Ritverk Árna Árnasonar/Árni Ólafsson (Löndum)
Kynning.
Árni Ólafsson á Löndum fæddist 18. janúar 1896 og drukknaði 3. mars 1918.
Foreldrar hans voru Ólafur Svipmundsson bóndi á Loftsölum í Mýrdal, síðar búsettur á Löndum, f. 27. maí 1867 á Loftsölum í Mýrdal, d. 1. júní 1946 í Eyjum, og kona hans Þorbjörg Pétursdóttir húsfreyja á Loftsölum, f. 1. september 1864 á Vatnsskarðshólum í Mýrdal, d. 18. ágúst 1903 á Loftsölum.
Árni lést ókvæntur og barnlaus, fórst með v/b Adólf VE-191 3. mars 1918, líklega á Rófuboða í austan stórviðri og byl.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Hann var lágur vexti, en vel þrekinn, svarthærður, búlduleitur, fremur stutt andlit, og meðalfrítt. Hann var allsterkur og vel snar, bæði í hreyfingum og til vinnu. Skap hans var létt í fámennum vinahóp, en mjög var hann til baka og stilltur í allri framkomu, orðvar en orðheppinn. Hann var handtakagóður maður til allrar vinnu, vellátinn félagi og eftirsóttur sjómaður, en sjómennskan var lífsstarf hans, reri hér og austanlands.
Veiðimaður var Árni ekki mikill, en duglegur og iðinn. Skilaði hann þess vegna oft sæmilegum dagsafla, þótt oft vildi henda hann að brjóta spækur og sköft. Föður sínum líktist hann mjög, bæði á vöxt og skapferli, sem sagt prúður og hægur, skemmtilegur félagi í fámennum hóp og drengur góður.
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Minningarrit. Páll Oddgeirsson. Vestmannaeyjum 1952.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.