„Saga Vestmannaeyja I./ IV. Vestmannaeyjaprestar, 1. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <big><big><big><center>IV. Vestmannaeyjaprestar,</center></big></big> <big><center>sem kunnugt er um ¹)</center></big></big> <center>(1. hluti)</center> <big><center>'''Prestar til Ki...)
 
Ekkert breytingarágrip
Lína 1: Lína 1:
<big><big><big><center>IV. Vestmannaeyjaprestar,</center></big></big>
<big><big><big><center>IV. Vestmannaeyjaprestar,</center></big></big>
<big><center>sem kunnugt er um ¹)</center></big></big>
<big><center>sem kunnugt er um ¹)</center></big></big>

Útgáfa síðunnar 29. júlí 2011 kl. 21:41



IV. Vestmannaeyjaprestar,
sem kunnugt er um ¹)
(1. hluti)


Prestar til Kirkjubœjar.


Séra Torfi mun hafa verið prestur hér á 12. eða 13. öld.
Séra Þorlákur hér eða á Ofanleiti um og eftir 1400.
Snorri Helgason. Hann er eini presturinn hér frá katólskum tíma, sem með vissu er vitað um. Séra Snorra getur í dómi 1491. Talið er, að prestsár hans séu hér nokkru fyrir 1482 og fram undir 1492, en þá er hann orðinn prestur að Odda á Rangárvöllum.
Gissur Fúsason (Vigfússon). Hann fékk veitingu fyrir Kirkjubæjarprestakalli 1546, og hefir þá verið ungur, því að hann er enn á lífi sem uppgjafaprestur í eyjunum undir lok 16. aldar, eins og sést af umboðsreikningum frá þeim tíma. Séra Gissur er af sumum talinn sonur Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra og sýslumanns á Hlíðarenda.
Jón Jónsson. Séra Jóns er getið 1587 í sambandi við skipaeign eyjabúa. Hann gerir þá út sexæring í samlögum við aðra, sbr. umboðsreikninga 1587. Séra Jón stóð að hinum gagnyrtu kærumálum eyjabúa til höfuðsmanns 1583. 1592 er hann dæmdur á tillag staðanna í Sunnlendingafjórðungi sem uppgjafaprestur, sjá kæruskjal biskups og Skálholtspresta til konungs 19. mái 1592.
Ormur Ófeigsson. Um það hefir eigi verið fyllilega kunnugt áður, hvenær séra Ormur kom að Kirkjubæ. Prestatal segir hann kominn að staðnum um 1600, fullvíst 1599 segir í Prestaæfum Sighvatar. En það má sjá af umboðsreikningum eyjanna og jarðabókinni 1593, að séra Ormur er orðinn prestur að Kirkjubæ 1593, er mun vera fyrsta ár hans þar. Séra Ormur var mesta ofstopamenni og illa kynntur. Hafði hann hrökklazt úr einum stað í annan, síðast frá Fellsmúla á Landi og áður hafði hann af óvilja sínum farið frá Þingvöllum. Árið 1607 báru fógetar konungs í eyjunum fram á Alþingi mjög harða og berorða kæru yfir ljótu framferði séra Orms og ósæmilegri hegðun.²) Kæruatriðin eru 16 og snertir rúmur helmingur þeirra viðskipti séra Orms við kaupmennina og umboðsmennina í eyjunum, og er þar margt hrysjugt. Önnur atriðin eru um vanrækslu hans í embættisstarfi, ofstopa og yfirgang við sóknarbörn sín.
Þannig segir í kærunum 8., 13. og 15.: „Alþýðan klagar yfir, að þá er einhver kemur seint í kirkju, og prestur annaðhvort er fyrir altari eða kominn upp í stólinn, þá hætti hann guðsþjónustunni og ráðist á viðkomanda með miklum ónotaorðum. Kærður var klerkur og fyrir það, að hann hefði skammað Guðmund nokkurn Árnason, er kom of seint til kirkju á boðunardag Maríu, var prestur þá fyrir altari. Í prédikun sinni þennan dag sagði prestur, að Kristur væri skapaður í móðurlífi. En eftir embætti, er vant var að þakka presti með handabandi fyrir ræðuna, þakkaði Guðmundur þessi honum, en sagðist eigi þakka honum fyrir þessa kenningu. Svaraði séra Ormur þá, að þetta skyldi hann fá borgað, og einum eða tveim dögum síðar sendi séra Ormur son sinn í fyrirsát fyrir Guðmundi, og sló hann Guðmund í höfuðið með steini, svo blóð gekk af vitum hans. Þar eftir tók hann seglrá og barði manninn með henni í handlegginn, svo maðurinn gekk limlestur alla vertíðina og hafði af því mikið tjón.“ Voru um þetta skrifleg vottorð dánumanna. Séra Ormur dvaldi og langdvölum á landi, svo að börn voru oft lengi óskírð í sókn hans. Hann neitaði að skíra utansóknarbörn, og var kært yfir því, að barn hefði dáið óskírt af þeim sökum. Þá segir frá því í kærunum, að almenningur hafi beiðzt þess af prófasti, að mega vera laus við séra Orm sökum hans illa lifnaðar, og að mega fá í hans stað annan „skikkanlegan“ prest.
Þá var og séra Ormi í nefndum kærum borið það á brýn, að hann bryti verzlunarlöggjöfina. Hann færi upp á land til að verzla, seldi fisk sinn og lýsi út á Eyrarbakka, hann æsti alþýðu upp á móti kaupmönnum og brigði um, að þeir seldu svikið mjöl og drykk og aðra vöru. Hann hafi iðulega þrætur í frammi og æsi menn upp í rifrildi með sér móti kóngsfógetanum. Töldu umboðsmenn konungs sér varla vært í eyjunum fyrir séra Ormi.³)
Séra Ormur fór frá Vestmannaeyjum 1607 og mun hafa gengið yfir honum afsetningardómur á Alþingi þetta ár og sektir, þótt eigi verði sagt um þetta með vissu, því að Alþingisbækur frá þessum tímum eru glataðar. Hann var samt tekinn til prests að Hofi í Gnúpverjahreppi 1607. Tveim árum síðar átti hann í barsmíðamáli á Alþingi við bróður sinn Sigurð Ófeigsson og varð þá fyrir fésektum og útlátum.
Það, sem segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, um að Yztiklettur hafi gengið undan Kirkjubæ í tíð séra Orms, er eigi rétt, þó að því hafi allajafna verið haldið fram. En eins og komið hefir í ljós við athugun á umboðsreikningum frá lokum 16. aldar, eru þessi skipti um garð gengin áður.
Jón Þorsteinsson píslarvottur var prestur að Kirkjubæ, að því er talið er, frá 1612—1627. Séra Jón vígðist að Húsafelli í Borgarfirði 1598, fékk Torfastaði 1601 og Kirkjubæ 1612 eða líklega fyrr. Séra Jón var gáfumaður mikill og nafnkunnugt sálmaskáld. Eftir hann eru Genesis-sálmar, 50 sálmar, er ortir eru út af 1. Mósebók, og textanum fylgt nákvæmlega. Sálmarnir hafa verið prentaðir mörgum sinnum.⁴) Aðalskáldverk hans er Davíðssaltari, sálmar undir íslenzkum lögum. Náði Davíðssaltari séra Jóns mjög mikilli hylli.⁵) Meðal alþýðu hafði verið mikil trú á Davíðssaltara séra Jóns, svo að jafnvel átti hann að vera vörn gegn sóttum í mönnum og fénaði. Nýjárssálmar og fjöldi annarra sálma, sem flestir eru óprentaðir. Út af Makkabeabókum. Af sögunni um Súsönnu. Andlegt sigurverk heilagrar ritningar upp í 12 stundir dags. Sálmur: Minn hugur, sinni, hjarta og sál. Í upphöfum versanna má lesa Margrét Jónsdóttir á Kirkjubæ. Um ránið í Vestmannaeyjum 1614. Hrakningakvæði út af hrakningi frá Súlnaskeri 1623. Hröktust menn, er farið höfðu í Skerið til súlnaveiða 21. ágúst 1623, og náðu eftir mikið volk höfn á landi, en komu eigi til eyja fyrr en 8. sept, og höfðu þá verið taldir af. Spakmælarímur, ortar 1625. Nokkru áður en séra Jón var drepinn, orti hann langan sálm, er hann kallaði sorgarsöng yfir Íslands óförum.
Séra Jón var sonur Þorsteins Sighvatssonar í Höfn í Melasveit í Borgarfirði, er var móðurbróðir Kláusar Eyjólfssonar lögsagnara á Hólmum og sýslumanns í Vestmannaeyjum. Séra Jón var drepinn af Tyrkjum í Vestmannaeyjum 1627. Kona hans Margrét Jónsdóttir og tvö börn þeirra, Margrét og Jón, er síðar kallaði sig Westmann, voru öll hernumin í Tyrkjaráninu 1627 og flutt til Algier. Synir séra Jóns Þorsteinssonar og Margrétar konu hans voru og séra Þorsteinn Jónsson í Holti undir Eyjafjöllum, faðir Margrétar móður Jóns biskups Vídalíns, og séra Jón Jónsson prófastur á Melum.⁶)
Jón Jónsson frá 1628 eða 1629 til 1650 eða 1654. Hann var sonur séra Jóns Egilssonar annálaritara í Hrepphólum Einarssonar bónda á Snorrastöðum í Laugardal Ólafssonar prests í Görðum á Álftanesi. Kona Egils var Katrín Sigmundsdóttir biskups Eyjólfssonar Jónssonar á Hjalla og Ásdísar systur Ögmundar biskups Pálssonar í Skálholti. Séra Jón var bræðrungur við Kláus Eyjólfsson lögsagnara og bróðursonur Ólafs Egilssonar prests að Ofanleiti. Óvíst er, hvort séra Jón er sá sami prestur og getur í dómi frá Holti undir Eyjafjöllum 8. maí 1607 um skemmdir, er urðu á skipi, ásamt fleiru, er séra Jón fór til eyja 1606 í óleyfi eigenda. Hefir séra Jón, ef dómurinn á við hann, þá verið að líkindum prestur í Mýrdalnum.⁷) Séra Jón var tvívegis kærður fyrir að hafa gefið saman hjón í óleyfi foreldra. Séra Jóns Jónssonar í Kirkjubæ getur oft í bréfabókum biskups í sambandi við málefni eyjabúa eftir Tyrkjaránið, einkum í sambandi við mál út af hjónabandssökum eyjamanna eftir ránið. Séra Jón var dæmdur frá embætti fyrir barneign 1650, en mun samt hafa verið í Kirkjubæ nokkuð lengur eða fram um 1653—54. Prestssetrið í Kirkjubæ var metið og skoðað 25. júní 1653 af Magnúsi sýslumanni Bjarnasyni. Beiddist næsti prestur leiðréttingar á um níðslu Kirkjubæjarstaðar. Nú var kunnugt um fátækt prests þess, er frá fór, séra Jóns, og einnig rekaleysi staðarins, konungur átti allan reka hér, svo að engin ráð voru til að hýsa upp staðinn. Las sýslumaður þetta upp á Alþingisprestastefnu 30. júní 1655 og óskaði álits um það, en biskup svaraði, að með því að afhendari staðarins, séra Jón, væri afsettur prestur, heyrði mál þetta ekki undir andlegan dóm, einnig að danskir menn, veraldlegir menn, væru forstöðumenn staðarins fyrir hönd Verzlunarfélagsins, þá vissi hann ekki, að sér bæri að dæma í málinu. Séra Jóns getur í reikningsbók Landakirkju í sambandi við fiskgjafir síðast 1648.
Böðvar Sturluson. Hann var heyrari í Skálholti 1649 og vígðist árið eftir 1650 til Vestmannaeyja. Talið er, að séra Böðvar hafi gegnt prestsembætti í Vestmannaeyjum í nokkur ár, en óvíst er um þetta. Séra Böðvar varð síðar prestur á Valþjófsstað og var þar lengi.
Árni Kláusson 1656—1673. Hann var fæddur um eða eftir 1610 og voru foreldrar hans Kláus Eyjólfsson lögsagnari á Hólmum og kona hans Ingibjörg Þorleifsdóttir Ásmundssonar Þorleifssonar Pálssonar lögmanns á Skarði. Hann var prestvígður 1633 og mun fyrst hafa þjónað Hvalsnesi, en sleppti því og fór í Skálholt í þjónustu biskups. Í meðmælabréfi Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 18. ágúst 1644, er biskup hugðist að koma séra Árna að sem presti í Ögurþingum, segir, að hann sé frómur og fáskiptinn, einfaldur kennimaður í sinni umgengni og dagfari, en ei fjarlægur í sinni prédikun, er hann kostgæfi og ástundi sitt embætti. Árni varð síðan prestur að Stað í Aðalvík, en síðast prestur í Kirkjubæjarprestakalli. Deyði í Kirkjubæ 72 ára 1673. Dóttir séra Árna var Vilborg móðir Halldórs Brynjólfssonar biskups á Hólum.
Oddur Eyjólfsson 1674—1732. Séra Oddur fékk Kirkjubæ 1674. Séra Oddur var kallaður Oddur yngri til aðgreiningar frá bróður sínum, séra Oddi eldra í Holti. 1689 sendu eyjaprestarnir, séra Oddur og séra Gissur á Ofanleiti, bænarskjal til Skálholtsbiskups um upphaldseyri þeirra. Þá beiddust þeir þess og sérstaklega, að kirkjunni væri ákveðin rekamörk. Séra Oddur þjónaði Kirkjubæ í 58 ár, deyði þar 83 ára 1732.
Jón Oddsson. Var um tíma aðstoðarprestur hjá föður sínum séra Oddi Eyjólfssyni, síðar prestur að Eyvindarhólum.
Arngrímur Pétursson 1733—1740. Séra Arngrímur var sonur séra Péturs Gissurarsonar á Ofanleiti og konu hans Vilborgar Kláusdóttur Eyjólfssonar og var fæddur í Vestmannaeyjum um 1660. Hann fékk Breiðuvíkurþing 1688. Sendi biskup „þénara sinn“ Arngrím Pétursson til Sigurðar prófasts Sigurðssonar á Staðastað, sbr. bréf dags. 14. nóv. 1688, vestur þangað til að fá prestskosningu í Breiðuvíkurþingum. Segir biskup, að sér þyki mikið fyrir að missa hann, „þar hann hefir verið mér mjög geðfelldur, en þó þykist ég eigi mega standa honum í ljósi.“ Séra Arngrímur fékk Fljótshlíðarþing 1693, sagði þeim snemma af sér sökum heilsubrests, var prestlaus um tíma, þjónaði Oddaprestakalli 1726. Hann fékk veitingu fyrir Kirkjubæ 5. maí 1732, en tók við brauðinu til fulls í maí 1733 af Kristínu Þórðardóttur ekkju séra Odds Eyjólfssonar. Séra Arngrímur var tvíkvæntur. Hann átti miklar jarðeignir, er hann hafði fengið einkum með seinni konu sinni, er var dóttir Markúsar Snæbjörnssonar sýslumanns í Vestmannaeyjum. Séra Arngrímur var áttræður, er hann andaðist.
Guðmundur Högnason 1742—1795. Hann vígðist fyrst aðstoðarprestur að Holti undir Eyjafjöllum og þjónaði þar, þar til hann fékk veitingu fyrir Kirkjubæ, líklega í september 1742.
Séra Guðmundur var gáfumaður mikill og lærdómsmaður og prédikari góður. Var hann talinn meðal lærðustu klerka landsins.⁸) Finnur biskup Jónsson segir um séra Guðmund, að hann hafi verið lærður, skarpvitur og skikkanlegur maður, sbr. bréf til Thodals stiftamtm. 28. ág. 1775, en ekki mikill búmaður. Meðan séra Guðmundur var í Skálholtsskóla var hann álitinn einna gáfaðasti nemandinn þar. Mörg ritverk eru til eftir séra Guðmund⁹):
1. Sjö sálmar út af díario séra Jóns Vigfússonar að Skarði í Meðallandi.
2. Morgunsálmar og margir aðrir sálmar, prentaðir og óprentaðir.
3. 7 sendibréf Jesú Kristí til safnaðanna í Asíu með útskýringum og formála, dags. í Vestmannaeyjum 20. okt. 1768. Prentað í Hrappsey 1783.
4. Útlegging yfir 7 orð Maríu. Prentað í Hrappsey 1783.
5. Misseraskiptaprédikanir. Hrappsey 1783.
6. Andlegt húsoffur.
7. Kveðlingur, er inniheldur siðgæðis- og borðsiðareglur. Sveina svinnu. Skemmtikvæði.
8. Jóhannes Messinii. Meditationes morales, þýðing.
9. Joh. Arndts: Kristindómur, 4.—5. bók.
10. Joh. Arndts: Bænabók eða paradísaraldingarður, þýðing. Sendu ýmsir menn í Rangárþingi 1796 ósk eða áskorun til Landsuppfræðingarfélagsins um að láta prenta þessa bók.
11. Vikubænir, þýddar úr þýzku. Hólum 1780.
12. Aðrar vikubænir, þýddar úr dönsku. Prentaðar fyrst 1773.
13. Joh. Georgii Hjörningii: Siðavísdóms-biblía, þýðing.
14. Joh. Frisinii: Skrifta- og sakramentisbænir. Hólum 1774.
15. Þær apokryfisku bækur nýja testamentisins, úr þýzku; einnig 3., 4. og nokkuð af 5. kapítula þeirrar apokryfisku bókar, sem Esdra er eignuð og kallast sú þriðja, samt alla 4. Esdra bók.
16. Friðriks Werners, prests í Leipzig, kristins manns réttur m.m., þýdd á dönsku í Kh. og snúið af séra Guðmundi á ísl.
17. Nafnatal íslenzkt.
18. Um íslenzkan skáldskap. Telja mætti og allmargt fleira af kvæðum: Minningarkvæði séra Guðmundar eftir Skúla stúdent Brynjólfsson Thorlacius á Hlíðarenda. Sálmur ortur af séra Guðmundi um skiptapann í Vestmannaeyjum 16. marz 1757. Útdráttarbæn eftir séra Guðmund til að lesa á sjónum, fyrsta róðrardaginn á vertíðinni, var við líði og hefð í eyjunum fram yfir 1900.
Andlegra áhrifa séra Guðmundar mun hafa gætt lengi í Vestmannaeyjum, en þar lifði hann og starfaði um hálfa öld. Héraðsmál eyjanna hefir séra Guðmundur og látið til sín taka. Hann stóð fyrir þeim málaleitunum eyjamanna, að þeir fengju að halda spítalagjaldinu gegn því að sjá fyrir þörfum sjúklinga eða holdsveiklinga eyjanna sjálfir. Hann og séra Benedikt á Ofanleiti vildu láta stofna barnaskóla í eyjum 1757. Var barnaskóli starfræktur næstu árin á eftir. Fyrsti barnakennarinn var Natanael Gissurarson. Skólahald hafði komizt á 1745 fyrir vanhirt börn og haldið uppi nokkurn tíma.
Fiskatíundir voru mjög rýrar eins og áður getur á seinni hluta 18. aldar og var séra Guðmundur eigi síður en samtíðarprestur hans á Ofanleiti, séra Benedikt Jónsson, mjög fátækur alla tíð, enda enginn búmaður og líklega alldrykkfelldur. Hann hafði og ómegð mikla. 1787 gerði séra Guðmundur samning við Klog kaupmann um afhendingu fisktíundanna til 3 ára fyrir 60 rd. árl. upp í verzlunarskuldir. Í tíð séra Guðmundar var felldur niður konungshlutinn af fiskatíundinni, sbr. Resol. 21. apríl 1777 og síðar.
Séra Guðmundur tilkynnti biskupi 18. apríl 1791, að hann segði af sér brauðinu og mæltist til þess, að tengdasonur hans, séra Bjarnhéðinn Guðmundsson, fengi brauðið eftir sig, en hann hafði verið aðstoðarprestur í Kirkjubæ síðan 1778.
Séra Guðmundur Högnason deyði í Kirkjubæ 6. febr. 1795, 82 ára að aldri, og mun hafa verið 52 ár prestur. Hann var sonur séra Högna Bjarnasonar að Ásum í Skaftártungu. Kona hans var Guðrún Hallsdóttir, hún deyði í Kirkjubæ 16. des. 1785. Meðal barna þeirra voru Árni Guðmundsson á Vilborgarstöðum, d. 1825, Stefán bóndi í Kirkjubæ og Anna kona séra Bjarnhéðins. Þeirra dóttir var Rakel, er átti Bjarna Stefánsson á Búastöðum Guðmundssonar, þau systkinabörn.
Í æfisögu séra Jóns Steingrímssonar (er Sögufélagið gaf út 1913—16) er getið eyjaprestanna séra Guðmundar í Kirkjubæ og séra Benedikts á Ofanleiti í sambandi við ferð séra Jóns Steingrímssonar út í Vestmannaeyjar 1746 eða 1750. Hafði séra Jón, er þá var skólapiltur í Hólaskóla, farið suður á land til að heimsækja föðurbróður sinn, séra Sigurð Jónsson prófast í Holti undir Eyjafjöllum, og fór í þeirri ferð til eyja. Kom Jón Steingrímsson að Kirkjubæ eftir að hann hafði gengið bæ frá bæ í eyjunum til að selja bækur, er hann hafði meðferðis. Hitti hann séra Guðmund heima og var hann þá drukkinn. Skiptust þeir á bókum og hafði séra Guðmundur nóg af latneskum bókum, sagnaritum og skáldritum, sem hann lét í staðinn fyrir nýjar bækur, er séra Jón hafði á boðstólum. Daginn eftir, er ölvíman var runnin af presti, sá hann sig um hönd og vildi fá bækur sínar aftur, en því var neitað. Segist séra Jóni svo frá um þetta: „Þá nokkur stund líður frá og við erum komnir á flakk, koma prestar báðir ofan á bryggju til vor og með þeim sýslumaður þar, Böðvar Jónsson, og höfuðmikill mannfjöldi að heyra og sjá, hvað verða mundi um mig. Sýslumaður hrópar upp Bótólf¹⁰) og segir: „Fyrir mér er andregið, að í þínu tjaldi og undir þínu forsvari sé einn norðlenzkur strákur, sem narrað hafi bækur út af prestinum séra Guðmundi í gær. Er ég hér kominn að láta hann skila þeim aftur eða leggja á hann makleg gjöld.“ Bótólfur verður fyrir svörum og segir sem fyrr, hann fái þau ei, þar rétt kaup séu gerð. Hann vilji heyra nokkrar bevísingar, að ég hafi bækurnar út svikið; prestur hafi verið fullvita og svo framvegis. Ég segi fram söguna rétta, tek bækurnar fram og segi, hvernig verð var sett á hverja, hverju frómlyndi prests eigi mótmælti í neinu, en hann segir sér þó mein og skaða að missa þær. Voru það þó einasta rómverskir sagnameistarar og skáld, en ei prédikunarbækur. Finnst nú góður jöfnuður á bókunum á báðar síður. Segir Bótólfur sök sú skuli lengra komast, ef þeir hætti nú eigi að sléttu. Brynjólfur Brynjólfsson, Eyja-Brynki, lögsagnari og settur sýslumaður í Vestmannaeyjum, er Böðvar Jónsson deyði 1754, sem var stjúpsonur Bótólfs, hissaði karl upp að standa með mér af öllum kröftum og gera þeim hvað mesta vanvirðu. Var aldrei kært millum sýslumanns og Brynjólfs, svo oft kom til handa á milli þeirra. Presturinn segir meðal annars: „Ég ætla, að drengur þessi viti eitthvað í latínu.“ Sagðist sýslumaður þá fljótt skyldi reyna það. Endaði það svo, að sýslumaður fór halloka í þeim orðaskiptum og hypjaði sig á burtu ásamt klerki, séra Guðmundi, en séra Benedikt varð eftir þar á plássinu, hlæjandi og stökk við fót og veifaði staf sínum í veðrið, því ei veitti af, dátt væri milli prestanna, heyrði ég þó að gott orð lá fólki til beggja, segir séra Jón. Ennfremur segir hann við séra Guðmundur kynntustum og æ betur og betur við og skrifustum oft á í lærdómssökum, en minnustum hvorugir á það forna.“ ¹¹)
Bjarnhéðinn Guðmundsson 1792—1821. Séra Bjarnhéðinn var fæddur 1755, sonur Guðmundar bónda og kóngssmiðs í Þorlaugargerði Eyjólfssonar og k.h. Þorgerðar Einarsdóttur. Útskrifaður úr Skálholtsskóla 1776, vígður aðstoðarprestur að Kirkjubæ 1778, fékk veitingu 19. nóv. 1791. Var veitingin því skilyrði bundin, að hann annaðist sómasamlega uppgjafaprestinn, tengdaföður sinn, séra Guðmund Högnason, svo að hann þyrfti eigi að leita styrks af fé því, er ætlað var fátækum uppgjafaprestum. Séra Bjarnhéðinn lá lengi í undarlegum veikindum, og hafði hann aðstoðarpresta. Séra Bjarnhéðinn deyði 1821, og hafði verið 43 ár prestur. Dánarbú hans hljóp 800 rd. að frádregnum skuldum, svo að vel mátti hann heita efnum búinn, og hafði hann þó mátt skipta af launum sínum til aðstoðarprestanna. Bróðir séra Bjarnhéðins var dr. Einar Guðmundsson prestur í Noregi, hinn mikli lærdómsmaður, er fyrstur Íslendinga varði doktorsritgerð við háskóla. Séra Einar þýddi Balles barnalærdómsbók, sem fyrst var prentuð í Leirárgörðum 1796 og síðast 1854, en alls mun hún hafa komið út í 23 útgáfum. Af séra Einari er komin merkileg ætt í Noregi og Svíþjóð, þar á meðal margt lærdómsmanna og háttsettra embættismanna. Annar bróðir séra Bjarnhéðins var Sveinn, er bóndi var í Þorlaugargerði eftir föður sinn. Kona séra Bjarnhéðins, Anna Guðmundsdóttir Högnasonar, deyði á Búastöðum hjá Rakel dóttur þeirra hjóna, komin yfir nírætt, 17. apríl 1849. Rakel komst ein upp af börnum þeirra prestshjónanna. Var maður hennar Bjarni bóndi Stefánsson á Búastöðum Guðmundssonar bónda sama staðar, eins og áður segir. Bjarni hafði lært garðrækt ytra. Hann lézt 1855 á Tjörnum undir Eyjafjöllum, eignarjörð sinni, en Rakel varð próventukona hjá Magnúsi Austmann stúdent í Nýjabæ og deyði þar 1856. Þau hjónin höfðu arfleitt hvort annað og fengið til þess konungsstaðfestingu 1831.
Högni Stefánsson. Vígðist aðstoðarprestur til séra Bjarnhéðins 4. okt. 1807 og fluttist út í eyjar næsta vor. Þjónaði sem aðstoðarprestur hjá séra Bjarnhéðni, unz honum voru veittir Hrepphólar 1817. Til er í handriti mjög harðorð og gagnorð áminningarræða, er séra Högni hélt í Landakirkju yfir tveim formönnum fyrir helgidagaróðra og ofdirfskufulla sjósókn.
Stefán Stefánsson. Hann vígðist aðstoðarprestur til séra Bjarnhéðins eftir séra Högna, og þjónaði sem aðstoðarprestur þar til séra Bjarnhéðinn dó 1821. Séra Stefán ílentist samt ekki í Kirkjubæ, en varð prestur í Sólheimaþingum í Mýrdal.
Páll Jónsson skáldi 1822—37. Páll Jónsson var fæddur á Gjábakka í Vestmannaeyjum eigi síðar en 1779, því að í stúdentsvottorði hans, sem gefið er út af Geir Vídalín biskupi 13. júní 1800, er Páll talinn 21 árs. Foreldrar séra Páls voru Jón Eyjólfsson undirkaupmaður í Vestmannaeyjum og kona hans Hólmfríður, dóttir séra Benedikts Jónssonar á Ofanleiti, af gömlu Höfðabrekkuættinni. Páll missti ungur föður sinn, hann er dáinn fyrir 1786. Var Jón Eyjólfsson við konungsverzlunina síðari (þriðju) í Vestmannaeyjum hjá Hans Klog, er veitti verzluninni forstöðu. Tók Klog drenginn í sína umsjón og kom honum til mennta. ¹²) Séra Páll var fermdur í Landakirkju á hvítasunnudag 1793, „prepareraður“ af húsbónda sínum, Klog, og presti í tvö ár til fermingar. ¹³) Börn þeirra Jóns Eyjólfssonar og Hólmfríðar voru og Þuríður kona Páls Guðmundssonar á Keldum; Þuríður var fermd í Landakirkju 1786 og var Hólmfríður móðir hennar þá enn í eyjum, en mun hafa farið seinna upp á land, — Jón Jónsson, er fór utan, og Anna kona Erlings í Fljótshlíð, var hún amma Þorsteins Erlingssonar skálds.
Páli var komið ungum til læringar af Hans Klog til þeirra feðga, séra Ögmundar Högnasonar og séra Sigurðar sonar hans að Krossi í Landeyjum, og síðar var hann hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni síðast að Holti undir Eyjafjöllum. Séra Páll var útskrifaður af Geir biskupi Vídalín árið 1800. Er sagt, að hann hafi ætlað sér að læra lækningar, og var hann hjá Jóni landlækni Sveinssyni í Nesi við Seltjörn um tíma 1801, en hætti við. Klog kaupmaður, er var aðalstyrktarmaður Páls, varð gjaldþrota fyrir aldamótin 1800 og fór síðan af landi burt. — Prestsvígslu tók séra Páll eigi fyrr en 1810 og varð þá aðstoðarprestur hjá séra Einari Þorleifssyni í Holtaþingum. Þar var hann til 1817, að hann fluttist aftur til átthaganna í Vestmannaeyjar og bjó þar nokkur ár á Búastöðum. Hann sótti um Kirkjubæ 1822. Er talið, að eyjamönnum hafi eigi verið um það gefið að fá hann fyrir prest, og bjuggust til að senda kæru um hann til stiftamtmanns, og hafði þar forgöngu Magnús Ólafsson Bergmann. En séra Páll varð fljótur til, er hann fékk pata af þessu, og fór upp á land og reið suður og náði veitingu 12. maí 1822. Hann sagði af sér embætti 14. des. 1836 frá fardögum 1837 að telja. Fór hann burt úr eyjunum og flakkaði síðan milli manna. Kona hans og börn urðu eftir í eyjunum. Fór séra Páll víða um land og undi eigi lengi í hverjum stað.
Hann drukknaði í Eystri Rangá 12. sept. 1846.¹⁴) Kona séra Páls var Guðrún Jónsdóttir. Bjó hún lengi eftir mann sinn í Kirkjubæ, eftir að prestssetur þar var lagt niður, og gegndi yfirsetukonustörfum í eyjunum. Hún deyði í Kirkjubæ 14. febr. 1850. Þau séra Páll og Guðrún kona hans eignuðust 13 börn. Dóu mörg þeirra ung. Þau, sem upp komust, voru: 1) Páll trésmíðanemi, hrapaði til bana í Elliðaey 1857, um tvítugt. 2) Eva kona Jóns Samúelssonar á Löndum, forsöngvara í Landakirkju, 3) Guðrún eldri, er giftist Petrusi Péturssyni. Guðrún deyði í Landeyjum háöldruð. 4) Guðrún yngri, er átti Ólafur Guðmundsson smiður og bóndi í Kirkjubæ. Voru þau gefin saman í Landakirkju 17. nóv. 1843. 5) Solveig, er yfirsetukona var í Vestmannaeyjum. Hún giftist 1845 Matthíasi Markússyni prests Þórðarsonar á Álftamýri. Bjuggu þau yfir 20 ár í Landlyst hér, en fluttu síðan alfarin til Reykjavíkur og var Solveig þar lengi nafnkennd yfirsetukona. Dó á 75. aldursári 24. marz 1886. 6) Kristín, er deyði ógift.
Séra Páll hafði sótt um það, er Ofanleitisprestakall losnaði, að það yrði sameinað Kirkjubæ, en því fékkst ekki framgengt. Samkv. lausnarskilmálum séra Páls skyldi hann ekki þurfa að ljúka álagi á staðinn, kona hans skyldi hafa jarðnæði í Kirkjubæ, og í eftirlaun voru honum ákveðin sjöttungur af tíund Kirkjubæjarprestakalls. Skilmálarnir eru dagsettir 28. febr. 1837.
Séra Páll varð snemma nafnkunnur fyrir gáfur sínar og skáldskap. Í vitnisburðarbréfi Páls, er hann varð stúdent, segir, að hann hafi gáfur langt fram yfir meðallag, „en einkum er hann svo til kveðskapar hneigður og hefir í þessari list sýnt svo augljós merki snilldargáfu, að ekki efa ég, að teljast mun hann, er fram líða stundir, í tölu góðra skálda með þjóð vorri, ef ekki fer á mis við rækt þá, er gáfum hans samsvarar.“
Fátt hefir verið prentað af kvæðum séra Páls. Kvæðabækur með eigin hendi höfundar eru til.¹⁵)
Margar sagnir eru til um Pál skálda og kveðskap hans. Hafa fram til þessa lifað á vörum almennings mikið af tækifærisvísum hans. Hann þótti eigi aldæla við að eiga og hnyttinn mjög og óhlífinn í orðum við hvern sem var að skipta, níðskældinn mjög, svo að hann þótti oft misbeita skáldskapargáfu sinni. Af mörgum var séra Páll talinn kraftaskáld. Þeir áttust illt við í kveðskap séra Páll og Jón „Torfabróðir“, sem frægt er orðið.
Dætur séra Páls skálda sumar voru og vel skáldmæltar, einkum Eva Hólmfríður og Guðrún yngri. Var það trú sumra manna í Vestmannaeyjum, að eigi myndi þeim feðginum, séra Páli og dætrum hans, verða mikið fyrir því að flytja jafnvel stærstu úteyjarnar, Elliðaey og Bjarnarey, úr stað með kveðskap sínum, ef þau hefðu öll lagzt á eitt. Guðrún var í eyjunum kölluð Gunna skálda. Hún þótti líkjast mjög föður sínum, var skáld gott og lét stöðugt fjúka í kviðlingum og hnyttiyrðum. Hún gat verið níðskældin mjög, oft gamansöm og stundum úr hófi. Var hún talin ákvæðaskáld, svo að margir voru hræddir við hana, og vildu fáir verða til að bekkjast við hana. Eigi var hún við alþýðuskap, en tryggðavinur vina sinna. Guðrún þótti ölkær nokkuð. Hún fór víða um land. Sótti hún þangað, er almennir mannfundir voru og skemmtanir, svo sem við aðalréttirnar á Suðurlandi. Lét hún þá oft fjúka í kviðlingum. Hún orti og tækifæriskvæði og stundum brúðkaupskvæði. Til foreldra höfundar þessa rits orti hún fagurt brúðkaupskvæði. Flest af kveðskap Guðrúnar skáldu mun nú týnt. Nokkuð mun þó ennþá geymast af lausavísum hennar og ákvæðavísum. Guðrún kom seinna til átthaga sinna í Vestmannaeyjum og staðnæmdist þar. Bjó hún sem einsetukona í úthýsi og vildi fáa þýðast. Fólk hennar var farið héðan, en þær systur Guðfinna og Jórunn, dætur séra Jóns Austmanns, litu til með henni, því að skyldleiki og tryggðavinátta var milli dætra séra Jóns Austmanns og dætra séra Páls. Guðrún Pálsdóttir lézt í Vestmannaeyjum 1890. Henni er lýst svo af fólki, er þekkti hana vel, að hún hafi verið fríð sýnum, há vexti og beinvaxin. Snyrtileg í klæðaburði og bauð af sér mjög góðan þokka. Frá Guðrúnu var komin kvæðabók séra Páls föður hennar með hans eigin hendi, er Þorsteinn Jónsson héraðslæknir eignaðist og nú er á Landsbókasafninu.

Tilvísanir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Sjá Prestatal prófasts Sveins Níelssonar, JS 282, 4to; Prestatal Daða Níelssonar ÍBR, 4fol., og IB 193. 8vo; Prestatal Sighvatar Grímssonar Borgfirðings, Lbs. 2358—2373, með athugasemdum dr. Hannesar Þorsteinssonar. Sjá og prestasögur Gísla Konráðssonar, Lbs. 1685—1686, 4to; Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður: Æfisögur lærðra manna. Þá ber og að nefna elztu jarðabækur og umboðsreikninga Vestmannaeyja, er höf. hér hefir haft margar nýjar upplýsingar úr.
2) Alþingisbækur IV, bls. 62—67.
3) Sjá ummæli J. Aðils um séra Orm Ófeigsson, Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787, um að séra Ormur hafi verið nálega sá eini hér á landi, sem með hug og dug hafi risið móti einokunarkaupmönnum.
4) Á Hólum 1655, 1664, 1679, 1725, 1753.
5) Saltarinn var prentaður á Hólum 1662 og 1746.
6) Sjá Arne Möller: Islands Lovsang gennem Tusind Aar, 1923, og Arne Möller: Jón Vídalín og hans Postil, Odense 1929.
7) Eftir dómabókarbroti í fornskjalasafni Þjóðskj.s. í Rvík.
8) Dr. Pétur Pétursson: Kirkjusaga, bls. 394.
9) Sjá skrá séra Þorsteins Péturssonar, skólabróður séra Guðmundar og vinar, Prestaæfir Sighv. Borgfirðings, Kirkjusögu dr. Péturs Péturssonar.
10) Bótólfur Þorvaldsson, síðast bóndi á Ytri-Sólheimum í Mýrdal, drukknaði í ferð til Vestmannaeyja (Sýslum.æf. IV, 546). Jón Steingrímsson var með Bótólfi á skipi.
11) Æfisaga Jóns Steingrímssonar, bls. 53-58.
12) Talið er af sumum, að séra Páll hafi verið sonur Hans Klog, — aðrir segja, að Jón Eyjólfsson hafi verið sonur Hans Klog, en það getur eigi staðizt.
13) Prestsþjónustubók Ofanleitisprestakalls í Þjóðskjalasafninu.
14) Sbr. tilkynningu til biskups. Er því eigi rétt, sem margir hafa talið, að hann hafi drukknað 15. sept.
15) Á Landsbókasafni 471, 4to, 1200, 8vo, og J.S. 249, 4to. Í sögu Jörundar hundadagakonungs, Khöfn 1892, bls. 77—78, eru prentaðar Býfó-getavísur séra Páls. Um séra Pál skálda vísast til ritgerðar Páls E. Ólasonar í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1925, innlendur fræðabálkur, bls. 84—101.


2. hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit