Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Venjan hefur verið undanfarin ár að látinna sjómanna sé minnst í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og svo verður einnig nú. Að þessu sinni getum við þakkað Skaparanum að hér hefur ekki orðið manntjón vegna slysa á sjó, þótt nýliðin vertíð hafi verið hörð og tíð slæm. Fyrir slíkt má þakka og er gert. Hinu skal ekki gleyma að ýmsir eiga um sárt að binda, þeir sem misst hafa ástvini sína, þótt ekki hafi sjórinn heimt þá. Sjómannadagsblaðið vottar aðstandendum látinna dýpstu samúð og óskar þeim Guðs blessunar.

Sjá laufið hrynur en lífið er eilíft. Lát lindirnar
hníga í dimman sjó. Því eitt sinn vor kynslóð
skal eignast í aldanna skógi sitt bergmál þó.
Ó, megi það hljóma sem heilagt ljóð er
himninum blessar vort land og þjóð og nýrri og
fegurri veröld vísar á veg hinna eilífu stjarna er
skína yfir aldanna skóg.


HAUKUR ÞÓR GUNNARSSON
F. 5. júní 1926 - D. 27. ágúst 1988
Vinur minn Haukur lést á Landsspítalanum laugardaginn 27. ágúst s.l. eftir stutta legu, en langvinn veikindi.
Foreldrar hans voru þau hjónin Bjarney Jónsdóttir og Guðmundur Jónsson. Föður sinn missti Haukur á ungum aldri, og eftir það flytur móðir hans frá Reykjavík til Ísafjarðar með hann og systur hans. Með elju sinni og dugnaði fór hann ungur að létta undir með móður sinni til þess að hafa fyrir nauðþurftum og að þau mættu halda hópinn saman.
Við Djúp var aðal vinnan mest í sambandi við sjósókn og fiskveiðar, og var hann fljótur að tileinka sér þau vinnubrögð sem við þurfti og fóru vel úr hendi.
Kynni mín af Hauki hófust skömmu eftir „gos“ í gegnum fósturson minn, þá átta ára snáða, er þeir áttu samleið í bekkjabíl heim af Þjóðhátíð.
Og leið varla kvöldstund upp frá því að manni voru ekki sögð tíðindi að skroppið hefði verið í kjallarann til Hauks, og þótti manni nú stundum nóg um, því ekki var alltaf komið snemma heim. Mér þykir það lýsa Hauki vel, komandi seint heim af sjó eða úr landvinnu, þann tíma er hann hafði handa svona gutta. Og eftir þetta varð hann fjölskylduvinur okkar.
Haukur var léttur í lund og mikill spjallari og hafði gaman af því að segja frá reynslu sinni í gegnum lífið, og einnig úr þeim bókum sem hann hafði lesið. Hann var vel lesinn og hafði gaman af alls konar fróðleik, bæði nýjum og ekki síður hinu gamla. Hann hafði ánægju af ljóðum og lausavísum og kunni mikið af slíku, enda stálminnugur.
Eitt af hans áhugamálum var að tefla, og var það ómæld ánægja okkar beggja að sitja við eldhúsborðið með ilmandi og rjúkandi kaffi, og svo smá spjall á eftir.
Hugur Hauks lá víða og er mér það minnisstætt er hann eitt sinn dró fram úr pússi sínu geysimikið safn af eldspýtustokksmyndum, allsstaðar að úr heiminum og sýndi mér. Og það kæmi mér ekki á óvart þótt þetta væri eitt af stærstu söfnum á landinu af þessari gerð, og þó víðar væri leitað.
Og af þessu má sjá að Haukur var „pennavinur“ enda skrifaðist hann á við fjölda fólks í öllum heimsálfum. Þessi söfnun og frístundaiðja sjómanns væri vel þess virði að varðveitast á Byggðasafni Vestmannaeyja. Hingað til Eyja fluttist hann skömmu eftir 1950 og gerist þá sjómaður á ýmsum bátum, fyrst á m/b Unni VE, með Þórði Stefánssyni, þá var hann einnig lengi hjá Helga Bergvinssyni á m/b Stíganda, bæði á vetrarvertíðum og á síldveiðum fyrir Norðurlandi, og var oft minnst á þau árin með bros á vör. Á línuvertíðum stóð Haukur ávallt í skúrnum og beitti, og var hann mikill og góður beitningamaður. Sjósókn stundaði hann lengst af starfsævi sinni, en sökum fótaveiki varð hann að hætta því og fór þá að vinna í landi.
Hin síðari ár ágerðust þessi veikindi hans, og líkamskröftum hans hnignaði svo hann sneri sér algjörlega að landvinnu, sem var þá mest í kringum sjóinn og útveginn, í frystihúsum og við beitningaborðið.
Skömmu eftir að hann fluttist alfarið til Eyja þá kynntist hann Halldóru Ármannsdóttur frá Laufholti hér í bæ, og þau felldu hugi saman og giftu sig hinn 31. des. 1954, og hófu þá búskap að Seljalandi og bjuggu þar í nokkur ár, eða þar til að þau fluttu í eigið hús, sem þau byggðu að Boðaslóð 7.
Þau eignuðust fimm börn, Guðmar Þór, Ármann, Elínu, Draupni og Magna Frey. En þau slitu samvistum og eftir það bjó hann í litlu kjallaraíbúðinni sinni á Boðaslóð 7.
Okkar seinasti fundur að Boðaslóð var miðvikudaginn 3. ágúst s.l. og það kvöld var hann fluttur helsjúkur á Sjúkrahúsið hér, og þaðan á Landspítalann, og þaðan var honum ekki afturkvæmt.
Útförin var gerð frá Fossvogskirkju mánudaginn 5. september s.l.
Kæri vinur, ég þakka þér fyrir allar ánægjustundirnar sem við áttum saman.
Börnum og ættingjum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Páll Árnason


ELÍAS SVEINSSON
F. 8. september 1910 - D. 13. júlí 1988
Elías Sveinsson var jarðsunginn 19. júlí s.l. frá Landakirkju í Vestmannaeyjum.
Hann fæddist á Gamlahrauni við Eyrarbakka, sonur hjónanna Sigríðar Þorvaldsdóttur frá Vallarhjáleigu í Flóa og Sveins Þórðarsonar frá Mýrum í Villingaholtshreppi.
Þau hjónin fluttu með börn sín til Vestmannaeyja árið 1925 og bjuggu í Varmadal.
Systkini Elíasar voru þau Helga, fædd árið 1900, giftist Árna Magnússyni; Þórður, fæddur 1902, kvæntist Elínu Jónsdóttur og Valdimar, fæddur 1905, kvæntist Margréti Pétursdóttur. Þegar til Eyja kom fór Elías að róa á Enok hjá Þórði Jónssyni frá Bergi. Eftir að hafa verið þar í nokkrar vertíðir hóf hann nám í vélstjóraskóla og gerðist síðan vélstjóri á m.b. Óðni. Formennsku sína hóf hann á Gulltoppi I., en lengst af var hann með Sjöstjörnuna.
Elías Sveinsson var í hópi hinna reyndu aflaskipstjóra í Eyjum sem þekktu vel til miða. Honum hélst vel á mönnum, góður andi var ævinlega um borð enda stutt í ljúft brosið og gamanyrðin hjá formanninum. Mörg sumur fór Elías til síldveiða fyrir norðan land, fyrst á tvílembingunum óðni og Ófeigi. Þeir voru saman um eina nót við veiðarnar. Síðar var hann nokkur sumur með Sjöstjörnuna með hringnót.
Árið 1935 giftist Elías eftirlifandi konu sinni, Evu L. Þórarinsdóttur Bjarnasonar járnsmiðs úr Reykjavík og konu hans, Unu Jónsdóttur. Börn þeirra eru: Sigurður Sveinn, fæddur 1936, kvæntur Sigrúnu Þorsteinsdóttur. Þau eiga þrjú börn. Una Þórdís, fædd 1938, gift Önundi Kristjánssyni, eiga þau fjögur börn. Atli, fæddur 1939, kvæntur Kristínu Frímannsdóttur, börn þeirra eru þrjú. Sara, fædd 1943, gift Birni Baldurssyni, þeirra börn eru þrjú. Sævaldur, fæddur 1948, kvæntur Svanborgu Oddsdóttur. Þau eiga þrjú börn. Hjalti, fæddur 1953, kvæntur Júlíu Andersen.
Þá mánuði sem jarðeldurinn var uppi á Heimaey voru þau hjón á fastalandinu, en strax og gosinu lauk voru þau aftur komin í Varmadal. Hin síðari ár komu þau oft til landsins. Á björtum sumardögum óku þau um sveitir og fundu ættingja og vini.
Á uppvaxtarárum sínum var Elías í sveit á Baugstöðum hjá Helgu móðursystur og Jóni Magnússyni. Hjá þeim hjónum ólst upp annað systkinabarn Helgu, Ólafur Gunnarsson, er síðar bjó þar og er nú látinn fyrir fáum árum. Mikið vinfengi var með þeim frændum og kom Elías því oft að Baugstöðum einkum hin síðari ár. Sá hann þá út yfir sjóinn og brimið við hraunströnd bernsku sinnar.
Nú þegar Elías er til moldar borinn í Eyjum er hún komin þar öll fjölskyldan sem flutti í Varmadal árið 1925.
Samúðarkveðjur.
Sigurður Kr. Árnason


ÁRMANN BJARNFREÐSSON
F. 20. mars 1928 - D. 9. júní 1988
Ármann var einn úr hópi 20 systkina frá Steinsmýri í Meðallandi og ólst hann þar upp. Ármann hafði átt við mikla vanheilsu að stríða undanfarið og ljóst var að hverju stefndi og hver endalokin yrðu, en eigi að síður er það alltaf sárt, þegar menn falla frá um aldur fram.
Ármann Bjarnfreðsson hóf störf hjá fyrirtæki okkar, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, fyrir u.þ.b. 10 árum og var hann verkstjóri í saltfiski og matsmaður. Hafði ég gott tækifæri til þess að kynnast Ármanni á þeim árum, sem hann starfaði hjá okkur.
Ármann var mjög samviskusamur starfsmaður og vildi vinna fyrirtæki því, sem hann vann hjá, hið besta. Hann var mjög framarlega í verkalýðsmálum, varaformaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja um tíma, og vann mörg störf á þeim vettvangi og var mjög harður fyrir sína umbjóðendur. Þrátt fyrir þessi störf hans fyrir verkalýðsfélögin og fyrir þá baráttu, var það eins og rauður þráður í gegnum hans störf, að verkalýðsbaráttan gengi ekki upp nema að fyrirtækið gengi vel. Þó að starfsfólkið væri að gera kröfur á hendur fyrirtækinu, þá þyrfti það líka að gera kröfur til sjálfs síns og það sýndi Ármann í störfum sínum. Á samningafundum, sem Ármann tók þátt í, hlustuðu menn með mikilli athygli á það sem hann lagði til málanna, því það var ljóst, að þar fór maður, sem vann sjálfur þessi störf, vissi hvað hann var að tala um og setti mál sitt fram með þeim hætti, að bæði vinnuveitendur og hans samherjar tóku mikið tillit til skoðana hans.
Ármann var verkstjóri og matsmaður bæði í síld og saltfiski hjá okkur og það var oft gaman að fylgjast með Ármanni við mat á fiski, því hann gat ekki hugsað sér það, að vinnuveitendur hans færu illa út úr matinu en enn síður gat hann hugsað sér, að sá kaupandi, sem myndi fá fiskinn að lokum og taka við honum, færi illa út úr störfum hans eða biði einhvern skaða. Þarna reyndi hann að gæta fyllsta réttlætis í alla staði. Hann lagði mikla áherslu það, að sú framleiðsla, sem hann bar ábyrgð á, væri í sem bestu lagi og reyndi ávallt að skila henni sem bestri til útflutnings. Hann gerði sér grein fyrir því að orðstír íslenskrar sjávarvöru yrði eingöngu varinn með því að framleiða sem besta vöru og hann lagði metnað sinn í, að svo skyldi vera. Ármann var kvæntur Kristínu Óskarsdóttur og eignuðust þau 11 börn. Hún lifir mann sinn.
Ég vil að leiðarlokum þakka Ármanni fyrir góð og heilladrjúg störf í fyrirtæki okkar og bið öllum ástvinum hans blessunar í framtíðinni.
Bestu kveðjur frá starfsfólki Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja til allra ástvina Ármanns.
Sigurður Einarsson.


ARTHUR AANES
F. 3. september 1903 - D. 2. nóv. 1988
Arthur Aanes var fæddur á Sandnesi í norðanverðum Noregi 3. sept. 1903. Þá jörð sat forðum Þórólfur Kveldúlfsson. Faðir hans var járnbrautastarfsmaður, börnin þrjú og var Arthur í miðið. Á bernskuárum hans var árferði erfitt í Noregi, kom því fljótt í hans hlut að hjálpa til við öflun tekna til heimilisins, og reyndist hann drjúgur á því sviði, enda kröftugur og þrekmikill. Því meira var álagið á börnin að faðir þeirra dó, þegar Arthur var á fimmta ári. Hér gæti átt við að vitna til Hannesar Hafsteins:

Ef kaldur stormur um karlmann fer
og kinnar bítur og reynir fót,
þá finnur hann hitann í sjálfum sér
og sjálfs síns kraft til að standa mót.

Þannig líður tíminn við störf og hugðarefni fyrsta og annan áratuginn í ævi Arthurs. Þegar hann svo er kominn skammt á þriðja tuginn, nánar tiltekið árið 1925, býðst honum starf í Vestmannaeyjurn sem mótoristi á bátnum „Sæbjörgu“. Hann ákveður að taka boðinu, enda alinn upp á eyju og hafði kynnt sér meðferð véla. Arthur kann fljótt vel við starfið. Þar kynnist hann Ragnheiði dóttur hjónanna í Brautarholti. Þau giftast haustið 1929 og búa í góðu hjónabandi í þrjú ár. Þau eignast þrjú börn, tvo syni og eina dóttur. En starf húsbóndans er annasamt. Hann var mikið fjarverandi yfir sumartímann, fór þá á síld til Norðurlands eða stundar aðrar veiðar. Og þar kemur að þau Ragnheiður og Arthur slíta samvistum. Nokkru seinna kynnist Arthur Katrínu Gunnarsdóttur frá Hólmum í Landeyjum sem er kennari að mennt. Þau giftast árið 1935 og búa í Vestmannaeyjum næsta áratuginn, en þá taka þau sig upp og flytja til Reykjavíkur. Arthur stundaði sjómennsku öll stríðsárin af miklum dugnaði og farnaðist vel. Flest þau ár mun hafa verið lítið um frí frá störfum.
Þau Arthur og Katrín kaupa sér hús við Efstasund í Reykjavík og búa þar alla tíð síðan. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, tvær dætur og einn son. Við búsetuskiptin hættir Arthur sjósókn og gerist starfsmaður í vélsmiðjunni Héðni. Þótt hann væri vanur að umgangast vélar, skorti hann sveinsprófin í vélsmíði, en þannig var einnig um marga aðra, sem stundað höfðu þessi störf um langan tíma. Hófst nú Arthur handa og fór í Iðnskólann. Kom þá í minn hlut á þeim árum að kenna honum og fleirum slíkum bókleg fög. Gekk honum námið vel, og hlaut hann meistararéttindi.
Ég hafði áður kynnst Arthur í Vestmannaeyjum, þar sem við vorum nágrannar. Frá honum stafaði dugnaður og ferskleiki sem hreif mann. Hann var glaður að jafnaði, þó að undirtónninn væri yfirvegaður, enda hafði hann kynnst harðræði og erfiðleikum strax á bernsku- og æskuskeiði. Nú atvikaðist það svo hér í Reykjavík, að við Arthur verðum aftur nágrannar. Hittumst við oft og hafði Arthur alltaf margt að segja. Naut hann lífsins á ýmsan hátt. Þegar svo aldurinn fór að segja til sín, tók hann sér fyrir hendur að bera út Morgunblaðið í hverfi sínu. Þegar hann er kominn fast að áttræðu, er honum ráðlagt að fara á sjúkrahús til skoðunar. Telja þá Morgunblaðsmenn að rétt sé að fá nýjan mann til útburðar, en það vill Arthur ekki, heldur aðeins til afleysinga. Skömmu eftir áttræðisafmælið byrjar hann svo starfið að nýju, því hann vildi finna „hitann í sjálfum sér og sjálfs síns kraft til að standa mót“.
En þar kom, er Arthur náði 85 ára aldri að lífskeiðið var á þrotum. Starfssamur maður hefur nú lokið ævi sinni með sóma. Hann var góður sonur landanna beggja, Noregs og Íslands.
Arthur Aanes taldi Ísland hafa markað sér heilladrjúg spor. Landið væri gjöfult en viðkvæmt, svo gæta yrði hófs. Látum þá skoðun hans verða okkur heimamönnum fasta í minni. Við skulum umgangast góða hluti með gætni.
Aðalsteinn Jóhannsson


EINAR SÆVAR PÁLSSON
F. 17. október 1941 - D. 6. mars 1989
Það er fagurt í Eyjum þegar vorar vel, fjöll og sker eru þakin lífi, af hæðum og tindum blasir við augum fögur og tignarleg sýn gróðursælla úteyjanna, sem umlykja þessa perlu Atlantshafsins. Í fjarska er landsýn sem hugur fyllist lotningu fyrir og bátar og skip sem vagga sér á öldum hafsins og flytja björg í bú eru æðar þessa fólks, sem hér lifir og hefur lifað frá upphafi byggðar, hér var því auðvelt að festa rætur. Lífið við sjávarsíðuna var ævintýri líkast, það hlaut því öll umræða að snúast um fiskveiðar sem veitti okkur lifibrauð og öll okkar lífsafkoma byggist á. Börn sjómanna þroskuðust með þá trú að arðnýta þessa auðlind þegar þeirra tími kæmi og eitt af þeim var Einar, bróðir minn. Hann fæddist hinn 17. október 1941 í Héðinshöfða við Hásteinsveg. Foreldrar okkar voru þau hjónin Þuríður Guðmundsdóttir frá Stokkseyri og Páll Jóhannes Guðmundsson frá Fáskrúðsfirði, sem látin eru bæði. Þegar í æsku var ljóst hvert hugur Einars stefndi, teikningar frá liðnum dögum bera vott um það. Bryggjur og fjara voru staðir sem auðvelt var að finna sér yndi, hver dagur var öðrum fremri, það voru engin dagheimili sem heftu frelsið og svona fannst okkur lífið eiga að vera, áhyggjulaust og indælt, og átti ekki að vera öðruvísi. Með hóp barna er oft erfitt fyrir foreldra að hafa hemil á ferðum þeirra, en niðri við sjó voru staðir þar sem auðvelt var að finna Einar, ef leita þurfti hans. Stundum var árabátur tekinn traustataki og róið um höfnina og farið um borð í færeyskar sem hér voru iðulega. Á kvöldin var kannski farið með handvagn á bryggjuna og fenginn fiskur og svo var keyrt eftir endilöngum Hásteinsvegi og aflinn seldur. Einhvern tímann var sagt að þetta hefði verið fyrsti vottur útgerðarsögu hans. En þessir dagar og ár báru okkur hratt með lífsins straumi og brátt voru hinir björtu bernskudagar að baki og í þessari fögru veröld var komið að því að Einar fermdist. Og einn dag um vorið þegar við vorum að veiða murtu undir trébryggju í Friðarhöfn sagði hann mér að sig langaði á síld þá um sumarið. Svo réð hann sig á m.b. Vonina sem hélt norður til síldveiða, skipstjóri var Guðmundur Vigfússon frá Holti, framsýnn og athugull maður og naut Einar ríkulega reynslu sinnar með honum. Öll sín unglingsár reri hann svo sumar- og vetrarvertíðir með þekktum skipstjórum sem mátu mikils harðfylgni hans við þau störf, þau veittu honum ómælda ánægju og naut hann þess vel. Hafið var hans starfsvettvangur, þetta var hans líf og yndi. í hópi vina sinna gladdist hann með guðaveigum á góðum stundum. Hann var dulur að eðlisfari en geislandi kraftur og kynngimögnuð orka fékk útrás ef þurfti við. Þá kom upp samúðin með þeim sem minna máttu sín og þá veitti hann á báða bóga, hjá honum voru peningar til að gleðjast með, ekki til að hnjóta um. Allir voru jafn réttháir undir sólinni og enginn ætti að þurfa að líða fyrir vanmátt sinn. Með slíkt hugarfar léði hann öllu því góða og jákvæða liðsemd sína og á því er enginn efi að það er sómi hverrar þjóðar að eiga slíka menn í þjónustu sinni, sem meta það á jákvæðan og raunsæjan hátt þegar brestur í stoðum mannlífsins og hann fyllti þann bikar samúðarinnar ríkulega og veitti vel. Því missti hann aldrei sjónar af því sem er forsenda þess er gefur lífinu gildi, að sjá hamingjuna blómstra í kringum sig og sjá gleðileiftrin ljóma í andlitum þeirra sem hann hafði rétt hjálparhönd. Þessar myndir sýna vel hvern mann Einar hafði að geyma, hjálpsemi hans var einstök og ævinlega sjálfsögð. Með þessu hugarfari fetaði hann lífsleiðina, trúr sínum heimaslóðum og vildi hvergi annars staðar vera. Rætur hans stóðu dýpst í því samfélagi sem við ólumst upp í. Hér eignaðist hann vini sem sumir hverjir létu ekki fenna í þau spor sem hann skildi eftir og sýndu honum tryggð við sjúkrabeð hans, eftir að umskipti höfðu orðið á heilsu hans og fjarlægar raddir bergmáluðu enn í minningunni.
Hann ætlaði sér að verða skipstjóri og hann átti sér draum að eignast eigin bát og árin liðu með lífsins straumi. Haustið 1971 varð þessi draumur að veruleika. Þá keypti hann ásamt mági sínum, Henry, vélbát frá Reykjavík af Einari Sigurðssyni, nefndum ríka, og skírði bátinn eftir hring Óðins, Draupni, sem fékk einkennisstafina VE 550. En á örlagatímum Eyjanna árið 1973 keypti hann hlut meðeiganda síns ásamt bræðrum sínum, Má og Guðmundi, og skiptu þeir þannig með sér verkum að Einar var skipstjóri, Már vélstjóri og Guðmundur stýrimaður. Skemmtilegir tímar runnu upp. Þeir urðu eigin herrar og ekki öðrum háðir. Og á þeim bát stunduðu þeir útgerð sumur og vetur fram til ársins 1975, þá seldu þeir hann og keyptu sér annan stærri vestan frá Stykkishólmi sem þeir eiga enn í dag og ber sömu einkennisstafi. Þar var á miðju sumri er þeir sigldu honum heim til Eyja og Heimaey heilsaði í þeim búningi sem hún fegurst getur orðið. Þeir voru einskipa á sjó því það var Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sólin stráði gullnu letri sínu á hafið blátt, græn og blómgróin björgin voru iðandi af lífi og yfir Heimaey var sem geislabaugur í lognværu síðdeginu.
Aldrei höfðum við verið eins hamingjusamir og þegar við renndum inn í höfn, sögðu þeir bræður er við hittumst á bryggjunni, en heima beið móðir okkar vonglöð. Skammt er á milli gleði og sorgar, því skyndilega stendur sóknarpresturinn heima á gólfi í Pétursey og synirnir ekki komnir heim, og sagði henni frá láti dóttursonar síns, sem látist hafði á sviplegan hátt, þá þyrmdi yfir, en með jákvæðu og upplífgandi hugarfari vermdi hún andrúmsloftið á ný og gerði þennan dag ógleymanlegan.
Í útgerð skiptast á skin og skúrir og vissulega koma fyrir erfiðir tímar þegar óhöpp steðja að, en þá er sigrast á þeim með þrautseigju og þolinmæði og ekki gefist upp þó á móti blási, upp styttir öll él um síðir. Einar vissi það og hann gnæfði yfir þegar hann sagði: við „reddum“ þessu strákar, og það varð að lokum með ómældri vinnu þeirra bræðra. Milli vina stóð ekki styrr, allir voru jafningjar hvort sem siglt var um sæinn eða setið heima í stofu, engin stéttaskipting, sem gert hefði umræður allar erfiðari. Ein af hans lífsins gjöfum var léttlyndi, grín og gaman þegar slegið var á létta strengi var hann hrókur alls fagnaðar og lífið var í æðra veldi. Þegar hans góðlátlega grín hljómaði um stofuna voru veikindi svo framandi og dauðinn ekki nálægur, en við höfðum þá trú að við myndum aldrei deyja að eilífu, okkar biðu önnur heimkynni, bak við luktar dyr þar sem sálirnar yrðu auðgaðar visku og kærleika. En það setti að okkur sáran trega er í ágústmánuði s.l. kom í ljós að Einar var alvarlega veikur og var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Þar kom í ljós að læknavísindin höfðu ekki yfir að ráða þeim mætti er tryggt gæti bata. Því kom hann heim aftur með trú sína á mátt sinn og megin, breytt mataræði, huldar vættir, og að neita sér um allt heilsuspillandi, gæti sigrað sjúkdóminn og hann varð vonbetri um framtíðina. Allir lögðu sitt af mörkum, systkini, vinir og ættingjar, og það var beðið og vonað. Það ætti ekki að særa neinn þótt eitt nafn væri nefnt. Þuríður Geirsdóttir, systurdóttir hans, sem allt frá upphafi veikinda hans vék aldrei frá beði hans og studdi hann á erfiðum stundum. Kvöldið fyrir andlát sitt kvaddi hann hana hinstu kveðju. Allt frá barnæsku hafði hún verið eftirlæti Einars, sem reyndist henni sem besti faðir og voru ætíð miklir kærleikar með þeim.
Fram á hinstu stund var Einar sjómaður. Þeir eru að fá tonn og tonn. sagði hann skömmu áður en hann kvaddi þessa jarðvist. Á grunnsævi kvölds flæðir gullum straumur minninga sem við eigum um hugljúfan bróður sem með hógværð sinni vakti okkur til umhugsunar um svo margt sem við nú skiljum. Og vorið er í vændum þó honum hafi ekki auðnast að sjá það líf sem hann þráði rísa úr viðjum vetrar og farið að búa sig fyrir vorvertíð, þá þykist ég fullviss að hann muni skipa sér í raðir þeirra sem sigla um eilífðarútsæ, á lendum þeirrar tilveru þar sem góðverk eru metin að verðleikum og veraldleg gæði skipta ekki máli: þar sem leikið er á hörpustrengi.
Við leiðarlok að sinni vil ég segja þetta: Mér er efst í huga þakklæti fyrir allt það góða og göfuga sem hann vék að mér og mínum og ég harma það að við skyldum ekki eiga lengri samleið, en enginn ræður sínum næturstað og kannski hefur skaparann vantað skipstjóra á humarbát.
Með virðingu,

Kristinn Viðar Pálsson


HELGI BERGVINSSON
F. 26. ágúst 1918 - D. 16. maí 1989
Helgi fæddist að Grund á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Bergvin Jóhannsson kennari og Sumarrós Magnúsdóttir.
Helgi hleypti snemma heimdraganum og stóð hugur hans fljótt til sjómennsku. 1934, þá tæpra 16 ára, ræður hann sig háseta á síldveiðibát frá Hrísey og þar með er lífsstarfið ákveðið. Hann er síðan háseti á ýmsum bátum og skipum næstu árin. 1938 kemur hann fyrst til Vestmannaeyja, og er þá háseti hjá Páli í Þingholti, en hugurinn stefndi hærra og 1941 fer hann á stýrimannanámskeið á Neskaupsstað og lýkur þaðan prófi. Í Helgi kunni strax vel við sig hér í Eyjum, hér kynntist hann eftirlifandi konu sinni Unni Leu Sigurðardóttur, sem fædd er hér í Vestmannaeyjum 9. ágúst 1922, og á gamlársdag 1941 stigu þau saman sitt stærsta gæfuspor í lífinu, og gengu í hjónaband, stofnuðu heimili sitt hér, sem borið hefur af í glæsileik og gestrisni. Þeim Leu og Helga varð fimm barna auðið.
Strax og Helgi hafði aflað sér stýrimannsréttinda gerðist hann stýrimaður og síðan skipstjóri á bátum hér í Eyjum, hann var með Hilmi. Mugg. Skaftfellingi og með m.s. Kára í tíu ár, en 1956 lét hann, ásamt þeim Ágústi Matthíassyni og Gísla Þorsteinssyni, byggja bát í V-Þýskalandi, sem hlaut nafnið Stígandi og þar með hófst útgerðarsaga Helga. Þeir félagar keyptu síðan annan bát, Gulltopp, en hættu fljótlega samútgerð og varð Helgi einkaeigandi að Stíganda. Þann bát var hann með í ellefu ár og er óhætt að segja að þau hafi verið mesta blómaskeið á annars farsælli starfsævi. 1967 selur hann Fiskiðjunni hf. bátinn og gerist útgerðarstjóri hjá því fyrirtæki, en það átti nokkra báta á þessum árum.
Helgi sá um þennan rekstur fyrir Fiskiðjuna í fimm ár, en fer þá aftur í útgerð sjálfur og átti um tíma tvo báta, en 1980 hættir hann öllum rekstri.
Hann tók mikinn þátt í félagsmálum sjómanna og útvegsbænda hér, var um tíma í stjórn s.s. Verðandi, og lét oft að sér kveða á fundum útvegsbænda.
Helgi Bergvinsson var mikill gæfumaður í sínu einkalífi, hann var alla tíð traustur og dugmikill stjórnandi og aflamaður var hann mikill, hvað sem veiðarfærið hét og vertíðirnar 1960 og 1963 varð hann aflakóngur Eyjanna á Stíganda sínum. Undirritaður var svo lánssamur að vera stýrimaður á Stíganda hjá Helga í þrjú ár og fékk þar mjög góðan skóla, og öðlaðist að auki vináttu og tryggð þeirra hjóna alla tíð. Þá var Helgi mikill gleðimaður, og í þeim efnum, sem öðrum vel til forystu fallinn. Þegar ástæður og aðstæður leyfðu gat hann verið hrókur alls fagnaðar og hafði gaman af að lyfta glasi og taka lagið í góðra vina hópi.
Helga Bergvinssyni var margt gefið, einn hans besti kostur var, að hann var mannvinur hinn mesti. Hann var einn þeirra, sem ekkert aumt mátti sjá, hann var alltaf boðinn og búinn til þess að rétta hjálparhönd, sem minna máttu sín, enda held ég að óvini hafi hann enga eignast.
Lea mín. ég votta þér, börnum ykkar og öðrum nánum, mína dýpstu samúð, bið ykkur Guðs blessunar, og veit að þið geymið minningu um góðan eiginmann, föður og umfram allt góðan dreng.
Að síðustu kveð ég kæran vin, hafi hann þökk fyrir allt og allt. Ef til vill eigum við eftir að hittast „Við brunninn bak við hliðið“ og riíja upp það fallega lag, sem þú hélst svo mikið upp á.
Hilmar Rósmundsson


WILLUM JÖRGEN ANDERSEN
F. 30. september 1910 - D. 17. júlí 1988
Hann pabbi fæddist að Löndum hér í Eyjum. Ungur fluttist hann að Landlyst með fjölskyldu sinni. Þar bjó hann meðan foreldrar hans byggðu Sólbakkann við Hásteinsveg. Við það hús var fjölskyldan alltaf kennd. Foreldrar pabba voru Hans Peter Andersen frá Frederikssund í Danmörku og Jóhanna Guðjónsdóttir úr Landeyjunum. Afi kom til Íslands 1906 í tengslum við vélvæðingu báta. Var fyrsti viðkomustaður Austfirðir. Til Eyja kom hann 1907 og var mótoristi og síðan formaður á bátum hér. Hann var sjómaður og útgerðarmaður alla sína tíð. Afi dó 1955.
Amma fluttist til Eyja með móður sinni, Valgerði, 1903. Hún vann sem vinnukona og var send í vinnumennsku austur á land. Þar kynntist hún afa og hófu þau búskap í Mjóafirði.
Hann pabbi ólst upp við sjóinn og þau störf sem tengdust honum. Hjá honum kom ekki annað ævistarf til greina, en sjómennska. 17 ára varð hann fullgildur sjómaður. Var það um borð í Leó VE á reknetum. Fyrsta vetrarvertíðin hans var 1929, á Herjólfi VE, með Magnúsi á Sólvangi. Sama ár tók hann vélstjórnarréttindi og pungaprófið. Á næsta báti, Skógarfossi, sem afi hafði nýlega eignast, var hann mótoristi. Skipstjóri varð pabbi á Geir Goða 1933. Þann bát áttu Gunnar Ólafsson og Co. Eftir þá vertíð keypti pabbi hlut í Herjólfi VE, og hóf þar með útgerð. Næsta ár dó amma. Fengu þeir Sólbakkabræður þá hlut í Skógarfossi, í móðurarf. Þeir bræður, pabbi, Knud, Njáll og Emil, keyptu síðan allan bátinn af afa og gerðu hann út, þar til þeir seldu hann 1939. Þennan tíma var pabbi lengst af formaður á Skógarfossi. Í byrjun stríðs keyptu þeir bræður litlu Metu frá Danmörku, 35 tonna bát og 1942 kaupa þeir nýjan Skógarfoss. Á stríðsárunum fór pabbi yfir á Leó VE sem var á trollveiðum. Einnig var hann þá stýrimaður á Metunni hjá Knud bróður sínum. 1959 er Meta seld og kaupa þeir Knud og pabbi stóru Metu. Var stóra Meta síðasti báturinn sem þeir áttu. Pabbi veiktist af kransæðastíflu í kringum 1967 og hætti upp úr því að stunda sjóinn, nema eitt og eitt úthald. Þá hafði hann báta fyrir aðra á humarúthaldi, eða hljóp í skarðið ef vantaði mann. Sneri hann sér að því sem laut að útgerðinni gerðu hann út, þar til þeir seldu hann 1939. Þennan tíma var pabbi lengst af formaður á Skógarfossi. Í byrjun stríðs keyptu þeir bræður litlu Metu frá Danmörku, 35 tonna bát og 1942 kaupa þeir nýjan Skógarfoss. Á stríðsárunum fór pabbi yfir á Leó VE sem var á trollveiðum. Einnig var hann þá stýrimaður á Metunni hjá Knud bróður sínum. 1959 er Meta seld og kaupa þeir Knud og pabbi stóru Metu. Var stóra Meta síðasti báturinn sem þeir áttu. Pabbi veiktist af kransæðastíflu í kringum 1967 og hætti upp úr því að stunda sjóinn, nema eitt og eitt úthald. Þá hafði hann báta fyrir aðra á humarúthaldi, eða hljóp í skarðið ef vantaði mann. Sneri hann sér að því sem laut að útgerðinni í landi.
Uppúr 1970 selja þeir Knud útgerðina og vann pabbi eftir það við veiðarfærin hjá Emil bróður sínum og síðar hjá þeim Herði og Jóa á Andvara. 1983 fór pabbi í hjartaaðgerð til London. Í þeirri aðgerð lamaðist hann annars vegar. Kom þá vel í ljós hvern mann hann hafði að geyma. Hann gafst ekki upp heldur hafði sig á fætur og hélt áfram að fylgjast með aflabrögðum og sjómennskunni. Þar var lífið að hans mati, eina lífið sem var einhvers virði. Hann var af kynslóð sem upplifði, tók þátt í og aðlagaði sig ótrúlegum breytingum. Enda var hann alltaf duglegur að aðlaga sig að nýjum og oft mjög erfiðum aðstæðum. En hann var ekki einn. Mamma, Guðrún Ágústa Ágústsdóttir frá Kiðjabergi við Hásteinsveg, stóð við hlið hans alla tíð. Þau giftust 4. júní 1933 og voru búin að vera gift í 55 ár, þegar hann dó. Við systkinin erum 5 og eru afkomendurnir nú orðnir 39. Systkini pabba eru 7, Eva, Knud, Njáll, Emil, Guðrún, Jóhann og Valgerður. Öll eru þau búsett hér nema Eva og Jóhann sem búa í Reykjavík.
Bráðum er liðið ár frá því að hann pabbi dó. Á þeim tíma hefur komið í ljós hvað hann var stór hluti af daglegu lífi okkar. Við áttuðum okkur ekki á því á meðan hann var alltaf til staðar. Við söknuðum hans sárt, en eigum margar góðar og fallegar minningar að ylja okkur við.
Halla Júlía Andersen


GUÐLAUGUR VIGFÚSSON
F. 16. júlí 1915 - D. 27. apríl 1988
Tengdafaðir minn, Guðlaugur Vigfússon, er látinn. Með nokkrum orðum vil ég minnast hans með þakklæti og virðingu. Margs ber að minnast, margt ber einnig að þakka.
Guðlaugur var Vestmannaeyingur að ætt og uppruna. Hann fæddist 16. júlí 1915 í Holti í Vestmannaeyjum, sonur Vigfúsar Jónssonar útgerðarmanns og Guðleifar Guðmundsdóttur. Árið 1943 hóf Guðlaugur útgerð ásamt bræðrum sínum þeim Guðmundi og Jóni. Guðlaugur festi ráð sitt 6. nóvember 1943 og átti Jóhönnu K. Kristjánsdóttur frá Flatey á Skjálfanda. Þau hjón eignuðust fimm börn. Þau eru: Vigfús, giftur Rósu Sigurjónsdóttur, Guðleif, gift Páli H. Guðmundssyni, Sigríður, gift Gústav Einarssyni, Kristján, giftur Ásgerði Halldórsdóttur, Guðrún, sambýlismaður Helgi Gnnnarsson.
Árið 1960 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Guðlaugur gerðist netagerðamaður hjá Reykdal Jónssyni. Guðlaugur var hæglátur og hlýr maður, og bar hag fjölskyldu sinnar ávallt f'yrir brjósti. Hann fylgdist alltaf af áhuga með því sem fjölskvldan gerði og hafði ætíð tíma til að hlusta og liðsinna eftir bestu getu. Ófá handtnkin hjálpaði hann börnum sínum í gegnum árin við að koma sér upp eigin húsnæði. Hann var mjög verklaginn og var sannkallaður þúsundþjalasmiður.
Guðlaugur vann hjá Hampiðjunni er hann fékk hjartaáfall í febrúar 1988. Hann náði sér nokkuð vel af þessu áfalli, enda hraustur maður og var aldrei vanur að kveinka sér. Hann veiktist síðan aftur í janúar sl. og lagðist inn á Landakotsspítala í febrúar sl. og átti þaðan ekki afturkvæmt.
Ég vil þakka tengdaföður mínum (eða Dadda eins og hann var alltaf kallaður) samfylgdina og bið Guð að blessa og styrkja tengdamóður mína á þessum erfiðu stundum.
Ásgerður Halldórsdóttir


MAGNÚS JÓNSSON
F. 7. ágúst 1909 - D. 12. desember 1988
Magnús var fæddur að Seljavöllum, Austur-Eyjafjöllum, sonur Jóns Jónssonar bónda þar og konu hans Sigríðar Magnúsdóttur. Hann var þriðji í röðinni af sjö systkinum og átti enn frernur fimm hálfsystkini. Hann ólst upp á Seljavöllum.
Magnús bvrjaði ungur að stunda sjó, aflaði sér vélstjórnarréttinda og var lengi velstjóri til sjós hér í Eyjum. En síðustu þrjátíu starfsárin var hann vélstjóri í Fiskiðjunni.
Árið 1945 kvæntist hann Lilju Sigurðardóttur frá Pétursborg í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru Sigríður, gift Braga Steingrímssyni, Arngrímur, kvæntur Þóru H. Egilsdóttur og Sigurður sem er látinn. Lilja átti áður Guðnýju Steinsdóttur sem gift er Richard Sighvatssyni og ólst hún upp með þeim systkinunum.
Síðasta æviskeiðið bjó Magnús í íbúðakverfi aldraðra að Eyjahrauni 7, allt þar til hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja í desember s.l.


PÁLL INGIBERGSSON
F. 6. maí 1913 - D. 15. janúar 1988
Páll var fæddur í Hjálmholti í Vestmannaeyjum 6. maí 1913 og þar ólst hann upp. Foreldrar hans voru Guðjónía Pálsdóttir og Ingibergur Hannesson. Systkini hans voru Sigríður húsfreyja, Júlíus fyrrverandi útgerðarmaður og Hannes íþróttakennari, öll í Reykjavík, og Ólafur sjómaður í Keflavík.
Eftir fermingu byrjaði Páll sjómennsku á Blika hjá þekktum sjósóknara, Sigurði Ingimundarsyni, nágranna sínum í Skjaldbreið. Hann tók skipstjórapróf 1934, varð skipstjóri 1935 á Kristbjörgu EA og síðar á Skíðblaðni og fleiri bátum fyrir Gunnar Ólafsson í Vík og Jón Ólafsson á Hólmi.
Árið 1946 keypti hann, ásamt Júlíusi bróður sínum, nýsmíðaðan 55 tonna bát frá Svíþjóð, sem þeir gáfu nafnið Reynir VE 15. Páll var með bátinn og Júlíus vélstjóri. Þennan bát áttu þeir til ársloka 1957, þá var hann seldur til Reykjavíkur. Í ársbyrjun 1958 sóttu þeir bræður 78 tonna bát, sem þeir höfðu látið smíða í Strandby í Danmörku. Hann hét líka Reynir VE 15.
Þennan bát áttu þeir til ársloka 1966 - þá hættu þeir útgerð og seldu bátinn til Þorlákshafnar.
Útgerð þeirra bræðra var einstaklega vel heppnuð. Allur rekstur hennar var til mikillar fyrirmyndar. Páll var mikill aflamaður, bæði á vetrarvertíðum og síldveiðum fvrir norðan og austan. Vetrarvertíðum saman var hann einn af fimm efstu aflaskipstjórum á línu og netum, þar sem gerðir voru út tæplega 100 bátar. Á síldveiðum var hann alltaf í fremstu röð - hvort sem veitt var með gamla laginu, þar sem kastað var á vaðandi síld, og síðan fær astic-maður eftir að sú tækni kom til sögunnar, sem hann var fljótur að tileinka sér. Það var stórkostlegt að fylgjast með honum við veiðarnar. Athyglin og áhuginn alveg einstakur. Allt var samt fumlaust og ákveðið.
Árum saman voru sömu mennirnir hjá þeim bræðrum. Karl Jóhannsson í Höfðahúsi var matsveinn næstum alla útgerðarsöguna í rúm tuttugu ár. Ármann Höskuldsson, Engilbert Sigurðsson og Friðgeir Guðmundsson voru þarna til fjölda ára ásamt fleirum. Undirritaður var hjá þeim nokkur ár, bæði á gamla og nýja bátnum, háseti og stýrimaður. Þegar nýi báturinn kom 1958 var hann glæsilegasti fiskibáturinn í Vestmannaeyjum og sá fyrsti með radar og fleira var þar nýtt, sem ekki hafði sést áður.
Sannarlega á ég góðar minningar frá þeim árum. Þarna var alltaf góður andi um borð. Þeir bræður voru miklir félagar og vinir áhafnarinnar. Alltaf allt í einstaklega góðu lagi. Páll bjó alla hluti vel í hendur sér og útgerðin var góð og ekki brást honum aflinn. Í vélinni var allt eins og best var á kosið hjá Júlla. Milli vertíða unnu þeir sjálfir við gerð veiðarfæra, og viðhald sáu þeir vel um og unnu vel að. Bátarnir voru líka alltaf vel útlítandi ofandekks og neðan.
í vertíðarlok var alltaf mikil lokaveisla til skiptis heima hjá þeim bræðrum, þar sem skipverjum og eiginkonum þeirra var veitt vel í mat og drykk og svo var farið á ball. Það gat verið oftar ef tilefni var til og stóð þá ekki á þeim útgerðarmönnum að vera með - svona gekk það til á Reyni.
Í miklum afla var Páll kröfuharður um mikla vinnu og snör handtök. Þetta var þó aldrei erfitt skipsrúm. öll stjórn var svo góð og mannskapurinn samtaka. Sjálfum sér hlífði hann ekki. Stóð mikið þegar þess þurfti með - duglegur og athugull. Hann hafði sterka og góða rödd - var ákveðinn og mjög fær skipstjóri. Hann var skoðanafastur, það fór enginn í grafgötur með hugsjónir hans. Viðræðugóður og alls enginn kali þó menn væru ekki sammála og töluvert væri deilt. Vel gefinn og greindur maður.
Ég tel mig mikinn lánsmann að hafa verið undir hans stjórn. Ég lærði mikið af honum, sem oft hefur komið sér vel. Það hefur alltaf verið einstaklega gott að hugsa til hans. Ekkert nema góðar minningar koma þá fram.
Þegar seinni báturinn var seldur fluttu þeir bræður til Reykjavíkur. Páll var fyrstu sumrin skipstjóri með bát úr Hafnarfirði og farnaðist vel sem fyrr. Þegar hann hætti hafði hann verið sjómaður í 45 ár, þar af skipstjóri í 37 ár. Hann keypti þá lítið fyrirtæki, Selloplast, sem framleiðir sellofonpoka og vann hann við það.
4. janúar 1941 var brúðkaupsdagur hans og Marínar Guðjónsdóttur frá Siglufirði. Það var báðum mikið gæfuspor. Heimili þeirra var fyrst í Sætúni og síðar á Ásavegi 27. Þarna var einstaklega hlýlegt og glæsilegt. Þau voru vel samhent um það sem annað. Skipverjarnir og eiginkonur þeirra komu þarna mikið því Páll borgaði þar laun þeirra. Var þá oft setið lengi yfir góðgerðum og spjalli. Þar var alltaf gott að koma. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en þau tóku kjörson, sem heitir Gunnar Reynir. Hann er kvæntur Sigríði Björnsdóttur úr Kópavogi.
Við Erla sendum Marín, Reyni og hans fjölskvldu dýpstu samúðarkveðjur og biðjum Guð að heiðra minningu Páls lngibergssonar.
Friðrik Ásmundsson.