„Blik 1967/Betelsöfnuðurinn í Vestmannaeyjum 40 ára“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 120: | Lína 120: | ||
(Í fyrra birti Blik grein um Aðventistasöfnuðinn hér í Eyjum 40 ára. Nú birtir það hér grein um annan söfnuð, er varð hér til um svipað leyti. Það er Hvítasunnusöfnuðurinn. Forstöðumaður safnaðarins, Einar J. Gíslason, hefur skrifað þessa grein fyrir atbeina Bliks. Persónulega vil ég hafa hér sömu ummæli og ég hafði í fyrra fyrir greininni um Aðventistasöfnuðinn. - Síðast, er fulltrúar Hjálpræðishersins gistu Eyjarnar og héldu hér samkomu, varð ég áheyrandi orða, sem mér þótti vænt um. [[Séra Jóhann Hlíðar]], annar sóknarpresturinn okkar, flutti fulltrúunum þakkir fyrir allt það líknar- og menningarstarf, sem hið fórnfúsa fólk Hjálpræðishersins hefur innt af hendi frá fyrstu tíð fyrir „minnsta bróðurinn“ alveg sérstaklega. Mér varð hugsað til æskuáranna, þegar þetta blessaða fólk gat naumast fengið frið til þess að halda samkomur sínar fyrir skrílslátum og atyrðum. Nú er hið góða og fórnfúsa starf þessa fólks viðurkennt af öllum hugsandi mönnum. Hví skyldum við ekki bera þroska til að viðurkenna og láta njóta sannmælis allt vel gert starf til bóta mannlegu lífi, hvar í hópi eða trúarflokki, sem fólkið stendur? Persónulega viðurkenni ég starf og framkomu heiðingjans jafnt hins kristna, ef hann gengur á guðsvegum, enda þótt hann sjálfur sé þess ekki vitandi. Mundi það ekki forsjóninni geðfelldast?<br> | (Í fyrra birti Blik grein um Aðventistasöfnuðinn hér í Eyjum 40 ára. Nú birtir það hér grein um annan söfnuð, er varð hér til um svipað leyti. Það er Hvítasunnusöfnuðurinn. Forstöðumaður safnaðarins, Einar J. Gíslason, hefur skrifað þessa grein fyrir atbeina Bliks. Persónulega vil ég hafa hér sömu ummæli og ég hafði í fyrra fyrir greininni um Aðventistasöfnuðinn. - Síðast, er fulltrúar Hjálpræðishersins gistu Eyjarnar og héldu hér samkomu, varð ég áheyrandi orða, sem mér þótti vænt um. [[Séra Jóhann Hlíðar]], annar sóknarpresturinn okkar, flutti fulltrúunum þakkir fyrir allt það líknar- og menningarstarf, sem hið fórnfúsa fólk Hjálpræðishersins hefur innt af hendi frá fyrstu tíð fyrir „minnsta bróðurinn“ alveg sérstaklega. Mér varð hugsað til æskuáranna, þegar þetta blessaða fólk gat naumast fengið frið til þess að halda samkomur sínar fyrir skrílslátum og atyrðum. Nú er hið góða og fórnfúsa starf þessa fólks viðurkennt af öllum hugsandi mönnum. Hví skyldum við ekki bera þroska til að viðurkenna og láta njóta sannmælis allt vel gert starf til bóta mannlegu lífi, hvar í hópi eða trúarflokki, sem fólkið stendur? Persónulega viðurkenni ég starf og framkomu heiðingjans jafnt hins kristna, ef hann gengur á guðsvegum, enda þótt hann sjálfur sé þess ekki vitandi. Mundi það ekki forsjóninni geðfelldast?<br> | ||
Vissulega hefur hinn kristni söfnuður Hvítasunnumanna hér í bæ unnið mikilvægt og markvert starf að aukinni menningu í bæjarfélaginu okkar og mennilegri samskiptum milli fólks. Ef til vill er mér þetta ljósar en ýmsum öðrum sökum nokkurra ára dvalar í næsta nágrenni við forustuliðið. - [[Þorsteinn Víglundsson|Þ. Þ. V.]]). | Vissulega hefur hinn kristni söfnuður Hvítasunnumanna hér í bæ unnið mikilvægt og markvert starf að aukinni menningu í bæjarfélaginu okkar og mennilegri samskiptum milli fólks. Ef til vill er mér þetta ljósar en ýmsum öðrum sökum nokkurra ára dvalar í næsta nágrenni við forustuliðið. - [[Þorsteinn Víglundsson|Þ. Þ. V.]]). | ||
{{Blik}} |
Útgáfa síðunnar 18. júlí 2007 kl. 08:36
Betelsöfnuðurinn í Vestmannaeyjum 40 ára
19. febr. 1926 - 19. febr. 1966
Á þessu ári eru rétt 40 ár, síðan Betelsöfnuðurinn var stofnaður. Skeði það 19. febrúar 1926. Erik Asbö skírði þá 19 Vestmannaeyinga Biblíulegri niðurdýfingarskírn. Tveim dögum síðar bættust tveir við. Stofnendur teljast því 21, auk Signýjar og Eriks Asbö, Gyðu og Nils Ramselius og Þorgeirs Sigurðssonar frá Þykkvabæ (Rang.). En hann hafði gengið í söfnuðinn áður í Danmörku. Í júlí-mánuði 1921 höfðu þau hjónin Asbö, ásamt Sveinbjörgu Jóhannsdóttur, er var alsystir Ólafíu Jóhannsdóttur, komið hingað til Eyja og hafið trúboðsstarf. Ávöxtur iðju þeirra þremenninganna kom svo fram í stofnun safnaðarins og byggingu fasteignarinnar Betels við Faxastíg 6 hér í bæ. Betel var tekið í notkun til Guðsþjónustuhalds 1. janúar 1926. Hvítasunnustarfið hefir óslitið síðan verið bundið við Betel. Þar áður var notast við leiguhúsnæði hverju sinni eftir ástæðum, svo sem Gamla-Goodtemplarahúsið, Borg, Nýjabíó o. fl. Ekki skal gleymt samkomum, er haldnar voru á Grundarbrekku, í Fagradal og svo úti, er veður og aðstæður leyfðu.
Formálsorð
Hvítasunnusöfnuður er Kristin Biblíuleg alheims trúarhreyfing, er tileinkar sér upphaf kristninnar með stofnun frumsafnaðarins í Jerúsalem árið 33 e. Kr. Sá söfnuður, sem er fyrirmyndar söfnuður gjörvallrar kristni bæði fyrr og síðar, mótaðist af lærisveinum og postulum Krists. Frumkjarni hans er talinn upp í Post. 1. 13-14.
Á Hvítasunnudag, dag hvítrar sólar að há-vori, eða pentecoste hins fimmtugasta dags, frá upprisudegi frelsara vors, voru samankomnir framantaldir menn úr Post. 1. 13-14. klukkan 9 að morgni í musteri Jerúsalemborgar. Allt í einu verður sem aðdynjandi sterkviðris, er breytir þessum lognmollu sunnudegi og gerir þann dag einstæðan og sérstakan öllum öðrum dögum fram að þessu. Úthelling Heilags Anda frá Himni Guðs á sér stað yfir lærisveinana, svo það bæði sézt og heyrist. Eldtungurnar sjást yfir höfðum þeirra, þeir tala nýjum tungum. Andlegur kraftur fyllir veikgeðja menn, er áður voru ragir og könnuðust ekki við trú sína (Pétur), en nú hafa djörfung og prédika fagnaðarerindið og reynslu sína fyrir öllum. Kristnir menn trúa því í dag, að þarna og þá hafi Kristindómurinn birzt í krafti og fyllingu persónulegrar reynslu trúar. Endurtekizt svo áfram og með sömu táknum og einkennum í Postulasögunni 10. kap. og 19. kap.
Eftir að siðum nýjatestamentisins lýkur, þá má greina af sporum sögunnar, að Kristindómurinn hafi haldizt áfram að birtast í mannheimi með fylgjandi táknum. Mark. 16. 16-17.
Tökum dæmi:
Hinn viðurkenndi kirkjufaðir, Kyrill biskup í Jerúsalem 350 e. Kr. Hann skrifaði 24 „Katekeser“ fyrir skírnþega til fræðslu, áður en þeir tóku skírnina. Skrif Kyrilliusar eru mjög góð heimild um þeirra tíma boðun Orðsins. Í nr. 3 og 4 segir hann um atburðina í húsi Kornelíusar, þá er Andinn féll yfir heiðingjana er trú höfðu tekið, tungutal þeirra og spádóma. Í 3. káp. 9. grein segir hann orðrétt: „Dásamlegt var að skírast í vatni, en hvað er það, móti því að skírast með Heilögum Anda og eldi“.
Krysostomos í Konstandinopel (d. 407 e. Kr.). Hann segir um Hvítasunnuvakninguna við samtíð sína: ,Hver, sem var skírður á dögum postulanna, talaði með tungum."
Agustinus hinn kunni maður trúarinnar og Kirkjufaðir segir: ,,Við höldum áfram að gjöra eins og postularnir, er þeir lögðu hendur yfir samverjana og báðu um Heilagan Anda yfir þá. Ætlazt er til að þeir sem hafa snúið sér, tali með nýjum tungum." Águstin dó 430.
Heimildir: ,,Kristendommens verdenshistorie" bls. 60-61 Fr. Valton cand. theol. Oslo, Norge.
Á alheimsmóti Hvítasunnumanna höldnu í Stokkhólmi 1955, flutti Roswell J. Flower frá Bandaríkjunum mjög eftirtektarverðan fyrirlestur um sögu Hvítasunnuvakningarinnar í gegnum tímana. Heyrði ég hann sjálfur og auk þess fyrirlesturinn í bókinni „Wärldspingstkonferansen i Stockholm 1955“. Sá kunni maður greindi frá því, að fyrstu sprotar hennar höfðu spírað fram í þeirri mynd, sem hún er okkur kunn í dag, með kröftugri Andans úthellingu yfir nemendur í Biblíuskóla í Topeka í Kansas, hinn 3. janúar 1901. Fregning og reynslan í þessari vakningu fór eins og logi um landið og 1905 er þetta alþekkt meðal trúaðra manna í Bandaríkjunum, ekki hvað minnst meðal litaðra manna.
Kunnur meþodistaprestur, Tom B. Barratt, borgarstjórnarmaður í Oslo, þekktur fyrir mannúðar- og Erik Åsbö, trúboði líknarstarf í barna- og fátækranefndum Oslo, (þáverandi Kristjaníu) fer til Ameríku 1906 til að safna fé til stórhýsis, er reisa átti í Oslo. Húsið fékk undan fæðingunni nafnið Hákonarhöll. Barratt fór á samkomur í Postulatrúboðinu í New York. Þar vaknar hann yfir andlegum þörfum sínum og fátækt. Hann meðtók kröftuga skírn með Heilögum Anda, hinn 7. október 1906. Með þessum manni barst vakningin til Norðurlanda og gaf um leið bergmál um alla Evrópu að ógleymdu Rússlandi. Fregnir af samkomum Hvítasunnumanna voru á fremstu síðum dagblaðanna. Margir málsmetandi menn tóku afstöðu með vakningunni. Tungutalið, spádómar og lækningar vöktu athygli. Postulatrúin var orðin staðreynd.
Í dag er Hvítasunnuhreyfingin þekkt um allan heim og telur skírða meðlimi 11-12 milljónir. Fjölmennastir eru þeir í Indónesíu og Brasilíu. Einkenni starfs þeirra er fyrst og fremst framkvæmdasamt Kristniboð meðal heiðinna þjóða. Þannig eiga þeir í Svíþjóð, þar sem um 100.000 Hvítasunnumenn eru í 600 söfnuðum, 520 kristniboða. Landið allt á um 1600 alls.
Hvítasunnumenn trúa ákveðið á Heilaga Ritningu sem innblásið Guðs Orð. Hafna þarafleiðandi spiritisma, Guðleysi og sérhverjum afslætti. Í háði var þeim gefið þetta nafn, vegna trúar á undur Hvítasunnudagsins. En þeim er það kært og telja, að hver trúarsöfnuður, hverrar kirkjudeildar sem er, eigi að trúa eins og postularnir og eiga þá kenningu og tákn er þeir boðuðu.
Þeir telja það mikið tímanna tákn, hversu andlegrar stéttar menn bæði í Ameríku, Englandi og Þýzkalandi hafa meðtekið náðargáfur Guðs og talað nýjum tungum.
Söfnuður í Eyjum
Eins og fyrr er getið, þá korn Erik Asbö með þennan boðskap til Eyja 1921. Þessu trúðu margir og sáu að boðskapurinn var samkvæmur Heilagri Ritningu. Eftirtaldir Vestmannaeyingar urðu stofnendur Betelsafnaðarins og Hvítasunnu-hreyfingarinnar á Íslandi:
- Guðrún Magnúsdóttir, ljósmóðir, Fagradal.
- Ragnhildur Jónsdóttir, Gerði.
- Þórdís Ólafsdóttir, Skuld.
- Ingveldur Nikulásdóttir, Skaftafelli.
- Kristín Jónsdóttir, Fagradal.
- Þorbjörg Jónsdóttir, Grundarbrekku.
- Magnús Eyjólfsson, Grundarbrekku.
- Þórunn Magnúsdóttir, Nýjahúsi.
- Ingiríður Ingimundardóttir, Sandprýði.
- Jónína Ingimundardóttir, Hólmgarði.
- Áslaug Eyjólfsdóttir, Miðbæ.
- Sigrún Runólfsdóttir, Héðinshöfða.
- Guðný Einarsdóttir, Arnarhóli.
- Guðjónía Gunnsteinsdóttir, Garðsauka.
- Sigríður Guðmundsdóttir, Batavíu.
- Þuríður Pálsdóttir, Hjarðarholti.
- Halldóra Kristín Þórólfsdóttir, Skaftafelli.
- Kristín Jónína Þorsteinsdóttir, Fagradal
- Guðni Ingvarsson, Vesturvegi 21.
- Elín Oddsdóttir, Heiðarbrún.
- Einar Guðjónsson, Skaftafelli.
Meðlimur nr. 22 var Kristján Jónsson trésmiður á Heiðarbrún en hann var skírður 7. marz 1926.
Af ofangreindum stofnendum eru aðeins 5 á lífi. Allir stofnendur hafa verið meðlimir til dauðadags og eru ennþá, að einungis einum undanteknum. Frá upphafi hafa nær við 150 meðlimir verið í söfnuðinum. Þriðjungur þeirrar tölu myndar söfnuðinn í dag. Milli 40-50 hafa flutzt héðan og eru starfandi meðlimir í Hvítasunnuhreyfingunni á Íslandi, dreifðir um land allt. Um 40 eru dánir. Þar af, flestir stofnendurnir, eins og áður er skrifað.
Starfsmenn
Eins og fyrr kemur fram, þá var Erik Äsbö og kona hans Signy ásamt Sveinbjörgu Jóhannsdóttur, brautryðjendur. Erik Asbö framkvæmdi fyrstu skírnarathöfnina og telst því fyrsti forstöðumaður safnaðarins. Hann er nú látinn, en kona hans lifir ennþá búsett í Oslo. Sveinbjörg Jóhannsdóttir lézt í Reykjavik 1935. Þorgeir Sigurðsson, er starfaði með Äsbö seinast á starfstíma hans hér, fór til Ameríku og er einnig látinn.
Í október 1925 komu hingað til lands hjónin Gyða og Nils Ramselíus. Var hann annar forstöðumaður safnaðarins og tók við af Äsbö 1926. Ramselíus var um marga hluti hinn gagnmerkasti maður, hámenntaður, hafði verið prestur í sænsku ríkiskirkjunni um árabil. Hann yfirgaf kjól og kall vegna Biblíulegrar niðurdýfingar skírnar. Hann starfaði á vegum hreyfingarinnar hérlendis í 13 ár. Hann var ótrúlega fljótur að ná valdi á íslenzku máli. Hélt prédikanir eftir misseris veru hér, á íslenzku. Þau hjón fluttu úr Eyjum 1928. Ramselíus er nú látinn en kona hans lifir háöldruð í Svíþjóð.
Herbert Larson, sænskur maður, starfaði hér um svipað leyti og frumherjarnir. Hann korn bráðungur hingað, ekki tvítugur. Hann náði fljótt valdi á íslenzku. Einnig var hann vel fær hljóðfæraleikari, einkanlega á gítar. Herbert var hér um árabil af og til eða í Færeyjum. Hann lifir ennþá ásamt færeyskri konu sinni Maren. Þau eru búsett í Svíþjóð.
Einnig var hér á þessum árum Inga Carlson Fagurlist. Hún er íslenzk, en giftist ung sænskum manni, Helge Carlson. Hún þýddi trúboðana og varð þannig til mikillar hjálpar. Hún er búsett í Stokkhólmi.
Eftir að Nils og Gyða létu af starfi, komu hingað til Eyja Signy og Eric Ericson, frá Svíþjóð. Ericson, eins og hann var ávallt nefndur, starfaði lengst allra útlendra manna á vegum hreyfingarinnar hérlendis. Hann var og fyrstur þeirra til að taka legstað í íslenzkri mold.
Ericson var fílefldur maður að burðum. Stundaði skógarhögg í Svíþjóð í mörg ár. Laun voru honum greidd tvöföld vegna afkasta og dugnaðar. Okkur Íslendingum reyndist hann maður farsældar og framkvæmda. Hann var stofnandi bókaútgáfu Fíladelfíu. Fyrsti ritstjóri og stofnandi „Aftureldingar“. Þar áður hafði Ramselíus gefið út blað, er hann nefndi „Kallari“. Aðeins fá blöð komu út af honum. Ericson var stofnandi Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík og fyrsti forstöðumaður þess safnaðar. Brautryðjandi í Keflavík og byggði þar veglegt samkomuhús. Hann var alls staðar með í verki og traustastur er á reyndi. Afturelding kom fyrst út undir hans stjórn, hér í Eyjum 1934. Fyrsti prófarkalesari blaðsins mun hafa verið Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri. Sýnir það skilning Ericsons og hyggni. Vel skal vanda, það er lengi á að standa. En eins og kunnugt er, þá er Þorsteinn íslenzkumaður með ágætum. Þeir voru og nágrannar um árabil.
Ekki skal skilið svo við þátt Ericsons, án þess að minnast á sönglaga og sálmabókaútgáfu hans. Honum var reyndar flest betur gefið en að syngja. En eins og allir vita, þá er meginþáttur í hverri guðsþjónustu söngur og sálmar. Ericson kynntist fljótt Sigurbirni Sveinssyni kennara og skáldi. Hann átti margar ferðir í heimili Sigurbjörns með enska og skandinaviska sálma. Aldrei stóð á Sigurbirni með þýðingar. Hann gerði verk sitt létt og lipurt. Einnig lét hann Ericson í té frumsamda sálma.
Verk Ericsons og Sigurbjörns lifa á vörum hundruða Íslendinga. Því hvern helgan dag eru sálmarnir sungnir um land allt. Sigurbirni var unun í að gera Ericson greiða. Sjálfur var hann einlæglega trúaður á endurlausn Krists og Heilaga Ritningu. Síðustu skifti þessara heiðurs manna urðu á þennan veg: Er Ericson fór til Svíþjóðar eftir stríðslok 1945, lét hann velja í „Levin“ verksmiðjunum í Gautaborg vandaðan og hljómmikinn gítar. Næst þar á eftir er Ericson var í Eyjum, gekk hann upp á Brekastíg, í heimili Sigurbjörns, og færði honum hljóðfærið. Var það vinar- og kærleiksgjöf Ericsons til skáldsins. Sigurbjörn kunni vel að meta gripinn. Kallaði hann á þann er þetta ritar til að sýna honum hljóðfærið. Nokkur lög fylgdu með, leikin af lífi og list.
Ericson og kona hans fluttu úr Eyjum 1936. Hann lézt 1958 í Reykjavík. Signý starfar ennþá af fullum krafti og heldur fána manns síns að húni.
Fjórði forstöðumaður safnaðarins er Jónas S. Jakobsson og kona hans Guðbjörg frá Skaftafelli hér. Jónas nam ungur höggmyndalist í Noregi. Hann er fæddur listamaður og jafnvígur á að höggva, móta og mála. Þau hjón voru hér til 1939. Heimili þeirra er nú í Reykjavík.
Arnulf Kyvik var næsti starfsmaður. Kom hingað frá Ameríku 1939. Fór héðan ásamt fjölskyldu sinni til Hnífsdals 1940. Var hér aftur 1946-1948. Kyvik var hinn mesti starfsmaður og hafði lag á að láta aðra starfa með sér. Enda með langa reynslu að baki, bæði frá Noregi og Ameríku. Fyrri kona hans Magny hvílir í íslenzkri mold. Kyvik er nú búsettur vestan hafs.
Stuttan tíma fyrir stríð voru hér norsk hjón Alfhild og Martin Matthiesen. Þoldu illa hið raka loftslag og hurfu af landi brott. Alfhild var kunn fyrir sólósöng sinn og lék jafnan undir sjálf.
Eftir fyrri veru Kyviks hér, kom Sigmund og Milda Jacobsen, bæði frá Noregi. Hann varð sjötti forstöðumaður safnaðarins. Sigmund var fíngerður sómamaður. Hann naut sín ekki sem skildi, því þá var föðurland hans hertekið af nazistum. Það hafði sterk áhrif á konu hans Mildu og hann sjálfan. Eftir stríðið hurfu þau til Noregs og lifa þar enn, virt og dáð af þeim er þau þekkja.
Sigmund til aðstoðar var hér Konráð Þorsteinsson ættaður úr Eyjafirði. Konráð vann með höndum sínum til sjós og lands, en var alltaf viðbúinn til starfa í söfnuðinum, bæði hér og úti um land.
Árið 1942 flytja hingað til Eyja Ásmundur Eiríksson og kona hans Þórhildur Jóhannesdóttir til starfa í söfnuðinum. Gegndu þau hjón þeim starfa til síðari hluta árs 1945, er þau að frumkvæði Eric Ericson fluttu til Reykjavíkur, til starfa í Filadelfíusöfnuðinum þar. Allur söfnuðurinn taldi mikinn missi að sjá á bak þeim hjónum. Enginn vildi þeim sleppa. Ásmundur hafði legið sjúkur um hríð, er Ericson kom hingað til að fala þau hjón til starfa. Vorum við margir bræður samankomnir í íbúð þeirra hjóna er Ericson bar ósk sína fram og safnaðarins í Reykjavík. Það voru fleiri en undirritaður, er óskuðu þess að málaleitaninni yrði hafnað af Ásmundi, svo var hann okkur kær. En vegna heildarinnar þögnuðum vér og sögðum: „Verði Drottins vilji“.
Þau hjón voru kunn að öllu góðu frá fyrri heimsóknum. Hingað kom Ásmundur fyrst frá Biblíuskóla í Stokkholmi er hann fór beinlínis á til að kynna sér starf Hvítasunnumanna. Í litla salnum í Betel meðtók hann skírn Heilags Anda og talaði nýjum tungum. Tímabil hans og vera í Betel, sem forstöðumaður númer sjö, var að öllu með ágætum. Framgangur inn á við og út á við. Lognmolla var aldrei í kring um Ásmund. Flestum er hann þó öðrum fremur friðarins maður. Umtalsfrómur og háttvís svo að af ber. Hamhleypa var hann til allra verka sem ungur maður. Lauk góðum prófum í búfræði á Hólum, var svo við framhaldsnám í Danmörku. Akurlendi hans varð ekki töðuvellir eða engjar, heldur sáning Guðs Orðs í manna hjörtu. Þegar þetta er skrifað, er hann í fullu starfi í Fíladelfíu í Reykjavík og er hann sem slíkur einn fremsti starfskraftur, er hreyfingin á í dag. Hann er ritfær vel, skáld og kunnur ræðumaður.
Í febrúar 1946 komu hingað Herta og Þórarinn Magnússon frá Svíþjóð. Starfstími þeirra varð fram á mitt sumar sama ár. Vettvangur þeirra varð síðar um land allt, en einkanlega í Stykkishólmi. Þórarinn andaðist í október 1965 við trúboðsstörf í Grænlandi. Öllum harmdauði.
Í október 1948 var Einar J. Gíslason kosinn forstöðumaður ásamt þáverandi eiginkonu sinni Guðnýju Sigurmundsdóttur. Einar hefir verið formaður safnaðarins síðan. Margir hafa þó starfað við hans hlið, skal þar upp telja Ester Nilsson trúboða á Flateyri, Auði og Guðmund Markússon trúboða frá Dísukoti í Þykkvabæ, Mariönnu og Glenn Hunt frá Ameríku, að ógleymdum heimamönnum, sem hvern helgan dag taka þátt í samkomum safnaðarins, þeim Halldóri Magnússyni, Óskari M. Gíslasyni og áður Haraldi Guðjónssyni, núverandi forstöðumanni í Keflavík.
Hljómlistarlíf
Hljómlistarlíf hefur ávallt verið sterkt innan safnaðarins og hafa þar helzt komið við sögu Jóna frá Fagradag, systkinin frá Skaftafelli, Sigurmundur Einarsson, Guðni Ingvarsson, sem er núverandi organleikari, að ógleymdri Guðnýju Sigurmundsdóttur. Hún stjórnaði kór og strengjasveit safnaðarins um árabil af miklum myndarskap. Var fjölhæf hljómlistarkona, hafði góða söngrödd og handlék mörg hljóðfæri, bæði með og án nótna. Sem ung stúlka nam hún píanóleik hjá Gunnari Sigurgeirssyni Reykjavík. Hún sá um þýðingar úrvals sönglaga og sálma úr ensku og norðurlandamálum og þýddi sjálf, þó aldrei væri því flíkað. Hún var einhver allra fjölhæfasti starfskraftur, er söfnuðurinn hefir átt og var það mikið lán. Hún stóð í fullu starfi, er hún lézt 6/10 1963 á bezta aldri og öllum harmdauði.
Niðurlag
Kunnur fyrirlesari og borgari hér í Eyjum talaði eitt sinn um sögu Mormóna hér á þjóðhátíð. Kunnugt er, að þeir voru hér fjölmennir og áhrifaríkir. Sagan geymir minningu þeirra, - og Mormónapollur.
Fyrirlesarinn greindi frá því, að Mormónatrúin hefði orðið hér útdauð, sem rétt er og bætti svo við, að þannig færi fyrir flestum trúarflokkum, er hér hefðu starfað. Ekki hefir þetta að öllu rætzt.
Fyrir utan hina veglegu Landakirkju, með sína tvo velframbærilegu þjóna í prestsembættum, þá eru þrjú önnur Guðshús hér í Eyjum. Í þau koma borgarar bæjarins saman, fleiri eða færri og dýrka Guð sinn eftir persónulegri trú, því að trúfrelsi er ríkjandi í landi hér.
Á fertugasta afmælinu horfir Betelsöfnuðurinn vongóður fram á veginn, trúir á hlutverk sitt í þessari byggð og meðan fjórða kynslóðin frá frumherjum fyllir raðir safnaðarins, horfum við vonglaðir fram.
Núverandi stjórn safnaðarins er skipuð þessum mönnum: Einar J. Gíslason, Óskar M. Gíslason, Halldór Magnússon, Óskar Guðjónsson og Einar G. Jónasson.
- Vestmannaeyjum 15/2 1966
- E. J. G.
(Í fyrra birti Blik grein um Aðventistasöfnuðinn hér í Eyjum 40 ára. Nú birtir það hér grein um annan söfnuð, er varð hér til um svipað leyti. Það er Hvítasunnusöfnuðurinn. Forstöðumaður safnaðarins, Einar J. Gíslason, hefur skrifað þessa grein fyrir atbeina Bliks. Persónulega vil ég hafa hér sömu ummæli og ég hafði í fyrra fyrir greininni um Aðventistasöfnuðinn. - Síðast, er fulltrúar Hjálpræðishersins gistu Eyjarnar og héldu hér samkomu, varð ég áheyrandi orða, sem mér þótti vænt um. Séra Jóhann Hlíðar, annar sóknarpresturinn okkar, flutti fulltrúunum þakkir fyrir allt það líknar- og menningarstarf, sem hið fórnfúsa fólk Hjálpræðishersins hefur innt af hendi frá fyrstu tíð fyrir „minnsta bróðurinn“ alveg sérstaklega. Mér varð hugsað til æskuáranna, þegar þetta blessaða fólk gat naumast fengið frið til þess að halda samkomur sínar fyrir skrílslátum og atyrðum. Nú er hið góða og fórnfúsa starf þessa fólks viðurkennt af öllum hugsandi mönnum. Hví skyldum við ekki bera þroska til að viðurkenna og láta njóta sannmælis allt vel gert starf til bóta mannlegu lífi, hvar í hópi eða trúarflokki, sem fólkið stendur? Persónulega viðurkenni ég starf og framkomu heiðingjans jafnt hins kristna, ef hann gengur á guðsvegum, enda þótt hann sjálfur sé þess ekki vitandi. Mundi það ekki forsjóninni geðfelldast?
Vissulega hefur hinn kristni söfnuður Hvítasunnumanna hér í bæ unnið mikilvægt og markvert starf að aukinni menningu í bæjarfélaginu okkar og mennilegri samskiptum milli fólks. Ef til vill er mér þetta ljósar en ýmsum öðrum sökum nokkurra ára dvalar í næsta nágrenni við forustuliðið. - Þ. Þ. V.).