„Saga Vestmannaeyja I./ II. Landnám Vestmannaeyja“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 13: | Lína 13: | ||
Af handritunum er Sturlubók eldri. Þar er frásögnin styttri og minna utan um aðalefnið. Hauksbókarhandritið mun samið um 1300. Höfundur hennar hefir haft fyrir sér bæði Sturlubók og landnámabók Styrmis fróða ⁷). <br> | Af handritunum er Sturlubók eldri. Þar er frásögnin styttri og minna utan um aðalefnið. Hauksbókarhandritið mun samið um 1300. Höfundur hennar hefir haft fyrir sér bæði Sturlubók og landnámabók Styrmis fróða ⁷). <br> | ||
<center>[[Mynd:Saga Vestm., E, 32a.jpg|600px|ctr]] | <center>[[Mynd:Saga Vestm., E, 32a.jpg|600px|ctr]]</center><br> | ||
''Uppgraftarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. <small>(Ljósmynd Sigurgeir Jónasson 11.09.1981).''(Mynd úr endurútgáfu). Sjá fleiri myndir í Myndasyrpu''.</small></center> | |||
''Uppgraftarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. <small>(Ljósmynd Sigurgeir Jónasson 11.09.1981).''( | |||
Útgáfa síðunnar 1. september 2011 kl. 16:43
Landnáma getur landnámsins í Vestmannaeyjum, er varð síðast á landnámsöld. Þar er og getið atburða, er áttu sér stað hér í Eyjum löngu fyrr eða við fyrstu komu og dvöl fóstbræðranna Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs Hróðmarssonar á Suðurlandi. Þau tíðindi höfðu gerzt á Hjörleifshöfða, að írskir menn, er Hjörleifur hafði tekið á herferðum sínum á Írlandi og haft með sér hingað út sem þræla, 10 að tölu, drápu Hjörleif og menn hans, tóku síðan skip þeirra og lausafé og konur þeirra og sigldu út til eyja þeirra, er þeir sáu í haf út til útsuðurs. Hlutu eyjarnar nafn sitt af Írum, Vestmönnum, þessum, er fyrstir, að því er sögur herma, tóku þar land. Þess má geta, að Vestmannaeyjar sjást eigi frá Hjörleifshöfða, en að vísu frá fjöllum í Mýrdal. Landnáma segir, að Ingólfur hafi leitað Íranna uppi í Vestmannaeyjum og drepið þá alla til hefnda fyrir fóstbróður sinn. Sumum hafi hann náð í bjargskorum, aðrir hafi hlaupizt fyrir björg og látið þar líf sitt. Frásögnin verður á engan hátt véfengd. En þess ber að geta, að mjög er ólíklegt, að enginn af Írunum hafi komizt undan í felustöðum eða leynum, sem eru víðast hvar um eyjarnar, og þeir, sem undan kynnu að hafa komizt, geta hafa staðnæmzt í eyjunum og aukið þar kyn sitt. Og næsta er ótrúlegt, að þeir hafi orðið sóttir í fjöllin hafi þeir komizt þangað. Ingólfur gat naumast hafa komið þeim að óvörum, því hér mátti fylgjast með öllum báta - og skipakomum. Örnefni eru til í Eyjum, sem tengd eru við Íra auk sjálfs eyjaheitisins. Eiði, Þrælaeiði, er Landnáma nefnir. Dufþekja eða Dufþaksskor norðan í Heimakletti, nefnd eftir Dufþaki, er fyrir Írunum var. Svo segir í Landnámu: „Fleiri hlupu þeir fyrir berg, sem við þá er kennt síðan“ ¹). Ýms önnur örnefni hafa menn viljað heimfæra til Íranna eftir munnmælum, bæði til þeirra, sem Landnáma nafngreinir, svo sem Halldórssand norðan undir Heimakletti skammt frá Dufþekju og einnig Halldórsskoru á Dalfjalli. Til annarra, sem Landnáma eigi nafngreinir: Illugaskip og Illugahelli, er aðrir telja þó, að muni kennt við séra Illuga Jónsson á Ofanleiti (1733—44). Eysteinsvík við Eystein, og jafnvel Helgafell, sbr. sóknarlýsingu séra Gissurar Péturssonar. Durningsbás, er gamlir menn nefndu Drafningsbás, norðan í Stóra-Klifi, átti að vera dregið af nafni Drafdritts, er Landnáma nefnir. Einnig Mánaskora, Mánaðarskora, sunnan í Klifi eftir Mána. Báðir þessir staðir eru nálægt Eiðinu, þar sem talið er, að Ingólfur hafi komið að Írunum óvörum. Fuglató og hvannstóð mikið suður af Molda á Háhánni hefir alltaf verið kölluð Mikkitagstó ²). Gæti heitið verið dregið af nafninu Mikkjáll eða Mikael, þótt eins vel geti verið að tóarnafnið sé dregið af því að mikið er þar af fugli, mikið tak í, stór krumur.
Svo er almennt talið, að Vestmannaeyjar hafi eigi byggzt fyrr en í lok landnámstíðar eða jafnvel nokkru eftir ³). Á það virðist mega fallast, að skipulagsbundin byggð og bólfesta hafi fyrst hafizt á eyjunum á umgetnum tíma. Sennilegast er hins vegar, að einhver hinna fyrstu eða fyrri landnámsmanna í nærhéruðunum á landi hafi fljótlega tekið sér umráðarétt yfir eyjunum, numið þær, þótt eigi festu þeir þar byggð sjálfir, en sett þangað ef til vill leiguliða eða haft þar aukabú, því allgagnsamar hafa eyjarnar verið frá fyrstu tíð, landgæði mikil, auðug fiskimið og fuglatekja. Af ýmsum er því og haldið fram, að sumir landnámsmannanna í Rangárþingi hafi fyrst tekið Vestmannaeyjar við komu sína hingað til lands. Verið getur og, að eyjarnar hafi í fyrstu verið notaðar sem almenningseign, af mönnum af landi, er eigi höfðu fast aðsetur hér. Aðalumráðarétturinn mun þó hafa verið í höndum höfðingja á landi.
Elztu heimildirnar um byggingu Vestmannaeyja er að finna í Landnámu. Þar er og skýrt frá því, að eyjarnar hafi verið notaðar sem veiðistöð.
Frásögnin í Sturlubók ⁴): „Ormur ánauðgi, son Bárðar Bárekssonar, bróðir Hallgríms Sviðbálka, byggði fyrst Vestmannaeyjar, en áður var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engi; hans dóttir var Halldóra, er átti Eilífur Valla-Brandsson.“
Í Hauksbók ⁵): „Herjólfur Bárðarson, bróðir Hallgríms Sviðbálka, byggði fyrst Vestmannaeyjar og bjó í Herjólfsdal fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið, hans son var Ormur auðgi, er bjó á Ormsstöðum við Hamar niðri, þar sem nú er blásið allt, og átti einn allar eyjarnar. Þær liggja fyrir Eyjasandi, en áður var þar veiðistöð, en engra manna veturseta. Ormur átti Þorgerði dóttur Ods kallaz munns. Þeirra dóttir Halldóra, er átti Eilífur Valla-Brandsson.“ ⁶)
Yfir báðum frásögnunum er sami heildarsvipurinn, þótt þeim beri eigi saman. Sem fyrsta búandann nefna þær sinn bróðurinn hvor, Orm og Herjólf. Þeim virðist bera saman um tímann. Við nánari aðgæzlu virðist þó sem nokkurs tímamismunar gæti. Í báðum handritum er nefnd Halldóra og gifting hennar. Eftir annarri heimildinni dóttir landnemans, en hinni sonardóttir.
Af handritunum er Sturlubók eldri. Þar er frásögnin styttri og minna utan um aðalefnið. Hauksbókarhandritið mun samið um 1300. Höfundur hennar hefir haft fyrir sér bæði Sturlubók og landnámabók Styrmis fróða ⁷).
Uppgraftarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. (Ljósmynd Sigurgeir Jónasson 11.09.1981).(Mynd úr endurútgáfu). Sjá fleiri myndir í Myndasyrpu.
Frásögnin í Hauksbók er lengri og ítarlegri og við nánari athugun sést, að ýmislegt er þar um staðhætti í Vestmannaeyjum, sem sýnir að maður þar kunnugur hefir um fjallað. Hér virðist og koma fram leiðrétting á frásögn Sturlubókar, sbr. það, sem sagt er um vetrarsetu í eyjunum áður. Líklegt er, að Styrmir, er lengi dvaldi með Snorra Sturlusyni, hafi haft frá honum ýmsan fróðleik um landnámið, og t.d. að því er Vestmannaeyjum viðkemur. En eyjunum og málefnum manna þar hefir Snorri verið vel kunnugur frá uppvaxtarárum sínum í Odda. Munu eyjarnar hafa legið undir forræði Oddaverja. Eigi gat hjá því farið, að Snorri heyrði í Odda allt það, er á þeim tímum var vitað um byggingu og landnám eyjanna, er varðveitzt hafði í minni. Hafi þessu verið þannig varið og Haukur lögmaður sótt til Styrmis það, er framar greinir um byggingu eyjanna, mun eigi þurfa að efast um áreiðanleik þeirrar frásagnar. Möguleiki er og fyrir því, að þannig hafi frásögnin hljóðað í hinni upphaflegustu landnámabók Ara fróða og Kolskeggs hins vitra.
Frásögnin í Hauksbók um fyrstu byggð á Vestmannaeyjum í Herjólfsdal kemur mjög vel heim við æfaforn munnmæli um að Herjólfsdalur hafi verið fyrsta byggt ból hér. Hér var mjög fýsilegt til aðseturs áður stórskriðurnar féllu og ágætt vatnsból. Munnmælin segja, að hin forna hleðsla utan um Lindina í Dalnum sé verk Herjólfs, svo að aðrir næðu eigi til vatnsins. Flestir hafa verið sammála um bæjarstæðið, sem sé í kvosinni norðaustan Fjósakletts⁸). Séra Gissur nefnir í sóknarlýsingu sinni Herjólfsdal, þar sem Herjólfur, er fyrstur byggði Vestmannaeyjar, setti bústað sinn, en segir, að til bæjarins sjáist ekki, því skriða hafi fallið þar yfir. Jarðvegur er eigi þannig í Herjólfsdal eða nágrenni, að þar gæti myndazt bæjarþorp með túnum eða ræktarlendum, þó álitlegt væri til aðseturs í fyrstu. Nærlendi Herjólfsdals lá undir áföllum vegna skriðufalla og sandfoks, og sama gegndi um staðinn, þar sem ætla má, að hinn landnámsbærinn, Ormsstaðir, hafi verið. Af þessum ástæðum lagðist byggðin fljótt niður á þessum stöðum.
Allt öðru máli var að gegna um austurhluta Heimaeyjar, þar sem jarðvegur er djúpur, myldinn og frjór. Hingað færðist aðalbyggðin fljótlega, kringum höfnina, og héðan var sjávarútvegurinn stundaður. Í sóknarlýsingu séra Gissurar segir ⁹): „almennilegt vatnsból alls byggðarlagsins er inni í Herjólfsdal, það er nú kallað Daliver.“ Hefir dalkvosinni með tjörninni og Lindinni verið gefið þetta nafn, sem vel gat átt við um staðinn, sbr. um verheitin sum uppi á landi, vistlegir staðir, sem sótt var til og áð var á á ferðalögum. Engin ástæða virðist til að ætla, að um verstöð hafi verið að ræða í Dalnum og útgerð þaðan, sem hefði þá orðið að vera frá Torfmýri. Eftir staðháttum virðist þetta alveg útilokað. Einstöku fiskhjallar hafa samt getað verið á þessum slóðum fyrrum, því vitað er, að þeir voru stundum nokkuð dreifðir. Jafnvel gat og verbúð hafa verið þarna nálægt á þeim tímum, er mikil aðsókn var af fólki til eyjanna, fremur en tómthús, er engin hafa verið á þessum slóðum á þeim tímum, er jarðabækur ná yfir.
Munnmælin herma, að bær Herjólfs og fólk hans og fjármunir hafi orðið undir skriðuhlaupi, því hinu mikla, er hlaupið hafi úr Blátindi langt niður á jafnsléttu. Nýrri rannsóknir, sbr. rannsókn á bæjarleifum 6. og 7. ág. 1924, ¹⁰) telja, að tættur þær á hól einum utanvert við sjálfa dalkvosina, er lengi hafði verið kunnugt um, séu rústir af bæ Herjólfs og mætti svo ef til vill vera, þótt líklegra þyki að bærinn hafi verið fluttur þangað á hólinn síðar eða alllöngu eftir skriðuhlaupin.
Eigi er kunnugt um sagnir um það í Vestmannaeyjum, að bær Herjólfs hafi staðið þar, sem umgetnar tættur voru, er menn töldu leifar fornra fiskhjalla. Á þessum slóðum munu og fyrrum hafa verið fiskigarðar, hinir svokölluðu Tindadalsgarðar, er sjá má af skjölum frá 16. öld. Með Tindadal er átt við dalinn við Blátind, þó þetta nafn á Dalnum þekkist að vísu ekki annars staðar frá.
Bæjarstæðið, sem munnmælin telja, er uppi í kvosinni á hinum fegursta stað, og þar er skjólsamt mjög. Fjósaklettur er þar vestan við og á að bera nafn af fjósi Herjólfs. Uppsprettur eða vatnsaugu, er nefnast silfurbrunnar, vegna þess hve vatnið var þar hreint, eru hjá bæjarstæðinu, svo vatn hefir verið til heimilisnota alveg við bæjarvegginn. En vatnið úr Lindinni segja munnmælin, að Herjólfur hafi selt eyjamönnum. Göngin að Lindinni eru hlaðin og þau talin fornmannaverk. Göng þessi, sem eru prýðilega hlaðin, eru 1¼ alin á breidd og 28 fet á lengd. Innst inni er hlaðinn ferhyrndur brunnur, um 4 fet á hæð, og rennur vatnið um brunn þenna um svolitla rennu ¹¹).
Því hefir verið haldið fram, sjá t.d. Árbók Fornleifafélagsins 1925, að mjög óvarlegt hafi verið að byggja undir fjallinu, svo að heita mætti frágangssök. En þar til er að svara, að mikil líkindi eru til þess, að fjallið fyrir ofan hafi fyrrum verið að mestu grasgróið og skriður eigi runnið úr því fyrr en seinna og líklega fyrst við stórkostlega jarðskjálfta. Tilviljun ein virðist og hafa ráðið því, að skriðan hljóp svo langt niður norðan Fjósakletts, sem raun varð á, eða 200—300 fet niður á jafnsléttu. Hefði bærinn hins vegar staðið sunnan Fjósakletts, þó í jafnri fjarlægð frá fjallinu, hefði hann getað staðið óhaggaður enn þann dag í dag. Umrætt stórskriðuhlaup úr Dalfjalli, sem hvað sem öðru líður, hefir átt sér stað fyrir æfalöngu, hlýtur að standa í sambandi við stórkostleg náttúruumbrot.
Önnur stórskriða öllu meiri hinni hefir og komið austan frá úr Hánni, og hlaupið yfir Dalinn, þar sem hólaþyrpingin mikla er með jarðföstum mógrýtisbjörgum. Er svo að sjá helzt sem fjöllin austan og vestan megin Dalsins hafi klofnað í sundur við hina ægilegustu jarðskjálfta. Gætu jarðskjálftar þessir ef til vill staðið í sambandi við Kötlugosið mikla 934, er gerði Skóga- og Sólheimasand, eða Kötlugosið árið 1000, er Þurárhraun brann, sbr. Kristnisögu. Árið 1018 voru og miklir jarðskjálftar. Bær Herjólfs gæti eins hafa staðið austan megin Daltjarnarinnar og farizt undir eystri skriðunni. En eftir munnmælum hefir bæjarstæðið alltaf verið talið vera undir Blátindi, þar sem skriðan hljóp og rann langt niður á jafnsléttu. Styðst og þetta við örnefni. Í hið mikla skriðuhrúgald, sem á að vera yfir bæ Herjólfs, hefir auðvitað oft verið grafið og það fyrir æfalöngu, og sjást þess greinileg merki. Síðast var grafið þar til að leita að bæjarrústunum nokkru fyrir aldamótin síðustu. Ekki er vitað til að neitt markvert hafi þarna fundizt, og aldrei hefir sézt neitt til rústa, enda hefir aldrei verið grafið djúpt eða neitt rannsakað til nokkurrar hlýtar. Mest vegna trúar manna á ýms undur og býsn, svo sem það, að kirkjan stæði í ljósum loga, sbr. almenna hjátrú í sambandi við rof forndysja.
„Í Herjólfsdal fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið,“ segir í Hauksbók. Um örnefnið Herjólfsdalur er enginn vafi, sbr. hér að framan. Örnefnið Ægisdyr þekkist hins vegar eigi nú. Ýmsir hafa viljað binda nafnið Ægisdyr við sjávarvik nálægt Herjólfsdal, sem nefnt er Kaplagjóta eða Kaplagrjót, og hafa talið það liggja næst orðalaginu í Landnámu, og þarna séu hinar fornu Ægisdyr ¹²). Kaplagjóta er örþröngt sævarsund, sem líkindi eru og til að hafi verið enn mjórra fyrrum, og skerst inn með Dalfjalli. Nafnið ber staður þessi af því, að sagt er, að óskilafærleikum hafi verið hrundið hér fram af klettahleininni, sem takmarkar sundið að austan, og í sjó. Kaplapyttir heita sunnan á Stórhöfða.
Eigi er hægt að fallast á það, að þarna sé staðurinn, er fyrrum var nefndur Ægisdyr, og sízt, að svo veglegt nafn geti átt við þetta litla sund, er endar við urðarbás. Sundið hér við Kaplagjótu er svo örmjótt, að eigi verður út um það róið með árum á bæði borð. Hér er afar brimasamt og staðurinn með allra sízt hugsanlegu lendingarstöðum í eyjum. Þarna hefir eigi verið hin markverða Leið, eða dyr frá Ægi, hafinu, í land eða á haf út, er eyjamenn áttu sjávarsókn sína og afkomu svo mjög undir. Á Vestmannaeyjum hlaut nafn eins og Ægisdyr að hafa sérstaka, dýpri merkingu og vera tengt við aðalskipaleiðina. Við Kaplagjótu getur með engu móti hafa verið báta - eða róðrarleið út á hafið til fiskjar. Þarna eru sjávarurðir, klettar og sker úti í sjónum, erfitt um lendingu í ládeyðu, sem er þarna mjög sjaldan, heldur að jafnaði sífelld kvika, nema stökustu góðviðrisdaga, og hafrót svo stórfengilegt tíðum, að því er viðbrugðið. Kaplagjóta sjálf endar og við lítinn malarbás við standberg og eigi einu sinni hægt að geyma þar smákænu. Sundið, sem eins og áður er lýst, er örmjótt, getur með engu móti hafa verið breiðara áður, heldur auðsætt, að sjórinn hefir hlotið smám saman að breikka heldur þetta örmjóa sund, sem undizt hefir inn í krappri aðheldu milli berghamarsins annars vegar og hárra kletta á hina hliðina, svo það má vart heita róðrargengt smáferju.
Höfundur þessa rits getur eigi tekið undir það, að hér séu hinar fornu Ægisdyr, og er um þetta sammála Sigurði hreppstjóra Sigurfinnssyni ¹³). Klettasund þetta, sem líkist gjá, getur á engan hátt hafa dregið að sér þá athygli, að lega Herjólfsdals hafi nokkurn tíma verið miðuð við það, þótt segja megi, að Herjólfsdalur sé inn af strandlengjunni við Torfmýri, milli Dalfjalls og Ofanleitishamars, sem að vísu hefði fremur getað komið til mála að kalla Ægisdyr, ef landtökuskilyrði þarna hefðu verið önnur.
Eftir öllum líkum, sem styðjast við staðháttu á Vestmannaeyjum og vissu næst, virðast Ægisdyr, þetta forna, týnda örnefni hljóta að vera þar, sem er Leiðin, skipaleiðin svo lengi sem vitað er til, inn á höfnina að meðtaldri Víkinni, einkum meðan siglingarleiðin náði skemmra inn. Þarna opnast innsiglingin inn úr Flóanum inn að verzlunarstaðnum og naustunum, sem minnsta kosti á síðari öldum hafa verið aðallega milli Nausthamars og Stokkhellu. Allt, sem kunnugt er um sögu Vestmannaeyja, styður það, að þarna hafi verið aðalsiglingaleiðin, er leitað var lands í Vestmannaeyjum, Heimaeyjar, og frá landi, sbr. t.d. frásögnina í Kristnisögu um lendingu þeirra Hjalta Skeggjasonar og Gissurar hvíta við Hörgaeyri árið 1000, sem er elzta heimildin, er hermir frá lendingarstað á eyjunum, og eftir lýsingunni verður eigi um það villzt, á hvaða slóðum þetta hefir verið. Þetta gerist, er ekki einu sinni mun liðin heil öld frá landnámi eyjanna. Það virðist sama í þessu tilliti, við hvora eyrina sunnan undir Heimakletti, norður - eða suðureyrina, er átt með nafninu Hörgaeyri. Nafnið Ægisdyr á hvergi betur heima en þar, sem sjóleiðin opnast inn úr Flóanum milli Klettsnefs og Miðhúsakletta, bæði þegar siglt er beint inn að austan eða komið er sunnan með Urðum eða að norðan eða vestan fyrir Yztaklett. Af Heimalandi, vestan frá séð, ber Bjarnarey í opið. Á þessum slóðum hafa að vísu orðið miklar breytingar síðan á landnámstíð, sjór gengið á og land eyðzt, en samt virðist mega ætla, að mjög snemma og þegar á landnámstíð hafi sund, Leiðin, gengið inn frá Víkinni, sbr. og áðurnefnda frásögn um lendinguna við Hörgaeyri, og einnig örnefnið Eiði í Landnámu. Eiðið, sem svo er nefnt enn í dag, er norðan megin við núverandi bátahöfn eyjanna, Botninn, og þannig miklu innar en gamla stórskipalægið vestan við Hafnareyri. Á þessum slóðum við höfnina, Leiðina eða niður í Skipasandi, sem svo hefir verið kallað, hefir frá því að fyrstu byggðum var skipað á Vestmannaeyjum verið þungamiðja alls athafnalífs eyjanna, og við þetta hefir verið miðað, og hefir verið til skamms tíma meðal fólks, þegar sagt er „fyrir innan“ eða „fyrir utan“ og skal um þetta hér greint nánara. Herjólfsdal skilur fjallið Háin frá Flötunum inn af Botninum, eða ef Herjólfsdalur er talinn byrja fyrir innan Hástein, eru mótin um Sandskörðin Neðri. Orðin í Hauksbók „fyrir innan Ægisdyr“ koma mjög vel heim við gildandi málvenju hér, er haldizt hefir mjög lengi, og því líkast, sbr. það, er áður segir, að einhver gagnkunnugur eyjunum hafi þarna um fjallað. Meðan málfar hélzt hér nokkurn veginn í óbreyttum skorðum, um aldamótin síðustu, var alltaf sagt „inn“, „innúr“, „inneftir“, miðað við höfnina, til allra þeirra staða, er liggja vestanvert við hana, svo sem inn á Flatir, inn í Hlíðarbrekkur, inn í Hraun, inn í Dal, inn á Torfmýri. Er alls eigi hér með orðinu „inn“ farið eftir almennri málvenju um leið inn í dal, sbr. þá skoðun, er kemur fram í Árbók Fornleifafél. 1913, sem er alveg röng. Um annað lítið dalverpi suður á Heimaey, Lyngfellsdal, hefir hins vegar alltaf verið sagt út í Lyngfellsdal, sama gegnir um Hafursdal sunnan á eyjunum, og kemur það heim við, að ætíð hefir fólk sagt „fyrir utan“, „útúr“, „úteftir“ um leiðina til þeirra staða, er liggja sunnanvert á eyjunum, þegar miðað er frá höfninni eða kaupstaðnum. Þessari málvenju heldur gamalt fólk, uppalið hér í eyjum, enn þann dag í dag. Kvað svo rammt að þessu, að um fé, er gekk á síðastnefndum slóðum á Heimalandi, sunnan Helgafells, í Sæfjalli, Stórhöfða og Litlhöfða, var sagt, að það gengi fyrir utan og kallað utanféð, en um fé, er gekk í Hrauninu, Herjólfsdal og á Flötum, að það gengi fyrir innan og talað um „innanféð“, sem var sama og Dalféð eða Fjöruféð. Sama gegndi um róðra og sagt, að fara „inn fyrir“, þegar róið var norður eða vestur fyrir, og að vera „fyrir innan“ og að koma „að innan“, þegar komið var vestan fyrir, mótsett er komið var sunnan eða austan. Virðist allt bera að sama brunni, að miðað hafi verið „innan“, vestan, Leiðarinnar, og „utan“, sunnan og austan.
Skulu nú athuguð orðin í Hauksbók „þar sem nú er hraun brunnið“, sem alltorvelt virðist að átta sig á, og hefir orðið til þess, að því hefir jafnvel verið haldið fram af mörgum, að eldgos kunni að hafa átt sér stað eftir landnámstíð úr Helgafelli, og að þá hafi myndazt hraunið mikla vestan til á eyjunum og Herjólfur mátt flýja Dalinn vegna hraunflóðs. Samt er eigi kunnugt um, að jarðfræðingar hafi rannsakað staðinn og látið þetta álit uppi. Þorvaldur Thoroddsen, er víkur hér að í Lýsingu Íslands, mun í umsögn sinni hafa farið eftir áðurgreindri frásögn í Landnámu og sóknarlýsingu séra Brynjólfs Jónssonar, án þess að hafa rannsakað staðinn. Þorvaldur Thoroddsen segir í Lýsingu Íslands: „Helgafell hefir líklega gosið snemma á landnámstíð, og mun þess síðar getið“. Í Lýsingu Íslands II segir svo: „Á Vestmannaeyjum er lítið eldfjall, sem heitir Helgafell, það er reglulega löguð strýta, 720 fet á hæð með hraunum allt í kring, efsta gígskálin er úr gjalli og hraunmolum og halli hennar 25—30°. Gígskálin kvað vera 200 álnir að þvermáli og rönd hennar hæst að suðaustan, en lægst að norðvestan; gjallkeilan hefir myndazt síðast, við seinasta gosið, þegar nýja hraunið var runnið; í hraununum eru margir hellrar. Það má vel vera, að þar hafi brunnið snemma á landnámstíð, því í einu handriti af Landnámu segir svo: „Herjólfur Bárðarson byggði fyrst Vestmannaeyjar og bjó í Herjólfsdal fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið“ ¹⁴).
Við athugun á umhverfi Helgafells og Hrauninu virðist það næsta ólíklegt, að Helgafell hafi gosið á landnámstíð, og að hraunið vestan á Heimaey hafi þá myndazt. Flestir, er um mál þetta hafa fjallað og athugað staðina, hafa verið þeirrar skoðunar, að hraunið muni hafa runnið eða orðið til löngu fyrir landnámstíð, sjá t.d. umsögn Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi, Páls Sigurðssonar í Árkvörn ¹⁵). Skal þetta hér athugað nánar.
Landslagi er svo varið kringum Helgafell, að þar er samfellt graslendi, og jarðvegur mjög þykkur moldarjarðvegur, sums staðar nokkrar álnir á þykkt. Hraun kemur hvergi fram umhverfis Fellið, fyrr en dregur nokkuð langt vestur frá rótum þess og hinum djúpa moldarjarðvegi sleppir, einmitt þar á mótunum, sem hinn sendni jarðvegur byrjar, en eins og áður segir er jarðvegur næsta ólíkur austan og vestan á Heimaey. Byrjar aðalhraunið á þessum mótum. Háir rofbakkar stóðu til skamms tíma austan hraunsins, er lengi hafa verið að færast austur á við undan uppblæstri, en vestan frá þeim örfoka hraun og klappir. Eru mest líkindi til, að hraunið sé mjög gamalt og miklu eldra en bygging landsins. Virðist sama hraunlag liggja undir mestöllu Heimalandi og kemur fram í Ofanleitishamri og Flugum, en misjafnlega djúpt niður á það. Margt virðist benda til þess, að þar sem hraunið er upp úr á vesturhluta eyjarinnar, hafi land snemma afklæðzt jarðvegi sínum og orðið örfoka vegna uppblásturs, er verið hefir þarna að verki um allan vesturhluta Heimaeyjar um margar aldir, land gróið upp og afklæðzt á víxl. Fram um aldamótin síðustu, áður en nokkuð var hafizt að til varnar, mátti sjá víðsvegar geysihá rof og grasbörð, sums staðar 4—5 álnir á hæð, sem eftir fá ár lágu gerfallin fyrir ágangi storma. Þar sem blés upp á einum stað gréri upp á öðrum smám saman með löngum tíma, en erfiðlegast hefir gróðrinum gengið í Hrauninu sökum þess, hve jarðvegur er þar grunnur, mest berar klappir. Samt hefir verið allmikill gróður í Hrauninu lengi og sauðbeit þar sæmileg í lautum og drögum. Mosi er þar lítill. Hraunið takmarkast að sunnan af „Byggðinni“ fyrir „ofan Hraun“, að austan af Sandskörðunum Efri, Brimhólum og Sandskörðunum Neðri. Að vestan liggur það út á Ofanleitishamar og að Torfmýri. Um Torfmýri sjálfa hefir hraunið eigi runnið og eigi heldur komizt inn í Herjólfsdal og útjaðar hraunsins þar alllangt frá, svo af þessum sökum hefði eigi þurft að flýja Herjólfsdal. Ljós vottur um uppblásturinn á eyjunum eru hinar fornu bæjarrústir undir Hánni, sbr. hér síðar. Þar má og víðar enn gleggra, þar sem jörð er mjög sendin, sjá hversu þykkur jarðvegur hefir eyðzt ofan af, og síðan hlaðizt í aftur á löngum tíma og jarðvegur myndast á ný, og aftur orðið örfoka.
Orðin í Landnámu (Hauksbók): „Fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið“, hljóta að eiga skoðast í heild, þannig, að fyrir innan Ægisdyr, þ.e. vestan á eyjunum, sé brunnið hraun eða brunahraun, og þannig myndi þessu einmitt hafa verið lýst af kunnugum. En eigi þarf að efa það, að á 13. öld eða um 1300, er Hauksbókarhandritið, eins og það liggur fyrir, mun ritað, og jafnvel fyrr, hefir umrót það og jarðrask, er lýst er hér að framan, þegar hafa verið mikið, sbr. einnig það, er Hauksbók segir um eyðingu Ormsstaða vegna uppblásturs. En þar sem menn ætla, að Ormsstaðir hafi verið, er djúpur sandur, og hefir þar eigi komið upp eiginlegt hraun eða klettar. Orðin „þar sem nú er“ o.s.frv., í Landnámu, sýna, að fyrir höfundi hefir vakað að lýsa, að eigi hafi landið á vestanverðum eyjunum verið svo illa komið, sem hér hefir verið lýst, er byggð hófst í Herjólfsdal. Víst er og, að eftir skriðuhlaupin miklu í Herjólfsdal hefir þar allt verið umturnað, sem hefði hraunflóð þar runnið yfir. Um leið og Hraunið tók að blása mjög upp, hefir orðið óbyggilegra og óbúsældarlegra í Dalnum heldur en í byggðunum á austurhluta Heimaeyjar. Allstór rof voru til skamms tíma ennþá í Hrauninu og leifar af gömlum grassverði, við Skriðnaból vestur í Hrauni eru fornar hústættur og aðrar norðar. Rústir af fornu býli hafa nýlega fundizt langt uppi í Hrauni. Rof voru og við hraunjaðarinn á Torfmýri, nálægt þar, sem ensku dysjar eru frá öndverðri 16. öld. Einnig mátti sjá hið sama við Norðurgarðskletta sunnarlega í Hrauninu, og alla leið með hraunröndinni austur um Efri-Sandskörð, sem aðskilja Agðahraunið frá aðalhrauninu. Agðahraunið liggur opið fyrir norðan- og vestanáttum. Á þessu svæði, sem næst liggur Fellinu, mátti til skamms tíma sjá þess allskýr merki eftir staðháttum og umhverfi, að þar var mjög gamalt og uppblásið hraun, og að eyðing jarðvegar þar hefir stafað af fokinu frá Efri-Sandskörðunum, líkt og gerzt hafði við Neðri-Sandskörðin, þar sem land hafði eyðzt niður undir sjó. Það skal tekið fram, að erfitt er fyrir ókunnuga að átta sig á þessu nú, er búið er að taka mikið af landi Heimaeyjar undir nýræktun. Hraunin á stórum svæðum orðin samfelld tún og búið að breyta báðum Sandskörðunum, sem voru aðaluppblásturssvæði eyjanna á seinni tímum í tún og matjurtagarða.
Mikill uppblástur hefir og átt sér stað sunnan á Heimaey, suður að Sæfjalli, þar eru sums staðar mannhæðarhá moldarbörð, og við Kinn eru geysimiklar sandöldur. Suður af aðalhrauninu er graslendi ágætt, en háar hraunstrýtur standa upp úr og hraun alls staðar undir, en hér hefir fok eigi náð að gera verulegan skaða.
Landáma (Hauksbók) segir, að Ormur auðgi, sonur Herjólfs í Herjólfsdal, hafi búið á Ormsstöðum við Hamar niðri, þar sem er blásið allt. Bæjarnafnið Ormsstaðir þekkist nú eigi hér. Lýsingin á staðnum, þar sem bærinn á að hafa staðið, er allglögg, svo að milli aðeins tveggja eða þriggja staða virðist geta verið að velja. Sem sé undir Hánni, Lághánni, að austan og undir Neðri Kleifum og við Nausthamar. Þessi síðastnefndi staður er þó ólíklegastur ¹⁶). Skulu nú þessir staðir athugaðir nánar. Mjög virðist það ósennilegt, að bærinn hafi verið byggður undir Kleifum. Virðist og sem þarna hafi um 1300, er frásögnin er færð í letur, naumast hafa getað verið neitt land eftir, heldur sjór, sbr. og um Eiðið, er og getur í Landnámu. Bezt kemur lýsing Ormsstaða við, að þeir hafi staðið undir Lág-Hánni, sem er múli, er gengur austur úr Háhánni. Þarna undir hamrinum eða múlanum hefir verið mjög fagurt bæjarstæði, beint upp af höfninni og víðlendar valllendisgrundir fram að sjónum. Örnefnið Náttmálaskarð milli Háar og Klifs, sem hefði getað verið eyktarmark frá bæ austan undir Hánni, sem og raunar víðar, styður og þetta. Gömul munnmæli tengja og fyrrnefndan stað við Ormsstaði. Undir Hánni hefir hvað eftir annað fundizt undan uppblásnum börðum í öskuhaugum ýmsir fornir smámunir úr eiri og járni, kvarnarsteinar, hlóðarsteinar, vaðsteinar o.fl. og sést móta fyrir hleðslum og auðsætt, að þarna hefir verið fornt býli. Svæðið þarna umhverfis hefir verið eitt hið mesta uppblástrarsvæði eyjanna, og orðið örfoka oftar en einu sinni af allháu jarðlagi, sums staðar um 3 álna, eins og rofbakkar sýndu. Nú er land þetta allt komið undir nýrækt og vegsummerki lítt sjáanleg. Um 1300 hlýtur land þarna að hafa verið uppblásið. Lýsingin í Landnámu af staðnum, þar sem Ormsstaðir voru, kemur einkar vel heim um þenna stað. Hér er auðsætt, að miklar breytingar hafa orðið. Jafnvel hvergi annars staðar á Vestmannaeyjum getur maður hugsað sér, að tún hafi tekið af og bær eyðilagzt vegna sandfoks.
Talað er um skemmdir miklar hér á fyrri tímum á fiskigörðum vegna sandfoks. Um miðja 18. öld leitaði stjórnin tillagna sandgræðslustjóra Dana í þessum málum, og voru þá sendir sáðhafrar til eyja, sbr. rentuk.br. 1745 og 1746. Að litlu liði virðist þetta samt hafa orðið.
Í ársriti hins ísl. Náttúrugripasafns 1907—08 er skýrsla um beinafund í Vestmannaeyjum: „Bein fundin í Vestmannaeyjum 1907, í börðum, sem eru blásin upp í Rofunum undir Hánni upp af Hafnarbotninum, c. 10 m. yfir sjávarmáli, en 1—1,5 m. undir yfirborði jarðar. Hefir blásið ofan af grjótbing miklum (gömlum bæjarrústum ?), er garðahleðsla (túngarðar ?) liggja út frá í 3 áttir. Bærinn, ef bær hefir verið, hefir staðið á allháum hól, þar sem örfoka er, er þunnt, dökkrautt leirlag, og í því hafa fundizt smámunir úr látúni og eir. Einnig sökkubrot, brot af hnífsblöðum, kvarnarsteinar o.fl. Beinin öll nema fiskabein hafa skoðað og ákveðið dýrafræðingarnir H. Vinje og K. Hörring í Kaupmannahöfn. Bein þessi eru úr: svíni, nautgrip, sauðkind og geit, hesti, hundi, ketti og landsel; ennfremur úr æðarfugli, fýl, súlu, langvíu, stuttnefju?, lunda, álku (klumbu), geirfugli, eitt lítið vængbein, og svartbak. Loks eru nokkur bein úr fiskum, flest úr þorski.“ Þótt skýrsla þessi að vísu sanni eigi neitt um Ormsstaði, styður hún þó að vísu það, sem áður er tekið fram um þessi efni, og þótti því rétt að taka hana með. ¹⁷) Almennt er talið, að rústirnar undir Hánni séu leifar af fornu bæjarstæði ¹⁸)
Þótt frásögnin í Hauksbók sé sennilegri, sbr. það, er að framan er lýst, verður samt eigi skorið úr því með fullri vissu, hvað réttast er í þessu efni, eða hvor þeirra Orms eða Herjólfs er fyrsti landnámsmaðurinn, eða Herjólfsdalur hefir heitið fyrsti landnámsbærinn eða Ormsstaðir. Sé fylgt Hauksbókarhandritinu, er Ormsstaðanafnið tengt við Orm Herjólfsson Bárðarsonar, en samkv. Sturlubók við Orm Bárðarson. Um þessa nafna og frændur virðist töluvert málum blandað. Viðurnefnin hinn „ánauðgi“ og „auðgi“, þó vel geti verið rétt, virðast og benda til hins framansagða.
Um Orm Herjólfsson segir, að hann einn hafi átt allar Vestmannaeyjar, og hefir hann þá erft þær eða mikinn hluta þeirra eftir Herjólf föður sinn, er mun hafa fengið eyjarnar að kaupi frá eigendum eða umráðamönnum, höfðingjum á landi, því ólíklegt er mjög, að eyjarnar jafngagnsamar og þær hafa ætíð verið hafi eigi verið snemma helgaðar undir landnám. Á dögum Orms Herjólfssonar hefir byggð tekizt að eflast hér, og hefir Ormur haft leigur af jörðum og lendum og umráð yfir útgerðinni. Viðurnefni Orms Herjólfssonar „hinn auðgi“ getur því fyllilega hafa verið réttnefni. Einkennileg eru munnmælin um Herjólf í Dalnum, um að hann hafi selt eyjabúum vatn og m.a. auðgazt af því. Má úr sögnunum og lesa það, að hann hafi setið mjög yfir hlut manna þar. Munnmælin láta Vilborgarstaði byggjast eftir eyðingu Herjólfsdals, og draga nafn af Vilborgu, er verið hafi dóttir Herjólfs í Herjólfsdal, og segir sagan, að hún hafi ein komizt undan, er skriðan hljóp á bæ Herjólfs. Telur þjóðsagan, að Herjólfur hafi að maklegleikum orðið fyrir vendi refsinornanna, fyrir að selja vatnið og nota sér þannig neyð annarra ¹⁹). Við Vilborgu er kennd Vilpa, vatnsbólið fræga á Vilborgarstöðum. Lítur út sem Vilborg hafi fylgt dæmi föður síns að sjá vel fyrir vatnsþurftum við bæ sinn. Vilborg er talin heygð í Vilborgarstaðatúni, heitir þar Borguleiði. Á Vilborgarstöðum var elzti þingstaður eyjanna, sem vitað er um. Í Biskupasögum segir, að Vilborgarstaðir séu kenndir við
Vilborgu móður Þórðar Kuggs, er var uppi á öndverðri 13. öld ²⁰) Meiri líkur eru samt fyrir því, að nafn þetta sem samheiti fyrir Vilborgarstaðajarðir sé mikið eldra.
Bæði handritin af Landnámu nefna Halldóru Ormsdóttur, er átti Eilífur Valla-Brandsson. Halldóra er talin í öðru handritinu (Sturlubók) dóttir Orms Bárðarsonar, en í Hauksbók dóttir Orms Herjólfssonar og þá sonardóttir landnámsmannsins. Hvort réttara er skal athugað hér. Frásögnin í Hauksbók sýnist áreiðanlegri hvað tímatalið snertir, svo er hún og um hérgreind atriði fyllri og nefnir hún móður Halldóru Þorgerði Oddsdóttur. Móðir Eilífs var Þuríður dótturdóttir Flosa Þorbjarnarsonar landnámsmanns á Rangárvöllum. Bróðir Eilífs Valla-Brandssonar var Flosi faðir Kolbeins föður Guðrúnar Kolbeinsdóttur, er átti Sæmundur hinn fróði Sigfússon, d. 1133. Flosi Valla-Brandsson getur verið fæddur á síðustu áratugum 10. aldar, og um svipað leyti Eileifur bróðir hans og kona Eileifs Halldóra Ormsdóttir. Afi hennar Herjólfur Bárðarson, sbr. Hauksbókarhandritið, getur verið fæddur öndverðlega á 10. öld, þannig, að hann hafi verið fulltíða maður í kringum lok landnámsaldar, og byggð hans á Vestmannaeyjum hafizt um það leyti, sem kemur heim við það, er áður greinir, sbr. og Íslendingasögu B.Th.M. En harla er ósennilegt, að fyrsta byggð hér hafi hafizt öllu seinna, sem þó virðist fremur hafa hlotið að vera, og að einn lið vanti til landnámsmannsins, ef fylgt er Sturlubók, sem telur Halldóru dóttur Orms Bárðarsonar. Ef þessu væri svo varið, mætti eftir nokkrum líkum telja, að fyrsta byggð eða bólfesta á eyjunum, því að í þessu tilfelli fækkar um einn lið frá landnámsmanninum til Halldóru, hæfist fyrst 30 til 40 árum eftir lok landnámstíðar eða jafnvel síðar, sem virðist ólíklegra, sbr. það, er áður greinir. Fleira kemur til greina, er styrkt gæti áreiðanleik frásagnarinnar í Hauksbók. Svo sem það, að höfundur Hauksbókar, Haukur lögmaður, var sjálfur af ætt Valla-Brands, og hefir honum, er og var gjörfróður um fornar ættir, hlotið að vera vel kunnugt um þessi ættarvensl. Ættfærslu hans á Halldóru Ormsdóttur, að hún hafi verið dóttir Orms Herjólfssonar, mun því mega telja rétta. Halldóra, er líklega hefir verið einbirni, hefir erft allmikinn auð í löndum og lausum aurum eftir föður sinn, svo minnisstætt kann að hafa verið. Um skyldleika Hauks lögmanns við Valla-Brand skal hér greint. Flosi Bjarnason prestur, d. 1235, var faðir Valgerðar ömmu Hauks lögmanns, en faðir Flosa var Bjarni prestur Bjarnason, d. 29. júní 1181, Flosasonar Kolbeinssonar Flosasonar Valla-Brandssonar ²¹).
Eignarumráðin yfir jörðum og lendum hér hafa gengið til niðja landnámsmannsins. Hauksbók segir, að Ormur Herjólfsson hafi einn átt allar eyjarnar. Eigi er getið annarra barna hans en Halldóru, er eignazt hefir eyjarnar eftir föður sinn. Um niðja þeirra Halldóru Ormsdóttur og Eilífs Valla-Brandssonar er ekki kunnugt, né hvort þau hafa búið á landi, sem vel getur hafa verið, eða í eyjum.
Með giftingu þeirra Halldóru Ormsdóttur og Eilífs Valla-Brandssonar hófust tengdir milli eyjamanna og helztu ætta í Árness- og Rangárþingi. Þannig var Aldís móðir Valla-Brands komin af Katli Hæng Þorkelssyni Naumdælajarls, en Ketill nam lönd öll milli Þjórsár og Markarfljóts. Ásný hét móðir Þuríðar konu Valla-Brands. Var hún systkinabarn við Úlf örgoða, er Oddaverjar eru frá komnir, og Valgarð föður Marðar. Þormóður Skapti faðir Þórvarar móður Þórodds goða var bræðrabarn við Aldísi móður Valla-Brands. Þeir Hjalti Skeggjason og Valla-Brandur voru fimmmenningar að frændsemi. Af þessari ætt var og Hallur Þórarinsson í Haukadal og Þorlákur faðir Runólfs föður Þorláks biskups ²²).
Tilvísanir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Landnámabók, Khavn 1900, bls. 7—8 og 264—65.
2) Sjá ágizkanir um nöfnin Mykjuteigstó og Miðdagstó, Árb. Fornleifafél. 1913.
3) Sjá Íslendingasögu B. Melsted, Khöfn 1903, sbr. Landnámu.
4) Sturla lögmaður Þórðarson, d. 1284.
5) Haukur lögmaður Erlendsson, d. 1334.
6) Landnáma, Khavn 1900, I. kap. 302, II. 351.
7) Styrmir fróði príor í Viðey, d. 1245. Sjá form. við Landn.b. og Árb. Fornl.fél. 1913.
8) Sjá P. Sigurðsson: Örnefni og goðorð í Rangárþingi, S.t.s.Ísl. II, bls. 519. Árb. 1907, 1913. Br. Jónsson og S. Sigurfinnsson.
9) Lítil Tilvísan um Vestmanna-Eya Háttalag og Bygging, 471, Lbs. 123, 4to.
10) Árb. Fornl.fél. 1925—26, bls. 18—21.
11) Nú hafa fundizt leifar af vatnsbóli austar í Dalnum, sem að líkindum er eldra.
12) Vestmannaeyjalýsing Jónasar Hallgrímssonar, Sóknarlýsing séra Brynjólfs Jónssonar. Árb. Fornleifafél. 1913.
13) Sbr. Árb. Fornleifafél. 1913, bls. 7.
14) Lýsing Íslands I og II, bls. 119 og 141—42. Sjá Salomonsens Konversations Leksikon 1928, um Vestmannaeyjar.
15) Árb. Fornleifafél. 1907, S.t.s.Ísl. II.
16) Sjá Árb. Fornl.fél. 1907 og 1913, S.t.s.Ísl. II, Örnefni og goðorð í Rangárþingi.
17) Beinunum safnaði Sigfús M. Johnsen í Vestmannaeyjum sumarið 1907.
18) Sjá og Eyjabálk í blaðinu Skildi 1924.
19) Þjóðs. J.Á. II, sagan af Vilborgu Herjólfsdóttur og hrafninum.
20) Biskupas. I, 703.
21) Blanda IV, 149, Ísl. árt.skr., Skírnir 1937, B. Guðmundsson.
22) Landnámabók, 1—11.