Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, III. hluti
Sumrin 1915 og 1916 varð vart við töluverða kartöflusýki í görðum í Vestmannaeyjum. Þó olli hún þá ekki tilfinnanlegu tjóni. - En sumarið 1917 keyrði alveg um þverbak í þessum efnum. Þá brást kartöfluuppskeran tilfinnanlega af þessum sökum, svo að til vandræða horfði. Þá nam kartöfluuppskera Eyjafólks ekki nema hluta af þeirri uppskeru, sem það hafði fengið á undanförnum árum.(Sjá skrá yfir kartöfluuppskeru Eyjamanna á bls. 86)
- Þá hafði heimsstyrjöldin geisað undanfarin þrjú ár og þrengt mjög kjör manna, valdið miklum erfiðleikum á marga lund. Skortur á nauðsynlegum heimilisþurftum
gjörði þá árlega mjög vart við sig, svo að vanlíðan margra hlauzt af.
Kartöflusýkin í Eyjum rýrði mjög afkomu margra heimilisfeðra þar og olli miklum áhyggjum þeim mönnum, sem báru hag byggðarlagsins fyrir brjósti. Björn H. Jónsson, skólastjóri barnaskóla Eyjabúa, skrifaði um kartöflusýkina í blaðið Skeggja haustið 1917. Þar gerði hann fólki grein fyrir sveppi þeim, sem ylli kartöflusýkinni. Hann sá helzt engin ráð önnur gegn henni en að leggja alla kartöflurækt á Heimaey til hliðar að þessu sinni og sá rófnafræi í garðana.
Skólastjóri hvetur Eyjamenn til þess að ræða þessi vandræði sín á
almennum fundi og leita ráða, og taka svo fasta ákvörðun. Hann endar grein sína með þessum orðum: „Því næst verða að koma framkvæmdir svo frekar, að þessi óþokkagestur (kartöflusýkissveppurinn) verði gerður landrækur og eignist hér ekki friðland framar, en til þess þarf öflug samtök og félagsskap. Væri það vel til fallið, að sá félagsskapur næði yfir fleira viðvíkjandi jarðræktinni hér.“
Enn var sem sé hvatt til félagsskapar í byggðarlaginu um jarðræktar- og garðræktarmálin. Og enn fengu þær tillögur enga áheyrn hjá almenningi í Eyjum.
Bjargráðanefnd, sem svo var kölluð, var þá starfandi í Eyjum á vegum hins opinbera eins og víða í hreppsfélögum landsins sökum hinna miklu erfiðleika af völdum heimsstyrjaldarinnar 1914-1918. - Eftir nokkrar vangaveltur var það
ráð tekið til bjargar kartöflurækt Eyjafólks að festa kaup á 300 tunnum af útsæðiskartöflum frá Danmörku handa Eyjamönnum, og njóta síðan umsjónar og fræðslu Einars Helgasonar, garðyrkjufræðings og ráðunauts í Reykajvík um notkun þessa útsæðis og hirðingu og eftirlit í kartöflugörðum Eyjamanna. Þessi ráð tókust mætavel, og fengu Eyjamenn um 2/3 þeirrar uppskeru haustið 1918, sem þeir
höfðu fengið að jafnaði á undanförnum árum, áður en „kartöflu- plágan mikla“ dundi yfir.
Árið 1920 fluttist Páll V. G. Kolka læknir til Vestmannaeyja og settist þar að. Hann varð þar kunnur sjúkrahússlæknir. Læknir þessi ól með sér brennandi áhuga á velferðarmálum fólksins, svo sem atvinnumálum, fræðslu- og heilbrigðismálum. - Eftir að læknirinn settist að í Eyjum, tók hann brátt að skrifa um ýmis velferðarmál Eyjamanna. M.a. skrifaði hann um mjólkurmálin þar, mjólkurskortinn í bænum og þörf á miklu meiri ræktunarframkvæmdum á Heimaey en þá áttu sér stað.
Þegar hann hafði búið í Eyjum í fjögur ár, gerðist hann einn af stofnendum Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Það var sem sé árið 1924.
Eftir 12 ára dvöl í kaupstaðnum skrifaði læknirinn grein um mjólkurmálin í byggðarlaginu á Heimaey. Sú grein vakti mikla athygli. Lækninum fannst lítið hafa munað fram á við í þeim efnum á undanförnum árum, þó að Búnaðarfélagið væri
þá búið að starfa í 8 ár. - Þó viðurkenndi læknirinn í skrifum sínum, að ýmislegt hefði miðað vel fram á við í ræktunarframkvæmdum og störfum búnaðarfélagsstjórnarinnar síðan Búnaðarfélagið var stofnað. En margt sat þar líka enn við sama gamla heygarðshornið, t.d. dreifing mjólkurinnar til kaupendanna, heilbrigðiseftirlit, meðferð mjólkurinnar, hreinlætiseftirlit o.m.fl. Ekkert af þessu átti sér stað eða var framkvæmt í byggðarlaginu.
Ekki er ófróðlegt að lesa þessi skrif læknisins og íhuga þau. Þau eru líka sálfræðilegs efnis.
Hann segir þar: „Menn eru margir þannig gerðir hér, að ef þeir eiga eina belju og áttunda part í bát, þótt hann sé allur í skuld, þá þykjast þeir vera kapitalistar og sjálfum sér nógir og finnst það hinn mesti óþarfi að hafa samtök við þá, sem líkt er ástatt fyrir. Þess vegna byggir hver sér fjós og hlöðu fyrir sína eigin belju, og er þessum stórhýsum dreift um allan bæ til skrauts og prýði. Á sumrin rekur hver og einn sér sína einu belju suður fyrir Fell eða inn í Dal og sækir hana aftur að kvöldi.
Bændurnir fyrir ofan hraun rorra hver með sína mjólk daglega niður í bæinn og flytja hana heim í húsin til kaupendanna. Niðurstaðan af þessu samtakaleysi er sú, að það fer heilt dagsverk í það að þjóna einni eða tveimur beljum, nema á stærri búunum. Með þessu verður mjólkurframleiðslan óeðlilega dýr og lendir það bæði á kaupanda og seljanda. Mjólkurframleiðendur hér fá hærra verð fyrir mjólk sína en nokkurir aðrir bændur á landinu, en eru samt engu betur staddir, því að kostnaðurinn á hverja kú er hærri hér en nokkurs staðar annars staðar.
Þrátt fyrir hátt mjólkurverð, hafa kaupendur enga tryggingu fyrir því að fá góða og ósvikna vöru fyrir peninga sína aðra en þá, sem felst í persónulegu trausti á seljandanum. Hér er ekkert eftirlit með sölu mjólkur eða annarra matvæla, því að heilbrigðisnefnd, sem þetta heyrir undir, virðist skoða sig sjálfa frekar til stáss en til starfs, og er þó vissulega til hennar vandað, þar sem tveir helztu embættismennirnir í bænum eiga sæti í henni. Auk þess hefur bærinn fastráðinn heilbrigðisfulltrúa, sem aðallega á að líta eftir því, að ákvæðum heilbrigðisreglugerðarinnar sé fylgt, en hann kvartar jafnaðarlega undan því, að hann fái enga áheyrn hjá nefndinni með kærur sínar.
Þar sem seld er mjólk úr 200-300 kúm án þess að nokkurt opinbert eftirlit sé haft með kúnum, fjósunum eða meðferð mjólkurinnar, þá gefur það að skilja, að almenningur á það á hættu, að mjólkin geti verið úr berklaveikum kúm eða smituð af berklum á heimili mjólkurframleiðendanna, ennfremur að hún geti verið svikin, óhrein eða á annan hátt ekki sæmileg vara. Ég segi þetta ekki til þess að vekja tortryggni á neinum þeim, sem hér eiga hlut að máli, því að skoðun mín er sú, að á þessu beri miklu minna en við mætti búast, heldur til að benda á þá hættu, sem ekkert er gert til að afstýra.
Hin mörgu smáfjós með tilheyrandi haugum um allan bæ, eru mesta óhæfa. Að réttu lagi væri mátulegt að hafa hér aðeins tvö fjós fyrir 150-200 kýr hvort, annað austur á Kirkjubæ en hitt fyrir ofan Hraun, og 2-3 mjólkurútsölustaði niðri í bænum. Þetta fyrirkomulag væri, þegar til lengdar léti, ódýrara en hið núverandi og gæfi auk þess fullkomna tryggingu fyrir góðri og heilnæmri mjólk. Með því móti væri einnig hægt að koma við nauðsynlegum kynbótum á kúnum, en hvergi er jafnmikill munur á gagnsemi skepna sömu tegundar eins og góðrar kýr og ónýtrar.
Ég geri nú ekki ráð fyrir, að svo róttæk breyting sem þessi, komist á í bráðina. En núverandi ástand er óþolandi og verður að breytast í rétta átt. Hið fyrsta, sem þarf að gera, er að innleiða berklarannsóknir á kúnum, heilbrigðiseftirlit með fjósunum og meðferð mjólkurinnar og koma upp 2-3 útsölustöðum, sem öll sú mjólk, sem seld er í bænum, fari í gegnum. Yrði þar hægt að hafa eftirlit með, að mjólkin væri hrein og ósvikin.......
Annars er mjólkurframleiðslan alls ekki of mikil, því að hér þyrfti að réttu lagi 400 kýr, ef mjólk, hin ágæta og holla fæða, væri notuð eins og vert er í staðinn fyrir kaffisullið, sem allt of mikið er drukkið af.“
Þetta var þá „mjólkurhugvekja“ Kolka læknis 1932. Efni hennar er rétt og sannsögulegt og sannar okkur, hversu mörgu var ábótavant hjá Eyjamönnum á þessum árum og gamlir hættir steinrunnir.
Skrif Kolka læknis höfðu þá sín áhrif og vöktu menn til íhugunar. Um árabil hafði óskiljanlegur kúadauði átt sér stað í Eyjum. Kýr lágu dauðar á bás sínum, þegar í fjós var komið að morgni. Hvað olli? Það vissi enginn enn. Engin rannsókn hafði farið fram á þessu fyrirbrigði. Eftir þessi skrif læknisins
skaut þeirri hugmynd upp, að nauðsynlegt væri að ráða dýralækni til starfa í Eyjum til lengri eða skemmri tíma. Gæti hann þá rannsakað hinn óeðlilega mikla kúadauða, rannsakað mjólkurgæði og beitt áhrifum sínum til aukins hreinlætis í fjósum Eyjamanna.
Og enn liðu fimm ár án sérlegra breytinga á ræktunarmálum Eyjamanna. Hver og einn baukaði við sín ræktunarstörf á graslendi og í görðum með gömlu, þjóðlegu tækjunum, erfiðu og seinvirku, án þess að gefa nokkurn kost á þátttöku í einhverjum samtökum til að bæta vinnubrögðin og auka framleiðsluna, hvort sem það var mjólk eða garðávextir.
Árið 1923 samþykkti alþingi hin merku Jarðræktarlög, sem mörkuðu strax mikilvæg og markverð spor fram á við í öllum ræktunarframkvæmdum þjóðarinnar í heild
og þá líka í Vestmannaeyjum.
Með Jarðræktarlögunum var afráðið, að atvinnumálaráðneytið hefði á hendi æðstu stjórn allra ræktunarmála í landinu. Búnaðarfélag Íslands skyldi svo vera ráðuneytinu hin hægri höndin um þessi mál öll. Samkvæmt lögum þessum skyldi veita styrk til ræktunarframkvæmda, og hafði Búnaðarfélag Íslands umsjón með þeim. Ráðunautar þess og trúnaðarmenn skyldu meta, mæla og dæma þær ræktunarframkvæmdir, sem njóta skyldu styrks úr ríkissjóði.
Þá er tekið fram í Jarðræktarlögunum, að bæjarstjórnir í kaupstöðum landsins og hreppsnefndir í kauptúnum beri að senda Búnaðarfélagi Íslands skýrslur eða greinargerðir um land það, sem að áliti þeirra liggi bezt við til ræktunar innan takmarka kaupstaðarins eða kauptúnsins, nema byggingarframkvæmdir séu fyrirsjáanlegar á landinu. - Þegar kirkjujörð eða þjóðjörð lá að landi kauptúns eða kaupstaðar, náðu þessi ákvæði einnig til hennar.
Þessi síðustu ákvæði jarðræktarlaganna, sem ég nú nefndi, voru Vestmannaeyingum verulega hagkvæm, þar sem ríkið átti allar Eyjarnar og þá auðvitað allt hið ræktanlega land á Heimaey, þó að það væri þá allt leigt bændum þar til lífstíðar samkvæmt fornu fari. Í þessum efnum hlaut því ríkisvaldið að láta til sín taka, þegar á reyndi, og liðka mál þetta fram til sigurs, þurrabúðarfólkinu í vil. Ella yrði ekki um neinar teljandi ræktunarframkvæmdir að ræða í Vestmannaeyjum.
Þá er rétt að geta þeirra ákvæða í Jarðræktarlögunum, að hver sá, sem njóta vill styrks af opinberu fé til jarðræktarframkvæmda eða mannvirkjagerðar á þessu sviði, skal vera félagsmaður í búnaðarfélagi hrepps eða bæjar. Þá er það einnig tekið fram í lögum þessum, að hreppabúnaðarfélögin njóti styrks úr opinberum sjóðum til verkfærakaupa, enda heitir sá sjóður Verkfærakaupasjóður. Þegar svo var komið þessum málum, gaf það auga leið, að Vestmannaeyingar urðu að stofna búnaðarfélag í kaupstaðnum til þess að hrinda í framkvæmd margskyns framfaramálum í landbúnaði Eyjamanna og njóta til þess styrks af opinberu fé.
Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað 24. maí 1924. Þessi félagsskapur markaði síðan veigamikil spor fram á við í ræktunarmálum Vestmannaeyjabyggðar, svo að fá
samtök hafa skilað þar drýgri arði til heilla öllum almenningi í bænum en þessi búnaðarsamtök.
Aðeins 14 menn stóðu að stofnun Búnaðarfélags Vestmannaeyja árið 1924. Þar af voru 2 bændur. - Þessir voru stofnendur félagsins:
Páll Bjarnason, fyrrv. ritstjóri Skeggja, þá orðinn skólastjóri barnaskóla bæjarins; Páll V. G. Kolka, læknir; sr. Sigurjón Þ. Árnason, sóknarprestur að Ofanleiti; Guðmundur Sigurðsson, verkstjóri, Heiðardal; Sigurður Sigurðsson skáld frá Arnarholti, lyfsali; Erlendur Árnason, smiður, Gilsbakka; Jón Guðmundsson, bóndi, Suðurgarði; Bjarni Jónsson, gjaldkeri, Svalbarði; Guðjón Jónsson, skipstjóri, Heiði; Steinn Sigurðsson, klæðskeri, Ingólfshvoli; Þorbjörn Guðjónsson, bóndi, Kirkjubæ; Símon Egilsson, útgerðarmaður, Miðey; Einar Símonarson, útgerðarmaður, London; Jón Gíslason, útgerðarmaður að Ármótum við Skólaveg.
Strax völdust þarna mætir menn og dugnaðarforkar til forustu og létu strax mikið að sér kveða í erfiðri aðstöðu á ýmsa lund. Fyrsti formaður Búnaðarfélags
Vestmannaeyja var Guðmundur verkstjóri í Heiðardal. Ritari fyrstu búnaðarfélagsstjórnarinnar var Páll Bjarnason, skólastjóri. Gjaldkeri stjórnarinnar og samtakanna var Þorbjörn Guðjónsson, bóndi, og meðstjórnendurnir: Séra Sigurjón Þ. Árnason, sóknarprestur, og Jón Gíslason, útgerðarmaður. Þannig skiptu stjórnarmennirnir með sér verkum samkvæmt fimmtu
grein félagslaganna.
eins og þau voru samþykkt á 2. stofnfundi þess 11. nóvember 1924:
- gr. Félagið heitir Búnaðarfélag Vestmannaeyja.
- gr. Tilgangur félagsins er að efla jarðrækt og aðrar framfarir í landbúnaði í Vestmannaeyjum með samtökum og aukinni þekkingu í þeim efnum.
- gr. Félagsmaður getur hver sá orðið, karl eða kona, sem vill sinna viðfangsefnum félagsins. Árstillag fyrir hvern félagsmann er kr. 10,00 - tíu krónur, - og greiðist fyrir 1. júní ár hvert. Reikningar félagsins skulu gerðir upp fyrir hver áramót.
- gr. Félagið heldur aðalfund í janúarmánuði ár hvert. Þá skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar fyrir umliðið ár til samþykktar. Þá er og kosin stjórn félagsins og tveir endurskoðendur. Aðalfundur er lögmætur, ef 2/3 félagsmanna mæta. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður úrslitum, nema við lagabreytingar. Þá þarf 3/5 atkvæða. Aukafund skal halda svo oft, sem stjórn félagsins telur nauðsynlegt.
- gr. Í stjórn félagsins skal kosin fimm manna nefnd á hverjum aðalfundi. Nefndin skiptir sjálf störfum með sér og kýs úr sínum hópi formann, ritara og gjaldkera, en tveir eru meðstjórnendur.
- gr. Sjóði félagsins skal aðeins varið til að standast nauðsynlegan kostnað við rekstur félagsins og styrkja tilraunir, ef ástæður þykja til, svo og að afla félaginu nauðsynlegra upplýsinga í starfi þess. Sjóði félagsins má aldrei verja til neinnar kaupsýslu.
- gr. Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi og þarf til þess 3/5 atkvæða þeirra, sem á fundi eru.
Þá er rétt að geta þess, að búnaðarfélagsstjórnin naut fyllsta stuðnings bæjarfógetans í kaupstaðnum, Kristjáns Linnets, en það var stjórninni mikill fengur sökum þess, að nú þurfti að sækja á um það, að fá mikið ræktunarland á Heimaey leyst úr leiguböndum bænda, sem töldu sig hafa þar óskoraðan rétt á öllu landi samkvæmt byggingarbréfunum. Hér þurfti að leysa bönd, sem umboðsmaður ríkisins, bæjarfógetinn, gat orkað á, svo að leystust giftusamlega.
Stjórn hins nýstofnaða Búnaðarfélags Vestmannaeyja leitaði fljótlega samvinnu við Búnaðarfélag Íslands um öll réttindi til handa félögum sínum, sem æsktu þess að fá land til ræktunar en gátu að svo komnu máli ekki fengið það.
Sumarið 1924 sendi Búnaðarfélag Íslands til Eyja einn af ráðunautum sínum, Methúsalem Stefánsson, til þess að kynna sér ræktunaraðstöðu alla þar, og hvernig leysa mætti hnútana á hagkvæmastan hátt. Nokkrum vikum eftir dvöl sína í
Eyjum skrifaði hann Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarfélagi Vestmannaeyja bréf, þar sem hann gerir grein fyrir ferð sinni til Eyja og viðhorfum sínum til ræktunarmála þar. Margan fróðleik hafði þetta bréf að færa ráðandi mönnum um málefni þessi, svo að ég leyfi mér að birta hér töluverðan hluta þess, þar
sem mér hefur orðið lán það léð að eignast það.
- Búnaðarfélag Íslands,
- Lækjargötu 14, Reykjavík.
- Gróðrarstöðin í Reykjavík.
- Reykjavík, 8. sept. 1924.
Um miðjan júlí s.l. kom ég til Vestmannaeyja eftir beiðni þaðan til þess að auka mætti þar túnræktina og skapa þannig skilyrði fyrir auknu kúahaldi og mjólkurframleiðslu, sem nú skortir mikið á, að sé fullnægjandi. Meðan ég stóð við í Eyjum, fór ég um túnin og kring um Helgafell með hr. skólastjóra Páli Bjarnasyni.
Túnin bera með sér, að túnræktarskilyrði eru góð í Eyjunum, enda er aðstaða að því leyti betri þar en víða annars staðar, að því nær óþrjótandi sjávarfang berst þar á land árlega með aflanum, og reynslan þar og annars staðar hefur sýnt, að það kemur að ágætu gagni við grasræktina. Eflaust á þessi áburður sinn þátt í því að tún eru betri í Vestmannaeyjum, en annars staðar á landinu, og það svo að um munar, ef treysta má Hagskýrslunum. Eftir þeim hefur meðal töðufengur yfir allt landið ekki náð 30 hestburðum (á 80 kg) af hektara að meðaltali árin 1920-1922, en í Vestmannaeyjum hefur hann þessi 3 árin verið að meðaltali 71 hestburður af ha. Þetta skyldi vel athugað, áður en menn hætta að nota fiskifangið til áburðar sakir flutningskostnaðar, enda þótt túnin færðust út og fjær með aukinni ræktun.
Kringum Helgafell er enn mikið land óræktað, og býst ég við, að allmikið af því sé ekki öllu ver fallið til ræktunar, en sumt af því, sem þegar er ræktað.
Með tímanum og helzt sem allra fyrst á að taka allt þetta land til ræktunar, slægna og beitar og byggja á þeirri reynslu, sem fengin er um túnrækt í Eyjunum.
Þetta er að vísu beitiland, og þeir, sem beitarréttinn hafa, vilja vitanlega ógjarnan gefa hann eftir. En það hlýtur að liggja öllum í augum uppi, að með því að rækta landið, þá gefur það meira af sér en nú gerir það. Og möguleikar opnast til þess að hafa fleiri kýr og meiri mjólkurframleiðslu. Allir þeir, sem í Eyjunum búa, munu finna þörfina á þessu. Enda er það svo, ef miðað er við mannfjölda árið 1920 en nautgripahald 1922, þá er yfir land allt sem næst 5,3 menn um hverja mjólkurkú (kýr og kelfdar kvígur), en í Vestmannaeyjum eru um 17
manns um hverja mjólkurkú, - meira en 4 á hverjum spena. - Þótt gert sé ráð fyrir, að allur nautpeningur í Eyjunum sé mjólkandi. En væri það ekki nema 2/3 nautgripanna þar, eins og nærri lætur fyrir landið allt, þá verða rösklega 6
menn á hverjum spena, og auk þess allt vertíðarfólkið.
.......
Ég býst við, að engum blandist hugur um, að meira beri að rækta til slægna; beitilandsrækt eru menn svo óvanir hér á landi, að mörgum mun finnast fjarstæða að tala um hana. En hér finnst mér allt mæla með henni: Lítið landrými, tilfinnanlegur mjólkurskortur, góð ræktunarskilyrði samfara reynslu um ágætan árangur túnræktar, meiri hagnaðar og heilsubót fyrir menn og skepnur. - Og eins og hér stendur á, býst ég við, að litið verði svo á samkv. Jarðræktarlögunum, að menn verði að láta landið af hendi, þeir sem beitarréttinn hafa, og ræktanlega landinu verði skipt í skákir til ræktunar.
........
Mér var sagt, að svo miklir örðugleikar og kostnaður væri því samfara að koma sjávarfanginu á ræktunarlandið, að nærri væri frágangssök að nota það til áburðar. Nokkuð kann að vera hæft í þessu. En ég vil þó benda á það, sem ég hefi áður tekið fram um túnin í Eyjunum og töðufallið og sjávarfangið í því sambandi. En til þess að draga úr örðugleikunum og svo alls hagræðis vegna, er nauðsynlegt að leggja vegi um landið, og það með allri hagsýni. Það mætti virðast ekki ósennilegt, að landsdrottinn, - ríkið, - vildi leggja aðal stofnvegina, en einstaklingarnir legðu vegi til sinna sérþarfa eða bærinn. Mönnum til leiðbeiningar og hvatningar í öllu þessu máli er nauðsyn á öflugu jarðræktarfélagi, er hafi áhugasama og dugandi stjórn, - og félagið er til. Ætti það m.a. að beita áhrifum sínum að því, að útvega mönnum hagkvæm jarðræktarlán.
Ég hefi nú í stuttu máli bent á og rökstutt nokkuð þá stefnu, sem mér
sýnist heppilegust í túnræktarmálum Eyjaskeggja og vænti þess, að þetta verði tekið til rækilegrar athugunar á fundi í Eyjunum. En um ræktunaraðferðirnar ræði ég ekki, enda er ekki tímabært að gefa leiðbeiningar, fyrr en búið er að skipta landinu í skákir, athuga staðhættina í heild sinni betur en ég gat gert, og svo ákveða skipulagsgrundvöllinn a.m.k. í aðalatriðum. - En eflaust má treysta því, að Búnaðarfélag Íslands liðsinni að þessu leyti eftir beztu föngum, þegar til framkvæmdanna kemur.
- Virðingarfyllst
- M. Stefánsson (sign)
Dropinn holar steininn, segir máltækið. - Óneitanlega höfðu ummæli þekktra og mikilsvirtra manna í ræktunar- og landbúnaðarmálum landsmanna áhrif á Eyjabændur og vöktu þá til íhugunar og ályktana um framtíð og gildi aukinnar ræktunar á Heimaey, vaxandi mjólkurframleiðslu og öryggi um heilsufar fólksins. Fullyrða má, að þeir skiptust fljótlega í tvo hópa, þegar til mála kom að gefa eftir réttinn á landinu og láta skipta því í ræktunarskákir almenningi til afnota. Búnaðarfélagsstjórnin stefndi hér einhuga og óskipt að settu marki, en þó kaus hún umfram flest, að mál þetta yrði leyst í friði og vinsemd, ef þess yrði nokkur kostur, öllum til farsældar. Ekki skyldi rasað um ráð fram. Nokkur frestur var hér á öllu beztur, þó að áróðri yrði beitt og stefnt fast að settu marki.
Og ár leið án sérlegra tíðinda.
Sumarið 1925 beitti stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja sér fyrir því, að Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri, tæki sér ferð á hendur til Eyja til þess að kynna sér alla aðstöðu þar til jarðræktar og aukinnar mjólkurframleiðslu. Búnaðarmálastjóri brást vel við þessari beiðni búnaðarfélagsstjórnarinnar og kom til Eyja um haustið. Hann dvaldist síðan eina viku í kaupstaðnum og kynnti sér alla aðstöðu til framtaks og dáða í þessum veigamiklu framfaramálum Vestmannaeyinga.
Árið eftir, eða 1926, birti búnaðarmálastjóri langa ritgerð um þessa ferð sína til Eyja og kemur þar víða við. Hér er ekki rúm til að endurprenta nema nokkur atriði úr ritgerð hans, sem hann birti í Búnaðarritinu, 40. árgangi. Einnig var
þessi merka ritgerð sérprentuð. -Þarna segir búnaðarmálastjóri m.a.:
„Mannfjöldinn í Vestmannaeyjum hefur meir en fimmfaldast síðan um aldamót. Búsafurðir hafa að vísu aukizt, en eigi að sama skapi. Sumar búsafurðir, einkum mjólk, hafa ætíð verið hér af skornum skammti, og með ári hverju verður sá skortur tilfinnanlegri. Vestmannaeyingar eru starfsmenn miklir, hafa enda oft stranga og hættulega vinnu, þar sem reynir á dáð og dug. Þessir menn þurfa
holla og kjarngóða fæðu, einkum hin unga og uppvaxandi kynslóð, eigi hún ekki að standa að baki feðrum sínum. -
Holl og kjarnmikil fæða fæst með samblandi fæðuefna úr jurta- og dýraríkinu. - Í Vestmannaeyjum er gott til fiskifanga. Kjötskortur er þar eigi tilfinnanlegur. Töluvert er framleitt af kjöti. Fuglatekjan bætir í búið, og af landi er hægt að kaupa kjöt eftir þörfum. Það, sem aðallega skortir, er mjólk og garðávextir.
........
Allt ber að sama brunni. Það er knýjandi þörf á því, að túnin í Vestmannaeyjum séu stækkuð og garðarnir auknir. Með öðrum orðum, að Eyjarnar séu ræktaðar sem bezt, og skal það nú nánar athugað ...“
Síðan ræðir búnaðarmálstjóri um ræktunarmöguleikana á Heimaey. Og hann spyr: „Er ráðlegt að rækta alla Heimaey?“ Og hann svarar: „Já, það hyggjum vér að undanteknum fjöllunum og hrauninu, þar sem það er hrjóstugast. En til þess að þetta sé framkvæmanlegt, þarf að leggja veg um Eyna.
Þess er áður getið, að mest af hinu ræktanlega landi er auðunnið. Það sem mestu máli skiptir er að hafa nægan áburð. Hvergi á landinu er aðstaðan betri í þessu efni en í Vestmannaeyjum. Þar tilfellst afarmikið af fiskúrgangi, sem er ágætis áburður. Mikið af þessu hefur verið notað til áburðar og gefizt vel.
Þá er það salernisáburðurinn ... Ef þessi áburður væri vel hirtur, ætti hann einn að nægja til áburðar á 75 ha. af nýyrktu landi árlega, svo að það gæti komizt í góða rækt. Af þessu er augljóst, að næg áburðarefni eru fyrir hendi, aðeins að þau séu hirt og hagnýtt ... Þeir, sem unnið hafa að ræktun í Eyjum á
undanförnum árum, eru annað tveggja bændurnir eða kaupstaðarbúar ... Hverri jörð fylgja viss hlunnindi, fugla - og eggjatekja, reki og hagbeit. Í heimalandi skal hver bóndi hafa beit fyrir einn hest, eina kú og 12 kindur. Auk þess hagbeit í úteyjum En er fólki fer að fjölga í Eyjunum, þá fara þurrabúðarmenn að rækta, venjulega í skjóli einhvers leiguliða. Að síðustu er farið að taka land til ræktunar án þess að leiguliðar séu spurðir, og búpeningur þessara manna gengur að ósekju í högum almennings. Þetta hefur verið liðið átölulaust til þessa.
Nú vaknar sú spurning, hverjir hafi rétt til hins ræktanlega lands í Eyjunum? Eru það bændurnir einir, eða eru það einnig þurrabúðarmenn, sem hafa löngun, vilja og kraft til þess? - Vér látum þessu ósvarað. Þeir, sem hafa haft umsjón með Eyjunum, vita það að sjálfsögðu og úrskurða það.
Sem sakir standa nú í Vestmannaeyjum er umráðaréttur yfir hinu óræktaða landi næsta óviss. Bændurnir telja sig eiga hann samkvæmt byggingarbréfum þeirra, en
hvar og hve mikið land hver og einn má taka til ræktunar, er í óvissu.
Aðalatriðið í þesu máli er, að umráðaréttur yfir landi á Heimaey sé ákveðinn eftir vissum reglum, svo að hver og einn hafi að vissu að ganga. Þá mun ræktuninni miða fljótt áfram.....Eitt og annað, sem til umbóta horfir, hefur áður verið nefnt. Vér skulum þó að síðustu í stuttu máli leyfa oss að leggja til:
- Að sauðfénaður verði enginn hafður á Heimaey og hestaeign verði takmörkuð.
- Að akfær vegur verði lagður suður í Stórhöfða og kringum Helgafell.
- Að hverju býli á eynni verði mæld út ákveðin spilda til ræktunar og beitar...
- Að kaupstaðarbúum sé gefinn kostur á landi til ræktunar, 1-2 ha. stórar skákir.
- Að sambeit sé engin á Heimaey. Hver hafi sína skepnu á því landi, sem hann fær til umráða.
- Þeir, sem nú hafa tekið tún til ræktunar, fái útmælt hæfilega stórt beitiland.
- Mönnum sé gefinn kostur á að fá land til garðræktar, eftir því sem ástæður eru til.“
Þá hefi ég skráð hér nokkurn útdrátt úr hinni merku grein búnaðarmálastjóra, eftir að hann hafði kynnt sér landgæði til ræktunar á Heimaey, svo sem jarðveg og legu landsins. Þá kynnti hann sér einnig ábúðarétt bænda þar og leiguliðasamninga við landsdrottin, sjálft ríkið.
Óneitanlega hafði afstaða búnaðarmálastjóra, Sigurðar Sigurðssonar, til jarðræktarmálanna í Eyjum mikil áhrif á hug og hjarta Eyjafólks, ef ég mætti komast þannig að orði, - og þá ekki sízt bændurna og búalið, sem ekki vissi annað sannara og réttara, en að Eyjabændur hefðu óskoraðan rétt til valds og ráða yfir öllu landi á Heimaey, láglendi, hæðum og fjöllum.
Þó er mér persónulega þessi skilningur þeirra á réttinum mikla hulin ráðgáta. Ástæðan er sú, að ég hefi í hendi mér byggingarbréf annars bóndans í Þórlaugargerði, dag- og ársett 1. febr. 1905. Þá var Jón Magnússon sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann byggir bóndanum Jóni Péturssyni, Eystra-Þórlaugargerðið.
Þegar þessi mál voru öll í deiglunni í Eyjum, var Kristján Linnet bæjarfógeti þar og umboðsmaður ríkisins gagnvart bændum. Bæjarfógetinn var mjðg hlynntur því, að land Heimaeyjar yrði allt mælt og „þurrabúðarmönnum“ gefinn kostur á landi til ræktunar í mun stærra mæli en áður hafði átt sér stað. Ekki verður annað sagt, en að áhrif þessa embættismanns reyndust mikilvæg gagnvart landsdrottni og tillögur hans teknar til greina. Stjórn Búnaðarfélags
Vestmannaeyja hafði nána samvinnu við bæjarfógeta í málum þessum.
Þróun þessara mála varð mjög hagkvæm almenningi í Eyjum.
Heimsókn búnaðarmálastjóra til Eyja árið 1925 leiddi til samkomulags milli Eyjabænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Bændurnir gátu á það fallizt, að allt land Heimaeyjar, sem til mála kæmi að rækta, yrði mælt upp og því skipt milli bænda og þurrabúðarmanna til ræktunar samkvæmt tillögum málsmetandi manna og búlærðra að vel athuguðu máli.
Þegar þeir samningar voru orðnir að veruleika, var Pálmi Einarsson, ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, sendur til Eyja til þess að mæla allt láglendi Heimaeyjar og skipta þar ræktanlegu landi í skákir af vissri stærð.
Þegar ráðunauturinn hafði lokið því verki, skrifaði hann greinargerð um ræktunarmál Eyjamanna, skiptingu landsins milli jarðabænda og hinna væntanlegu jarðræktarmanna annarra, „þurrabúðarmannanna“. Greinargerð þessa kallaði hann „Útmælingu og ræktun Heimaeyjar“. Þar segir meðal annars: „Ræktað graslendi á Heimaey er 108 ha. Á öðru landi á Heimaey má koma við meira eða minna gagngerðum jarðræktarbótum á 525 ha. Af því landi er gróið mólendi 264 ha. Hið annað land er hraun, sandar og melar.
Þá fá þurrabúðarmenn í Vestmannaeyjum land samkvæmt sérstökum leigusamningum ...“
........
Ráðunauturinn endar ritgerð sína á þessum hvatningarorðum til Vestmannaeyinga:
„Vestmannaeyingar! Hjá ykkur eru nú að alast upp um 690 börn innan 9 ára aldurs. Með aukinni mjólkurframleiðslu tryggið þið einn þáttinn í heilbrigðu uppeldi þeirra. Þess er vert að minnast, þótt slíkt geti eigi orðið talið í krónum og aurum þegar í stað. Ræktun landsins í Vestmannaeyjum er því ekki eingöngu hagsmunamál einstaklinga, það er velferðarmál, er varðar alla hugsandi íbúa Eyjanna. Gagnvart framtíð þess héraðs er það mikið verkefni og göfugt, sem er nauðsyn að hrinda í framkvæmd.
Má og eflaust treysta því, að þeir sem ráða fyrir almennum bæjarmálum og svo þeir, sem eru leiðandi menn í uppeldis- og heilbrigðismálum í Eyjum, vilji veita ræktunarmálinu fylgi sitt og bera það fram til farsælla lykta.
- Reykjavík, 30. maí 1927
- Pálmi Einarsson“