Ritverk Árna Árnasonar/Frá Tyrkjaráni og Herfylkingu í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Frá Tyrkjaráni og Herfylkingu í Vestmannaeyjum


Í sögu Vestmannaeyja mun ársins 1627 ávallt verða minnzt með hryllingi. Finnast þess enn glögg merki meðal almennings þótt yfir 300 ár séu síðan óhugnanlegir atburðir þess árs dundu yfir Eyjarnar og önnur héruð meginlandsins. Þetta ár gerðu Tyrkir strandhögg mikið á landi hér, sem mest bitnaði á Eyjunum.
Víða í Evrópu var og ár þetta mesta óhappaár og erfiðleika. Þar áttu sum löndin í styrjöld, hinu svonefnda 30 ára stríði, og bjuggu við mestu hörmungar og erfiðleika vegna afleiðinga þess. Á höfum úti var einnig hið mesta hættusvæði. Þar var vettvangur illræmdustu sjóræningja, sem sagan getur um, svo enginn var öruggur um líf sitt og limi er hætti sér þaðan.
Í þann tíma voru Barbaríuríkin¹) á norðurströnd Afríku á sínu blómaskeiði, en þaðan voru stundaðar í stórum stíl mannaveiðar og rán, sem mikið gáfu í aðra hönd, rán, sem þjóðirnar stóðu gegn agndofa og nærri ráðalausar. Sjóræningjar frá Barbaríu voru hinir illræmdustu og gengu undir sameiginlegu nafni og nefndir Tyrkir eða jafn vel Hund-Tyrkir. Þó voru þeirra á meðal margir annarra þjóða menn, trúvillingar svonefndir. Voru það menn, er Tyrkir höfðu hertekið víða um lönd, en þeir svo yfirgefið trú sína og tekið trú, siði og venjur Barbaríumanna. Er sagt, að trúvillingar þessir hafi verið einna ofsalegastir og grimmastir í ránsferðum, píningum og morðum, hvar sem þá bar að garði, ekki hvað síst í föðurlandi sínu.
Aðal ránssvæði Tyrkja voru fyrst og fremst Miðjarðarhafið og þar nálæg lönd, en þeir brugðu sér einnig út á Atlantshafið og til landanna þar, í miklar ránsferðir víða um, meira að segja alla leið norður til Íslands.
Ekki er enn vitað með vissu, hvaðan ræningjarnir fengu þá hugmynd og ákvörðun að fara til Íslands í ránsferð, þar sem þeir voru öllum staðháttum ókunnir, en talið er að danskur maður, Paul að nafni, hafi bent tveim ræningjaforingjum á, að Ísland væri varnarlaust land, þar sem mjög auðvelt væri að ræna mönnum og fjármunum. Hitt er svo staðreynd, að um vorið 1627 útbjuggu Barbarar ránsflota til norðurhafa, en fjögur skip hans réðust til Íslandsferðar.
Saga þessi er öllum kunn og skal ég því ekki rekja hana hér að neinu verulegu leyti, ófögur saga tryllinglegra rána, morða og pyndinga brjálæðislegra villutrúarmanna, en aðeins stiklað á stóru í sögunni.
Það var 20. júní árla morguns að íbúar Grindavíkur fengu nýstárlega heimsókn í höfnina, stórt erlent skip. Það var ekki daglegur viðburður. Í Grindavíkurhöfn lá þá danska verzlunarskipið, skömmu komið með nauðsynjar til landsins frá Danmörku. Hið ókunna skip lagðist skammt frá verzlunarskipinu og sjósetti þá þegar bát með tveim mönnum, og höfðu þeir tal af þeim dönsku. Tjáðu þessir tveir, að skip þeirra væri sent af kónginum í Danmörku til hvalaveiða í norðurhöfum, en hér væru þeir komnir að fá fréttir, vatn og vistir. Menn þessir mæltu á þýzka tungu. Fannst danska skipstjóranum saga þeirra harla ósennileg og grunaði þá um græsku. Engar vistir eða fréttir fengu þeir hjá verslunarskipinu og fóru þeir yfir í skip sitt við svo búið.
Í Grindavík var þá sem annars staðar á landi hér danskur kaupmaður. Varð hann undrandi yfir heimsókn þessa stóra skips og sendi því bát frá landi með 8 mönnum til þess að fregna af skipi þessu. Ekki voru sendimenn fyrr komnir um borð í hið ókennda skip, en þeir voru allir herteknir og í bönd færðir. Þegar nú skipshöfn danska verzlunarskipsins sá, hvað orðið var, fór hún öll, að skipstjóranum undan teknum, í land og leitaði hælis hjá kaupmanninum. Hann sendi þá bát með tveim mönnum, er áttu að sækja skipstjóra verzlunarskipsins.
En þá hófu ræningjarnir störf sín. Þeir sjósettu stóran bát með 30 vopnaða menn, sem fóru í danska verzlunarskipið og hertóku það og skipstjóra þess ásamt sendimönnum tveim. Af þessum aðgerðum var ljóst að hverju stefndi. Þegar þeir dönsku í landi sáu hvað verða vildi, forðuðu þeir sér, ásamt kaupmanninum, skylduliði hans og öðru landsfólki í örugg fylgsni á landi uppi.
Ræningjarnir hófu síðan strandhögg. Fóru þeir í land og rændu verzlunina og komust svo að býlinu Járngerðarstöðum, þar sem þeir hertóku fólk, en drápu annað.
Fregnin um komu ræningjanna hafði borizt fljótt í nágrennið, og gat fólk þess vegna flúið á land upp í örugg fylgsni. Mannrán urðu því færri þarna en ella hefði orðið. Þó náðu ræningjarnir þarna 12 Íslendingum og líklega 3 dönskum mönnum. Þegar svo ræningjarnir voru að fara frá Grindavík, bar þarna nálægt danskt verzlunarskip. Það ginntu þeir til sín með því að draga upp danska fánann og hertóku það síðan með öllu saman.
Í þann tíma sat á Bessastöðum Holgeir Rosenkranz höfuðsmaður, all kunnur frá sögu þessari. Er honum barst fregnin um ránin í Grindavík, boðaði hann þegar til sín dönsku verzlunarskipin úr Keflavík og Hafnarfirði, og lögðust þau á ,,Seyluna“, þar sem skip hans var fyrir. Lét hann búa skipin eftir föngum til varnar, ef ræningjarnir kæmu þar. Einnig lét hann gera virki niðri við höfnina og koma þar fyrir fallbyssum og hugsaði til að verjast með aðstoð nokkurra Íslendinga, er voru á Bessastöðum staddir o.fl.
Ekki virtust ræningjarnir hafa minnsta beyg af skipunum á Seylunni, er þeir komu þarna, því þeir sigldu beint til þeirra. Tyrkir skutu á landvirkið og það svaraði nokkrum skotum, en ekkert tjón mun hafa hlotizt af þeim viðskiptum. Hins vegar mun það hafa komið Tyrkjum mjög á óvart, að skotið var á þá úr fallbyssunum og varnir voru í landi, og þeir þess vegna sagðir hafa ætlað að snúa við. En við þá tilburði rak skip þeirra, þ.e.a.s. aðalskipið, á grynningu svo það sat fast og losnaði ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að losa sig.
Þarna fengu Danir og landsmenn gullið tækifæri til þess að ráða niðurlögum ræningjanna, en Rosenkranz harðbannaði að skjóta á þá! Það gat verið hættulegt, og var að hans dómi þýðingarlaust. Hann hafði söðlaðann hest tilbúinn og kaus að ríða undan, það var öruggara. Ekki verður þessi ráðstöfun hans skilin á annan veg.
Alla nóttina lá skipið í glansandi birtu júnínæturinnar fast á grynningunni, örskammt frá dönsku skipunum og landsvirkinu, ósjálfbjarga og afbragðs skotmark, en enginn hreyfði sig, ekkert skot, hvorki frá skipunum eða landsvirkinu. Fallbyssurnar sneru gapandi kjöftum sínum mót ræningjunum, en þær voru mýldar.
Þannig sátu ræningjarnir fastir í tvo sólarhringa og ekkert aðhafzt þeim til miska. Þeir fluttu milli skipanna ballest, farangur og fólk og léttu þar við skipið svo mikið að það losnaði af grynningunni. Voru þeir þá fljótir að hypja sig af stað og sennilega orðið frelsinu fegnir. Höfðu þeir ekkert frekara að gera þarna og sennilega þótzt hólpnir að sleppa. Er þetta eitt af mestu glappaskotum, sem heyrzt hefur í sögunni, að Rosenkranz skyldi ekki veita Tyrkjum maklega ráðningu, þar sem forsjónin hafði lagt honum til þetta gullna tækifæri og Tyrkir ofurseldir dauðanum við minnstu aðgerðir fallbyssnanna.
Að vísu gerði þetta ræningjaskip ekki meira af sér hér við land, þar eð það hélt heim skömmu seinna. En með niðurlögum þess hefðu sparazt margar þjáningarstundir hertekins fólks, herleiddu fólki frá Grindavík sennilega bjargað og manndómur og hreystilegar aðgerðir landsmanna, undir forystu höfuðsmannsins, orðið heyrinkunn meðal erlendra þjóða og dáð þar að verðleikum. Hefði óneitanlega verið skemmtilegra að fá slíka alheimsdóma í stað hins dæmalausa bleyðiorðs, sem aðgerðarleysi höfuðsmanns og fylgisveina hans leiddi yfir þjóðina.
Frá Bessastöðum – Seylunni – sigldu ræningjaskipin vestur með landinu, þar sem hefja skildi frekari rán. En heppnin var með þessum mannfýlum. Á leið sinni hittu þeir útlent fiskiskip, sem veitti þeim þær upplýsingar, að tvö ensk herskip væru úti fyrir Vestfjörðum. Urðu Tyrkir þá verulega hræddir, lögðu niður skottið og héldu til síns heimalands með feng sinn úr Grindavík. Þannig fór með sjóferð þá.
Fréttirnar um rán og strandhögg Tyrkja hafa varla verið komnar til Austfjarða, er Berfirðingar urðu varir tveggja skipa, er sigldu inn fjörðinn. Þó gæti svo verið, því hraðboð fóru fljótt yfir. Þarna voru komin tvö ræningjaskip frá Barbaríu.
Þau réðust þegar á verzlunarskipið, sem lá í firðinum, hertóku það og alla skipshöfn þess, síðan fóru þeir í land, rændu öllu, sem hönd á festi, fólki og fjármunum og æddu yfir allt sem logi yfir akur. Mörgum tókst þó að flýja, en margir höfðu engan tíma til þess og voru þarna herteknar 110 manneskjur og nokkrir myrtir. Ekki kom þarna til neinna varnaraðgerða frá landsmönnum enda enginn vopn til slíks. Þarna skyldu Tyrkir við allt í auðn og héldu nú suður með landinu.
Þar mættu þeir þriðja skipinu, sem engan ránsfeng hafði enn innanborðs. Slógu skipsherrar á ráðstefnu og ákváðu að fara til Vestmannaeyja til rána. Þær voru þá ein af þéttbýlustu byggðum landsins og má ætla, að þar hafi búið allt að 500 manns.
En til Eyjanna var hættuleg siglingaleið og landgangan þar þeim mun verri. Einhverjar fregnir höfðu þeir um það, hvaðan sem þær hafa borizt þeim. Enn var heppnin með þeim. Á leið sinni vestur með landinu hittu þeir enskt fiskiskip, sem þeir hertóku, en lofuðu skipsáhöfninni frið og frelsi, ef þeir vísuðu þeim leið til Vestmannaeyja. Að þessu gekk skipshöfnin með glöðu geði. Á meðal hennar var einn Íslendingur að nafni Þorsteinn, að sagt er. Hann hafði einhvern tíma verið í Eyjum og var staðháttum það kunnur. Bauðst hann til að vísa þeim á landgöngustað sunnan á Heimaey, sem væri mjög heppilegur.
Hér í Eyjum höfðu menn frétt um ránin í Grindavík, og felmtri miklu slegið á fólkið. Ráðgert var þó að veita viðnám, ef ræningjarnir kæmu, og virki gert niður við höfnina hjá Dönsku húsum. Kaupmaðurinn hafði eitthvað af vopnum, sem útbýtt skyldi meðal manna, ef til árásar kæmi. En tíminn leið og ekkert bólaði á ræningjunum. Fóru menn þess vegna að verða rólegri og vonbetri um, að þeir kæmu ekki til Eyja.
En þann 16. júlí sáu menn í Eyjum 3 skip koma siglandi austan frá, og var eitt þeirra stærst. Ekki komu þau á ytri skipaleguna, en héldu suður með Heimaey og gerðu ekkert af sér. Héldu menn þá, að þetta væru dönsk kaupför, og fór hver til síns heima úr virkinu. Til vara var þó settur vörður, sem hafa skyldi auga með skipaferðum.
Daginn eftir 17. júlí hófst svo landganga Tyrkja. Ætluðu þeir fyrst upp í Kópavík eftir ráðleggingum Þorsteins, en urðu þar frá að hverfa og treystu sér víst ekki upp bratt bergið.
Nokkru sunnar er urð, er Brimurð heitir. Þar lögðu þeir nú til uppgöngu og tókst vel, enda mun sjór hafa verið ládauður, og þarna engar varnir fyrir hendi frá íbúunum. Að vísu bar þarna að umbðsmanninn Lauritz Bagge, ásamt fleirum, sem skutu að ræningjunum einu skoti, sem aðeins varð til þess að æsa þá og trylla. Orguðu þeir þá og grenjuðu, veifuðu sverðum sínum og hnífum og æddu trylltir upp urðarkambinn og út yfir byggðina. Lögðu Eyjamenn þegar á flótta niður í þorpið. Þar eyðilagði skipstjóri verzlunarskipsins skip sitt á legunni, umboðsmaðurinn rak flein í kveikipípur fallbyssnanna svo þær urðu óvirkar, en flýði síðan með skyldulið sitt á bátum upp til meginlandsins. Allar varnir fóru út um þúfur og fólkið því ofurselt ræningjunum.
Tyrkir æddu um alla Eyjuna, rændu, myrtu og misþyrmdu mönnum og málleysingjum á hinn hryllilegasta hátt. Þarf ekki að lýsa þeim aðgerðum hér, öllum er sú saga kunn. Þó mætti minnast á morð séra Jóns ÞorsteinssonarKirkjubæ, sem drepinn var í Rauðhelli að fólki sínu ásjáandi, handtöku séra Ólafs á Ofanleiti og hans fólks, morð Jóns bónda á Búastöðum o.m.fl.
Gamalmennin drápu þeir eða ráku með pústrum og píningum niður til Dönsku húsa og brenndu þar ásamt fleirum, eftir að fólk, er rænt hafði verið og geymt var í húsunum, var flutt út í skipin á legunni. Talið er, að Tyrkir hafi hertekið í Eyjum yfir 240 manneskjur og myrt þar milli 30 og 40. Var þetta mikill fengur fyrir ræningjana en blóðtaka mikil fyrir byggðarlagið. Þann 19. júlí héldu svo Tyrkir burt frá Eyjum og kvöddu með fallbyssuskotum, eftir að hafa brennt Landakirkju og Dönsku húsin og lagt virkjagerð Eyjamanna í rústir.
Hér í Eyjum hafa að vonum lifað margar sagnir frá Tyrjaráninu. Eru sumar þeirra skráðar aðrar ekki og sumar í mörgum myndum. Eitt er sögnum þessum sameiginlegt, að lýsa tryllingslegu æði ræningjanna. Hafa þeir engu hlíft, hvorki mönnum né málleysingjum. Þeir hafa haft hið mesta yndi af að pína fólkið sem mest og á sem hryllingslegastan hátt. Virðist hafa verið sama, hvort um konur, börn eða karlmenn var að ræða. Hafa Tyrkir verið algjörlega sneiddir allri mannlegri meðaumkun og tilfinningum og þó...
Sögn er um það, að stúlka nokkur hafi flúið undan Tyrkjum frá Kirkjubæjunum og upp í heiðina ofan Gerðisbæja. Stúlka þessi var þunguð. Fljótt urðu Tyrkir ferða hennar varir og tóku þegar á rás eftir henni tveir saman. Þegar í undirhlíðar Helgafells kom, vestan Gerðisbæja, gafst stúlkan upp á hlaupunum við jarðfastan klettadrang og lagðist þar fyrir, en í þeim svifum fæddi hún barn sitt. Í sama mund bar ræningjana að, og hefur ekki leynt sér fyrir augum þeirra, hvað skeð hafði. Vildi þá annar gera fljót skil og drepa bæði móður og barn og bjó sig til að vinna ódáðaverkið. Hinn hrærðist aftur á móti til meðaumkunar og fékk því ráðið að þyrma þeim. Klæddi hann sig úr skikkju sinni og skar hana í klæði eða hlífðartrefjar handa barninu og hlúði að því eftir getu. Ekkert hafðist hinn að og lét félaga sinn sjálfráðan gerða sinna. Þegar sá hafði hjálpað móður og barni er sagt, að hann hafi gefið þeim drukk frá beltisbrúsa sínum og einhvers konar brauð úr pússi sínu. Þegar nú félagi hans sá þessar gerðir er og sagt, að hann hafi ekki staðizt mátið, en klætt sig líka úr skikkju sinni og lagt yfir móður og barn. Hafi stúlkan þá séð, að þessi ræningi var ljóshærður og bláeygður og líktist mjög Norðurlandabúa. Að þessu framkvæmdu fóru ræningjarnir burt, en móður og barni var borgið.
Steinn þessi eða drangur stendur óhreyfður enn í dag og heitir síðan Sængurkonusteinn. Er hann sem óforgengilegur minnisvarði um mannkærleika, sem kveiktur var úr steingervingi, auk þess að minna ónotalega á hryggilega atburði ársins 1627, sem enn í dag hafa þau áhrif á Eyjamenn, að þá setur hljóða, er þeim sviðsmyndum bregður upp í huga þeirra.
Af þessari frásögn um Sængurkonustein eru til fleiri og nokkuð frábrugðnar sagnir, en óneitanlega þykir mér þessi skemmtilegust, hvort sem hún er réttari eða ekki.
Það er sagt, að þegar Tyrkir komi á land í Eyjum, við Brimurðartanga – Ræningjatanga, hafi þeir á leið sinni niður í þorpið komið í dalverpi nokkurt, mjög fagurt. Þar var stór grasflöt og rennislétt í miðjum dalnum, en fjöll og hálsar á alla vegu. Þarna er sagt, að ræningjarnir hafi hvílzt um stund, áður en þeir æddu yfir byggðina, og þurrkað púður sitt, er blotnað hafi í landtökunni. Þarna bar í sama mund að mann einn úr þorpinu, og sá hann allan ræningjaflokkinn liggja á flötinni í dalnum og sofa í sólarblíðunni. Sögnin segir, að maður þessi hafi átt þess alls kostar að kveikja í púðrinu, verða þar með mörgum ræningjanna að bana, auk þess að eyðileggja púður þeirra og spara með því mörg mannslíf í Eyjum. En ekki þorði maðurinn að gera þetta heldur flýtti sér burt, komst í öruggt fylgsni og lifði af Tyrkjaránið.
Hvort sögn þessi hefur við einhver rök að styðjast, vita menn nú ekki, en eitt er staðreynd, að flöt þessi í dalnum heitir Ræningjaflöt og er í Lyngfellisdal, skammt frá Brimurð. Frá ræningjum hefur flötin fengið nafn sitt, hvort heldur það hafa verið Tyrkir eða aðrir, t.d. John Gentlemann, á hvern hátt og í tilefni afhverju, sem nafnið hefur orðið til.
Í Dalfjalli vestan Herjólfsdals er fjárból eitt mikið og mjög fornt, skammt ofan við Kaplagjótu. Ból þetta heitir Bótólfsból. Sú er sögn um það, að þar hafi maður að nafni Bótólfur ásamt fleirum falizt fyrir Tyrkjum. En svo óheppilega vildi til, að er Tyrkir voru að eltast við flýjandi fólkið í Herjólfsdal og Fiskhellum, að þeir komu auga á mennina við bólið. Brugðu Tyrkir þá fljótt við og hófu aðförina að mönnum þessum, þótt upp brattar brekkur og bergfláa væri að fara. Þarna hefur verið gott að verjast, og er sagt að Bótólfur og menn hans hafi reynt að verjast með grjóti, er þeir veltu á Tyrki, en allt kom fyrir ekki. Þeir voru allir handteknir og hlutu illa meðferð þótt ekki dræpu Tyrkir þá. Voru þetta allt mjög mannvænlegir menn og á bezta aldri, og er sagt, að þeir hafi séð, að þeir mundu verða verðmiklir á markaðinum í Algier. Ekki er vitað um heimildir fyrir sögn þessari, hvort sönn er, en hitt er víst, að mann að nafni Bótólf Oddsson tóku Tyrkir hernámi hér og fluttu til Algier. Var hann keyptur þaðan aftur 1636, og var kaupverð hans 195 rd., sem var nokkuð hátt lausnargjald.
Eins og áður er getið eltu Tyrkir fólkið um allt, t.d. í Herjólfsdal og Fiskhella og virðast óvíða hafa hikað eða hopað fyrir brekkum og björgum. Fiskhellar eru hátt fjall, sem trónar sig eins og húsburst í laginu um 70 faðma í loft upp. Það er með mörgum hillum og bekkjum, sem hægt er að fara laus um og allhátt upp í bergið, sem er móberg og vel fast. Einnig eru nokkrar hillur, sem ekki verður komizt á nema að síga á þær ofan frá. Á hillum þessum hafa Eyjamenn til forna hlaðið byrgi úr blágrýtishnullungum og þurrkuðu þar inni fisk sinn. Var þetta ærin fyrirhöfn, en fiskur þótti með afbrigðum góður og vel verkaður í byrgjum þessum og þá hefur fyrirhöfnin þótt borga sig.
Upp um hillur þessar leyndist margt fólk í Tyrkjaráninu og þá aðallega kvenfólk, sem komið var þangað í mesta flýti undan Tyrkjum, er þeir æddu yfir byggðina sunnan frá. En einnig þarna fundu þeir fólkið. Komust þeir upp á neðstu hillurnar og skutu þaðan á efri hillurnar, og féll margt fólkið dautt eða helsært til jarðar úr mikilli hæð. Á einni hillunni var stúlka, sem þeir gátu þó hvorki komizt upp til eða hæft hana með skotum og urðu að hætta við svo búið. Er líklegt talið, að hún hafi verið á svonefndri Þorlaugargerðishillu, þar sem samnefnt býli fyrir ofan Hraun átti fiskbyrgi. Stúlka þessi komst sem sagt undan, en á pilsfaldi hennar voru 18 kúlugöt frá skotum Tyrkjanna, svo nærri hefur hurð skollið hælum hennar.
Hellir einn stór er í Stórahrauni suður af Herjólfsdal. Er sagt að þar hafi 100 manns falizt í Tyrkjaráninu og komizt af, og heitir hann síðan Hundraðsmannahellir. Hann er mjög vandfundinn og líklega ófinnanlegur af ókunnugum, þar eð lítið ber á honum frá umhverfinu. Eyjamenn hafa snemma tekið mið af hellinum á sama hátt og fiskimenn af fiskimiðum og miðast hann þannig: ,,Hanahaus beri í Halldórsskoru, en Hástein beri í Dönskutó.“ Miðaheiti þessi eru forn örnefni í Eyjum. Hanahaus er efsti hnjúkur eyjarinnar Hani, sem er miðeyjan af Smáeyjum vestan Dalfjalls, en Halldórsskora er mikill lundaveiðistaður og mjög tæpur og ægilegur bjargvegur á suður og vesturöxl Dalfjalls. Hásteinn er stór jarðfastur blágrýtisdrangur í brekkunni sunnan undir Hánni við veginn inn í Herjólfsdal, en Danskató stór grashilla eða bekkur sunnan í Heimakletti gegnt Dönsku húsunum, og verpir mikill fýll á bekk þessum, sem sigið er á eða farið á lærvað til fýla og eggjatekju.
Hvað stærð Hundraðsmannahellis við kemur gæti vel staðizt að þar hefðu 100 manns falizt með góðu móti, og það verið öruggur felustaður. Og þar eð líkur benda til, að um 230 manns hafi komizt undan Tyrkjum og hér þá verið allt að 500 manns 1627, væri ekki óhugsandi að sögnin um helli þennan hafi við rök að styðjast. Hefðu þá um 130 manns átt að felast annars staðar í Eyjunum og gæti það vel hugsazt.
Nú er hellir þessi aðeins svipur hjá sjón, því að mjög hefur borizt inn í hann af sandi og mold, svo að hann getur varla kallazt umferðafær. Hafa Eyjamenn lítinn sóma sýnt honum, sem landfræðilegum stað og frægum úr sögu Tyrkjaránsins, a.m.k. af orðrómi.
Annars eru sumir Eyjamanna, sem vilja heimfæra sögnina um hellinn til ráns Johns Gentlemanns. Er sagt að hann og ránsflokkur hans hafi verið við rán í Eyjum í hálfan mánuð, rænt öllu, sem hönd á festi, lifandi fé og fjármunum, en engan drepið, þrátt fyrir miklar ógnanir með byssum og öðrum vopnum. Væri í þessu sambandi hægt að hugsa sér, að þá hafi fólk flúið í Hundraðsmannahelli og falizt þar, því að mjög mikill felmtur hafi gripið fólkið í Eyjum við komu og aðfarir þessa ræningjaflokks.
John Gentlemann rændi klukkunni úr Landakirkju, og varð það honum til falls, því að er hann kom heim til Englands, þekktist klukkan af áletrun, sem á henni var. Lét þá Jakob konungur Englands senda klukkuna aftur til Eyja, en John Gentlemaður og félagar hans voru hengdir fyrir tiltækið.
Hvor sögnin um Hundraðsmannahelli er réttari skal ósagt látið, en líkur benda til að nafnið sé komið frá öðru hvoru ráninu.
Í sambandi við þessar Tyrkjaránssagnir mætti minnast nokkuð á Skansinn í Eyjum, eitt elsta mannvirkið, þótt hins vegar hafi hann lítið komið við sögu í ráninu. Skansinn er mikið mannvirki, vel til hans vandað og hefur staðið ótrúlega vel af sér veður og tímans tönn. Það hefur alla tíð verið mikill og afhaldinn skemmtigöngustaður Eyjabúa. Þaðan sér vel til allra skipaferða til og frá höfninni. Þar hafa menn fyrr og síðar fylgzt með komu bátanna í vondum veðrum, og þar hafði setuliðið, er var í Eyjum í síðustu heimsstyrjöld, eina af aðalbækistöðvum sínum, vopnabúr mikið og annan útbúnað margvíslegan. Minnti það Eyjamenn að vonum á liðna tíð, þ.e.a.s. á daga Herfylkingar Vestmannaeyja (1856-1870).
Um byggingu Skansins er fyrst vitað, að með bréfi 20. maí 1515, skipar Kristján konungur II. Söffrin Nordby foringja lénsmanna á Íslandi í 3 ár með ákveðnum skilyrðum. Meðal annars átti hann að koma upp tveim virkjum, þ.e. á Bessastöðum og í Vestmannaeyjum. Ástæður fyrir þessari varnarráðstöfun konungs hafa víst verið nægar, þar eð undanfarið höfðu verði miklar siglingar til Íslands frá Englandi og Þýzkalandi, og nokkuð oft allróstusamt, t.d. í Eyjum. Ekki varð þó af þessari virkisgerð þá, því að konungur afturkallaði þessa skipun sína.
Á síðari hluta 16. aldar fyrirskipar svo Friðrik II. (bréf 1586) Hans Holst skipstjóra sínum ,,at bygge et Blokhus paa et beligligt Sted ved Havnen paa Wespenoe“. Af reikningum umboðsmanns konungs sést, að þá hefur verið byggður ,,Skandtse“ í Eyjum, þótt ekki verði ráðið, hvar það hefur verið. Hefur það mannvirki sennilega verið fyrsti Skansinn og vísir til núverandi Skans, en hann líklega lagður í rústir af Tyrkjum 1627. Það er vitað, að Skansinn í Eyjum var endurbyggður á árunum 1630 til 1637, og stóð fyrir því verki hr. Jens Hasselberg, er þá var verzlunarstjóri og umboðsmaður konungs hér í Eyjum. Telur Gísli biskup Oddsson hann mikinn verzlunarmann, og að hann hafi ýmislegt með höndum, sem til nytsemda horfi, t.d. látið endurreisa verzlunar- og íbúðarhús Dana í Eyjum, er brennd voru af Tyrkjum. Einnig hafi Hasselberg látið víggirða húsin til þess að geta varizt árásum ræningja, ef til kæmi. Húsin stóðu í þann tíð inni í Skansinum, en hann þótti snemma fagurt og mikið mannvirki og talað um hann sem mestu prýði Sunnlendingafjórðungs.
Frá fyrstu dögum Skansins munu hafa verið þar og lengi fram eftir árum einhver vopn, a.m.k. fallbyssur og auk þess varðmaður, sem kunnað hefur að fara með þau. Um 1640 er t.d. Jón Indíafari þar um tíma. Er hann í Eyjum með fjölskyldu sína, en flutti héðan aftur vegna óyndis konu sinnar. Jón hafði í laun jarðarábúð, mat fyrir sjálfan sig hjá kaupmanni og auk þess 50 vættir fiska. Skyldi hann gæta hergagnanna í Skansinum og æfa Eyjamenn vikulega í vopnaburði. Hefur þetta haldizt nokkuð lengi. T.d. er að finna nafnið ,,konstabel Gunder Olafsson“ með fiskigjöf til Landakirkju árið 1662, og trúlegt að sá konstabel hafi einmitt verið í Skansinum sem varðmaður og þjálfari Eyjamanna.
Heldur hefur vörn eyjabúa farið óhönduglega gegn Tyrkjum 1627 úr Skansinum, svo sem fyrr segir. Þess vegna fór sem fór, að engum vörnum varð við komið, fólkið brytjað niður, brennt inni eða herleitt.
Í Landfræðisögu sinni segir Þorvaldur Thoroddsen að Hans Nansen hafi látið byggja Kastalann í Vestmannaeyjum o.s.frv., en í lýsingu Eyjanna frá 1749, er Thoroddsen fer líklega eftir, er alls ekki minnzt á Kastalann heldur Skansinn, svo eitthvað blandar hann málum. Svonefndur Kastali var suður af ,,Bratta“, þ.e.a.s. suður af Tangaverzluninni, en Bratti er þar niður af og stóðu á fyrri öldum mörg hús tómthúsmanna inni í honum. Þau hús voru þó flest í eyði er Árni Magnússon samdi jarðbók sína 1704.
Samkv. jarðabók frá 1695 búa í ,,Castelle“ 7 tómthúsmenn, hver í sínu húsi og greiddu þeir 60 fiska leigu eftir þau. ,,Skansinn“ og Kastalinn eru því sitt hvað, og hafa hin svonefndu Dönskuhús jafnan verið ein í Skansinum, þ.e. ,,Cornholm Skantze“. Hitt er svo annað mál, hvort þetta Kastalanafn muni eigi vera sprottið frá fyrsta vígi, er hér var reist, og það þá verið þarna inn með vognum. Það er óráðin gáta, þar sem ekki hefur fundizt skráð, hvar fyrstu virkin 1586 voru reist af Hans Holst skipstjóra.
Skansinn var svo hlaðinn upp að nýju 1850 og enn 1927 og viðhaldið að nokkru leyti síðan. Þó mætti betur gera, ef sýna ætti virkinu þann sóma, sem verðugt er.
Virkilegar heræfingar komust á í Eyjum fyrir atbeina hins danska sýslumanns þeirra, Andreas August von Kohl. Hann var úr landher Dana og hafði hlotið þar kapteinsnafnbót fyrir mikil og góð hernaðarstörf. Sýslumannsembættið hér fékk hann 1853 og byrjaði þá þegar undirbúning að stofnun herflokks í Eyjum, er gæti varið þær fyrir óspektum og ránum. Vann hann ósleitilega að þessu og auðnaðist að fá styrkveitingu með konungsúrskurði. Fékk hann þannig fyrst 30 byssur með tilheyrandi skotfærum o.fl. frá hermálaráðuneytinu og síðar aðrar 30. Voru það rifflar með byssustingjum, ágætis vopn. Einnig voru sendir nokkrir korðar, ýmis áhöld, leðurtöskur og skotfæri. Fjárveitingin var fyrst 180 rd., en síðar varð hún 200 rd., sem notað var til greiðslu þessa vopnabúnaðar.
Í herflokki Vestmannaeyja var alls um 80 manns, eldri og yngri deildir. Hlaut herflokkurinn nafnið Herfylking Vestmannaeyja. Yfirfylkisstjóri var A.A. Kohl kapteinn. Auk þess voru svo yfirliðsforingjar, undirliðsforingjar, flokksforingjar, fánaberi, trumbuslagarar o.fl. Hvers konar reglusemi var krafizt af herdeildarmeðlimum, t.d. á vín, og er það álitin staðreynd, að mjög hafi almennri reglusemi farið fram á mörgum sviðum vegna áhrifa frá herdeildinni, bindindi á vín aukizt mjög mikið, og búðastöður nær alveg horfið, en þær voru mjög almennar.
Herfylkingin starfaði í nálægt 20 ár, en aldrei kom til þess, að hún ætti í höggi við ræningja eða erlenda uppvöðsluseggi. Er fullvíst, að útlendingum var vel kunugt um lið Eyjamanna og hafa efalaust haft beyg af því. Fór orð af, að herfylkingin væri vel vopnuð og æfð og öll hin harðsnúnasta.
Einu sinni sást grunsamlegt skip sigla austan frá að Eyjum. Var þá allt herliðið kvatt á ,,Skansinn“ og því komið fyrir í stöður með brugðna byssustingi o.fl. Var skipið egnt til áhlaups með því að draga upp og niður fánann á stönginni o.fl. En skip þetta lagði frá Eyjum og hélt til Reykjavíkur. Var það kaupskip og var sagt, að það hefði haft orð um, að þeir hafi undrazt yfir að sjá vopnað varnarlið í Vestmannaeyjum á Skansinum!
Þegar kapteinn Kohl lézt og var grafinn, mætti öll Herfylkingin vopnum búin og heiðraði útför hans með heiðursverði o.fl. Hafði það verið mikilfengleg sjón. Það var 31. janúar 1860. Hvílir kapteinn Kohl undir minnisvarða, er Eyjamenn reistu honum til verðugrar minningar og sóma.
Við fráfall kapteins Kohl tók Pétur Bjarnason verzlunarstjóri við yfirstjórn Herfylkingarinnar í stað J.P.T. Bryde, er kosinn hafði verið, en ekki getað aðstaðið embættið vegna tíðra utanfara og fjarveru. Pétur þótti mjög röggsamur stjórnandi og var lífið og sálin í viðhaldi Herfylkingarinnar meðan hans naut við.
Síðar tóku aðrir við stjórn Herfylkingarinnar, en ekki tókst að halda fullkomnu starfslífi hennar gangandi miklu lengur, og lagðist hún svo niður mörgum til sárs saknaðar. Vopnin voru ýmist seld hingað og þangað eða ryðguðu niður í miður góðum geymslustöðum og urðu þar til.
Á Þjóðminjasafninu í Reykjavík, er þó til einn korði frá Herfylkingu Eyjanna í góðu ásigkomulagi og nú fyrir skömmu heyrðist, að a.m.k. einn rifill væri enn við líði í bænum í bezta standi. Er trúlegt, að gripir þessir, þ.e.a.s. rifflarnir, prýði innan tíðar byggðasafn Eyjanna sem frægar minjar frá einustu hersveit landsins.
Fyrir ekki svo mörgum árum síðan voru enn lifandi nokkrir menn, sem vel mundu Herfylkingu Eyjanna og skemmtistundir, er hún veitti eyverjum með sýningum og gerviorrustum. Meðlimir hennar voru kjarninn úr karlmönnum Eyjanna, er þjálfaði sig í hvers konar manndygðum og voru fyrirmynd landsmanna á mörgum sviðum.
Að sjálfsögðu átti Herfylkingin sinn hersöng og fer hann hér á eftir til þess að forða honum frá gleymsku, þar eð hann er í mjög fárra höndum. Þegar Herfylkingin ,,marseraði“ um þorpið sungu allir sem sungið gátu og gengu í takt við sönginn.

Hersöngur Vestmannaeyja herfylkingar 1856
Lag: ,,Den Gang jeg drog af Sted“.
Allir það vitum vér
að vænum drengjum ber
að vernda land vort voða frá og vondum ránaskap.
Að rækja reglu og frið
og ríkja einnig með
og gæta alls sem gagnlegt er í góðum félagsskap.
Því það, sem einn ei megnar, þó aflið reyni sitt,
sjötíu verum vegnar, sem væri ekki neitt.
Ef allir ásamt hér
fyrir ættjörð berjumst vér.
Húrra! Húrra! Húrra!
Allir það vitum vér
hvað eining orkað fær
og að vort land enn binda má um blóðug örva sár.
Því fyrri alda frægð
frá oss var orðin bægð,
og því höfum við þungan stunið þrátt í mýmörg ár.
En nú er mál að rísa af rökkursvefni senn,
svo öllum megum vísa, að vorðnir erum menn.
Nú vit vér höfum á
að verja oss og slá.
Húrra! Húrra! Húrra!
Það komi hver sem má,
af oss er enginn sá,
sem ei er gæddur góðum hug og glæstum hetjumóð
Áfram! Áfram! Áfram!
Fyrir vort kæra rann
við skulum sýna að ljúft oss er að láta líf og blóð.
Hina aðra vesla menn, sem voga ekki með,
við skulum vernda voða frá og varna við ófrið.
Sjötíu saman við
er sélegt hjálparlið.
Húrra! Húrra! Húrra!
(Höf. ókunnur)

Að síðustu skal þess getið, að ein af síðustu afspurnum Herfylkingar Eyjanna er, að þegar Pétur Bjarnason, yfirfylkingarstjóri, var greftraður 1869, kallaði Bjarni E. Magnússon, sýslumaður Eyjanna, hana saman og mætti hún öll vopnum búin til þess að votta honum virðingu sína og kveðja hinztu kveðju. Eftir það mun Herfylkingin hafa leystst upp smátt og smátt, þótt reynt væri að halda henni við líði af ýmsum, svo sem Gísla Bjarnasyni, bróður Péturs, Villy Thomsen, syni Edw. Thomsens kaupmanns, og Fritz Sörensen kaupm. Allar tilraunir til þess að halda henni við urðu árangurslausar, hverju svo sem um hefur verið að kenna.
Ég hef þá lokið þessum úrdrætti úr viðburðarríkri sögu Vestmannaeyja. Þótt stiklað sé á stóru, vona ég að frásögn þessi sýni, að á mörgum blöðum í sögu þorpsins er að finna fróðleik, sem vert er að leita að og halda á lofti.
¹) Svo nefndu Íslendingar löngum Algier og Túnis. Voru ræningjarnir, sem hingað komu frá Algeirsborg.

Á.Á.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit