Blik 1969/Guðmundur á Háeyri áttræður
Hinn 14. okt. s.1. haust varð einn af kunnustu borgurum þessa bæjar 80 ára. Það er Guðmundur Jónsson skipasmiður á Háeyri við Vesturveg.
Guðmundur Jónsson á sér markverða sögu, sem er nátengd útgerðarsögu Vestmannaeyja. Saga hans er snar þáttur í sjósókn, og þá ekki sízt í báta- og skipasmíðum Eyjamanna frá því laust eftir aldamótin síðustu.
Guðmundur Jónsson fæddist að Framnesi í Hraunshverfi við Eyrarbakka 1888. Foreldrar hans voru hjónin Jón Guðmundson og Ingibjörg Jónsdóttir. Þau hjón eignuðust 17 börn, 10 syni og 7 dætur.
Guðmundur ólst upp við sjómennsku frá blautu barnsbeini. Tvítugur að aldrei (1908) fluttist hann hingað til Vestmannaeyja og gerðist bæði bátasmiður og sjómaður hér í sveitarfélaginu. Jafnframt átti hann því 60 ára búsetuafmæli hér. Ekki hafði hann dvalizt hér lengi, er hann gerðist útgerðarmaður, eignaðist hlut í vélbát og var formaður hans. Hann eignaðist hlut í v/b Olgu haustið 1908 og var með hana fyrstu vetrarvertíðina, þ. e. 1909. Síðan var Guðmundur á Háeyri formaður eða skipstjóri, eins og það er nú orðað, í 29 vetrarvertíðir hér. Jafnframt stundaði hann smíðar á sumrum, og þá sérstaklega bátasmíðar.
Eins og flestum er kunnugt, sem bera skyn á sögu byggðarlagsins, þá voru flestir fyrstu vélbátarnir hér keyptir frá Friðrikssundi í Danmörku.
Árið 1909 fluttist hingað danskur maður frá Friðrikssundi, skipasmíðameistari. Sá hét Jens Andersen, bróðir Péturs heitins Andersen, útgerðarmanns og formanns að Sólbakka hér við Hásteinsveg (nr. 3).
Fyrst í stað vann Guðmundur að bátasmíðunum undir stjórn hins danska skipasmíðameistara og lærði þá mikið af honum. Þeir smíðuðu Trausta, sem legið hefur í fjörunni á Hánefsstaðaeyrum í Seyðisfirði eystra um tugi ára.
Nokkru seinna tóku þeir að smíða báta í sameiningu, Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ og Guðmundur á Háeyri. Taldist þá Ástgeir skipasmíðameistarinn fyrst í stað. T. d. smíðuðu þeir v/b Enok o. fl. vélbáta.
Árið 1915 eða þar um bil stofnaði maður nokkur hér til atvinnureksturs og útgerðar. Sá hét Sigurgeir Torfason. Hann lét smíða hér þrjá vélbáta og greiddi með peningum, sem honum hafði áskotnazt, áður en bannlögin gengu í gildi (1915).
Þessa þrjá vélbáta smíðaði Guðmundur Jónsson á Háeyri fyrir þennan nýja útgerðarmann. Þeir voru smíðaðir undir Skiphellum.
Vélbátar þessir hlutu nöfn eiginkonu Sigurgeirs Torfasonar og tveggja dætra hans: v/b Helga, v/b Silla og v/b Lára. Ég minnist vélb. Helgu. Hann var notaður hér um árabil við uppskipun á vörum, notaður til að draga uppskipunarbáta utan af Vík frá vöruflutningaskipum þar, áður en millilanda- og vöruflutningaskip gátu lagzt að bryggju í Vestmannaeyjum. Helga var rúmlega 10 smálestir.
Skipstjóri á bát þessum við vöruflutningana var Eiríkur fyrrv. skipstjóri Jónsson, síðar kaupmaður hér í bæ. Þetta var á árunum 1930-1941. Þá áttu bátinn Tómas M. Guðjónsson og Gunnar Ólafsson. Hinir bátarnir, Silla og Lára, voru báðir seldir til Eyrarbakka.
Síðar smíðaði svo Guðmundur v/b Ingólf fyrir Svein Jónsson, útgerðarmann og skipstjóra á Landamótum.
Eins og ég gat um, þá stundaði Guðmundur Jónsson bátasmíðarnar á sumrin og haustin en sótti sjóinn á vetrum. Svo var það um tugi ára. Alls var hann hér vélbátaformaður eða skipstjóri 29 vetrarvertíðir.
Um árabil vann Guðmundur við bátaviðgerðir og skipasmíðar hjá Gunnari M. Jónssyni, skipasmíðameistara, bróður sínum.
Árið 1941, er Ársæll Sveinsson á Fögrubrekku tók að starfrækja skipasmíðastöð sína í Skildingafjöru, Skipasmíðastöð Vestmannaeyja, gerðist Guðmundur starfsmaður hans. Fyrstu 8 eða 9 árin vann hann þar undir stjórn Runólfs Jóhannssonar skipasmíðameistara, sem stjórnaði þar verkum til ársins 1951. Það ár réðst Guðmundur Jónsson yfirskipasmiður þessarar skipasmíðastöðvar og hafði það verk á hendi til ársins 1962 eða þar til skipasmíðastöðin var leigð hlutafélaginu Skipaviðgerðum, sem starfrækír hana enn.
Árið 1911 kvæntist Guðmundur Jónsson Jónínu Steinunni Sigurðardóttur, dóttur Sigurðar húsasmiðs Sveinssonar í Nýborg og konu hans, Þórönnu ljósmóður.
Giftingarárið sitt byggðu ungu hjónin sér íbúðarhúsið Háeyri við Vesturveg hér í bæ. Þar hafa þau búið síðan. Þeim hefur orðið 6 barna auðið. Blik árnar þeim allra heilla.
- KVÆÐI
- KVÆÐI
ort til Guðmundar Jónssonar á Háeyri, er hann var áttræður
- Margt er um „Gvend hinn góða“ skrifað.
- Greinilegt er hann hefur lifað
- öðrum fremur en sjálfum sér.
- Okkar samtíðar annar Gvendur
- er við Háeyri jafnan kenndur,
- einkenni hins í ýmsu ber.
- Gvendur sá er að góðu kynntur,
- góðu málefni hverju hlynntur,
- lipur til verka og lundin hress.
- Leiðbeindi þeim, sem lítið kunnu,
- létti' á þeim, sem honum unnu;
- ég hefi lengi þekkt til þess.
- Nú er hann orðinn næsta roskinn;
- nú er dofnaður líkamsþorstinn;
- að hætta slitvinnu meira en mál.
- Þótt skrokkinn hafi hann skemmt með striti,
- sem skæla hvern meðal járnkarl hlyti,
- ennþá er furðu ung hans sál.
---
- Sótti hvorki um brauð né biskupsstóla,
- bar sig vel á hverju sem að gekk,
- en með sæmd í lífsins langa skóla
- lauk hann prófi upp úr hverjum bekk.