„Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Sjóslysið 3. marz 1918“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
 
Lína 1: Lína 1:


<big><big><center>'''Sjóslysið 3. marz 1918'''</center><br>
<big><big><center>'''Sjóslysið 3. marz 1918'''</center></big></big><br>


Þegar Adólf og Frí fórust -<br>
Þegar Adólf og Frí fórust -<br>

Núverandi breyting frá og með 8. nóvember 2018 kl. 13:20

Sjóslysið 3. marz 1918


Þegar Adólf og Frí fórust -

Þorsteinn Jónsson, Laufási.

Hinn 3. mars 1918 varð mikið sjóslys hér við Vestmannaeyjar, er vélbátarnir Frí og Adólf fórnst með 9 mönnum hér austur af Eyjum.
Þorsteinn Jónsson i Laufási hefur gefið greinargóða lýsingu á þessu veðri í ævisögu sinni, Formannsævi í Eyjum.
Þorsteinn reyndi kraftaverk í þsssari sjóferð, er hann sá ljós, sem lýsti upp brimgarðinn við Markarfljótsósa.
Um þessa hættulegu landtöku og heimsiglingu í dimmviðri á kompáslausum bát ritar Þorsteinn:

„Nú var komið öskurok, og var sjórinn eftir því. Það hafði ausið í suðvestanöldu, en austan stormsjórinn kom þvert á hana ...
... ÁÐUR EN Eyjarnar hurfu í sorta og myrkur, tók ég nákvæma miðun. Reyndist norðvestur vera á Bjarnarey og vindstaðan svo, að beint undanhald var heim.
Klukkan um sex slitnaði lóðin. Var þá töluvert ódregið. Myrkrið var nú orðið sva mikið, að naumast sást út fyrir bátinn. Allt var látið niður og frá öllu gengið eftir föngum.
Ég setti nú á ferð. Þóttist ég þess fullviss, að eftir rúma klukkustund mundi ég verða kominn heim.
Stuttu eftir að við héldum af stað heimleiðis fékk ég stóran sjó á bátinn. Munaði víst litlu, að báturinn stafnstyngist. Hrökk þá áttavitinn upp af jafnvæginu og niður á gólf. Var hann úr sögunni.
Eftir þetta dró ég svo af ferðinni, að vel lét að stjórn. Vegna veðurofsans áætlaði ég, að eftir góðan klukkutíma ættum við að vera farnir að nálgast Bjarnarey. Eyna sjálfa óttaðist ég ekki svo þverhnípt er hún, að hún hlaut að sjást áður en upp í hana væri komið. En ég var hræddur við grunnið Breka, sem er innan við hana, því með vissu braut alltaf á því.
Hásetunum sagði ég að halda sér vel eða helst binda sig. Bað ég þá um að horfa fram af. Leið nú klukkutími og ekkert bar til tíðinda.
Þó ekkert sæist, heyrðist þeim mun meira, því höfuðskepnurnar voru háværar. Enn leið hálf klukkustund í viðbót.
Mér fór nú ekki að verða um sel. Þó hélt áfram. Ég kallaði nú orðið með stuttu miilibili til Sveins og Þórðar (hásetarnir frammá). En þeir svöruðu alltaf neitandi; Ekkert land sást fram undan.
Allt í einu var eins og hvíslað væri að mér: Ekki lengra, ekki lengra.
Ég var óákveðinn, hvort ég ætti að snúa bátnum upp í. Þá glampaði ljós, svo bjart, einkennilegt, og þó leiftursnöggt væri, sá ég ekki aðeins brimgarðinn, sem við vorum komnir alltof nærri, heldur einnig sandströndina, bogadregna og marflata, svo glöggt, að ég vissi, hvar ég var staddur. Var það skammt fyrir vestan Markarfljótsós.
Ekkert ljós sáu þeir Sveinn né Þórður.
Eftir að ég hafði haldið upp í veðrið á að giska í fimm mínútur, með storminn á bakborðskinnung, lét ég lóða og reyndist dýpið vera átta faðmar. Sýndi það, að nógu nærri landi var komið.
Eftir um hálftíma baks, sá ég móta fyrir Elliðaey. Var ég þá kominn fast upp að henni.
Frá því veðrið skall á hafði alltaf haldist úrhelliskraparigning. Stafaði hið geigvænlega myrkur meðfram af því. Svo var stundum dimmt, að ógerla sá ég mennina á þilfarinu. Ljóskerin voru svo léleg, að rétt strax dó á þeim. Reyndu hásetarnir oft að kveikja á þeim, en ekkert stoðaði.
Eftir þetta varð ekki tíðinda á leiðinni heim. Eiginlega fengum við ekki nein teljandi ólög, neina það, sem ég hef áður minnst á. Var veðurofsinn þó geysilegur og brim mikið.
Klukkan var á ellefta tímanum, þegar ég kom í land. Rét á eftir kom mótorbáturinn Rán, sem hafði verið suður af Eyjunum. Ennþá vantaði þrjá bára. Voru það Elliði, Adolf og Frí.
... Í þetta skipti breyttist veðurofsinn úr suðaustri í suður, an þess að lægja. Ber það mjög sjaldan við, enda villti það mig.
Allir þeir bátar, sem ekki voru komnir í höfn um klukkan níu, voru taldir af, svo voru lætin mikil.“

Hér á eftir fer frásögn jóns Sigurðssonar af þessu slysi:

Adolf VE 191.

Vélbáturinn Adólf VE 191 var byggður í Færeyjum 1916. Hann var 12 tonn að stærð, kantsettur, kútterbyggður með 22ja ha Alfavél. Eigendur voru Björn Erlendsson, sem var formaður með Adólf, Bergsteinn Erlendsson bróðir hans, sem var vélamaður, og Friðrik Svipmundsson á Löndum. Þeir bræður fóru til Færeyja í september 1916, því að þá vonuðust þeir eftir að smíði bátsins væri langt komin. Ekki var það alveg, því að rétt var verið að byrja á smíði bátsins. Þeir bræður létu þá hendur standa fram úr ermum og fóru að smíða böndin, því að þeir voru báðir smiðir. Sigfús Scheving var með þeim í þessum túr, og átti hann að sigla bárnum upp og gerði.
Scheving sagði, að vel hefði gengið með smíðina eftir að þeir komu út, því að þeir bræður voru orðlagðir fyrir dugnað, enda fór það svo, að báturinn lagði af stað í janúar 1917 og gekk ferðin vel til Íslands.

Björn Erlendsson formaður.


Bergsteinn Erlendsson vélamaður.


Nú byrjar Adólf að róa og gengu aflabrögðin vel, því að Björn var með mestu aflamönnum í þá daga, og var Adólf einn hæsti bátur í vertíðarlokin 1917. Björn byrjar róðra upp úr áramótum 1918 og allt gengur sinn vanagang. Hann sækir fast sjóinn og aflar vel.
Nú rennur upp 3. marz 1918, sem bar upp á sunnudag. Það var versta veður alla nóttina Hafði verið útsynningur og haugabrim, bátat fóru að róa upp úr birtingu, er lygndi, og var þá kominn andvari við norður. Bátarnir dreifðu sér á miðin, annars héldu margir austur fyrir Bjarnarey, og voru Adólf og Frí meðal þeirra.
Adólf lagði línuna austur á milli hrauna. Þegar búið var að leggja línuna, fór að kalda við suðaustur og er alltaf að þyngja. Margir renndu færi þennan dag, því að fiskur var mjög ör og höfðu margir verið lengi á færum og farið of seint að draga línuna.
Þegar klukkan var orðin fjögur um daginn var komið ofsaveður og sjór af suðaustri. Bátarnir voru að tínast að landi fram í myrkur, þar til seint um kvöldið, að allir bátar voru í höfn, nema 3 bátar, þeir Adólf, Frí og Elliði. Sama veður hélzt fram undir morgun daginn eftir. Rétt fyrir hádegi kom Elliði að landi. Elliði var 7 tonn að stærð, formaður með bátinn var Sigurður Hermannsson á Melstað, mikill sjómaður. Þeir höfðu róið austur fyrir Eyjar, en dimmviðri svo mikið, að þeir vissu ekki hvenær þeir fóru fram hjá Eyjum um nóttina og lentu þeir vestur fyrir Dranga.
Aldrei spurðist meir til Adólfs og Frí.
Um afdrif Adólfs og Frí skrifar Þorsteinn í Laufási: „Ekki er gott að segja, hvað muni hafa grandað Adólf, en getgátur voru uppi um það, að hann mundi hafa farizt á Rófuboðanum. Líklegt er, að Frí hafi farist á Breka, því að legufæri hans fundust þar nálægt litlu síðar.“
Með Adólf fórust 5 dugnaðarmenn:
Björn Erlendsson, formaður, Þinghól hér í bæ. Hann var fæddur í Engigarði í Mýrdal 2. október 1889. Foreldrar hans voru Erlendur Björnsson og Ragnhildur Gísladóttir. Björn fór til Vestmannaeyja 1912 og var háseti á mb. Höfrungi VE 138 til ársloka 1914. Eftir þá vertíð tók Björn við formennsku á Höfrungi og er með hann tvær vertíðir og var með aflahæstu bátum. Friðrik Svipmundsson hafði þá frumkvæði að því að kaupa nýjan bát, af því að hann sá, að þarna var mikill framtíðarmaður. Björn var ákaflega harðskeyttur maður og sjósóknari að sama skapi.
Bergsteinn Erlendsson, vélamaður, var albróðir Björns, og höfðu þeir verið saman til sjós, frá því Bergsteinn kom til Vestmannaeyja 1912. Þeir bræður voru líkir, mjög samrýndir og fylgdust alltaf að.
Páll Einarsson, háseti, var fæddur í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Einar Sveinsson og kona hans Kristín Pálsdóttir, búandi þar. Páll fór fyrst til Vestmannaeyja árið 1907 og byrjaði þar sjóróðra á áttæringnum Elliða með Gísla Eyjólfssyni á Búastöðum. Páll lagði snemma í útgerð og var þá sjómaður á Happasæl VE 162, sem hann átti hlut í. Hann var á þeim báti nokkrar vertíðir, síðan seldi Páll hlut sinn í þeim bát og átti í mb. Rán VE 190 um tíma, en fór svo sjómaður á Adólf. Páll var mikill dugnaðarmaður.
Árni Ólafsson á Löndum var fæddur 18. janúar 1896 á Loftssölum í Mýrdal. Árni fór á una aldri til Vestmannaeyja með föður sínum, sem þá var ekkjumaður orðinn, til föðurbróður síns, Friðriks Svipmundssonar og konu hans Elínar Þorsteinsdóttur, sem bjuggu á Löndum. Strax og aldur leyfði, byrjaði Árni sjómennsku á úrvegi Friðriks frænda síns. Árið 1917 réðst Árni á Adólf, sem þá var nýr og glæsilegur bátur. Árni var mesti efnismaður, prúður í framkomu, og stóðu glæstar vonir um framtíð hans.
Jóhannes Olsen, Vatnsdal, var norskur maður (því miður hefur ekki náðst mynd af honum). Hann kom til Vestmannaeyja um 1903 frá Noregi með skútu, sem Riber hét og Vestmannaeyingar áttu, og var hann hér óslitið eftir það. Hann ætlaði aðeins að róa þennan eina róður á Adólf, því að hann var ráðinn á m.b. Óskar VE til Gísla Magnússonar. Jóhannes átti alla tíð heima hér í Vatnsdal. Hann var lengi vélamaður á Skeiðinni VE 78, en Högni Sigurðsson bóndi í Vatnsdal átti í þeim báti. Jóhannes var hæfileikamaður við öll sjávarverk og prúður og umgengilegur maður.

-□-


Ólafur Eyjólfsson formaður.
Karl Vigfússon vélamaður.
Gunnar Karel Jónsson háseti.
Sigurður Brynjólfsson háseti.
Frí VE 101 - 7,45 RT að stærð. Báturinn var byggður í Danmörku 1905.

Vélbáturinn Frí VE 101 var 7,54 tonn að stærð. Hann var smíðaður úr eik í Helsingör í Danmörku árið 1901. Báturinn var kantsettur með 10 hestafla Dan-vél, tvöfaldri (tveggja strokka). Við flutning þessa báts til Íslands stórslösuðust tveir danskir menn.

Eigendur bátsins voru: Guðjón Þorvaldsson, Garðsstöðum, síðar Stakkahlíð, Árni Ingimundarson, Brekku, Anton Bjarnason, Garðinum, Gísli Lárusson, Stakkagerði, og Kristján Egilsson, Búastöðum.
Guðjón Þorvaldsson, Garðsstöðum var með bátinn fjórar vertíðir, þar til hann fluttist til Ameríku 1910, og seldi hann Gísla Magnússyni sinn hlut í bátnum, og var Gísli með bátinn vertíðina 1911, er hann seldi sinn hlut. Urðu því oft eigenda- og formannsskipti á Frí. Með Frí voru þessir formenn:
Guðlaugur Brynjólfsson, sem lengi bjó í Odda, vertíðina 1912, Helgi Hjálmarsson, sem bjó á Hamri við Skólaveg, vertíðina 1913, Jóhann Einarsson, Brimnesi, vertíðina 1914. Fyrir vertíðina 1915 var bátnum breytt, rifið ofan af honum og borðhækkað um einn planka. Var Magnús Jónsson, sem síðast bjó á Bakka hér í bæ, með bátinn þá vertíð. Illugi Hjörtþórsson í Bifröst var með Frí næstu tvær vertíðir (1916 og '17).
Fyrir vertíðina 1918 réðst ungur formaður á Frí. Var það Ólafur Eyjólfsson, sem var fæddur í Hrútafellskoti undir Eyjafjöllum 18. apríl 1895. Foreldrar hans voru Eyjólfur Sveinsson og kona hans Sigríður Helgadóttir. Ólafur ólst upp á Hrútafelli hjá Tómasi Tómassyni og Katrínu Jónsdóttur. Ólafur hafði verið á skútum frá Reykjavík, en fór til Vestmannaeyja 1914 og var þá sjómaður á m.b. Hrólfi með Valdimar Árnasyni, síðar með Illuga Hjörtþórssyni á Frí, þar til hann tók við bátnum. Ólafur var hið mesta hraustmenni, og þótti að honum mikill mannskaði. Hann var bróðir Guðmundar á Eiðum hér í bæ.
Karl Emil Vigfússon vélamaður frá Sjávarborg á Seyðisfirði. Hann var fæddur 8. apríl 1878 í Hamarsfirði, og voru foreldrar hans Vigfús Eiríksson og Guðrún Pétursdóttir. Hann fluttist ungur til Seyðisfjarðar og stundaði þaðan sjóinn. Hann hafði verið formaður fyrir föður sinn með m.b. Einingu. Þetta var fyrsta vertíð Karls í Vestmannaeyjum.
Gunnar Karel Jónsson frá Bolholti á Rangárvöllum var fæddur 5. ágúst 1894. Foreldrar hans voru Jón Ólafsson og Jónína Gunnarsdóttir búandi þar. Þetta var fyrsta vertíð Karels í Eyjum. Karel var mesti dugnaðar- og atgervismaður.

Sigurður Brynjólfsson frá Nýhöfn af Eyrarbakka. Hann var fæddur árið 1892 og stundaði lengi sjó frá Þorlákshöfn.

Árni Ólafsson, Löndum, fórst með Adólf 3. marz 1918.

INNAN við fermingaraldur, sumarið 1908 eða 1909, voru þeir Árni Ólafsson á Löndum og Eyjólfur Gíslason frá Búastöðum með feðrum sínum til lunda í Elliðaey.
Eitt sinn voru þeir drengirnir í lundasnitti í Steðjaurðinni sunnan við Austursteðjann í Elliðaey. Stendur þá Árni snögglega upp og kallar: „Komdu strax, Eyfi“ og tekur sprettinn að flánni, sem liggur upp úr urðinni norðan megin. Eyjólfur fylgdi á eftir Árna, sem stansaði uppi á mófláanum. „Hvað er að þér, Árni?“ segir Eyjólfur. Árni bendir þá suður í urðinn að stórum steini og svarar: „Sérðu ekki hvað situr þarna?“ En Eyjólfur sá ekkert og spurði Árna, hvað hann sæi. Svaraði Árni þá: „Þarna situr ókenndur maður.“
Við þetta sló óhug 6. drengina, urðu þeir smeykir og fiýttu sér til bóls. Eyjólfi kom oft síður til hugar, að þetta hafi verið fyrirboði Árna og vélbáturinn Adólf, sem Árni fórst með, 3. mars 1918, hafi farist austur af Elliðaey. Árni var sérlegi grandvar og prúður drengur, sem hafði ekki slíkt að gamanyrðum.