Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Þegar Már VE 178 fórst

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þegar Már VE 178 fórst 12. febrúar 1920


ÁRIÐ 1908 fluttust alfarið til Vestmannaeyja þrír Landeyingar. Sá fjórði kom einnig með þeim og var hér viðloðandi að meira eða minna leyti um árabil. Einnig kom með þeim Rangvellingur, ættaður úr Landeyjum. Ekki komu þessir menn tómhentir, því að þeir komu með vélbát með sér, sem þeir höfðu pantað frá Danmörku, og fengu þeir bátinn upp með milliferðaskipi til Reykjavíkur. Sjötti bátseigandinn var í Vestmannaeyjum, og var það Gísli Lárusson í Stakagerði. Menn þessir voru: Sigurður Oddsson á Heiði á Rangárvöllum, Stefán Björnsson, Bryggjum; Tyrfingur Björnsson, Bryggjum; Ísleifur Sigurðsson, Litlu Hildisey og Bernódus Sigurðsson, Kirkjulandshjáleigu. Var Bernódus ráðinn formaður á bátinn. Bát þennan skírðu þeir Björgvin, og var hann 8 tonn að stærð, súðbyrtur með 10 hestafla Dan-vél, tveggja strokka. Það mátti segja, að þarna kæmi mikið mannval úr Landeyjum, eins og oft á þessum árum. Nú líður að vertíð 1909. Guðmundur Ólafsson, Lágafelli, Landeyjum, var ráðinn vélamaður, en hásetar ætluðu að verða Sigurður Oddsson, Stefán Björnsson, Sigurður Sæmundsson, Bryggjum og Ísleifur Sigurðsson, Hildisey. Byrjar Bernódus formaður róðra með janúarbyrjun. Gengu aflabrögðin vel, svo að Björgvin var með aflahæstu bátum um lokin. Eyjamenn voru fljótir að sjá, að þarna myndu vera menn vel færir til forystu. Það voru þeir Sigurður Oddsson og Stefán Björnsson. Sigurður ræðst formaður á Kapitólu, en Stefán á Emmanúel. Tapar Bernódus þarna af tveim hásetum, en svo varð það að vera. Hér skal til frekari fróðleiks getið, að þeir Bernódus og Stefán höfðu aldrei róið frá Vestmannaeyjum fyrr. Höfðu þeir verið á skútu frá Reykjavík óslitið þar til þeir fluttu til Eyja. Á fyrsta ári sínu í Vestmannaeyjum byggðu þeir félagar íbúðarhús, sem enn í dag setja svip sinn á bæinn. Stefán og Sigurður byggðu saman húsið Skuld, Bernódus byggði Vestra-Stakagerði og Ísleifur Birtingarholt. Urðu þeir brátt kunnir athafnamenn og þekktir fyrir atgerfi og hreysti. Keypti Sigurður 10 tonna bát, sem Baldur hét, árið 1911, og seldi sinn hlut í Björgvin, en Stefán átti sinn hlut áfram, en var formaður á Höfrungi. Ísleifur Sigurðsson var alltaf háseti hjá Bernódusi, meðan hann átti Björgvin. Af Bernódusi er það að segja, að hann heldur áfram formennsku á Björgvin hverja vertíð af annarri og bregzt honum aldrei afli. Er hann alltaf með aflahæstu bátum, og sækir Bernódus manna stífast sjóinn.
Að endaðri vertíð 1914 hefur Bernódus haft formennsku á Björgvin 6 vertíðir og hefur alla tíð verið toppmaður að aflabrögðum. Ákveður hann að fá sér stærri bát og slíta félagsskapinn. Vill hann eiga stærri bátshlut en áður og ákveður að eiga bátinn við annan mann. Hafði hann ákveðið Gísla Lárusson í félag með sér. Stefán Björnsson og Ísleifur kaupa Björgvin og laga hann til og endurbæta. Lætur Bernódus nú byggja nýjan bát um vorið 1914, og skyldi hann vera um 11 tonn. Fær hann Guðmund Jónsson á Háeyri til að sjá um smíðina, og skyldi hann vera yfirsmiður. Var báturinn byggður í Tangafjöru, og gekk allt að óskum, og var báturinn tilbúinn um haustið. Lét Bernódus í hann 12-15 hestafla Alfavél, og var það önnur sú fyrsta, sem kom til Eyja, hin var sett í m/b Trausta. Báturinn var skírður Már, og var þetta einn stærsti báturinn á þeim tíma og jafnframt vel byggður.

Már VE 178.

Upp úr áramótum byrjar Bernódus róðra. Gengu aflabrögðin að venju vel, og í vertíðarlok 1919, þegar hann hefur haft formennsku á Má 5 vertíðir, má segja, að Bernódus væri orðinn auðmaður á íslenzkan mælikvarða. Lagði hann hér manna mest til björgunarmála, þegar Þór var keyptur, einnig keypti hann stóran hlut í togaranum Draupni. Var Bernódus ósínkur á fé og sagður mjög örlátur við þá, sem voru hjálpar þurfi.
Þegar líður að vertíð 1920, ákveður Bernódus að fá sér stærri vél í Má, og varð það úr, að hann kaupir af Gísla Magnússyni 3ja ára gamla 22ja hestafla Alfa-vél, úr m/b Óskari. Hafði Már nú góðan gang.

Bernódus Sigurðsson formaður
Gísli Þórðarson, Dal.

Theódór Friðriksson rithöfundur var hjá Gísla Lárussyni í Stakagerði þennan vetur og lýsir í bók sinni „Úr verum“ dvöl sinni þar og segir m.a., að hann hafi ekki lengi verið í Stakagerði með sjómönnum af Má, þegar hann fór að verða var við ýmislegt, sem honum þótti ekki boða gott.
Með nýári árið 1920 byrjar Bernódus róðra. Lýsir Theódór því svo, að Bernódus fiski svo mikið, að hann segist ekki ráða við neitt og heldur, að fiskaðgerðin geri út af við sig. Líður þannig tíminn, og er kominn 11. febrúar, - þá er landlega.

Guðmundur Sigurðsson vélamaður
Finnur Guðmundsson Pétursey

Þórður Gíslason netamaður er þá vertíðarmaður hjá Magnúsi á Felli og gengur umrætt kvöld vestur að Sandfelli. Er Guðjón heima og er að tala við sjálfan sig. Var hann eitthvað við öl og segir, að þeir fari í sjóinn á morgun. Ingveldur, kona hans, biður Guðjón að láta af þessu tali. Þetta verður nú svo, segir gamli maðurinn. Sjálfur hafði hann formennsku á Ingólfi þessa vertíð. Heldur nú Þórður aftur heim.
Þessa nótt er stillt veður, og fara allir bátar á sjó og dreifa sér á miðin. Margir halda austur fyrir eyjar og út á Landsuður, og nokkrir fara suður fyrir Sker.
Bernódus kallar menn sína klukkan hálffjögur um nóttina. Segir Theódór í bók sinni, að aldrei hafi hann kallað eins harkalega og þá. Um morguninn 12. febrúar er hægt veður, aðeins andvari af austri.
Þórður Gíslason, sem áður er minnzt á, fór um morguninn niður í beitingaskúr að beita. Eftir skamma stund lítur hann út um dyrnar á skúrnum og sér þá, að Ingólfur er kominn að. Er þá kominn strekkingsvindur af austri. Hugsar hann með sér, að hann skuli tala við Guðjón á Sandfelli og víkur sér niður í bát til hans og segir: „Það ætlar sem betur fer ekki að rætast, sem þú sagðir í gærkveldi“. Svarar Guðjón og segir, að dagurinn sé ekki enn liðinn og muni allt fara eftir sem hann sagði.
Líður nú tíminn, og þegar kemur fram á daginn, er komið vont veður. Eru bátarnir sem óðast að koma að, og bar öllum saman um, að þetta væri eitt með verstu veðrum. Margir bátar voru fyrir sunnan Sker þennan dag, þar á meðal Goðafoss, formaður Árni Þórarinsson. Keyrði hann til m/b Más og hafði tal af þeim Bernódusi og mönnum hans. Var þetta eftir miðjan dag, og var þá allt í bezta lagi hjá þeim, en veðrið versnaði mikið eftir þetta.
Allir bátar náðu landi þetta kvöld, nema Már, og töldu allir, sem á sjó voru þennan dag, að ekki þyrfti að vonast eftir honum, er hann var ókominn um miðnætti, enda afspyrnuveður þá. Varð þetta raun á, en öllum voru ókunn afdrif Más. Var gizkað á, að hann hefði fengið brotsjó, sem hefði kæft hann niður. En öllum sem á sjó voru, kom saman um, að óhreppandi sjóir hafi verið tíðir.
Eftir slys þetta hvíldi mikill óhugur yfir Vestmannaeyjabæ, því að þarna fór einhver mesti afla- og dugnaðarmaður byggðarlagsins og með honum úrvals sjómenn.
Með m/b Má fórust:
Bernódus Sigurðsson. Hann var fæddur í Kirkjulandshjáleigu í Landeyjum 20. apríl 1884. Voru foreldrar hans Sigurður Þorbjörnsson bóndi og formaður þar og kona hans Guðrún Jónsdóttir. Ólst Bernódus upp ásamt stórum systkinahópi með móður sinni, eftir að faðir hans drukknaði við Landeyjasand.
Bernódus byrjaði ungur sjómennsku á skútum frá Faxaflóa og var á þeim margar vetrarvertíðir, þar til hann keypti vélbátinn Björgvin, sem áður greinir og fluttist alfarið til Vestmannaeyja. Kona Bernódusar var Jóhanna Þórðardóttir frá Ámundakoti í Fljótshlíð, síðar á Kirkjulandi, systir Ágústs á Aðalbóli, Magnúsar í Dal og þeirra systkina. Bræður Bernódusar voru Kári í Presthúsum og Sigurður á Hæli.
Guðmundur Sigurðsson. Hann var fæddur að Syðstu-Grund undir Eyjafjöllum 12. ágúst 1893. Voru foreldrar hans Sigurður Eyjólfsson bóndi þar og kona hans Sigurbjörg Guðmundsdóttir. Dvaldist hann með foreldrum sínum til dauðadags. Upp úr fermingu fór Guðmundur til sjóróðra í Vestmannaeyjum, eins og fjöldinn af Eyfellingum í þann tíð. Fór hann á útveg Gísla Lárussonar; fyrst á Frí og síðar á Má og var orðinn vélamaður á þeim báti. Guðmundur var harðsnúinn maður, allstaðar eftirsóttur og ávallt með fyrstu mönnum hvort sem var á sjó eða landi. Meðal bræðra Guðmundar voru Eyjólfur í Laugardal og Sigurbjörn, sem nú býr að Brimhólabraut hér í bæ.
Gísli Þórðarson Dal. Hann var fæddur að Ámundakoti í Fljótshlíð 10. júlí 1896. Hann var mágur Bernódusar, og voru foreldrar hans Þórður Loftsson og kona hans Kristólína Gísladóttir, sem þar bjuggu, en síðar fluttu að Kirkjulandshjáleigu í Landeyjum. Eftir lát föður síns tók Magnús bróðir þeirra systkina við allri umsjón heimilisins, og flutti fjölskyldan skömmu síðar til Vestmannaeyja; mun Gísli þá hafa verið 7 ára. Byrjaði hann fljótt að vinna við útveg Magnúsar bróður síns og var beitumaður hjá honum. Eftir að Magnús fórst 14. janúar 1915, fór Gísli til Bernódusar á Má. Gísli þótti hinn mesti dugnaðarmaður.
Finnur Guðmundsson. Hann var frá Pétursey í Mýrdal.

Jón Sigurðsson

Það var frábær vertíð og kosningar 1970.