Blik 1967/Leiklistarsaga Vestmannaeyja 3. kafli, III., 1930-1950

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÁRNI ÁRNASON:


ctr
(3. hluti)


„Leynimelur 13“


Þann 2. sept. 1943 segir svo í Víði m.a.
,,Leikfélag Vestmannaeyja er nú að æfa nýjan gamanleik er nefnist ,,Leynimelur 13“. Hinn góðkunni gamanleikari Haraldur Á. Sigurðsson var hér í nokkra daga og leiðbeindi við æfingar. Leynimelur 13 er íslenzkur gamanleikur eftir höfunda, er nefna sig „Þrídrang“. Leikur þessi var sýndur nokkrum sinnum s.l. vor í Reykjavík við fádæma hrifningu og verður haldið áfram að sýna hann þar í haust. Það mun einsdæmi hér, að hafin sé sýning á nýjum sjónleik jafnhliða og hann er sýndur í Reykjavík. Er það gleðilegur vottur þess, að meiri kraftur sé í starfsemi félagsins en áður hefir verið. Þetta er þriðji sjónleikurinn, sem félagið æfir til sýningar á einu ári, en eins og menn muna, var Þorlákur þreytti og Maður og kona leikið hér á s.l. vetri. Brátt líður að því, að almenningi gefist kostur á að sjá gamanleikinn Leynimel 13.“
Haraldur Á. Sigurðsson var fenginn nokkurn tíma til þess að leiðbeina og koma leiknum af stað. Hann sá einnig um gervi og förðun alla eða mestalla með Ólafi Gränz. Æfingar gengu vel og var mikill áhugi ríkjandi meðal manna að koma þessum snjalla leik upp.

Leikendur í ,,Leynimel 13“
Aftasta röð frá vinstri: 1. Guðmundur Jónsson, 2. Árni Árnason, 3. Steina Finnsdóttir, 4. Jónheiður Scheving, 5. Ólafur Gränz, 6. Guðný Kristmundsdóttir, 7. Nikólína Jónsdóttir, 8. Stefán Árnason.
Miðröð frá vinstri: 1. Högni Sigurjónsson, 2. Kristin Þórðardóttir, 3. Valdimar Ástgeirsson, 4. Sigríður Þorgilsdóttir, 5. Sigurður Scheving.
Fremsta röð (börn): 1. Guðmar Tómasson, 2. Steinunn Eyjólfsdóttir, 3. Garðar Sigurðsson.

Í hlutverkin völdust þessi:

 • Sveinn Jón skóari: Valdimar Ástgeirsson
 • Guðríður sambýliskona hans: Kristín Þórðardóttir
 • K.K. Madsen klæðskeram: Sigurður Scheving
 • Jakobína Tryggvad. (móðir Dóru): Nikolína Jónsdóttir
 • Dóra Madsen, kona K.K. Madsen: Sigríður Þorgilsdóttir
 • Jonas Glas heimilislæknir: Guðmundur Jónsson, skósm.
 • Dísa þerna hjá Madsen: Rakel Sigurðardóttir
 • Bobbi 10 ára: Guðmar Tómasson, 10 ára
 • Gonni 14 ára: Högni Sigurjónsson, 14 ára
 • Siggi 9 ára: Garðar Sigurðsson, 9 ára
 • Tobba 12 ára: Steinunn Eyjólfsdóttir, 12 ára
 • Magnh. Skúladóttir: Jónheiður Scheving
 • Ósk dóttir hennar: Steina M. Finnsdóttir
 • Þorgrímur skáld: Ólafur Gränz
 • Marus heildsali o.fl.: Árni Árnason
 • Hekkenfelt: Stefán Árnason
 • Stefán lögregluþjónn: Jón Scheving.


Frumsýning var 22. okt. 1943.
Leikritinu var ákaflega vel tekið og þótti eitt af beztu gleðileikritum, er hér höfðu verið sýnd. Sérstaklega mætti nefna Sig. Scheving, Valdimar Ástgeirsson, Kristínu Þórðardóttur, Stefán Árnason, Jón Scheving o.fl.
Útdráttur úr blaðaummælum um leikritið: Hvert einasta sæti var skipað í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 22. okt. 1943, þegar Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi Leikritið eða Revýuna, Leynimelur 13 eftir Þrídrang í Reykjavík. Það er sannkallaður gleðileikur, sem öllum getur komið til að hlæja og það hjartanlega. Persónur eru margar og allar bráðsnjallar, séu þeim gerð góð skil frá leikaranna hendi eins og raun var hér á.
Sigurður Scheving leikur þarna K.K. Madsen, gjörsamlega taugabilaðan af völdum tengdamóður sinnar. Hann er þannig gerður maður, að hann vill hafa stað fyrir allt og allt á sínum stað þar með talda tengdamóður sína. Og þegar honum loks er að takast það með brögðum og brellum, mislukkast alltsaman, þegar Sveini Jóni Jónssyni skóara er dembt inn í húseign hans.
Dóru konu K.K. Madsen leikur frú Sigríður Þorgilsdóttir, og gerir hún hlutverki sínu góð skil og fullkomlega frambærileg á móti snjöllum leik Sigurðar Schevings.
Nikólína Jónsdóttir leikur Jakóbínu Tryggvadóttur, tengdamóður K.K. Madsen. Hún er þannig í höndum frú Nikólínu, að ósjálfrátt fer maður að svipast um eftir „móðurlausum möguleika“ til þess að slá sér upp með. Þá þarfnast ekki frekar vitnanna við um frammistöðu frúarinnar í hlutverkinu.
Guðmundur skósmiður Jónsson, leikur doktor Glas, tryggðatröllið, sem er stoð og stytta K.K. Madsen í þrengingum hans. Guðmundi tekst vel að sýna hinn rólynda en þó óákveðna heimilislækni. Hinsvegar hefði hann gjarna mátt fara greinilegar með latnesku hendingarnar, en það kemur með þjálfuninni. Maður talar nú ekki latínu svona alveg upp úr þurru!
Svein Jón skóara og Guddu fylgikonu hans leika þau Valdimar Ástgeirsson og Kristín Þórðardóttir, Borg. Þau hlutverk eru í góðum höndum og fara bæði sérlega vel með þau. Sveinn Jón er hetja annars og þriðja þáttar, aðalmaðurinn, samvizkulaus eða dálítill raftur, hræsnari og bragðarefur en um leið hússtýran og yfirdrottnari Guddu sinnar. Tekst Valdimar að láta alla þessa eiginleika vel í ljós með meðfæddri glettni og kátínu.
Kristín sýnir mjög vel hina kúguðu en þolinmóðu fylgikonu skóarans.
Dísa litla er þerna hjá K.K. Madsen og fer ungfr. Rakel Sigurðardóttir vel með hlutverkið, en mætti þó tala skýrar.
Ósk er leikin af Steinu Finnsdóttur. Hún á reyndar lítið annað að gera en láta horfa á sig og vera unga, glaða og fallega stúlkan í húsinu.
Magnhildur miðill er leikin af frú Jónheiði Scheving. Þetta er töluvert hlutverk og tekst henni að sýna látbragð og framkomu hins forskrúfaða miðils.
Þá er það Hr. Hekkenfelt, leikinn af Stefáni Árnasyni. Hlutverkið er þannig, að maður heldur ósjálfrátt að hann sé Dani, ósvikinn Dani, hér á ferð.
Márus leikur Árni Árnason símritari. Það er fremur lítið hlutverk en erfitt og gefur ekki tilefni til mikils, nema vera ástfanginn í Ósk. Það er sífellt verið að kasta manninum út, en Ósk bætir honum það sannarlega upp. Hann kemst auðvitað í tæri við Svein Jón skóara og er atriði þeirra saman ágætt og skemmtilegt.
Þá er það skáldið Toggi, síblankur og þunnur. Það er annars spurning, hvort rétt sé að láta góðtemplara leika þetta hlutverk, en þó sýnir Gränz manni vel hið þunna skáld.
Fleiri koma þarna við sögu t.d. Stefán Jónsson lögregluþjónn, leikinn af Jóni Scheving, og 4 krakkar, til þess að auka vandræði K.K. Madsen og stríða Hekkenfelt.
Leikstjóri er Sig. Scheving og hefir stjórnin farið honum vel úr hendi. Þó ber þess að gæta, að Haraldur Á. Sigurðsson var hér um tíma í haust og leiðbeindi fólkinu. Eiga þeir því báðir heiðurinn af því, hve vel hefir tekizt. L.V. á þakkir skilið fyrir starf sitt með þessa sýningu og aðrar. Ættu menn að meta starf þess að verðleikum og hafa hugfast, hve geysileg vinna og erfiði liggur að baki leiksýningum hér, þar sem aðstæður eru mjög slæmar, til dæmis til æfinga, þar sem stundum á sér stað, að aðeins einu sinni hafa gefizt tök á að æfa á sviðinu fyrir frumsýningu. Það er afleitt. Með þessa hörmulegu aðstöðu í huga er það alveg furðulegt, hvað fólkið nær góðum árangri hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.“ Meðan Haraldur Á Sigurðsson var staddur hér haustið 1943, var haldinn fundur L.V. í Akógeshúsinu. Þá gengu í félagið Sigríður Þorgilsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Rakel Sigurðardóttir, Ólafur Gränz og Kristján Georgsson. Haraldur Sigurðsson mætti á fundinum, þakkaði ágætt samstarf og skemmtilegt og hvatti eindregið til þess að koma hér upp leikritinu „Á útleið“ eftir Sutton Vane. Var því vel tekið af fundarmönnum en engar ákvarðanir teknar í því máli.
Í afmælisnefnd voru kosin 1943 Ólafur Gränz, Jónheiður Scheving og Björn Sigurðsson. Í skemmtinefnd voru kosnir: Valdimar Ástgeirsson, Árni Árnason og Loftur Guðmundsson.
Eftir fundinn ræddust menn nokkuð við um uppástungu Haraldar Sigurðssonar varðandi leikritið „Á útleið“. Ekki urðu menn á eitt sáttir, hvernig leysa skyldi það mál. Þó að margir væru hér ágætir leikarar, þurfti svo mikils við til þess að fara með vandasömustu hlutverkin, t.d. Frú Banks og Tom Priors, að óvíst var, að nokkur gæti leyst þau vel af hendi, sem þó var nauðsynlegt. Helzt bárust böndin að Jónheiði Scheving í Banks og Árna Árnasyni í Tom, en hvorugt gaf nein vilyrði.


Norðurlandsför


Um vorið 1944 komst til tals á fundi leikendanna, hvort ekki væri gerlegt að fara sýningarför með Leynimelinn til meginlandsins og leika þar á nokkrum stöðum. Var sérstaklega ákveðið að fara norður í land allt til Siglufjarðar og leika m.a. þar. Var áhugi fyrir þessu mikill meðal fólksins. Var þá strax gengið í það að fá leyfi hjá leikaðilum t.d. höfundunum í Reykjavík og svo hjá Siglfirðingum, hvort fara mætti með Leynimelinn til sýningar. Þetta var auðsótt mál hjá Þrídrang og Siglfirðingum. Ráðgert var að leika á Selfossi og hafa þar fyrstu sýningu, en halda þaðan beint til Siglufjarðar! Þá var og hugsað til þess að leika á Siglufirði, Blönduósi, Akureyri og jafnvel Húsavík. Þessu var svo slegið föstu um þetta leikferðalag L.V. Var farið að æfa á ný nokkru fyrir ákveðinn burtfarartíma og gekk allt vel. Bílar voru fengnir frá Stokkseyri til Selfoss, ákveðin ferð með vb. Gísla Johnsen frá Eyjum til Stokkseyrar með leikfólkið og leikgögn. Þá var og athugað með langferðabíl frá Rvík norður í land og skyldi sá bíll taka allt fólkið á Selfossi til norðurferðar. Ákveðið var að fara ekki með leiktjöld að öllu leyti heldur það, sem ekki væri hægt að vera án.
Ég gleymdi að geta þess, að fararstjóri var kosinn á undirbúningsfundinum Stefán Árnason og ferðasöguritari Árni Árnason. - Nú var allt tilbúið og farardagurinn afráðinn. En þá kom babb í bátinn. Kristín Þórðardóttir gat ekki farið með vegna veikinda á syni sínum. Sig. Scheving hringdi þá með forgangshraði suður til Rvík til okkar ágætis ráðgjafa, Indriða Waage, og bað hann að spyrjast fyrir um það, hvort Auróra Halldórsdóttir leikkona í Rvík, sem áður hafði leikið Guðríði í Leynimelnum í Rvík, væri fáanleg til þess að hlaupa í skarð Kristínar og leika Guddu á ferðalagi okkar. Svo var beðið með hjartað í sokkunum. Jú, svar Auróru var jákvætt og ferðinni var borgið.
Farið var á tilsettum tíma með vb. Gísla Johnsen til Stokkseyrar og leikið síðan fyrir fullu húsi á Selfossi. Komu þangað margir leikarar frá Rvík og sáu leik okkar, sem þeir létu vel af. Síðan var ferðinni haldið áfram alla leið til Haganesvíkur með viðkomu á ýmsum stöðum t.d. Hólum í Hjaltadal, Sauðárkrók, Blönduósi, Hofsósi og víðar. Frá Haganesvík var svo farið með vélbát til Siglufjarðar og gekk sú ferð að óskum. Á Siglufirði var Eyjafólkinu tekið með kostum og kynjum, leikið fjórum sinnum, auk barnasýningar, fyrir fullu húsi við ágætustu viðtökur, sem aldrei munu gleymast. Þarna sátum við hóf mikið okkur til heiðurs og er ekkert ofmælt, þó að sagt sé, að Siglfirðingar hafi borið okkur á höndum sér í hvívetna. Ekkert var of gott handa okkur, ekkert ofgert að þeirra áliti. Hvílík afburða gestrisni.
Frá Siglufirði var haldið með vb. Ester til Akureyrar. Þar skyldi leika, en svo fór, að leyfi fékkst ekki til þess, þareð Lf. A. ætlaði sjálft að leika leikritið hjá sér. Sama gilti og um Húsavík. Þar meinuðu þeir okkur einnig að leika, þar eð það væri í þeirra leikumdæmi. Þar við sat. Við skruppum til Mývatns og fl. staða, t.d. Húsavíkur. Urðu Húsvíkingar bálreiðir út í Akureyringa, er við sögðumst ekki mega verða við beiðni þeirra á Húsavík og leika fyrir þá, þar eð Akureyringar hefðu sett umrætt leikbann á okkur þar. Ekki þorðum við eða vildum brjóta það bann, sem var í rauninni harla einkennilegt. Kölluðu Húsvíkingar það furðulega afskiptasemi um skemmtanalíf þeirra og nágrennis.
— Hér skal þess getið, að í norðurferðinni breyttist nokkuð hlutverkaskipanin hjá okkur í Leynimel 13 vegna forfalla einstakra. Þannig var t.d. Jónheiður Scheving forfölluð vegna barnsfarar. Tók þá Sigríður Þorgilsdóttir að sér hennar hlutverk þ.e.a.s. hlutverk Möggu miðils, Elín Árnadóttir tók þá hlutverk Sigríðar Þorgilsdóttur, og Guddu tók svo Auróra Halldórsdóttir frá Rvík. Dísu þernu á heimili Madsens tók Guðný Kristmundsdóttir. — Síðan var haldið aftur til Akureyrar, en þaðan í bíl til Blönduóss og leikið þar fyrir fullu húsi. Kolka læknir og frú voru heimsótt og þar notið beztu veitinga og fyrirgreiðslu. Með bí1 var svo haldið til Akraness en með bát til Rvík. Þar sátum við kaffiboð hjá L.R. og síðan var sýnt í Iðnó við leiksviðsútbúnað þar. Til Stokkseyrar var haldið í bíl, en þaðan með vb. Gísla Johnsen heim til Eyja. Ferðin hafði oðið L.V. til hins mesta sóma og fólkinu til ánægju. Var framkoma þess í hvívetna aðdáunarverð og frammistaða þess í leiknum ágæt sbr. blaðaummæli. Eflaust mun þetta fyrsta för Eyjamanna með leikrit til sýningar á meginlandinu. Fáni félagsins og Eyjanna blakti ávallt á bílnum okkar, harmonikka var og með og var mikið á hana spilað og sungið með, sérstaklega ferðasöngurinn og kveðlingur um leikendurna í leikritinu, (sjá hér á eftir). Ferðasaga var rituð daglega af Á.Á., sem hann á í handriti, en hér fer á eftir stutt frásögn fararstjóra, sem tilhlýðilegt er að birta hér, en hún kom í blaði í Eyjum.


Úr frásögn fararstjórans Stefáns Árnasonar


Það var einhverntíma s.l. vetur að formaður L.V., hr. Sig. Scheving, stakk upp á því við okkur að gaman væri að fara í leikkynningarför til meginlandsins á komandi sumri. - Þessari uppástungu var tekið með hrifningu, en hvorki Sigurður né öðrum mun hafa flogið í hug, að þetta yrði meira en svona smá hugdetta. Á bak við þetta hugboð lá auðvitað annað og meira en „að fara til landsins“, eins og það var kallað. - Það var að kynna leikstarfsemi Eyjamanna, sem lítinn þátt í menningarlífi þeirra. Síðan var mál þetta rætt af eldmóði, undirbúningur hafinn og förin ákveðin alla leið norður á land. Leikritið, sem sýna átti, var ,,Leynimelur 13“.
Til þess að rita ferðasögu þessa var kosinn Árni Árnason, sem lék í þessu leikriti.
Er leikæfingum var nærri lokið og skammt til farardags, forfallaðist ein af okkar ágætu leikkonum, frú Kristín Þórðardóttir, Borg. Voru nú vandræði fyrir dyrum, því að tímans vegna var ekki hægt að æfa aðra upp í hlutverk hennar. Fararleyfi höfðu allir leikararnir í lagi, en þeir voru auðvitað tímabundnir og virtust því vonbrigðin ein blasa við.
Er mest á reyndi, hljóp hér undir bagga frú Auróra Halldórsdóttir leikkona í Rvík, er leikið hafði í Rvík sama hlutverkið og frú Kristín.
Lagt var af stað héðan til Stokkseyrar 29. júní með vb. Gísla Johnsen í góðu leiði. Við kvöddum Vestmannaeyinga með góðum óskum og ferföldu húrrahrópi, er við lögðum frá Básaskersbryggju og fengum við það vel endurgoldið á sama hátt frá mannfjöldanum á bryggjunni.
Næsta dag var undirbúin leiksýning á Selfossi í Bíóhúsinu. Þetta er nýtt og glæsilegt samkomuhús með ágætu leiksviði og rúmar á fjórða hundrað manns í sæti.
Laugardaginn 1. júlí var svo leikið kl. 21.00 og tókst það vel. Þetta er fyrsta leiksýning, sem Leikfélag Vestmannaeyja hefir haft utan heimahaga og verður því að teljast markverður þáttur í starfi félagsins. Við vorum sízt háreist undir sýningu þessa, en allir voru sólarsinnis og ákváðu að gera sitt ýtrasta til að hún færi sem bezt, því leikför þessi mundi mikið mótast af því, hvernig okkar fyrsta tilraun tækist.
Hvert sæti í húsinu var skipað. Leiknum var mjög vel tekið og fagnaðarlæti áhorfenda ógleymanleg. Hér verður þó enginn dómur lagður í meðferð hvers leikanda í hlutverkunum, þó að hinsvegar mætti þar um margt ágætt segja. Á þessari sýningu voru mættir margir leikendur frá Rvík. Kaffi var drukkið með þeim eftir leikinn við glaum og gleði.
Næsta dag var nágrennið skoðað og farið t.d. að Laugarvatni.
Mánudaginn 3. júlí var haldið norður. Komum við til Blönduóss seint um kvöldið og var gist hjá Óla Ísfeld. Allur skarinn skrapp heim til læknishjónanna á Blönduósi, frú Bjargar og Páls Kolka, og var setið þar í góðu yfirlæti fram yfir miðnætti.
Árla var risið úr rekkju á þriðjudagsmorguninn, því að næsti gistingarstaður var Siglufjörður. Komið var þar undir miðnætti. Leikarar Siglufjarðar tóku þá á móti okkur.
Á Siglufirði lékum við fjögur kvöld og höfðum tvær sýningar einn daginn. Aðsókn var mjög góð og þeim tekið framúrskarandi vel. Leiksýningar fóru fram í Sjómannaheimilinu en það er hið vandaðasta hús. Umgengni er þar öll prýðileg. Hússtjórn og starfsfólkið vildi allt fyrir okkur gera og var myndarskapur þar á öllu.
Síðasta kvöldið hélt Leikfélag Siglufjarðar okkur samsæti. Veitt var af mikilli rausn. Skemmt var með ræðum, söng og dansi lengi nætur. Við minnumst veru okkar á Siglufirði með ánægju. Þökkum Siglfirðingum ágætar viðtökur og Leikfélaginu þar fyrir ógleymanlegar gleðistundir.
Frá Siglufirði var haldið til Akureyrar. Þaðan farið í Mývatnssveit, skoðað Slútnes og Dimmuborgir. Ennfremur Vaglaskógur, Goðafoss o.m.fl. Í þeirri ferð var komið til Húsavíkur. - Snemma næsta morguns var lagt af stað og haldið til Blönduóss og leikið þar um kvöldið fyrir troðfullu húsi og við mjög ánægjulegar viðtökur.
Ég vil sérstaklega taka það fram, að þessi hópur, sem var í ferðalaginu, kom allsstaðar fram með myndarskap og viðeigandi háttvísi, enda var okkar þakkað það sérstaklega. Gleðin og ánægjan bar svip þessarar ferðar og er óhætt að fullyrða, að seint muni þær samverustundir gleymast. Við vorum beðin að leika á mörgum stöðum en gátum það ekki tímans vegna! Leikför þessi mun gefa L.V. byr undir báða vængi í framtíðarstarfi þess hér, þótt það sé harla erfitt eins og sakir standa, en fórnfýsi leikenda, góður skilningur stjórnarvalda og ágætar viðtökur bæjarbúa, geta lagað þetta í framtíðinni.
Í leikskrá, sem L.R. hefir gefið út með leikritinu „Taugastríð tengdamömmu“ og leikið var úti á landi, segir m.a., að frú Auróra Halldórsdóttir hafi farið sína fyrsta leikför út á landið árið 1952 með Gunnari R. Hansen, er hann fór með leikritið „Vér morðingjar“ eftir G. Kamban. Þetta er ekki rétt. Auróra Halldórsdóttir fór löngu áður með L.V. umrædda leikför eða 1944 og lék þá Guddu í „Leynimelur 13“ vegna forfalla frú Kristínar Þórðardóttur, Borg, vegna veikinda sonar hennar. Þá fóru þau hjónin Indriði Halldórsson og Auróra Halldórsdóttir með L.V. norður í land.
Við framanritað er ekki rúm til að bæta neinu að ráði. Þó þykir rétt að geta þess, að mörg skeyti voru send heim til Eyja frá ferðafólkinu þ.e. Leikfélaginu. Öll voru þau í ljóðum og þykir rétt að birta hér sýnishorn af þeim, en þau voru jafnóðum birt almenningi í Eyjum og þau bárust.
Frá Hólum í Hjaltadal var símað svolátandi:
Guðm. Jónsson:

Erum Hólum, allt í lagi,
inn í kirkju sungum vers,

Á.Á.:

undrist ekki um okkar hagi
erum létt í sinni' og hress.

Frá Siglufirði var símað eftirfarandi eftir Á. Á:

Sólin gyllir grundir vel,
gefur snilli og kæti,
landið hyllir Leynimel,
lýður fyllir sæti.

Á Siglufirði átti frú Sigríður Þorgilsdóttir 40 ára afmæli. Þá urðu til nokkrar vísur ortar í tilefni dagsins til frúarinnar:

Guðm. Jónsson:

,,Afmælisóskir fram skal færa,
félags við réttum hlýja mund,
fertuga unga fljóðið kæra
faðmi þig gæfan alla stund.“

Sig. S. Scheving undir nafni K.K. Madsens, en Sigríður hafði áður leikið Frú Madsen:

,,Ég óska þess af öllu hjarta,
elskulega vina mín,
að alla daga eigi bjarta
innsta óskin þín.
Og gæfan blessi börnin þín,
blessuð fyrri konan mín.“

Frá Á.Á. barst þessi hnoðnagli:

Að lífið við þig leika megi
létt og aldrei syrti él,
óska þér á þessum degi
þrír af fræga Leynimel..
Sveinjón, Toggi, Márus.

Frá Fornahvammi þótti sjálfsagt að senda kveðju heim. Hún var þannig:

G.J.

,,Sitjum hér við sólareld,
sinnið hresst og allir glaðir.

Á.Á.

Til Akraness við komum kveld,
kætir auga nýir staðir.“


Aðalfundur L.V. var haldinn 25. jan. 1944. Stjórnarkjör:

 • Formaður: Sigurður Scheving
 • Ritari: Árni Árnason
 • Gjaldkeri: Nikólína Jónsdóttir
 • Varaformaður: Stefán Árnason
 • Vararitari: Haraldur Eiríksson
 • Varagjaldkeri: Sigríður Þorgilsdóttir
 • Endurskoðendur:
 • Kristín Þórðardóttir
 • Margrét Johnsen


Á fundinum var upplýst, að brúttótekjur af leikritinu „Manni og konu“ hefðu orðið rúmlega kr. 21.000,00. Það ár nam ríkisstyrkur kr. 1.500,00 til L.V. Þetta ár voru húsnæðisvandamálin mjög mikil hjá félaginu að venju og mikið rætt um, hvað gera skyldi því til úrbóta. Var m.a. leitað eftir hjá eigendum hússins Nýja Bíós við Vestmannabraut, hvort húsið væri fáanlegt til kaups og hvað söluverð þess yrði. Það upplýstist að húsið var falt fyrir kr. 170 þús. Þetta var af stjórn félagsins álitið frágangssök vegna fjárskorts. Talað var við stjórn Samkomuhúss Vestmannaeyja um bættan aðbúnað í því húsi til leiksýninga. Lofaði stjórn hússins ýmsum endurbótum á aðbúnaði L.V. þar t.d. að láta standsetja salerni við búningsherbergin, laga leiksviðið, setja upp meðfærilegri „himin“ yfir sviðið, þilja yfir „hljómsveitargryfjuna“, sem aldrei væri notuð, og fá það pláss til viðbótar leiksviðinu. Við það fengist meiri dýpt í sviðið, það stækkað mikið við slíka breytingu o.fl. Var lofað að hefja þessar framkvæmndir þá þegar. Þá uppl. stjórnin eftirfarandi: Athugað var einnig um kaup á bragga, sem stóð úti á Stórhöfða, og var ætlunin hjá L.V. að nota hann ef til kæmi, til æfinga og geymslu á leiksviðsmunum L.V. svo sem tjöldum og innanstokksmunum. Að sjálfsögðu yrði mikill kostnaður við flutning braggans niður í bæinn, rífa hann og endurbyggja, þó að hann yrði aðeins notaður sem æfinga- eða geymslupláss, svo að ekki væri talað um möguleika á því að innrétta hann sem leikhús. Að öllu athuguðu og eftir að hafa skoðað braggann suður í Stórhöfða og einnig annars staðar í bænum, var alveg horfið frá þessari hugmynd um húsnæði. Virtist, a.m.k. eins og sakir stæðu, ekkert um annað að gera en halda sig að Samkomuhúsinu.
Á fundi þessum var samþykkt einróma að æfa upp og sýna um vertíðarlok revýuna „Allt í lagi, lagsi“.


„Allt í lagi, lagsi“


Vorið 1944 sýndi Leikfélag Vestmannaeyja gamanleikinn „Allt í lagi, lagsi“ undir stjórn Sigurðar S. Schevings. Leikrit þetta er fullt af allskonar bröndurum og gleðisöngvum og má hiklaust fullyrða, að fólk hafi skemmt sér prýðilega við að horfa á létta og góða meðferð leikenda á efninu.
Persónur og leikendur:


Hér birti ég útdrátt úr blaðadómi, sem birtist 12. maí 1944 um leikritið og meðferð leikenda á hlutverkunum. Gamanleikur þessi er aðallega háðsleg stæling á raunveruleikanum. Þar eru margir góðir brandarar kryddaðir léttum gamanvísum og spjalli. Í leik þessum er víða á hnyttinn hátt skopast að því, sem aflaga fer í þjóðfélaginu nú á dögum, t. d. nefndafarganinu, ýmsum öfgum nýríkra manna, bókaflóðinu, braskspillingunni og lausung allskonar.
Forstjóra HIBO félagsins, herra Jón Span, leikur Sigurður Scheving. Mætti segja, að hann væri á fullmiklu spani til þess að græða fé, ef maðurinn héti ekki blátt áfram ,,Span“. En hann er sjálfum sér samkvæmur, þ.e. á einu spani í spekulasjónum allan leikinn til enda.
Skrifstofustjórann Esikiel leikur Loftur Guðmundsson. Hann fannst mér vera góður í hlutverkinu, röddin þægileg og maðurinn steig vel í vænginn, svo sem karlfugla er siður.
Ísu Ísaks blaðamann, sem nappar Esikiel, leikur Dóra Úlfarsdóttir og gerir það vel og frjálsmannlega.
Ísak Holmkvist leikur Valdimar Ástgeirsson. Hann er hreppstjóri, en dæmalaus bögubósi, sem sjaldan eða aldrei gat komið út úr sér einni óbrjálaðri setningu. Valdimar leysti þetta vel af hendi, hreyfingar góðar og talið skýrt.
Hjónin kyndara og nýríkan skrifstofustjóra og konu hans Kálínu léku þau Stefán Árnason og frú Nikólína Jónsdóttir ágætlega og voru oft æði spaugileg í tali og hreyfingum.
Skrifstofustúlkurnar Svönu, Bíbí og Blöku, sem vinna hjá HIBO, léku þær Guðný Kristmundsdóttir, Elín Árnadóttir og Sísí Vilhjálmsdóttir. Eru þær allar skolli myndarlegar skrifstofudömur, sérlega snaggaralegar stelpur, sem punta vel upp á leikinn með yndisþokka og kæti.
Spjátrunginn Leif leikur Konráð Bjarnason. Honum hættir stundum við að vera of tilgerðarlegur, en hann syngur laglega.
Þá koma þarna við sögu Jóna vinnukona, almúgakona, og Stamberg nefndarmaður auk tveggja hjúkrunarmanna. Þau hlurverk hafa þau Þórunn Valdimarsdóttir Ástgeirssonar, Guðjón Jónsson og þeir Kristján Georgsson og Jon G. Scheving. Skiluðu þau hlutverkum sínum vel yfirleitt.
Lokasöngurinn var prýðilega léttur og puntar ekki svo lítið upp á og bezt af öllu, þegar hann hljóðar um það, að „Allt er í lagi, lagsi minn“.
Eftir leikinn söng svo Ástgeir Ólafsson ágætar gamanvísur af sinni alkunnu list.
Leiktjöldin gerði Engilbert Gíslason mjög smekklega. Hljómsveit Alfreðs Þórðarsonar lék undir á sýningunni.
Nokkuð bar á því, að leikendur kynnu ekki vel hlutverk sín sem skyldi, en það lagast er oftar verður leikið. Oft kom líka fyrir, að maður missti af góðum bröndurum vegna þess, að leikendur töluðu ekki nógu skýrt eða biðu ekki, meðan hláturskviðurnar kváðu við frá áhorfendum. Til þess þurfa leikendur ávallt að taka tillit.
Það er yfirleitt létt yfir leiknum og þurfa menn ekki að sjá eftir að eyða kvöldstund til þess að sjá þetta leikrit. Flestir munu finna eitthvað í því, sem kætir þá og gleður, eitthvað, sem vekur þeim hjartanlegan hlátur. Um leikrit þetta þarf ekki að fara fleiri orðum. Sigurður Scheving hefir nú ótvírætt sýnt, að hann hefir gott lag á því að stjórna leikriti og fá úr hverjum einum þá hæfileika, sem í honum býr.
L.V. á þakkir skilið fyrir að koma þessari skemmtilegu revýu upp. Það gefur mönnum gott tækifæri til þess að lengja líf sitt með góðum hlátri.


„Á útleið“


Árið 1944-45 var ákveðið af L.V. að taka til flutnings leikritið „Á útleið“ eftir Sutton Vane og fá þau Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu og Indriða Waage leikara í Reykjavík, en þau voru bæði landskunnir leikarar og höfðu leikið aðalhlutverkin í leikriti þessu í Reykjavík. Þetta var auðsótt mál við þau tvö. Var þá þegar farið að útvega fólk í önnur hlutverk og gekk það vel innan félagsins að öðru leyti en því, að Árni Árnason, sem ætlað hafði verið hlutverk séra W. Duke, gat ekki aðstaðið vegna handarmeins.
Persónur og leikendur í „Á útleið“, en það var sýnt í maí-mánuði 1944:


Að vanda var harla erfitt um æfingapláss. Var oftast æft á matstofu Einars Sigurðssonar v/ Godthaab eða í Akógeshúsinu, þar til loks var hægt að komast að Samkomuhúsinu með prófsýninguna. Þetta fræga leikrit í höndum þessa fólks, og þá alveg sérstaklega Soffíu og Indriða, var mikill leiklistarviðburður. Þó skal strax geta þess, að meðlimir L.V. í sínum vandasömu hlutverkum stóðu sig með ágætum, og féll enginn skuggi á þá frammistöðu frá snilli þeirra Soffíu og Indriða, enda gerðu þau og sitt til þess að leiðbeina og kosta kapps um að hefja aðra leikendur til sömu glæsimennsku, er þau sjálf sýndu á leiksviðinu. Þetta tókst líka með mestu ágætum. Leikritið er sérstætt. Fólkið er alltaf á ferðalagi, en enginn veit þó hvert hann er að fara eða hver tilgangur ferðarinnar er hjá hverjum einstökum. Þó áttar fólkið sig smám saman á því sem raunverulega er að gerast, að það er allt dáið og er á leiðinni yfir um í annað líf. Villingarnir tveir eru einhvernveginn utan gátta, alltaf útaf fyrir sig og virðast eiga lítið sameiginlegt með hinu fólkinu. Þau höfðu ætlað að fyrirfara sér með gasi, en varð bjargað á síðustu stundu og síðast hverfa þau tvö aftur til hins jarðneska lífs, en hin öll halda áfram ferð sinni. Sérstaka athygli vakti að vonum leikur Waage í hlutverki Priors, sem hafði verið mikill drykkjumaður, en verður þó fyrstur til þess að átta sig á orðnum umskiptum og ferðalaginu. Þá var leikur Soffíu með afbrigðum góður. Hún lék léttúðardrósina frú Banks eða e.t.v. öllu heldur gleðikonuna. Frú Soffía lék af hreinni snilld.
Leikendum okkar Eyjamanna tókst mörgum mjög vel í sínum hlutverkum.
Leikritið var sýnt við ágæta aðsókn og undirtektir leikhúsgesta. Það var sýnt þrisvar og var flest á síðustu sýningunni. Þau gátu ekki verið hér lengur, Soffía og Waage. Margir fóru á allar sýningarnar og skemmtu sér konunglega.
Leikritið „Á útleið“ hefir verið leikið hérlendis allmikið og hlotið ágæta dóma. Það útheimtir góða leikkrafta í öllum hlutverkunum, sem eru erfið viðfangs. Hér tókst leikurinn sem sagt ágætlega. Þar hefir ábyggilega mestu um ráðið að þau Soffía og Waage komu hingað og leiðbeindu Eyjafólkinu í túlkun hlutverkanna. Mér persónulega fannst mest koma til leiks Haraldar í Schrubby. Það er mjög vandasamt hlutverk, sem krefst mikils af leikaranum. En Haraldur náði fullum tökum á hlutverkinu, sérstaklega ljúflegri persónu, málrómurinn og hreyfingarnar allar svo yndisfullar, þrungnar af kurteisi og einhverri undarlegri dulúð, sem manni þó finnst í fullu samræmi við hvert atriði, sem á sviðinu gerist. Hlutverkið krefst mikils í hvívetna enda hafa og engir veifiskatar haft það með höndum úti um landið t.d. Haraldur Björnsson á Ísafirði 1931-32, Ágúst Kvaran 1926-27 í Reykjavík, Haraldur Björnsson í Reykjavík 1931-32, Lárus Pálsson 1941-42 o.fl. Hóf var þeim Soffíu og Waage haldið áður en þau fóru héðan. L.V. stóð að því. Þar voru ræður fluttar og þeim þökkuð innilega koma þeirra hingað til Eyja. Þar hélt og Soffía ræðu og talaði um hinar mjög svo frumstæðu aðstæður, sem L.V. ætti við að búa, og í Samkomuhúsinu, þessu glæsta húsi, væru aðstæðurnar með öllu óviðunanlegar. Þessu yrðu ráðamenn þess eða jafnvel bæjarins í samráði við húseigendur að ráða bót á. Hér væri um svo mikla menningarstarfsemi að ræða, að hlynna yrði að henni á allan hátt. Þetta væri að vísu átak, en Eyjamönnum hefði ábyggilega boðizt hann brattari í erfiðum viðfangsefnum og framkvæmdum og alltaf sigrað. Þetta gætu þeir enn gert, ef hafizt yrði handa á umbótum, en það yrði að gerast, ef ekki ætti að stefna leiklistinni til hnignunar og falls. Hér væru góðir leikkraftar, sem satt að segja væri sárgrætilegt, ef ekki nýttust listinni til þróunar.
Frúnni voru þökkuð góð ummæli og öll aðstaða hennar við að koma leikritinu upp, sem og listræn túlkun hennar á erfiðu hlutverki nú sem svo oft áður. Þau Indriði voru svo kvödd með virktum og þökkuð hingaðkoman með mörgum fögrum orðum og hlýjum handtökum.

framhald

Til baka