Blik 1969/Konan, sem vann kærleiksverkið mikla

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. apríl 2013 kl. 19:59 eftir Víglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. apríl 2013 kl. 19:59 eftir Víglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Konan, sem vann kærleiksverkið mikla


Haustið 1852 fluttu til Vestmannaeyja undan Eyjafjöllum tvö ástfangin hjú, Evlalia Nikulásdóttir, 31 árs, og Jón Guðmundsson, 36 ára.
Evlalia var dóttir Nikulásar Ingjaldssonar bónda í Berjanesi og konu hans, Helgu Jónsdóttur. Þau hjón bjuggu um árabil í Berjanesi undir Eyjafjöllum.
Eftir að Helga húsfreyja í Berjanesi missti mann sinn, líklega um 1844, gerðist Jón Guðmundsson vinnumaður hjá henni og þeim mæðgum, er hokruðu saman í Berjanesi eftir fráfall Nikulásar bónda. Þá lærðu þau að elska hvort annað, Evlalia bóndadóttir og Jón vinnumaður.
Sex ár höfðu þessi hjú lifað í tilhugalífinu, er þau fluttust til Vestmannaeyja, þá enn ógift.
Í Eyjum settust þau að í tómthúsinu Móhúsum, sem stóð á Móhúsaflöt suður af Kirkjubæjum, í suðurjaðri túns Gríms bónda þar. Tómthús þetta var lítil baðstofa með moldargólfi og svo eldhúskytra. Þá eru upp taldar vistarverurnar þar.
Á undan Evlaliu og Jóni bjuggu í tómthúsi þessu hjónin Andrés Sigurðsson og Guðríður Höskuldsdóttir. Þá hét tómthúsið Prunkinborg. Þau skiptu um nafn á því nokkru áður en þau seldu það og fluttu úr því.
Í gildum heimildum er Evlalia Nikulásdóttir titluð bústýra Jóns tómthúsmanns Guðmundssonar, húsbónda síns og hjáhvílu, því að vitanlega bjuggu þau saman þarna í Móhúsum í „hneykslanlegu samlífi“, hann Jón og hún Evlalia. Það vissu allir, líka sóknarpresturinn hann séra Jón Austmann. En hvað var hægt að gera? Skilja þau að með valdboði? Vissulega, en séra Jón Austmann á Ofanleiti kaus heldur að fara „hina leiðina“. Hún var honum geðþekkari og tamari; Hann talaði um fyrir hjúunum. Og sjá, dropinnn holar steininn. Orð og umræður og opin skáar hneyksliskenndir fólksins hola um síðir sálarbergið, þótt stundum taki það líka langan tíma.
Loks létu þau tilleiðast, ástarhjúin í Móhúsum, og gengu í hjónaband. Það var árið eftir flutninginn til Eyja (1853). Séra Brynjólfur Jónsson gaf þau saman. Þá hafði hann gegnt aðstoðarprestsembættinu í Eyjum nokkra mánuði. Svaramaður brúðgumans var nágranninn Sigurður hreppstjóri Torfason á Búastöðum, og svaramaður brúðarinnar var Magnús Austmann Jónsson, stúdent og bóndi í Nýjabæ, fyrri eiginmaður Kristínar húsfreyju Einarsdóttur þar.
Við hjónavígsluna afréðu hin rosknu brúðhjón með sér helmingafélag að gildandi landslögum, en í brúðarpart ánefndi brúðguminn brúði sinni 1/4 af öfluðu og óöfluðu fé að skuldum frádregnum, eins og þetta er orðað í kirkjulegum heimildum.
Þessum hjónum í Móhúsum varð ekki barna auðið.
Jón tómthúsmaður lézt 2.maí 1862. Banamein hans var sullaveiki. Hið kirkjulega hjónaband þeirra hafði þá varað í 9 ár.
Næstu tvö árin eftir fráfall eiginmannsins bjó Evlalia Nikulásdóttir einsetukona í Móhúsum að öðru leyti en því, að hún hafði þar hjá sér dreng, sem var 5 ára gamall 1862, niðursetningur, Sverrir Jónsson að nafni.
Árið 1864, eða tveim árum eftir fráfall Jóns tómthúsmanns Guðmundssonar, fluttist ekkillinn Gísli Brynjólfsson til Vestmannaeyja úr Rangárvallasýslu. Þar hafði hann verið vinnumaður á ýmsum bæjum, eftir að hann missti konu sína, og haft með sér son sinn Þorstein. Gísli Brynjólfsson settist að í Móhúsum hjá Evlaliu ekkju þar, gerðist fyrirvinna hennar, og hafði hann Þorstein son sinn með sér á framfæri sínu, þá 12 ára.
Svo liðu næstu 10 árin þarna í Móhúsum í viðburðalitlu brauðstriti.
Hinn 13. marz 1874 fórust 6 menn á sexæringnum Gauk frá Eyjum suður af Klettsnefinu norðan vert við mynni ytri hafnarinnar í Eyjum. Þessir menn drukknuðu þar: 1. Árni Árnason, bóndi á Vilborgarstöðum, 30 ára að aldri, afi Árna heitins Árnasonar símritara (Sjá Blik 1963). 2. Erlendur Pétursson, vinnumaður í Litlakoti í Eyjum, 22 ára. 3. Jón Jónsson, húsmaður í Dölum, 35 ára, faðir Unu skáldkonu. 4. Sigurður Eyjólfsson, vinnupiltur á Steinsstöðum, 15 ára. 5. Stefán Austmann Jónsson, bóndi í Vanangri, 44 ára (Sjá Blik 1961). 6. Gísli Brynjólfsson, tómthúsmaður í Móhúsum, fyrirvinna Evlaliu Nikulásdóttur, húsfreyju þar, og faðir Þorsteins Gíslasonar, sem þá var orðinn holdsveikur og ekki þess megnugur, að vinna sér inn daglegar nauðþurftir.
Gísli Brynjólfsson var 62 ára, er hann drukknaði.
Eftir slysið deildi Evlalia Nikulásdóttir í Móhúsum kjörum sínum með hinu holdsveika ungmenni, sem engan átti að nema hana. Enginn var þá holdsveikraspítalinn á landinu og enginn vildi óneyddur taka inn á heimili sitt holdsveikan sjúkling. Evlalia Nikulásdóttir ein fékkst til þess að vinna hér kærleiksverkið mikla, halda heimili fyrir holdsveika ungmennið og láta hið sama yfir bæði ganga.
Þau Evlalia ekkja í Móhúsum og Þorsteinn holdsveiki, eins og hann var jafna nefndur, drógu síðan fram lífið um tvo tugi ára eftir Gauksslysið og lifðu að miklu leyti á gjöfum hjartagóðs fólks í Eyjum, sem sendi þeim matföng svo að segja af borðum sínum daglega og aðrar nauðþurftir eftir vilja og getu. Allir Eyjabúar viðurkenndu í hjarta sínu og opinskátt, að þessi kona gerði miskunnarverkið mikla, kærleiksverkið ríka í þágu alls Eyjafólks með því að fórna sér, fórna sjálfri sér, kröftum sínum og lífi fyrir krossberann Þorstein holdsveika, sem enginn vildi hýsa, allir vildu vera lausir við að hafa á heimili sínu.
Ófáir voru málsverðirnir, sem þeim bárust frá nágrönnunum í Túni, Jóni bónda Vigfússyni og börnum hans, sem flest voru heima enn á þeim árum, Þórunn, Jóhann, Vigfús og Sigurlín. Þá var iðulega sendur matur að Móhúsum frá hjónunum á Vesturhúsum, Guðrúnu Erlendsdóttur og Guðmundi Þórarinssyni, og svo frá búendum á Kirkjubæjarbýlunum. Rósa heitin Eyjólfsdóttir, húsfreyja í Þorlaugargerði, sem var dóttir Eyjólfs bónda á Kirkjubæ, sagði eitt sinn frá því, er hún var send að Móhúsum með mat handa þeim Evlaliu og Þorsteini. Svo varfærin voru þau bæði gagnvart holdsveikinni, að litla stúlkan fékk ekki að fara inn á heimilið. Hún lét matinn af sér frammi við dyr. Þar tóku þau við honum annað hvort. Svo var stúlkan látin staldra við meðan þess var beðið til guðs, að hún fengi aldrei þessa hræðilegu veiki, að guð vildi varðveita hana frá þeim voða. Ekki síður bað hinn holdsveiki maður þess en konan, sem vann kærleiksverkið og annaðist sjúklinginn.
Þegar fram liðu árin, var sá fasti háttur á í Vestmannaeyjum, að hver nýliði við sjósókn með færisstúfinn sinn, færði Evlaliu Nikulásdóttur í Móhúsum Maríufiskinn sinn. Það þótti svo sjálfsagt, að fæstir brutu þann sið. Sú trú hafði skapazt með Eyjafólki, að fyrirbænir hennar og þakkarorð, er hún lét í té gefendunum þeim, rættust þeim til hamingju í sjómannsstarfi, festu þeim farsæld og gæfu í þeirri mikilvægu lífsiðju. Heit bænarorð hennar liðu mörgum unglingnum, sem færðu henni Maríufiskinn sinn, seint úr minni. Þau urðu honum þannig til blessunar. Þannig var þessu til dæmis varið með Magnús Guðmundsson, formann á Vesturhúsum.
Friðrik Guðmundsson í Batavíu (f. 1888) segist minnast þess, að hann á aldrinum 5-7 ára trítlaði við hlið föður síns, Guðmundar Ögmundssonar, austur að Móhúsum fyrir hver jól á þessum árum, til þess að færa gömlu konunni annað lærið af „jólaánni“, sem Guðmundur í Batavíu hafði að föstum sið að lóga rétt fyrir jólin. Drengurinn litli hlakkaði lengi til þeirrar ferðar. Þá gaf góða konan honum sykurmola og skonroksköku. Það þótti börnum í Eyjum mikill fengur. Einhver góður og velviljaður maður hafði þá jafnan nokkru áður fært ekkjunni lögg á pela, sem Guðmundur gefandi fékk að bragða á sér til glaðnings og þakklætisvotts. Enn er Friðriki í minni glaðlega og góðlega andlitið á gæðakonunni kærleiksríku í Móhúsum.

Þorsteinn Gíslason lézt 5. júní 1894 á fimmtugsaldri.
Eftir lát hans bjó Evlalia Nikulásdóttir 2-3 ár í tómthúsinu, svo óskaplega lélegt sem það var orðið, naumast íbúðarhæft. Þá gerði fjölskyldan í Túni miskunnarverkið á gömlu konunni. Dætur Jóns bónda og smiðs tóku hana til sín og önnuðust hana það sem eftir var lífsstundanna. Í Túni var alltaf nægilegt hjartarúm eins og húsrými. Árin höfðu sannað þau einkenni þeirrar fjölskyldu.
Í Túni dvaldist Evlalia Nikulásdóttir síðan til aldurstilastundar eða til 12. nóvember 1903. Þá dó hún, tveim árum betur en áttræð.