Blik 1967/Leiklistarsaga Vestmannaeyja 3. kafli, II., 1930-1950
Þar sem leikrit þetta var leikið hér, þá þykir mér ekki rétt að sleppa því alveg, þó að það væri í rauninni sáralítils virði og alls ekki eins og revyur eiga að vera. Það hafði fátt til brunns að bera annað en illkvittnislegt nart í náungann, fjarri því að geta kallazt saklaust gaman. Brandarar voru fáir í leikriti þessu, en sem sagt töluvert af illkvittni og smekklausu gríni um ýmsa borgara bæjarins. Sumir hverjir hafa gaman af, þegar nartað er í náungann, ef þeir eru sjálfir nægilega litlir til þess að sleppa við nartið, - verða bitnir sjálfir.
Jón Jónsson í revyu þessari er maður með stórlygilegum fádæmum, aurasál með afbrigðum og gjörsamlega sama um meðulin til þess að ná fénu, svindlandi á hverjum 25-eyring, iðandi í skinninu af auragræðgi, grettandi sig og brettandi og tvístígandi á afkáralegum stellingum með höggvandi talsmáta. Hann tekur andköf af æsingi, stillir helzt aldrei skap sitt, nema hægðin sé sigurvænlegri til þess að ná í peninga, hagnast á viðskiptunum. Hann er látinn þola kjaftshögg jafnvel fyrir tíeyring og hverskonar hrakyrði og áföll, ef hagnaðarvonin er annars vegar. Þetta er siðgæði, sem út gengur af andanum, hraksmánarlega lítil sál í afskræmdum skrokk.
Hvað skyldi svo áhorfendum hafa fundizt til um þessa kenningu? Skyldi þeim hafa fundizt sköpuð hér ný hugmynd um framtaksama Eyjaskeggja? Það virðist vera tilgangur höfundar.
Áhorfendur fá einhvern ávæning af því, að aurasálin Jón Jónsson eigi að túlka vissan, velmetinn borgara í bænum. Hið persónulega sjónarmið mitt á túlkun þessari er sú, að „fyrirtækið“ sé vægast sagt höfundi til vanvirðu. Margir fleiri en ég hneyksluðust á leik þessum, og aldrei hefi ég verið á leiksýningu, þar sem leikhúsgestir hafa pípt á leikinn eða leikendurna eins og þarna átti sér stað. Þannig létu leikhúsgestir andúð sína í ljós.
Leikendur voru þessir:
- Loftur Guðmundsson, höfundur revýunnar
- Frú Jóhanna Linnet
- Frú Magnea Sjöberg
- Stefán Árnason
- Sigurður S. Scheving
Það skal tekið fram, að L.V. stóð ekki að leiksýningu þessari, sem betur fór.
Árið 1941, þann 5. maí, var frumsýnt leikritið „Brimhljóð“ eftir Loft Guðmundsson í Samkomuhúsi Eyjanna. Leikritið þótti takast vel og var sýnt 4 sinnum við góða aðsókn. Ég held, að Samkomuhúsið sjálft hafi komið upp leikritinu en ekki L.V.
Persónur og leikendur voru:
- Bergljót: Magnea Sjöberg, Hóli
- Halla: Sigríður Þorgilsdóttir, Steinholti
- Bryngeir: Guðjón Hjörleifsson, múrari
- Sighvatur: Marinó Jónsson, Ásavegi 5
- Högni: Valdimar Ástgeirsson, Bræðraborg
- Sjómaður óþekktur: Sigurður S. Scheving
Hvíslari var Björn Sigurðsson og gervisgerð annaðist Ólafur Gränz, sem einnig bjó út leiksviðið.
Auk þess voru nokkrir aðstoðarmenn við leiksvið o.fl. og fóru þeir með smávægileg hlutverk.
Í hlutverkunum voru sviðsvanir leikarar nema Guðjón Hjörleifsson. Var mesta furða, hve góðum tökum hann náði á hlutverki Bryngeirs, þar eð hann var algjör nýliði á leiksviði. Sumt var þó að vonum, sem betur hefði mátt fara, en um það verður ekki rætt hér, þar eð ég er ekki dómbær sem gagnrýnandi á leiklist. Af dómum alls almennings verður ekki annað sagt en uppfærsla leikrits þessa hafi farið vel, enda þótt sumir hefðu ýmislegt út á leikritið að setja. Það er svo allt annað mál, sem ekki verður rætt hér.
(Með hliðsjón af Eyjabl. 1941):
Um meðferð annarra leikenda er það helzt að segja, að Magnea Sjöberg lék erfiðasta hlutverkið og sýndi oft góðan skilning á því og leikhæfni. Henni tekst jafnan vel á leiksviði, en segja mætti mér, að þetta hafi verið hennar erfiðasta hlutverk, sem hún þó leysti með prýði. Fyrsti þátturinn gerðist á þjóðhátíð, en það merkilega er, að fátt eitt kemur þar fram, sem minnir á hátíðina, og helzt ekkert nema leiktjaldið, sem Engilbert Gíslason málaði af sinni alkunnu snilld. Höfundur leikritsins, L.G., nefnir hátíð þessa sumarhátíð, sem er algjört nýyrði um þjóðhátíðina hér. Þótt hún sé að vísu sumarhátíð, er ég hræddur um, að Eyjamenn kunni illa við að fara að breyta um nafn og sleppa þjóðhátíðarnafninu, sem er hér landlægt og réttnefni. Þá finnst mér og ýmsir gallar á leikritinu, sem Eyjamenn hljóta að taka eftir, eins og t.d ýmis orðatiltæki, sem alls ekki heyra málvenjum Eyjabúa til. Ég bendi á orðið „Beitukró“. Það hef ég ekki heyrt fyrr, heldur ávallt beituskúr og fiskikró eða aðgerðarkró, nú aðeins kró. Þetta átti a.m.k. við, meðan útgerðin var í það smáum stíl, að ekki var farið að kalla krærnar aðgerðarhús eins og tíðkast hefir hin síðari árin. Þá mun og orðalag formanns, þegar hann er látinn vera að kalla háseta sína til róðra, vera ókennt hér í bænum. Þótt þetta sé ekkert athugavert í augum ókunnugra, þá kunna Eyjamenn því mjög illa, að orð og athafnir, sem hér eru landlægar frá fyrstu tíð, sé farið með á þann hátt, að menn kannist ekki við það í leiknum og hendi gaman að. Þetta er auðvelt að laga og finnst mér persónulega, að Loftur ætti að breyta þessu og öðru, sem beinlínis er óþekkt í atvinnuháttum Eyjabúa en kemur fram í leikritinu sem afkáralegir annmarkar. Um frammistöðu annarra leikenda vil ég ekki dæma, en mér fannst þeir fara yfirleitt vel með hlutverk sín t.d. Marinó með Sighvat og Valdimar með Högna. Þá gerði og Sigríður Þorgilsdóttir Höllu ágæt skil. Mætti segja, að hún hefði til brunns að bera ýmsa þá kosti, sem leikendur þarf að prýða.
Árið 1942 var leikið leikritið „Hnefaleikarinn“ eftir Arnold og Bach, á vegum Kvenfélagsins Líknar í Samkomuhúsinu við ágæta aðsókn. Það var snemma ársins og voru sömu leikarar að starfi og verið höfðu í leikritinu 1938. Ágóðanum af sýningunni var varið til styrktar vinnuhæli S.Í.B.S. Var öll meðferð leikritsins ágæt og samkvæmt samtíma heimildum betri hjá mörgum en áður hafði verið. Georg Gíslason annaðist leikstjórn og fór að venju með aðalhlutverkið þ.e. F. Beitenback. (Samkv. bókum Líknar).
Telja verður það til athyglisverðrar breytingar í starfi L.V. er það í fyrsta sinni fékk leikstjóra frá Reykjavík haustið 1942. Að vísu var Bjarni Björnsson leikari og gamanvísnasöngvari hér sem leikstjóri á árunum 1913 til 16, er hann var búsettur hér í Eyjum og leiðbeindi og stjórnaði þá nokkrum leikritum L.V. t.d. „Týnda bögglinum“, „Heimilinu“, „Villidýrinu“ o.fl., en haustið 1942 kemur hingað Haraldur Á. Sigurðsson gagngert til þess að leiðbeina og stjórna uppfærslu á leikritinu „Þorlákur þreytti“. Einnig ætlaði hann að fara með aðalhlutverk þess, sem sé Þorláks þreytta, og var það einnig mikil nýbreytni. Þessi ráðstöfun L.V. að fá Harald hingað hafði oft áður verið rædd, fá hann til að leika hér og leiðbeina félagsmönnum, en aldrei hafði þó getað orðið af því vegna mikilla anna Haraldar, einmitt á þeim tímum, sem Eyjamönnum hentar bezt leikstarfsemi. Hann var þá ávallt upptekinn við leikstörf o.fl., enda einn af helztu gamanleikurum Reykjavíkur um árabil.
Georg Gíslason, formaður L.V. 1942 og áður, hafði nú gert sitt ýtrasta til að reyna að lyfta starfi félagsins skör hærra og beita sér af alefli fyrir komu Haraldar. Þetta heppnaðist og kom hann í októbermánuði 1942.
Árin fyrir 1942 hafði leikstarfsemi að mestu legið niðri hjá L.V. og deyfð ríkt yfir öllum framkvæmdum ýmissa orsaka vegna. Fundir voru sjaldan haldnir í félaginu, og þótt talað væri um að koma upp leikriti, varð lítið úr framkvæmdum.
Nú hafði þeim Haraldi og Georg talazt svo til að koma hér upp skemmtileiknum Þorláki þreytta og skyldi Haraldur sem sagt leika aðalhlutverkið. Georg átti að útvega fólk í eða utan L.V. og skyldi það vera tilbúið og búið að kynna sér að einhverju leyti hlutverkin, er Haraldur kæmi til Eyja. Þetta tókst vel og nú var hann kominn, hann Haraldur Á. Sigurðsson, sem allir leikunnendur höfðu dáð um árabil.
Ég man vel eftir, þegar Georg kom til mín og bað mig að taka að mér eitt hlutverkið í leiknum, Jósef Hríseying héraðsskólakennara. Ég las hlutverkið mikið til, en sagði svo við Georg, að þetta gæti ég aldrei leikið. Ég var líka dauðhræddur við Harald Á., þennan mikla leikara höfuðstaðarins. En Georg sagði aðeins: „Haraldur er alveg eins og aðrir menn, kannske dálítið feitari en almennt gerist, en bezti maður. Að leika Jobba, það kemur allt með æfingunni, og Haraldur segir þér nákvæmlega, hvernig þú átt að gera.“ Nú, þetta reið baggamuninn. Ég lofaði að vera með, og sá ekkert eftir því. Haraldur var alveg eins og Georg hafði sagt mér.
Leikæfingar voru fyrst í Herjólfsbæ, húsi Oddfellowa, og svo í Samkomuhúsinu, og allt gekk vel. Haraldur tróð þarna í okkur orðum og gjörðum, framsögn og hreyfingum hinna ýmsu atriða. Þetta var mikill munur eða áður, þegar maður varð mest að hjálpa sér sjálfur.
Í hlutverk leikritsins völdust:
- Þorlákur þreytti: Haraldur Á. Sigurðsson, Reykjavík
- Ágústa Dormar, kona hans: Nikólína Jónsdóttir
- Adda dóttir þeirra: Lilja Guðmundsdóttir, Heiðardal
- Vigfús vinur Þorláks: Georg Gíslason
- Jón Fúss, sonur Vigfúsar og tónskáld: Sigurður S. Scheving
- Felix frændi Þorláks: Valdimar Ástgeirsson
- Jóna þjónustustúlka hjá Dormar: Jónheiður Scheving
- Stefanie Islandie söngmær: Magnea Sjöberg
- Jósep Hríseyingur: Árni Árnason
- Fræðslumálastjórinn: Guðmundur Jónsson, skósmiður
- Anna hótelþerna: Steina Finnsdóttir, Uppsölum
- Piccolo á Hótel Grímsby: Kristján Georgsson Gíslasonar.
- 1. þáttur gerist á heimili Dormarshjóna
- 2. þáttur gerist á Hótel Grímsby
- 3. þáttur gerist á heimili Dormars næsta morgun
Haraldur Á. Sigurðsson sagði um þetta allt, komu sína, leik og starf hér:
„Það er allt Georg Gíslasyni að þakka, eða kenna, að ég er hér kominn til þess að leika og stjórna Þorláki. Mér lýst vel á leikskilyrði hér. En ef satt skal segja, var ég hálfkvíðinn, er ég kom til Eyja, vegna þess að mér var kunnugt um ýmsa erfiðleika, sem við var að etja og að æfingar höfðu því hafizt seinna en gert var ráð fyrir. Fólkið var búið að kynnast hlutverkum sínum nokkuð, er ég kom, en sem sagt, það hafði tafizt ýmissa orsaka vegna. En strax eftir fyrstu æfingu, sem ég hafði með fólkinu, hvarf allur ótti minn. Ég fann strax, að þeir leikarar, sem hlut áttu að máli, voru fullir áhuga og engir erfiðleikar uxu þeim í augum. Að vísu voru þeir störfum hlaðnir alla virka daga, en sunnudagana sögðust þeir þó flestir eiga sjálfir, kvöldin og svo næturnar. Þeim fannst ekkert athugavert, þó að þeir yrðu að leggja á sig vökur og vinnu þann tíma, sem ég yrði hér. Slíkur áhugi er vissulega virðingarverður og laun hans vona ég að verði góður árangur.
Flestir þeirra, er með hlutverkin í Þorláki fara, eru bæjarbúum vel kunnir frá fyrri leikstörfum, en þó eru fáeinir nýliðar. - Öllu þessu fólki er ég ákaflega þakklátur fyrir hlýjar móttökur og mjög ánægjulegt samstarf. Sérstaklega vil ég þakka Georg Gíslasyni auðsýnda vináttu og allt það mikla erfiði, sem hann hefir á sig lagt vegna komu minnar hingað.
Eins og ég sagði, hafa æfingar gengið vel og fólkið verið alveg sérstaklega viljugt að mæta jafnvel um miðjan dag, þegar það hefir haft einhvern tíma afgangs frá skyldustörfum sínum.
Ekki þarf ég að vera hræddur um samleikara mína. Þeir eru ágætir, hafa ódrepandi áhuga og gæddir miklum hæfileikum, sem náð gætu fullkomnun með nauðsynlegri þjálfun.“
Í vikubl. Víði stóð 31. október m.a.: „Það er sannarlega vel farið,
að Leikfélagið hefir nú á boðstólum skemmtilegan leik og hefir sýnt þann áhuga og röggsemi að fá í aðalhlutverkið í Þorláki þreytta einn hinn allra vinsælasta og skemmtilegasta leikara, sem völ er á. Félagið á skilið þakkir fyrir þann skerf, er það nú ætlar að leggja til menningarstarfs og skemmtanalífs bæjarbúa.“
Í vikubl. Víði segir m.a. 5. nóv. 1942:
„Leikritið „Þorlákur þreytti“ var frumsýnt í Samkomuhúsinu í fyrradag við húsfylli. Leiknum var prýðilega tekið. Þessarar sýningar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu, í fyrsta lagi til þess að sjá Harald Á. Sigurðsson í aðalhlutverkinu, þar eð vitað var, að hann mundi gera því góð skil. Í öðru lagi hafði leikritið hlotið miklar vinsældir í Reykjavík. Í þriðja lagi var liðinn ærinn tími síðan Leikfélag Vestmannaeyja hafði lofað mönnum að heyra til sín og njóta góðrar skemmtunar á leiksviðinu.
Leikritið Þorlákur þreytti er skopleikur, en þó ekki fjær veruleikanum en svo, að auðvelt er að njóta þess til fulls án þess að hið létta gaman beri eðlilegt lífssjónarmið ofurliði. Þess vegna hlýtur svona sjónleikur að búa yfir miklum sigurmöguleikum, ef honum eru gerð góð skil.
Segja má með sanni, að sýningin tækist mjög vel. Að sjálfsögðu bar Haraldur Á. Sigurðsson uppi leikinn, en yfirleitt tókst öllum leikurunum vel og leikhúsgestir fögnuðu og skemmtu sér konunglega. Þessi sýning varð L.V. til mikils sóma.“
Strax eftir að sýningu á Þorláki þreytta var lokið, hófust aðrar framkvæmdir L.V. með dáð og dug. Í stjórn L.V. höfðu þessir verið kosnir: Sigurður S. Scheving formaður, Árni Árnason ritari og Nikólína Jónsdóttir gjaldkeri. Endurskoðendur: Kristín Þórðardóttir, Borg og Margrét Johnsen, Árdal. Á aðalfundinum var skorað á hina nýkjörnu stjórn að sýna nú djörfung og dáð í verki og hefja starfið sem allra fyrst. Stjórnin hét því að bregðast ekki því trausti, sem félagsfólk bar til hennar og gera sitt ýtrasta.
Það verður að teljast allmerkur leiklistarviðburður, þegar Lárus Pálsson leikari kom til Eyja og las upp úr Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson 16. september 1942. Hvert sæti í húsinu var skipað og upplesaranum eða réttara sagt leikaranum, tekið með kostum og kynjum af áheyrendum, sem hylltu hann ákaflega.
Fyrst las Lárus upp forleik, prologus, snilldarvel, gamalt efni, sem lýsir vel hinni gömlu hjátrú og er uppistaða gömlu þjóðsögunnar um sálina hans Jóns míns. Þessi gamla þjóðsaga í Gullna hliðinu varð í upplestrarmeðferð Lárusar að alvöruþrunginni baráttu um líf og dauða og velferð sálarinnar, er lýkur með lofgjörð og þökk, þar sem takmarkinu er náð, innan við hið gullna hlið. Frá hendi höfundarins verður Gullna hliðið ávallt talið til merkra bókmennta. En það er um ljóma þess líkt og með tóna fiðlunnar, sem í höndum fákunnanda er tæki til þess að framleiða ískrandi gaul, væl og náhljóma, en í höndum meistarans framleiðir það undurhreina og fagra guðlega tóna.
Það er áreiðanlega aðeins á færi fullkomnustu leikara að fara með og leika hlutverk meira en 20 óskildra persóna í rúmar 2 klukkustundir án þess að skeika um hársbreidd í meistaralegri meðferð. Það þarf mannvit og þekkingu þar til, sálnæmi og öryggi fágæddrar náðargáfu.
Lárus Pálsson mun heldur ekki hafa brugðizt vonum nokkurs manns, er á hann hlýddi, heldur gengið skör framar en allir hugðu hinum bezta listamanni fært.
Þetta ár, þ.e. 1942, var mjög lítið um leikstarfsemi í bænum. Þó tókst Kvenfélaginu Líkn með aðstoð manna og kvenna úr L.V. að koma
upp leikritinu „Hnefaleikarinn“ eftir Arnold og Bach, sem sýnt var í desember 1942. Aðalleikararnir voru Georg Gíslason, Marinó Jónsson, símritari, Magnea Sjöberg o.m.fl. Leikritið hafði einnig verið leikið árið áður á vegum Kvenfélagsins með sömu leikendum, og var góð aðsókn að sýningunum þá. Minnir mig þær hafi verið þrjár.
Leikárið 1942/43 var sýnt hér leikrit eftir Pál J. Árdal, er nefndist „Á glapstigum“. Allt bendir til þess, að það hafi verið leikið á vegum Kvenfélagsins. Ég hef ekki fundið þess getið hjá L.V., en þó gæti það verið, að það hefði verið sýnt á skemmtunum einhverra félagasamtaka.
Síðla í nóvember 1942 var fundur haldinn í L.V. í húsi Akógesfélagsins. Þar voru margir mættir og meðal þeirra Haraldur Á. Sigurðsson, sem gestur, fyrrverandi formaður Georg Gíslason o.m.fl. Var rætt um leikstarfsemi yfirleitt. Skoraði Haraldur Á. Sigurðsson á L.V. að taka gott leikrit til meðferðar og tilnefndi leikritið Mann og konu. Þetta var mikið rætt á fundinum og af miklum áhuga. Sigurður S. Scheving tók að sér að koma leikritinu upp og var á þessum fundi kjörinn formaður L.V. næsta leikár.
Í sambandi við endurreisn L.V. árið 1942 mætti minnast á grein, sem Einar Sigurðsson, þáverandi ritstjóri Víðis, skrifaði 18. júlí 1942 eða áður en „Þorlákur þreytti“ hafði verið sýndur hér á vegum L.V. og Haralds Á. Siguðssonar. Einar talar þar um leiklistina yfirleitt og þá sérstaklega í Reykjavík, þar sem hún standi með miklum blóma, þótt ekkert viðunandi leiklistarhús sé þar til. Þjóðleikhúsið þá ekki fullbúið og Iðnó verði að nota sem aðalleikhús. Segir hann og, að leiksýningar séu þar svo vinsælar, að sýnt sé kvöld eftir kvöld og mánuð eftir mánuð við einróma lof og hylli. Þetta sanni, að þjóðin kunni að meta leiklist og taki hana framyfir aðrar skemmtanir. En svo spyr hann: „Hverjar eru ástæðurnar fyrir því, að við eigum við harla litla möguleika að búa til þess að sjá leik og njóta þeirrar ánægju, þó hér sé eitt hið ágætasta samkomuhús og tilvalið til leiksýninga? Hér eru þó til eða hljóta að vera til leiklistarmenn sem í öðrum héruðum landsins.“ Hann segir og, að það sé megnasti ómenningarbragur, að ekki skuli vera hér leikfélag, sem starfi a.m.k. með svo miklu fjöri, að það sýni 2 eða 3 góða sjónleiki á ári. Ef hér sé nokkurt slíkt félag, þá þurfi að vekja það af svefni, svo að það hefji starf með endurnýjuðum krafti eftir góða hvíld. Sé það hins vegar ekki til lengur, þá væri þakklátt verk og nauðsynlegt fyrir þá, sem hafa áhuga á þessum málum, að vinda hér bráðan bug að til úrbóta...“
Haustið 1942 hófst L.V. handa um að koma upp leikritinu Manni og konu, sem Emil Thoroddsen samdi eftir samnefndri sögu.
Leikritið var frumsýnt hér 28. marz 1943 og voru alls 7 sýningar á leikritinu. Stjórnandi þess og leiðbeinandi var Sigurður S. Scheving, sem stóð í stöðugu sambandi við Indriða Waage, sem lét honum í té allar mögulegar upplýsingar um uppfærslu leikritsins, staðsetningar, leiksviðsútbúnað o.fl.
Leikendur voru þessir:
- Séra Sigvaldi: Stefán Árnason
- Staðar-Gunna: Jónheiður Scheving
- Þórdís í Hlíð: Nikólína Jónsdóttir
- Sigurður bóndi í Hlíð: Þórarinn Ólason
- Prestsfrúin Mad. Steinunn: Sigríður Þorgilsdóttir
- Þórarinn bróðir Steinunnar: Árni Guðmundsson
- Sigrún í Hlíð: Magnea Sjöberg
- Bjarni bóndi á Leiti: Ólafur Gränz
- Grímur meðhjálpari: Brynjólfur Einarsson
- Egill sonur hans: Sigurður Scheving
- Hallvarður Hallsson: Árni Árnason
- Þura gamla: Kristín Þórðardóttir
- Hjálmar tuddi: Valdimar Ástgeirsson
- Finnur vinnumaður: Kristján Georgsson
- Sigga vinnukona í Hlíð: Steina M. Finnsdóttir
- Ástríður vinnukona í Hlíð: Guðrún Helgadóttir
- Hrólfur vinnumaður: Brynjólfur Einarsson
- Smali í Hlíð: Jón G. Scheving
Leiktjaldamálari var Engilbert Gíslason.
Leiktjaldasmiður var Ólafur Gränz, sem einnig annaðist andlitsförðun og gervi.
Þótt L.V. væri mjög illa spáð um möguleika á að koma þessu stóra leikriti upp hér, gekk það þó með ágætum og sigraðist stjórnandinn á hverjum vandanum eftir annan. Frumsýningin tókst ágæta vel og leikdómar voru mjög lofsamlegir. Var leikritið sýnt sjö sinnum við góða aðsókn. Þarna áttu margir leikendur sinn bezta leik fram að þessu, svo sem Stefán Árnason, Nikólína, Sigurður Scheving í Agli, Árni Árnason í Hallvarði, Jónheiður í Staðar-Gunnu, Brynjólfur í meðhjálparanum o.fl. o.fl. Dómar almennings um leikinn voru mjög á einn veg, að hann hefði verið með miklum ágætum. Sögðu farmenn, er hér voru í höfn og séð höfðu leikinn í Reykjavík, að öll meðferð leiksins og einstök hlutverk hefðu sízt verið verri hér en þar.
Sjöunda sýningin var 11. maí (1943) og sáu þá margir leikinn í annað sinn. Um haustið var svo höfð hátíðasýning á Manni og konu. Var leikritið æft vel fyrir þá sýningu, og það svo sýnt bæjarstjórn kaupstaðarins og mörgum fleiri gestum, er boðið var á þessa sérstöku sýningu. Fyrir sýningu þessa var æfður undirleikur. Á slaghörpu lék Alfreð W. Þórðarson, hljómlistarmaður frá Vesturhúsum, og Oddgeir Kristjánsson lék á fiðlu. Lög voru leikin við kvæði Jóns Thoroddsens, höfund sögunnar. Þá var og leikið á hljóðfærin milli þátta. Þetta kvöld voru leikhússgestir nær 500, og má fullyrða, að hátíðlegur ánægjublær ríkti í leikhúsinu. Þarna var eingöngu fullorðið fólk til þess að forðast allan óþarfa hávaða.
Þegar leikæfingar hófust, sagði vikubl. Víðir 23. jan.: „Það hafa orðið mikil og góð skipti í L.V., og starfsemi þess, er virtist um tíma a.m.k. vera að fjara út, hefur nú færzt í aukana. Nú er mikill áhugi ríkjandi þar, og mikið getur góður vilji. Það væri fjarstæða að álykta, að hér væri nokkur skortur á hæfileikum til leiklistarstarfsemi. Það ætti að vera metnaðarmál þessa bæjar að eiga gott og öflugt leikfélag og styðja að framgangi þess með ráðum og dáð.“
Leikárið 1942/1943 er merkisár í sögu Leikfélags Vestmannaeyja. Einnig að því leyti, að þá hlaut það fyrst starfsstyrk frá ríki og bæ, kr. 1500,00 frá hvorum aðila. Þá var það alls ekki svo lítil viðurkenning fyrir gott starf. Frá þeim tíma hefur félagið ávallt notið styrks til starfsemi sinnar frá því opinbera; þó misjafnlega mikils frá ári til árs.
Síðustu árin nam styrkur sá, sem L.V. fékk kr. 10.000,00 árlega, en í tilefni 50 ára afmælis félagsins var styrkurinn hækkaður á fjárhagsáætlun
bæjarins 1960/1961 upp í kr. 25.000,00, en lækkaði svo aftur í kr. 10.000,00 1961/1962.