Blik 1961/Myndlistarskóli Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961




Myndlistarskóli Vestmannaeyja


Myndlistarskóli Vestmannaeyja er nú á 7. starfsári sínu. Svo merk er sú starfræksla og athyglisverð, að Bliki þykir ástæða til að geyma fyrstu drög að sögu þessarar menningarstofnunar. Þess vegna hefur ritið átt stutt samtal við Pál Steingrímsson, kennara, um stofnun þessa, en Páll stofnaði hana og hefur stjórnað henni frá upphafi. Myndlistarskólinn er eign hans.
Á árunum 1954—1956 starfaði kennari við barnaskólann hér í Eyjum, sem Bjarni Jónsson heitir, sérlega listfengur dráttlistarmaður.

Páll Steingrímsson og eitt af listaverkum hans.

ctr


Haustið 1954 vakti Páll Steingrímsson máls á því við Bjarna Jónsson, hvort þeir ættu ekki í sameiningu að stofna og starfrækja myndlistarskóla í bænum. Bjarni tók hugmynd þessari mjög vel. Hann hafði einmitt sjálfur látið sér koma til hugar að stofna og starfrækja myndlistarskóla hér.
Orð þessara kennara og bollaleggingar urðu brátt að athöfnum.
Í október haustið 1954 tók því Myndlistarskóli Vestmannaeyja til starfa. Nemendum var skipt í tvær deildir, svo kallaða kvölddeild og barnadeild. Í hinni fyrri voru nemendur, sem komnir voru yfir skólaskyldualdur. Nemendur á skólaskyldualdri voru í barnadeild.
Skólinn hóf starf með 9 nemendum í kvölddeild og 19 nem. í barnadeild. Báðir höfðu þeir kennsluna á hendi, Páll Steingrímsson og Bjarni Jónsson. Skólagjöld voru lág. Tekjur hrukku því skammt upp í kostnað, ef kennslugjald skyldi greitt að fullu. Báðir unnu kennarar þessir fyrir lítið eða ekkert við skólann fyrsta starfsárið, oft 4 tíma á dag.
Halldór Guðjónsson, þáverandi skólastjóri barnaskóla kaupstaðarins, var hlynntur hugsjón þessari og greiddi götu hennar eftir megni m.a. með því að lána skólanum endurgjaldslaust söngstofu barnaskólans til kennslu.
Fyrsta árið (1954—1955) starfaði skólinn í 16 vikur eða fram í janúarlok. Vorið 1955 efndi skólinn til fyrstu opinberu sýningarinnar á myndgerðarlist sinni í Akógeshúsinu. Þá sýningu sóttu margir Eyjabúar og vakti hún óskipta athygli þeirra.
Sama ár var sótt til ríkis og bæjar um fjárstyrk til reksturs skólanum.
Um sumarið eignaðist Myndlistarskólinn fyrstu kennslutækin, sem voru 15 teiknitrönur.
Skólaárið 1955—1956 nutu tilsagnar í skólanum 16 nem. í kvölddeild og 23 nem. í barnadeild. Þá hafði Sigurður Finnsson gerzt skólastjóri barnaskólans og greiddi hann fyrir Myndlistarskólanum með því að lána honum kjallaragang barnaskólans til afnota. Skólanum var slitið í janúarlok og hafði þá starfað í 12 vikur án alls styrks. Annað árið höfðu sömu kennararnir fórnað kennslustörfum fyrir hugsjón þessa. Vorið 1956 hélt skólinn sýningu á myndlistinni í Akógeshúsinu.
Haustið 1956 fluttist Bjarni Jónsson kennari til Hafnarfjarðar. Það haust réðist Hafsteinn Austmann Kristjánsson, listmálari, að Myndlistarskóla Vestmannaeyja. Það var því aðeins kleift að ráða til hans kennara á fullu kaupi, að nú fékk skólinn styrk frá bæ og ríki, — kr. 10.000,00 frá ríkinu og kr. 4.000,00 úr bæjarsjóði. Þessum opinbera styrk hefur hann haldið síðan.
Árið 1956 stóð Páll Steingrímsson í íbúðarhússbyggingu og hafði lokið við að koma húsi sínu undir þak og gera það fokhelt um haustið. Haustið það gat hann notað hús sitt þannig hálfbyggt til að kenna í nemendum Myndlistarskólans. Nemendur voru þá 23 í kvölddeild og 26 í barnadeild. Þetta ár eignaðist skólinn listaverkabækur til afnota við kennsluna. Einnig voru þá notaðar kvikmyndir og skuggamyndir. Verðlaun voru veitt að loknu starfi og hlaut þau Gunnar Sigurðsson frá Happastöðum við Hvítingaveg fyrir sérstakan áhuga við námið. Að þessu sinni var skólanum slitið fyrir jól.
Haustið 1957 tókst ekki að fá neinn kennara að skólanum með Páli Steingrímssyni. Kenndi hann þá einn í báðum deildum, 18 nem. í kvölddeild og 28 nem. í barnadeild. Það haust gengu nemendur undir forustu Páls út á Heimaey og máluðu fjöll og annað landslag, hús, báta o.fl. því líkt.
Haustið 1958 var Benedikt Gunnarsson, listmálari, ráðinn teiknikennari skólans. Voru þá 27 nemendur í kvölddeild og 20 nem. í barnadeild. Þetta haust fékk Myndlistarskólinn inni í húseigninni Óskasteini við Formannabraut. Hann hefur verið þar síðan til húsa fyrir sérstaka velvild og hjálpsemi Martins Tómassonar, eiganda hússins. Þetta haust heimsótti Björn Th. Björnsson, listfræðingur, Myndlistarskólann og tók upp útvarpsþátt um hann. Í barnadeild var gjörð fyrsta myndin af sögulegum viðburðum í Vestmannaeyjum, en gert er ráð fyrir, að Myndlistarskólinn láti gera alls 4 slíkar myndir. Skólaslit fyrir jól.
Vorið 1959 hélt skólinn sýningu á myndlist nemendanna í húsi K.F.U.M. og var gerður góður rómur að henni.
1959 kenndi Páll Steingrímsson einn við skólann og hafði 23 nem. í kvölddeild. Engin barnadeild var þá starfrækt við skólann. Kristni Pálssyni í Héðinshöfða voru þá veitt verðlaun fyrir sérstakan áhuga í náminu.
Skólinn var starfræktur fram að jólum, eins og undanfarin ár.
Á s.l. hausti var Veturliði Gunnarsson, listmálari, ráðinn kennari við Myndlistarskólann. Hófu þá námið 23 nem. í kvölddeild og 40 nem. í barnadeild. Starfið varð fyrir óhöppum, með því að kennarinn meiddist, og gat því ekki starfað eins lengi og ætlað var. Af þessum sökum starfaði barnadeildin ekki allan tímann, en Páll kenndi í kvölddeildinni til jóla.
Á s.l. hausti efndi Páll Steingrímsson, kennari, til myndlistarsýningar í Bogasal Þjóðminjasafnsins í Reykjavík. Sýndi hann þar 39 myndir gjörðar úr muldum bergtegundum á Heimaey. Ýmsir listamenn skrifuðu fremur lofsamlega um þessa einstæðu list Páls og mun sýningin hafa eflt trú Eyjabúa á getu hans og brautryðjandastarfi því, er hann vinnur með rekstri Myndlistarskóla Vestmannaeyja, sem hann á miklar þakkir skildar fyrir.

Goðasteini, 15. des. 1960.
Þ.Þ.V.