnahús Vestmannaeyja sem stendur við Ráðhúströð hýsir Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja, Bókasafn Vestmannaeyja og Byggðasafn Vestmannaeyja. Einnig er þar til húsa Ljósmyndasafn. Við Heiðarveg stendur Náttúrugripasafn Vestmannaeyja, en það er eina safnið af sinni gerð á Íslandi. Við Skansfjöru er húsið Landlyst, sem var áður staðsett á Tanganum, suður af Básaskersbryggju, en það hús var fyrsta fæðingarheimilið á Íslandi, og er það nú notað til listsýninga af ýmsu tagi. Ríkisstjórn Íslands keypti í desember 2004 afnotarétt af myndum Sigmunds sem hafa birst í áraraðir í Morgunblaðinu, og eru áætlanir um að setja upp safn af þeim í fyrirætluðu menningarhúsi. Í Eyjum er fjöldi listaverka og minnisvarða.

Orðaforði og málvenjur

Algengt var að eldri Vestmannaeyingar töluðu með flámæli, en það er óalgengara meðal yngri kynslóðanna og er flámæli nú nær óþekkt. Í einöngruðum samfélögum á borð við það sem er í Vestmannaeyjum má búast við að nokkuð sértækur orðaforði verði til. Nokkur dæmi um slík orð eru:

  • útsuður - suðvestur, í átt að eyjunum sem eru þar, Suðurey, Brandi , og fleiri.
  • landsuður - merkir á sama hátt suðaustur.
  • landnorður - norðaustur, í átt að meginlandi Íslands. Í landnorðri eru Elliðaey og Bjarnarey, því að oftast er miðað við Heimaey í þessum áttalýsingum.
  • útnorður - merkir á sama hátt norðvestur.
  • Áður fyrr var algengt að Eyjamenn töluðu um að hann væri að ganga í lannering sem er afbökun á „landnyrðing“ norðaustanátt. Á sama hátt var talað um útsyning sem er afbökun á „útsynning“ suðvestanátt.
  • Þessi heiti á áttum og vindáttum eru reyndar vel þekkt um nær allt land og eru ævagömul. Landnámsmenn tóku þessar áttakenningar með sér frá Noregi þar sem þær voru bundnar við staðhætti á vesturströndinni og áttu þær því misjafnlega vel við hér á landi. Í Vestmannaeyjum falla þær einkar vel að staðháttum og hafa því lifað góðu lífi hér, allt fram á okkar daga meðan þessi áttaheiti eru minna notuð annars staðar á landinu.
  • peyi - ungur strákur. Einnig hefur orðið polli skotið upp kollinum á seinni árum, líklega fyrir áhrif ofan af fastalandinu.
  • pæja - ung stúlka. Samanber Pæjumótið í fótbolta. Þetta orð er þó mun yngra í málfari Eyjamanna en peyi og áður fyrr var ævinlega talað um stelpur..
  • lagga - lögga. Sérstök mynd af orðinu, og á meðal barna er frasinn „lagga tagga táfýla“ oft notaður.
  • tríkot - íþróttagalli. Orðið er komið af því þegar ÍBV pantaði íþróttagalla erlendis frá rétt eftir miðja síðustu öld, en allir gallarnir sem komu voru merktir framleiðanda þeirra - Tricot. Frá þeim tíma hafa íþróttagallar af öllum toga hlotið þetta heiti.
  • gæjalegt - tiltölulega nýtt orð í orðaforða Eyjamanna en þar sem aðrir landsmenn nota orðið, eðli þess samkvæmt, yfir karlkynið, gera Eyjamenn engan greinarmun á kynjum og tala gjarnan um að stúlka, sem þeim þykir álitleg, sé gæjaleg.

Þjóðhátíð

Sjá aðalgrein:Þjóðhátíð

Fræg er þjóðhátíð Eyjamanna, sem haldin er ár hvert um verslunarmannahelgina og dregur til sín fólk alls staðar að af landinu. Til hennar var fyrst stofnað árið 1874, þegar eyjaskeggjar komust ekki til hátíðahalda í landi í tengslum við 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar og móttöku fyrstu stjórnarskrár landsins úr hendi Kristjáns IX, Danakonungs, á Þingvöllum. Þá ákváðu Vestmannaeyingar að halda sína eigin hátíð. Sú hefð hefur verið að íþróttafélög bæjarins, áður Þór og Týr til skiptis en eftir sameiningu þeirra ÍBV, sjái um framkvæmd þjóðhátíðarinnar, og hljóti ágóðann af henni til að halda uppi öflugu félagsstarfi sínu allt árið um kring.

Hátíðin er haldin í Herjólfsdal um verslunarmannahelgina og eru fastir liðir hátíðarinnar brenna á Fjósakletti, flugeldasýning og brekkusöngur, sem hefur verið undir stjórn Árna Johnsen í tæpa þrjá áratugi.

Auk Þjóðhátíðarinnar eru margar aðrar hátíðir sem haldið er upp á. Helst má nefna Goslokahátíðina, Sjómannadaginn, Jónsmessu og fleiri minni skemmtanir.

Samgöngur

Sjá aðalgrein:Samgöngur

Góðar samgöngur eru við Eyjar hvort sem er með flugi eða ferju. Á síðustu árum hafa verið uppi miklar vangaveltur um það hvort mögulegt sé að grafa jarðgöng til Vestmannaeyja, og hefur verið stofnað áhugamannafélagið Ægisdyr um gerð slíkra ganga. Vestmannaeyingar eru ekki allir sammála um að göng séu rétta lausnin, en þó eru Eyjamenn upp til hópa sammála um að samgöngur milli lands og eyja þurfi að bæta.

Farþegaskipið Herjólfur siglir alla daga tvær ferðir, og getur skipið borið 500 farþega og um 60 fólksbíla.

Flugsamgöngur eru algjörlega háðar veðri, en flogið er á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, og Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar. Landsflug sér um flug til Reykjavíkur og Flugfélag Vestmannaeyja sér um flugið á Bakka og aðra áfangastaði á Suðurlandi. Fyrsta flug til eyja átti sér stað árið 1928 eftir nokkrar tilraunir árin áður.


Menning:     HátíðirÍþróttirÞjóðsögurFólkKirkjumálFélögSkipafloti VestmannaeyjaHúsin á HeimaeyRitsafn