Gunnar Jónsson (Miðey)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gunnar Jónsson.

Gunnar Jónsson var fæddur í Vestmannaeyjum 18. janúar 1940 og lést í Reykjavík 13. júní 2013. Hann var sonur hjónanna Rósu Guðmundsdóttur frá Málmey og Jóns Guðmundssonar frá Goðalandi sem var mikill aflamaður á sinni tíð.

Gunnar var kvæntur Selmu Jóhannsdóttur. Börn þeirra eru Eysteinn, Jón Atli og Árni. Gunnar og Selma búa á Illugagötu 53.

Gunnar byrjaði til sjós 1958 með föður sínum á Ver og lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1961. Gunnar hóf formennsku á Ver á humarveiðum árið 1963. Á þessum árum var hann á haustsíldveiðum með Kristni Pálssyni á Berg. Hann var á gamla Berg þegar báturinn fórst út af Snæfellsnesi haustið 1962 Gunnar var stýrimaður á nýjum Bergi 1963. Árið 1965 réðst hann á Ísleif IV með Guðmari Tómassyni heitnum og Gísla Jónassyni. Ísleifur IV var með mesta aflaverðmæti Vestmannaeyjabáta það ár. Gunnar varð skipstjóri á Ísleifi IV 1966 og tók við Ísleifi VE 63 árið 1967. Árið 1975 keypti hann Ísleifsútgerðina ásamt fleirum og var skipstjóri á nýjum Ísleifi allt til ársins 2004 þegar þeir seldu Vinnslustöðinni reksturinn.
Gunnar var aflakóngur Vestmannaeyja árin 1971 og 1973.

Frekari umfjöllun

Gunnar Jónsson frá Miðey, vélstjóri, skipstjóri, útgerðarmaður fæddist 18. janúar 1940 að Hilmisgötu 5 og lést 13. júní 2013 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson skipstjóri, f. 15. júlí 1905, d. 4. mars 1972, og kona hans Rósa Árný Pálína Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 15. júní 1918, d. 27. apríl 1974.

Börn Rósu og Jóns:
1. Gunnar Jónsson vélstjóri, skipstjóri, útgerðarmaður, f. 18. janúar 1940 á Hilmisgötu 5, d. 13. júní 2013. Kona hans Selma Jóhannsdóttir
2. Guðmundur Jónsson, f. 25. apríl 1943 í Miðey, d. 29. september 1945.
3. Helga Jónsdóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur, f. 17. nóvember 1947 í Miðey. Maður hennar Björn Ívar Karlsson.
4. Guðríður Jónsdóttir húsfreyja, starfsmaður leikskóla, stuðningsfulltrúi, f. 20. mars 1958. Fyrrum maður hennar Gunnar Þór Grétarsson. Maður hennar Þorsteinn Ólason.

Gunnar var með foreldrum sínum í æsku.
Hann lauk miðskólaprófi í Gagnfræðaskólanum 1956, hinu minna vélstjóraprófi 1958, fiskimannaprófi í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1961.
Gunnar hóf sjómennsku með föður sínum á Ver VE árið 1958.
Hann var í áhöfn Bergs VE, þegar hann fórst út af Snæfellsnesi haustið 1962. Þeir skipsfélagar björguðust allir giftusamlega. Gunnar varð svo stýrimaður á nýjum Bergi árið 1963.
Gunnar var stýrimaður á Ísleifi IV 1965 og skipstjóri ári síðar.
Árið 1967 tók hann svo við Ísleifi VE 63.
Árið 1975 keypti Gunnar ásamt þeim Leifi Ársælssyni og Kára Birgi Sigurðssyni Ísleifsútgerðina og var Gunnar skipstjóri á nýjum Ísleifi allt til ársins 2004. Hann hafði þá verið til sjós í 46 ár. Árið 2003 var útgerðin seld Vinnslustöðinni hf.
Gunnar var aflakóngur Vestmannaeyja árin 1971 og 1973.
Þau Selma giftu sig 1962, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í fyrstu á Boðaslóð 6, síðan á Illugagötu 53.
Gunnar lést 2013.

I. Kona Gunnars, (4. október 1962), er Selma Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 4. október 1942 í Eyjum.
Börn þeirra:
1. Eysteinn Gunnarsson matreiðslumaður, f. 26. febrúar 1963. Barnsmóðir hans Sigurdís Harpa Arnarsdóttir. Kona hans Íris Róbertsdóttir.
2. Jón Atli Gunnarsson skipstjóri, f. 11. mars 1968. Kona hans Sigurhanna Friðþórsdóttir.
3. Árni Gunnarsson sjómaður, stýrimaður, vélstjóri, f. 7. nóvember 1976. Sambúðarkona hans Bryndís Stefánsdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Blik 1957.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 22. júní 2013. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.