Þórður H. Gíslason (netagerðarmeistari)
Þórður Halldór Gíslason fæddist 20. júní 1898 og lést 17. mars 1993. Hann var netagerðarmaður.
Eiginkona hans hét Jónína Guðjónsdóttir. Börn þeirra voru Ingveldur, Hallgrímur og Ellý.
Hann bjó á Hraunbúðum síðustu árin.
Heimildir
- gardur.is
Frekari umfjöllun
Þórður Halldór Gíslason netagerðarmeistari, meðhjálpari fæddist 20. júní 1898 á Sjávargötu á Eyrarbakka og lést 17. mars 1993.
Foreldrar hans voru Gísli Karelsson sjómaður, f. 25. nóvember 1868, drukknaði á Stokkseyrarsundi 2. apríl 1908, og kona hans Jónína Margrét Þórðardóttir húsfreyja, f. 21. maí 1870, d. 4. ágúst 1951.
Bróðir Þórðar var
1. Ingibergur Gíslason á Sandfelli, sjómaður, f. 16. janúar 1897, d. 15. janúar 1987.
Þórður var með foreldrum sínum á Sjávargötu 1901. Faðir hans drukknaði, er Þórður var á tíunda árinu. Hann fór að Stokkalæk á Rangárvöllum 1910, var vikapiltur þar hjá Agli Jónssyni og Þuríði Steinsdóttur, flutti þaðan til Eyja 1916.
Hann var landmaður hjá Guðjóni á Sandfelli á vetrarvertíðum, en reri á sumrum, var leigjandi í Hjálmholti 1920.
Þórður lærði netagerð og fékk meistararéttindi.
Þeir Magnús Kristleifur Magnússon stofnuðu Netagerð Vestmannaeyja og ráku um árabil. Þeir riðu fyrstu snurvoðina á Íslandi. Hallgrímur sonur Þórðar og Guðjón sonur Magnúsar tóku síðan við fyrirtækinu.
Þórður vann síðar hjá Fiskiðjunni á annan áratug.
Meðan hjónin dvöldu í Reykjavík vann Þórður við veiðarfæragerð hjá Marco í Reykjavík.
Þórður var meðhjálpari í Landakirkju um árabil.
Hann var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn um skeið.
Þau Jónína giftu sig 1921, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Vestmannabraut 76 1927, á Búrfelli við Hásteinsveg 12 1930, á Fagradal við Bárustíg 16B 1940, voru á Urðavegi 42 1945, bjuggu þar við Gosið 1973. Í ellefu ár eftir eldgosið 1973 bjuggu þau hjón hjá dóttur sinni, Kristínu, og tengdasyni, Einari Norðfjörð, í Reykjavík, en þá aftur í Eyjum.
Þórður dvaldi síðast í Hraunbúðum.
Hann lést 1993 og Jónína 1995.
I. Kona Þórðar, (19. október 1921), var Jónína Guðjónsdóttir frá Sandfelli, húsfreyja, f. 21. mars 1903 að Steinum u. Eyjafjöllum, d. 15. apríl 1995.
Börn þeirra:
1. Ingveldur Jónína Þórðardóttir húsfreyja, f. 1. október 1922 á Dyrhólum, d. 2. febrúar 2012. Maður hennar var Rútur Snorrason.
2. Hallgrímur Þórðarson netagerðarmeistari, f. 7. febrúar 1926 á Grímsstöðum, d. 8. október 2013. Kona hans var Guðbjörg Einarsdóttir.
3. Ellý Björg Þórðardóttir húsfreyja, skrifstofumaður, matráðskona, f. 13. apríl 1936 á Bárustíg 18, d. 24. desember 2003. Fyrri maður hennar Hreinn Svavarsson, síðari maður hennar Tryggvi Maríasson.
4. Kristín Karítas Þórðardóttir húsfreyja, talsímavörður, f. 18. mars 1941 í Fagradal, d. 20. desember 2000. Maður hennar Einar Norðfjörð.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið 1993.
- Prestþjónustubækur.
- Valdaætt. Niðjatal Valda Ketilssonar bónda á Sauðhúsvöllum undir Eyjafjöllum og k.h. Katrínar Þórðardóttur. Magnea Árnadóttir. Handrit 1992.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.