„Ritverk Árna Árnasonar/Hellisey“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
(Ný síða: <br> <br> <br> <center>Úr fórum Árna Árnasonar</center> <br> <big><big><center> Hellisey</center></big></big> <br> <br> Hellisey er fræg fyrir sína miklu fuglamergð, sem ...)
 
m (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Hellisey“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 28. ágúst 2013 kl. 21:41




Úr fórum Árna Árnasonar


Hellisey



Hellisey er fræg fyrir sína miklu fuglamergð, sem þar hefir heimili, t.d. lunda, svartfugl, fýl, súlu og fleiri fugla.
Syðst á eyjunni heitir Höfði og er hann tengdur við aðaleyjuna með alllöngum hamrarana. Nyrst er Háhaus og Sámsnef, og er eyjan þar hæst eða 122 metrar.
Eyjan er bogmynduð og mun vera leifar af gömlum gígbarmi sem fleiri eyjar við Heimaey. Fuglalif er þar ákaflega margbreytilegt og mikið. Auk fyrrnefndra fjögurra fuglategunda, verpa þar og rita og mávar, teistur og fl. Líklega dregur eyjan nafn sitt af „Stórhellunum“, sem eru austan undir Háeynni. Þar eru erfiðustu bjargsig í Eyjum eins og gamla vísan bendir til, hvar segir:

Hörð eru sig í Háubælum
og hættuleg.
Hábrandinn og hræðist eg,
en Hellisey er ógurleg.

Sæmilegur vegur er upp í eyna að suðvestan, en venjulega er farið upp við Steðjan, sem er norðvestan við Höfðann.
Á svartfuglabælunum í Stórhellunum verpir ógrynni af svartfugli, en bergið slútir framyfir sig, svo að þar er bullandi loft, og verður sigamaðurinn að taka ákaflega stór rið til þess að komast inn á bælin. Er það ekki nema á færi slyngustu fjallagarpa að komast þetta, þ.e. að síga Stórahellana. Yngstur sigamanna, er sigið hefir Stórhellana, mun hafa verið Gísli Lárusson, Stakkagerði. Hann seig þá 15 ára gamall, en svo reyndi það á hann að hann lá í viku á eftir að jafna sig eftir þá þrekraun.
En þótt oft hafi viðlegur í Hellisey verið erfiðleikum bundnar með tilliti til veðra og vinda, hefir þó skap veiðimanna þar verið, sem annarra veiðimanna í úteyjum, létt, og menn þá gjarnan látið fjúka í kveðlingum, ef sá gállinn var á þeim.
En ef satt skal segja, er miklu minna um úteyjakveðskap en ætla mætti. Sennilegast hafa helst orðið til ferskeytlur, sem ekki hafa fest svo vel í huga, sem æskilegt hefði verið, og því hafa þær glatast með öllum. Það er helst hin síðari árin, að nokkurs kveðskapar verður vart.
Í Hellisey hafa orðið til nokkrar vísur, og hef ég fengið leyfi höfundar að birta þær hér. Höfundurinn er Óskar Kárason frá Presthúsum. Hefir hann ort allmikið af úteyjavísum, og birti ég hér með Helliseyjarbraginn á öðrum stað, ortur 1955.
Í Hellisey voru um 1904-05 þeir Jón Pétursson, Þorlaugargerði, Björn Finnbogason, Norðurgarði, Einar Sveinsson, Þorlaugargerði og Hjörtur Einarsson, Þorlaugargerði. Lágu þeir þar við til lunda og svartfuglaveiða, en þó einkum til þess að snara svartfugl. Hrepptu þeir hið versta veður, svo að við sjálft lá, að þeir misstu tjaldið ofan af sér. Sagði Björn Finnbogason, að það hefðu verið erfiðir dagar og nætur vegna veðurs. En þetta lagaðist, og var afli þeirra allgóður. Hin síðari árin hafa menn stundum verið til veiða í Hellisey, þ.e.a.s. til lundaveiða, en fremur hefur aflinn verið lítill, enda þær ferðir farnar meira sér til gamans, heldur en til aflafanga.
Árið 1924 lágu þeir við til lundaveiða í Hellisey til veiða, þeir Guðjón Tómasson, Gerði, Lárus Árnason, Búastöðum, Jón Guðjónsson, Þorlaugargerði, Eyjólfur Gíslason, Búastöðum, Guðjón Björnsson, Gerði og Guðni Jónsson Ólafshúsum.
Voru þeir staddir í göngunum að vestan og var verið að gefa niður ýmsu dóti. Guðni var niðri. Hann ætlaði síðan „að lesa sig upp“ þarna, sem er nokkuð harður lestur. Tóku þeir uppi ekki eftir því, að bandið losnaði, er Guðni var kominn nokkuð upp, og fór þá allt af stað og Guðni auðvitað á leið niður. Guðjón Tómasson sá á síðasta augnabliki, að bandið var losnað, hljóp til og greip bandið, sem rann út og niður. Þótt ótrúlegt megi virðast, tókst Guðjóni Tómassyni að stoppa bandið og frelsa Guðna frá miklum meiðslum, ef ekki dauða. En svo var átakið mikið og krafturinn á bandinu, að Guðjón skaðbrenndist í lófunum af hitanum frá því, er bandið rann gegnum lófa hans, áður en honum tókst að stoppa rennsli þess. En Guðna var borgið.
Eftir heimkomuna var sjálfsagt, að þess tíma sið, að halda úteyjahóf. Það gerðu þessir Helliseyjarveiðimenn með því að skreppa í útreiðartúr um Heimaey. Eitthvað munu þeir hafa haldið upp á daginn með gullnum veigum.
Ball var í Alþýðuhúsinu. Þangað fóru þeir á hestunum og gerði Guðjón Tómasson það meistarastykki, að hann reið á klárnum inn í Alþýðuhúsið, einn hring um salinn og svo út.
Varð af þessu tiltæki hans mesta uppþot í húsinu. Kvenfólkið þaut dauðhrætt upp á borð og bekki, æpandi og veinandi, en Guðjón fór sér í engu óðslega og reið út úr húsinu hægt og án þess að nokkurt mein yrði að á nokkurn hátt. Hinir komust ekki inn á sínum hestum, hvernig sem reiðmennirnir reyndu að koma þeim til að fara inn um dyrnar. Þetta er sennilega einasta skiptið, sem hestur hefir verið á balli hér og dansað einn hring um danssalinn.
Mig minnir, að með veiðimönnunum hafi verið sókningsmenn þeirra, þeir Þorgeir Jóelsson og Kjartan Vilhjálmsson á Múla. Ekki komust þeir á sínum hestum inn á ballið, svo að þeir urðu að bíða Guðjóns, meðan hann sýndi listir síns reiðskjóta, sem var frægur fyrir að fara, hvert sem honum var ætlað, jafnvel á ball.
Veiði þessara fimm manna var ágæt miðað við, að þeir voru þar aðeins 3 daga, eða alls 33 hundruð af lunda og svartfugli.
Þeir menn, sem nefndir eru hér að framan við árið 1924, byggðu fyrsta kofann, sem byggður var í Hellisey. Veggir voru allir hlaðnir úr torfi og grjóti sem og framhliðin, en þakið klætt járni á trébitum. Þetta sumar voru þeir í eynni 3 daga, en árið eftir fóru þeir allir aftur út í ey, nema Guðjón Björnsson, og voru þá hálfan mánuð. Veiði var þá lítil af lunda, mest svartfugl. Veður var óhagstætt enda aflinn eftir því.
Þá lágu við í Hellisey, líklega árin 1937-38, þeir Óskar Kárason og Friðrik Jesson. Þeir voru til lundaveiða og voru um vikutíma. Síðar eða líklega árið 1939, fóru þeir svo með Þorsteini Einarssyni á Hóli, sem var í fuglarannsóknum.
Að sjálfsögðu lágu þeir í tjaldi, þareð engum kofa var til að dreifa. Var aðbúðin oft mjög slæm í vondum veðrum, stormum og sérstaklega miklum rigningum, þegar allt var að segja má á floti í vatni.
Friðrik filmaði eitthvað af fuglalífinu, en Óskar gaf sig meira að veiðinni. Þá fann Óskar tvo veiðistaði í Hellisey á Bringnum, efri og neðri stað. Veiðiátt SV, en þó nokkuð útsynnari í neðri staðnum. Einnig fann hann og veiðistað í Skarðinu undir Háhaus, veiðiátt ASA. Þessi staður er vestan undir Háhausunum.
Það mun líklega hafa verið árið 1945, að þeir voru þar Ólafur Björnsson, Kirkjulandi, Jóhannes Tómasson, Höfn, Sigurður Guðlaugsson, Laugalandi og Gunnar Stefánsson, Gerði. Þeir lágu í tjaldi. Það var oft mjög slæmt vegna storma og rigninga, en allt fór þó vel. Hafa menn þessir, einhverjir þeirra, oft skroppið 3 til 5 daga út í eyna til veiða að gamni sínu, en Ólafur Björnsson venjulega farið lengri eða skemri tíma nær árlega, alllengi.
Árið 1954 byggðu þeir þar kofa, sem stendur enn, 1962. Þá voru þar þeir Ólafur Björnsson, Gísli Fr. Johnsen, Sigurbergur Jónsson, Kirkjubæ. Svo voru þar og þeir Júlíus Snorrason, Hlíðarenda og Gísli Þ. Sigurðsson rafvirki.
Það hefir alltaf gefist sæmilega með Helliseyjar-viðlegur, en einu sinni lenti þó Júlíus Snorrason í sjóinn, en náðist lítt þjakaður af vosbúðinni. Þeir hafa haft hjá sér talstöð, svo að þeir hafa sem aðrar úteyjar verið í sambandi við umheiminn, ef svo mætti segja.
Um Hellisey mætti margt segja, en flest af því er þó áður komið á prent, svo að varast verður margt, sem ég get birt af nýju efni.
Allmargir hafa legið við í Hellisey til lundaveiða, og fleiri en ég hafa getað fengið vitneskju um það.
Oft hef ég verið að því spurður, hver muni hafa fyrstur manna sigið Stórhellana í Hellisey. En því miður mun nú enginn vita það með fullri vissu. En síðan mun vera all-langt umliðið. Heyrt hefi ég, að Þórður nokkur Geirmundsson á Eystri Löndum hafi orðið til að vinna þetta þrekvirki, en sem sagt um vissu fyrir því veit ég ekki. Það er sagt, að þeir væru margir til eggjatekju í Hellisey, og báðu menn Þórð þá að síga Stórhellana, en hann vildi ekki gera það. Hefir hann eflaust verið mikill sigamaður, þareð þeir treystu honum til þessa þrekvirkis. Þórður hafði svo lagt sig til svefns, en dreymdi þá, að til hans kæmi kona og kvað þessa vísu til hans:

Hörð eru sig í Háubælum
og hættuleg.
Hábrandinn og hræðist eg,
en Hellisey er ógurleg...

Er hann svo vaknaði af blundi sínum, kvaðst hann reiðubúinn að síga Stórhellana, því að versta sigið var talið af Háhausnum, þ.e. Hábrandinum. Háubæli voru einnig til í Hellisey, þótt nú viti enginn, hvar þau voru. Þetta er sennilega þjóðsaga, sem lítið eða ekkert hefir við að styðjast.
Aðrir segja, sem er trúlegra, að Jón dynkur hafi ort vísuna. Háubæli þekkjast sem sagt ekki í Hellisey, en þau eru hinsvegar til í Elliðaey. Þangað niður eru verstu sig í Elliðaey, því að loft eru þar mikil. Þá mun og í vísunni átt við Hábrandinn í eyjunni Brandi, en Hábrandur er þar nefnt, sem hann er hæstur eða rúmir 90 metrar. Mun vísan eflaust benda til þess sigs, er hún minnist á Hábrandinn. En í Hellisey er talið versta bjargsig í Eyjum, Stórhellarnir. Er rið þar svo mikið að hvergi mun annað eins.
Jón dynkur var mikill fjallamaður. Hann hrapaði eitt sinn úr Langvíuréttum í Bjarnarey. Var þar að fara laus um, er honum var kippt niður með gagnvað af vangá. Féll hann í sjó niður, meiddist lítið og jafnaði sig fljótt. En þegar honum skaut úr kafinu, er sagt að hann hafi sagt: „Heyrðuð þið ekki dynk, piltar?“ Þar af hlaut hann viðurnefnið ,,Jón dynkur“. Hvenær hann var uppi, veit nú enginn, sem og hitt, hvort Þórður Geirmundsson seig fyrstur Stórhellana. Það er enn óleyst gáta, ásamt þeirri, hver lagði fyrst veginn upp í Súlnasker. Þar um eru margar þjóðsögur.

Ljóð og stökur um Hellisey
(Höf.: Óskar Kárason)
Eyjan:
Brött og há er Hellisey,
hrikaleg með gjögur,
en í sól og þýðum þey
þokkalega fögur.


Veiðimannasöngur
Lag: Óli lokbrá
Helliseyjan hafs í geim,
há með björgin ströng,
frjálsan geymir fuglaheim,
fegurð, list og söng.
Þegar fögur sumarsól
sveipar töfrum sker,
yndislegra úthafsból
aldrei kýs ég mér.
Því Helliseyjunni unna
allir, sem friðsælu þrá.
Þar má í örmunum unna,
alheims dýrðina sjá.
Þegar fögur sumarsól
sveipar töfrum sker,
yndislegra úthafsból
aldrei kýs ég mér.


Helliseyjarbragur 1955.
1. Hellis-gistu eynni á 2. Ólafs nafnið annar ber
ýtar lista Heimey frá. óðar-safnið greinir hér.
Heiti rista rekka má Bjarga-safni Björnsson er
rímna-tísti óðs í brá. bragð við dafnar, lundagrér.
3. Júlli djarfur heitir hinn 4. Hellisey á djásnin dýr
hranna þarfi drengurinn. drótt vill segja bragar Týr.
Snorra arfinn elskar ginn, Yfir meyjar mætti hýr
oft við garfar jeppann sinn. marar-freyjan bjarga býr.
5. Eyjar grundu allir þrá 6. Eftir lunda liðna tíð,
ýtar stund, sem leggja á. lögðu þundar út í stríð.
Veiði lunda fjalls á flá Bjarga-hrundin fyrst var fríð
fræða þundur greina má. og fyrða undur viður blíð.
7. Þá skall regn og rokið á, 8. Heila viku höfðu skjól
rekka gegnum nísti þá. hetjur kvikar sitt við ból.
Brátt þó megna manns í krá Aldrei blika sáu sól,
mæddir þegnar inn að ná. svo þeir hika allt við ról.
9. Stormur salla storð á fló 10. Gekk á vistir garpa ótt,
strákar halla biðu ró. ginið lista eyddist fljótt.
Regnið alla eyna þvó, Vatnið fyrst þeim færði þrótt,
aldan falla bergið sló. fór þó lystin af því fljótt.
11. Vatni og lunda lifðu á 12. Loks, þá vikan langa leið,
leiðir þundar bjargs í krá. lands frá krika sigldi skeið.
Rosinn undra erti þá, Hún án svika sjóinn skreið,
engan blund þeir væran fá. sást ei hika búsan greið.
13. Þegnar glaðir þegar sjá 14. Aldan stóra ei þar svaf,
þekkinn vaða bjargs að flá, Óla hóran kossa gaf.
þeir með hraða hreysi frá Júlli fór á kolsvart kaf
halda án skaða steðjan á. klettaflórnum hála af.
15. Seggur bandi samt á hékk, 16. Óli mæddur uppi beið,
sá í vanda björgun fékk. ekki hræddur skers á leið.
Karl úr landi köldum rekk Á bandi flæddur brátt sá skreið
kom frá grandi upp á hekk. buxum klæddur út í skeið.
17. Eftir vosið vista smátt
verjar brosa aftur dátt.
Heim svo tosa hetjur brátt,
hætt skal rosa veiði-þátt.


Hellisey


Hjörtur Jónsson bóndi í Þorlaugargerði hrapaði úr Súluhelli í Hellisey, er verið var þar að aðsækja til súlna og fýls. Það var árið 1883 og þá trúlega eftir miðjan ágústmánuð. Hjörtur náðist á sjóflánni, en var þá þegar dauður.
Þeir höfðu verið nokkuð lengi í ferð þessari, og var fólk löngu farið að búast við þeim heim. Sá var þá siður viðhafður, að þegar skipin komu úr slíkum úteyjaferðum, að hafa uppi flagg eða veifu, ef allt hafði gengið að óskum. En nú brá svo við, er báturinn kom sunnan frá, að þá var hann með enga veifu. Vissi fólk þessvegna, að eitthvað hafði komið fyrir, áður en báturinn kom í Lækinn, þótt það vissi ekki, hvað hafði skeð fyrr en skipið var lent.
Ekki er mér kunnugt um, að aðrir hafi farist í Hellisey, en efalaust eru það einhverjir, sem farist hafa þar á fyrri öldum, þótt ekki sé það að finna skráð.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit