Guðríður Guðmundsdóttir (Grímshjalli)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Grímshjalli fæddist 21. júní 1825 í Eyjum og lést 10. febrúar 1891 í Nýborg.
Faðir hennar var Guðmundur bóndi á Borgareyrum u. Eyjafjöllum 1835, f. 10. ágúst 1792, d. 27. febrúar 1837, Kortsson bónda á Árbæ í Holtum 1801, f. 1758, d. 27. desember 1834, Þorsteinssonar bónda á Árbæ, f. (1706), d. 18. júní 1794, Kortssonar, og konu Þorsteins, Elínar húsfreyju, f. 1714, d. 18. mars 1797, Grímsdóttur.
Móðir Guðmundar á Borgareyrum og kona Korts á Árbæ var Þorgerður húsfreyja, f. 14. september 1760, d. 10. nóvember 1819, Hannesdóttir bónda á Stóru-Borg u. Eyjafjöllum, f. 1703, og konu Hannesar, Guðrúnar húsfreyju, f. 1720, á lífi 1784, Hávarðsdóttur.

Móðir Guðríðar og kona Guðmundar á Borgareyrum var Þórdís húsfreyja á Borgareyrum, skírð 21. ágúst 1800, d. 29. nóvember 1855, Magnúsdóttir bónda á Vilborgarstöðum 1801, f. 1771, d. 2. ágúst 1846, Jónssonar bónda í Gvendarhúsi, f. (1735), d. fyrir mt 1801, Einarssonar, og konu Jóns í Gvendarhúsi, Margrétar húsfreyju, f. um 1740, d. 27. desember 1802, Brandsdóttur.
Móðir Þórdísar á Borgareyrum og síðari kona Magnúsar á Vilborgarstöðum var Herborg húsfreyja, f. 1762, d. 18. nóvember 1828, Helgadóttir (ókunnur), og móður Herborgar, Guðríðar, f. 1733, d. 19. apríl 1808, Sveinsdóttur.

Guðríður var með foreldrum sínum á Borgareyrum 1835, vinnukona á Miðeyjarhólmi í A-Landeyjum 1840, vinnukona í Steinmóðarbæ u. Eyjafjöllum 1845, vinnukona á Borgareyrum hjá móður sinni og stjúpföður 1850, húsfreyja í Grímshjalli 1860 með Hannesi, Guðríði dóttur sinni 10 ára og Andríu barni þeirra Hannesar 4 ára, og með fjölskyldunni þar 1870. Hún var vinnukona í Nýborg hjá Sigurði Sveinssyni trésmíðameistara 1880, skilin og niðursetningur þar 1890 og lést þar 1891.
Hún mun vera Gudda, sem var í Nýborg til loka og Páll Gíslason kvað um. Siggi er Sigurður Sveinsson trésmíðameistari og framkvæmdamaður mikill, sem Gudda var vinnukona hjá og niðursetningur í lokin.

Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum:
„Nú er hún Gudda gamla dauð,
getur ei lengur öðrum brauð
unnið né spunnið ull í föt,
ekki bætt skó né stagað göt.
Siggi tapaði, en sveitin vann,
þá sálin skildist við líkamann.“
Blik 1960: Gengið á reka (Árni Árnason):
Nú er hún gamla Gudda dauð,
getur ei lengur unnið brauð,
unnið, spunnið ull í föt,
ekki gert skó né stagað göt.
Siggi tapaði, en sveitin vann,
er sálin skildi við líkamann.


Bróðir Guðríðar var Þorsteinn Guðmundsson tómthúsmaður í Fagurlyst, f. 11. apríl 1824, d. 14. maí 1857, drukknaði í Höfninni, kvæntur Hólmfríði Guðmundsdóttur.

Síðari maður Þórdísar á Borgareyrum, móður Guðríðar í Grímshjalli, var Erlendur Höskuldsson bóndi á Borgareyrum. Þau Þórdís voru foreldrar Guðrúnar Erlendsdóttur húsfreyju á Vesturhúsum, konu Guðmundar Þórarinssonar, en börn þeirra voru:
1. Guðleif, kona Vigfúsar í Holti.
2. Magnús, kvæntur Jórunni Hannesdóttur.
3. Halla, gift Guðjóni Eyjólfssyni.
4. Þórdís, gift Jóel Eyjólfssyni.

Þórdís og Erlendur voru einnig foreldrar Þorgerðar Erlendsdóttur húsfreyju á Fögruvöllum, konu Sigurðar Vigfússonar, (Sigga Fúsa), og þau voru foreldrar Guðmundar Erlendssonar hafnsögumanns í London.

Maður Guðríðar í Grímshjalli var Hannes Gíslason tómthúsmaður í Grímshjalli, f. í september 1828, d. 4. ágúst 1900. Þau skildu.
Börn þeirra hér:
1. Sigríður Hannesdóttir, f. 7. janúar 1854, d. 25 apríl 1854 „af barnaveikin“.
2. Sigríður Hannesdóttir, f. 27. júní 1855, d. 8. október 1855 „af nokkurskonar bjúg“.
3. Sigríður Hannesdóttir, f. 31. júlí 1856, d. 1. nóvember 1856 „af nokkurskonar bjúg“.
4. Andría Hannesdóttir húsfreyja í Kuðungi, f. 2. október 1857, d. 8. júlí 1900.
5. Þóranna Hannesdóttir, f. 3. febrúar 1859, d. 9. maí 1859 af „nokkurskonar bjúgi“.
6. Jóhanna Hannesdóttir vinnukona, f. 31. október 1862, á lífi 1891.
7. Guðmundína Hannesdóttir, f. 17. september 1864, d. 15. janúar 1865.
Barn Guðríðar:
8. Guðríður Jónsdóttir frá Grímshjalli, f. 24. júlí 1851, d. 13. desember 1885.
Faðir hennar Jón Jónsson meðgekk ekki.
Hún var með móður sinni og Hannesi stjúpa sínum í Grímshjalli 1860 og 1870, vinnukona í Nýborg 1880.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.