Guðrún Hjálmarsdóttir (Akri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðrún Hjálmarsdóttir.

Guðrún Hjálmarsdóttir húsfreyja á Akri fæddist 12. apríl 1879 á Efri-Rotum u. V-Eyjafjöllum og lést 23. september 1928.
Faðir hennar var Hjálmar bóndi á Ketilsstöðum í Mýrdal og í Efri-Rotum undir Eyjafjöllum, f. 17. júlí 1829, d. 31. ágúst 1903, Eiríksson bónda á Ketilsstöðum, f. 1795 á Leirum u. Eyjafjöllum, Jónssonar bónda á Hrútafelli þar, f. 1769 í Pétursey í Mýrdal, d. 30. apríl 1834 á Hrútafelli, Eiríkssonar, og konu Jóns á Hrútafelli, Sigríðar húsfreyju, f. 1769 á Raufarfelli þar, Bjarnadóttur.

Móðir Hjálmars á Ketilsstöðum og síðari kona Eiríks bónda þar var Elín húsfreyja, f. 23. júlí 1801 á Brekkum í Mýrdal, d. 6. janúar 1883 á Ketilsstöðum, Sveinsdóttir bónda, síðast í Hryggjum í Álftaveri, f. 1758, d. 20. október 1838 á Skeiðflöt í Mýrdal, Eyjólfssonar, og konu Sveins í Hryggjum, Guðrúnar húsfreyju, f. 1760 í Kálfholti í Holtum, d. 7. júlí 1834 á Skeiðflöt, Þórðardóttur prests í Kálfholti Sveinssonar, og konu sr. Þórðar, Guðfinnu Þorsteinsdóttur, síðar á Felli í Mýrdal.

Móðir Guðrúnar og síðari kona Hjálmars var Kristín húsfreyja, f. 25. nóvember 1839, d. 1. febrúar 1925, Sveinsdóttir bónda á Syðstu-Grund u. Eyjafjöllum, f. 12. október 1816, d. 12. febrúar 1898, Pálmasonar bónda og smiðs í Álftagróf í Mýrdal, f. 9. september 1798, d. 14. júní 1876, Jónssonar og barnsmóður Pálma, Ástríðar Einarsdóttur, f. 9. apríl 1792, d. 22. desember 1868.

Móðir Kristínar húsfreyju og kona Sveins á Syðstu-Grund var Gyðríður húsfreyja, f. 20. október 1811, d. 25. nóvember 1859, Bjarnadóttir bónda á Syðri-Grund og í Ásólfsskála, f. 1759, d. 28. febrúar 1834, Vigfússonar, og konu Bjarna Kristínar húsfreyju, f. 1765, Jónsdóttur.

I. Börn Hjálmars Eiríkssonar og Guðrúnar Jónsdóttur fyrri konu hans í Eyjum:
1. Eiríkur Hjálmarsson kennari á Vegamótum.
2. Þórunn Hjálmarsdóttir húskona á Lágafelli, fyrr húsfreyja á Ljótarstöðum, kona Sigurðar Sigurðssonar bónda þar.
3. Þorgerður í Dölum húsfreyja í Dölum, kona Jóns Gunnsteinssonar.
II. Börn Hjálmars Eiríkssonar og Kristínar Sveinsdóttur síðari konu hans:
4. Hjálmrún Hjálmarsdóttir vinnukona, síðar ráðskona í Reykjavík, f. 16. mars 1878, d. 9. mars 1950.
5. Guðrún Hjálmarsdóttir húsfreyja á Akri, kona Guðmundar Þórðarsonar.
6. Helgi Hjálmarsson, – að Hamri. Konur hans voru Guðbjörg Vigdís Guðmundsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir.
III. Barn Hjálmars Eiríkssonar og Ingibjargar Gísladóttur, síðar húsfreyju í Oddakoti í A-Landeyjum:
6. Sigurbjörg Hjálmarsdóttir húsfreyja í Oddhól, kona Ólafs Guðmundssonar.
IV. Hálfsystir Hjálmars á Ketilsstöðum og í Efri-Rotum og föðursystir þessarra Hjálmarsbarna var
7. Sigríður Eiríksdóttir langamma Árna Árnasonar símritara og þeirra systkina og amma Kristins Sigurðssonar á Eystri-Löndum.

Guðrún var með foreldrum sínum á Efri-Rotum 1880, fór tökubarn til Þorgerðar hálfsystur sinnar í Bólstað í Mýrdal 1885, fór þaðan til foreldra sinna í Efri-Rotum 1900.
Hún fluttist til Eyja 1904 ásamt Helga bróður sínum, var vinnukona í Hólshúsi 1906, giftist Guðmundi 1908. Þau bjuggu með Lárusi nýfæddum í Byggðarholti 1907, en voru komin á Akur 1908.
Þau eignuðust tvö börn.
Guðmundur drukknaði við Eiðið 16. desember 1924, ásamt sjö öðrum, á leið út í es. Gullfoss. Guðrún lést 1928.

I. Maður Guðrúnar, (10. janúar 1908), var Guðmundur Þórðarson vélstjóri, útgerðarmaður, f. 10. maí 1878 í Steig í Mýrdal, drukknaði 16. desember 1924.
Börn þeirra:
1. Lárus Guðmundsson rafvirkjameistari, f. 13. nóvember 1907, d. 18. febrúar 1985.
2. Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 6. desember 1909, d. 31. október 1996.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.