Ritverk Árna Árnasonar/Fýlseggjaferð í Súlnasker og víðar 24. maí 1940
Lagt var af stað í ferð þessa kl. 04.30 á mb ,,Léttir“. Gekk ferðin suður í ,,Skerið“ prýðilega og var komið þangað kl. 05.50.Var þá þegar lagt til uppgöngu og fóru göngumenn fyrstir, en þeir voru:
- Hjálmar Jónsson frá Dölum,
- Valdi frá Búastöðum,
- Guðmundur Helgason frá Túni,
- Magnús Magnússon frá Vesturhúsum,
- Jónas Sigurðsson frá Skuld.
Uppgangur gékk greiðlega. Farangur okkar tókum við upp á ,,Helli”, en farangurinn var matur, drykkjarvatn og ílát undir eggin.
Að því loknu fór báturinn frá okkur og hélt vestur í ,,Geirfuglasker” til eggjatöku. Göngumenn þar voru þessir:
Fyrstur göngumannanna fór Eyjólfur Gíslason, Búastöðum pt. Bessastöðum, Gísli Árnason Johnsen Suðurgarði og Guðlaugur Guðjónsson Oddsstöðum.
Okkur í Súlnaskeri gekk eggjatakan ágæta vel, svo að þegar þeir komu aftur til okkar úr Geirfuglaskeri, vorum við búnir að bera saman öll eggin. Er það gert í blikkfötum, því að fýlsegg eru svo brothætt að körfur eru ónothæfar við flutning á þeim, þótt ágætar séu þær og ávallt notaðar við svartfuglaegg. Á Helli gáfum við svo niður 1.100 eggjum, á norðausturhorni eyjarinnar 1.700 stykkjum eða alls 2.800 stykkjum. Vorum við svo heppnir að sáralítið brotnaði af eggjum hjá okkur. Í Geirfuglaskeri gekk þeim mjög stirðlega yfirleitt og fengu ekki nema 600 stk. Að þeirri ferð lokinni fóru þeir í Litla-Geldung og höfðu þar 170 egg.
Klukkan 16 vorum við lausir úr Skerinu og gekk okkur yfirleitt mjög greiðlega. Niðurferðin gekk og vel. Hnýtti ég utan um strákana og gaf þeim niður á Suður-steðja, en sjálfur varð ég að fara niður að austan vegna þess að tógið var ekki nógu langt til þess að ná tvöfalt niður (í hnoðaburð). Var ég kominn niður á ,,Steðja“, þegar báturinn kom þangað og var hann þá búinn að taka hina. Þaðan var svo haldið að ,,Hellisey“ og fórum við þar allir 8 – allir göngumenn Súlnaskers og Gerifuglaskers – upp til eggjatökunnar.
Við skiptum þannig með okkur verkum, að 2 fóru í ,,Höfðann“, en hinir 6 fóru upp í eyna. Í ,,Hellisey” höfðum við alls 1.000 egg. Er það ekki mikið, því að í ljós kom, að búið var að ræna þar eggjum að töluverðu leyti. Að öðru leyti gekk allt vel, og komum við heim úr þessari eggjaferð kl. 20.30. Var þá farið að skipta aflanum og var því lokið kl 22.00.
Að síðustu skal fram tekið að bátsmenn voru þessir:
- Skipstjóri:Ólafur Ólafsson, Skólavegi 48.
- Vélstjóri: Filippus G. Árnason, Austurveg 2.
- Árni J. Johnsen, Suðurgarði,
- Jón B. Jónsson, Ólafshúsum,
- Jón Valtýsson, Kirkjubæ,
- Sigurður Þórðarson, Gerði.
Alls vorum við því 14 menn við þessa eggjatökuferð.