Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Í Suðursjónum fyrir sunnan sker

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Guðjón Ármann Eyjólfsson skólameistari


Í SUÐURSJÓNUM FYRIR SUNNAN SKER


Ég kalla þennan þátt um Eyjamið ,,Í Suðursjónum. — Fyrir sunnan Sker.“ En fyrst og fremst verður hér fjallað um miðin suður og suðvestur af Eyjum.
Færamiðin suður og suðvestur af Álsey, Brandi og Suðurey, suður á [[Svið<Sviðum]] og við klakkana þar eru iðulega kölluð Suðursjórinn. Hafa frændur mínir, Litlabæjarmenn, fengið þar margan golþorskinn. Ég man eftir að á línuvertíðum hér fyrr á árum voru miðin „fyrir sunnan Sker“ þekkt og fengsæl. Á miðri vetrarvertíð, í lok febrúar og byrjun mars, fékkst þarna oft góður fiskur á línu, stór og góð ýsa, en einnig langa. Nokkrir formenn skáru sig úr með ágætan afla af þessum miðum, t.d. Sigurður Sigurjónsson frá Brekkuhúsi. Hann var þekktari sem „Siggi á Freyjunni“ sem hann átti ásamt Ágústi Matthíassyni og var skipstjóri með í fjöldamörg ár. Þess vegna orti Ási í Bæ í Formannavísum 1956 :

Siggi á Freyjunni sigldi hratt
suður að Skeri með Gústa Matt.
„Hér er nú gullið þitt, Gústi minn,
sem girnist svo ákaft hugur þinn."
Siggi, Siggi á Freyju, sá er ekkert lamb í leik.

Þetta gamankvæði var sungið af mikilli hjartans list í fyrsta sinn á skemmtun Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum 1956 undir laginu „Davy Crockett.“ Samtals er bragurinn níu vísur um nokkra þekkta Eyjaformenn á þessum tíma, þá Sigga Vídó, Bjarnhéðinn Elíasson, Sigurð Þórðarson, Eyjólf Gíslason, Jóhann Pálsson, Sigga á Freyjunni og Binna í Gröf.

Lítið eitt um jarðfræði.
Vestmannaeyjar urðu til við eldgos og eru þekktar eldstöðvar í öllum hinna stærri eyja. Eyjarnar, nema svonefndir „Norðurklettar,“ þ.e. Dalfjall, Klifin. Heimaklettur, Mið- og Ystiklettur, mynduðust í eldgosum eftir lok ísaldar, fyrir sex til tíu þúsund árum. „Norðurklettar,“ elstu jarðmyndanir Vestmannaeyja, urðu til fyrir meira en tíu þúsund árum í eldgosi undir jökli, nokkru áður en síðustu ísöld lauk.
Á Vestmannaeyjasvæðinu eru þekktir 75 - 80 eldgígar sem hafa gosið eftir jökultíma.Talið er að 73-78 eldgos hafi orðið þar á síðustu fimm til tíu þúsund árum. Gossvæðið er um 800-1000 ferkílómetrar og hafa eyjar og sker, sem eru ofansjávar, myndast á svipaðan hátt og Surtsey. Með vissu hafa verið sannreyndar 17 eldstöðvar með leifar ofansjávar. Neðansjávar eru um 60 gosgígar. Umhverfis gígtappa þessara eldstöðva eru oft hraun. Frá fornu fari hafa þessir standar og grunn verið aðalfiskimið Eyjamanna. Vestmannaeyjagossvæðið er annað af helstu gossvæðum landsins á gossprungustefnunni sem liggur frá suðvestri til norðausturs, samhliða stefnu Atlantshafs- og Reykjaneshryggjar.
Þessi greinilega og skýra sprungustefna sést mjög vel á því að margir þekktir gígar og mið liggja á sömu beinu línunni frá suðvestri til norðausturs. Eins og sjá má á meðfylgjandi korti liggja sprungulínurnar með grunnunum nákvæmlega samsíða, hlið við hlið. Á beinni línu, SV-NA-sprungustefnunni, eru t.d. „Djúpfjall“ (dýpi um 100 metrar; SSA af Surtsey; um 4,5 sjómílur suður af Geirfuglaskeri), nafnlaus standur austast á Stórahrauni (dýpi 41 metri), Geldungur, Helgusker, Hellisey, Suðurey, Sæfjall (Háubúr), Helgafell og Eldfell. Þarna eru alls staðar um að ræða þekkta eldgíga.
Dr. Sveinn P. Jakobsson, jarðfræðingur og forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, hefur gert merkastar jarðfræðirannsóknir á þessu svæði og er hér m.a. stuðst við rit hans.

Færamið í Suðursjónum.

Og enn þeir fiskinn fanga
við Flúðir, Svið og Dranga,
þótt stormur strjúki vanga,
það stælir karlmannslund.

Þessar hendingar eru úr hinu þekkta kvæði Heima eftir Ása í Bæ sem mér finnst eitt hið fegursta sem hefur verið sagt og ort um Vestmannaeyjar. Það hefði ekki annar en sjómaður, sem þekkti vel sitt umhverfi, ort svo meitlað og fallegt kvæði um Eyjarnar en kvæðið hefst þannig:

Hún rís úr sumarsænum
í silkimjúkum blænum
með fjöll í feldi grænum,
mín fagra Heimaey.

Oft sá Ási Heimaey rísa úr sumarsænum, bæði við sólarupprás og sólarlag, þegar hann stóð við færin í Suðursjónum og á öðrum miðum í kringum Eyjarnar. Sennilega er óvíða jafnfögur sólarupprás á miðsumri og gefur að líta fyrir sunnan Eyjar þegar sól rís upp af hvítum jökulskalla Eyjafjalla- eða Mýrdalsjökuls með dimmbláar eyjar í forgrunni. Ekki er sólarlagið síðra fyrir austan Eyjar. Þetta upplifa aðeins sjómenn og þá sennilega enginn frekar en trillusjómaður á litlum báti, í náinni snertingu við haf og himin.
Þarna eru mörg færamiðin. „Við héldum í Suðursjóinn sem oftar“ skrifar Ási í sinni ágætu bók Skáldað í skörðin. Í þessari bók bregður Ási upp snilldarmynd af sumarúthaldi með Þórarni á Jaðri á trillunni Öðlingi, sem faðir Ása, Ólafur Ástgeirsson í Litlabæ, átti og reri á í tugi vertíða með Guðmundi bróður sínum í Sjólyst. Hann lýsir vel hvað Þórarinn var glöggur formaður og fiskimaður ágætur þó að hann væri nokkuð sér á parti sem sagt er, en nákvæmur og „séntilmaður“ svo að af bar. En þetta voru fiskisæl og nákvæm mið. Ási segir svo frá einum róðri með Þórarni í Suðursjónum:
„Það kom iðulega fyrir að þegar við vorum komnir á staðinn þá hringsólaði hann fram og aftur á blettinum þar til hann var loks ánægður. Stundum sagði hann: „Nei, það munar eins og hálfri bátslengd, geturðu ekki bakkað?“ Seinna þegar ég fór að nota dýptarmæla kom í ljós að naddar og klakkar gátu verið loðnir af fiski þó ekki sæist branda utan við þá.“
Hilmar Sigurbjörnsson, þekktur trillumaður og aflakló í Eyjum, staðfestir þetta í viðtalsþætti í bókinni Trillukallar þar sem hann segir að sá sé munur á færamiðum við Eyjar og miðum fyrir austan og vestan land að á stöndunum við Eyjar (sem Hilmar kallar „snaga“) dragist fiskurinn ekki með bátnum heldur haldi sig við snagana. „Það er í lagi að láta reka tvær til þrjár bátslengdir, en þá verður maður að kippa aftur. Fyrir austan og vestan er þessu öðruvísi farið. Þar virðist fiskinn reka með bátnum og það er hægt að vera í grimmum fiski lengi án þess að kippa.“
Vestur og norðvestur af Hellisey, Geldungi og Súlnaskeri eru fimm greinilega afmarkaðir standar, 30-40 metrar á hæð, upp frá sléttum botni. Áreiðanlega gamlir gígtappar.
Sviðin eru vestast og stærst um sig. Færamiðin eru þrjú, sem í sjókorti eru nú nefnd einu nafni Svið; þ.e. Vestasta-Svið, Mið-Svið og Austasta-Svið. Miðið er: „Hundaskerið við Súlnasker að vestan: Ystiklettur við Álsey að norðan.“ Grynnst er 23 metri dýpi á Sviðum.
Einarsklakkur: Rúmlega hálfa sjómílu suð-suðaustan við Svið; dýpi 20 metrar. Miðið er: „Ufsaberg norður undan Álsey. Þúfuskerið vel (hálf) laust vestur undan Geldungi.“ Einnig:„Háukollar á Heimakletti við Álsey“ og „Súlnasker við Geldung að austan“ (nærri jafnjaðra).
Olguklakkur: Grunn um hálfa mílu beint austur af Einarsklakki. Miðið: „Blátindur aðeins meir til Brands en Álseyjar“ eða „Hetta á Heimakletti snertir austurkantinn á Brandi“ Olguklakkur er mjór, brattur hryggur, 500-600 metra langur, á sprungu- og gosstefnunni frá suðvestri til norðausturs. Austast á grunninu er miðið: „Geldungur við Súlnasker að vestan“ Á Olguklakki er 10 metra dýpi þar sem grynnst er á klakknum. Olguklakkur og Einarsklakkur geta verið stórhættuleg grunn, sérstaklega í suðvestan átt, en grunnin eru á siglingaleið til hafnar frá Eyjabanka og miðunum norðvestur af Geirfuglaskeri.
Þorsteinn í Laufási segir frá því í ævisögu sinni, Formannsævi í Eyjum, hvernig það atvikaðist að hann hreyfði því að sjókort umhverfis Vestmannaeyjar yrðu leiðrétt. Þau voru byggð á sjómælingum frá því skömmu eftir síðustu aldamót og glöggir formenn tóku eftir því að grunn voru rangt staðsett eða vantaði inn í kortin.Við nánari athugun kom í ljós að hnattstaða Stórhöfða, sem var aðalmælipunktur sjómælingamanna, var ekki rétt í kortum. Um villandi staðsetningu grunna í sjókortum skrifaði Þorsteinn:
„Sérstaklega gat staðsetning Olguklakksins orðið ókunnugum hættuleg“
Þorsteinn lýsir eftirfarandi atviki sem gerðist á vetrarvertíðinni 1926:
„Einhverju sinni var ég á leið í land úr fiskiróðri vestan fyrir Geirfuglasker. Komið var foráttubrim af suðvestri. Þó var nærri logn. Einn bátur var skammt á eftir okkur. Þegar ég fór að nálgast Hellisey sá ég að sjóinn braut austan úr skarðinu sem er á henni sunnanverðri, en það er órækt merki þess að þá fer að brjóta á Olguklakknum ef lágsjávað er. Ég hélt því vel laust við boðann sem oft var uppi en báturinn, sem á eftir kom, sýndist stefna beint á brotið. Það var ekki tími til að aðvara bátinn, til þess var hann of langt frá. Af einskærri náð lá boðinn á meðan báturinn fór utanvert yfir hann“
Dalaklakkur. Hann er nokkru sunnar eða um 0,7 sjómílur frá Olguklakki. Minnsta dýpi á klakknum er 28 metrar. Miðið er: „Grásteinsfles (vestan í Stórhöfða) við Suðurey að vestan“ og „Súlnasker við Geldung að austan (nærri jafnjaðra).“ Dalaklakkur er um miðja vegu á milli Olguklakks og Hundaskersklakks.
Hundaskersklakkur. Klakkurinn er 0,8 sjómílur suðvestur af Dalaklakki og jafnlangt norðvestur af Hundaskeri. Minnst dýpi á Hundaskersklakknum er 20 metrar, en miðið: „Grasleysa laus við Álsey að vestan. Skerpresturinn (varða austan á Súlnaskeri) við Geldung að vestan.“ Einnig: „Stórhöfðavitinn við Sauðagötu á Suðurey (austast á Suðurey). Smáeyjar jafnjaðra og horfnar við Álsey að vestan.“
Hægt er að draga beina línu (SV-NA) frá grynnsta standi á Stórahrauninu (dýpi 39 metrar) yfir Hundaskersklakk, Dalaklakk, Olguklakk og Brandskjálkann. Enn ein staðfesting á sprungu- og gosstefnunni.
Stórahraun og mið
suður af Geirfuglaskeri.
Svæðið suðvestur af Geirfuglaskeri, og þá auðvitað einkum við Surtsey, hefur verið sérlega virkt eldfjallasvæði. Þar má telja grunnin og gígana Jólni, suðvestan við Surtsey, Surt í sjálfri Surtsey, Syrtling og Surtlu norðaustan við eyjuna. Grunnin eru öll á SV-NA-sprungustefnunni og voru ofansjávargígar sem gusu af krafti og mynduðu eyjar í Surtseyjargosinu. Eyjarnar hurfu síðan í sæ vegna ágangs sjávar og vinda og eru nú á um og yfir 40 metra dýpi. Syrtlingur, austan við Surtsey, gaus frá því í maí og fram í október 1965. Hann myndaði 70 metra háa eyju, 0,15 ferkflómetra að flatarmáli; nú er þar grunn á 33 metra dýpi. Á jólum árið 1965 byrjaði neðansjávargos um hálfa sjómílu suðvestur af Surtsey og myndaði 70 metra háa eyju, mun stærri um sig en Syrtlingur var. Eyjan var nefnd Jólnir. Hún hvarf eins og Syrtlingur og er þar nú 37 metra dýpi. Surtla, bratt grunn, 50-60 metra hátt, um eina og hálfa sjómílu ANA af Surti, gaus frá því í desember 1963 fram í janúar 1964. Þar sem grynnst er á Surtlu er dýpið nú 45 metrar.
„Djúpfjall": Á Stórahraunssvæðinu eru þrír greinilegir toppar: Vestast er standur, yfir 40 metrar á hæð (hæsti punktur á 39 metra dýpi). Þá er um 0,7 sjómílur til suðausturs nærri 30 metra hár tindur (dýpi 62 metrar). Síðan, 0,6 sjómílum sunnar, er örmjór standur, sem er 42 metrar á hæð, en dýpi á standinn er 41 metri.
Um tvær sjómílur sunnan við þetta svæði er nafnlaust grunn, reglulegt „eldfjall.“ Það er um 50 metrar á hæð og rís upp af 150 metra dýpi. Meðan ekki gefst annað betra heiti kalla ég það „Djúpfjall“; en dýpi á hæsta „tindinn“ er um 100 metrar.
Óvenjuleg fátækt virðist hafa verið í nafngiftum fiskimiða á þessum slóðum, enda fyrst farið að sækja á þessi mið eftir að bátar stækka og þeir búnir góðum tækjum, bæði til staðsetningar og dýptarmælinga. Landmið eru þá ekki notuð eins og áður var. Einnig eru þessi fiskimið mun lengra frá landi en gömlu færamiðin og sést því ekki eins vel til miða.
Þegar fjallað er um fiskimið finnst greinilega hve mikils virði og mikilvægt er að gefa hlutum nafn sem síðan er unnt að nota í umræðu og umfjöllun. Dæmi um „Hóla“-nafn. sem gripið var til og reyndist síðan kröftugt eldfjall, er fiskimiðið „Hóllinn“eða „Skerin saman“ en þar reis Surtsey úr sæ í eldgosi sem stóð samfleytt í rúmlega þrjú og hálft ár (1963-1967; sbr. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996).
Á Stórahrauni og Hólunum eru góð og fengsæl fiskimið; sérstaklega hefur því verið viðbrugðið að þar veiddist mikið af stórýsu sem sjómenn kalla stundum graðýsu. Þarna hafa bátar fengið svart brunagrjót upp með veiðarfærum. Þetta var staðfest með vísindalegum botnsköfurannsóknum dr. Kjartans Thors og dr. Sveins P. Jakobssonar á rannsóknaskipunum Hafþóri árið 1974 og Árna Friðrikssyni árið 1982.

Jarðskjálftarnir sumarið 1896.
Miklir jarðskjálftar urðu á Suðurlandi sumarið 1896. Þessar náttúruhamfarir voru í þá daga kallaðar landskjálftar. Hamfarirnar hófust fyrirvaralítið og skullu yfir Suðurlandsundirlendið, uppsveitir Arnes- og Rangárvallasýslu, að kveldi dags hinn 26. ágúst. Af landskjálftunum varð geysilegt eignatjórn og mannskaðar áður en lauk. Í Rangárvallasýslu gjöreyðilögðust og féllu 603 bæjarhús, 1507 voru mikið skemmd, 1038 lítið skemmd og 170 óskemmd með öllu. Í Árnessýslu gjörféllu 703 bæjarhús. Uppsveitir þessara sýslna, Rangárvellir, Landsveit og Hreppar, urðu verst úti. Í Landsveit hrundu 28 bæir af 35, einnig varð talsvert tjón í Fljótshlíð. Af um 500 bæjarhúsum í Breiðabólstaðarprestakalli féllu 65 hús til grunna. Í þeim sveitum sem urðu verst úti var fólk klæðlítið, húsvillt og nærri matarlaust. Ófært um að bjarga því litla sem kynni að finnast í rústum bæjanna, segir í samtíma heimild.
Mjög harður landskjálftakippur varð í Vestmannaeyjum að morgni 27. ágúst. Þetta var um fýlatímann og Eyjamenn í öllum fjöllum og úteyjum til flugfýlaveiða. Flugfýllinn var eitt af helstu bjargræðum Vestmanneyinga. Fuglinn var veiddur í þúsunda tali og þótti best búsílag og var bæði saltaður og reyktur til vetrarforða. Auk þess gaf hann af sér viðbitið, fýlafeitina eða fýlabræðinginn sem svo var nefndur, og fýlarustið eða eldsneytið sem alltaf vanhagaði um í hlóðaeldhúsum þeirra tíma.
Í Dufþekju, norðan í Heimakletti, voru sex menn „að sækja“ þegar skyndilega varð harður jarðskjálftakippur og mikið grjóthrun kom úr Hákollahamri. Grjótflugið, sumt stór björg, þeyttist ásamt gras- og moldarkekkjum með braki og miklum gný niður Dufþekju, yfir bjargveiðimennina og í sjó niður. Þar voru bátslegumenn á tveimur bátum til þess að hirða upp fuglinn sem var kastað niður. Veiðimennirnir köstuðu sér strax flötum á graskekki og flár. Grjóthnullungur fór í bak eins þeirra, Ísleifs Jónssonar frá Hrauni, og særði hann til ólífis. Ísleifur var bróðir Þorsteins í Laufási, aðeins 18 ára gamall, og hinn mesti efnispiltur. Þegar grjóthríðinni linnti var Ísleifi komið niður á bjargbrún, síðan var hann látinn síga um 30 faðma á skip og fluttur heim. Ísleifur andaðist af sárum sínum fjórum dögum síðar, hinn 31. ágúst. Mikil Guðs mildi þótti að hinir skyldu sleppa ómeiddir, en grjótið fór svo nærri sumum mannanna að það sneiddi torfuna þar sem þeir lágu og þeyttist svo yfir höfuð þeirra. „Um 10 mínútum fyrr höfðu þeir verið litlu austar og þar var hrapið svo mikið að það mundi hafa sópað þeim öllum dauðum niður í sjó hefðu þeir þá verið þar“ skrifaði Þorsteinn Jónsson, læknir í Landlyst, 2. september í fréttabréfi til Ísafoldar.
Í Álsey fór graskökkur af stað með bræðurna frá Kirkjubæ, þá Gísla og Guðjón Eyjólfssyni, ásamt þriðja mann. Þeim bræðrum tókst með snarræði að stökkva af kekkinum, hvorum til sinnar hliðar, og stöðvaðist þá grastorfan á brún hengiflugs.
Jarðskjálftanna varð greinilega vart víðar á Heimaey. Mjólk og vatn helltist úr ílátum. Litlar skemmdir urðu þó á húsum, nema á prestssetrinu að Ofanleiti sem skekktist mikið. Á sjó fundu menn einnig greinilega fyrir jarðskjálftunum og segir svo frá því í Öldinni sem leið — Minnisverð tíðindi 1861-1900: „Skipstjóri á ensku fiskigufuskipi, sem var við fiskveiðar með lóð um morguninn hinn 27. ágúst, eina eða tvær vikur sjávar [ein vika sjávar er 6,7 sjómílur; hér er því átt við um 10 sjómílur] suður af Súlnaskeri, hefur sagt svo frá að skipið hafi allt nötrað við kippinn og áhöld og ílát fallið niður."
Aftur varð ógurlegur jarðskjálfti að kvöldi 5. september og varð þá engu minna tjón en 26. og 27. ágúst, en jarðskjálftasvæðið vestar en áður. Hvert einasta bæjarhús á öllum þrem bæjum, sem þá voru á Selfossi, féllu og fórust hjón í einum bænum. Ný Ölfusárbrú, sem hafði verið vígð fimm árum áður, árið 1891, stórskemmdist, einnig urðu skemmdir á nýbyggðri brú á Þjórsá, en þó ekki eins miklar.

Eldgos í hafi, suður af Súlnaskeri.
Allt haustið árið 1896 voru víða jarðhræringar. Landsmála- og fréttablaðið Ísafold segir svo frá hinn 3. október 1896 í frétt sem heitir ‘’„Landskjálftarnir“:’’
„Allt af kvað vart verða við smáhræringar eystra, á aðallandskjálftasvæðinu, flestar nætur, en svo vægar að ekki finna aðrir en þeir sem liggja vakandi; menn hrökkva ekki upp af svefni við þær.
Ekki hefir landskjálftanna vart orðið austar á bóginn en í Hornafjörð, að því er næst verður komizt, og norðanlands ekki lengra en að Vatnsskarði.
Helzt er að heyra sem Landeyingar sjeu ekki enn farnir ofan af þeirri trú, að þeir hafi sjeð eldgos úti í hafi nú fyrir hálfum mánuði (eldar þessir í hafi munu því hafa sést frá 13.-19. sept). Er skrifað hingað af Eyrarbakka sem var aðalverslunarmiðstöð Suðurlands, frá Skaftafellsýslum að Hellisheiði, á 19. öld og nokkuð fram yfir aldamótin 1900 fyrir fám dögum: „Landeyjamenn eru hjer hópum saman daglega og ber þeim flestum saman um það að þeir hafi sjeð eld suður undan Vestmannaeyjum; hafi bjarmann lagt langt á lopt upp og eldstrókar sjezt upp yfir allháa eyju (Hellisey) sem bar í logann. Fæstir segjast hafa sjeð þetta nema eitt kveld, sumir tvö, og allir segja þeir að svo áreiðanlegir menn hafi sjeð þetta að óþarfi sje að rengja það. Enginn eldur hefir samt sjezt í Vestmannaeyjum, enda kváðu fjöll skyggja á sjóinn í suðurátt þar; aptur á móti sagðist maður úr Hvolhreppi hafa horft á eldinn hálfa klukkustund sama kveld og Landeyingar hafi sjeð hann.“

Eldfjallið og fiskimiðið Hólar.
Ekki tel ég nokkurn vafa á því að hér hafi verið um að ræða eldgos í grunni sem nefnt hefur verið „Hólar.“ Sjónlína dregin yfir Hellisey frá Hvolhreppi og Landeyjum liggur beint yfir þetta grunn eins og sést á meðfylgjandi korti.
Hólar eru í 3,7 sjómílna fjarlægð, nærri því í réttvísandi suður (183 gráður) frá Súlnaskeri og rúmar þrjár sjómílur ASA af Stórahrauni. Af kortinu sést að Hólarnir eru skv. dýpislínum reglulega lagað, hringlaga tjall (vafalaust eldgígur), um 55 metrar á hæð og rís upp af 150 metra dýpi. Á grunninu er grynnst 95 metrar dýpi. Vart getur því verið um annan stað að ræða, tengdan eldgosi í hafi í september árið 1896.
Miðið Hólar held ég að hafi fyrst orðið þekkt meðal Eyjasjómanna eftir að humarveiðar hófust að einhverju ráði um 1960. Þarna kom þá strax upp með veiðarfærum kolsvart og eldbrunnið gjall og hraungrjót.

Flakið „Island.“
Tvær mílur norðaustur af Hólum liggur skipsflak. Eyjabátar munu iðulega hafa fest veiðarfæri í flakinu, en miðið er: „Blátindur á miðja Suðurey, Súlnasker og Geldungur sem V“ eða með öðrum orðum: „Rifa á Geldung og Súlnasker.“ Erfiðlega hefur gengið að finna prentaðar heimildir um þetta flak, en fengið hefi ég fréttir frá mörgum Eyjasjómönnum og sjálfur ritað í kompu mína fyrir löngu að þarna hafi farist danskur dragnótabátur sem hét „Island.“ Báturinn stundaði dragnótaveiðar hér við suðurströndina ásamt nokkrum fleiri dönskum bátum skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945 og var gerður út frá Hull.
Ég sendi öllum Vestmannaeyingum kærar kveðjur með ósk um góðan og gleðilegan sjómannadag.

Heimildir:
1. ‘’Sjómælingar Íslands: Sjókort nr. 321: Vestmannaeyjar.’’
2. ‘’Þorsteinn Jónsson: Formannsævi í Eyjum. Reykjavík 1950.’’
3. ‘’Gils Guðmundsson: Öldin sem leið. Reykjavík 1956.’’
4. ‘’Sveinn Jakobsson: Surtsey Research Progress Report IX. Reykjavík 1982.’’
5. ‘’Ási í Bæ: Eyjavísur, Reykjavík [útgáfuárs ekki getið].’’
6. ‘’Ási í Bæ: Skáldað í skörðin, Reykjavík 1978.’’
7. ‘’Hjörtur Gíslason: Trillukarlar, Reykjavík 1991.’’
8. ‘’Ísafold, landsmálablað, september 1896.’’
9. ‘’Landmælingar Íslands: Kort LMÍ 103-97.’’
10. ‘’Deviationssbestitmmung und Fischbojenplatze unter Island, Berlin 1937.’’
11. ‘’Guðjón Ármann Eyjólfsson: Vestmannaeyjar. Byggð og eldgos, Reykjavík 1973.’’