Erlingur Filippusson (grasalæknir)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Erlingur Filippusson.

Erlingur Filippusson búfræðingur, kennari, bóndi, sjómaður, grasalæknir, silfursmiður fæddist 13. desember 1873 í Kálfafellskoti í Fljótshverfi, V.-Skaft. og lést 25. janúar 1967.
Foreldrar hans voru Filippus Stefánsson búfræðingur, bóndi, silfursmiður, f. 14. september 1839, d. 7. febrúar 1909 og kona hans Þórunn Gísladóttir húsfreyja, ljósmóðir, grasalæknir, f. 15. desember 1846, d. 19. júlí 1937.

Bróðir Erlings í Eyjum var
1. Gissur Filippusson vélsmiður, f. 31. júlí 1883, drukknaði 20. janúar 1921.

Erlingur var með foreldrum sínum, lærði silfursmíði hjá föður sínum. Árið 1882 varð mikill fjárfellir og grasleysi og var afkoma fólks erfið. Þá bauð Sigurður Benediktsson í Merkinesi í Höfnum, móðurbróðir Erlings, honum til vistar. Þar var hann einn vetur. Hann dvaldi svo á Núpstað hjá Eyjólfi föðurbróður sínum í nokkra mánuði.
Sr. Páll Pálsson fyrrum prestur Fljótshverfinga, þá prestur á Þingmúla á Héraði bauð Erlingi til náms 1889-1890. Páll drukknaði á heimleið úr kaupstaðarferð haustið 1890, en hann hafði gert ráðstafanir til að Erlingur kæmist í Búnaðarskólann á Eiðum. Hann lauk náminu og varð búfræðingur 1892.
Erlingur hóf sjómennsku og reri til haustsins, en sneri þá heim að Kálfafellskoti, var farkennari á Síðu og í Fljótshverfi 1893-1894, í Álftaveri 1894-1897, en þá flutti hann austur á land, var í Skálanesi í Seyðisfirði til 1899, en 1901 hjá foreldrum sínum í Brúnavík suður af Borgarfirði eystra.
Sagt er, að Erlingur og Gissur bróðir hans hafi stundað vélfræðinám í Kaupmannahöfn 1905-1907.
Þau Kristín giftu sig 1907, eignuðust 12 börn, en misstu eitt þeirra nýfætt. Þau bjuggu á Hjalla í Eyjum.
Þau tóku við búinu í Brúnavík 1907 og bjuggu þar til 1910, en þá fluttu þau að Gilsárvöllum í Borgarfirði eystra til foreldra Kristínar.
Þau fluttu til Eyja 1912 og þar vann Erlingur að vélaviðgerðum með Gissuri bróður sínum 1913-1914, en þá flutti hann austur á Borgarfjörð til að vera formaður á báti Magnúsar svila síns um sumarið.
Þau Kristín bjuggu í Jónatanshúsi í Bakkagerði, fluttu aftur að Gilsárvöllum 1916. Á Gilsárvöllum og í Bakkagerði stundaði Erlingur fiskveiðar á eigin báti og greip öðru hvoru í smíðar og viðgerðir á vélum. Þau bjuggu í Bakkagerði til hausts 1917, er Erlingur fór til Reykjavíkur, en Kristín kom síðar með barnahópinn nema einn, sem Erlingur hafði haft með sér til Reykjavíkur.
Hann vann að vélaviðgerðum með Gissuri bróður sínum í Reykjavík, en sú atvinnustarfsemi gekk ekki. Hann var vélstjóri á togurum öðru hverju 1918-1920.
Erlingur byggði og var bóndi í Haukalandi (nýbýli) við Öskjuhlíð í Vatnsmýrinni í Reykjavík 1918-1933, stakk upp og seldi mó til eldiviðar í fyrstu, en stundaði síðan grasalækningar síðustu áratugi sína.
Hann flutti síðan að Grettisgötu 38b og þar bjuggu þau síðan.
Hann ritaði nokkrar blaðagreinar og gaf út bókina Íslenzkar nytjajurtir.
Kristín lést 1934 og Erlingur 1967.

ctr
Erlingur, Kristín og fjölskylda.

I. Kona Erlings, (9. nóvember 1907), var Kristín Jónsdóttir frá Gilsárvöllum í Borgarfirði eystra, f. 5. júlí 1881, d. 28. maí 1934.
Börn þeirra:
1. Jón Erlingsson vélstjóri, f. 25. apríl 1908, drukknaði 29. júní 1941.
2. Gissur Ólafur Erlingsson löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi, fulltrúi, loftskeytamaður, stöðvarstjóri, umdæmisstjóri, þýðandi, f. 21. mars 1909, d. 18. mars 2013.
3. Stefanía Erlingsdóttir Eyjolfsson húfreyja í Vancouver í Kanada, f. 21. apríl 1910, d. 2. október 1992.
4. Gunnþórunn Erlingsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 10. ágúst 1911, d. 12. september 1997.
5. Sveinbjörn Erlingsson vélstjóri í Reykjavík, f. 28. mars 1913 á Hjalla, d. 8. febrúar 1996.
6. Þorsteinn Erlingsson, verkstjóri í Reykjavík, f. 21. júlí 1914, d. 10. júní 2001.
7. Soffía Erlingsdóttir, f. 18. júní 1916, d. 24. júní 1916.
8. Óli Filippus Erlingsson verkamaður í Reykjavík, f. 10. júlí 1917, d. 14. desember 1954.
9. Ásta Kristín Erlingsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 12. júní 1920, d. 8. júlí 2005.
10. Soffía Erlingsdóttir húsfreyja á Helluvaði á Rangárvöllum, f. 24. september 1922, d. 16. júlí 2004.
11. Regína Magdalena Erlingsdóttir húsfreyja, verslunarmaður í Reykjavík, f. 30. september 1923, d. 20. janúar 2018.
12. Einar Sveinn Erlingsson vélstjóri, bifreiðastjóri í Reykjavík, f. 3. mars 1926, d. 12. febrúar 2014. Kona hans Hrefna Dóra Tryggvadóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Grasaættin. Niðjatal Þórunnar Gísladóttur og Filippusar Stefánssonar. Ritstjóri Franz Gíslason. Útg. Ritnefnd Grasaættarinnar. Reykjavík 2004.
  • Íslendingabók.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.