Samgöngur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Samgöngur á sjó til 1940

Stysta leiðin á milli lands og Eyja er upp á svonefndan Tanga austast í Austur-Landeyjum, nálægt bænum Bakka. Sú leið var aðalleiðin þegar flytja þurfti fólk á milli lands og Eyja fram á 20. öldina. Þá var farið á stórum áraskipum þessa 11 kílómetra sem á milli eru. Ef að Eyjamenn þurftu að ferðast til Reykjavíkur og skipsferð var ekki í nánd, var farið með þá upp í Landeyjar þar sem þeir fengu hesta sem þeir riðu á til Reykjavíkur.

Árið 1776 hófust reglulegar skipaferðir til Íslands, lengi vel ein ferð á ári. Árið 1858 komu gufuskipaferðir til sögunnar en þó svo að skipin hefði komið við í Vestmannaeyjum voru ferðirnar svo fáar að þörfin var ennþá mjög mikil. Strandferðir hófust árið 1876 og var siglt til sjö hafna utan Reykjavíkur. Skipstjórarnir, sem voru danskir, voru erfiðir viðureignar og á Alþingi árið 1877 kvartaði þingmaður Vestmannaeyja, Þorsteinn Jónsson yfir því að þrátt fyrir blíðuveður kæmu gufuskipin oft ekki við í Eyjum. Skipstjórarnir töldu víst að Eyjarnar væru grónar við Rangárvallasýslu. Einnig þótti fargjaldið hátt, en það kostaði 16 krónur að fara á milli Reykjavíkur og Eyja en ekki nema 6 krónur á milli Reykjavíkur og Stykkishólms. Samgöngur voru enn ekki nægilega góðar og í Ísafold 1897 er bréf úr Eyjum, skrifað 25 janúar þar sem segir að engar samgöngur hafi verið við meginlandið síðan í október.

Rit- og talsímafélag Vestmannaeyja

Þann 18. maí 1911 var stofnað Rit- og talsímafélag Vestmannaeyja. Síminn er vissilega ekki samgöngutæki en hann var gríðarlega mikið öryggi í sambandi við samgöngur í þá daga. Félagið lét leggja sæsíma til Eyja úr Landeyjasandi. Símstöðin var í Boston, litlu húsi á Krossgötum sem rifið var árið 1964.
Sjá Blik 1972/Síminn lagður milli Eyja og lands

Skaftfellingur

Árið 1917 var stofnað hlutafélagið Skaftfellingur sem lét smíða 63 lesta skip það sama ár. Skipið átti að halda uppi ferðum á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og þaðan austur til Öræfa. Skaftfellingur var að til ársins 1942. Ekki var um að ræða farþegaskip en ferðum fjölgaði vissulega og það var það sem Eyjamenn vildu.

Skipaferðir

Árið 1940 tóku Sigurjón Ingvarsson og Jón Ísak Sigurðsson vélbát á leigu sem hafði það að markmiði að fara á milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja. Sá bátur het Skíðblaðnir. Hann voru þeir með fyrsta sumarið, síðan Herstein og loks Gísla Johnsen sem þeir félagar keyptu árið 1943. Sá bátur var rúmlega 32 lestir. Í bátinn voru settar upp 44 kojur og auk farþega voru fluttar vörur eftir því sem plássið leyfði. Síðasta ár Gísla Johnsen var árið 1956. Alls flutti hann 23 þúsund farþega í 730 ferðum. Eftir að Gísli Johnsen hætti þótti mönnum nauðsynlegt að fá bát til Þorlákshafnarferða. Einar Sv. Jóhannesson keypti þá bátinn Vonarstjörnu og hélt hann uppi sjóflutningum til Eyja sex daga vikunnar í þrjú ár en hann hætti árið 1958. Töldu menn almennt að Einar og félagar höfðu staðið sig mjög vel, meðal annars vegna hættulegra vetrarveðra.

Flutt heim með Herjólfi 1974

Eftir þessar frumkvöðlaferðir Jóns og Sigurjóns var greinilegt að þörf var fyrir reglulegar áætlunarferðir milli lands og Eyja. Áætlunarferjan Herjólfur I kom til hafnar í Vestmannaeyjum í fyrsta skipti árið 1959 og hélt úti áætlunarferðum milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, auk þess að sigla hálfsmánaðarlega til Hornafjarðar. Herjólfur II leysti þann fyrsta af hólmi árið 1974 og sigldi hann til Þorlákshafnar. Herjólfur III er sú ferja sem leysir af hendi almennar samgöngur milli lands og Eyja nú. Áætlanir eru uppi um kaup eða leigu á nýrri ferju á meðan framtíðarlausna í samgöngumálum Eyjamanna er beðið.

Svifskip

Svifskipið prófað í Eyjum
Svifskipið prófað í Eyjum

Árið 1964 veittu menn nýjum samgöngumáta athygli, svifskipum sem aðrir kölluðu reyndar loftpúðaskip eða loftpúðabíla. Á þessu tæki mátti ferðast á sjó og á landi og var hámarkshraði 20 farþega skips um 73 sjómílur. Alþingismennirnir Guðlaugur Gíslason og Sigurður Óli Ólafsson fluttu tillögu árið 1966 að svifskipið yrði 10 daga í Vestmannaeyjum til reynslu og 10 daga á Akranesi til að kanna mætti nothæfi þess. Var þetta samþykkt.

Svifskipið kom til Eyja um miðjan ágúst 1967 og var fyrsta ferðin 15. ágúst. Lent var á Bakkafjöru, farið þvert yfir sandtangann í Markarfljót inn að brú með 50-60 km hraða. Næstu daga fór svifskipið margar ferðir því margir sóttu um að fá far og fengu færri en vildu. Svifskipið hafði marga kosti eins og mikinn hraða. Gallarnir voru þó líka til staðar, hávaði og einnig eru þau háð veðri og vindum.

Á fundi bæjarráðs 4. nóvember 1968 var tekið fyrir bréf frá Ernes Hamilton Ltd. London þar sem mælt var með kaupum á svifskipi fyrir 425 þúsund punt. Tilboði þessu var ekki tekið.

Flug

Sjá aðalgreinar:Fyrsta flug til Eyja og Flugvöllurinn

Árið 1919 var stofnað Flugfélag Íslands hið eldra. Eyjamenn voru bjartsýnir og töldu sumir að nú væri komin lausn á einangrunarvanda Eyjanna. Flugfélagið hafði áhuga á að reyna flug til einhvers staðar sem væri þurfandi fyrir loftbrú og þar komu Vestmannaeyjar sérstaklega til greina. Fyrsta ferðin til Vestmannaeyja var 18. september.


Heimildir

  • Haraldur Guðnason. Við Ægisdyr: Saga Vestmannaeyjabæjar í 60 ár. II. bindi. Reykjavík: Vestmannaeyjabær, 1991.